28.10.2009 | 11:05
Internetið eftir fimm ár
Eitt af því sem heillar mig alltaf mikið varðandi Sovétríkin sálugu og hið miðstýrða kommúnistaríki í Kína eru fimm ára áætlanirnar. Ég veit vel að þær snerust þegar stundir liðu fram upp í algjöra martröð og falsanir á framleiðslutölum og píningu á verksmiðjufólki til að ná markmiðum sem voru gjörsamlega ómöguleg. Ein af þessum fimm ára áætlunum var Stóra stökkið fram á við og það leiddi af sér hungursneyð og hörmungar.
En mér finnst þessi hugmynd að horfa langt fram í tímann og gera fimm ára áætlanir, að samhæfa krafta í stóru kerfi vera heillandi og eiga líka við í dag en það þarf öðruvísi áætlanir og öðruvísi sýn á framleiðslu og hagkerfi og samfélög. Við lifum á tímum sem eru einmitt andstæðan við hið miðstýrða á öllum sviðum og þegar við spáum í framtíðina og gerum plön þá verður við að skilja og skynja stóru línurnar og hver sú þróun sem við getum ekki breytt sjálf og hvað er óumflýjanlegt og hverju í framtíðinni er hægt að breyta.
Raunar held ég á tímum mikilla umbreytinga eins og við lifum á núna þá eigi hvorki einstaklingar, samfélög eða fyrirtæki að ímynda sér að þau geti breytt miklu, þau geta í mesta lagi hægt á þróuninni nú eða flýtt henni, þetta er frekar spurning um að þjálfa með sér innsæi til að horfa fram á við og haga sínum rekstri og stöðu miðað við framtíðarspá og skipuleggja rekstur og starfshætti þannig að það sé hægt að breyta á hárréttum tíma um aðferðir og vinnslu - ekki of snemma, ekki áður en þörfin eða markaðurinn er fyrir hendi - ekki of seint, ekki fjárfesta í tækni gærdagsins til að vinna í á morgun. Þessi lífsspeki mín mun vera kölluð technological determinism þegar sagnfræðingar og félagsfræðingar eru að rýna í baksýnisspegil.
Í nýlegu erindi flutti stjórnandi Google Eric Schmidt sína sýn á hvernig Internetið yrði eftir fimm ár. Sjá hérna Google's Eric Schmidt on What the Web Will Look Like in 5 Years
þetta vídeó er lítill úrdráttur úr erindi hans, unnið í notar tubechop.com
Það sem verður til almenningsnota eftir fimm ár er reynda nú þegar í notkun af ákveðnum hópum og með því að skoða hegðun þeirra hópa þá má spá fram í tímann. Eric Schmidt mælir með að við fylgjumst með táningum, þeir eru núna að búa sig undir vinnuaðferðir og samskiptaaðferðir sem eru eins og þau nota Netið í dag. Ég held reyndar að ennþá betri hópur til að fylgjast með séu þeir sem lifa og starfa í hringiðu tækninnar, "Go with the geeks", fylgjast með þeim sem búa til efni og verkfæri núna fyrir Netheima, ekki síst þeim sem lifa og hrærast í heimi opins hugbúnaðar og opinnar miðlunar á efni.
Það kemur reyndar ekkert á óvart í þessari framtíðarspá Google mannsins og þetta er ekki framtíðarspá fyrir Ísland í dag heldur veruleiki margra, veruleiki flestra ungmenna á Íslandi. Það eru hins vegar ekki nógu margir sem komnir eru á miðjan aldur sem átta sig á því og það er þess vegna fínt að hlusta á þennan úrdrátt úr erindi Google mannsins. Aðgengi að Interneti er hér almennt og notkun mikil og flestir hafa aðgang að háhraðasambandi.
Það sem stendur upp úr er það sem við sem fylgjumst með Netinu vitum, það að vægi stóru miðlanna er að hverfa og það er efni sem notendur framleiða sjálfir og endurblanda sín á milli sem er það svið sem vex mest. Og það er ekki framleiðsla á texta fyrst og fremst, það er vídeóefni sem er í hröðustum uppgangi, vídeóefni sem miðlað er og búið til af jafningjum. Svo er enskan á undanhaldi sem mál Internetsins og það verður ekki íslenska sem tekur þar við heldur mandarin kínverska. Raunar held ég að það muni myndast smán saman eins konar myndmáls táknmál Internetsins með mörg hundruð táknum. Það er þegar í bullandi gerjun, nú eru t.d. tákn fyrir hluti eins og RSS.
Ég held að þessir hnappar sem nú eru á mörgum vefsíðum "senda á facebook" séu fyrirboði um það sem koma skal þ.e. vefþjónustur sem eru samtengdar þannig að notandinn hann endurblandar efninu og sendir það áfram eftir að hafa breytt því (einfaldasta er að skrifa athugasemd með frétt og senda á facebook) og er með sinn eigin straum (mín síða á facebook er dæmi um eigin straum). Mörg vefverkfæri verða auk þess sjálfvirk og það er vísbending um framtíðina svona semantic web verkfæri t.d. þegar youtube stingur upp á vídeóum fyrir okkur að skoða miðað við hvaða leitarorð við höfum slegið inn fyrir vídeó í fortíðinni og hvað við höfum merkt sem eftirlætisefni. Það er líka vísbending um framtíðina hvernig Facebook er núna að velja hvað við sjáum af straumum og boðum þeirra sem eru á vinalista.
Ef ég vík aftur að fimm ára áætlunum þá held ég að það sé réttur tími núna til að reyna að rýna í kristalskúlu framtíðarinnar og sá í hvað muni á næstu fimm árum gerast í samskiptatækni heimsins, framleiðslukerfum og valdajafnvægi sem hefur áhrif á stöðu Íslendinga í Netheimum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2009 | 09:41
Eignarhald á sæstrengjum
DaniceFarice, Cantat-3 og Greenland Connect eru þær brautir sem núna tengja Ísland við umheiminn. Þetta eru þjóðbrautir og vegakerfi nútímans. Þetta er samskiptakerfi Íslands við umheiminnn en líka framleiðslukerfi. Það bendir allt til þess að slíkar háhraðanetbrautir verði sífellt mikilvægari í samtengdu alþjóðlegu vinnuumhverfi og við munum í framtíðinni eiga mikið undir því að hér sér hratt og aðgengilegt, öruggt og ódýrt netsamband. Bara hugmyndin um gagnaver á Íslandi byggir á því.
Í seinni heimsstyrjöldinni þá fóru skipalestir frá Íslandi yfir hafið með vistir, skipin fylgdust að og herskip gættu lestarinnar því alltaf var hætta á óvinaárás og skipalestir voru skotmark þeirra sem vildu hindra aðflutning vista. Ef einhvern tíma kemur aftur til ófriðar á Atlantshafi þá munu sæstrengirnir eða einhverjar samgönguæðar Internetsins verða skotmark þeirra sem vilja lama og eyðileggja samfélag. Eftir því sem samfélagið verður samtengdara og tæknivæddara þeim mun viðkvæmara er það fyrir skakkaföllum sem trufla samskiptin. Ég skrifaði blogg um það fyrir tveimur árum , sjá hérna Google Earth, óþokkar og þjóðaröryggi
Það er mikilvægt að skoða núna hversu varðir eða óvarðir sæstrengirnir eru en það er líka mikilvægt að skoða hver ræður yfir þeim og hvernig er háttað aðgangi og verðlagningu á sendingum eftir þessum strengjum. Hver á þessa strengi, hver notar þá og hvernig er þjónustan verðlögð?
Ein söguskýring á niðurlægingu og eymd Íslendinga fyrr á öldum er sú að fólkið sem hér bjó hafi misst forræðið yfir flutningum til og frá landinu. Skógar hafi hér ekki verið svo miklir að hafgeng skip mætti smíða og Íslendingar því orðið háðir erlendum mönnum um aðdrætti. Í Gamla-Sáttmála hversu ábyggilegur sem hann nú er mun hafa verið ákvæði um að sex hafskip komi til landsins á hverju ári.
Núna er gámaöld og skip sigla frá og til lands hlaðin gámum. Margar flugvélar fara til og frá landsins á hverjum degi.
Það getur verið að tækninni fleygi þannig fram að það verði meira en stafræn gögn sem flytjast með sæstrengjum í næstu framtíð. Einu sinni voru uppi hugmyndir um orkusæstreng til Bretlands eða/og Hollands.
Bandbreiddin tvöfölduð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2009 | 10:35
Stop Motion Animation er listform nútímans
Ég er núna mjög upptekin af einni gerð af kvikmyndalist og það er Stop Motion Animation. Ég held að það sé nýtt listform sem miðlar eins og Youtube munu og hafa gert vinsælt. Það er reyndar ekki nýtt fyrir listamenn en hins vegar núna er bæði einfalt að búa til, miðla og horfa á slíkar myndir með tilkomu verkfæra eins og youtube og ódýrra vefmyndavéla, forrita og tölva.
Svona leikur með hreyfingu og tíma er spennandi og vekur upp hugleiðingar um hvað er líf og hvað eru minningar og hvað er tími.
Það er frekar einfalt að gera slíkar myndir, það þarf ekkert nema ímyndunarafl og vefmyndavél tengda við tölvu. Svo þarf líka leikmuni og persónur og leikendur en það þarf ekki að vera dýrt, persónur og leikendur má skapa úr einum leirpakka sem kostar kannski innan við 500 krónur og svo er hægt að nota als konar nýstárlega leikmuni t.d. post-it miða eins og í þessu:
Hér er eitt stop motion í viðbót
svo má líka búa til list með því að klippa út úr gömlum notuðum pappakössum:
Hérna er tónlistarmyndband með Stop motion tækni
Annað tónlistarmyndband með stop motion tækni
Svo er líka hægt að búa til úr tölvugrafík
Hér er sagan af því hvernig vídeóið fyrir ofan var búið til
Making of 'The Seed' from Johnny Kelly on Vimeo.
Hér er um litina
svo er hérna örkennsla í öllum gerðum kvikmynda - auðvitað gerð í stop motion (tvívíð teiknimynd)
Hræódýr í framleiðslu en malar gull | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.10.2009 | 12:09
Ástarbréf og veð Seðlabankans
Íslenska fjármálaundrið virðist hafa að miklu leyti byggst á peningafroðu þar sem peningar voru búnir til úr engu með hátt skráðu gengi krónunnar og háum vöxtum innanlands. Þannig aðstæður soga til sín fé erlendis frá.
Í þessari grein Gjaldþrot Seðlabanka Íslands og Toronto Dominion er því haldið fram að Seðlabankinn hafi látið undan þrýstingi eins manns Beat Siegenthaler og gefið út á níu mánuðum ársins 2008 hátt í 200 milljarða króna í innstæðubréfum og það hafi orðið til þess að lausafé sogaðist út úr íslensku bönkunum og inní Seðlabankann, þetta hafi svo skapað lausafjárvandræði hjá íslensku bönkunum og peningunum verið komið aftur frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna með ástarbréfaviðskiptum.
Sjá einnig hérna um ástarbréfin Vísir - Ástarbréf Seðlabankans verstu mistökin fyrir hrun og blogg Gauta og einnig úttekt Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hvernig varð Seðlabankinn gjaldþrota...
Ég þekki ekkert til ástarbréfaviðskipta milli banka og hafði raunar aldrei heyrt þetta orð notað fyrr en Davíð Oddsson sagði frá í sjónvarpsviðtali þegar Glitnir féll og Seðlabankinn var ásakaður um að lána honum ekki að þeir í Glitni hefðu ekki getað sett nein veð, bara boðið ástarbréf sem ómögulegt væri fyrir Seðlabankann að taka sem veð.
En er rétt að Seðlabankinn hafi fyrstu mánuði ársins 2008 ausið fé í bankana án þess að fá neinar tryggingar - nema ástarbréf?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2009 | 08:20
Lettland og hið nýja lénsskipulag Evrópu
Í myndböndunum hér fyrir ofan er rætt við Michael Hudson. Í fyrra myndbandinu ræðir hann um hið gríðarlega alvarlega ástand í Lettlandi en í því seinna um ástandið á Íslandi. Hudson hallmælir sænskum afskiptum í Lettlandi og nefnir þetta nýtt lénsskipulag (neofeudalism).
Í skilgreiningu á neofeudalism segir: "The concept is one in which government policies are instituted with the effect (deliberate or otherwise) of systematically increasing the weath gap between the rich and the poor while increasing the power of the rich and decreasing the power of the poor ."
Sú áþján sem núna er lögð á almenning í Lettlandi er ógnvænleg og óréttlát og Norðurlöndum og öðrum Evrópuþjóðum til skammar. Vonandi bera Íslendingar gæfu til að vera sömu talsmenn og bandamenn Lettlands núna eins og þeir voru í janúar 1991 þegar leit út fyrir að Sovétstjórnvöld myndu bæla niður sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna með innrásarher.
Rifjum upp brot úr þeirri sögu, söguna af því hvers vegna Jón Baldvin þáverandi utanríkisráðherra Íslendinga varð nánast þjóðhetja í Litháen og fleir Eystrasaltsríkjum :
"Landsbergis, forseti Litháens, hafði hringt um miðja nótt og sagt Jóni Baldvini að ef hann meinaði nokkurn skapaðan hlut með því sem hann hefði verið að segja um rétt Eystrasaltsþjóðanna til sjálfstæðis yrði hann að mæta á staðinn. Sagði Landsbergis að það skipti máli að utanríkisráðherra NATO-ríkis sýndi samstöðu í verki. Mun Landsbergis hafa hringt í fleiri erlenda áhrifamenn til að biðja þá um að koma en Jón Baldvin var sá eini sem brást við. Afleiðingin er sú að í Vilníus, höfuðborg Litháens, er að finna götu sem ber nafn Íslands og torgið þar sem utanríkisráðuneytið eistneska stendur í Tallinn er líka nefnt eftir Íslandi."
Myndin er af því þegar Jón Baldvin og utanríkisráðherra Eistlands undirrituðu yfirlýsingu á blaðamannafundi í Tallinn. Skömmu seinna hófst skothríð.
Þá var yfirvofandi stríð í Lettlandi en núna er líka yfirvofandi stríð. Núna aðeins 17 árum seinna er aftur neyðarástand í Lettlandi og það er ráðist inn í landið og Lettar eru hnepptir í skuldafangelsi. Fyrir 17 árum voru óvinirnir rússnesk stjórnvöld. Núna eru óvinirnir sænskir bankamenn. Hudson segir okkur frá nöturlegri stöðu.
Jón Baldvin firrtist við þegar Hudson sagði frá hve grátt leikin Eystrasaltslöndin eru og segir í þessari grein Hugleiðing í tilefni af Hudson: Viðbrögð við heimskreppu að Eystrasaltslöndin geti sjálfum sér um kennt, þau hafi farið eftir auðvaldsmódeli USA en ekki eftir norrænu velferðarmódeli þegar þau byggðu upp sitt samfélag. En Jón Baldvin og þið hinir sem einu sinni voruð eldhugar og hugsjónamenn alþýðunnar og þeyttust um Ísland á rauðu ljósi og spurðum "Hver á Ísland?", hafið þið verið utan Norðurlandanna undarfarna áratugi? Hvar er þetta norræna velferðarsamfélag á Íslandi undanfarinna ára? Ég lít yfir söguna og sviðið og ég sé ekkert annað en helsjúkt spilaborgarsamfélag þar sem völdin voru fengin í hendur örfárra manna sem stundum voru svo ófyrirleitnir að það líkist því helst að þeir hafi verið eins konar sækópatar, menn sem vita ekki og skynja ekki hvað samhygð með öðru fólki er.
Það er komin tími til fyrir Norðurlönd að viðurkenna ábyrgð sína gagnvart ástandinu núna í Eystrasaltslöndum, Norðurlöndin hafa ausið inn lánsfé í þessi lönd og núna þegar allt leggst á hliðina í þessum löndum þá geta fyrirtæki þar ekki staðið í skilum. Mikið eru um að norræn framleiðslufyrirtæki hafi flutt sig þangað, sennilega er mikið af því sem hér er selt undir vörumerki 66 Norður framleitt í Lettlandi. Hér er grein um ferð Samtaka Iðnaðarins árið 2004 til Lettlands lýsir öðruvísi aðstæðum er nú eru þar í landi.
Eftir fall Sovétríkjanna þá tóku Norðurlöndin Eystrasaltsríkin í nokkurs konar fóstur og usu yfir þau lánsfé. Norrænir stjórnmálamenn lögðu kapp á að byggja upp bandalag við Eystrasaltsríkin, það eru verulegir hernaðarlegir og stjórnmálalegir hagsmunir auk þess sem ríkin eru svipuð. Á ferðum mínum í Eystrasaltslöndum þá hef ég fundið að það var norrænt velferðarsamfélag sem var fyrirmynd Eystrasaltslandanna og á tímum Ráðstjórnarríkjanna þá var Finnland fyrirheitna landið hjá fólki í Eistlandi því finnska er líkt mál og eistneska og fólk þar gat horft á finnska sjónvarpið. Það var mikil aðdáun og velvilji á norrænni menningu og norrænu samfélagi í þessum löndum
Það er ekki að sjá að það sé mikið skjól fyrir Lettland í Evrópubandalaginu núna. Það næðir um almenning í Lettlandi og það næðir raunar um almenning í öllum löndum Evrópu og í USA. En á meðan þá sjáum við stjórnmálamenn í örvæntingu vera að bjarga kerfi sem löngu er hrunið og þeir eru ekki að bjarga almenningi. Þeir eru að bjarga skuldakröfum. Þeir eru að ganga erinda lánardrottna í kerfi sem er hrunið og eina skynsamlega og réttláta leiðin er að semja upp á nýtt um allar kröfur.
Lettland og Ísland eru að mörgu leyti í sömu stöðu núna.
Á Íslandi er svo óburðug ríkisstjórn núna að hún megnar ekki að tala máli almennings á Íslands á alþjóðavettvangi.
"Við þurfum að sættast við alþjóðasamfélagið" segja ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu. En sjá þeir ekki að sú sátt sem þeir hafa í huga er sátt við lánardrottna örfárra íslenskra bankaeigenda, sátt við skuldheimtumenn sem búa núna til kröfur á íslenskan almenning með sömu göldrum og þeir bjuggu til loftbólupeninga í trylltu og spilltu fjármálakerfi.
Við vöknuðum einn daginn upp og var sagt að við værum stórskuldug, við skulduðum ævintýralega háar upphæðir í útlöndum.
Ég skil vel að ég sé ábyrg fyrir þeim lánum sem ég tek til minna eigin framkvæmda og ég skil líka vel að íslensk þjóð sé ábyrg fyrir þeim lánum sem eru tekin til uppbyggingar á Íslandi. Þess vegna verður að huga vel að þeim lánum og alls ekki taka lán til atvinnuframkvæmda nema hagkvæmniútreikningar sýni að rekstur sé svo arðbær að auðvelt verði að greiða upp lánin. Þess vegna ætti ekki að taka lán til samneyslu nema líklegt sé á að skatttekjur framtíðarinnar dugi til að greiða þau lán. Ég viðurkenni líka að við sem þjóð séum ábyrg fyrir fé sem hingað kom í gegnum útrásarvíkinga og sett var í uppbyggingu á Íslandi, jafnvel þó það hafi verið afar fáránleg uppbygging í verslunarkringlum og mörg þúsund tómum íbúðum. En ég viðurkenni allls, alls ekki að almenningur á Íslandi sé ábyrgur fyrir fé sem tekið var að láni í Bretlandi og notað í einhver fjárglæfraævintýri þar í landi m.a. til að kaupa upp breskar verslunarkeðjur og fyrirtæki. Þaðan af síður viðurkenni ég ábyrgð mína á glæpsamlegri og siðspilltri hegðun fjármagnshöndlara sem fluttu fé frá Bretlandi í skattaskjól í aflandseyjum og skálkaskjól hér og þar um heiminn.
Það eru landráð hjá íslenskum ráðamönnum að skrifa upp á lán sem þröngvað er upp á íslenska þjóð, lán sem vafi leikur á að Íslendingum beri að greiða og lán sem engin möguleiki virðist vera á að borga til baka.
Ísland á dagskrá eftir viku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2009 | 17:43
Lýðheilsustöð, lýðræðið og jákvæðu fréttirnar
Það eru fáar góðar fréttir í dag ári eftir hrunræðu Geirs. Ég er búin undir að það haldi allt áfram að hrynja í langan tíma, þannig er um stór og flókin kerfi, bylgjuhreyfingin er lengi að ganga yfir. En það er gott að heyra af því að gengi íslensku krónunnar skuli hafa styrkst um 0,45% í dag. Þetta er samt feikfrétt vegna þess að það eru ennþá gríðarmiklar gjaldeyrishömlur og ekkert fyrirsjáanlegt að um þær geti losnað í bráð. Við erum nú í skjóli krónunnar en jafnframt í fjötrum hennar vegna verðtryggingar- og gengistryggingarbindinga í lánum. Svona feikfréttir eru uppfyllingarefni fjölmiðla núna milli hryllingfréttanna. Ég ætlaði að toppa þessa frétt Moggans með annarri jákvæðri frétt með að fletta upp genginu á deCode og upplýsa að það hefði hækkað um mörg prósent milli daga en þegja um að það hefði hrapað niður í næstum ekki neitt. En ég gat það ekki því einmitt í dag hefur gengi deCode lækkað um 3.71 % og er orðið 0,36. Þannig get ég ekki gert eins og Mogginn, flutt endalausar góðar fréttir af þegar deCode hækkar um eihver sent til eða frá. En kannski hækkar DeCode á morgun um það sama og það lækkaði um í dag og þá get ég bloggað um að þetta sé allt að koma hjá því fyrirtæki.
Það eru ekki margar jákvæðar fréttir á Íslandi í dag, núna þegar hættuleg svínainflúensa æðir um landið og ríkisstjórnin er að þvinga Alþingi til að skrifa undir nauðasamninga vegna Icesave og atvinnufyrirtæki og einstaklingar eru að kikna undan skuldaböggum. Lýðheilsustöð gengst einmitt þessa stundina fyrir ráðstefnunni "Getur umfjöllun fjölmiðla skaðað velferð fólks?" og þykir mér efni ráðstefnunnar ansi forvitnilegt en á vef Lýðheilsustofnunar segir:
Túlkun fjölmiðla á viðfangsefninu hverju sinni hefur áhrif á upplifun fólks á því efni sem fjallað er um. Í ófromlegum könnunum sem gerðar hafa verið á hlutfalli milli jákvæðra og neikvæðra frétta kemur í ljós að jákvætt framsettar fréttir eru í miklum minnihluta. Í allri umfjöllun er hægt að líta á málefnin frá ólíku sjónarhorni og setja umfjöllun fram með mismunandi hætti.
Afhverju er það t.d. meira fréttnæmt að ákveðið hlutfall Íslendinga vilji flytja af landi brott en ekki fréttnæmt allur sá fjöldi sem vill vera um kyrrt eða velur að flytja til Íslands á sama tíma?
Á málþinginu Fjölmiðlar og lýðheilsa verður m.a. leitað svara við eftirfarandi spurningum:
Afhverju nær neikvæð umfjöllun oftar upp á yfirborðið en sú jákvæða? Hvaða áhrif hefur neikvæð umfjöllun á líðan almennings? Hvert er hlutverk fjölmiðla á umbrotatímum?
Ég velti fyrir mér hvernig fréttaflutningur af svínaflensunni væri ef það væri lögð áhersla á að sá hið jákvæða í stöðunni og hilma yfir hversu alvarlegt ástandið væri. Hvernig væru jákvæðu og uppbyggilegu fréttirnar ef hræðilega alvarleg drepsótt gengi yfir landið? Myndu fyrirsagnirnar ef til vill verða þessar:
"Enginn dó í dag af flensunni, heilbrigðisyfirvöld ráða við ástandið og stýra þessu alveg"
"Getum sparað stórar upphæðir í bóluefni, þurfum ekki að kaupa bóluefni því flensan er gengin yfir"
Fyrir Hrunið var furðulegt ástand í fjölmiðlum. Forsætisráðherra laug að okkur á hverjum degi. Við sáum kreppuna læsast um okkur en forsætisráðherra kallaði þetta mótvind. En vill lýðheilsustöð virkilega að stjórnmálamenn og fjölmiðlar taki aftur höndum saman og ljúgi og ljúgi. Segi okkur að ástandið sé gott og allt að batna og undir stjórn úrræðagóðra manna?
Hér er byrjun á grein sem birtist í Financial Times um kreppufréttamennsku á Íslandi
Iceland urges media to spin news and lift nation's gloom
By Andrew Jack in London
Published: October 16 2009 03:00 | Last updated: October 16 2009 03:00
Iceland's media have been told to put a more positive spin on the news because of fears they could intensify the gloom that has descended on the nation since its banks collapsed last year and sent a thriving economy into a tailspin.
Amid fears that collective funk could lead to long-term health problems for the small and tight-knit population, the state Public Health Institute is trying to "re-educate" news organisations to be more "constructive" in their coverage.
"The media are too negative," says Gudjon Magnusson, professor of public health at Reykjavik University, who has worked with radio broadcasters to injectpositive stories into breakfast-time news programmes.
The officials say they recognise the importance of media freedom, and understand why journalists who did not foresee the crisis are now being critical, but they are anxious to implement lessons learnt by neighbouring countries - all of which have a reputation for a morose outlook - in previous economic shocks.
Fyrsta bloggið mitt fyrir átta árum 1. apríl 2001 var einmitt um fréttir. Best ég lími það inn hérna, það eru góðir partar í því sem eiga við í dag:
fréttum er þetta helst....
Stundum horfi ég á fréttir í sjónvarpinu, oftast þannig að ég sé slitrur úr fréttatíma því ég hef ekki þolinmæði til að sitja undir heilum fréttatíma, finnst svo pirrandi að geta ekki hraðspólað yfir það sem mér finnst ekki áhugavert og þessi samsetning á hvað er fréttnæmt á hverjum degi sem sett er í einn fréttapakka höfðar einhvern veginn ekki til mín.
Svo er ég eiginlega ekki sannfærð lengur um að aðaltilgangur frétta sé miðlun upplýsinga.. held það verði að skoða á hvers vegum fréttamiðill er og spá í hvað vakir fyrir þeim aðilum. Ég held að það hljóti alltaf að vera að hafa áhrif... þó ekki sé nema með trú á það að viðtakendur frétta séu einhverju bættari í lífi sínu og hegði sér eða hugsi öðruvísi vegna þess að þeir heyrðu fréttirnar.
Boðun fagnaðarerindis, hámörkun ágóða eða viðhald þjóðríkis
Fréttamiðlar sem reknir eru af trúfélögum eða einhvers konar hreyfingum hafa væntanlega þann tilgang að snúa sem flestum á sitt band, sýna fram á ágæti þeirra hugmynda og hornsteina sem hreyfingin hvílir á og sýna hvers konar glapstigu þeir feta sem ekki eru rétttrúaðir. Ekki síst miða slíkir miðlar að því að styrkja samkennd hópsins og sýna hversu miklu betra er að vera innan hans en utan og hegða sér eins og til er ætlast. Allt þetta miðar að því að viðhalda og efla það samfélag eða hreyfingu sem stendur að fréttamiðlinum.
Sumir fréttamiðlar eru reknir af hagsmunaaðilum í viðskiptalífi og er endanlegur tilgangur þá væntanlega að hámarka einhvers konar ágóða og selja vörur. Þó því sé haldið fram að þær fréttastofur séu frjálsar og óháðar þá finnst mér ólíklegt að hnjóðsyrði og níð um eigendur og þær vörur sem þeir selja séu vel liðnar. Ef fréttirnar eru líka eins konar agn til að ginna áhorfendur til að sitja undir auglýsingainnskotum sem skapa tekjurnar þá er líklegt að fréttaflutningi sé hagað þannig að mörk auglýsinga og upplýsinga máist út og allt gangi út á sem mest áhorf og kostun.
En hvað með ríkisfjölmiðla? Er það ekki rödd þjóðarinnar sem hljómar þar - sjálf þjóðarsálin sem þar er á sveimi og endurvarpar því sem hollt er fyrir okkur að vita um atburði líðandi stundar. Tja... ég er ekki alveg viss... Stundum finnst mér eins og fréttaskammtarnir sem dælt er í æðar okkar á hverjum degi séu helst fallnir til að styrkja einhverjar goðsagnir um heiminn og þá hættur og óvini sem þar sitja á fletum fyrir. Ég held ég hefði alls ekki tekið eftir þessu ef það væri ekki þetta vandamál með óvininn og hætturnar... þeir hverfa og þær hverfa... Heimsmyndin er svo kvikul í dag að það þarf oft að hugsa upp ný tortímandi öfl. En það er fyrir tilstuðlan illmenna sem þessi öfl eiga að leysast úr læðingi og það eru hinir árvökulu fjölmiðlar sem kenna okkur að bera kennsl á óvininn.
Hvað tortímir? Hver er óvinurinn?
Mér finnst eins og undirliggjandi hræðsla við þessi öfl hafi breyst í fjölmiðlum síðustu áratugi - áður var alið á hræðslu við kjarnorkusprengjur og atómstríð stórvelda en nú er eins og hræðsluáróður sé einstaklingsmiðaðri og smærri - nú er það hræðsla við eiturbyrlun, sóttkveikjur og efni sem hættuleg eru líkama eða sál. Það er eins og það sé ekki eins yfirvofandi og hættulegt að heimurinn með þeim lífsformum sem við þekkjum springi í einu vettfangi í tætlur í kjarnorkusprengingum - það er eins og það sé miklu líklegra og hættulegra að lífsformin leysist upp og breytingar geti gerst hægt og grafið um sig á ósýnilegan hátt. Og er það ekki þessi hræðsla við óvininn sem býr til landamæri í hugum okkar og segir okkur hvar heimalönd okkar enda og eitrandi, mengandi og hættulegur utangarðsheimur tekur við.
Landamæri hugans og landamæri heimsins
Stundum sé ég í fjölmiðlum að þessi landamæri hugans blandast saman við raunveruleg landamæri - hér fer ég að hugsa um ljósmyndir sem ég sá nýlega á forsíðum norskra dagblaða þar sem ábúðarmiklir tollverðir leituðu að kjöti frá landsvæðum á bannlista í farangri eldri kvenna sem voru að koma til landsins úr húsmæðraorlofi. Líka um þessar mottur sem ég hef heyrt að búið sé að setja upp í flughöfninni í Keflavík og mér skilst að þeir sem koma með vélum frá kjötinnflutningsbannsvæðum verði að ganga yfir þessar mottur.
Persaflóastríðið og paprikumafían
Núna í vikunni hlustaði ég á og las margar fréttir um hvernig flett hefur verið ofan af íslensku paprikumafíunni. Eftir því sem mér skilst þá hafa einhver illmenni bundist samtökum til að hindra að við - venjulegt fólk á Íslandi gætum fengið grænmeti á góðu verði og orðið hraust og heilbrigð. Þetta er náttúrulega ekki dæmigerð frétt um að verið sé að eitra fyrir okkur eins og allar sláturdýrasjúkdómafréttirnar en svona frekar um að það sé verið að hindra að við náum í móteitur eða einhvern valkost við allt þetta vafasama kjötát. Nú er ég alls ekki að efast um að til sé íslensk papríkumafía - nei mér dettur ekki í hug að efast um það - ekki frekar en um að Persaflóastríðið hafi raunverulega geysað - en ég er bara að spá í hvort þetta mál hefði komið til eða fengið jafnmikla umfjöllun á einhverjum öðrum tímum.
Nútímavíkingur smíðar óvini og girðir landið
Fjölmargir netmiðlar fjalla nú um málið og vil ég hér taka sem dæmi þann sem mest glamrar nú. Þannig er að allir franskir byltingarsinnar fyrr og síðar hafa endurholdgast í einum íslenskum nútímavíkingi, Agli að nafni sem nú kveður við raust og bræðir silfur sem skvettist yfir okkur af sjónvarpsskjám og tölvuskjám. Svo kveður Egill í síðasta pistli sínum :
"...Mennirnir sem vildu láta þjóðina éta ónýtar kartöflur komu úr sama hópi og nú hefur orðið uppvís að stórfelldum brotum gegn samkeppnislögum og samsæri gegn heilsufari Íslendinga. Þeir eru, svo að segja, enn að reyna að taka þjóðina í afturendann....Forstjórar grænmetisfyrirtækjanna munu hafa hist í Öskjuhlíðinni. Það er á flestra vitorði hvers konar mannleg samskipti fara þar fram að staðaldri. "
Úr silfri sínu smíðar Egill nú óvin, býr til samsæriskenningu og persónugerir óvin sem þröngvar okkur til hættulegs, eyðnismitandi holdlegs samræðis - óvin sem er utangarðs og stundar hættuleg kynmök við ókunnuga á leynifundum utan alfaraleiðar. Það er ekkert í þrumandi orðræðu þessa nútímavíkings sem færir okkur ný sannindi eða nýja vitneskju. Hann gerir ekki annað en ala á óttanum sem við höfðum fyrir, óttanum við eitruð matvæli og drepsóttir sem tæra upp líkama okkar. En hann gerir meira, hann dregur upp mynd af óvininum - íslenska grænmetisbóndanum og grænmetissalanum og hann snýr einnig úr silfri sínu víravirki sem er eins og gaddavírsgirðing til að halda áfram utangarðs öllum þeim sem þar eru fyrir - í þessu tilfelli öllum samkynhneigðum. Heimsmyndin er kvik, óvinirnir breytast en silfur Egils er kvikasilfur með þeim eitrunaáhrifum sem því fylgja.
Marhnútar og málfiskar
Verðmyndun er alls ekki frjáls á landbúnaðarvörum á Íslandi og verðsamráð er afar algeng þar sem fáir aðilar selja á markaði. Svo er ég líka að velta fyrir mér hvers vegna svona lítil umræða er um fiskverðið - fiskverð til neytenda á Íslandi hefur undanfarin fjögur ár hækkað miklu meira en verð á grænmeti. Fiskur sem er holl og góð matvara sem við getum bara mokað upp úr eigin námum - úr fiskimiðunum sem eru sameign okkar allra. Hér áður fyrr þegar vistarbandið raknaði settust tómthúsmenn að hvarvetna við strandlengju Íslands þar sem róa mátti á sjó. Einu sinni var Seltjarnarnesið eins og önnur nes á Íslandi lítið og lágt og þar lifðu fáir og hugsuðu eingöngu um að draga fisk úr sjó en nú býr þar velmegandi fólk sem dregur mat í innkaupakörfur í stórmörkuðum. Einu sinni var kveðið um Setirninga: " Draga þeir marhnút í drenginn sinn; Duus kaupir af þeim málfiskinn". Fiskur er munaðarvara.
Gengi krónunnar styrktist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2009 | 08:23
Icesave núllað út til að selja okkur þrælafjötra
Allir ruglast í prósentureikningi og það er auðvelt að blekkja fólk með tölum. En það er ömurlegt að fjölmiðlar landsins leggist á sveif með stjórnvöldum sem eru að reyna að kýla í gegn eitthvað sem á ekkert skylt við samning, eitthvað sem er ekki annað en þvingun voldugra ríkja gagnvart máttvana smáríki þar sem efnahagslíf hefur lagst á hliðina. Í fyrirsögninni á þessari frétt er sagt "verði endurheimt á eignum Landsbankans í Bretlandi nálægt 90% ... þá er skuldbinding íslensku þjóðarinnar ekki nema 253 milljarðar.
Þetta er sama ruglfréttamennskan og var á þeim tíma þegar hetjudáðir bankaútrásarmannanna voru dásamaðar í fjölmiðlum sem þeir áttu meira og minna sjálfir. Það er látið líta út fyrir að Icesave sé ekki áhætta fyrir íslenska þjóð, við munum auðveldlega vera búin að greiða okkar skuldbindingar eftir einhvern tíma.
Þeir sem reyna núna að telja okkur trú um að þetta sé ekki áhætta eru sama marki brenndir og þeir sem töldu almenningi á sínum tíma trú um að það væri engin áhætta að setja peninga sína áhættu í bankakerfinu eins og í Sjóður 9. Og það var mörgum sinni minni áhætta á að setja peninga á reikninga til að kaupa á skammtímaskuldabréf fyrirtækja í rekstri eins og Sjóður 9 gerði heldur en að vera svo bjartsýn núna að gera ráð fyrir að 90 % af verðmæti eigna Landsbankans í Bretlandi innheimtist. Það er ákaflega einkennilegt að á sama tíma og svona gríðarleg bjartsýni ríkir um þessar eignir þá seljist skuldabréf Landsbankans á 5 % af nafnvirði meðal erlendra spákaupmanna, það er spá sem endurspeglar væntingar markaðarins um þessar eigur.
Það væri vel kljúfanlegt fyrir Íslendinga að ráða við 253 milljarða skuldbindingu og þó það væru blóðpeningar að borga slíkar skuldir vegna bankahrunsins þá myndi það sennilega ekki eitt og sér setja Ísland á hvolf. En hér er ekki verið að tala um neina 253 milljarða. Það er ef ég les fréttina rétt aðeins lítill hluti af þeirri skuldbindingu sem íslenska ríkisstjórnin hefur gengist undir með því að skrifa undir Icesave og miðaður við að allt fari á besta hugsanlega veg.
Ísland er lagt að veði fyrir skuldir banka sem hvorki íslensk né bresk stjórnvöld höfðu bolmagn til að fylgjast með. Íslenskt eftirlit í stjórnmálum og regluverki brást gjörsamlega. Við getum öll verið sammála um það. En það sem er að gerast núna er að því er sópað undir teppið að breskt eftirlit og breskt og evrópst regluverk brást líka algjörlega að það eru gríðarlegir brestir þar sem reynt er að mála yfir með þessum gjörningi. En því miður þá er líklegt að sá stífluveggur sem svona er farið með muni bresta fyrr eða síðar.
Staða Íslands er slæm og við erum vissulega öll með blóðbragð í munninum eins og Guðfríður Lilja orðaði það í Kastljósi RúV í gær. En það sem er átakanlegast er að meðan Ísland er þvingað að einhverju sem kallað er samningaborð en er ekki annað en fallöxi þá er orkunni á Íslandi varið í að blekkja fólk til að halda að þetta sé einhver díll og næstum engin áhætta. Fólk sem núna er komið til valda, fólkið sem feyktist til valda eftir búsáhaldabyltingu og sem ég hélt að stæði fyrir annars konar hugsun og annars konar vinnubrögð í stjórnmálum kemur núna og segir hluti eins og "við verðum að borga skuldir okkar" og "við verðum að sættast við alþjóðasamfélagið".
Sér þetta sama fólk ekki að það er orðið ginningarfífl í að viðhalda kerfi sem er löngu hrunið og er orðið að leiksoppum í kerfi kasínókapítalismans. Af hverju ættum við að sættast við alþjóðasamfélag sem virðist ekki vera annað er þröngur klúbbur í bakherbergjum stjórnmálamanna og stjórnenda alþjóðastofnana eins og AGS, fólks sem virðist fyrst og fremst vera að gæta hagsmuna fjármagnseigenda?
Er einhver skynsemi í því að láta eins og skuldbindingar séu næstum engar skuldbindingar og ákveða fyrirfram að líklegast sé að þetta fari allt á besta veg, það muni 90 % af kröfum innheimtast og "þetta reddast allt".
Af hverju berjumst við ekki til þrautar strax og áttum okkur á því að þeir sem við eigum að berjast við og kalla eftir stuðningi frá eru einmitt alþjóðasamfélagið og þá sérstaklega grannþjóðir okkar. Sérstaklega er það mikilvægt ef staðan er virkilega eins slæm og menn eins og Gunnar Tómasson segja, sjá þessa grein: Hagfræðingur: Greiðsluþrot verður vart umflúið
253 milljarða skuldbinding | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.10.2009 | 12:56
Stúlka frá Litháen, menn frá Litháen, súludans og kjöltudans
Í fyrrakvöld var umsátur um heimili dómsmálaráðherra vegna brottvísunar flóttamanna. Í gær var lýst eftir konu sem fannst í flugvél og týndist aftur. Þessi atburðir tengjast kannski ekki neitt. Það getur vel verið að íslenska lögreglan sé núna eftir Hrunið umhyggjusamari en áður vegna vegalauss fólks sem talið er að tengist mansali. Vona ég innilega að svo sé.
Við erum mörg sem höfum árum og áratugum saman reynt að opna augu fólks fyrir ömurlegu hlutskipti fólks í kynlífsþjónustu. Við höfum reynt að fletta ofan af goðsögninni um hina hamingjusömu hóru og benda á óteljandi frásagnir kvenna og karla sem oft voru djúpt sokknir fíkniefnaneytendur eða örvæntingarfullt fólk sem taldi sig ekki hafa val eða fólk sem hafði flúið ömurlegar aðstæður heima fyrir og gat ekki framfleytt sér í nýjum heimkynnum öðruvísi.
Fólk hefur lengi verið flutt til landsins með skipulögðum hætti til að vinna hérna í kynlífsþjónustu og meira segja komu aðilar sem höfðu atvinnu sína af svona útgerð fram í fjölmiðlum og vörðu iðjuna undir nafni listar en margar erlendar konur sem fluttar voru inn til þjónustu á súludansstöðum og við hinn svokallaða "kjöltudans" fengu hér tímabundin atvinnuleyfi sem listamenn, listrænir dansarar. Hér er myndræma sem ég gerði fyrir margt löngu um kjöltudansinn þar sem ég geri grín að einum talsmanni hans:
Það má hér rifja upp hæstaréttardómi frá 2007 (sjá dóminn hérna) en þá höfðaði aðili sem rekur staðinn Goldfinger mál á hendur blaðamanni og heimildarmanni blaðamanns, hér er smákafli tekinn orðrétt upp úr dómnum:
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 5. og 6. september 2007 á hendur stefndu og Lovísu Sigmundsdóttur og krafðist þess í 1. kröfulið að eftirfarandi ummæli, sem Lovísa hafi viðhaft um áfrýjanda á nánar tilgreindum blaðsíðum í áðurnefndu tölublaði Vikunnar, yrðu dæmd dauð og ómerk: A. Ég endaði á að vinna fyrir Geira en það var mjög mikið um vændi inni á stöðunum hans og gríðarleg pressa á þeim stelpum sem fyrir hann störfuðu að stunda slíkt. B. Geiri hefur alltaf gert mikið út á vændi og þá inni á stöðunum. Eftir að einkadansinn var bannaður hefur vændið einfaldlega farið fram bak við tjöld sem sögð eru notuð til að hægt sé að spjalla við kúnnana í einrúmi. C. Það er allur gangur á því hvort kúnnarnir borga Geira sjálfum fyrir þjónustuna eða stelpunum beint ... . D. Ég er komin yfir hræðsluna við þessa menn þótt mér hafi vissulega verið hótað lífláti og á tímabili fór ég ekki út úr húsi vegna hræðslu. E. Starfsstúlkur hans sem koma hingað tímabundið í þrjá mánuði í senn eru eins og í fangelsi. F. Þess á milli eru þær í raun kyrrsettar í húsinu fyrir utan vissan útivistartíma. G. Ástæðan fyrir því er sú að stelpur urðu uppvísar að því að ná sér í kúnna utan klúbbsins án þess að Geiri fengi hlut af þóknuninni en hann vill geta stjórnað vændinu sjálfur
Það er athyglisvert að bera það mál saman við það mál sem lögreglan er núna að rannsaka. Mér virðist núna vera sagt frá af umkomulausri stúlku og virðist af lýsingu á hegðun annað hvort benda til þess að hún sé fíkill í bullandi neyslu eða hún eigi við geðræn vandamál að stríða. Grunur leikur á að hún sé fórnarlamb mansals og að hún sé í tengslum við menn frá Litháen sem búa hérlendis og hefur komið fram hjá lögreglu að þeir séu þekktir af ofbeldisverkum.
Efalaust hefur lögreglan upplýsingar sem hún lætur ekki uppi og telur að þessi stúlka sé í bráðri hættu annars myndi lögreglan tæplega birta mynd af stúlkunni og útmála hana sem vændiskonu og lýsa eftir og handtaka marga menn frá Litháen og halda þeim ennþá í gæsluvarðhaldi. En við skulum ekki missa sjónar á því að glæpur er ekki sama og grunur um að fólk hafi haft í hyggju að fremja glæp en ekki tekist það.
Lögreglan hefur eflaust ekki ætlað sér að ala á útlendingahatri með því að velta upp þessu alvarlega máli en því miður þá verða það skilaboðin sem sitja eftir. Í þessu tilviki er kastljósinu beint að hópi manna og einni konu frá ákveðnu landi og lögreglan og fjölmiðlar sýna okkur mynd sem er átakanleg - af konu sem á um sárt að binda og grunur leikur á að hafi verið tæld til landsins til að stunda vændi og af mönnum sem lögreglan segir mikla ofbeldismenn og sem grunaðir eru um að ætla að gera út konuna.
Mansal er viðurstyggilegt og þeir sem taka þátt í því eru óþokkar. Og það er hluti af mannréttindabaráttu að fólk sé ekki haldið í slíkri neyð og lögregla og dómsvald spyrni af alefli á móti slíku. En það er líka mannréttindamál að ekki sé vegið að ákveðnum þjóðfélagshópum og fólk af ákveðnum uppruna sé ekki ofsótt. Oft eru slíkar ofsóknir einmitt réttlættar með meintum fólskuverkum þeirra sem ofsóttir eru. Í þessu tilviki hefur ekki verið réttað í málinu og ekki hefur komið fram að lögreglan hafi önnur vitni en stúlkuna sem ærðist í flugvélinni. Það er líka mannréttindamál að íslensk lögregla taki eins á meintum afbrotum þeirra sem ættaðir eru frá Vestfjörðum og þeirra sem ættaðir eru frá Litháen.
Frétt eins og þessi kemur af stað mikilli flóðbylgju fordóma sem skellur á útlendingum, ekki eingöngu þeim sem lögreglan leitaði að heldur öllum útlendingum og þá sérstaklega frá Austur-Evrópu og frá Litháen. Það verða lögregla og fjölmiðlar að átta sig á og það er agalegt ef þeir aðilar leggjast á árina og magna upp útlendingahatur.
Einmitt núna þegar ég skrifa þetta stendur yfir mótmælafundur á Lækjartorgi þar sem fólk mótmælir brottvísun flóttamanna í fyrradag.
Ekki vitað hvar konan er | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.10.2009 | 09:19
Moggabloggið og mbl.is veslast upp
Allir hlutir hafa sinn tíma og ekkert varir að eilífu. Frá því að nýir eigendur komu að Morgunblaðinu og ekki síst frá því að nýir ritstjórar settust þar í stól þá er áberandi að Morgunblaðið á Netinu er ekki eins öflugur vettvangur og áður og fréttamennska þar er nánast engin. Margir bloggarar hafa líka yfirgefið þennan vettvang og sækja í sig veðrið á öðrum stöðum en það skiptir þó meira máli að stjórnendur Morgunblaðsins núna virðast ekki leggja áherslu á þennan vettvang. Fréttirnar sem birtast núna í mbl.is eru afar lítið í takt við það sem mér finnst fréttnæmast á Íslandi í dag. Sem dæmi um mest krassandi fréttina í dag er þessi frétt sem ég vel að blogga um, frétt um að lögmenn hafi meira að gera núna við að krafla sig í gegnum lagaflækjur Hrunsins. Í því sambandi er í niðurlagi fréttar vitnað í stjúpson Geirs Haarde og fyrrum formann Samband ungra sjálfstæðismanna Borgar Þór Einarsson sem segir Hjá þeim sem starfa á lögmannsstofum er mikið að gera, þó verr gangi að fá greitt en áður. Hvað umsvifin á stofunum haldast fylgir öðru í þjóðfélaginu,. Svo fylgja með fréttinni als konar prósentur. Svona er mbl.is vesældarlegt núna, meira segja plögg fyrir Sjálfstæðismenn er svo aumingjalegt að það slokknar á manni bara við að lesa það.
En mbl.is og moggabloggið er kannski eins og íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf í dag. Það er allt efnislegt til staðar, þetta er fínt dreifingakerfi á upplýsingum og gæti verið öflug fréttaveita en það er nánast ekkert verið að nota þá möguleika, þeir sem stýra og vinna í kerfinu virðast hvorki hafa áhuga eða þekkingu á að nota þennan vettvang.
Reyndar er metnaðarleysið varðandi netmiðlun ekkert bundið við mbl.is. Þetta er furðulegt, það er búið að vera nám í fjölmiðlun í mörg, mörg ár í Háskóla Íslands og fjöldi blaðamanna er atvinnulaus. Hvers vegna eru engir þeirra að skrifa alvöru fréttir fyrir íslenska netmiðla? Og þó að fréttamennskan hjá mbl.is sé svo flatneskjuleg og leiðinleg að það eru allir sofnaðir sem reyna að fara inn í miðja fréttina þá jafnast þau leiðindi ekki við einn af toppum íslenskrar lágkúru í fréttamennsku sem eru fréttir á vísir.is um fræga fólkið. Þar eru fréttir um að einhver stjarna sé með appelsínuhúð og þessa og hina brjóstagerðina. Þau skrif lýsa ekki bara kvenfyrirlitningu heldur almennri mannfyrirlitningu og því að þeir sem skrifa á vefinn kunna ekkert til blaðamennsku. Það hefur verið stofnaður facebook hópur til að mótmæla þeim hroða. Sjá hérna
Maður ætti kannski að stofna facebook grúppu til að berjast fyrir að mbl.is fari að flytja einhverjar meira krassandi fréttir af fyrrverandi og núverandi formönnum Samband ungra Sjálfstæðismanna og jafnvel skjóti stöku sinni inn fréttum sem varða einhverja aðra en Sjálfstæðismenn.
Og úr því að ég er byrjuð á annað borð þá langar mig til að benda á grynnkuna í Morgunútvarpinu á rás II í ríkisútvarpinu. Vissulega eiga fréttir dagsins að vera þar matreiddar á mannamáli og sum mikilvæg mál dagsins í dag eru flókin þannig að það er vanmeðfarið. Núna hef ég hlustað á brot úr þessu tvö morgna í röð og þetta er ótrúlega billeg fréttamennska. Núna í morgun var verið að útskýra hvernig allt í einu skuldin vegna Icesave hefði nánast gufað upp, útlit fyrir að bankarnir næðu inn 90 %. Þetta var sett upp á einstaklega grunnan hátt og nánast verið að ljúga að fólki (hér hefði ég viljað segja "það var verið að ljúga að fólki" en af því ég er svo varkár í orðum þá læt ég það ekki eftir mér:-)
Aukið álag hjá lögfræðingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
13.10.2009 | 11:56
Jakkafataklæddir hrútar á pínlegu einkaflippi
Það er raunalegt að fylgjast með bloggumræðu og þjóðmálaumræðu núna um og framyfir helgina. Hún er óvenjurætin. Íslendingar standa á krossgötum en fyrir atbeina forsætisráðherra og með harðfylgi fjölmiðla og þeirra sem styðja ríkistjórnina í blindni þá er reynt að teyma okkur í blindgötu og botnlanga og látið eins og það sé ekkert val og engar krossgötur til.
Það er ennþá raunalegra að RÚV útvarp allra landsmanna kóar með alveg eins og það gerði í útrásinni og lími ég hérna inn upptöku úr Morgunútvarpi RÚV 13. okt 2009 þar sem hæðst er að för Framsóknarþingmannanna Sigmundar Davíðs og Höskuldar til Noregs.
Það er lögð mikil áhersla á það hjá ríkisfjölmiðlinum að gera þessa ferð hlægilega og sýna þann norska þingmann sem er ákafasti og einlægasti bandamaður Íslendinga sem óábyrgt fífl. RÚV étur líka upp umræðuna án þess að séð verði að fréttaskýrendur þar skilji út á hvað málið gengur eða skilji muninn á láni og lánalínu eða skilji í hvaða stöðu Ísland er núna. Það er reynt að gera för Framsóknarþingmannanna tortryggilega og hlægilega og slæst Rúv þannig í hóp þeirra sem telja að hagsmunum sínum og Íslendinga sem best komið með því að láta leiða sig inn í blindgötu.
Þrátt fyrir að Framsóknarþingmennirnir Sigmundur Davíð og Höskuldur séu menntaðir í hagfræði og lögfræði og viti vel um hvað málið snýst og hafi ávalt talað skynsamlega og af rökfestu og þekkingu og stillingu um fjármál Íslands og lögfræðileg málefni ásamt því að hafa frumkvæði að því að leita til fjölmargra innlendra og erlendra sérfræðinga og reynt að hafa samráð við sem flesta innlenda aðila m.a. stjórnmálamenn úr öðrum flokkum þá er gert lítið úr ferð þeirra og henni líkt við pínlegt einkaflipp umboðslausra manna sem séu heimóttarlegir og sauðslegir Bakkabræður. Ég vil nú reyndar taka fram að titillinn á þessu bloggi mínu er ekki fenginn úr umfjöllun Rúv heldur úr þessu bloggi Agnars : Bakkabræðralegir Framsóknarsauðir og vogunarsjóðsúlfar í sauðagærum en það er ágætt að hlusta á umfjöllun Rúv því hún er alveg í sama anda.
Í för Framsóknarþingmannanna voru fjórir ráðgjafar, allt eftir því sem ég best veit sérfræðingar í alþjóðlegaviðskiptum, alþjóðlegum fjárfestingum og hegðun vogunarsjóða. Lára Hanna hefur bent á tengsl tveggja þeirra við íslenskan vogunarsjóð í þessum tveimur bloggum:
Tortryggni, teygðar meiningar og tengsl
Það er alveg rétt að við þurfum að vera full tortryggni gagnvart öllum sem höndluðu með mikla fjármuni í íslenska fjármálakerfinu ekki síst skömmu fyrir Hrunið og það getur vel verið að það hafi verið samspil milli banka og sjóða að skjóta peningum í skjól þegar ljóst var hvert stefndi í fjármálakerfinu. Það eru mörg dæmi um að útrásarvíkingar hafi búið til heilu skógana af fyrirtækjum að því er virðist gagngert til að skúffa verðmætum til eða frá, að mestu leyti til að búa til verðmæti og láta líta út að einhver raunveruleg verðmæti væru til þegar aðeins voru spilapeningar að þyrlast til eða frá en það á örugglega eftir að koma upp á yfirborðið að slíkt hafi verið gert líka til að koma raunverulegum verðmætum undir yfirráð eða eign útrásarvíkinga. Mér sýnist Lára Hanna ýja að því að það hafi verið gert með verðmætan hlut í Tanganika oil og það mál þarfnast rannsóknar og það er ágætt að Lára Hanna og aðrir sem hafa fundið vísbendingar um að slíkt gæti hafa gerst komi ábendingum til sérstakra saksóknara sem rannsaka íslenska Hrunið. Ég og fleiri Íslendingar viljum gjarnan vita hvernig eignarhaldi Straums og Boreas var háttað á þessum hlutum.
Tveir af þessum sérfræðingum hafa sent fjölmiðlum og netmiðlum greinargerð og svar við umræðunni, sjá hérna og hér tek ég hluta úr henni, ekki af því ég sé sérstakur málssvari starfsmanna vogunarsjóða heldur af því að hér er mælt af skynsemi, miklu meiri skynsemi en fosætisráðherra mælir af þegar hún í einu orði segist snúðug ekki þurfa lán og sendir tölvupóstsnifsi sem grátbænir forsætisráðherra Noregs að lána Íslendingum alls ekkert án samþykkis AGS og í næsta orði segir að Íslendingar verði að samþykkja Icesave, annars fáum við engin lán og íslensk skuldabréf verði "junk bonds":
"Undirritaðir voru beðnir um að sitja fundi í Noregi með tveimur þingmönnum, þeim Höskuldi Þórhallssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Með okkur í för var Jón Gunnar Jónsson sem starfað hefur í 17ár hjá Merrill Lynch bankanum í New York, London og Hong Kong. Eins og margir vita var það yfirmaður greiningardeildar Merrill Lynch, sem varaði við íslensku bönkunum árið 2006 en á það vildu fáir hlusta. Tilgangur okkar á þessum fundum var að útskýra hvernig AGS hefur hegðað sér gagnvart Íslendingum; hótað okkur með því að draga lappirnar í lánveitingum vegna Icesave, og veikt samningsstöðu okkar gagnvart Bretum og Hollendingum. Hvernig þeim hefur tekist að sliga íslenskt atvinnulíf með því að halda stýrivöxtum í ógnarhæðum undanfarið ár. Þess má geta að stýrivextir í Noregi eru 1,25% um þessar mundir.
Við skýrðum einnig út ástæður þeirra háu stýrivaxta sem AGS mælir með hér á landi. Í því samhengi bentum við á að AGS lánaði Argentínu milljarða dollara til þess eins að auka gjaldeyrisvaraforða þeirra. Í kjölfarið var gjaldeyrishöftum aflétt sem varð til þess að erlendir áhættufjárfestar sem fastir voru inní kerfinu soguðu út forðann á 45 mínútum. Hér á landi eru erlendir jöklabréfaeigendur (með öðrum orðum áhættufjárfestar) fastir í kerfinu með um 600-700 milljarða íslenskra króna í ríkisskuldabréfum og innistæðum í bönkum. Það er því ástæða að spyrja sig af hverju AGS áætlunin gerir ráð fyrir að lána okkur 5 milljarða dollara (625 milljarða). Einnig útskýrðum við hvernig niðurskurðarstefna AGS stefnir norræna velferðarkerfinu í hættu. Að auki var greint frá að með því að viðhalda 12% stýrivöxtum og 9,5% innlánsvöxtum er íslenskur almenningur að greiða 190 milljarða á ári í vaxtakostnað til þeirra sem eiga innlánsfé í bönkum. Innlán munu vera um 2.000 milljarðar (2000 milljarðar x 9,5%). Þessi vaxtakostnaður nemur því yfir 500 milljónum á dag sem er meira en árlegur kostnaður heilbrigðiskerfisins. Eftir þetta voru norsku þingmennirnir flestir farnir að fussa og sveija yfir þeim augljósu þvingunum sem eru að eiga sér stað hér á landi í boði AGS, Hollendinga og Breta.
Við sýndum fram á það að fyrirtækið Ísland gengur í rauninni mjög vel enda höfum við haft jákvæðann vöruskiptajöfnuð í 11 mánuði í röð og allar stóru deildirnar eins og stóriðjan, ferðamannaiðnaðurinn og sjávarútvegurinn eru að keyra á öllum tiltækum cylendrum. Verkefnið væri því einfalt, við þurfum að endurfjámagna skuldir, greiða upp dýr lán með nýjum og í raun endurskipuleggja lánauppsetninguna.
Við lögðum fram hugmynd að 50 milljarða NOK (1000 milljarða) lánalínu til Íslands sem gæti orðið til þess að losna við AGS úr landi. Þessi lína bæri lítinn kostnað eða 0,25% á ári og eingöngu myndum við greiða vexti (4% var lagt fram) af þeim fjárhæðum sem við myndum draga á línuna. Þessi lánalína kæmi okkur Íslendingum á lappir, hækkaði lánshæfismat okkar og styrkti krónuna. Seðlabankar Íslands og Noregs gætu í kjölfarið unnið í samvinnu við að stýra okkur út úr þessu og keypt t.d. upp skuldabréf íslenska ríkisins með afföllum, greiða upp óhagstæð lán og taka ný og eða draga á línalínuna. Það er alveg ljóst að skuldatryggingarálag Íslands (CDS) myndi lækka við þessa línu og opna dyrnar fyrir Ísland á alþjóðlega lánamarkaði. Með því að fá þessa línu væri mögulegt að aflétta höftum, lækka stýrivexti og þannig laða að erlenda fjárfesta. Lánalínan yrði útfærð eftir fjármagnsþörf landsins og fjárhæðir með endurgreiðslugetu í huga. Við lögðum til að við notuðum 1/3 í að laga fjárlagahallann, 1/3 í erlendar skuldir á næstu þremur árum og 1/3 í að styrkja gjaldeyrisforðann. Samkvæmt okkar útreikningum þá þurfum við kannski að draga 1/3 til 2/3 af 1000 milljarða lánalínu þar sem hún virkar á mörgun stöðum sem svokölluð stríðskjöldur (e. warchest).
Það var að beiðni norsku þingmannanna að við skrifum minnisblað um ofangreind atriði og er það í vinnslu. Minnisblaðið verður sent frá okkur á næstu dögum."
Myndin sem reynt er að draga upp í fjölmiðlun af Framsóknarmönnum sem bjálfalegum og spilltum aulum sem ana út í vitleysu gæti ekki verið meira fjarri sanni en þeir sem eru rökþrota og úrræðalausir sjálfir grípa oft til þeirra ráða að búa til einhverja mynd sem þeir vilja sjá.
Sannleikurinn er hins vegar sá að Framsóknarflokkurinn er sá flokkur á Íslandi sem gengið hefur langlengst í endurnýjun eftir Hrunið og sá flokkur sem mest hefur tekið sig á varðandi spillingu og vinnubrögð. Það hefur verið gríðarlega sterk undiralda í Framsóknarflokknum að breyta því götótta og gatslitna kerfi sem við höfum búið við.
Framsóknarþingmenn okkar hafa einnig verið óþreytandi að leita til bæði útlendra og erlendra sérfræðinga. Það er raunar einkennilegt að á sama tíma og hæðst er að því og látið líta út eins og það sé dæmi um spillingu að Framsóknarmenn hafi með sérfræðinga til ráðgjafar þegar þeir kynna fjárhagsleg málefni Íslands fyrir norskum þingmönnum þá setji fólk ekkert spurningamerki við skipan þeirrar nefndar sem fjallaði um það mál sem var stærst allra sem Íslenska ríkisstjórnin hefur staðið frammi fyrir, það er undarlega lítið rætt um hvers vegna í ósköpunum Steingrímur skipaði Svavar Gestsson í þá nefnd, ekki nokkur maður getur komið auga á þá sérfræði sem Svavar hefur á þessum málaflokki.
Það er ástæða til að ætla að Sigmundur Davíð og aðrir Framsóknarþingmenn mynd fara betur að ráði sínu en ríkisstjórn Íslands hefur gert með sínum skrýtnu vinnubrögðum í Icesave. Hér vil ég ekki gera lítið úr ríkistjórn Jóhönnu og Steingríms, ég tel hana raunar hafa unnið kraftaverk á sínum stutta starfstíma í mörgum málum. En Icesave framganga ríkisstjórnarinnar er eitt megaklúður. Það er ekkert hlustað á þá sem þó vita eitthvað um málið og það er slegið á útréttar hjálparhendur grannþjóða og það er ekkert látið reyna á stuðning þeirra sem ættu að hafa stutt okkur þegar hryðjuverkaógn hins volduga Bretaveldis var að buga okkur.
En við Framsóknarmenn höldum ótrauð áfram. Það skiptir ekki máli hve háðsleg orð umræðan er vafin inn í og hve lítið er gert úr því sem forustumenn okkar gera og það gert tortryggilegt að þeir leiti til sérfræðinga. Það er betra að sitja undir því og rökstyðja það heldur en að fylgja ráðþrota ríkisstjórn sem sér engar leiðir og skilur ekki hagfræði og horfir ekki hvaða fjötra hún er að leggja yfir íslenska þjóð.
Ekki þörf á norsku láni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)