Eggjakast auglýst hjá RÚV

 “Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir”. Þessi setning sem sögð var í beinni útsendingu á Stöð 2 í apríl sístliðnum þegar vörubílstjórar voru að mótmæla við Norðlingaholt varð til þess að fréttamaðurinn sagði upp starfi sínu. Sjá þessa frétt

Lára Ómarsdóttir segir upp störfum á Stöð 2 vegna ummæla um eggjakast 

Ég efast ekki um að Lára var þarna að grínast, hún hefði aldrei sviðsett fréttir en hún er eins og aðrir fréttahaukar í þeirri stöðu að það er ofgnótt af fréttamiðlum og síbyljan dunar en það er hvorki  myndrænt né áhugaverð að horfa á fólk sem tekur sér góðan tíma til að sjatla málin og þrátta og semja. Hver nennir að horfa á svoleiðis efni á skjánum?  Þess vegna reyna  þeir sem eru í baráttunni í dag að klæða baráttuna í einhvern litríkan og fótógeniskan búning, búa til veifur og borða og sviðsetja uppákomur til að fanga athygli fjölmiðla.

Ein af aukaverkunum þessara innsprengingar nútímans í fjölmiðlum er að um leið og kastljósið beinist að einhverjum stríðandi öflum þá magnast átökin upp - ef til vill eru átökin bara til staðar þegar bein útsending er.  Þeir sem eru að vekja athygli á sínum málstað notfæra sér náttúrulega þetta eðli sjónrænna fréttamiðla, fréttamiðla sem þyrstir í sjónrænar átakafréttir.  

Það er svolítið einkennilegt að ríkisfjölmiðill skuli undirbúa sig svo vel undir skrallið í dag að hann skuli breytast í auglýsingamiðil fyrir þá sem ætla að ná athyglinni frá stjórnarskiptum í borginni í dag og breyta þeim í skrípaleik. Það var ansi undarlegt að sjá viðtal við fulltrúa frá ungliðahreyfingum sem var ekkert viðtal heldur bara hvatningarorð til áhorfenda RÚV um að mæta á einhvern sirkus sem yrði fyrir framan Ráðhúsið í dag þegar stjórnarskipti fara fram í Reykjavík.

Nú verður gaman að fylgjast með eggjakastfréttamennskunni á RÚV í kvöld. Fær gamanleikur og trúðslæti ungliðahreyfinga meira vægi en sú athöfn að nú er verið að skipta um borgarstjóra og Hanna Birna tekinn við af Ólafi Magnússyni. Það eru mikilvægustu stólaskiptin sem verða í borginni í dag. Munu RÚV fréttamenn ganga á fulltrúa ungliðahreyfinga og spyrja hvort þau séu að mótmæla skiptum á borgarstjóra? Vildu þau hafa óbreytt ástand?

Víst finnst mér þessi stólaleikur í Ráðhúsinu fyndinn eins og flestum öðrum en hann er raunar frekar grátbroslegur því það hefur ekki farið fram hjá neinum að þessi tími sem Sjálfstæðismenn og Ólafur hafa myndað borgarstjórnarmeirihluta hefur verið átakanlegur. Það reyndar hefði ekki átt að koma neinum á óvart að út úr því samstarfi slitnaði.

Það er skylda borgarfulltrúa að mynda starfshæfa meirihluta og það voru ekki margir kostir í stöðunni og sá kostur sem núna hefur verið valinn af lýðræðislega kjörnum fulltrúum er sá kostur sem líklegastur er til að sem mestur stöðuleiki verði í stjórn Reykjavíkurborgar út þetta kjörtímabil 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Það mátti líka greina vonbrigði í röddum útvarpsmanna "í beinni" þegar í ljós kom að áhorfendur á pöllunum virtust hið prúðasta fólk.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 21.8.2008 kl. 11:52

2 Smámynd: Halla Rut

Auðvitað vilja fréttamenn læti. Það eru einmitt fréttirnar sem ná mestri athygli. Þetta er bara framboð og eftirspurn.

Halla Rut , 21.8.2008 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband