Internetið eftir fimm ár

Eitt af því sem heillar mig alltaf mikið varðandi Sovétríkin sálugu og hið miðstýrða kommúnistaríki í Kína eru fimm ára áætlanirnar. Ég veit vel að þær snerust  þegar stundir liðu fram upp í algjöra martröð og falsanir á framleiðslutölum og píningu á verksmiðjufólki til að ná markmiðum sem voru gjörsamlega ómöguleg. Ein af þessum fimm ára áætlunum var Stóra stökkið fram á við og það leiddi af sér hungursneyð og hörmungar.

En mér finnst þessi hugmynd að horfa langt fram í tímann og gera fimm ára áætlanir, að samhæfa krafta í stóru kerfi vera heillandi og eiga líka við í dag en það þarf öðruvísi áætlanir og öðruvísi sýn á framleiðslu og hagkerfi og samfélög. Við lifum á tímum sem eru einmitt andstæðan við hið miðstýrða á öllum sviðum og þegar við spáum í framtíðina og gerum  plön þá verður við að skilja og skynja  stóru línurnar og hver sú  þróun sem við getum  ekki breytt sjálf og hvað er óumflýjanlegt og hverju í framtíðinni er hægt að breyta.

Raunar held ég á tímum mikilla umbreytinga eins og við lifum á núna þá eigi hvorki einstaklingar, samfélög eða fyrirtæki að ímynda sér að þau geti breytt miklu, þau geta í mesta lagi hægt á þróuninni nú eða flýtt henni,  þetta er frekar spurning um að þjálfa með sér innsæi til að horfa fram á við og haga sínum rekstri og stöðu miðað við framtíðarspá og skipuleggja rekstur og starfshætti þannig að það sé hægt að breyta á hárréttum tíma um aðferðir og vinnslu - ekki of snemma, ekki áður en þörfin eða markaðurinn er fyrir hendi - ekki of seint, ekki fjárfesta í tækni gærdagsins til að vinna í á morgun. Þessi lífsspeki mín mun vera kölluð technological determinism þegar sagnfræðingar og félagsfræðingar eru að rýna í baksýnisspegil.

Í nýlegu erindi flutti stjórnandi Google Eric Schmidt sína sýn á hvernig Internetið yrði eftir fimm ár. Sjá hérna Google's Eric Schmidt on What the Web Will Look Like in 5 Years

þetta vídeó er lítill úrdráttur úr erindi hans, unnið í notar tubechop.com

Það sem verður til almenningsnota eftir fimm ár er reynda nú þegar í notkun af ákveðnum hópum og með því að skoða hegðun þeirra hópa þá má spá fram í tímann. Eric Schmidt mælir með að við fylgjumst með táningum, þeir eru núna að búa sig undir vinnuaðferðir og samskiptaaðferðir sem eru eins og þau nota Netið í dag. Ég held reyndar að ennþá betri hópur til að fylgjast með séu þeir sem lifa og starfa í hringiðu tækninnar, "Go with the geeks", fylgjast með þeim sem búa til efni og verkfæri núna fyrir Netheima, ekki síst þeim sem lifa og hrærast í heimi opins hugbúnaðar og opinnar miðlunar á efni. 

Það kemur reyndar ekkert á óvart í þessari framtíðarspá Google mannsins og þetta er ekki framtíðarspá fyrir Ísland í dag heldur veruleiki margra, veruleiki flestra ungmenna á Íslandi. Það eru hins vegar ekki nógu margir sem komnir eru á miðjan aldur sem átta sig á því og það er þess vegna fínt að hlusta á þennan úrdrátt úr erindi Google mannsins.  Aðgengi að Interneti er hér almennt og notkun mikil og flestir hafa aðgang að háhraðasambandi.

Það sem stendur upp úr er það sem við sem fylgjumst með Netinu vitum, það að vægi stóru miðlanna er að hverfa og það er efni sem notendur framleiða sjálfir og endurblanda sín á milli sem er það svið sem vex mest. Og það er ekki framleiðsla á texta fyrst og fremst, það er vídeóefni sem er í hröðustum uppgangi, vídeóefni sem miðlað er og búið til af jafningjum. Svo er enskan á undanhaldi sem mál Internetsins og það verður ekki íslenska sem tekur þar við heldur mandarin kínverska. Raunar held ég að það muni myndast smán saman eins konar myndmáls táknmál Internetsins með mörg hundruð táknum. Það er þegar í bullandi gerjun, nú eru t.d. tákn fyrir hluti eins og RSS. 

Ég held að þessir hnappar sem nú eru á mörgum vefsíðum "senda á facebook" séu fyrirboði um það sem koma skal þ.e. vefþjónustur sem eru samtengdar þannig að notandinn hann endurblandar efninu og sendir það áfram eftir að hafa breytt því (einfaldasta er að skrifa athugasemd með frétt og senda á facebook) og er með sinn eigin straum (mín síða á facebook er dæmi um eigin straum). Mörg vefverkfæri verða auk þess sjálfvirk og það er vísbending um framtíðina svona semantic web verkfæri t.d. þegar youtube stingur upp á vídeóum fyrir okkur að skoða miðað við hvaða leitarorð við höfum slegið inn fyrir vídeó í fortíðinni og hvað við höfum merkt sem eftirlætisefni. Það er líka vísbending um framtíðina hvernig Facebook er núna að velja hvað við sjáum af  straumum og boðum þeirra sem eru á vinalista.

Ef ég vík aftur að fimm ára áætlunum þá held ég að það sé réttur tími núna til að reyna að rýna í kristalskúlu framtíðarinnar og sá í hvað muni á næstu fimm árum  gerast í samskiptatækni heimsins, framleiðslukerfum og valdajafnvægi sem hefur áhrif á stöðu Íslendinga í Netheimum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg samantekt og gaman að bera saman við sjónvarpsvæðinguna í USA þar sem svipaðir hlutir gerðust á sínum tíma. Upp reis nýr miðill sem margir komu að en með tíð og tíma varð hann markaðsvæðingunni að bráð og steingeltist í meðförum prófíla, skoðanakannana, markaðshópa, etc. Hvort þetta verði örlög Internetsins á eftir að koma í ljós en ef ég lít sjálfur til baka til þess tíma þegar maður byrjaði að nota vefinn (verið með frá upphafi) þá sé ég að notkunin í dag er bara brot miðað við það sem hún var einmitt vegna þess að fyrir mér er Netið að verða bara enn eitt glamúrtímaritið sem vill selja snákaolíu og lítið annað. Þeir sem notuðu IRC í gamla daga vita líka alveg að Web 2.0 er bara ný föt utan á úrgamalt fyrirbrigði og fólki er seld sama hugmyndin aftur og aftur og aftur og . . . 

Ef þig langar að spá fyrir um framtíðina myndi ég kíkja á samruna manns og vélar , framgang vélmenna í samfélögum ásamt stafrænni tilveru ala smart dust og intelligent environment.

Magnús (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband