Jakkafataklæddir hrútar á pínlegu einkaflippi

Það er raunalegt að fylgjast með bloggumræðu og þjóðmálaumræðu núna um og framyfir helgina. Hún er óvenjurætin. Íslendingar standa á krossgötum en fyrir atbeina forsætisráðherra og með harðfylgi fjölmiðla og þeirra sem styðja ríkistjórnina í blindni þá er reynt að teyma okkur í blindgötu og botnlanga og látið eins og það sé ekkert val og engar krossgötur til.

Það er ennþá raunalegra að RÚV útvarp allra landsmanna kóar með alveg eins og það gerði í útrásinni og lími ég hérna inn upptöku úr Morgunútvarpi RÚV 13. okt 2009 þar sem hæðst er að för Framsóknarþingmannanna Sigmundar Davíðs og Höskuldar til Noregs.

Það er lögð mikil áhersla á það hjá ríkisfjölmiðlinum að gera þessa ferð hlægilega og sýna þann norska þingmann sem er ákafasti og einlægasti bandamaður Íslendinga sem óábyrgt fífl. RÚV étur líka upp umræðuna án þess að séð verði að fréttaskýrendur þar skilji út á hvað málið gengur eða skilji muninn á láni og lánalínu eða skilji í hvaða stöðu Ísland er núna. Það er reynt að gera för Framsóknarþingmannanna tortryggilega og hlægilega og slæst Rúv þannig í hóp þeirra sem telja að hagsmunum sínum og Íslendinga sem best komið með því að láta leiða sig inn í blindgötu.

Þrátt fyrir að  Framsóknarþingmennirnir Sigmundur Davíð og Höskuldur séu menntaðir í hagfræði og lögfræði  og viti vel um hvað málið snýst og hafi ávalt talað skynsamlega og af rökfestu og þekkingu og stillingu um fjármál Íslands og lögfræðileg málefni ásamt því að hafa frumkvæði að því að leita til fjölmargra innlendra og erlendra sérfræðinga og reynt að hafa samráð við sem flesta innlenda aðila m.a. stjórnmálamenn úr öðrum flokkum þá er gert lítið úr ferð þeirra og henni líkt við pínlegt einkaflipp umboðslausra manna sem séu heimóttarlegir og sauðslegir Bakkabræður. Ég vil nú reyndar taka fram að titillinn á þessu bloggi mínu er ekki fenginn úr umfjöllun Rúv heldur úr þessu bloggi  Agnars : Bakkabræðralegir Framsóknarsauðir og vogunarsjóðsúlfar í sauðagærum en það er ágætt að hlusta á umfjöllun Rúv því hún er alveg í sama anda.

Í för Framsóknarþingmannanna voru fjórir ráðgjafar, allt eftir því sem ég best veit sérfræðingar í alþjóðlegaviðskiptum, alþjóðlegum fjárfestingum  og hegðun vogunarsjóða.  Lára Hanna hefur bent á tengsl tveggja þeirra við íslenskan vogunarsjóð í  þessum tveimur bloggum:

Tortryggni, teygðar meiningar og tengsl

Getur einhver útskýrt þetta?

Það er alveg rétt að við þurfum að vera full tortryggni gagnvart öllum sem höndluðu með mikla fjármuni í íslenska fjármálakerfinu  ekki síst skömmu fyrir Hrunið og það getur vel verið að það hafi verið samspil milli banka og sjóða að skjóta peningum í skjól þegar ljóst var hvert stefndi í fjármálakerfinu. Það eru mörg dæmi um að útrásarvíkingar hafi búið til heilu skógana af fyrirtækjum að því er virðist gagngert til að skúffa verðmætum til eða frá, að mestu leyti til að búa til verðmæti og láta líta út að einhver raunveruleg verðmæti væru til þegar aðeins voru spilapeningar að þyrlast til eða frá en það á örugglega eftir að koma upp á yfirborðið að slíkt hafi verið gert líka til að koma  raunverulegum verðmætum undir yfirráð eða eign útrásarvíkinga. Mér sýnist Lára Hanna ýja að því að það hafi verið gert með verðmætan hlut í Tanganika oil og það mál þarfnast rannsóknar og það er ágætt að Lára Hanna og aðrir sem hafa fundið vísbendingar um að slíkt gæti hafa gerst komi ábendingum til sérstakra saksóknara sem rannsaka íslenska Hrunið. Ég og fleiri Íslendingar viljum gjarnan vita hvernig eignarhaldi Straums og Boreas var háttað á þessum hlutum.

Tveir af þessum sérfræðingum hafa sent fjölmiðlum og netmiðlum greinargerð og svar við umræðunni, sjá hérna og hér tek ég hluta úr henni, ekki af því ég sé sérstakur  málssvari starfsmanna vogunarsjóða heldur af því að hér er mælt af skynsemi, miklu meiri skynsemi en fosætisráðherra mælir af þegar hún í einu orði segist snúðug ekki þurfa lán og sendir tölvupóstsnifsi sem grátbænir forsætisráðherra Noregs að lána Íslendingum alls ekkert án samþykkis AGS og í næsta orði segir að Íslendingar verði að samþykkja Icesave, annars fáum við engin lán og íslensk skuldabréf verði "junk bonds":

"Undirritaðir voru beðnir um að sitja fundi í Noregi með tveimur þingmönnum, þeim Höskuldi Þórhallssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Með okkur í för var Jón Gunnar Jónsson sem starfað hefur í 17ár hjá Merrill Lynch bankanum í New York, London og Hong Kong. Eins og margir vita var það yfirmaður greiningardeildar Merrill Lynch, sem varaði við íslensku bönkunum árið 2006 en á það vildu fáir hlusta. Tilgangur okkar á þessum fundum var að útskýra hvernig AGS hefur hegðað sér gagnvart Íslendingum; hótað okkur með því að draga lappirnar í lánveitingum vegna Icesave, og veikt samningsstöðu okkar gagnvart Bretum og Hollendingum. Hvernig þeim hefur tekist að sliga íslenskt atvinnulíf með því að halda stýrivöxtum í ógnarhæðum undanfarið ár. Þess má geta að stýrivextir í Noregi eru 1,25% um þessar mundir.

Við skýrðum einnig út ástæður þeirra háu stýrivaxta sem AGS mælir með hér á landi. Í því samhengi bentum við á að AGS lánaði Argentínu milljarða dollara til þess eins að auka gjaldeyrisvaraforða þeirra. Í kjölfarið var gjaldeyrishöftum aflétt sem varð til þess að erlendir áhættufjárfestar sem fastir voru inní kerfinu soguðu út forðann á 45 mínútum. Hér á landi eru erlendir jöklabréfaeigendur (með öðrum orðum áhættufjárfestar) fastir í kerfinu með um 600-700 milljarða íslenskra króna í ríkisskuldabréfum og innistæðum í bönkum. Það er því ástæða að spyrja sig af hverju AGS áætlunin gerir ráð fyrir að lána okkur 5 milljarða dollara (625 milljarða). Einnig útskýrðum við hvernig niðurskurðarstefna AGS stefnir norræna velferðarkerfinu í hættu. Að auki var greint frá að með því að viðhalda 12% stýrivöxtum og 9,5% innlánsvöxtum er íslenskur almenningur að greiða 190 milljarða á ári í vaxtakostnað til þeirra sem eiga innlánsfé í bönkum. Innlán munu vera um 2.000 milljarðar (2000 milljarðar x 9,5%). Þessi vaxtakostnaður nemur því yfir 500 milljónum á dag sem er meira en árlegur kostnaður heilbrigðiskerfisins. Eftir þetta voru norsku þingmennirnir flestir farnir að fussa og sveija yfir þeim augljósu þvingunum sem eru að eiga sér stað hér á landi í boði AGS, Hollendinga og Breta.

Við sýndum fram á það að „fyrirtækið“ Ísland gengur í rauninni mjög vel enda höfum við haft jákvæðann vöruskiptajöfnuð í 11 mánuði í röð og allar stóru „deildirnar“ eins og stóriðjan, ferðamannaiðnaðurinn og sjávarútvegurinn eru að keyra á öllum tiltækum „cylendrum“. Verkefnið væri því einfalt, við þurfum að endurfjámagna skuldir, greiða upp dýr lán með nýjum og í raun endurskipuleggja lánauppsetninguna.

Við lögðum fram hugmynd að 50 milljarða NOK (1000 milljarða) lánalínu til Íslands sem gæti orðið til þess að losna við AGS úr landi. Þessi lína bæri lítinn kostnað eða 0,25% á ári og eingöngu myndum við greiða vexti (4% var lagt fram) af þeim fjárhæðum sem við myndum draga á línuna. Þessi lánalína kæmi okkur Íslendingum á lappir, hækkaði lánshæfismat okkar og styrkti krónuna. Seðlabankar Íslands og Noregs gætu í kjölfarið unnið í samvinnu við að stýra okkur út úr þessu og keypt t.d. upp skuldabréf íslenska ríkisins með afföllum, greiða upp óhagstæð lán og taka ný og eða draga á línalínuna. Það er alveg ljóst að skuldatryggingarálag Íslands (CDS) myndi lækka við þessa línu og opna dyrnar fyrir Ísland á alþjóðlega lánamarkaði. Með því að fá þessa línu væri mögulegt að aflétta höftum, lækka stýrivexti og þannig laða að erlenda fjárfesta. Lánalínan yrði útfærð eftir fjármagnsþörf landsins og fjárhæðir með endurgreiðslugetu í huga. Við lögðum til að við notuðum 1/3 í að laga fjárlagahallann, 1/3 í erlendar skuldir á næstu þremur árum og 1/3 í að styrkja gjaldeyrisforðann. Samkvæmt okkar útreikningum þá þurfum við kannski að draga 1/3 til 2/3 af 1000 milljarða lánalínu þar sem hún virkar á mörgun stöðum sem svokölluð stríðskjöldur (e. warchest).

Það var að beiðni norsku þingmannanna að við skrifum minnisblað um ofangreind atriði og er það í vinnslu. Minnisblaðið verður sent frá okkur á næstu dögum."

Myndin sem reynt er að draga upp í fjölmiðlun af Framsóknarmönnum sem bjálfalegum og spilltum aulum sem ana út í vitleysu gæti ekki verið meira fjarri sanni en þeir sem eru rökþrota og úrræðalausir sjálfir grípa oft til þeirra ráða að búa til einhverja mynd sem þeir vilja sjá. 

Sannleikurinn er hins vegar sá að Framsóknarflokkurinn er sá flokkur á Íslandi sem gengið hefur langlengst í endurnýjun eftir Hrunið og sá flokkur sem mest hefur tekið sig á varðandi spillingu og vinnubrögð. Það hefur verið gríðarlega sterk undiralda í Framsóknarflokknum að breyta því götótta og gatslitna kerfi sem við höfum búið við. 

Framsóknarþingmenn okkar hafa einnig verið óþreytandi að leita til bæði útlendra og erlendra sérfræðinga. Það er raunar einkennilegt að á sama tíma og hæðst er að því  og látið líta út eins og það sé dæmi um spillingu að Framsóknarmenn hafi með sérfræðinga til ráðgjafar þegar þeir kynna fjárhagsleg málefni Íslands fyrir norskum þingmönnum þá setji fólk ekkert spurningamerki við skipan þeirrar nefndar sem fjallaði um það mál sem var stærst allra sem Íslenska ríkisstjórnin hefur staðið frammi fyrir, það er undarlega lítið rætt um hvers vegna í ósköpunum Steingrímur skipaði Svavar Gestsson í þá nefnd, ekki nokkur maður getur komið auga á þá sérfræði sem Svavar hefur á þessum málaflokki.

Það er ástæða til að ætla að Sigmundur Davíð  og aðrir Framsóknarþingmenn mynd fara betur að ráði sínu en ríkisstjórn Íslands hefur gert með sínum skrýtnu vinnubrögðum í Icesave. Hér vil ég ekki gera lítið úr ríkistjórn Jóhönnu og Steingríms, ég tel hana raunar hafa unnið kraftaverk á sínum stutta starfstíma í mörgum málum. En Icesave framganga ríkisstjórnarinnar er eitt megaklúður. Það er ekkert hlustað á þá sem þó vita eitthvað um málið og það er slegið á útréttar hjálparhendur grannþjóða og það er ekkert látið reyna á stuðning þeirra sem ættu að hafa stutt okkur þegar hryðjuverkaógn hins volduga Bretaveldis var að buga okkur.

En við Framsóknarmenn höldum ótrauð áfram. Það skiptir ekki máli hve háðsleg orð umræðan er vafin inn í og hve lítið er gert úr því sem forustumenn okkar gera og það gert tortryggilegt að þeir leiti til sérfræðinga. Það er betra að sitja undir því og rökstyðja það heldur en að fylgja ráðþrota ríkisstjórn sem sér engar leiðir og skilur ekki hagfræði og horfir ekki hvaða fjötra hún er að leggja yfir íslenska þjóð.

 

 

 


mbl.is Ekki þörf á norsku láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Salvör ég les pistlana þína mjög gjarnan, þótt ekki höfum við sömu pólitísku skoðun - og er ég þá ekki að tala um flokkapólitík - heldur pólitík svo sem rekstur heimilis.

Jæja, nú velti ég því fyrir mér af hverju þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þórhallsson fóru þessa för ekki í samráði og samvinnu við ríkisstjórn Íslands ?

Getur íslenskur alþingismaður upp á sitt einsdæmi leitað eftir lánafyrirgreiðslu annars lands ?  Kveður stjórnarskráin á um það ?

Það er ekki hafið yfir allan vafa - að velja með sér sérfræðinga sem starfa við fyrirtæki sem tengjast öðrum alþingismanninum of mikið - þannig er það bara og þannig á það að vera.

Það eru til alveg ótrúlega margir sérfræðingar hér á landi um starfsemi Vogunarsjóða - meira að segja fólk - sem ekki starfaði eftir ,,kerfinu "

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 13.10.2009 kl. 14:20

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þessir tilgreindu Alþingismenn fóru á fund forystmanns systurflokks síns í Noregi. Þeir fóru í tilgreindum erindum og að gefnu tilefni. Hverjir þar voru með í för skiptir ekki neinu máli. Erindið var brýnt og átti fullan rétt á sér. Erindislok voru ekki höfnun en forsætisráðherra lét það verða sitt fyrsta verk að óska eftir formlegri höfnun og gerði það í tölvupósti!

Árni Gunnarsson, 13.10.2009 kl. 16:57

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Árni. Það er mikill útúrsnúningur hjá þér að segja að Jóhanna hafi óskað eftir formflegri höfnun. Við Íslendingar eru búnir að vera á hnjánum við að fá lán án tengingar við AGS frá því fyrir hrun og höfum alls staðar fengið höfnun nema hjá Færeyingum. Það er því þegar komin höfnun frá Noregi og það fyrir löngu síðan.

Þegar síðan ákveðnir Alþigismenn og nokkrir Stórþingsmenn úr flokki með 6,2% fylgi í Noregi segja að afstaða norðmanna sé breytt hvað skilyrðið um AGS varðar þá spyr Jóhanna starfsbróður sinn í Noregi einfaldlega að því hvort það sé satt. Svarið er einfalt. Nei afstaða Noregs er ekki breytt. Norski örflokkurinn, systurflokkur Framsóknarflokksins, ver á sólóflippi í þessu máli.

Okkur Íslendingum hefur aldrei staðið til boða lán frá Noregi án milligöngu AGS og það eru engar líkur á að það breytist hversu oft, sem við sækjum um slíkt. Þetta vissu Sigmundur og Höskuldur áður en þeir fóru út. Þessi utanlandsferð var því ekkert annað en sýndarmennska til að slá pólitískar keilur. Síðan kóróna þeir lýðskrumið með alverlegum ásökunum á hendur Jóhönnu, sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Jafn svívirðilegur rógburður og þetta er fáheyrður í pólitík hér á landi.

Sigurður M Grétarsson, 13.10.2009 kl. 18:11

4 identicon

Sú rætni sem í gangi er kemur frá hrunaflokkunum - Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki - sem ekki virðast geta sætt sig við að sitja ekki við stjórnvölinn í samfélaginu. Því virðist einskis látið ófreistað að róta upp moldviðri og viðhalda því vantrausti sem fyrri stjórnvöld stóðu frammi fyrir meðal almennings og þess freistað að koma því yfir á núverandi stjórn.

Reinhard Reynisson (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 20:40

5 identicon

Engir langhundar fá breytt þeirri staðreynd að Sigmundur Davíð og Höskuldur komast ekki frá þessu frumhlaupi og sneypuför með óskaddað mannorð.

Landráðabrigsl þeirra og  tilraunir til að koma smjörklípum á forsætisráðherra eru vægast sagt lélegar tilraunir til að leiða athyglina frá sjálfum sér og hittir þá sjálfa fyrir!

Sverrir (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 20:57

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Satt er það að alltog margt sem sagt hefur verið um þessa för er örugglega ofsagt á báða bóga. Þú ert heldur ekki alveg hlutlaus Salvör. Hvað er annars tölvupóstsnifsi?

Sæmundur Bjarnason, 13.10.2009 kl. 21:22

7 Smámynd: Gissur Jónsson

Þakka þér fyrir góða grein Salvör. Öll umræða er þörf og sérstaklega er mikilvægt að stjórnmálamenn beiti sér fyrir lausnum á vandanum sem við stöndum frammi fyrir en að nýða skóinn af náunganum eins og manni virðist að alltof mikil orka fari í hjá ríkisstjórn og stuðningsmönnum hennar. Maður veltir fyrir sér hvort að þetta sé lýðræðið á Nýja-Íslandi.

Þó ég sé ósammála ríkisstjórninni um leiðir út úr kreppunni þá ber ég samt virðingu fyrir því og efast ekki um að hún er að reyna sitt besta. Ég ætla ekki að standa í orrahríð við að nýða niður starf sem stjórnin vinnur heldur tek undir með lýðræðislegum vinnubrögðum Framsóknarflokksins sem leitar og bendir á LAUSNIR.

Gissur Jónsson, 13.10.2009 kl. 22:52

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Alma: þú spyrð "Getur íslenskur alþingismaður upp á sitt einsdæmi leitað eftir lánafyrirgreiðslu annars lands ?  Kveður stjórnarskráin á um það ?"

Það er málfrelsi. Það geta allir farið til Noregs og beðið norsk stjórnvöld að hjálpa okkur. Norðmenn gætu ákveðið að hjálpa okkur án þess að ríkisstjórn Íslands vildi. Það er hins vegar ekki klókt hjá þeim að gera það og til að norska ríkisstjórnin taki fyrir hjálparbeiðni frá Íslandi þarf að koma formlegt erindi frá Íslandi. Það vill Jóhanna hins vegar ekki.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.10.2009 kl. 08:42

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sæmundur: Ég játa tvöfeldni mína:-) Mér ferst náttúrulega ekki að hneykslast yfir rætni í umræðunni og kalla svo bréf hæstvirts forsætisráðherra "tölvupóstsnifsi". Svona til upplýsingar þá hafði ég fyrst skrifað miklu rustalegri texta sem lýsti vel viðhorfi mínu til hvernig hæstvirtur forsætisráðherra tók á málum. Ég ákvað hins vegar að safna saman fyrirlitningu minni í þetta eina orð "tölvupóstsnifsi". Það er verulega rætið orð og þrungið merkingu. Ég hugsa samt að ég komist ekki á verðlaunapalla fyrir rætnasta bloggarann út af þessu orði:-) 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.10.2009 kl. 08:50

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hvort sem ferð þeirra Sigmundar og Höskuldar var erindisleysa eða ber árangur þá er hér um virðingarverða tilraun að ræða. Bara málfarið sem viðhaft var í tölvupóstinum sýnir í besta falli metnaðarleysi við skrif hans. Ef sá sem hélt á penna var góður í dönsku þá skín í illkvittni í tölvupósinum "taler for egen regning"  og "udspil"  voru orð sem notuð voru um norska þingmanninn. 

Í færslu minni hér sýni ég fram á að tölvupósturinn til Stoltengerg og "þýðing" hans á íslensku eru ekki samhljóða heldur er þar merkingarmunur. 

Sigurður Þórðarson, 15.10.2009 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband