Skóladagheimili, lengd viðvera, frístundaheimili, einsetning skóla

Strákurinn hennar Höllu Rut kemst ekki strax inn á frístundaheimili. Ég vona að ný stjórn ÍTR fari strax í að leysa þennan vanda, það eru allt of mörg mál sem voru komin í hnút vegna þeirrar stjórnarkreppu sem hefur verið í Reykjavík undanfarna mánuði. Mér sýnist hafa valist frábært fólk í stjórn ÍTR, fyrir okkur Framsóknarmenn eru það Sigfús Ægir og Valgerður. 

Það er góðs viti að svo mikilll samhljómur sé milli meirihluta og minnihluta í þessum málum að helsti ágreiningurinn sé um hvaðan góðar hugmyndir koma (sjá þetta blogg  Einmitt!

Það er sjálfsagt að halda því til haga hvaða góðu hugmyndir komu fram hjá Tjarnarkvartettnum og upp á söguna halda því til haga hver barðist fyrir hvaða máli. Ég fór reyndar í þessu sambandi að rifja upp þær hroðalegu aðstæður sem voru á sínum tíma í Reykjavík varðandi dagsvistunarmál ungra barna  og lyklabörn á skólaaldri og hvað gífurlega mikið hefur áunnist í því. Reykjavíkurlistinn  beitti sér mikið í uppbyggingu leikskóla en Sjálfstæðismenn voru á þeim tíma á skrýtnu róli og vildi bara byggja bílageymsluhús og  senda krakkana á róló.  Það er líka ekki langt síðan skólar voru tví- eða þrísetnir í Reykjavík og ungir krakkar gengu sjálfala þegar þau voru ekki í skólanum. 

Það var eftir að birtar voru niðurstöður úr könnunum sem gerðar voru  1991 að stjórnmálamenn tóku við sér og viðurkenndu vandann og fóru í að leysa málið.

Nemendur í Kennaraháskóla Íslands þær Hrönn Pálmadóttir og Jóhanna Rútsdóttir könnuðu aðstæður 6 og 8 ára barna í Reykjavík veturinn 1991-­92 í lokaverkefni sínu. Sálfræðingar á Sálfræðideild skóla  í Reykjavík gerðu líka könnun 1991.  (sjá grein Matthildar Guðmundsdóttur Hugleiðingar um heilsdagsskóla)

 

Árni Sigfússon sem núna er bæjarstjóri í Reykjanesbæ var þá  formaður Skólamálaráðs Reykjavíkur, og það var að hans frumkvæði að gerð var tilraun með það sem kallað var "heilsdagsskóli"  í 5 skólum borgarinnar  haustið 1992. Það gekk ekki allt vel í fyrstu með heilsdagskólann. Það voru ekki góðar aðstæður sem börnum var boðið upp á, stundum var helling af börnum hrúgað saman og þau látin lita í litabók lon og don og það var ekki fólk sem menntað var í uppeldisstörfum sem passaði börnin. Kennarar vildu því að sjálfsögðu ekki bendla sig við svoleiðis vinnubrögð og sumir lögðu áherslu á að þetta væri "lengd viðvera" til að skilja á milli þess sem við teljum uppbyggjandi og skapandi námsumhverfi og þess sem var fyrst og fremst einhvers konar eftirlit með börnum svo þau færu sér ekki að voða.

Það var svo í tíð Reykjavíkurlistans og undir forustu Sigrúnar Magnúsdóttur að unnið var að kappi að einsetningu skóla í Reykjavík en einsetningin var algjör forsenda þess að hægt sé að koma frístundastarfi inn í skólann.

Úr því að ég er að grúska í sögunni þá minnir mig að Albert Guðmundsson hafi á sínum tíma verið sá maður sem dreif í því að fyrsta skóladagheimilið komst á laggirnar í Reykjavík í húsi sem hann átti við Auðarstræði sem hann gaf afnot af. Gaman væri að heyra frá einhverjum sem þekkir þá sögu.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar og vonandi heldur áfram þessi uppbygging sem verið hefur í Reykjavík í frístundastarfi í tengslum við skóla. Þetta er mikilvægt fyrir allar barnafjölskyldur í Reykjavík.

Núna er nám á háskólastigi í frístundafræðum, það er á Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Það er  mikið verk framundan varðandi skóla og frístundaheimili. Oddný Sturludóttir skrifar góðan pistil Frístundaheimili & skólar


mbl.is Einhverft barn kemst ekki að á frístundaheimili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Takk fyrir að vekja máls á þessu Salvör.

Halla Rut , 28.8.2008 kl. 10:37

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þetta er ugglaust þarfur pistill, Salvör

-- en tekur mannsnafnið Rut ekki fallbeygingum?

kv

Sigurður Hreiðar, 28.8.2008 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband