Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Hvers vegna fékk Framsókn aðeins 2.7% fylgi í Reykjavík?

Úrslit borgarstjórakosninga í Reykjavík eru þannig að allir gömlu flokkarnir eru taparar, bara tapa mismiklu. Það er enda einfalt reikningsdæmi að ef til kemur nýtt afl eins og Besti flokkurinn sem hrifsar til sín 35% atkvæða þá fá aðrir færri atkvæði.  En hvers vegna fékk grínframboð svona gríðarmikið fylgi? Gamalreyndir stjórnmálamenn segja að galdur í stjórnmálum sé að toppa á réttum tíma.  Besti flokkurinn gerði það.  Hann byrjar sennilega sem gjörningur eins manns en kemur fram sem hreyfiafl stjórnmála í Reykjavík eftir að  vika eftir viku í þjóðmálaumræðu hefur farið í að velta sér upp úr Hrunskýrslunni, skýrslu sem er þungur áfellisdómur um íslenskt fjármálakerfi, fjölmiðla og stjórnmál á árunum fyrir Hrunið. Fólk er reitt, vonsvikið og vonlaust. Traust á stjórnmálamenn er þorrið, það er svo lítið að það er í lagi að veðja bara á djók. Besti flokkurinn fyllti ekki upp í tómarúm, það er ekki rétt líking, við erum þrúguð undir miklu fargi og við getum okkur lítið hreyft. Besti flokkurinn léttir okkur lundina á meðan við bíðum eftir einhverju björgunarliði sem aldrei kemur. Kannski verður hann til að við áttum okkur fyrr á því að við verðum að bjarga okkur sjálf og við það verðum við að grípa til óhefðbundinna leiða.

Jón Gnarr oddviti Æ-listans er  þjóðþekktur og vinsæll og fær fólk til að brosa. Hann getur sagt ekki neitt og bullað á skemmtilega fyndinn hátt. Það er betra en venjulegir stjórnmálamenn sem segja ekki neitt og meina ekki það sem þeir segja en gera það á hrútleiðinlegan hátt.

Athygli þjóðarinnar var ekki á þessum kosningum. Fólk bara gaf sér tíma til að spá aðeins í þetta meðfram Eurovision og þegar hlé varð á umfjöllun um Hrunskýrsluna. Margir vilja breytingar, nýja hugsun, nýja nálgun.  Seinasta kjörtímabil í Reykjavík hefur á köflum verið eins og leikhús fáránleikans, meirihlutar myndaðir í skjóli nætur og þegar fólk situr á fundi með einum er það að díla við annan og  REI málið var áfellisdómur fyrir fyrsta meirihluta og dýpra verður ekki sokkið hjá neinu stjórnmálaafli en að gera Ólaf Magnússon að borgarstjóra eins og gert var í þriðja meirihluta. Það var eingöngu í síðasta meirihluta sem ró var á stjórn borgarinnar og innleidd voru samvinnuvinnubrögð í stað átaka. Samvinna byggir á umræðu og yfirvegun og aðkomu margra og umræðu um rök og mótrök í hverju máli.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 og á tíma fyrsta meirihlutans var eitt af slagorðum Framsóknar hugtakið athafnastjórnmál  og  helstu baráttumálin í  kosningabaráttunni voru að færa flugvöllinn á Löngusker og byggja jarðgöng fyrir Sundabraut. Þessi mál koðnuðu niður á kjörtímabilinu og núna í síðasta meirihluta sem var undir stjórn Óskars frá Framsókn og Hönnu Birnu frá Sjálfstæðisflokki var áherslan á velferðarmálin og samvinnu og samráð. Áherslan hafði færst frá framkvæmdagleði og athafnaþrá yfir  hvernig ætti að standa sem sársaukalausast að stjórn borgarinnar á samdráttartímum, draga úr umsvifun en samt reyna að sjá til þess að hér yrði ekki upplausnarástand og atvinna og uppbygging stöðvaðist. Það er mat mitt að Framsóknarflokknum hafi tekist best upp í síðasta meirihluta og komið með hógværð og samvinnu að leiðarljósi að því að stýra Reykjavíkurborg á erfiðum tímum.

Óskar lagði sig líka fram um að byggja upp Framsóknarflokkinn að nýju eftir hatrammar deilur og hnífaslagi.  Einar Skúlason bauð sig fram gegn Óskari á kjörfundi okkar í nóvember og vann með miklum yfirburðum. Einar er vinsæll og vel kynntur og maður sem nýtur trausts innan Framsóknar en er ekki mjög þekktur. Sennilegt er að margir sem kusu Einar hafi  viljað endurnýjun, viljað að þeir sem voru í framlínu á tímanum fyrir Hrunið og komust inn í stjórnmálin með þeim vinnubrögðum sem þá tíðkuðust ættu að stíga til hliðar. Hins vegar varð  þetta til þess að margir sem studdu Óskar urðu sárir og þessi oddvitaskipti í Reykjavík leiddu til þess að framboðið naut ekki þess meðbyrs sem t.d. Hanna Birna hafði af góðum verkum í Reykjavíkurborg þar sem henni og Óskari hafði tekist að snúa við blaðinu í stjórn borgarinna þannig að þar sem áður var upplausnarástand og sundrun var núna sátt og samvinna.  Einnig kom í ljós að  fyrirtæki í eigu aðila sem var í öðru sæti listans var nefnt í Hrunskýrslunni vegna 8 milljarða króna  sem það fyrirtæki hafði gengist í ábyrgð fyrir og var viðkomandi beðinn að víkja af listanum. Ég held að bæði oddvitaskiptin og útskipting á manni í 2. sæti hafi sundrað hluta Framsóknarmanna og þá sérstaklega oddvitaskiptin. En það gerðist reyndar líka árið 2006 að mikil sárindi urðu og Anna Kristinsdóttir sem var borgarfulltrúi og lenti í 2. sæti í prófkjöri tók ekki sæti á listanum og gekk síðar úr flokknum.  Þetta er því miður það sem gerist í prófkjörum, það er innbyggð í þau svona tvístrun á samherjum og þau ala á sundrungu. Við persónukjör mun verða lítil þörf á prófkjörum.

Á listanum var vel valinn hópur af áhugasömu hugsjónafólki. Engin þeirra var þó  þekkt andlit í þjóðlífinu og stefnumálin voru áþekk öðrum flokkum sem lögðu áherslu á velferð í borginni. Í því einkennilega andrúmslofti sem var núna þá bara náði stefna Framsóknarflokksins ekki í gegn og það var ekki neitt sem fangaði athygli kjósenda og sagði þeim hvers vegna þau ættu að kjósa Framsóknarflokkinn. Samfylkingin gaf sig út sem atvinnusköpunarflokk, soldið í sama fasa og Framsókn var árið 2006 og VG var velferðarkerfisflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn í gervi Hönnu Birnu birtist okkur sem alltumfaðmandi félagshyggjufaðmur með samvinnusniði.  Við þetta bættist að Einar sem er hvers manns hugljúfi er ekki sérstaklega vanur fjölmiðlamaður og átti ekki sams konar spretti í sjónvarpi og öðrum ljósvakamiðlum eins og Björn Ingi átti rétt fyrir kosningarnar 2006. Það verður reyndar að skrifast á ábyrgð fjölmiðla hve illa þeir gera stjórnmálastarfi skil og hve grunn og yfirborðsleg umræða er þar. Það sást sérstaklega vel núna eftir kosningarnar, það var ekki áhugi á því að kryfja stöðuna heldur að búa til tilfinningaþrungnar stundir og sjá tapara engjast.  Stjórnmálaleiðtogar fjórflokkanna fá núna margir hverjir spurningu um hvort þeir alli ekki að segja af sér, spurningu sem kemur áður en skoðað er hvað gerðist.  

Þetta framboð var heiðarlegt framboð þar sem ekki var borist mikið á, engir sterkir bakhjarlar með annarleg sjónarmið fjármögnuðu kosningabaráttuna og það var mjög þröngur fjárhagur og lítið svigrúm til auglýsinga og litlir möguleikar á að komast í fjölmiðla. Allt þetta gerði það að verkum að framboð Framsóknarflokksins var í bakgrunni og ekki inn í umræðunni.  Ef borið er saman árið 2006 þá einkenndist sá tími af heiftarlegum árásum á Framsóknarflokkinn, árásum sem Björn Ingi tók mjög fimlega á í orðræðu í fjölmiðlum.  Í síðustu Alþingiskosningum þá vann Framsóknarflokkurinn mikið á (eftir að hafa tapa áður) og þar hafði mikið að segja góð frammistaða þeirra í sjónvarpi og svo held ég að 20% niðurfelling skulda hafi slegið í gegn. Framsóknarframboðið var framboðið sem stóð með heimilum í landinu, tók stöðu með þeim sem skulda, ekki með lánadrottnunum. Einnig vissu allir að formaður og margir aðrir í Framsókn voru í fararbroddi í Indefence, í baráttu á móti hinum ósanngjörnu Icesave samningum. Þannig kom Framsóknarflokkurinn út í síðustu kosningum sem viðspyrnuafl bæði á móti innlendum lánadrottnum og erlendum og það var þetta einfalda tákn "20 % niðurfelling skulda" sem myndgerði það. Auk þess sem efnahagstillögur og stefna var ígrunduð, öfgalaus og yfirveguð. 

Ég held satt að segja að staðan hafi verið þannig í Reykjavík núna að ógerlegt hefði verið fyrir Einar að ná þeim hljómgrunni hjá kjósendum sem þurfti. Það hefði þurft bæði miklu hnitmiðaðri stefnuskrá sem sýndi hvað var öðruvísi hjá Framsókn en hjá öðrum flokkum, stefnuskrá sem var í samræmi við  samvinnuhugsjón sem setur manngildi ofar auðgildi en sýndi þá styrkleika Framsóknarflokks sem öflalauss miðjuafls sem sameinar en sundrar ekki og er jarðbundið og lausnamiðað. Ég held líka að það hafi verið of brött skil á milli Björn Inga/Óskars og svo Einars Skúlasonar, of  mikill biti fyrir kjósendur að sjá flokk sem höfðar til smáatvinnurekenda eins og iðnaðarmanna og bænda og leggur áherslu á fulla atvinnu hvað sem það kostar yfir í að vera umbótaflokkur sem leggur megináherslu á velferðarmálin.  Það líka skein ekki nógu vel í gegn því allir fjórir flokkarnir lögðu áherslu á velferðarmál og grunnþjónustu.  Ég veit að Einar stendur fyrir fjölbreytni, hann vann hjá Alþjóðahúsi og hefur beitt sér fyrir málefnum nýbúa og honum eru þau mál sérstaklega hugleikin. Ég velti fyrir mér hvort það hefði t.d. verið sterkt að þessi málaflokkur hefði verið gerður sýnilegri og lögð áhersla á borg fjölbreytileikans og þar sem fólk af mismunandi uppruna og alls konar ólíkt fólk lifir og starfar saman.  Það vantaði eitthvað í stefnuskrána til að höfða til fólks og boða nýja tíma. Það eru í henni setningar eins og "Við viljum sækja fram í atvinnumálum, umhverfis- og samgöngumálum" og "Við viljum tryggja velferð Reykvíkinga...". Hver vill það ekki? 

Það vantaði að segja  hvað Framsókn stendur fyrir sem hinir flokkarnir standa ekki fyrir.

Ég held líka að skondnir viðburðir eða nýjar hugmyndir um hvernig málstaðurinn er kynntur hefði unnið með framboðinu. Þar hafði Besti flokkurinn náttúrulega forskot enda er það nokkurs konar gjörningaframboð og Einar Ben. hefur nú reynslu af að plögga Bubba og Björk með góðum árangri.

Það getur líka verið að kjósendur í Reykjavík séu með þessu að segja "gefum Framsókn frí", ekki á sama kvikyndislega hátt og Vinstri grænir hafa sagt heldur bara svona góðlátlega "gefum Framsókn frí og leyfum núna öðrum að spreyta sig um hríð, Framsókn hefur vissulega breytt sér og er á góðri leið en undanfarin fjögur ár hefur hún ráðið allt of miklu í borginni miðað við flokksfylgi og það er því bara sanngjarnt að hún sitji núna hjá og komi eldspræk til leiks næst"

Ef  það er eitthvað sem við í Framsóknarflokknum getum lært af þessu þá er það að ekki er á vísan að róa um kjörfylgi og það er mikilvægt að hlú að innra starfi og þá sérstaklega því sem sameinar fremur en því sem sundrar. Einnig þarf meiri fókus og nafnaskoðun á því hvað flokkurinn stendur fyrir, ekki bara stefna heldur líka vinnubrögð.

 

 Alþingiskosningar 2007

Reykjavík suður 2081 (1. sæti  Jónína Bjartmarz)
Reykjavík norður  2186 (1. sæti Jón Sigurðsson formaður)

 

Alþingiskosningar 2009
Reykjavík suður 3635 (1. sæti Vigdís Hauksdóttir)
Reykjavík norður 3375  (1. sæti Sigmundur Davíð formaður)



mbl.is Gagnrýna þingmann sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr og Goðmundur á Glæsivöllum

Ég  óska öllum þeim 15 borgarfulltrúum sem hlutu kosningu í nótt til hamingju og sérstaklega óska ég Besta flokknum til hamingju, þau lögðu Reykjavík að velli og vopn þeirra voru ekki kylfur eða byssur eða sprengjur, vopn þeirra voru breytingavilji, satíra, grín og háð og þekktur og vinsæll leikari, liðsmenn þeirra voru skapandi listamenn sem breyttu - eða öllu heldur afhjúpuðu - stjórnmálunum í farsa. Ég bjó til sérstakt myndverk til heiðurs þessum 15 nýkjörnu borgarfulltrúum, það er hérna:

Vantraust2 Auðvitað er ég samt undir niðri svolítið  súr yfir að Besta flokknum skuli ganga svona vel, hvaða réttlæti er í því að vinsæll grínleikari  skuli einn daginn segjast vera að leita að þægilegri innivinnu og svo næsta dag rusla sex með sér inn í borgarstjórn. Já svo súr að ég má til með að vitna í ljóðið hans Gríms Thomsen um Goðmund á Glæsivöllum  en svona lýsir Grímur senunni:

 Hjá Goðmundi á Glæsivöllum
gleði er í höll,
glymja hlátra sköll
og trúðar og leikarar leika þar um völl
en lítt er af setningi slegið.

Svo má náttúrulega reyna að sjá sömu  feiknstafi  í brosum Goðmunds Gríms og hins broshýra Gnarr sem er með fangelsi á heilanum og hefur það helsta baráttumál að gera Reykjavík að alþjóðlegri fanganýlendu. Svona lýsir Grímur Goðmundi konungi:

Goðmundur kóngur
er kurteis og hýr,
yfir köldu býr.
Fránar eru sjónir en fölur er hans hlýr
og feiknstafir svigna í brosi.

En það er best að tapa sér ekki í beisku og biturð yfir úrslitum og viðurkenna ósigur, viðurkenna að Gnarr hefur í magntölum mælt mun betri árangur en við hin, við sem höfum starfað innan stjórnmálaflokka af heiðarleika og hugsjón og reynt að breyta vinnulagi þar. En ég tek undir með Jóhönnu Sigurðardóttur, ég held að þessar kosningar marki endalok fjórflokksins og kannski endalok ákveðinnar gerðar af stjórnmálum. Ég held líka að nú ættu allir flokkar að íhuga mjög gaumgæfilega stöðu sína og vinnubrögð og hafa frumkvæði að  því að sameinast um ákveðin málefni þvert á hefðbundnar flokkslínur.  

Svona þegar beiskunni sleppir þá get ég alveg viðurkennt að  Besti flokkurinn er að mörgu leyti jákvætt afl í íslenskum stjórnmálum. Það eru margir listamenn og hugmyndasmiðir í þeirra sveit og ég held að það sé einmitt það sem Reykjavík vantar núna, svona andstæðu við excel-hugsunarhátt  og skrifræðisstjórn  sem þar að auki hefur undanfarin ár eða áratugi verið stjórn sem gætir betur að hagsmunum eignafólks og atvinnurekenda en almennings. Hérna nefni ég sérstaklega hvernig rústasvæðum eftir Hrunið er leyft að grotna niður og hvernig allt umhverfi er skipulagt með hagsmuni þeirra sem hafa tekjur af meiri neyslu í huga, þannig er miðbærinn fyrst og fremst settur upp með hagsmuni verslunareigenda, barrekenda og túristaiðnaðar í huga og  almenningur eins og rekinn í burtu út úr eigin borg - nema hann ætli að versla eitthvað. Svo hefur borgin sjálf verið í gegnum fyrirtæki eins og OR í vægast sagt einkennilegu bralli á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Ég tel hins vegar að varðandi ýmis konar velferðarmál hafi Reykjavíkurborg verið vel stjórnað, ekki síst núna eftir hrun og það hafi verið unnið í sátt allra aðila út úr mjög erfiðri stöðu sem upp kom eftir Hrunið. Því er hins vegar ekki að leyna að hluti af síðasta kjörtímabili var skrípaleikur og þar vil ég sérstaklega nefna endalok fyrsta meirihluta í kjölfar REI málsins og svo alla stjórnartíð Ólafs Magnússonar sem var  harmsaga ein. Ég held að það væri mikil afturför ef horfin verður frá þeim samvinnuvinnubrögðum sem einkenndu síðasta hluta kjörtímabilsins.

Það er von mín að nýir valdhafar í Reykjavík fari vel með auðæfi borgarinnar - auðæfi sem eru ekki nema að litlu leyti mæld í krónum, auðæfi sem eru ekki nema að litlu leyti sýnileg vegna þess að þau eru fólgin í tengslum og venslum og infrastrúktúr og því sem er svo smágert og handanheimslegt að það sést ekki ef sá sem skoðar er með gleraugu sem mæla bara gróða og tap.


mbl.is Besti flokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni

 Ríkisstjórn Íslands er eins og Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni í þessu Magma skúffufyrirtækis í Svíþjóð máli. Hún er eins og bandingi í skuldum sem er farin að kóa svo mikið með þeim sem fjötruðu hana að hún sér ekki lengur hvað er fyrir utan byrgið sem hún er króuð inn í og orðræða hennar er orðræða ræningjanna. 

Með vitund og  vilja  horfa stjórnvöld núna  á þegar almenningur á Íslandi er rændur, ekki bara einu sinni, ekki bara í Hruninu mikla sem svipti aleigu margra burtu og lífsviðurværi og kramdi okkur undir bankaskuldum útrásarvíkinga, skuldum sem við vissum ekki einu sinni að væru til hvað þá s að við þyrftum að bera ábyrgð á gripdeildum þeirra.

Við erum nefnilega rænd aftur og aftur og það er settur  upp fyrir okkur  einhvers konar fjármálafarsi þar sem persónur og leikendur þyrla í kringum sig pappírum sem þeir búa til sjálfir og sá vinnur mestu spilapeningahrúgu fyrir næsta leik sem getur látið strókinn í kringum sig birtast sem stærstan og hefur mestu ítök þannig að hann geti beint sem flestum minni strókum  inn í sinn eigin strók.Stöku sinnum slokknar á blæstrinum að neðan og þá detta allir spilapeningarnir niður  og hjaðna niður í næstum ekki neitt og verða bara að örsmáum pappírssnifsum  en þegar það gerist þá verður sá sigurvegari sem strax sópar að sér snifsunum og reynir að blása þau upp og líma saman.

Leiksviðið fyrir þetta absurdleikhús er lög og reglur sem Alþingi hefur sett til í sinni fjármálabræðslu, þeirri bræðslu sem stjórnvöld stýra,  bræðslu sem miðar að því  að búa til sem flesta strompa sem blásið geta upp pappírum og ketillinn sem knýr  blásturinn kemur að utan, kemur úr yfirhituðu fjármálakerfi heimsins og úr fjármálaumhverfi efnahagsbandalags þar sem lög og reglur eru útfærðar til að tryggja hagsmuni peningahöndlara, þar sem lög og reglur miða að því að þeir geti hvenær sem þeim þóknast skipt pappírsbúnkum í raunveruleg verðmæti,  veitt í háf  verðbréfabunka úr stróknum sínum og sagt það verðmæti, sagt að með því ætli þeir að greiða fyrir fiskikvóta og orkulindir, með því ætli þeir að leggja niður sjávarþorp á Ísland, með því ætli þeir að sölsa undir sig orkuver og lendur íslensku þjóðarinnar. 

 En þetta skrípa- og hryllingsleikhús er ekki bara leiksýning sem við förum í eitt kvöld til að skemmta okkur, ljósin eru aldrei slökkt í þessu leikhúsi fáránleikans og fjármálafarsinn heldur áfram. Bara með stærri og stærri leikurum, það sem hét grísk skuldabréf í gríska stróknum í gær heitir euro bonds á morgun og kannski veraldarbönd  á næsta misseri.  Skrípaleikurinn heldur áfram á meðan stjórnvöld trúa að hann sé ekki leikrit  eða eru svo óttaslegin um eigin stöðu að þau þora ekki að horfast í augu við það og á meðan almenningur allra landa hefur ekki áttað sig á að þetta  er blekking. 

Heimur okkar er vissulega byggður upp af mörgum blekkingum en sumar eru svo hagnýtar og nytsamlegar til að stýra ferðum okkar í hinum raunverulega heimi að við lítum á svoleiðis blekkingar sem  líkön og leiðarhnoð í öllum glundroðanum. En þannig er ekki um fjármálakerfi heimsins í dag. það er stórlaskað og passar engan veginn við raunverulega heiminn, heim framleiðslu og iðju, heim samskipta og tækni, heim siðmenningar og samhjálpar.

Í þeim farsa sem nú birtist okkur í sölu á íslenskum orkufyrirtækjum til kommóðuskúffunnar Magma energy í Svíþjóð er blóðugur slagur í gangi um yfirráð yfir íslenskum orkuauðlindum. Og við erum rænd um hábjartan dag af ræningjum sem eru miklu grimmari og verri en ræningjarnir úr Kardímoníubænum, þessir ræningjar eru engir Jasper, Kasper og Jónatan og það þýðir engin Soffíufrænkuvettlingatök til að taka á málum núna. Ríkisstjórn sem vissulega er í haldi ræningjanna eins og Soffía frænka var á sínum tíma getur ekki ráðið við málið með einhverju umli um að ætla að ræða um að breyta smávegis upphæðum í ránsfengnum, bara það að taka þátt í slíkum umræðum er sýnir vanmátt og firringu þannig stjórnar, sýnir að  ríkisstjórnin  er núna eins og  Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni. Ríkisstjórnir allra vestrænna ríkja eru reyndar svo flæktar í eigin veðbönd að þær geta sig hvergi hrært  til að koma þegnum sínum til aðstoðar, þær gefa bara frá sér hjáróma hvæs þegar veðköllin dynja á þeim.

Þessi Magma sjónleikur sem núna spinnst fram er dæmi um hvernig við erum rænd því sem umheimurinn og fjármálaheimurinn telur verðmæti í. Fyrst voru orkuverin og veiturnar almenningsfélög sem voru stolt  borgarbúa og bæjarbúa, samfélagsleg verðmæti og auðlegð til framtíðar. Við horfðum stolt á hvernig veiturnar uxu og döfnuðu og hér í Reykjavík hef ég verið ánægð að sjá hvernig Orkuveitan í Reykjavík  hefur keypt upp aðrar veitur og búið til stóran og hagkvæman rekstur og þjónað stórum hluta af þeim sem búa í nágrenni höfuðborgarinnar, okkur öllum og framtíðinni til hagsbóta. Orkuver eru dýr fyrirtæki sem borga sig upp á löngum tíma og það er ekki á færi nema stórra aðila að standa í svoleiðis framkvæmdum. Arðurinn kemur hins vegar á löngum tíma og mest þegar búið er að afskrifa alla stofnfjárfestingu. 

Það var tvennt stórhættulegt sem gerðist.

Annars vegar var það að reglugerðar og lögrammakerfi sem hingað var flutt að utan og fullnustað á Alþingi vegna Esb, lög og reglur sem ætlað var  að tryggja samkeppni og jöfnuð á markaði  voru notuð markvisst til að brjóta niður sameignir almennings á Íslandi og steypa Íslendingum ofan í svarthol kasínókapítalisma. Stjórnvöldum hefði verið í lófa lagið að umsnúa þeim lögum og setja eigin lög, það er aðferð sem EBE þjóðir hafa farið t.d. Frakkar en það var ekki gert hérna, sennilega vegna þess að stjórnvöld voru viljalaust gjörspillt verkfæri í höndum fjárglæframanna og raunar voru margir háttsettir menn í stjórnmálum hér á Íslandi svo mikið á bólakafi í undarlegum tengslum að þeir láta  Mafíuna í samanburði blikna og  líka út eins og róluvöll fyrir börn. Íslensk stjórnmál og íslensk fjölmiðlun var sparkvöllur siðblindingja þar sem sparkað var í og traðkað á almenningi á meðan spekúlantar eins og Björgólfsfeðgar og Bónusfeðgar áttu liðin og sátu í stúkusætum.

Hins vegar gerðist það að settir voru verðmiðar á hluti sem eðli málsins samkvæmt ættu ekki að vera til sölu og raunar stórhættulegt að hafa til sölu og almenningsfyrirtæki í opinberri eigu voru gerð að einhverju HF dæmi og smán saman rutt úr velli öllum girðingum og hömlum sem voru á að slík fyrirtæki gengu kaupum og sölum eins og dótið sem þú kaupir í Hagkaup eða Bónus. Svo var farið að selja úr þessu, byrjað að selja til stærri aðila (Reykjavíkurborg að selja til Landsvirkjunar), pólitískir aðilar að fegra reikningana rétt fyrir kosningar (eins og Árni Sigfússon gerir núna í Reykjanesbæ). Svo fór á stað eitthvað gulllgrafaragróðaorkuspil, búin til  froðufyrirtæki fólks sem var innvígt og innmúrað í   stjórnmál og bankamál og sett upp einhver sýndarviðskipti með hluta í orkuverum og stjórnmálamenn (var það ekki Ingibjörg Sólrún? eða var það Björn Ingi Hrafnsson) þóttust gleypa við þessu og létu eins og þessi viðskipti væru spurning um raunveruleg verðmæti og sögðu eitthvað á þessa leið: "Þetta sýnir hversu mikils virði þessi hlutur okkar er, mikið er gott að hafa þetta á markaði, þá er loks komin einhver verðmiði á þessa eign okkar, eign sem við eigum hérna í sveitarfélaginu en sem við erum ekkert að ávaxta".

Stjórnmálamenn sem svoleiðis mæla eru í besta falli flón sem ná að blekkja sjálfan sig en í versta falli skúrkar sem vilja blekkja almenning vegna þess að þeir eru í þjónustu annarra en almennings. Það er ekki hægt að setja verðmiða á almenningseigur og það þjónar engum tilgangi að setja verðmiða á eitthvað nema þú ætlir að selja það.  Og sumt má ekki selja, sumt er óskynsamlegt að selja sama hvaða verð er í boði og sumt er siðlaust að selja. Það gildir um ýmis konar almenningseigur, um eigur sem hafa verið byggðar upp af mörgum kynslóðum á undan okkur og sem eiga að gagnast mörgum á eftir okkar kynslóð.  Stjórnmálamenn sem skynja ekki að mælikvarðinn peningar er alls ekki hentugur mælikvarði um ýmis konar samfélagsleg verðmæti eru ekki að skilja hvernig á að búa til blómlegt samfélag í dag. Þeir eru stökk í fyrirhrunstíma, stökk í þeim hugsunarhætti frjálshyggju og græðgishugsunar sem speglast í að líta á arðræningja sem góða hirðirinn, hugsunarhátt sem ég útskýrði á sínum tíma í blogginu  Fé án hirðis, góði hirðirinn og þeir sem hirða allt af okkur

Það eru sem sagt bæði lög og reglur og stjórnmálastraumar sem bárust utan úr álfu og fengu meðbyr hér á landi  hjá stjórnvöldum og þingheimi sem og að hér var lítið samfélag þar sem fyrir var á velli hnignandi en þó voldugt ættarveldi sem yfirdekkti með gervigrasi frjálshyggjunnar þann sparkvöll sem liðsmenn feðgapara landsins notuðu til að trampa í svaðið undir sér íslenskan almenning. það verður framtíðarhagfræðinga að sjá stóru línurnar, sjá samsæriskenningar og plott úr fjármálamynstri nútímans á Íslandi en það blasir samt við öllum sem það vill sjá að hroðalegir atburðir eru núna að gerast og stjórnvöld eru lömuð. Lömuð í gíslingu lánardrottna og það eru einhverjir undarlegir fjarlægir lánadrottnar sem núna stjórna Íslandi og hvernig ríkisstjórn Íslands aktar. Það er máttlítil og rám rödd ríkisstjórnar sem segist ekkert geta gert í Magma málinu, ætli bara að tékka á hvort ekki sé hægt að hnika til með árin í samningunum. Samt var þessi ríkisstjórn mynduð með umboð frá fólki sem ruddi burtu hinni vanhæfu ríkisstjórn með búsáhaldabyltingu og hún hefur umboð sitt frá fólki, okkur sem köllum á breytingar, ekki nákvæmlega sömu vinnubrögðin og sömu svikamyllurnar. Núna er búið til kerfi þar sem skúffufyrirtæki gullgrafara er sett niður í Svíþjóð til að fara á svig við Evrópureglur, það grefur sig inn í íslenskar orkuauðlindir og landsvæði en með því fara yfirráðin úr íslenskri lögsögu og  eitthvað út í aflandseyjabuskann. En það koma sáralitlir peningar með þessu fyrirtæki, það fær meiripartinn að láni hjá íslenskum opinberum aðilum og svo ætlar fyrirtækið Magma (já, takk fyrir Netið, við lesum líka erlendar fréttatilkynningar frá Magma og vitum allt um hvað Magma samsteypan þ.e. þessi sem á skúffuna í Svíþjóð er að tapa miklu og hvernig hún ætlar en hefur ekki þegar að fjármagna sig) þe. kommóðan sem heldur utan um skúffuna í Svíþjóð að fjármagna sig eins og gullgrafarar gera, með því að selja hugmyndina og laða til sín fjárfesta og nota "bridge financing" þangað til orkugulgæsirnar byrja að verpa nóg.

Hvaða fáranlega sjónarspil er þetta? Hver hefur bundið ríkisstjórnina svo mikið niður að hún láti þetta viðgangast? Er það einhver vissa um að það komi ekkert nýtt álver nema orkuverið sé einkavætt svo í fyllingu tímans sömu aðilar og eiga álverið geti keypt orkuverin og réttindin? Er það boð sem hafa komið eftir óformlegri leiðum en við sjáum í fréttum um að engin fyrirgreiðsla fyrir skuldþjáða þjóð verði ef ekki verði hér búinn til einkavæðingarumhverfi fyrir orkuveitur og orkuverk svo hér sé hægt að virkja hverja sprænu og hvern hver og  búa svo til rafstreng sem tappar orkunni af landinu og sendir til orkuhungraðrar Evrópu, rafstreng sem  blóðmjólkar Ísland og Íslendinga og sýgur úr þeim orkuna.  

Arionbanki býður til morgunverðarfundar á morgun 20. maí um efnið "Er lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu vænlegur kostur?". Halda menn að svarið sem komið verði fram með verði "Nei, alls ekki, það er best að bíða og doka við, Ísland situr á miklum auðlindum en hér er viðkvæm náttúra og virkjanir og orkusölu þarf að skoða út frá mörgum hliðum, ekki bara peningalegri hagkvæmni fjárfesta"? 

Svo þegar ríkisstjórnin kemur núna lúpulega fram og segist ekki geta gert neitt, það sé ekki hægt að rifta sölunni þá má rifja upp að það voru einmitt fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem gerðu þessa sölu. Atorka er að selja. ATorka var tekin yfir af kröfuhöfum og hlutabréfin núlluð út. Ég var einn af þeim hluthöfum sem fengu sent heim bréf um að hlutabréfin væru orðin eitt stórt núll. En kröfuhafar sem urðu stærstu hluthafar Atorku eftir nauðasamninginn eru

NBI hf.            44,20%
Íslandsbanki hf. 15,25%
Arion Banki hf. 5,00%
Glitnir Banki hf. 4,86%
Drómi hf. 4,55%

Það vill svo til að þessi stærsti kröfuhafi er NBI hf sem er Landsbankinn og það eftir því sem ég best veit banki sem er ennþá í eigu ríkisins og stýrt af fulltrúum skipuðum af ríkisvaldinu. Það verður ekki betur séð en ríkisstjórnin sé núna í samkrulli með öðrum að selja skúffufyrirtæki í Svíþjóð yfirráð yfir íslenskum auðlindum en segi svo í fölskum og hjáróma tón að því miður geti þau ekki gert neitt að þessu...og það sé málið að díla um einhverja breytingu á árum í samningunum. 

Hvað er að gerast? Ekki verður með neinu móti séð að hér sé um gæfulegan samning að ræða. Þvert á móti, þetta er allt mjög skrýtið og furðulegt og mjög mikið sem ekki er á yfirborðinu. Er hér verið að reyna að hliðra til fyrir banka sem standa á brauðfótum?Eru hér aðrir og stærri hagsmunir, hagsmunir sem varða orkumál á Norðurslóðum og valdajafnvægi í þeim heimshluta og ítök til framtíðar? 


mbl.is Magma fær 14,7 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gos, Twitter, náttúruhamfarir og byltingar

Myndband frá Eyjafjallajökli eftir  Sean Stiegemeier 

Þegar aðstæður breytast mjög hratt og þannig að hefðbundnir fjölmiðlar ná ekki á vettvang með fréttirnar þá  koma eiginleikar hinna nýju félagsneta og ýmis konar netmiðlunar í ljós og fréttir ferðast áfram, ekki í gegnum útsendingar heldur meira eins og rafboð sem seitla eða streyma áfram eftir tauganeti heimsins, tauganeti sem núna er samsett að hluta úr sjálfvirkum skynjunarbúnaði og sjálfvirkum sendibúnaði upplýsinga, upplýsinga um jarðskjálfta sem birtast á vef Veðurstofunnar, upplýsinga úr vefmyndavélum  eins og Míla o.fl. hafa sett upp og svo ýmis konar rýni fólks í þessar upplýsingar sem velur út hvaða upplýsingar eru sendar áfram um Netið og hvernig þær eru túlkaðar.

Það er sennilega í stríði og byltingum eða náttúruhamförum sem eiginleikar nýrra félagsmiðla á Netinu og annars konar netmiðlunar koma skýrast í ljós. Eiginleikar sem eru ekki bara tæknilegir heldur líka þannig að miðlunum er öðruvísi stýrt og sú ritskoðun sem þar á sér stað fylgir öðrum reglum en í hefðbundnum prent- og ljósvakamiðlum.

Oft er því haldið fram að hinir nýju miðlar séu óritstýrðir, þar sé fullkomið tjáningarfrelsi og þessir miðlar séu vettvangur hins smáða og hrjáða og  vettvangur þar sem þaggaðir hópar geta látið að sér kveða, hrópað og látið hlusta á sig og haft áhrif. Það er að sumu leyti satt en það er tímabundið ástand.

Ef við gefum okkur að  félagslegt landslag fjölmiðlunar sé þannig að það  skiptist í þá sem hafa rödd þ.e. ráða yfir fjölmiðlun og stýra þeim sannleika sem fjöldanum er birt og hafa í þjónustu sinni flestallt fjölmiðlafólk og bókmenntaelítu sem er þeim háð með lífsviðurværi  og svo hins vegar í  valdalausan og þaggaðan múg sem er eingöngu viðtakendur þess sannleika sem fjölmiðlaeigendur vilja að sé haldið á lofti, sannleika sem er þannig að fjölmiðlaeigendur eru á stalli og fréttaflutningi hagrætt þannig að það þjóni viðskiptahagsmunum þeirra þá getum við líka gefið okkur að eitt af hlutverkum fjölmiðla sé að viðhalda eimitt þannig valdastrúktúr. 

Ef við gefum okkur þannig ástand að allir hefðbundnir fjölmiðlar séu undir stjórn kúgara sem með hliðvörðum og sigturum sigta hvað kastljós fjölmiðla sér og miðlar þá tekur smátíma fyrir slíka fjölmiðlun að átta sig á að völdin eru að fjara undan slíku kerfi - einmitt af því að völdin eru að töluverði leyti fólgin í fjölmiðluninni sjálfri, í því að láta almenning trúa á það líkan sem dregið er upp í fjölmiðlum.  Þetta er svipað og völdin í hefðbundnu peningakerfi eru fólgin í trausti almennings á  því líkani af viðskiptum sem það kerfi byggir á og svo mikilli tiltrú að almenningur notar það kerfi og afneitar því ekki. Sama er um lög og reglur samfélagsins, það er líka líkan og völd laga- og dómskerfis  byggast á því að fólk hafi tiltrú á því kerfi (ekki bara tiltrú á þeim veruleika um réttlæti sem lögin miðla heldur líka tiltrú á að það eigi að hlýða lögunum og það hafi slæmar afleiðingar að það sé ekki gert). Raunar eru völd í margs konar kerfum fólgin í svona tiltrú á að kerfið virki, gott dæmi um þetta eru trúarbrögð og  alls konar sköpunarsögur og upprunasögur sem sagðar eru og endurteknar eins og leiðarstef til að halda hópum saman utan um eitthvað fyrirbæri. 

Ef almenningur hins vegar snýr sér annað t.d. fær boð um hvað er fréttnæmt að gerast ekki frá Mogganum og ekki frá BBC heldur beint frá uppsprettu frétta t.d. sjálfvirkum jarðskjálftamæli eða vefmyndavél frá eldgosi  eða frá símabloggara með vefmyndavél sem tekur upp götuóeirðir þá er þessi ritstýrða og túlkaða og miðlæga miðlun hefðbundins fjölmiðils  orðin minna virði og ef verkfærin (wikifréttir, twitter, blogg, facebook og margt fleira) vinna með þannig miðlun sem er meira eins og ótal fréttastraumar sem samtvinnast og rekjast sundur og eru sumu leyti vélrænir og sumu leyti túlkaðir af fólki þá kemur að þeim punkti að þeir sem stýra og þeir sem búa til og miðla fréttum í hinum hefðbundnu miðlum átta sig á því að þeir eru eins og strandaðir hvalir. 

Þannig er það í dag, þessi tegund af miðlun leikur grátt marga sem sótt hafa völd sín í að byggja í kringum sig hjúp þar sem þeirra eigin sannleikur er sá eini rétti, ríkisstjórnir hafa byggt tilveru sína á því,  stórfyrirtæki athafna sig með hliðsjón af  því og það fjármálakerfi sem umlykur allar vestrænar þjóðir er raunar svo mikið  afsprengi prentaldar að helsta táknmynd þess er einmitt peningaprent og þetta skiptimiðakerfi fyrir flæði í samfélögum er alfarið byggt á trausti almennings, trausti á að einhver raunveruleg verðmæti séu bak við tölur ritaðar á alls konar blöð svo sem hlutabréf, skuldabréf, verðbréf og peninga. 

Hin nýja blanda af félagsneta miðlun og sjálfvirkri miðlun og alls konar sjálfvirkni og vélvæðingu upplýsingaheimsins ógnar sífellt meira hefðbundinni miðlun og er  Disruptive technology sem ýtir burtu eldri aðferðum. Það  getur verið að um tíma hirði engir um að nota slíka miðla nema þeir sem komast ekki að í hefðbundnari miðlum. Þannig var bloggið um tíma og er hugsanlega ennþá miðill hinna áður þögguðu og kannski ein af fáum hugsanlegum leiðum til  að hafa áhrif. Hins vegar er líklegt að sömu öfl og höfðu hagsmuni af að ákveðinn gerð af þeirra sannleika hljómaði átti sig á að sá hljómur deyr út ef þau halda sig eingöngu við hefðbundna fjölmiðlun. Þess vegna sjáum við alls konar tilraunir í gangi að hefðbundnir miðlar (og þá með óbeinum hætti þeir sem að þeim standa) teygja sig yfir í þessa hlið miðlunar. Sumt hefur gengið illa, sumt betur. Á tímabili var bloggsamfélagið í kringum mbl.is einn öflugasti samræðuvettvangur Íslands en það er áberandi hve sá vettvangur var brotinn niður væntanlega  vegna þess að hann þjónaði ekki hagsmunum eigenda þess fjölmiðils.  Það er líka áhugavert í dag að  nokkrir af  áhrifamestu og mest lesnu bloggurum Íslands í dag eru menn sem eiga rætur sínar í gömlum fjölmiðlum t.d. eins og Jónas á jonas.is og Egill á silfri Egils á eyjan.is.   

En það var reyndar Twitter sem ég ætlaði að fjalla um í þessu bloggi og hvernig og hvaða áhrif sá vettvangur hefur núna. Ég hef skrifað áður blogg um Twitter, um hve mikilvægt baráttutæki Twitter getur verið í andspyrnuhreyfingum, sjá hérna Byltingartólið Twitter og morðið á Rodrigo Rosenberg

Twitter er mjög samanþjappaður fréttastraumur, allir geta orðið notendur og þetta er örbloggskerfi og hvert blogg má bara vera 144 stafir, svipað eins og statusuppfærslur í facebook. En twitter er meira en örblogg, það er samræða og samræðurnar fara fram í gegnum að notendur búa til hópa, gerast áskrifendur að fréttastraumum annara og það sem er mikilvægast, auðkenna fréttir sínar sérstaklega fyrir aðra með "tagging" t.d. ákveða að allar fréttir af eldgosunum á Íslandi eigi að merkja með taginu #icerupt og allar fréttir um öskuský eigi að merkja með taginu #ashcloud og allar fréttir um Icesave samningana eigi að merkja með #icesave.

Sem dæmi um  hvernig Twitter vinnur þá póstaði ég í gær í örvæntingu minni um hvernig ástandið væri á Íslandi þegar orkulindir Íslendinga eru að komast úr lögsögu Íslendinga ofan í kommóðuskúffu í Svíþjóð í kommóðu sem er í eigu kanadísks fyrirtækis sem stýrt er af manni sem auðgaðist á spákaupmennsku og viðskiptum með silfurnámur í Suður Ameríku.  Eitt að því sem ég póstaði var vísun í gamla grein um Magma og HS Orku. Svo sá ég í dag þegar ég sló inn leitarorðið Magma í search.twitter.com að einhver háskólamaður við háskóla í USA var að endurpósta (retweet) á twitter vísun í mína twitter sendingu frá því í gær. Þegar ég rakti þræðina áfram þá sá ég að hún hefur rekist á twitter straum frá rvkgrapevine en sá twitternotandi hefur rekist á mitt tvít og endurpóstað (retweet) hann. Sjá þessa skjámynd. Þannig geta sendingar á Twitter borist áfram, ekki bara til þeirra sem fylgjast með straumum (eru á áskriftarlista) heldur líka með leit. 

 magma-retweet.png

Twitter er skráningakerfi, twitter er samræður, twitter er samtvinnun á örstuttum umræðum margra og þannig er twitter líka leitarvél, ein besta leitarvélin til að leita af því nýjasta, því sem er mest í umræðunni, því sem vísar í annað. Margir nota reglubundið twitter til að gefa upp slóðir, segja frá að þeir hafi sett eitthvað nýtt út á vefinn, vísa í slóðir þar sem upplýsingar er að fá. Í öskuskýjafarinu á flugvélum varð til merkingin #ashcloud þar sem allt sem varðaði öskuskýið var sett inn. 

En margir nota twitter líka til að plögga vöru og þjónustu sem þeir eru að selja að afla málstað sínum liðsinnis. Ég og fleiri skráðum oft á twitter færslur þegar Icesave umræðan var í algleymingi. Núna reyna ýmsir aðilar í ferðamálum að plögga á twitter og fleiri netmiðlum að hér á Íslandi sé allt með kyrrum kjörum, að vísu gos en það sé voða meinlaust og sætt fyrir túrista. Ég tók eftir að í gosfréttunum þá voru öðru hverju illa dulbúnar auglýsingar frá hótelum merktar með #icerupt.

Hér er skjámynd af twitterstraum af taginu #icerupt

twitter-auglysingar-icerupt.png

 Þetta mun til lengri tíma eyðileggja þennan vettvang sem og aðra, raunar má segja að twitter komi núna í staðinn fyrir vefþjónustuna Technorati sem virkaði svipað. Auglýsingar verða hávaði á twitterstraumum og að því kemur að upplýsingarnar drukkna í hávaða.  En það er mikilvægt að átta sig á að twitter og svipuð kerfi eru öflug verkfæri þegar náttúruhörmungar ríða yfir og kannski eina sambandið sem næst við fólk er í gegnum gervihnetti og síma sem eru þeim tengdir. Það er mikilvægt fyrir aðila sem samhæfa björgunarstarf að læra á slík verkfæri þ.e. twittersendingar í gegnum símtæki og að lesa og vinna með slíka miðla og nota þá til að samhæfa aðgerðir, það sparar tíma ef til þess kemur að það þarf að nota slík boðkerfi.


 

 

 


mbl.is Mikið sprengigos í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullgrafarafyrirtæki sem stefnir að 1000% gróða

Engin orð fá lýst hve mikla fyrirlitningu ég hef á stjórnmálamönnum og athafnamönnum hérlendum sem nú véla um framtíð Íslands og auðlindir og stefna  til landsins hýenuhjörðum sem renna á blóðslóð skuldfangaðra þjóða.

Það eru núna í gangi dularfullir fjármálagjörningar milli  Geysis Green Energy og fyrirtækis sem er  kanadísk kauphallarkommóða þar sem ein skúffan er í Svíþjóð og upp úr þeirri skúffu hefur magnast upp fálmari sem teygir sig til Íslands. 

Þessir  dularfullu fjármálagjörningar hafa í för með sér að eina íslenska orkufyrirtækið sem er "einkavætt" er komið úr íslenskri lögsögu, komið á rek í heimi kauphallarfyrirtækja sem hvergi eru til nema á aflandseyjum þar sem eigendurnir taka út gróðann sem þeir búa til  fyrir sjálfa sig og flytjaí  fjármálaleg skúmaskot  heimsins.

Í besta falli er þessi dularfulli gjörningur ennþá eitt fjárhagslega sjónarspilið þar sem blankir barónar eru að reyna að búa til peninga með "hype-ið" einu að vopni og með peningasjónhverfingum. Það er skrýtið að lesa í Víkurfréttum svona setningu :

"Salan léttir verulega á skuldum Geysis og auðveldar félaginu til muna að styðja við aðrar eignir í eignasafninu.“"

Þetta er allt öðruvísi en það sem stendur í erlendum tilkynningum. Hvernig stendur á því að  í erlendum fréttatilkynningum segir að Magma muni fjármagna þess með því sem er kallað "Bridge financering" og ætli að fjármagna svona (er sem sagt ekki með neitt fast í hendi núna við undirritun samnings:

"The Company plans to finance this transaction by: bridge financing, conventional debt and/or equity financing, and/or sale of a minority stake in HS Orka to other Icelandic or offshore investors."

Þetta er svolítið öðruvísi hvort maður les ensku fréttatilkynningarnar sem Magma sendir til umheimsins eða þær sem sendar eru til fréttamiðla í Keflavík. Þetta minnir óneitanlega á feikið í Bjarna Ármannssyni þegar hann var að poppa upp gróðann af REI og hlutabréfin bara bólgnuðu út og hækkuðu eins og hendi (hendi Bjarna) væri veifað. Þetta eru einhvern veginn sömu vinnubrögðin.

Þessi brúarfjármögnun (Bridge financing) gengur út á að Magma ætlar  að taka lán (hjá íslenskum lífeyrissjóðum?, hjá Deutsche bank sem á helling af íslenskum krónum föstum hérna?? hjá Kínverjum sem eiga fullt af dollurum og eru að sanka að sér álverum?) þangað til tekjurnar fara að streyma inn. Oft eru bankar þátttakendur í svona brúarfjármögnun.

Það er umhugsunarvert hve margir íslenskir bankamenn fóru til Kanada og sumir eru þar í samstarfi við aðra sem voru í Deutsche bank og aðra aðila sem komu fótunum undir spreðið í Björgólfunum og Bónusfeðgunum, hugsanlega voru Björgúlfarnir allan tímann á mála hjá sér voldugri fjármálamógúlum. En alla vega er staðan þannig núna að hérlendis eru innlyksa mikið af fé svokölluðum jöklabréfum sem  eigendur (deutsche bank og holleskur banki) ráðslaga með (fyrir hverja þessir bankar eru díla, það er önnur spurning en alla vega er því fljótsvarað að það er ekki fyrir almenning í Þýskalandi eða Hollandi) og vilja ávaxta.

Núna eru þessir peningar bundnir í landinu og bankarnir útlensku fúlsa við húsum og fasteignum hérlendis, það er ekki arðvænleg fjárfesting... og er erfitt að breyta í peningaflæði í hverfulum heimi. 

Þess vegna er fjárfesting í orku það sem flestir sem spá fram í tímann telja arðvænlegast. 

Það er mikil hneisa og harmleikur sem nú á sér stað bak við tjöldin með íslenskar auðlindir og stjórnvöld standa ráðalaus  andspænis því að nákvæmlega sams konar vinnubrögð séu núna viðhöfð eins og var fyrir hrun, vinnubrögð sem voru ekki annað en risastór svikamylla. Stjórnvöld bera fyrir sig samevrópskar reglur, það hafi orðið að fullnusta einhverjar reglugerðir og lög frá Evrópusambandinu hérna, lög sem bönnuðu ríkisrekstur í orkugeiranum út frá einhverjum samkeppnissjónarmiðum.

En þessi lög snúast í andhverfu sína, þessi lög snúast núna  í það að verða verkfæri til að ræna almenning íslenskum auðlindum og búa til einokunaraðstöðu erlends einkafyrirtækis á íslenskum orkumarkaði. Mjög sennilega verður það líka til þess að sami eigandi verður á orkuveri og iðjuveri sem nýtir orku frá orkuveri. 

Það er skömm og hneisa fyrir ríkisstjórn Íslands að láta þetta viðgangast og taka þátt í þessu, annað hvort með því að sitja aðgerðarlaus hjá eða með því að segja þetta til að "skapa störf" og þátt í að "virkja okkur út úr vandanum" og "fá fjármagn inn í landið" þegar alls, alls ekkert fjármagn kemur inn í landið, þetta er bara blekkingarleikur til að fjárfesta jöklabréfadótið og soga fé frá lífeyrissjóðum. Fjárfesting í virkjunum er fjárfesting sem skilar ekki arði fyrr en eftir langan tíma og nú er sennilega vitlausasti tími í heimi fyrir Íslendinga stuðla að frekari virkjunum,  tímanum  er miklu betur varið í að knýja lánadrottna (deutche bank o.fl.) að samningaborði og gera þeim ljóst að það þarf að semja um skuldir og hóta því að annars muni framleiðslutækin hérna (virkjanir o.fl.) grotna niður engum til gangs og skálmöld ríkja. 

Þau stjórnvöld  sem bjóða lánadrottnum upp  á að virkja og hrifsa til sín auðlindir í staðinn fyrir skuldir eru eins og verkalýðsforusta sem  segir  vinnuveitendum að þeir þurfi ekki að óttast verkfall eða kauphækkanir eða múður og tekur vökustaurum sem kjarabót og  segir við  umbjóðendur sína, verkafólkið "sjáið hvað við höfum samið vel, við höfum samið um ókeypis vökustaura fyrir alla, allt árið!"


mbl.is Ræddu við lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilborg Dagbjartsdóttir á Austurvelli

Í góða veðrinu í gær fór ég í  árlega fjölmenningargöngu niður Skólavörðustíginn og Laugaveginn og Lækjargötu að Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hátíðin hélt áfram.  Svo fór ég á Austurvöll og kom einmitt þegar Vilborg Dagbjartsdóttir flutti ávarp, þetta var baráttusamkoma fyrir þá níu sakborninga sem hafa verið ákærðir fyrir róstur við Alþingishúsið í janúar 2009, í búsáhaldabyltingunni.

Ég tók upp hluta af ræðu Vilborgar og setti á youtube, það má sjá hérna:

Vilborg líkti saman búsáhaldabyltingunni og róstunum 30. mars 1949 þegar óeirðir brutust út vegna mótmæla um að Ísland gengi í hernaðarbandalagið Nató.

Það er ágætt að íhuga hvað er sameiginlegt með því stríði og þeim hernaðarbandalögum sem í gangi voru í heiminum 1949 og því fjármálastríði sem núna er háð og þeim fjármálabandalögum sem þjóðir heims bindast í þeim stríðsátökum. Það er áhugavert að helstu röksemdir sem nú eru settar fyrir inngöngu Íslands í EBE eru efnahagslegar, efnahagslegur stöðugleiki með að geta hugsanlega tekið upp evru. Á sama tíma verður ekki beinlínis séð að efnahagslegur stöðugleiki né annars konar stöðugleiki sé helsta einkenni EBE ríkja. Það getur verið að við sjáum ennþá meiri grimmd ríkja eða ríkjasamband sem sjá tilveru sinni ógnað og horfast í augu við að hugsanlega munu þau liðast í sundur. 

Faðir minn var ári yngri en Vilborg og ég held að hann og allir vinir hans úr Þingholtunum hafi verið á Austurvelli þennan dag. Ég veit ekki hvort einhver af vinum hans var ákærður þá en ég veit að síminn heima hjá Haraldi tollverði var hleraður vegna stjórnmálaþáttöku sona hans. Þeir voru vinir föður míns.  Alla vega varð þessi reynsla og stjórnmálalandslagið á Íslandi til þess að þeir urðu flestir ákafir kommúnistar og störfuðu í Æskulýðsfylkingunni.

Óeirðirnar á Austurvelli 1949 - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið

Óeirðir á Austurvelli 30. mars 1949 - mbl.is

Borgarskjalasafn 30. mars minnst

Óli Águstar rifjar upp frá sjónarhorni strákanna á Grímsstaðaholtinu

 


Hanna Birna seldi Landsvirkjun, var það góður díll?

Við horfum þessa dagana agndofa  á hvernig   stjórnmálakerfi og bankakerfi Íslendinga brotlendir og splundrast í fallinu og veldur núna ógnartjóni þegar brotin spýtast í allar áttir og lenda á orkumannvirkjum og  útvegsfyrirtækjum. Það er  eins og stríðsþotur útrásarvíkinga með sína þægu stjórnmálamenn sem voru að snapa sér far með þotuliðinu hafi staðið fyrir sjálfsmorðsárás og stungið sér í  niður í Kárahnjúkavirkjun og frystitogara Hbgranda  og flest önnur frumiðjuver á og við Ísland  og mölbrotið  í fallinu allt sem getur gert landið  búvænlegt í framtíðinni og miðin gjöful.

En þó við almenningur horfum á þetta gerast fyrir framan augun á okkur þá er eins og við sjáum enga heildarmynd, við sjáum eingöngu skekkt og bjöguð spegilbrot sem glampa á móti okkur í fjölmiðlum. Fjölmiðlaspegillinn er gerður úr sama efni og spegill Snædrottningarinnar í ævintýrinu og flestum fjölmiðlum hérna er ennþá stýrt af og/eða í  eigu  útrásarvíkinga, útvegsmanna og  ættarveldis í dauðateygjunum.

Við sjáum heldur enga heildarmynd í gegnum augu þeirra stjórnmálamanna sem tifuðu í takt við markaðinn, stjórnmálamanna sem trúðu blint á frjálshyggju og markaðsvæðingu allra hluta. Stjórnmálamanna sem trúðu og trúa á ósýnilega hönd markaðarins og halda að raunveruleikinn séu verðmiðar á alla hluti og blind einkavæðing, stjórnmálamanna sem trúa á samkeppni en ekki samvinnu.

Margir stjórnmálamenn  spegluðu og spegla verðleika sína í gegnum skuldatryggingarálag og matkerfi Moodys og hve vel þeim tekst að þyrla upp fjármálafroðu til að hafa áhrif á slíka kvarða og  tryggja hagsmuni og renta fé  Deutshe Bank og annarra stórra og voldugra fjárfesta.  Þetta er ekkert séríslensk ástand. Stjórnmálamenn hvaðanæva um heiminn laga sig að markaðnum svo mikið að það  er fjármálamarkaðurinn sem stýrir stjórnmálum en ekki öfugt. Það sást vel um seinustu helgi þegar fjármálayfirvöld evrulanda komu saman á neyðarfundi til að setja saman björgunarpakka fyrir Grikkland, aðalmálið var ekki grískur almenningur, aðalmálið var að setja saman nógu trúverðugan pakka fyrir fjárfesta áður en kauphallir heimsins opnuðu.

Á meðan stjórnmálamenn og samtryggingarkerfi stjórnmálanna tifar frá mínútu til mínútu  í takt við kauphallarmarkað og kasínokapítalisk fjármálakerfi, kerfi sem núna afhjúpast núna fyrir okkur að er einn alsherjar blekkingarleikur og mjög hugsanlega saknæmt svindl  þá  þurfa stjórnmálamenn ekki að standa andspænis alþýðu landsins nema á fjögurra ára fresti, í kosningum.

Og það er hefð fyrir því að í kosningum alla vega á Íslandi að  gert sé út á gullfiskaminni kjósenda og séð til þess að kjósendur hafi engar forsendur til að kynna sér málin, ekki af því þau séu svo flókin heldur af því að upplýsingar einfaldlega eru ekki lagðar á borð fyrir fólk, þær eru beinlínis faldar og fólk hefur engin verkfæri til  bera saman gögn,  fylgjast með málum og spyrja og taka þátt í ákvarðanatöku eða amk segja stjórnmálamönnum hvenær þeir eru að taka óhemju áhættusamar ákvarðanir sem skuldbinda alla alþýðu og eru ekki í þágu fjöldans heldur einstakra aðila sem skara eld að eigin köku.

Þeirri blekkingu er haldið að okkur að einhvers konar lýðræðisfyrirkomulag sé í stjórnmálum ef við fáum að greiða atkvæði og tjá okkur um litlu málin sem engu máli skipta fyrir langtímahagsmuni borgarbúa. Hvaða máli skiptir hvort Reykvíkingum finnist að það eigi í sumar að mála leiktækin á leiksvæðinu við Laugarlæk þegar undir eru mál sem varða það hvort Reykvíkingar setji sig á vonarvöl og  afsali samansafnaðri auðlegð fyrri kynslóða, auðlegð sem fólgin er í landinu sjálfu, í lendum sem teknar voru undir virkjanir og fólgin var í eigum borgarinnar, setji verðmiða á eigur sem eðli málsins samkvæmt eru ekki söluvara á markaði og afhendi í snyrtilegum pökkum til einkaaðila, til fjárfesta sem reknir eru áfram af gróðahvöt, til þeirra sem spila og hafa spilað með  í fjárhættuspili vestrænna hagkerfa, til þeirra sem brjóta sér leið inn í almenningseigur með vafningum og fjárhagslegum svikamyllum?

Hanna Birna fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur  leggur stolt fram ársreikning borgarinnar núna í lok kjörtímabilsins. Það er mikilvægt núna rétt fyrir kosningar að reyna að ná til borgarbúa og fá þá til að halda að allt sé í lagi með fjármál borgarinnar. Enda kemur ársreikningurinn alveg ágætlega út, sýnir styrka efnahagsstjórn og við öll sem núna tökum þátt í borgarmálunum vitum að þar er vel unnið núna, unnið í sátt og samvinnu, unnið í anda Samvinnumanna. Þannig var það því miður ekki í stjórn Reykjavíkurborgar alltaf á þessu kjörtímabili.  Þegar upp er staðið og farið yfir þá fjóra meirihluta sem hafa verið í borgarstjórn Reykjavíkur á þessu kjörtímabili þá er það eingöngu meirihluti nr. 2 (undir forustu Dags Eggertssonar með þátttöku Óskars oddvita Framsóknarflokksins) og nr. 4 (undir forustu Hönnu Birnu og með þátttöku Óskars oddvita Framsóknarflokksins) sem hafa staðið af trúmennsku og áreiðanleika að málum og unnið í sátt og samvinnu við borgarbúa og af heilindum að hagsmunum þeirra.

En það hvernig Hanna Birna talar um ársreikning borgarinnar núna minnir óþægilega mikið á fyrri kosningaslagorð Sjálfstæðisflokksins, minnir mikið á þegar Geir Haarde og Þorgerður Katrín seldu kjósendum ímynd sína sem "Traust efnahagsstjórn - þegar öllu er á botninn hvolft". Málið var það að öllu var á botninn hvolt og þegar ausið var úr þeirri fötu kom í ljós að þeirra efnahagsstjórn minni en ekki nein og þau voru í yfirhilmingarreið yfir spilltu og sjúku fjármálakerfi og sök þeirra er svo mikil í þeirri yfirhilmingu að ég skil ekki  ennþá hvers vegna þau eru ekki kölluð fyrir Landsdóm. 

geir-og-katrin

Þess vegna finnst mér borgarbúar eiga kröfu á að vita hvernig staðan raunverulega er núna fyrir kosningarnar, hverjar eru þær skuldbindingar sem munu falla á borgarsjóð ef aðrir aðilar sem borgin er í ábyrgð fyrir munu ekki geta staðið við sínar skuldbindingar. Þá á ég sérstaklega við skuldbindingar  vegna skulda Landsvirkunar og hvernig standa málin út af sölu Landsvirkunar, sölu sem var fullnustuð í tíð 1. meirihluta, í byrjun þess kjörtímabils sem nú er að enda. Þeir borgarfulltrúar sem samþykktu þann samning samkvæmt fundargerð borgarráðs 11. nóvember 2006 voru:

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson
Björn Ingi Hrafnsson.

Hver er staðan  í lok kjörtímabilsins?
Er líklegt að þessi samningur skelli á okkur, okkur að óvörum ei eins og gerðist með  Icesave? Hvernig var borgun háttað frá Landsvirkjun? Var það bara að taka yfir lífeyrisskuldbindingar? Var þessi samningur einhver díll til að byrja að koma orkuauðlindum Íslendinga til einkaaðila,  aðgerð sem raunar bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa staðið að? Hvað ef Landsvirkjun getur ekki staðið við sínar skuldbindingar? Lenda lífeyrisskuldbindingar þá ekki hvort sem er á borginni? Ef allt fer á versta hugsanlega veg, þýðir það þá að borgin seldi Landsvirkjun gegn einhverjum skuldabréfum sem hugsanlega fæst ekkert fyrir og gegn yfirtöku lífeyrisgreiðsla sem munu koma hvort sem er koma í fangið á borginni?

Hvernig er samningurinn um söluna á Landsvirkjun? Getur verið að risastór hlutur í stærsta orkufyrirtæki Íslands hafi verið seldur fyrir spilapeninga og möndl og getur verið að sú staða komi upp að Reykjavíkurborg eigi ekkert í Landsvirkjun og engar forgangskröfur í eignir þar en standi uppi með ábyrgðir fyrir mikli stærri upphæð?

Þeir borgarfulltrúar sem skrifuðu undir samninginn um sölu á  Landsvirkjun á sínum tíma verða að hlíta því að fjárhagslegt innsæi þeirra og geta til að stýra stórum fyrirtækjum eins og Reykjavíkurborg séu metnir á grundvelli stærstu og afdrifaríkustu samninga sem þeir gera. 

Því spyr ég. Þegar Hanna Birna seldi Landsvirkjun fyrir fjórum árum, var það góður díll?


mbl.is Kaupþingsmenn fyrir dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Reykjavíkurborg í ábyrgð fyrir miklu af skuldum Landsvirkjunar?

Við horfum á fjármálakerfi Evrópu á heljarþröm. Hættan er ekki gengisfall evru heldur að öllum verði ljóst að einhver ríki munu hvorki vilja né geta staðið við skuldbindingar sínar. Hættunni á hruni í Evrópu var afstýrt um hríð með innspýtingu Evrópska seðlabankans sem lánar Grikkjum þannig að hann kaupir upp ríkisskuldabréf Grikklands og gefur sjálfur út euro bonds.  Því miður er líklegt að skuldavandi annarra Evrópuríkja komi fljótlega upp á yfirborðið. Það er skrýtið að lesa um stofnun neyðarsjóðs "sem ætlað er að koma í veg fyrir að skuldavandi Grikklands breiðist út til annarra evru-ríkja". 

Skuldir eru ekki smitandi en mörg ríki og raunar flest eru í þannig stöðu að þau hafa síðustu ár fjármagnað sig með sölu á ríkisskuldabréfum sem þau geta ekki borgað upp heldur verða að endurnýja og endurnýja, þau þurfa að endurfjármagna sig reglulega. Þetta viðskiptamódel nútíma ríkisfjármála  þekkjum vel  þegar bankakerfið hérna féll með bauki og bramli. Fjárfestar vildu ekki lengur lána bönkunum og mátu það mjög áhættusamt. Meiri áhætta, meiri vextir og himinhátt skuldatryggingarálag. Það var í skamman tíma hægt að leyna vandanum og nota ýmis konar skrýtna gjörninga til að halda uppi verðmæti banka og koma í veg fyrir að matsfyrirtækin lækkuðu matið. Það er verið að rannsaka suma þessa gjörninga sem sakamál núna. 

Tíminn leiðir í ljós hvort traust gufar upp á fjármálamörkuðum Evrópu eða hvort þetta síðasta útspil evrulanda bjargar kerfinu frá falli. Því miður er ekki líklegt að það verði annað en gálgafrestur en ríki  og ríkjasambönd hafa þó það fram yfir banka að þau geta breytt umgjörð fjármálakerfisins og gera það væntanlega sér í hag ef þannig ástæður skapast (sb. neyðarlögin hérna). Það eru sennilega þannig aðstæður núna að evruríki geta ekki hugað að strúktúrbreytingum heldur verða að tjasla saman kerfinu sem fyrir er, en fyrir okkur sem á horfum þá er einkennilegt að stór ríkjasambönd skuli svona lappa upp á kerfið fyrst og fremst frá sjónarhóli fjárfesta og spákaupmanna en ekki aftengja kerfið strax.

Í tilviki Íslendinga þá er það afar óréttmætt og fjandsamlegt almenningi að á svipstundu skuli vera hægt að lækka launin okkar um  tugi prósenta þegar gengi íslensku krónunnar fellur og á sama tíma verðtryggðar og gengistryggðar skuldir og ofan á þetta kemur að grunni undir margri alvöru atvinnustarfsemi var kippt í burtu og margir misstu vinnu og atvinnutæki. En á sama tíma hafi maður gengið undir manns stað í stjórnsýslunni að bjarga innlendum innistæðum í Sjóði 9 og þess háttar peningamarkaðssjóðum og að skuldsetja Íslendinga í margar kynslóðir fyrir skuldbindingum sem við vissum ekkert að við værum í ábyrgð fyrir vegna bankareksturs fjárglæframanna í útlöndum. Við greiddum þjóðaratkvæði um hvernig okkur leist á að taka yfir þær skuldir og gera að okkar skuldum og skuldum afkomenda okkar.  En það sem gerðist á Íslandi er að gerast í mörgum öðrum ríkjum heimsins.

Það er hroðaleg tilhugsun fyrir íbúa í ríki að ríkið verði gjaldþrota eða þurfi að ganga til samninga við þá sem eiga skuldirna? En er það eitthvað hroðalegra en að íbúarnir verði einhvers konar skuldaþrælar í margar kynslóðir?  Er eitthvað að því að horfast í augu við stöðuna, meta ástandið, meta hvað gerist ef við spilum ekki lengur með í fjármálapóker heimsins, spilum ekki með einfaldlega af því við eigum enga spilapeninga lengur og  reynum að sannfæra aðrar þjóðir um að það sem er núna verið að gera og kallað björgunarpakkar víða um lönd er spilaborg, ekki skjaldborg.

Bráðlega göngum við til kosninga hér í Reykjavík. Fjárhagur Reykjavíkur er ágætur samkvæmt þeim ársreikningi sem nú eru lagður fram og öllu er stýrt hér af ráðdeild eftir að síðasti meirihluti (meirihluti nr. 4) tók við.  Reyndar var ástandið líka ágætt í tíð meirihluta nr. 2. Það hefur ekki verið auðvelt verk  en hér í Reykjavík hefur aldrei áður verið eins mikil samvinna milli meirihluta og minnihluta og eins mikil sátt um hvaða leið skuli fara.  Þetta er kærkominn endir á þeim mikla skrípaleik  og fjölmiðlasirkus sem einkenndi borgarmálin á því kjörtímabili sem er að líða. Þar má nefna REI málið og borgarstjóratíð Ólafs Magnússonar og allan þann skrípaleik í kringum þegar meirihlutar féllu og mynduðust. Þetta voru miklir niðurlægingartímar fyrir borgarstjórn og kjörna fulltrúa.

En kjörtímabilið í Reykjavík endar á giftusamlegan hátt. Núna er  tími samvinnustjórnmála í borginni og vonandi verður sams konar sátt um stjórnun borgarinnar eftir kosningar hverjir sem þá koma til að sitja í borgarstjórn. Það er á ábyrgð borgarfulltrúa að sjá um að svo sé en það er á ábyrgð borgarbúa að breyta ekki kosningunum í skrípaleik þar sem sá sem segir mestu brandarana vinnur stærstu sigrana.

En núna þegar ég heyri borgarstjóra tala um góðan hag Reykjavíkurborgar, góðan hag sem vissulega endurspeglast í þeim ársreikningi sem lagður er fram í lok kjörtímabilsins þá get ég ekki gert að því að um mig læðist ótti og ég rifja upp nákvæmlega sams konar orðræðu og Geir Haarde viðhafði á sínum tíma, ég rifja upp áramótaræðu hans í byrjun ársins sem allt hrundi þegar hann sagði ríkissjóð skuldlausan og lýsti ástandinu sem góðu.

Svo kom í ljós að við vorum í ábyrgð fyrir hroðalega miklum skuldum sem til var stofnað í hroðalega einkennilegum gjörðum í hroðalega einkennilegu bankakerfi.

Hverjar eru ábyrgðir Reykvíkinga núna t.d. ef Landsvirkjun verður gjaldþrota eða getur ekki staðið við skuldbindingar sínar? 


mbl.is Gríðarlegar hækkanir á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anno domini 2010 eða anno domino 2010

Það er viðkvæm staða í Evrulöndum núna. Það er ekki spurning um að verja evruna, það hjálpar til lengri tíma litið evrulöndum að hafa gengi evru sem lægst skráð gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það veitir sams konar vernd og lágt gengi íslenskar krónu gerir núna. Evrópsk stjórnvöld skynja brýnast  að koma í veg fyrir algjöran glundroða og að forðast að fjárfestar og spákaupmenn meti stöðuna þannig að ríki eins og Grikkland og önnur ríki sem eru að sigla hraðbyri í sömu stöðu muni hvorki vilja né geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.

Það er raunar frekar ólíklegt að mati margra hagfræðinga að Evruland geti ráðið við vandann, vandinn er of risavaxinn. Löndin eru líka í vandræðum heima fyrir, Portúgal tekur þátt í björgunaraðgerðum fyrir Grikki og lánar Grikkjum á lægri vöxtum en það þarf  sjálft að greiða í vexti þegar það ríki fjármagnar sig með lánum.

Núna kaupir ECB þ.e. evrópski seðlabankinn ríkisskuldabréf af evruþjóðum. Þetta er einhvers konar fiff hjá þeim. Lög Evrópusambandsins banna beint inngrip þ.e. að kaupa skuldir beint af ríkisstjórnum eins og gert var bæði í Bretlandi og USA. Til þess að brjóta ekki þessi lög þá kaupir ECB þessi ríkisskuldabréf á markaði.

Það er ótrúlega villandi fréttaflutningur af þessum fjármálahræringum, látið eins og þetta sé til að verja evruna þ.e. halda gengi hennar háu. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um að ríkisstjórnir Evrópu eru að skoppa í kringum spákaupmenn eins og Soros og halda að þau geti blekkt þá til að trúa því að Grikkland og fleiri ríki ætli og geti borgað ríkisskuldir og ríkisstjórnir Evrópu eru líka að skoppa í kringum lög sem þau sjálf settu þar sem sona inngrip voru bönnuð.

Ríkisstjórnir ganga hér eins og hvarvetna um heiminn erinda fjármagnseigenda og spákaupmanna og raunar skynja sig í helgreipum þeirra og eru það líka. Við búum í hagkerfi sem byggir á skuldum og þeir sem búa til peninga með því að búa til skuldir hafa sóst eftir að lána þeim stóru og öflugu og traustu, sem sé ríkisstjórnum og það hefur verið auðvelt fyrir ríki að sanka að sér skuldum. En núna er staðan sú að ríki eru mörg í sömu stöðu og skuldum vafnir bankar, ríki þurfa stöðugt að endurfjármagna sig með verri og verri kjörum og skuldabyrðin eykst sífellt.

Svona hagkerfi sem byggir á skuldum og þar sem allt er á fleygiferð nema það þarf að standa við skuldbindingar við fjárfesta hvað sem það kostar er ekki að leysa nein mál. Bara að velta undan sér vandanum.

En  til langs tíma þá blekkja svona gerningar ekki Soras eða aðra spákaupmenn og það er afar ólíklegt að ríkisstjórnir ósamstilltra landa sem skynja hagsmuni ekki fara saman geti stillt saman aðgerðir um meira flæði í atvinnulífi og fjármálum.

En stjórnvöld verða að láta þau boð berast til umheimsins að þau ráði við ástandið, þau skynja það sem verstu hugsanlegu stöðu að viðurkenna að vandinn sé þannig að fjármálastjórn ríkja og ríkjasambandi hafi þar lítið að segja.

Það má hérna rifja upp hina miklu hörku sem fjármálaráðherrar og forsætisráðherrar Evrópubandalagsríkja sýndu  þegar íslensk stjórnvöld vildu leita til dómsstóla um málefni innistæðutryggingasjóðs, hörku sem örugglega snerist um að það var meira undir en skuldir Íslands, það var undir tiltrú á fjármálakerfi Evrópu, fjármálakerfi sem riðaði þá og riðar ennþá til falls.

Sagan sem núna er sögð af fallinu mikla í vikunni á Wall Street er nútíma flökkusaga. Það er saga af því að einhver hafi óvart ýtt á billjarða takka þegar hann ætlaði að ýta á milljarða takka, þess vegna hafi markaðurinn fallið um 9 % á einum degi.  En þó sagan sé  ekki sannleikur þá er í henni það sannleikskorn að fjármálamarkaðir eru svo viðkvæmir í dag að einn putti á lyklaborði getur velt stórri skriðu, skriðu sem myndi velta hvort sem er vegna þess að traustið er farið.


mbl.is Stofnun neyðarsjóðs samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalok evrunnar?

Það hriktir í fjármálakerfi Evrópu þessa daganna og ríkisstjórnir eru trúaðri (eða þykjast vera það) en hagfræðingar á því að þær megni að leysa vandann. Það eru því miður engar líkur á að þær nái að leysa vandann með þeim aðferðum sem hingað til hefur verið beitt við skuldum vafin ríki.

Í greininni The end of the Euro  þann 7. maí  rýnir  hagfræðingurinn Niall   Ferguson í stöðu evrunnar. Hér er endursögn á þeirri grein.  Feguson segir að stærsti gallinn í hönnun EMU þ.e. myntbandalagi Evrópu sé að það tengdi saman myntir Evrópulanda án þess að samhæfa fjármálastjórn landanna.

Stofnsamningur EMU hafi þannig birt okkur sannleika um manngerðar stofnanir, sem sagt það að þó hvergi sé skjalfest hvaða ferli eigi að grípa til þegar einhverjar mjög slæmar aðstæður koma upp hindri það ekki að þær aðstæður geti komið upp. (innskot:Við Íslendingar vitum vel hvernig er að lenda milli steins og sleggju í ófullkomnum evrópskum reglugerðum um skuldatryggingar banka, harka Evrópuríkja í því máli var einmitt að málið afhjúpaði veilurnar í regluverkinu og ef látið væri undan kröfum Íslands um dómstólaleiðina þá hefði það fellt Evrópu)

Ferguson segir það hafa verið eina af ástæðum fyrir að Bretland gekk ekki í EMU á sínum tíma. Það hafi verið í umferð  trúnaðarskjal  frá 1998 sem fór yfir hvað gæti gerst ef land  hefði miklu meiri fjárlagahalla/viðskiptahalla  en leyft væri. Það myndi valda miklum usla og ringulreið.  Ástæðan væri  að evrópski seðlabankinn ECB mætti ekki grípa inn í og lána beint til ríkisstjórnar slíks ríkis. Á sama tíma væri engir möguleikar fyrir ríkisstjórn slíks ríkis að ganga úr myntbandalaginu.

"A confidential Bank of England paper circulated in 1998 speculated about what would happen if a country—referred to only as "Country I"—ran much larger deficits than were allowed. The result, the bank warned, would be a colossal mess. Why? Because the new European Central Bank (ECB) was prohibited from bailing out a country with such an excess deficit by lending money directly to the government. Yet, at the same time, there was no mechanism for Country I to exit the monetary union. This rigidity was one reason Harvard economist Martin Feldstein foresaw the single currency leading not to greater harmony in Europe, but to conflict."

Grikkland gekk í EMU 2001. Fyrstu níu árin var evran á blússandi siglingu og allt virtist leika í lyndi og evran naut mikils trausts, mörg ríki (kannast einhver hér við umræðuna á Íslandi?) töldu sig hafa misst af lestinni að vera ekki meðal evruþjóða:

"Between 1999 and 2003, international banks issued more bonds priced in euros than in dollars. The countries that had stayed out began to wonder if they'd missed not just the bus but a luxury coach."

En í október 2009 eftir þingkosningar í Grikklandi upplýsti ný stjórn að fjárlagahalli þar væri  12.7 % af vergri þjóðarframleiðslu (GNP) og evrópski seðlabankinn  ECB  væri á óbeinan hátt að fjármagna þriðjung af lánum grísku ríkisstjórnarinnar í gegnum neyðarlán til grískra banka. Þetta olli einmitt þeirri keðjuverkun sem efasemdarmenn um evruna höfðu óttast. 

Álag á grísk skuldabréf  þaut upp og hafði það þó alltaf verið hátt. Þessi staða Grikklands að vera með mikill og vaxandi fjárlagahalla, miklar ríkisskuldir sem þurfti að endurfjármagna á afarkjörum varð til þess að Grikkland sneri sér til annarra EBE þjóða um neyðarlán. Þjóðverjar o.fl. voru tregir til enda fjármálakreppan í algleymingi. Í apríllok fengu Grikkir €110 billion lán og af því komu €30 billion frá vinum okkar í IMF alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Stjórn Grikklands átti hins vegar í staðinn að herða sultarólina og minnka fjárlagahallann í 3 % árið  2014 með því að draga saman útgjöld og hækka skatta.

Hefur vandamálið verið leyst?

Nei, það er ekki mögulegt að þjóð í mjög djúpri kreppu geti farið þessa leið. Grikkland mun ekki geta staðið við þetta og jafnvel þó að allt gangi eftir þá mun skuldin verða í hámarki 150 prósent af GDP og þar af eiga  7.5 prósent af  GDP að fara í vexti af lánum. Það er enginn vilji í grískum stjórnmálum eða meðal almennings að ganga að þessum kjörum. Ferguson spáir að ríkisstjórn George Papandreou muni falla og ný ríkisstjórn klippa 30 % af grískum skuldabréfum.

Þetta er þó ekki það hættulegasta. Það sem verra er segir Ferguson er að þetta er bráðsmitandi.  Fjárfestar átti sig á því að þar sem þetta gerist með grísk skuldabréf þá muni það einnig geta gerst með skuldabréf annarra þjóða.  Tvö evruríki Ítalía og Belgía eru skuldug og tvö eru á ystu nöf að fara sömu leið og Grikkland, það eru Portúgal og Spánn.

Moody's gaf  ríkisskuldabréfum Portúgals einkunnina Aa2 og að það myndi mögulega lækka. Vaxtaálag á ríkisskuldabréf Spánar hefur snarhækkað og sagt er að  þar þurfi menn ennþá stærri neyðarlán en Grikkland. En þetta er ekki bara eina vandamálið. Lán til annarra ríkja eru líka á efnahagsreikningi Grikklands og fall Grikklands tekur með sér ríki eins og Rúmenía og Búlgaríu sem fjármagna sín ríkisskuldabréf að miklu leyti gegnum lán frá grískum bönkum og þegar þau geta ekki endurfjármagnað þau lán og standa ekki í skilum þá kemur það sem keðjuverkun.

Ferguson telur að það líði meira en ár þangað til fjárfestar átta sig á því að USA er í ennþá verri stöðu en Evrusvæðið. Mismunur er að USA hefur opinbert fjármálakerfi sem nær yfir allt svæði. Ferguson endar greinina með þessum orðum:

"Europe now faces a much bigger decision than whether to bail out Greece. The real choice is between becoming a fully fledged United States of Europe, or remaining little more than a modern-day Holy Roman Empire, a gimcrack hodgepodge of "variable geometry" that will sooner or later fall apart. "

Sem sagt annað hvort verður Evrópa að verða eitt ríki með eina fjármálastjórn eða splundrast.  Ég er hugsi yfir hvort þetta sé rétt greining og raunar get ekki séð annað en hætta sé á að USA leysist upp í fleiri ríki ef það verður ekkert sem heldur því ríki saman nema skuldir og sameiginlegur hernaður. En þessi grein Ferguson sýnir í hve mikilli klemmu þjóðríkin eru og hvernig kasínókapítalísk hagkerfi eru að kafna í eigin spýju. Þjóðríkin og ríkisstjórnir fengu mestu lánin vegna þess að þar þótti áhættan minnst. Nú er svo komið að áhættan á greiðslufalli ríkja er mikil og fjármálakerfi ríkja eru í óleysanlegri skuldabólu sem engin leið er að standa við nema hneppa margar kynslóðir í skuldaánauð. Þessi veruleiki hefur reyndar verið veruleiki margra þróunarríkja, þar hafa óábyrgð stjórnvöld tekið lán og svo hrökklast frá völdum en lánin verða eftir fyrir komandi kynslóðir. Það virðist fátt í sjónmáli fyrir slík ríki og við Íslendingar erum í þessum sporum annað en gera uppreisn skuldsettra þjóða og bindast samtökum og reyna að knýja fram niðurfellingu skulda - eins konar nauðasamninga þjóða. Þetta heitir á latínu debt moratorium.


mbl.is Skuldabréfamarkaðir við suðumark
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband