Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Mannréttindi fanga

Núna þegar tveir menn hafa verið handteknir og er haldið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um fjármagnsglæpi, glæpi sem við íslenskur almenningur teljum að hafi átt mikinn þátt í hruninu á Íslandi þá skulum við hafa í huga að mannréttindi eru fyrir alla, líka bófa og ræningja og misyndismenn.  Það ættu allir að hafa í huga núna þegar fjölmiðlaumræða er mjög óvægin og nærgöngul um þá sem hafa verið hnepptir í varðhald.

Eru myndaseríur af handteknum mönnum í yfirheyrslu eitthvað annað en sýningar á föngum? Er ekki eitthvað athugavert við réttarkerfið í ríki þar sem forsætisráðherra tjáir sig um fanga sem ekki hafa verið ákærðir og  telur handtöku þeirra mikilvægan áfanga í uppgjöri og fjármálaráðherra tjáir sig líka um að hvað það sé gott ef handtakan geti sefað órólegan múginn?

Það er hollt fyrir alla núna að rifja upp alþjóðasamninga um fanga og hvernig þeir hafa verið þverbrotnir af vinaþjóðum okkar og hvernig Ísland hefur verið greiðvikið vinsamlegt ríki sem hér leyfði fangaflutninga og hvernig ríki heims eru smán saman að breytast í lögregluríki þar sem allt í lagi þykir að svipta fólk frelsinu án þess að því sé birt ákæra ef það er í nafni einhvers sem okkur þykir viðurstyggilegt og það breytast alltaf mörkin og viðmiðin og færast nær okkur sjálfum. Við óttumst öll hryðjuverkamenn en hvað er nú langt síðan vinaþjóðin Bretland notaði hryðjuverkalög á Íslendinga? 

En rifjum upp þessi lög í stjórnarskrá Íslands um gæsluvarðhald:

Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt eða varðhald. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur, en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal ákveða í dómsúrskurði hver hún eigi að vera.

Sjá nánar um mannréttindi hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Hér er myndabók um mannréttindi

Hér er mannréttindayfirlýsing Sameinu þjóðanna

Vek sérstaklega athygli á 9. grein mannréttindasáttmálans: "Enginn skal að geðþótta handtekinn, sviptur frelsi eða gerður útlægur." Vek einni athygli  á 10. og 11. grein.Það kann að vera nauðsynlegt vegna rannsóknar fjármálaglæpa að hneppa fólk í gæsluvarðhald en það má undir engum kringumstæðum vera til þess að sefa reiðan almenning. Það er líka alls ekki hægt að vísa fólki með íslenskan ríkisborgararétt úr landi. Púnktur.

 


mbl.is Jóhanna: Mikilvægur áfangi í uppgjörinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pínlegt og heimóttarlegt

Fréttaflutningur á mbl.is og reyndar líka í prentuðu útgáfunni af Morgunblaðinu er núna vægast sagt undarlegur. Hagsmunir rekstraraðila á Morgunblaðinu fara ekki saman við hagsmuni íslensks almennings. Morgunblaðið var keypt eftir hrun af aðilum sem eru nátengdir Sjálfstæðisflokknum, aðilum sem hafa gríðarlega hagsmuni af því að ekki sé hróflað við hvernig yfirráð yfir íslenskum auðlindum hafa sogast á eigu nokkurra örfárra aðila, aðilum sem hafa hagsmuni af því að segja söguna af því hvað gerðist á Íslandi á síðasta áratug og hvers vegna allt hrundi hér sem hrunið gat í  gegnum sín frjálshyggju- og einkavæðingargleraugu. Táknmynd þessa ástands er að Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra og fyrrum seðlabankastjóri er núna ritstjóri Morgunblaðsins.

Það voru tvær fréttir efst á forsíðu mbl.is áðan. Efst var fréttin "Hætt við kvikmyndatökur" , frétt um að hætt hafi verið við að nota Ísland sem tökustað fyrir kvikmyndir núna í miðjum öskustrókinum og eldgosi sem ekkert lát virðist vera á, öskustrókinum sem lamaði flugsamgöngur í Evrópu , öskustrókinum sem barst  víða um lönd og gerði milljónir manna hræddar um að sortinn á himni boðaði ógæfu og frekari náttúruhörmungar. Hin fréttin var slúðurfrétt um seðlabankastjóra og launakjör hans, hvernig samið hefði verið á bak við tjöldin um laun hans.

Það furðar engan að hætt hafi verið við tökur á kvikmyndum á meðan á ósköpunum í Eyjafjallajökli stendur. Ferðamenn hætta líka við ferðir til Íslands og ferðamenn hætta reyndar líka við ferðir í flugi á milli staða í Evrópu á meðan  eitthvað bendir til að þeir komist ekki leiðar sinnar snurðulaust. 

En Ísland verður til langs tíma  aftur eftirsóknarverður tökustaður kvikmynda, Ísland sem hefur verið í fréttum alls staðar í heiminum síðustu vikurnar, Ísland sem í huga heimsins í dag er órjúfanlega tengt svörtu öskuskýi og ógn. Því nær engin markaðsskrifstofa að breyta.

Fimmvörðuháls (wikipedia)

Það er frekar að vinna með þessa nýju ímynd Íslands, ímynd landsins sem er ekki lengur í augum heimsins land ófyrirleitinna útrásarvíkinga og fávísrar alþýðu sem lét þá plata út úr sér aleiguna og æruna, Ísland er samastaður þar sem náttúruöfl innri elds og ytri ísa takast á, Ísland er staðurinn þar sem maðurinn finnur smæð sína gagnvart náttúruöflunum. Mannkynið er ekki miklir gerendur í þeim heimi og þessi átök afhjúpa fyrir okkur hvernig heimsmynd okkar er byggð á blekkingum, byggð á þeim blekkingum að með því að gefa náttúrufyrirbærum nafn og búa til annars konar hugarlíkön af hvernig þau starfa og miðla þeim líkönum okkar á milli þá höfum við á einhvern hátt fellt þau undir okkar stjórn. 

Í frétt Morgunblaðsins stendur:

"Vonast fyrirtækin til þess að skaðinn verði ekki meiri en orðinn er og segja talsmenn þeirra ummæli forseta Íslands um Kötlugos ekki hafa bætt úr skák. Stjórnvöld þurfi að koma þeim skilaboðum skýrt til skila að lífið gangi að langmestu leyti sinn vanagang á Íslandi og óhætt sé að ferðast hingað á meðan flugumferð liggur ekki niðri."

Fréttamennska Morgunblaðsins er einstaklega pínleg varðandi þessa frétt. Auðvitað er og verður Ísland  ævintýraeyja þar sem allt getur gerst og allt virkar hættulegt ennþá svalari tökustaður þegar á annað borð tökumenn eru vissir um að geta komist til landsins og tekið upp myndir hérna. Forseti Íslands er ekki neinn gerandi í því hvort Ísland er tökustaður í kvikmyndum og hann ýtir ekki á takka á fjarstýringu og setur á stað Kötlugos til að fæla túrista frá.  

Eini maðurinn á Íslandi sem á fjarstýringu sem getur komið á stað gosum og látið hveri gjósa er Hrafn Gunnlaugsson. Hann er núna hættur að gjósa og er sestur í helgan stein hérna í Laugarnesinu og einbeitir sér að því að laða til sín álfa og huldufólk og punta í kringum sig.

Mættu fleiri Matthildingar taka sér hann til fyrirmyndar.

En fjarstýringin góða sem Hrafn notaði fyrir margt löngu í kvikmynd til að taka upp gos í Geysi var reyndar bara feik, feik eins og svo margt í hinum manngerða heimi. Hrafn setti sápu í hverinn og þá gaus hann. Það var bara sjónhverfing kvikmyndanna sem bjó til orsakasambandið milli fjarstýringarinnar og  gossins. Fjarstýringin var bara leikmunur.

Forsetinn með sína meintu fjarstýringu á eldgosum og tilheyrandi efnahagshruni Íslands er  bara leikmunur núna í eftirhrunssjónhverfingum Morgunblaðsins.

Þetta leikrit Morgunblaðsins sem kristallast í forsetaóvildinni og í því að aðalatriði sé að fréttirnar frá Íslandi séu túristafréttir um að hér sé allt með kyrrum kjörum   er heimóttarlegt og raunalegt á tímum þar sem allt traust er farið og þú byggir ekki upp traust aftir með því að ljúga meira og meira.

Þú byggir ekki upp lánstraust með því að velta undan þér skuldabolta og endurfjármagna þig hvenær sem tækifæri gefst með nýjum og stærri lánum á verri kjörum, verðleikar þínir í lífinu fara ekki eftir því hvaða lánsfjárseinkunn erlend matsfyrirtæki gefa þér. Þú byggir upp atvinnulíf aftur á Íslandi með því að búa til jarðtengingu, að tengja þig aftur við raunverulega áþreifanlega framleiðslu og afbaka ekki öll boð og vísbendingar um hvernig gengur heldur nota upplýsingar til að breyta og aðlaga sig að aðstæðum.

Þú lifir ekki í sátt við náttúruna á eldfjallaeyju nema hlusta á niðinn og drunurnar sem berast langt innan úr iðrum jarðar og nota vísindin og vitneskjuna til að spá fyrir um hvað mun gerast.  Eldgos mun koma innan tíðar aftur á Ísland og þar eru afar sterkar líkur á Kötlugosi og Heklugosi áður en langt um líður. Það getur líka gosið á Reykjanesi, það hafa mörg gos orðið þar á sögulegum tíma og raunar er það eldfjallakerfi komið á tíma fyrir annað gos.   

 


mbl.is Hætta við kvikmyndatökur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband