Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
21.4.2008 | 18:53
"Svo langt gengu þeir í fáránleikans uppákomum.."
Moggabloggið logar nú af umræðu um málfrelsi. Ég hef ekki fylgst mikið með málinu en mér sýnist það snúast um að skrif einhvers kalls með Islamfóbíu var eytt af moggablogginu. Ég veit nú ekki hversu svæsin þessi skrif voru því ég hef ekki lesið þau. Eftir því sem ég best veit þá kvörtuðu Múslimar á Íslandi til Morgunblaðsins og sennilega hefur mbl. ekki verið stætt á öðru en taka út skrifin ef þau hafa verið verulega stuðandi og hætta á að málaferli töpuðust. Í lögum er verndaður réttur nokkurra hópa. Í lögum stendur:
233. gr. a. [Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna] 1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar] 1) sæti sektum ... 2) eða fangelsi allt að 2 árum.] 3)
1) L. 135/1996, 2. gr. 2) L. 82/1998, 126. gr. 3) L. 96/1973, 1. gr.
Það var á grundvelli þessara laga sem Samtökin78 kærðu lesendabréf sem birtist í Morgunblaðinu eftir Gaypride 2003. Lesendabréfin voru eins og bloggið í dag og Morgunblaðið birti sérstaka afsökunarbeiðni þar sem beðist var afsökunar á að bréfið hefði birst.
Það var ansi rustalegur stíll á lesendabréfinu, skrifara var mikið niðri fyrir, sérstaklega vegna konunnar á krossinum. Hér er brot úr lesendabréfinu:
"Hátíð kynvillinganna var kölluð fjölskylduhátíð þótt lifnaður þeirra brjóti öll fjölskyldulögmál. Svo langt gengu þeir í fáránleikans uppákomum að þeir hengdu hálfnakta, eggjandi og brosandi lesbíu upp á kross og fór hún þannig niður aðalgötu borgarinnar."
Ég skrifaði þá bloggið Málfrelsi og fordómar 29.9.03 og varði rétt bréfritara til að vera auli og tjá sig rustalega. Mér fannst asnalegt af Morgunblaðinu að taka svona á málum. Ég skrifaði um lesendabréfið:
Þetta var soldið brosleg grein og bernsk og náttúrulega löðrandi í fordómum en ég gat ekki séð að það væri vegið að æru eins eða neins með þessum skrifum. Mér finnst líka einn punktur í greininni alveg vera sjónarmið sem ætti að heyrast og mér finnst að fólk sem finnst það hjartans mál ætti að hafa hátt og láta vita að því að það var farið yfir markið. Það var í sambandi við manneskjuna á krossinum, það stakk mig. Ekki af því að ég sé svo trúuð eða kristin að það hafi komið illa við mig... frekar af því að mér finnst að maður eigi að virða trúartákn eða tákn sem öðrum hópum finnast vera heilög og ekki alla vega skrumskæla þau og hæðast að þeim. Ef krossfestingaratriðið í Gaypride var gert af fólki sem er trúað eða alla vega á einhvern hátt virðir kristin tákn og þetta hafi verið einhver partur af því stefi að tengja samkynhneigð, fjölbreytileika og umburðarlyndi við kristni og vera vísun í þá sem eru ofsóttir og þjáðir þá er það gott mál... en mér fannst þetta bara eins og einhvers konar glensatriði.
Mér finnst svona barátta við fordóma fara í báðar áttir... það er lítilsvirðing á því sem stórum hluta fólks finnst heilagt að hafa svona krossfestingaratriði... og það er bara gott mál að fólk sem sárnaði þetta skuli fá að tjá sig.
Það er náttúrulega samt erfitt að hafa ekki fordóma fyrir fólki sem er með fordóma fyrir öðru fólki.
Ég skrifaði nýlega um myndina Fitna eftir Geert Wilders þetta:
þetta er léleg mynd full af hleypidómum og fordómum og samsæriskenningum. það er varla að maður geti lagt sig niður við að ræða hversu léleg hún er því ekki vill maður verða til auka áhuga fólk á svona mannskemmandi efni.
Sama gildir um myndina af kallinum með sprengjuna í vefjarhettinum. Sú mynd er drasl.
En ég mun vonandi fram í rauðan dauðann verja rétt fólk til að tjá sig á rustafenginn hátt sem mér býður við.
Ég hef ekki séð þau skrif sem fjarlægð voru en ég styð eindregið að Morgunblaðið útskúfi þeim bloggurum sem skrifa hatursgrein eftir hatursgrein um múslima. Ástandið er eldfimt í heiminum í dag og Múslimar á Vesturlöndum eru afar, afar illa settir. Þeir mæta tortryggni og hatri á Vesturlöndum vegna voðaverka sem þeir áttu engan þátt í. Það er afar illa gert að efla hatur á þessum hóp sem þfrekar illa staddur í samfélaginu (margir eru fátækir innflytjendur sem vinna störf fyrir ófaglærða á lágmarkslaunum). Margir múslimar eru dökkir á hörund með austrænt yfirbragð og það sést vel hvaðan uppruni þeirra er.
Mér finnst allt í lagi að Moggabloggið hafi ákveðnar reglur um að klám eða múslimahatur eða trúarhatur eða ofsóknir á einstaka menn eða hópa séu ekki leyfðar. Þetta er vettvangur í einkaeigu og það er engin skylda til að leyfa öllum að segja allt. Ég er einmitt hér á moggablogginu vegna þess að þetta er tiltölulega siðleg og hófstillt umræða. Ég vil ekki tjá mig á sama vettvangi og brjálaðir rasistar og haturáróðursmenn.
En mér finnst að Morgunblaðið eigi ekkert með að eyða skrifum sem þar eru komin, alla vega er það siðlaust að eyða þeim svo að bloggari geti ekki afritað þau annað. það er nóg að loka almennum aðgangi að þeim og biðja bloggara vinsamlegast að flytja sig um set t.d. stofna blogg á wordpress.com eða blogger.com. Reyndar held ég að ofstækisblogg yrðu þurrkuð þar út líka.
Ég mun vonandi halda áfram að verja rétt fólks til þess að tjá sig á rustafenginn hátt. En það er ekki sama að verja tjáningarfrelsið og að átta sig á því að sá sem á tjáningarrýmið hann getur bara alveg ráðið því hvaða tjáningu hann leyfir í því rými. Fólk verður að átta sig á takmörkunum á því að nota rými eins og moggabloggið, það er frekar íhaldssamur, borgaralegur og hægrisinnaður vettvangur og tjáning sem ekki fellur undir það er ekki vel séð.
En sem sagt, ég hef ekkert séð þessi blogg sem voru fjarlægð og get nú ekki dæmt fyrirfram um hvort þau hafa verið yfir strikið. Margir hafa tjáð sig um þetta:
Ritskoðun staðreynd á blog.is?
Málfrelsi hefur styrkst á Íslandi
MOGGINN HELDUR ÁFRAM - NÚ RITSKOÐAR HANN MITT BLOGG!
Ritskoðun moggabloggsins
Trúarofstæki og Baldur Freyr
Ritskoðun dauðans
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2008 | 11:46
Má selja Hvammsvík án jarðhitaréttinda?
Hvammsvík er jörð við sunnanverðan Hvalfjörð. Lögregufélag Reykjavíkur keypti jörðina og fór ef ég man rétt út í eitthvað borunar og hitaveituævintýri og tapaði ævintýralega á því. Tapaði svo miklu að félagið varð að selja jörðina árið 1996. Árið 1998 hóf Skógræktarfélag Reykjvíkur gróðursetningu trjáa í Hvammsvíkurlandi. Hvammsvík er um 50 km frá Reykjavík. Bæjarstæðið er geysifagurt og mjög rólegt núna því umferðin fer ekki framhjá eftir að göngin opnuðu.
Hér eru greinar um Hvammsvík í gagnasafni mbl.
Byggð skipulögð í Hvammsvík
Skógrækt við Esju, Hvammsvík og í Mýrdal
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkti á síðasta stjórnarfundi sínum að auglýsa jarðirnar Hvamm og Hvammsvík í Kjósarhreppi til sölu, án jarðhitaréttinda.
Nú er ég ekki lögfræðingur en í jarðalögum segir:
Aðilaskipti að jörðum, öðru landi o.fl. 8. gr.Hlunnindi. Hlunnindi sem fylgja jörð eru eign jarðareiganda, nema undantekningar séu gerðar frá þeirri reglu með lögum.Óheimilt er að skilja hlunnindi frá jörð, nema undantekningar séu gerðar frá þeirri reglu með lögum.Gildir eitthvað sérstakt um jarðhitaréttindi? Má selja Hvammsvík án jarðhitaréttinda? Orkuveitan segir ástæðu sölunnar þá að þessi eign skili bara kostnaði en gildir ekki sama um margar aðrar eignir borgarinnar? Ættum við að selja Heiðmörk af því það svæði er bara kostnaður fyrir borgina?
Annars er dómadagsvitlaust hjá Reykjavíkurborg eða undirfyrirtækjum borgarinnar að selja frá sér land í nágrenni við borgarmörkin. Það er þar að auki ekkert sem bendir til að staða Orkuveitunnar sé svo tæp að hún verði að losa sig við eignir. Hvammsvík er upplagt útivistarsvæði fyrir Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið í framtíðinni. Best væri að yfirumsjón þessa svæðis væri í höndum skógræktarfélaga og landgræðslufélaga á höfuðborgarsvæðinu og hugsanlega í eign þeirra. En að selja svona fallegt útivistarsvæði til einkaaðila er bæði siðlaust og arfavitlaust. Jarðir í nánd við Reykjavík gera ekkert annað en hækka í verði á næstu áratugum og byggðin teygir sig í átt til Hvammsvíkur þannig að það verður mjög stutt að fara þangað fyrir marga íbúa höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni.
Vonandi er þessi hugmynd um að selja Hvammsvík ekki tilkomin vegna þess að einhver auðmaður hefur ágirnd á því að kaupa þessa jörð.
Hvammsvík verði seld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2008 | 08:33
Eitt símtal og 416 börn
Það er ekki mikið umburðarlyndi fyrir alternatívum lífsstíl í Texas. Sérstaklega ekki ef svoleiðis lífstíl er fólginn í að búa í einhvers konar kommúnum þar sem safnaðarmeðlimir helga líf sitt guði og byggja stórt og furðulegt musteri og konurnar klæðast í kjólum eins og eins og klipptar út úr fyrri öldum. Og þar sem stundað er fjölkvæni. Fjölkvæni er ólöglegt í USA en svona sértrúarsöfnuðir hafa leyst það með því að karlmaður giftist einni konu löglega en á svo margar svokallaðar "spiritual wives".
Sértrúarsöfnuðurinn FLDS í Texas er furðulegur ofsatrúarsöfnuður sem reynir að einangra sig frá umheiminum. Sennilega eru konur og börn mjög kúguð í þessu samfélagi eins og í öðrum sambærilegum samfélögum þar sem einn eða nokkrir menn stjórna með því að vitna í bókstafstrú og heimta fullkomna undirgefni. Það leikur grunur á því að stúlkubörn innan svona safnaða séu gefin á móti vilja sínum og látin giftast eldri karlmönnum í söfnuðinum.
En allt er þetta mál sem nú hefur komið upp í Texas mjög furðulegt og einkennilegt út frá mannréttindasjónarmiði. Fram hefur komið í fréttum að aðgerðir stjórnvalda í Texas sem fólust í að fjarlægja 416 börn frá mæðrum sínum voru gerðar út af einu símtali sem barst í neyðarlínu kvennaathvarfs frá stúlku sem sagðist vera 16 ára og hefði verið nauðgað og verið gefin sem "spiritual wife" til eldri manns. Jafnvel þó þetta símtal hafi raunverulega átt sér stað (sem reyndar er ekki víst, það getur verið að þetta hafi verið gabb frá konu sem heitir Rozita Swinton ) þá er mjög erfitt að sjá hvernig hvernig stjórnvöld í Texas geta réttlætt þessar aðgerðir, að svipta 416 fjölskyldu sinni og taka þau úr umhverfi sem þau þekkja. Þessi börn eru mjög hrædd, þeim hefur frá bernsku verið kennt að forðast heiminn fyrir utan söfnuðinn sinn og líta á okkar líferni
Ég held að konurnar og börnin í sértrúarsöfnuðinum í Texas séu kúguð og bæld en ég held að yfirvöld í Texas séu að gera hryllilega hluti með því að stía sundur börnum og mæðrum og það er vandséð hvaða lög heimila þessar aðgerðir. Mannréttindasamtök í Texas eru að skoða þessi mál. Ég held að öðrum þræði séu þessar aðgerðir gerðar vegna þess að yfirvöld óttast að örvæntingarfullir safnaðarmeðlimir geri eins og í Waco þar sem mörg börn létu lífið. Ég held líka að síðustu ár blossi upp fordómar fyrir fjölkvæni samfara lífsstíl sem tengdur er ofsatrú m.a. vegna þess að það er lífstíll sem sums staðar er tendur við Islam og ofsatrú. Það er auðvitað sjálfsagt að rannsaka vel öll mál þar sem grunur leikur á um kynferðislega misnotkun. Hvernig myndi okkur verða við ef 416 börn í einu byggðalagi væru tekin í einu frá foreldrum sínum og úr sínu umhverfi vegna gruns um að eitt barn hefði sætt kynferðislegu ofbeldi og sá grunur byggðist á einu símtali. Segjum að það hefði komið upp eitthvað eitt kynferðismisnotkunarmál í vestfirsku sjávarplássi og í framhaldinu þá hefðu stjórnvöld ákveðið að fjarlægja öll vestfirsk börn úr umhverfi sínu og flytja þau suður í siðmenninguna.
Sect mothers head to court for custody battle
Fullt af greinum og efni á CNN um þetta mál
Hér eru greinar á Wikipedia
Warren Jeffs er yfirmaður safnaðarins
Mæður og börn aðskilin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2008 | 08:52
Orð í eignarfalli
Má ég beygja hvaða orð í íslensku máli í þágufalli? Í hvers þágu er upplýsingum safnað og þær skráðar á Íslandi í dag? Ég var á Kaffi París í gærkvöldi, þar hittust þeir sem vinna við Wikipedia á Íslandi. Umræðan fór út um víðan völl enda wikiskrifarar flestir svona alfræðingar sem hafa áhuga á öllu og sérstaklega á því hvernig þekkingu er miðlað. Ég held að allir sem verða frístundum sínum í að vinna við Wikipedia séu fólk sem deilir þeirri sýn að þekking eigi að vera frjáls. Sumir kalla þetta info kommúnisma.
Í gærkvöldi heyrði ég af því að eitthvað mál hefði komið upp í tengslum við að beygingar orða voru afritaðar úr beygingarlýsingu íslensks nútímamáls orðabanka hjá Árnastofnun og sett inn í wiki verkefni. Það sem er skrýtnast er að það má ekki. Árnastofnun hefur höfundarrétt á beygingum orðanna sem eru í gagnasafninu, það er réttur sem er lögverndaður samkvæmt íslenskum höfundarréttarlögum.
En ég þjáist af þágufallssýki - þeirri sýn að upplýsingar sem safnað er fyrir almannafé eigi að liggja frammi í allra þágu til sem mest opinna nota. Ég held að áhersla á eignarfallið á Íslandi sé einhvers konar sjálfseyðingarhvöt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.4.2008 | 15:42
Vefhýsing
Hér er listi yfir aðrar vefhýsingar
Það getur verið skynsamlegt hjá fólki að kaupa eigin lén og vista gögnin sín t.d. bloggið sitt á einhverju svæði þar sem það ræður sjálft öllum aðgangi. Það er reyndar skynsamlegt að hafa gögnin sín á fleiri en einum stað þ.e. eiga afrit ef eitthvað gerist.
Ég hef sjálf nokkur lén með .net endingu og vefhýsingu til ýmis konar tilraunastarfsemi. Ég kaupi vefhýsingu á dreamhost.com en ég vil helst ekki hafa lénin hjá sama (reyndar fylgdi eitt ókeypis lén með dreamhost), ég vil geta flutt mig milli eftir því sem vindurinn blæs.
Ég er ekkert ánægð með dreamhost en ég veit ekki um annan stað þar sem er eins auðvelt að setja upp mediawiki vefi (one click install). Það er mikið gagnamagn sem kemur með hýsingu á dreamhost og það eykst í sífellu, ég nota bara brot af því sem ég má. Það er hins vegar engin verðmæti fólgin í því að hafa gögnin sín vistuð erlendis ef það tekur mjög langan tíma að nálgast gögnin, það skiptir mig miklu máli því oftast er mín notkun fólgin í að gera einhverjar tilraunir. Dreamhost er discount hosting og aðstaðan er eftir því.
Ég vildi svo sannarlega geta vistað mín gögn á vefþjónum hér á Íslandi. En það er því miður ekki valkostur hjá mér, bæði út af verði og út af þjónustu. Það er óhemjudýr og það er líka óhemjuléleg þjónusta alla vega hjá þeim Internetaðila sem ég fékk einu sinni til að setja upp gagnagrunn fyrir félagasamtök, Það þurfti að borga stóré mánaðarlega til hafa einn MySQL gagnagrunn og þegar hann hrundi þá var ekkert hægt að nálgast afrit. Það virtist ekki vera nein kunnátta fyrir hendi til að þjónusta smærri aðila sem eru í LAMP kerfum (linux-apache-mysql-php). Það eru einstaka íslenskir aðilar sem bjóða slíkar hýsingar en mér virðist oft að það sé bara frontur, þeir séu umboðsmenn sem hafi leigt pláss af stærri vefhýsingarhúsum.
Dreamhost býður upp á ótakmarkað magn af mysql gagnagrunnum og ftp aðganga og eins og skipti mig mestu máli - auðvelt að setja upp mediawiki. Ég var að taka eftir einu, núna get ég sett upp Google Apps og tengt það við lén. Ég er nú ekki alveg búin að fá það til að virka, ég var að prófa að setja slíkt upp í tengslum við lénið www.arnarholt.net og svo setti ég upp googlepages vefsíður í tenglslum við þann vef. Ég reyndi fyrst að tengja lénið við googlepages vefinn, ég held að það eigi að vera hægt en kannski var þetta ekki að virka vegna þess að lénið er ekki skráð hjá dreamhost.
Ég fletti upp áðan hvernig staðan er á þessu dreamhost svæði sem ég hef:
Total Bandwidth Provided: | 6353 GB ($0.1/GB over) |
Ég sem sagt bý yfir mikilli ónotaðri bandvídd sem ég veit ekkert ég á að nota í og nota sennilega ekki neitt nema í einhvers konar föndur. Ég borga fyrir þetta 190 dollara fyrir 2 ár fyrir pakka sem heitir my crasy domain insane sem gerir nokkra dollara á mánuði.
Þau kerfi sem ég get sett upp með svona one-click install eru:
AF þessum kerfum hef ég nú ekki sérlega mikil not nema mediawiki, wordpress og moodle. Flest hinna hef ég prófað að setja upp bara til að sjá hvernig þau virka.
Mig dreymir um að setja upp blogg á tölvu sem er vistuð hjá mér:
Hack Attack: Set up and host a blog on your home computer
Ég þyrfti kannski líka að pæla í til hvers ég geti notað öll þessi ónotuðu gígabæti. Sennilega er það samt álíka skynsamlegt og pæla í hvað ég ætti að gera við GSM símann minn sem kannski er ekki í notkun nema nokkrar mínútur af hverjum sólarhring.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2008 | 19:44
Netfundir í palbee.com
Ég er að prófa vefþjónustuna palbee.com, það er ókeypis kerfi þar sem ég get haft fund. Ég er núna búin að hlaða inn glærum en finn þær ekki aftur. Sennilega virkar það ekki ennþá.
Ég breytti úr Firefox yfir í IE og þá gat ég hlaðið inn glærum og myndum. Ég var bara ein á fundinum þannig að ég gat nú ekki prófað alla virkni í þessu. Það virðast fjórir aðrir geta komið á fundinn.
Hér er upptakan af þessari tilraun, ég er að rövla eitthvað við sjálfa mig á meðan ég er að átta mig á hvernig þetta kerfi virkar, varla til neitt meira óspennandi: Dæmi um upptöku í palbee
Þetta er ansi sniðugt, ég hlóð inn powerpointglærum og svo sýni ég þær og líka myndir. Það er svo hægt að hlaða niður powerpointglærunum.
En ég á að geta límt þetta inn í blogg. Best að prófa það.
Svona var þetta á moggablogginu og þá birtist einhver sem fylgdist með tilraunum mínum. Viðkomandi var ekki með vefmyndavél.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2008 | 10:29
Kerfisbundin kvennakúgun sem byrjar á barnamisþyrmingum
Stelpunni Nujood Ali í Jemen var í vikunni bjargað úr ánauð og miskunnsamur dómari veitti henni skilnað frá eiginmanni sínum. Hún var 8 ára seld af föður sínum í hjónaband til 30 ára manns og neydd til að flytjast til hans og nauðgað og misþyrmt mánuðum saman áður en henni var bjargað. Nujood kemur úr bágstaddri fjölskyldu, faðir hennar er betlari og þjáist af geðsjúkdóm. Það má lesa sögu Nujood í þessum greinum:
Parliament refuses to legislate minimum age for marriage
8 year old girl asks for divorce in court
Hér eru myndir frá réttarhöldunum
Nujood er ekki eina stelpan í heiminum sem býr við svona skelfilegar aðstæður, aðstæður þar sem hún er hneppt í ánauð á barnsaldri og ætlað að vera kynlífsþræll og heimilisþræll manns sem hefur keypt hana af föður hennar. Það eru tugmilljónir telpna viðs vegar um heiminn í svona stöðu, lesið líka sögurnar af Rakiya og Maimuna og Chaya og Zulai og Helena og Rohini og Aisha og Adjaratou og Fatoumata og Halima og Mariana og Takia og Shahnaz og Rebeca og Nurjahan og Bijli og. Shein svo aðeins séu sett andlit á örfáar af þeim stúlkum sem sviptar eru bernskunni og framtíðarmöguleikum og lokaðar inn á heimilum ofurseldar valdi karlmanna sem hafa samið um ævilanga notkun á þeim sem vinnuþrælum, kynlífsþrælum og útungunarvélum fyrir börn sín. Allt er þetta gert í krafti hefðarinnar og viðtekinna venja í samfélaginu og sums staðar í heiminum er mjög erfitt fyrir foreldra að vernda dætur sínar svo þær geti aflað sér menntunar og gifti sig eldri.
Hér til hliðar er áhrifarík ljósmynd sem sigraði í ljósmyndasamkeppni Unicef árið 2007, þetta er mynd af 40 ára afgönskum karlmanni og 11 ára stelpu sem er verðandi eiginkona hans. Ljósmyndarinn er Stephanie Sinclair og hún spurði stelpuna hvernig henni liði og stelpan svaraði : "Ég finn ekki til neinna tilfinninga, ég þekki þennan mann ekki, hvernig á mér að líða? Sinclair birtir fleiri myndir af þessari stelpu og umhverfi hennar og annarra barna í þessu vídeói sem fjallar um giftingar stúlkubarna og afleiðingar þeirra.
Viðhorf karlmanna sem kaupa stúlkubörn eru kannski svipuð og fyrrverandi eiginmanns barnsins Nujood en hann telur sig í heilögum rétti og neitar að sleppa stúlkunni og viðurkenna skilnaðinn og segir:
I will not divorce her, and it is my right to keep her. No need to sleep with her, at least I can have her as a wife. No power can stop me, the husband, Faez Ali Thamer, said.
It is not a matter of loving her, I dont, but its just a challenge to her and her uncle who think that they can put me in jail and also the judge has no right to bring me here. How did she dare to complain about me? he threatened.
Eiginmaðurinn fyrrverandi er í varðhaldi að mér skilst vegna þess að hann er talinn vera hættulegur öryggi Nujood en samkvæmt lögum Jemen telst hann ekki hafa framið neinn glæp. Það er útbreiddur siður í Jemen að gifta stelpur á barnsaldri eins og víðar í heiminum. Hér eru upplýsingar úr rannsókn á vegum Sana háskólans:
"A 2006 field study revealed that child marriage among Yemeni girls reached 52.1%, compared to 6.7% among males. The study, conducted by the Woman and Development Study Center, affiliated to Sanaa University, looked at 1,495 couples, concluding that there is a huge age gap between the spouses.
The study established a comparison between ages of spouses in their first marriage through three generations. It disclosed that marriage age raised gradually from an average of 10.24 years to 14.70 years for women and from 20.97 to 21.54 years for men. It indicated that the average marriage age varies from one geographical area to another; for example, it showed that girls in Hodeidah and Hadramout married at the average age of eight, while in Mukalla the average age was 10."
Heitir reitir
Jemen er heitur reitur í heiminum ekki aðeins á sviði orkumála en nýlega var Össur iðnaðarráðherra þar í jarhitaútrásarham og að biðja um að Jemen styðji framboð Íslands til öryggisráðsins Hér er ræða sem Össur flutti í Jemen og hér er fréttin þegar REI gerði samning í Jemen
Jemen er einn af heitum reitum heimsins í barnagiftingum en sjá má hvar ástandið er verst í þessari töflu, sjá nánar á Global Hotspots for Child Marriage
60 milljónir barna í heiminum eru neydd til að giftast og er meira en helmingur þeirra í Suður-Asíu. Stærst er vandamálið í Rajasthan á Indlandi en þar giftast 15% stelpna áður en þær verða 10 ára.
Í sumum löndum er meirihluti stúlkna giftur fyrir 18 ára aldur. Það eru 82% í Niger, 75% í Bangladesh, 63% í Mali, 63% í Nepal, 57% í Eþjópíu , 57% á Indlandi og 50% í Uganda. (DHS, 1996-2001)
í Nepal eru 7% stúlkubarna gift fyrir 10 ára aldur og 40% fyrir 15 ára aldur. (UNICEF, 2001)
Í Amhara í Eþjópíu eru 50% stúlkna gift fyrir 15 ára aldur.
Það er sem betur fer vakning í mannréttindamálum sem snerta konur og börn, bæði sjá sífellt fleiri hvernig það er hlutskipti margra kvenna að vera ánauðugir kynlífsþrælar m.a. á Vesturlöndum og þar er Ísland ekki undanskilið. Það er gríðarlegur fjöldi kvenna og barna sem eru fluttar mansali milli landa, núna löngu eftir að þrælahald er afnumið í lögum allra landa. Melludólgsiðjan er stóriðnaður í okkar heimshluta, iðja sem er líka varin af svo mikilli heift og kvenfyrirlitningu af sumum karlmönnum í okkar samfélagi að það minnir á þá sem verja kvennakúgun og barnagiftingar í fjarlægum löndum - varin sem eitthvað grunngildi í samfélaginu sem ekki megi hrófla við, það séu mannréttindi karlmanna að fá að kaupa vændi og kynlífsþjónustu, með því að vísa í frelsið - frelsi sem þá er skilgreint sem frelsi neytandans, frelsi vestrænna karlmanna til neyslu og nautna. Ef til vill eru aðstæður telpunnar Nujood Ali í Jemen og telpunnar Thelmu sem sagði sögu sína í bókinni Myndin af pabba ekki svo ólíkar, báðar eru þær frá brotnum fjölskyldum þar sem feður er geðbilaðir en drottna samt yfir örlögum þeirra og selja þær til kynlífsathafna.
Sem betur fer hefur fólk bundist samtökum víða um heim að benda á þetta og kvenréttindasamtök í Jemen hafa unnið mikið starf og það er flott að þetta mál setur andlit á þær þjáningar sem margar milljónir barna þurfa að búa við. Vonandi styður alþjóðasamfélagið við þá sem gagnrýna stjórnvöld í Jemen og reyna að mynda pressu á stjórnvöld þannig að barnagiftingar verði ekki heimilaðar.
Bætt menntun kvenna og mannréttindi fyrir stúlkubörn eru brýn verkefni í heiminum í dag, ekki bara vegna þeirra miklu þjáninga sem núverandi ástand skapar heldur líka vegna þess að lykillinn að velsæld í framtíðinni hjá fátæku fólki er í menntun. Ekki síst í betri menntun kvenna sem miðla þeirri menntun til barna sinna á ýmsan hátt m.a. með viðhorfum en betri menntun veldur líka að konur verða úrræðabetri og geta sjálfar betur brauðfætt sig og verða sjálfstæðari. Giftar konur eru víðast hvar teknar úr skóla og stúlkurnar eru lokaðar inn á heimilum þegar þær giftast. En sums staðar er samfélagið þannig að konum og meybörnum er kerfisbundið haldið niðri með því að einangra þær og passa að þær fái enga menntun. Það má minna á að Talibanar bönnuðu alla menntun kvenna og bönnuðu líka konum að vinna launaða vinnu.
Við getum lagt okkar af mörkum með því að taka þátt í að styðja mannréttindastarf innan landa eins og Jemen, hjálpa' til að skapa þrýsting á stjórnvöld þar og styðja við menntun þar á ýmsa lund. Hér er skemmtilegt blogg frá Jóhönnu Kristjónsdóttur með frásögnum af börnum í Jemen sem Íslendingar styrkja til náms: http://jemenborn.blogspot.com/
Átta ára stúlku veittur lögskilnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2008 | 16:31
Morðingjatékk
Jón Trausti Reynisson ritstjóri skrifar í leiðara í DV í dag:
"Það er skylda íslenskra yfirvalda við þjóðina og sérstaklega pólska innflytjendur, að bakgrunnur innflytjenda frá Póllandi sé kannaður áður en þeir koma til landsins. Í það minnsta mætti athuga hvort þeir hafi myrt einhvern nýlega".
Það hefur líka komið fram í fréttum að í gangi sé undirskriftasöfnun meðal Pólverja búsettra á Íslandi þar sem farið er fram á að íslensk stjórnvöld skoði bakgrunn fólks og passi að hingað flytjist ekki glæpalýður.
Um þetta vil ég segja að fólk, líka ritstjórar DV verða að átta sig á því að lög um mannréttindi og lög um ferðafrelsi gilda líka um dæmda sakamenn og löggæsluyfirvöld á Íslandi mega ekki eltast við fólk nema einhver grunur leiki á því að það sé að fremja afbrot eða undirbúa afbrot hérlendis eða þeir séu eftirlýstir á alþjóðavettvangi.
Það eru í 66 grein stjórnarskrárinnar
Ég held að það sé eitt einkenni góðs réttarfars að ekki er flanað að neinu þegar fólk er svipt ferðafrelsi og/eða hneppt í varðhald. Það má ekki gera nema stoð sé í lögum. Þó fólk sé algjörir skúrkar og dæmdir morðingjar þá hefur það líka mannréttindi. Fólk á flótta undan stjórnvöldum í einu landi sem kemur til Íslands er ekki framselt nema að einhverjir samningar gildi milli landanna.
Þetta minnir mig reyndar á Gervasoni málið fyrir mörgum áratugum en þá tók ég þátt í mótmælum vegna þess að Ísland vildi ekki skjóta skjólshúsi yfir franskan mann sem hafði neitað að gegna herþjónustu í Frakklandi og átti yfir höfði sér fangelsi þar.
Það eru stífar reglur á því hvenær má svipta fólk frelsi. Þegar fólk er grunað um afbrot þá er hægt að hneppa það í gæsluvarðhald ef það er talið nauðsynlegt út af rannsókn málsins. Það er líka hægt að setja það í farbann meðan rannsókn stendur yfir og réttað er í máli og dómstóll getur dæmt fólk til fangelsisvistar.
Það eru mörg dæmi um það í Evrópuríkjum að valdhafar hafi sigað lögreglu á almenning og búið til lögregluríki þar sem hugsandi fólk og allir andófsmenn sem eitthvað þorðu að tjá sig voru hnepptir í fangelsi og fluttir ánauðugir frá heimkynnum sínum.
Ég held að ríki þar sem á landamærunum er horft á tortryggni á alla útlendinga og þeirg grunaðir um að vera morðingjar þangað til annað kemur í ljós sé á góðri leið í að verða lögregluríki
Efirlýstur maður handtekinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.4.2008 | 20:37
Þurfa sömu lög að gilda hér og í öðrum Evrópulöndum?
Það var mjög upplýsandi það sem lögreglustjóri sagði í Kastljósi og það sem dómsmálaráðherra segir um framsal sakamanna. Ég er samt ekki viss um að það þurfi endilega að gilda sömu lög í öllum Evrópulöndum.
Það var skrýtið í dag hvað fréttaflutningur í dag var mismunandi af þessu máli eftir því hvort maður las Moggann eða DV. Íslensku lögreglunni var líka borin mjög mismunandi sagan eftir því hvor fjölmiðillinn var. Svo kom þriðja sjónarhornið í kvöld í Kastljósi. Það var sjónarhorn Przemyslaw Plank sem mér skilst að núna hafi verið handtekinn, grunaður um aðild að morði í Póllandi.
Hér er brot úr viðtalinu í Kastljós við hann:
Mér sýnist á öllu að íslenska lögreglan þurfi að búa sig undir breytt landslag.
Mér sýnist reyndar að ríkisfjölmiðillinn RÚV sé kominn með nýja línu, þá línu að taka drottningarviðtöl við dæmda og stórhættulega menn sem sannarlega hafa framið mikla og alvarlega glæpi. Ég skrifaði á sínum tíma um viðtal RÚV manna við Kalla Bjarna þetta blogg Dópsaladýrkun sjónvarpsins - Forvarnarverðlaun til þeirra! og svo fékk bróðir minn drottingarviðtal nýlega en hann hefur eins og alþjóð veit verið dæmdur fyrir að nota orð Halldórs Laxness þegar hann rifjar upp bernsku sína án gæsalappa í endurminningabók um Halldór. Þetta nýjasta viðtal við Przemyslaw Plank er sama krimmadýrkunin þó hann neitar aðild að pólsku mafíunni
Það hlýtur að vera krafa okkar borgaranna að Ríkisútvarpið sé ekki hefja svona upp til skýjanna dæmda menn sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi og hrottalegum glæpum eins og Kalla Bjarna með sinn skipulagða eiturlyfjainnflutning og yfirhylmingar, Hannes með sínar umfangsmiklu gæsalappasleppingar og Przemyslaw Plank með jafnvel ennþá alvarlegri glæpi.
Reglur um framsal einfaldaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.4.2008 | 20:24
Pökkum Halldóri niður og geymum hann í 70 ár
Eina skynsama leiðin varðandi Halldór Laxness og verk hans er að pakka öllu dóti frá honum niður og geyma það í 70 ár. Alla vega reyna að sniðganga það algjörlega og tala ekki um verk hans eða hugsa um þau. Mér virðist líka fólk ekki hafa mikinn áhuga á verkum Halldórs í augnablikinu, það hefur miklu meiri áhuga á ævihlaupi hans og hvernig með verk hans er farið í nútímanum, hvernig þau eru notuð í verkum annarra. Efni er háð höfundarrétti í 70 ár frá láti höfundar. Hér er efni sem ég tók saman um Höfundarrétt og Interneti
Hérna er skemmtilegt remix um frjálsa menningu sem lýsir ágætlega mínum viðhorfum til höfundarréttarmála þar sem höfundarréttur er svo íþyngjandi fyrir skapandi vinnu að það getur enginn gert neitt nema ráðfæra sig við lögfræðing fyrst.
þetta remix er svona blanda úr alls konar efni sem er með CC höfundarleyfi sem leyfir remix.
Ég tek fram að ég er EKKI að hvetja til lögbrota og ég er EKKERT á móti því að fólk og fyrirtæki hafi höfundarrétt á hugverkum. Ég er hins vegar að hvetja til þess að við reynum eftir megni að sniðganga svoleiðis efni og látum sem það sé ekki til, alla vega ef við erum að vinna í umhverfi þar sem við viljum blanda og endurblanda og vinna á skapandi hátt með efni sem er runnið frá mörgum öðrum uppsprettum. Það er sem betur fer alveg að verða mögulegt, það er svo mikið af efni orðið aðgengilegt með ýmis konar CC (Creative Commons) höfundarleyfum. Það er besta leiðin fyrir skólanemendur og skólastofnanir sem ég sé í stöðunni að vinna bara með svoleiðis efni. Vonandi beitir stúdentaráð sér fyrir því, það er mikið í húfi að stuðla að sem opnustu aðgengi að efni og að stuðla að því að efni sé gefið út með CC-by-sa höfundarrétti.
Kristján Jónsson skrifaði bloggið Tjáningarfrelsi og höfundarréttur
og Sæmundur hefur skrifað um það þetta blogg 301. - Um Kristján B. Jónasson og höfundarréttarmál
Kristján ræðir viðhorf mitt til höfundarréttar en ég vil taka fram að ég alls ekki á móti höfundarrétti eins og mér virðist Kristján halda og ég er ekki talsmaður þess að afnema höfundarrétt. Ég er hins vegar talsmaður þess að við áttum okkur á að höfundarréttarlög eru á skjön við samfélagið og þá átt sem það þróast í og það þarf að breyta þeim. Margir hugsuðir hafa komið með tillögur um það og það virðist virka vel að koma upp svona almenningshugsun þ.e. Creative Commons þar sem eru ýmis höfundarréttarleyfi sem ganga misjafnslega langt en grunnhugsunin er að höfundur leyfir ýmis konar notkun á efni sínu t.d. remix þegar hann gefur það út.
Hér er brot úr bloggi Kristjáns:
"Ég sé til dæmis að bloggvinkona mín Salvör Gissurardóttir heldur enn uppi skeleggum vörnum fyrir því að skapandi kraftar þekkingarsamfélagsins verði leystir úr læðingi með nýrri höfundarréttarhugsun sem dragi dám af nýjum miðlunarleiðum sem opnast hafa með tilkomu Netsins. Salvör er ein af þeim sem telja að leggja beri eignarrétt niður á hugverkum því hann sé ekki samrýmanlegur veruleika nútímamiðlunar og standi í vegi fyrir lýðræðisvæðingu tjáningarinnar. Hún hefur tekið einarða afstöðu með sjóræningjamiðlurum gegn höfundarréttarsamtökum og í nýrri færslu, ritaðri í tilefni af umræðunni vegna dóms Hæstaréttar í máli Laxness-fjölskyldunnar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, stillir hún upp með mögnuðum hætti aðstæðum sem skoðanasystkini hennar um allan heim hamra sífellt á í ræðu og riti: Að höfundarréttarákvæði og skilningur laga á eignarréttarákvæðum í honum sé hindrun fyrir frjálsa tjáningu (zombí-kaflinn er kómísk perla).Um leið gerir hún því skóna að þetta sé afstaða hinna uppreisnargjörnu, þeirra sem vilji leysa tjáninguna úr læðingi. Ég held hins vegar, og held að allir góðir menn og konur þessa lands og víðar geti tekið undir með mér í því, að skilgreining eignarréttar sé grundvöllur skynsamlegrar nýtingar og þess að menn fari vel með verðmætin. Verðmætasköpun í menningariðnaði er bundin skilgreiningu á eignarrétti, verndun höfundar- og útgáfuréttar. Við vitum að ný tækni ögrar þessum skilgreiningum og við vitum að upp að vissu marki eru þekkingardreifingu nú sett mörk sem ríma ekki við veruleika miðlunarleiða samtímans. En þeir sem berjast hvað mest þessi misserin fyrir róttækri breytingu á þessu eru í raun ekki torrentsíðumenn, heldur stjórnvöld, til að mynda búrókratarnir í Brussel. Hinir sem eru mjög hrifnir af afnámi eignaréttar á hugverkum eru fyrirtæki á borð við Google sem vilja búa til stóra gagnagrunna til að selja auglýsingar.
........
Í umhverfinu sem Salvör mærir hefði hann ekki getað þetta því þá hefði "spennitreyja höfundarréttarins" verið afnumin og því hefðu allir getað hakkað verk HKL í spað og gefið þau út eins og þeim sýndist. Það gæti verið áhugavert að sjá útkomuna úr því "rímixi" en það hefði ekki byggt upp fyrirtæki á borð við Vöku-Helgafell. Enn og aftur: Skilgreining eignaréttar býr til verðmæti og tryggir skynsamlega umgengni við auðlindir. Hver er það aftur sem hefur varið þessa skoðun með kjafti og klóm nú hátt á fjórða áratug?"
Ég held líka að það sé ágætt að það sé friður um menn sem hafa nýlega látist og reyndar þætti mér út frá persónuvernd það væri eðlilegt að fjölskyldur þeirra hefðu frið fyrir ævisagnaskrifurum í einhvern tíma og ég skil svo sannarlega að dætur og ekkja Halldór Laxness séu sárar og reiðar yfir að maður sem þær vildu ekki að skrifaði slíka ævisögu gerði það.
En framganga þeirra er þeim ekki að öllu leyti til sóma. Það var ekki sniðugt að reyna að loka bréfasafninu nema fyrir útvöldum og það keyrir yfir allan þjófabálk þessi ummæli Guðnýjar Halldórssdóttur:
Þetta hefði ekki þurft að fara í svona mikil læti, við buðum Hannesi að biðjast afsökunar og draga þessa bók til baka. Hann vildi það ekki, hann neitaði því og fyrst hann neitaði þessari kurteislegu beiðni okkar þá fórum við í hart. Þetta vildi hann frekar og hann er ekki bara búinn að stela frá föður mínum, hann er búinn að stela frá 12 - 14 manns í viðbót," segir Guðný ómyrk í máli og bætir því við að Hannes hafi verið staffírugur, neitað að draga bók sína til baka og viljað fara út í hart.
Guðný heldur því enn fremur fram að Hannes hafi ekki verið einn að verki heldur hafi hann notið aðstoðar forstöðumanns á Þjóðarbókhlöðunni sem hafi látið sér í léttu rúmi liggja að Hannes hafi ljósritað þar upp úr öllum bréfum Halldórs að fjölskyldu hans fornspurðri og auk þess aðstoðað hann við það á meðan annað starfsfólk bókhlöðunnar hafi látið fjölskyldu skáldsins vita þegar til stóð að ljósrita.
Svo lýgur Hannes að þjóðinni, hann var búinn að fara í allt bréfasafnið og búinn að ljósrita þetta þegar við lokuðum safninu sem var í óreiðu og nýtt efni að berast, hann sagði það sjálfur í RÚV og Mogganum . En hann var með stjórn Þjóðarbókhlöðunnar og fleiri sér til fulltingis og við gátum ekkert gert," sagði Guðný að lokum. Sjá hérna Segir Hannes hafa logið að þjóðinni
SHÍ tekur undir með rektor HÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)