Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
31.8.2008 | 14:19
Fargestir við Ísland - ísbirnir, vítisenglar og falun gong liðar
Gott að yfirvöld í Kanada hugi að því að vernda ísbirni. Það bendir allt til þess að núna séu svo miklar breytingar á búsvæði þeirra að þessi dýr séu í útrýmingarhættu. Vonandi bera íslensk stjórnvöld gæfu til að gera líka sínar áætlanir. Núna hafa breyttar aðstæður orðið til þess að dýr sem ekki voru algeng á íslensku yfirráðasvæði eru líklegri til að koma hingað. Það á við um ísbirni sem rekur hingað á ís og það á líka við um fiska og fugla.
Mér sýnist að hingað til bregðist Íslendingar við þessum aðstæðum helst með því að skjóta allt kvikt og veiða allt sem hægt er að veiða. Það er mokað upp makríl og hann lendir allur í bræðslu sem er hroðaleg meðferð á góðum matfiski. Ísbirnir eru líka skotnir þegar til þeirra sést. Það verður verulega pínlegt ef næsti ísbjörn sem heimsækir okkur hingað upp á skerið verður líka skotinn og það var verulega óþægilegt að hlusta á réttlætingu fyrir drápi á ísbirni númer 2, birninum sem var drepinn af því hann hörfaði út í sjó. Og ástæðan fyrir drápinu var hver? Að hann var hættulegur í sjónum? Nei. Ástæðan fyrir að það var talið nauðsynlegt að fella hann var að forða því að hann kæmist í friðhelgi. Það er nefnilega í lögum að ef ísbjörninn hefði náð út í sjó þá er hann friðhelgur, þá má ekki drepa hann. Ég er ekki beinlínis stolt af þessari nýju línu ísbjarnardrápa í náttúru- og umhverfisvernd á Íslandi og mér fannst flugferð umhverfsráðherra á vettvang voðaverksins út á Skaga ekki vera neitt glæsileg. Ég sé meira eftir þeim peningum skattgreiðenda sem fóru í þennan ísbjarnardrápsleiðangur heldur en peningum sem fóru í jójóferðir menntamálaráðherra á íþróttapalla í Asíu.
Vonandi kennir reynslan okkur betri umgengni við nýja gesti sem heimsækja Ísland, bæði menn og dýr. Menn eru þó sem betur fer ekki skotnir eða fangaðir strax við komuna til landsins. Hmm... það er nú kannski ekki alveg rétt, það hefur komið fyrir á síðustu árum að skrýtnir og langt að komnir ferðalangar sem vilja ganga í gulum fötum og stunda skrýtnar leikfimisæfingar á almannafæri hafa verið fangelsaðir við komuna til landsins. Svo hafa hópar manna sem vilja þeysast um á mótórhjólum ekki verið aufúsugestir og ekki verið hleypt inn í landið.
Sjá þessi blogg sem ég skrifaði á sínum tíma:
Eru Vítisenglar skipulögð glæpasamtök
Næstu skref til verndar ísbjörnum íhuguð nánar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.8.2008 | 11:14
Krepputölva
Einn stærsti útgjaldaliðurinn hjá krökkum í framhaldsskólum og háskólum er fartölva. Sumir framhaldsskólar gera kröfu um að nemendur eigi fartölvu. Venjulegt verð á fartölvu er í kringum 100 þúsund. Það er líka að verða partur af lífsstíl að vilja alltaf vera í netsambandi, geta sent boð til vinna og kunningja og geta flett upp á Netinu.
Það eru hins vegar tveir stórir ókostir við þessa þróun. i fyrsta lagi eru fartölvurnar risastórar og þungar, börn og unglingar rogast með mörg kíló af svona tölvudóti og þetta eru viðkvæmir hlutir sem geta skemmst og orðið fyrir hnjaski á ferðum. Í öðru lagi hafa þessar fartölvur afar skamman endingartíma eins og raunar tölvur yfirleitt, það er bæði vegna þess að tæknin verður úrelt og það koma öflugri tölvur og vegna þess hnjasks sem fartölva verður fyrir.
Það eru fleiri kostir en að kaupa rándýra fartölvu með risastórum skjá og mörg kíló að þyngd. Einn slíkur kostur er að kaupa litla fartölvu sem notar eingöngu ókeypis opinn hugbúnað. Ein slík tölva er eee pc enúin ódýrasta gerðin núna kostar um 28 þúsund út úr búð í Reykjavík í dag. Þessi tölva vegur innan við kíló og er með 9 tommu skjá.
Það er erfiðara að nota svona lítið lyklaborð og skjá en ég hugsa að þeir sem eru mikið á ferðinni sái mikinn hag í því að ferðast með svona nettan grip. Ég fékk mér svona tölvu í gær og er núna að prófa hana. Það er svolítið erftitt að venjast svona litlu lyklaborði og ég er ekki búin að finna oddklofa og pípu á lyklaborðinu, það vantar takkann sem er vinstra megin við Z á venjulegu lyklaborði.
Ég sé nú að ég er ekki ein með þetta lyklaborðsvandamál
Svona litlar og ódýrar og léttar fartölvur verða sennilega venjulegur búnaður hjá öllum grunnskólanemum og framhaldsskólanemum og háskólanemum innan einhverra ára.
En það eru miklir hagsmunir hjá söluaðilum hugbúnaðar og vélbúnaðar að halda viðskiptum og fá fólk til að borga fyrir eitthvað sem það þarf ekki. Það er nú allt í lagi að henda peningum í sjóinn ef maður veit ekki aura sinna tal en fyrir langflesta jarðarbúa og langflesta skólanema í heiminum er hátt verð mikil fyrirstaða.
Hér eru greinar um hvernig gengur hjá OLPC verkefninu:
Why Microsoft and Intel tried to kill the XO $100 laptop
Microsoft officially teams up with OLPC
Uppfært:
Ég er búin að finna út hvernig maður fær oddklofa ( <> ) og pípu (|) á eee pc.
< minna en en fæst með að halda niðri fn hnappnum og ýta á z
> stærra en fæst með því að halda niðri fn hnappnum og Shift og ýta á z
| pípa fæst með því að halda niðri fn og Alt (athuga Alt sem er hægra megin Alt Gr) og ýta á z
Ég fann þessa umræðu um eee pc hjá Bjarna. Hann er líka að spá í svona vél og fyrir hann skipta oddklofar og pípur miklu máli. Þetta er greinilega nördavél dagsins í dag, flott vél fyrir þá sem eru á ferð og flugi en þurfa litla og létta vél sem fólk nennir að burðast með hvert sem er.
Ég hefði skilað þessari vel með það sama ef ég hefði ekki fundið út þetta með oddklofa og pípur. þetta er algjört grundvallaratriði þegar maður er að vinna í wikipedia og öðrum mediawiki kerfum og ég hafði einmitt hugsað mér það sem einn aðalnotkunarmöguleika vélarinnar að hafa hana með mér á bókasöfn og skrifa þar inn í wikipedia. Ég heyrði þá skýringu á hvers vegna franska wikipedia væri ekki stærri en hún er að það helgaðist af því að franska lyklaborðið væri þannig uppsett að sum algengt tákn í wikipedia væru þannig að það þyrfti að smella þrisvar til að fá þau fram. Svona hlutir skipta miklu máli. Forritarar sem þurfa að forrita kóða með ýmsum táknum eins og pípum verða að hafa inntakstæki þar sem auðvelt er að setja inn þessi tæki.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.8.2008 | 11:39
Guðinn í geðillskukastinu
Þegar ég var lítil stelpa ætlaði ég að vera skáld. Nú eða hagyrðingur sem var ennþá flottara. Ég prófaði mig áfram með rím og orð og ég held að ég hafi verið 9 eða 10 ára þegar ég orti innblásið trúarljóð í þremur línum. Það er svona:
Guðinn í geðillskukastinu
slökkti á perunni
í tilverunni.
Þetta er náttúrulega mjög framúrstefnulegt ljóð, ort um tölvugerða sýndarheima, löngu áður en heimsmyndin breyttist í vettvang Guðanna
þar sem jafnvel sá heimur sem við lifum í núna gæti verið sýndarheimur í einhverri mjög öflugri tölvu og óveður sem blæs yfir borgina er eins og hver annar viðburður í SimCity. Þegar maður hefur uppljómast af svona heimsýn þá skilur maður öðru vísi þessa gömlu frásögn af tölvuleikjamóti:
- Hittusk æsir
- á Iðavelli,
- þeir er hörg ok hof
- hátimbruðu,
- afla lögðu,
- auð smíðuðu,
- tangir skópu
- ok tól görðu.
- Tefldu í túni,
- teitir váru,
- var þeim vettugis
- vant ór gulli;
- unz þrjár kvámu
- þursa meyjar
- ámátkar mjök
- ór jötunheimum.
Í næstu viku kemur út tölvuleikurinn Spore.
Í þeim leik ætla ég að leika Guð.
Nokkur óveðursútköll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.8.2008 | 10:15
Skóladagheimili, lengd viðvera, frístundaheimili, einsetning skóla
Strákurinn hennar Höllu Rut kemst ekki strax inn á frístundaheimili. Ég vona að ný stjórn ÍTR fari strax í að leysa þennan vanda, það eru allt of mörg mál sem voru komin í hnút vegna þeirrar stjórnarkreppu sem hefur verið í Reykjavík undanfarna mánuði. Mér sýnist hafa valist frábært fólk í stjórn ÍTR, fyrir okkur Framsóknarmenn eru það Sigfús Ægir og Valgerður.
Það er góðs viti að svo mikilll samhljómur sé milli meirihluta og minnihluta í þessum málum að helsti ágreiningurinn sé um hvaðan góðar hugmyndir koma (sjá þetta blogg Einmitt!)
Það er sjálfsagt að halda því til haga hvaða góðu hugmyndir komu fram hjá Tjarnarkvartettnum og upp á söguna halda því til haga hver barðist fyrir hvaða máli. Ég fór reyndar í þessu sambandi að rifja upp þær hroðalegu aðstæður sem voru á sínum tíma í Reykjavík varðandi dagsvistunarmál ungra barna og lyklabörn á skólaaldri og hvað gífurlega mikið hefur áunnist í því. Reykjavíkurlistinn beitti sér mikið í uppbyggingu leikskóla en Sjálfstæðismenn voru á þeim tíma á skrýtnu róli og vildi bara byggja bílageymsluhús og senda krakkana á róló. Það er líka ekki langt síðan skólar voru tví- eða þrísetnir í Reykjavík og ungir krakkar gengu sjálfala þegar þau voru ekki í skólanum.
Það var eftir að birtar voru niðurstöður úr könnunum sem gerðar voru 1991 að stjórnmálamenn tóku við sér og viðurkenndu vandann og fóru í að leysa málið.
Nemendur í Kennaraháskóla Íslands þær Hrönn Pálmadóttir og Jóhanna Rútsdóttir könnuðu aðstæður 6 og 8 ára barna í Reykjavík veturinn 1991-92 í lokaverkefni sínu. Sálfræðingar á Sálfræðideild skóla í Reykjavík gerðu líka könnun 1991. (sjá grein Matthildar Guðmundsdóttur Hugleiðingar um heilsdagsskóla)
Árni Sigfússon sem núna er bæjarstjóri í Reykjanesbæ var þá formaður Skólamálaráðs Reykjavíkur, og það var að hans frumkvæði að gerð var tilraun með það sem kallað var "heilsdagsskóli" í 5 skólum borgarinnar haustið 1992. Það gekk ekki allt vel í fyrstu með heilsdagskólann. Það voru ekki góðar aðstæður sem börnum var boðið upp á, stundum var helling af börnum hrúgað saman og þau látin lita í litabók lon og don og það var ekki fólk sem menntað var í uppeldisstörfum sem passaði börnin. Kennarar vildu því að sjálfsögðu ekki bendla sig við svoleiðis vinnubrögð og sumir lögðu áherslu á að þetta væri "lengd viðvera" til að skilja á milli þess sem við teljum uppbyggjandi og skapandi námsumhverfi og þess sem var fyrst og fremst einhvers konar eftirlit með börnum svo þau færu sér ekki að voða.
Það var svo í tíð Reykjavíkurlistans og undir forustu Sigrúnar Magnúsdóttur að unnið var að kappi að einsetningu skóla í Reykjavík en einsetningin var algjör forsenda þess að hægt sé að koma frístundastarfi inn í skólann.
Úr því að ég er að grúska í sögunni þá minnir mig að Albert Guðmundsson hafi á sínum tíma verið sá maður sem dreif í því að fyrsta skóladagheimilið komst á laggirnar í Reykjavík í húsi sem hann átti við Auðarstræði sem hann gaf afnot af. Gaman væri að heyra frá einhverjum sem þekkir þá sögu.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar og vonandi heldur áfram þessi uppbygging sem verið hefur í Reykjavík í frístundastarfi í tengslum við skóla. Þetta er mikilvægt fyrir allar barnafjölskyldur í Reykjavík.
Núna er nám á háskólastigi í frístundafræðum, það er á Menntavísindasviði Háskóla Íslands
Það er mikið verk framundan varðandi skóla og frístundaheimili. Oddný Sturludóttir skrifar góðan pistil Frístundaheimili & skólar
Einhverft barn kemst ekki að á frístundaheimili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.8.2008 | 12:07
Netbólan og fasteignabólan sem sprungu
Það er hörmungarástand á fasteignamarkaði víða um heim. Ástandið virðist þó alvarlegast í sumum borgum í USA. Þar hefur verð fasteigna fallið gífurlega og mikið er um að fólk hreinlega yfirgefi húsin sín og eftirláti þau bankanum.
Hér á Íslandi eru þeir verst settir sem byggja íbúðir til að selja og þeir sem hafa nýlega keypt sína fyrstu íbúð á næstum 100% láni. Erfitt er að selja íbúðir, kaupendur halda náttúrulega að sér höndum því það er núna töluvert ódýrara að leigja en að kaupa eigin íbúð og borga af lánum, spennan vegna stórframkvæmda hefur hjaðnað og það þurfa ekki eins margir húsnæði því hingað flykkist ekki lengur að fólk úr öðrum löndum. Nokkur þúsund íbúðir losnuðu líka á Varnarsvæðinu gamla þegar herinn fór og þar búa núna námsmenn og fólk sem starfar við að byggja Helguvíkurálverið. Það hefur áhrif á leiguverð á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu. Ástandið er því þannig núna að leiguverð hefur lækkað en afborganir af lánum þeirra sem hafa keypt eigin íbúðir hafa hækkað gífurlega og húsnæðisverð hríðfellur. Í augnablikinu er þannig staða að það borgar sig engan veginn að kaupa eigin húsnæði. Ég heyrði í gær af ungu pari í fjölskyldu minni sem keypti fyrir nokkrum mánuðum pínulitla íbúð í Breiðholti og núna eru mánaðarafborganir komnar í 120-130 þús á mánuði. Reyndar hef ég undanfarið heyrt margar hörmungarsögur frá fólki sem nú er að kaupa eða selja íbúðarhúsnæði, húsnæðiskreppan mæðir á öllum því oft ganga kaupin þannig fyrir sig að sá sem er að kaupa eign þarf að losa sig við aðra eign og þannig getur verið löng keðja sem slitnar ef einhver getur alls ekki losnað við sína eign.
Það bendir allt til þess að fasteignaverð hér á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram að lækka næsta ár. Það sama er að gerast í norrænum borgum en skellurinn er eins og vanalega ennþá verri hér á Íslandi vegna þess að ofan á hraðlækkandi húsnæðisverð bætist það að við lifum í hagkerfi þar sem stjórnvöld skattleggja okkur með óðaverðbólgu, við búum við sömu aðstæður og oft gerast í sögunni þegar stjórnvöld verða að fjármagna stríðsrekstur og gera það með því að prenta peninga og halda okkur í þeirri herkví að okkur er skylt að nota gjaldmiðil sem er að verða verðlaus.
Þetta er ekki góð staða fyrir ungt fólk sem hefur nýlega keypt sér íbúð. Allar forsendur húseigenda hafa snarbreyst, það er ódýrara að leigja en eiga húsnæði og meira framboð er á leiguhúsnæði. Það er miklu dýrara að borga af lánum, á sama tíma og húseignir okkar hafa lækkað í verði þá hafa lánin hækkað. Ofan á þetta bætist svo að kaupið okkar og greiðslugeta hefur lækkað um tugi prósenta eins og sjá má í gengisskráningu íslensku krónunnar.
Þetta eru aðstæður sem stjórnvöld verða að bregðast við á réttan hátt. það er ekki besta leiðin að lána fólki meira eða frysta afborganir af lánum ef það er fyrirsjáanlegt að fólk geti ekki borgað af svo háu láni í framtíðinni eða binda fólk ennþá meira niður við eign sem fyrirsjáanlegt er að sé miklu óhagkvæmara að borga af heldur en að hreinlega afskrifa eigin eign í. Oft er þessi eigin eign reyndar afar lítil og það er einmitt stærsta vandamálið. Sá sem hefur fjármagnað kaup á fasteign með 100% láni hefur ekkert þol til að mæta verðbreytingum, allra síst á tímum þar sem kaupmáttur launa og möguleikar fólks til tekjuöflunar minnka á sama tíma og afborganir aukast.
Stjörnvöld eiga að vera sveiflujafnandi. það allra versta sem stjórnvöld geta gert er að magna sveifluna og reyra fólk ennþá fastar niður í vonlausum aðstæðum. Það er mjög slæmt ef stjórnvöld reyna að halda uppi verði á húsnæði og þenslu á húsnæðismarkaði ef fyrirsjáanlegt er að sú þensla styðst ekki við neinar raunhæfar áætlanir. Þannig er arfavitlaust að dæla inn lánsfé svo byggingarmarkaður geti haldið áfram að byggja fleiri hús ef það er ekki fyrirsjáanlegt að neinir séu til að kaupa þau hús á kostnaðarverði. Fólk ætti að læra af því sem gerðist víða um land fyrir margt löngu þegar sveitarfélög byggðu og byggðu félagslegar leiguíbúðir, stundum að því er virtist eingöngu til að smiðir og múrarar í plássunum hefðu eitthvað að gera. Þessar félagslegu íbúðir reyndust mikill klafi á sumum sveitarfélögum. Sums staðar stóðu heilu blokkirnar auðar árum saman vegna þess að enginn vildi búa þar og aldrei var nein þörf var fyrir þetta húsnæði. Það var bara byggt til að byggja og vegna þess að aðgengi að lánsfé var gott.
Það er óumflýjanlegt að verð á húsnæði lækkar ef húsnæðisverð er orðið svo hátt að fólk ræður ekki við að borga það. Húsnæðisverð hefur hækkað miklu meira en kaupgjald undanfarin ár í sumum borgum heimsins. Þannig hækkaði húsnæðisverð í USA að raunverði um 45% síðasta áratug en kaupið hækkaði eingöngu um 10%. (sjá þessa grein The Dangerous Disconnect Between Home Prices and Fundamentals)
En það er munur á fólki og fjárfestingarfélögum á húsnæðismarkaði. Einn munur er sá að fjármagnið er miklu hreyfanlegra en fólkið og við búum í markaðshagkerfi þar sem fjármagnið getur smogið milli landa með leifturhraða á sama tíma og fólk er hneppt í eins konar átthagafjötra vegna skulda, sérstaklega skulda af húsnæðislánum og getur ekkert flutt vegna þess að það getur ekki fundið neinn annan til að yfirtaka skuldir sínar og húsnæði.
Það getur ekki komið neinum á óvart sem fylgst hefur með húsnæðismarkaði springa alls staðar í hinum vestræna heimi að undanförnu að það næði um fasteignafélög sem eru að hluta til í íslenskri eigu. Sú spákaupmennska sem hefur einkennt íslenskt viðskiptalíf hefur gengið út á það að áfram verði vöxtur, áfram verði góðæri, áfram glói gull á hverju strái. Þannig hefur það ekki verið, það hafa alltaf komið kreppur sem að sumu leyti eru eins konar verðleiðréttingar, leiðréttingar á þegar verðlag hefur gengið á misvíxl t.d. þegar húsnæðisverð er orðið svo hátt að hvorki launafólk né atvinnurekstur stendur undir því.
En það er áhugavert og það er líka áhyggjuefni að fylgjast með hvað er að gerast hjá Landic Property, Keops Development, Stoðum (áður FL Group), Þyrpingu, Eik Properties, Stones Invest og öðrum fasteignafjárfestingafélögum sem tengjast Íslandi. Það getur ekki gengið annað en illa um þessar mundir hjá félögum í þessum bransa.
Það er umhugsunarefni að um 2000 sprakk netbólan svonefnda, það kom í ljós að það var engin innistæða fyrir væntingum fólks um að Netfyrirtækin myndu raka inn endalausum gróða. Sjö eða átta árum seinna sprakk fasteignabólan. Þetta er örugglega hluti af einhvers konar misgengi í heiminum, hluti af væntingum sem ekki hafa gengið eftir, hluti af því að atvinnuhættir og samfélag er að breytast. Kannski er fasteignabólan sem sprakk merki um að hús eru ekki eins verðmæt og við höldum, merki um að húseignir í borgum eru frekar óstöðug eign á tímum þar sem atvinnustarfsemi og búseta hefur færst út um víðan völl, við eigum kannski sjálf heima á fleiri en einum stað og stundum vinnu í öðru landi en við búum í og atvinnustarfsemi sem þurfti atvinnuhúsnæði í Reykjavík eða Kaupmannahöfn er núna úthýst og kannski unnin í einhvers konar verktöku í Bangalore á Indlandi.
En þó að netbólan hafi sprungið þá þýðir það ekki að frá 2000 hafi ekkert verið að gerast í netheiminum. Satt að segja hefur aldrei eins mikið verið að gerast þar en margt af því sem þar er að gerast og sem mun hafa mikil áhrif fyrir heiminn er utan þess sviðs sem peningahagkerfi okkar mælir, utan þess sviðs sem mælir hagnað í einhvers konar framleiðni og muni milli kostnaðarverðs og söluverðs.
Það mun örugglega halda áfram þróun í húsnæðismálum og þessi húsnæðiskreppa mun ekki breyta því. Kannski verður húsnæði - bæði atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði hreyfanlegra og öðru vísi búseta en við búum við núna. Kannski er sú tegund af búsetu og húsnæði sem við þekkjum ekkert sérstaklega hentugt fyrir þá tíma sem við lifum í - ef til vill er að skapast ný tegund af hirðingjasamfélagi þar sem við flytjumst um heiminn eftir því hvar veiðilendurnar og afkoman er best eða þar sem okkur finnst þægilegast að búa.
Ég var í gær að skrifa nokkra pistla á wikipedia um alls konar búsetur og búðsetur á Íslandi og atvinnulíf á árabátaöld - um tímann þegar nokkur hundruð vermenn voru á hverri vertíð í Dritvík og Oddbjarnarskeri og Vestmannaeyjum og Bolungarvík og öllum þeim 320 verstöðvum sem dreifðust um Ísland, um tíma veiðimanna og hirðingja þar sem fólkið flutti búsetu sína í árlegum sveiflum eftir því hvar afkomumöguleikarnir voru mestir og hagar búpenings bestir. Ég fór að hugsa um þessar breytingar á atvinnuháttum frá því að atvinnuhúsnæði var sett niður þar sem styðst var að róa á miðin eins og á auðnarstaðnum Dritvík. Nú er í Dritvík daufleg vist því eftir árabátaöld tók við skútuöld og svo komu gufuskip og olíuknúin skip. Svo kom iðnvæðingin á Íslandi og plássin byggðust upp í kringum bryggjuna og frystihúsið. Orðið verbúð breytti um merkingu, var ekki lengur samastaður skipshafnar í verstöð heldur hýbýli farandverkafólks sem vann í frystihúsinu, varavinnuafl sem þurfti á vertíðum þegar meiri afli barst á land en heimamenn gátu unnið. En nú er fiskvinnslan farin úr mörgum plássum, nú er vinnslan miklu hreyfanlegri og færanlegri, annað hvort er aflinn unninn út á sjó eða hann er frystur og fluttur til einhvers staðar þar sem hann er afþýddur og unninn. Það þarf ekki lengur frystihús rétt hjá löndunarstað.
Ég sé það tímabil sem nú er runnið upp í heiminum sem gámaöld. Yfir heimshöfin sigla risastór gámaskip en það er ekki bara það. Gámurinn er meira en umbúðir um vörur sem á að flytja. Hann er einkenni á samfélagi þar sem allt hefur brotnað niður í flytjanlegar einingar - og þar sem umbúðirnar eru ekki bara til að flytja hluti í - heldur líka til að búa í og starfa í. Gámurinn er tákn um hinar stöðluðu einingar sem hægt er að stafla saman. Það er einkenni á amk einni nútíma byggingarlist að hún er eins og flytjanlegir gámar. Hirðingjar nútíma borgarsamfélags vilja líka búa í skúrum í hjólhýsahverfum og húsin og húsgögnin eru "prefab" koma tilsniðin en samt samsett eftir þörfum og óskum notandans.
Við suma nýja skóla eru þyrpingar af færanlegum kennslustofum. það er oftast neyðarráðstöfun vegna þess að skólinn er yfirfullur. Það er byggt skólahús miðað við að í hverfinu sé fjöldi barna einhver fastmótuð tala. Þannig er heimurinn ekki og þannig hús að aðeins sé hægt að nota þau við ákveðnar aðstæður eru takmarkandi. Hugsanlega er sniðugra að byggja skóla frá byrjun úr samsettum einingum sem hægt sé að púsla saman eftir þörfum m.a. með tilliti til hversu mörg börn eru í skólanum.
Stundum þegar ég kem inn í nýjar glæsilegar byggingar sem hafa verið reistar utan um það sem þarf engin hús lengur þá finnst mér ég vera komin inn í musteri eða minjasafn. Mér finnst ég inn í húsi sem er að gera annað og en það sem þau eru sögð gera. Þannig er um þjóðarbókhlöðuna og þannig er um mörg glæsileg bókasöfn og listasöfn. þannig verður sennilega hið nýja tónlistarhús sem rís nú við höfnina í Reykjavík. Þessi stórhýsi eru fyrst og frems einhvers konar monument, einhvers konar minnisvarðar um tíma sem er liðinn.
VB.is : Landic Property yfirtekur á ný eignarhald á Keops Development
VB.is : Landic Property enn í vandræðum vegna Keops Development
VB.is : Landic Property má stjórna Þyrpingu
Segja Landic hafa greitt yfirverð fyrir fasteignir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.8.2008 | 15:25
Borgarmálahópur Framsóknarflokksins fundar í Bárubúð
Síðustu sviptingar í borgarstjórn Reykjavíkur fleyttu mér til þeirra metorða að nú er ég komin í nefndir í Reykjavík fyrir Framsóknarflokkinn. Ég og Zakaria erum í Mannréttindaráði og varamenn okkar eru Anna Margrét og Valgerður. Svo er ég varamaður Halls Magnússonar í Velferðarráði og sit í Barnaverndarnefnd.
Óskar boðaði okkur í dag á fyrsta fundinn eftir að Framsóknarflokkurinn góðu heilli tók aftur þátt í að stýra Reykjavíkurborg og aflétta þessu hroðalega ástandi sem hefur verið síðustu mánuði. Í fundarboðinu stóð að fundurinn yrði í Bárubúð og ég átti í dálitlum erfiðleikum með að finna staðinn, ég gat ekki fundið út annað en að Bárubúð sem stóð við Vonarstræti 11 hefði verið rifin fyrir margt löngu. En svo var ég upplýst um að Bárubúð hefur endurfæðst og er væri núna fundarsalur í Ráðhúsi Reykjavíkur en Ráðhúsið stendur einmitt á sama stað og gamlal samkomuhúsið Bárubúð stóð áður.
Það var góð stemming á fundinum og bjartsýni á starfið framundan.
Hér eru nokkrar myndir af fundinum:
Guðni í fundaherferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2008 | 09:22
Eggjakast auglýst hjá RÚV
Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir. Þessi setning sem sögð var í beinni útsendingu á Stöð 2 í apríl sístliðnum þegar vörubílstjórar voru að mótmæla við Norðlingaholt varð til þess að fréttamaðurinn sagði upp starfi sínu. Sjá þessa frétt
Lára Ómarsdóttir segir upp störfum á Stöð 2 vegna ummæla um eggjakast
Ég efast ekki um að Lára var þarna að grínast, hún hefði aldrei sviðsett fréttir en hún er eins og aðrir fréttahaukar í þeirri stöðu að það er ofgnótt af fréttamiðlum og síbyljan dunar en það er hvorki myndrænt né áhugaverð að horfa á fólk sem tekur sér góðan tíma til að sjatla málin og þrátta og semja. Hver nennir að horfa á svoleiðis efni á skjánum? Þess vegna reyna þeir sem eru í baráttunni í dag að klæða baráttuna í einhvern litríkan og fótógeniskan búning, búa til veifur og borða og sviðsetja uppákomur til að fanga athygli fjölmiðla.
Ein af aukaverkunum þessara innsprengingar nútímans í fjölmiðlum er að um leið og kastljósið beinist að einhverjum stríðandi öflum þá magnast átökin upp - ef til vill eru átökin bara til staðar þegar bein útsending er. Þeir sem eru að vekja athygli á sínum málstað notfæra sér náttúrulega þetta eðli sjónrænna fréttamiðla, fréttamiðla sem þyrstir í sjónrænar átakafréttir.
Það er svolítið einkennilegt að ríkisfjölmiðill skuli undirbúa sig svo vel undir skrallið í dag að hann skuli breytast í auglýsingamiðil fyrir þá sem ætla að ná athyglinni frá stjórnarskiptum í borginni í dag og breyta þeim í skrípaleik. Það var ansi undarlegt að sjá viðtal við fulltrúa frá ungliðahreyfingum sem var ekkert viðtal heldur bara hvatningarorð til áhorfenda RÚV um að mæta á einhvern sirkus sem yrði fyrir framan Ráðhúsið í dag þegar stjórnarskipti fara fram í Reykjavík.
Nú verður gaman að fylgjast með eggjakastfréttamennskunni á RÚV í kvöld. Fær gamanleikur og trúðslæti ungliðahreyfinga meira vægi en sú athöfn að nú er verið að skipta um borgarstjóra og Hanna Birna tekinn við af Ólafi Magnússyni. Það eru mikilvægustu stólaskiptin sem verða í borginni í dag. Munu RÚV fréttamenn ganga á fulltrúa ungliðahreyfinga og spyrja hvort þau séu að mótmæla skiptum á borgarstjóra? Vildu þau hafa óbreytt ástand?
Víst finnst mér þessi stólaleikur í Ráðhúsinu fyndinn eins og flestum öðrum en hann er raunar frekar grátbroslegur því það hefur ekki farið fram hjá neinum að þessi tími sem Sjálfstæðismenn og Ólafur hafa myndað borgarstjórnarmeirihluta hefur verið átakanlegur. Það reyndar hefði ekki átt að koma neinum á óvart að út úr því samstarfi slitnaði.
Það er skylda borgarfulltrúa að mynda starfshæfa meirihluta og það voru ekki margir kostir í stöðunni og sá kostur sem núna hefur verið valinn af lýðræðislega kjörnum fulltrúum er sá kostur sem líklegastur er til að sem mestur stöðuleiki verði í stjórn Reykjavíkurborgar út þetta kjörtímabil
21.8.2008 | 08:55
Skuldirnar hjá OR og ofsagróðinn hjá Pons
Skuldir hlaðast nú upp hjá Orkuveitu Reykjavíkur og eigið fé fyrirtækisins gufar upp hraðar en öflugasta gufuaflsvirkjun getur afkastað - erlendar skuldir sem voru 86 milljarðar í byrjun árs eru núna orðnar 125 milljarðar. En það er mikilvægt að við höfum í huga að það hefur ekkert breyst til að þessari stöðu sé náð - nema að íslenska krónan hefur verið í frjálsu falli.
Ég vona að þessi bága reikningslega staða Orkuveitunnar verði ekki notuð sem réttlæting til að selja eignir Reykvíkinga. Það er nú alveg öruggt mál líka að lausafjárþurrð sem alls staðar er núna hjá fjárfestum veldur því að það er afleitur tími til að selja eignir. Nema náttúrulega til manna sem kunna svona reikningskúnstir eins og Pálmi í Fons, kunna að láta ofsagróða birtast á réttum augnablikum með því að selja sama dótið til sjálfs síns. Orðið á götunni er með ágætis innlegg um nýjasta púslið í stórviðskiptum Pálma í Pons, sjá þessa grein Íslandsmet Pálma ógilt sökum meðvinds en þar fær Pons út ofsagróða með því að selja verslunarkeðjuna Iceland. Er kannski líka hægt að fá út reikningslegan ofsagróða með því að selja auðlindir frá fyrirtækjum hérna á Íslandi?
Erfið fjárhagsstaða OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2008 | 09:23
Varaborgarfulltrúarnir Marsibil og Margrét
Það er einkennilegt að sama flækjan virðist hafa komið upp núna milli Óskars borgarfulltrúa og Marsibil varamanns hans og hjá Ólafi og Margréti Sverris við síðustu valdabyltingu í Ráðhúsinu. Marsibil tjáir sig um þetta í Fréttablaðinu í dag og sjá einnig á vísir.is: Sama staða og hjá fráfarandi meirihluta
Það er auðvitað viðfangsefni oddvita flokka í borgarstjórn að taka þátt í svona viðræðum og eðli málsins samkvæmt þurfa svona viðræður stundum að fara leynt, sérstaklega ef það eru nú bara óformlegar þreifingar en það er örugglega affarasælast að baklandið sé sem best innan flokksins.
Svona eftir á að hyggja þá hugsa ég að það hafi verið algjörlega meðvitað hjá Sjálfstæðismönnum að slíta stjórninni núna við Ólaf á meðan hann var ennþá borgarstjóri. Þetta er alveg ótrúlega veik stjórn sem byggir á einum manni sem er þar að auki frekar óútreiknanlegur og lítt samstarfslipur.
Það hefur komið fram í fjölmiðlum að nýi meirihlutinn núna var byggður upp með trausti forustu flokkanna sem standa að þessu samstarfi, sjá þessa frétt: Formennirnir voru kjölfestan og það er góðs viti fyrir stöðugleika þessa nýja samstarfs. En það er ekki gott að varamaður Óskars Marsibil styðji ekki þennan nýja meirihluta. Eftir henni er haft: "Marsibil segist þó áfram starfa sem varaborgarfulltrúi en óráðið sé hvort það verði fyrir Framsóknarflokkinn eða ekki." Vonandi tekst Óskari að ná samkomulagi við Marsibil.
Margrét Sverris var á sínum tíma afar ósátt við að Ólafur sprengdi 100 daga stjórn Tjarnarkvartettsins. Það er nú samt um margt ólíku saman að jafna, það var fyrir samheldin stjórn sem Ólafur var þátttakandi í en hann var vélaður yfir með húskofamilljarði og borgarstjórakeðju og stóli. Það hefur hins vegar varla farið fram hjá fólki að það var allt í óefni í borginni, Ólafur er ekki mannasættir og maður málamiðlana. Úr því sem komið var þá er núverandi stjórnarform það stöðugasta í Reykjavík út þetta kjörtímabil.
Varðandi nýja stjórn Tjarnarkvartettsins svonefnda sem fram kemur að Marsibil hafi viljað fremur en núverandi þá er það vægast sagt afar undarlegt að boð Ólafs um að segja af sér og koma Margréti til valda kemur ekki til Margétar sjálfrar heldur koma fulltrúar Vinstri grænna með það inn á fund minnihlutans sem tilboð og virðast þannig hafa breyst í einhvers konar umboðsmenn fyrir Ólaf Magnússon. Margrét Sverris sem þó var skiptimyntin virðist ekkert hafa verið höfð með í ráðum þar, eftir henni er haft í fjölmiðlum að hún telji afar ólíklegt að Ólafur hafi ætlað að segja af sér til að hún komist að.
Það er bara því miður alls ekkert mark takandi á svona tilboðum þar sem fulltrúar Vinstri grænna í umboði Ólafs Magnússonar bjóða fram Margréti. Og það lætur enginn heilvita maður sér annað koma til hugar en að Sjálfstæðismenn hafi haft Plan B ef Óskar hikaði á ögurstundu. Og augljósasti kosturinn fyrir plan B er að Sjálfstæðismenn hefðu hafið samstarf við Vinstri Græna. Ég gat ekki betur heyrt á Degi Eggertssyni í sjónvarpi í gær annað en hann hintaði að slíku.
Dagur Eggertsson stendur sig vel að vanda í svona orrahríð. Hann talar prúðmannlega og fyrir heiðarleika og góðum vinnubrögðum í stjórnmálum. Vonandi er tíma plotta og bakrýtingsstungna nú liðinn í borginni. Þetta er eiginlega bara búið að vera skálmöld.
Marsibil styður ekki nýjan meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.8.2008 | 18:47
Ólafur á um sárt að binda
Það hefur komið fram að það er ekki rétt að Ólafur hafi boðist til að segja af sér í morgun. Það er því ljóst að endurnýjun Tjarnarkvartettsins var ekki í stöðunni. (sjá Ólafur ætlaði aldrei að hætta )
Hins vegar ættu allir sem fylgst hafa með gangi mála undanfarin ár í borginni að átta sig á því að Ólafur er mjög viðkvæmur maður og ekki í góðu jafnvægi og hann mun telja núna að Sjálfstæðismenn hafi svikið hann öðru sinni. Ólafur mun hafa tekið mjög nærri sér þessa uppákomu á sínum tíma rétt eftir kosningar þegar hann var að þinga með félagshyggjuöflunum en var líka að plottast eitthvað með Vilhjálmi og hélt að hann hefði öll spjót í hendi en síðan kom á daginn það þetta var feik og fyrirsláttur og Sjálfstæðismenn höfðu samið vð Björn Inga.
Það þarft stáltaugar til að standa í pólitík eins og hún er orðin á Íslandi í dag og það hefur mætt mikið á borgarfulltrúum í Reykjavík þetta kjörtímabil. Vonandi átta fjölmiðlamenn og menn í kringum Ólaf í stjórnmálum sig á því að Ólafur skynjar ekki atburðarásina eins og þeir og líklegt er að hann telji það að hann sé settur af sem borgarstjóri nokkrum mánuðum fyrr en áformað var vera eitraða hnífsstungu í bakið. Agli Helgasyni finnst líka Ólafur hafa verið svikinn og spyr: Hvað gerði Ólafur af sér?
Það var illa gert hjá Sjálfstæðismönnum að etja Ólafi út í þetta fen á sínum tíma. Það var alveg ljóst af forsögu hans í stjórnmálum að hann var afar illa fallinn til að vera borgarstjóri í Reykjavík og það getur ekki komið neinum á óvart hvernig það gekk eftir.
Það er sorglegt vegna þess að Ólafur er einlægur hugsjónamaður og margt af því sem hann segir eru hlutir sem mjög mikilvægt er að eigi sér málsvara í borgarstjórn. Það er bara ekki sama og geta stýrt borginni.
Fjórir borgarstjórar á launum á árinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)