Stúlka frá Litháen, menn frá Litháen, súludans og kjöltudans

Í fyrrakvöld var umsátur um heimili dómsmálaráðherra vegna brottvísunar flóttamanna. Í gær var lýst eftir konu sem fannst í flugvél og týndist aftur.  Þessi atburðir tengjast  kannski ekki neitt. Það getur vel verið að íslenska lögreglan sé núna eftir Hrunið umhyggjusamari en áður vegna vegalauss fólks sem talið er að tengist mansali. Vona ég innilega að svo sé.

Við erum mörg sem höfum árum og áratugum saman reynt að opna augu fólks fyrir ömurlegu hlutskipti fólks í kynlífsþjónustu. Við höfum reynt að fletta ofan af goðsögninni um hina hamingjusömu hóru og benda á óteljandi frásagnir kvenna og karla sem oft voru djúpt sokknir fíkniefnaneytendur eða örvæntingarfullt fólk sem taldi sig ekki hafa val eða fólk sem hafði flúið  ömurlegar aðstæður heima fyrir og gat ekki framfleytt sér í nýjum heimkynnum öðruvísi. 

Fólk hefur lengi verið  flutt til landsins  með skipulögðum hætti til að vinna hérna í kynlífsþjónustu og meira segja komu aðilar sem höfðu atvinnu sína af svona útgerð fram í fjölmiðlum og vörðu iðjuna undir nafni listar en margar erlendar konur sem fluttar voru inn til þjónustu á súludansstöðum og við hinn svokallaða "kjöltudans" fengu hér tímabundin atvinnuleyfi sem listamenn, listrænir dansarar. Hér er myndræma sem ég gerði fyrir margt löngu um kjöltudansinn  þar sem ég geri grín að einum  talsmanni hans:

 Geiri goldfinger

Það má hér rifja upp  hæstaréttardómi frá 2007 (sjá dóminn hérna) en þá höfðaði aðili sem rekur staðinn Goldfinger mál á hendur blaðamanni og heimildarmanni blaðamanns, hér er smákafli tekinn orðrétt upp úr dómnum:

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 5. og 6. september 2007 á hendur stefndu og Lovísu Sigmundsdóttur og krafðist þess í 1. kröfulið að eftirfarandi ummæli, sem Lovísa hafi viðhaft um áfrýjanda á nánar tilgreindum blaðsíðum í áðurnefndu tölublaði Vikunnar, yrðu dæmd dauð og ómerk: A. „Ég endaði á að vinna fyrir Geira en það var mjög mikið um vændi inni á stöðunum hans og gríðarleg pressa á þeim stelpum sem fyrir hann störfuðu að stunda slíkt. B. „Geiri hefur alltaf gert mikið út á vændi og þá inni á stöðunum. Eftir að einkadansinn var bannaður hefur vændið einfaldlega farið fram bak við tjöld sem sögð eru notuð til að hægt sé að spjalla við kúnnana í einrúmi.“ C. „Það er allur gangur á því hvort kúnnarnir borga Geira sjálfum fyrir þjónustuna eða stelpunum beint ... . D. „Ég er komin yfir hræðsluna við þessa menn þótt mér hafi vissulega verið hótað lífláti og á tímabili fór ég ekki út úr húsi vegna hræðslu. E. „Starfsstúlkur hans sem koma hingað tímabundið í þrjá mánuði í senn eru eins og í fangelsi“. F. „Þess á milli eru þær í raun kyrrsettar í húsinu fyrir utan vissan útivistartíma. G. „Ástæðan fyrir því er sú að stelpur urðu uppvísar að því að ná sér í kúnna utan klúbbsins án þess að Geiri fengi hlut af þóknuninni en hann vill geta stjórnað vændinu sjálfur

Það er athyglisvert að bera það mál saman við það mál sem lögreglan er núna að rannsaka. Mér virðist núna vera sagt frá af umkomulausri stúlku og virðist af lýsingu á hegðun annað hvort benda til þess að hún sé fíkill í bullandi neyslu eða hún eigi við geðræn vandamál að stríða. Grunur leikur á að hún sé fórnarlamb mansals og að hún sé í tengslum við menn frá Litháen sem búa hérlendis og hefur komið fram hjá lögreglu að þeir séu þekktir af ofbeldisverkum. 

Efalaust hefur lögreglan upplýsingar sem hún lætur ekki uppi og telur að þessi stúlka sé í bráðri hættu annars myndi lögreglan tæplega birta mynd af stúlkunni og útmála hana sem vændiskonu og lýsa eftir og handtaka marga menn frá Litháen og halda þeim ennþá í gæsluvarðhaldi. En við skulum ekki missa sjónar á því að glæpur er ekki sama og grunur um að fólk hafi haft í hyggju að fremja glæp en ekki tekist það.

Lögreglan hefur eflaust ekki ætlað sér að ala á útlendingahatri með því að velta upp þessu alvarlega máli en því miður þá verða það skilaboðin sem sitja eftir.  Í þessu tilviki er kastljósinu beint að hópi manna og einni konu frá ákveðnu landi og lögreglan og fjölmiðlar sýna okkur mynd sem er átakanleg - af konu sem á um sárt að binda og grunur leikur á að hafi verið tæld til landsins til að stunda vændi og af mönnum sem lögreglan segir mikla ofbeldismenn og sem grunaðir eru um að ætla að gera út konuna.  

Mansal er viðurstyggilegt og þeir sem taka þátt í því eru óþokkar. Og það er hluti af mannréttindabaráttu að fólk sé ekki haldið í slíkri neyð og lögregla og dómsvald spyrni af alefli á móti slíku. En það er líka mannréttindamál að ekki sé vegið að ákveðnum þjóðfélagshópum og fólk af ákveðnum uppruna sé ekki ofsótt. Oft eru slíkar ofsóknir einmitt réttlættar með meintum fólskuverkum þeirra sem ofsóttir eru. Í þessu tilviki hefur ekki verið réttað í málinu og ekki hefur komið fram að lögreglan hafi önnur vitni en stúlkuna sem ærðist í flugvélinni. Það er líka mannréttindamál að íslensk lögregla taki eins á meintum afbrotum  þeirra sem ættaðir eru frá Vestfjörðum og þeirra sem ættaðir eru frá Litháen.

Frétt eins og þessi kemur af stað mikilli flóðbylgju fordóma sem skellur á útlendingum, ekki eingöngu þeim sem lögreglan leitaði að heldur öllum útlendingum og þá sérstaklega frá Austur-Evrópu og frá Litháen.  Það verða lögregla og fjölmiðlar að átta sig á og það er agalegt ef þeir aðilar leggjast á árina og magna upp útlendingahatur. 

Einmitt núna þegar ég skrifa þetta  stendur yfir mótmælafundur á Lækjartorgi þar sem fólk mótmælir brottvísun flóttamanna í fyrradag.


mbl.is Ekki vitað hvar konan er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér virðist núna vera sagt frá af umkomulausri stúlku og virðist af lýsingu á hegðun annað hvort benda til þess að hún sé fíkill í bullandi neyslu eða hún eigi við geðræn vandamál að stríða. Grunur leikur á að hún sé fórnarlamb mansals og að hún sé í tengslum við menn frá Litháen sem búa hérlendis og hefur komið fram hjá lögreglu að þeir séu þekktir af ofbeldisverkum. 

Efalaust hefur lögreglan upplýsingar sem hún lætur ekki uppi og telur að þessi stúlka sé í bráðri hættu annars myndi lögreglan tæplega birta mynd af stúlkunni og útmála hana sem vændiskonu og lýsa eftir og handtaka marga menn frá Litháen og halda þeim ennþá í gæsluvarðhaldi.

Gæti það ekki alveg eins verið að lögreglan hafi ekki neinar sérstakar upplýsingar sem hún lætur ekki uppi þó hún útmáli stúlkuna sem vændiskonu. Það er ýmislegt eftir lýsingunum sem bendir til annað hvort mikils geðræns uppnáms eða fífkniefnaneyslu nema hvort tveggja sé og svo mikið reyndar að það má alveg efast um að um nokkurt mannsal sé að ræða, þó auðvitað sé það mögulegt, fremur bara einhvers konar rugl. Allur fréttaflutningur af málinu er mjög óljós og undarlegur, nákvæmlega ekkert fast í hendi hefur komið fram um raunverulegt mansal, konan er svo í öðru orðonu talin vera brotaþoli en í öðru orðinu útmáluð með lítilsvirðandi orðum, t.d. vændiskona.  Vinnubrögð lögreglunar eru ekki trausvekjandi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.10.2009 kl. 14:01

2 identicon

Þessi fréttaflutiningur er með ólíkindum.

Hver flytur inn vændiskonu sem er svo ljót að hún

Tóta ljóta lítur út eins og   fegurðardís í samanburði?

Það hljóta að vera einhver lög sem banna slíkt.

Ég hef rökstuddan grun um að þessi frétt sé ekki frétt.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 16:12

3 Smámynd: Sjóveikur

Mig grunar að þú hafir rétt Siggi Sig  ég trúi því að verið sé að beita "Gullfiskamynni" Íslendinga brögðum og fá þá til að sjá ekki svínaríið sem er að fara í gang (kanski er það þegar í gangi ?)

Kveðja, sjoveikur

Sjóveikur, 16.10.2009 kl. 21:51

4 identicon

Þetta er skrýtin umræða. Hvernig tekst þér Salvör, að snúa þessu átakanlega máli upp í einhverjar vangaveltur um að "ala á útlendingahatri". Ef þú fyllist útlendingahatri af vitneskjunni um að þarna voru Litháar í öllum helstu hlutverkum, þá þarftu að skoða hug þinn.

Ég minnist þess svo ekki að lögreglan hafi kallað konuna vændiskonu. Aðeins að hún sé fórnarlamb mansals og svo virðist sem átt hafi að neyða hana til vændis.

Hitt er svo annað og alvarlegra mál, að nærgöngul myndskeið eru birt af brotaþolanum í sjónvarpi. Það er ámælisvert og ég minnist ekki að hafa séð fórnarlambi afbrots misboðið með þeim hætti áður í íslensku sakamáli.

Fimmta valdið (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 22:05

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Það er athyglisvert hvað lítið er handfast í þessu máli. Og menn fabúlera. Meira að segja lögreglan eða staðgengill yfirmanns hennar, ung kona í fréttum nýlega. Salvör segir: "..við skulum ekki missa sjónar á því að glæpur er ekki sama og grunur um að fólk hafi haft í hyggju að fremja glæp en ekki tekist það." Mér finnst þetta kjarni málsins. Nú þegar er ljóst að hún kom hingað á fölsuðum skilríkjum. Því ætti að vísa henni út.

Guðmundur Pálsson, 17.10.2009 kl. 01:14

6 Smámynd: Eygló

Er ekki aðeins of fljótt að álíta konugreyið fíkil og/eða geðsjúka?

Af hverju voru þá menn að sniglast um og bíða hennar?

Hver segir að hún sjálf hafi útbúið vegabréfið sitt?

Allt eins gæti verið að hún hafi verið flutt og með hana farið eins og kjötsendingu.

Hún gæti þess vegna hafa verið með eiturlyf innvortis og gúbbarnir beðið afurðanna (þetta var MITT slúður)

Heldur finnst mér nú lagst lágt að draga fram að hún sé svo ljót að enginn myndi skipta við hana.

Mér er sem ég sæi okkur eftir alvarlega, erfiða lífsreynslu vera upplitsdjörf og skínandi af hamingju, gleði og fegurð.

Kannski sýnir ykkar spegill annars konar fegurð en minn.

Eygló, 17.10.2009 kl. 03:09

7 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Löggan er að standa sig ótrúlega vel í þessu máli.  Svei mér þá. 

Hugsið ykkur að vinna með þessi mál.  Mjög erfitt.  Þig grunar hvað liggur á bak við en sá sem brotið er á þorir ekki að segja sannleikann, er í uppnámi o.s.frv.

Auðveldast að segja ekki neitt.  Gera ekki neitt og málið hverfur.

Það hefur ekki gerst í þessu máli.  Það gerist alls staðar í kring um okkur.

Löggan er að gera ótrúlega vel.

Jón Ásgeir Bjarnason, 17.10.2009 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband