Pökkum Halldóri niður og geymum hann í 70 ár

Eina skynsama leiðin varðandi Halldór Laxness og verk hans er að pakka öllu dóti frá honum niður og geyma það í 70 ár. Alla vega reyna að sniðganga það algjörlega og tala ekki um verk hans eða hugsa um þau. Mér virðist líka fólk ekki hafa mikinn áhuga á verkum Halldórs í augnablikinu, það hefur miklu meiri áhuga á ævihlaupi hans og hvernig með verk hans er farið í nútímanum, hvernig þau eru notuð í verkum annarra.  Efni er háð höfundarrétti í 70 ár frá láti höfundar. Hér er efni sem ég tók saman um Höfundarrétt og Interneti

Hérna er skemmtilegt remix um frjálsa menningu sem lýsir ágætlega mínum viðhorfum til höfundarréttarmála þar sem höfundarréttur er svo íþyngjandi fyrir skapandi vinnu að það getur enginn gert neitt nema ráðfæra sig við lögfræðing fyrst.

 

þetta remix er svona blanda úr alls konar efni sem er með CC höfundarleyfi sem leyfir remix. 

Ég tek fram að ég er EKKI að hvetja til lögbrota og ég er EKKERT á móti því að fólk og fyrirtæki hafi höfundarrétt á hugverkum. Ég er hins vegar að hvetja til þess að við reynum eftir megni að sniðganga svoleiðis efni og látum sem það sé ekki til, alla vega ef við erum að vinna í umhverfi þar sem við viljum blanda og endurblanda og vinna á skapandi hátt með efni sem er runnið frá mörgum öðrum uppsprettum. Það er sem betur fer alveg að verða mögulegt, það er svo mikið af efni orðið aðgengilegt með ýmis konar CC (Creative Commons) höfundarleyfum. Það er besta leiðin fyrir skólanemendur og skólastofnanir sem ég sé í stöðunni að vinna bara með svoleiðis efni. Vonandi beitir stúdentaráð sér fyrir því, það er mikið í húfi að stuðla að sem opnustu aðgengi að efni og að stuðla að því að efni sé gefið út með CC-by-sa höfundarrétti.

 

Kristján Jónsson skrifaði bloggið Tjáningarfrelsi og höfundarréttur

og Sæmundur hefur skrifað um það þetta blogg  301. - Um Kristján B. Jónasson og höfundarréttarmál

Kristján ræðir viðhorf mitt til höfundarréttar en ég vil taka fram að ég alls ekki á móti höfundarrétti eins og mér virðist Kristján halda og ég er ekki talsmaður þess að afnema höfundarrétt. Ég er hins vegar talsmaður þess að við áttum okkur á að höfundarréttarlög eru á skjön við samfélagið og þá átt sem það þróast í og það þarf að breyta þeim. Margir hugsuðir hafa komið með tillögur um það og það virðist virka vel að koma upp svona almenningshugsun þ.e. Creative Commons þar sem eru ýmis höfundarréttarleyfi sem ganga misjafnslega langt en grunnhugsunin er að höfundur leyfir ýmis konar notkun á efni sínu t.d. remix þegar hann gefur það út. 

Hér er brot úr bloggi Kristjáns:

"Ég sé til dæmis að bloggvinkona mín Salvör Gissurardóttir heldur enn uppi skeleggum vörnum fyrir því að skapandi kraftar þekkingarsamfélagsins verði leystir úr læðingi með nýrri höfundarréttarhugsun sem dragi dám af nýjum miðlunarleiðum sem opnast hafa með tilkomu Netsins. Salvör er ein af þeim sem telja að leggja beri eignarrétt niður á hugverkum því hann sé ekki samrýmanlegur veruleika nútímamiðlunar og standi í vegi fyrir lýðræðisvæðingu tjáningarinnar. Hún hefur tekið einarða afstöðu með sjóræningjamiðlurum gegn höfundarréttarsamtökum og í nýrri færslu, ritaðri í tilefni af umræðunni vegna dóms Hæstaréttar í máli Laxness-fjölskyldunnar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, stillir hún upp með mögnuðum hætti aðstæðum sem skoðanasystkini hennar um allan heim hamra sífellt á í ræðu og riti: Að höfundarréttarákvæði og skilningur laga á eignarréttarákvæðum í honum sé hindrun fyrir frjálsa tjáningu (zombí-kaflinn er kómísk perla).Um leið gerir hún því skóna að þetta sé afstaða hinna uppreisnargjörnu, þeirra sem vilji leysa tjáninguna úr læðingi. Ég held hins vegar, og held að allir góðir menn og konur þessa lands og víðar geti tekið undir með mér í því, að skilgreining eignarréttar sé grundvöllur skynsamlegrar nýtingar og þess að menn fari vel með verðmætin. Verðmætasköpun í menningariðnaði er bundin skilgreiningu á eignarrétti, verndun höfundar- og útgáfuréttar. Við vitum að ný tækni ögrar þessum skilgreiningum og við vitum að upp að vissu marki eru þekkingardreifingu nú sett mörk sem ríma ekki við veruleika miðlunarleiða samtímans. En þeir sem berjast hvað mest þessi misserin fyrir róttækri breytingu á þessu eru í raun ekki torrentsíðumenn, heldur stjórnvöld, til að mynda búrókratarnir í Brussel. Hinir sem eru mjög hrifnir af afnámi eignaréttar á hugverkum eru fyrirtæki á borð við Google sem vilja búa til stóra gagnagrunna til að selja auglýsingar.

........

Í umhverfinu sem Salvör mærir hefði hann ekki getað þetta því þá hefði "spennitreyja höfundarréttarins" verið afnumin og því hefðu allir getað hakkað verk HKL í spað og gefið þau út eins og þeim sýndist. Það gæti verið áhugavert að sjá útkomuna úr því "rímixi" en það hefði ekki byggt upp fyrirtæki á borð við Vöku-Helgafell. Enn og aftur: Skilgreining eignaréttar býr til verðmæti og tryggir skynsamlega umgengni við auðlindir. Hver er það aftur sem hefur varið þessa skoðun með kjafti og klóm nú hátt á fjórða áratug?"

 

 Ég held líka að það sé ágætt að það sé friður um menn sem hafa nýlega látist og reyndar þætti mér út frá persónuvernd það væri eðlilegt að fjölskyldur þeirra hefðu frið fyrir ævisagnaskrifurum í einhvern tíma og ég skil svo sannarlega að dætur og ekkja Halldór Laxness séu sárar og reiðar yfir að maður sem þær vildu ekki að skrifaði slíka ævisögu gerði það. 

En framganga þeirra er þeim ekki  að öllu leyti til sóma. Það var ekki sniðugt að reyna að loka bréfasafninu nema fyrir útvöldum og það keyrir yfir allan þjófabálk þessi ummæli Guðnýjar Halldórssdóttur:

„Þetta hefði ekki þurft að fara í svona mikil læti, við buðum Hannesi að biðjast afsökunar og draga þessa bók til baka. Hann vildi það ekki, hann neitaði því og fyrst hann neitaði þessari kurteislegu beiðni okkar þá fórum við í hart. Þetta vildi hann frekar og hann er ekki bara búinn að stela frá föður mínum, hann er búinn að stela frá 12 - 14 manns í viðbót," segir Guðný ómyrk í máli og bætir því við að Hannes hafi verið staffírugur, neitað að draga bók sína til baka og viljað fara út í hart.

Guðný heldur því enn fremur fram að Hannes hafi ekki verið einn að verki heldur hafi hann notið aðstoðar forstöðumanns á Þjóðarbókhlöðunni sem hafi látið sér í léttu rúmi liggja að Hannes hafi ljósritað þar upp úr öllum bréfum Halldórs að fjölskyldu hans fornspurðri og auk þess aðstoðað hann við það á meðan annað starfsfólk bókhlöðunnar hafi látið fjölskyldu skáldsins vita þegar til stóð að ljósrita.

„Svo lýgur Hannes að þjóðinni, hann var búinn að fara í allt bréfasafnið og búinn að ljósrita þetta þegar við lokuðum safninu sem var í óreiðu og nýtt efni að berast, hann sagði það sjálfur í RÚV og Mogganum . En hann var með stjórn Þjóðarbókhlöðunnar og fleiri sér til fulltingis og við gátum ekkert gert," sagði Guðný að lokum. Sjá hérna Segir Hannes hafa logið að þjóðinni

 

 


mbl.is SHÍ tekur undir með rektor HÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Mér finnast hugmyndir þínar um höfundarrétt athyglisverðar.  Ég skil þó ekki hvernig þeir sem skrifa bækur eða semja tónlist eiga að geta selt bækur og tónlist, og þannig fengið laun fyrir tíma sinn, samkvæmt þinni hugmynd um að sniðganga þá sem vilja ekki gefa sitt efni. 

Verða ekki alltaf að vera reglur um þetta?  Burt séð frá HKL/HHG málinu.  Mun það ekki einungis verða til þess að þeir einir skapa sem vilja/hafa efni á að gefa sköpun sína?  Mun það þá ekki einnig verða til þess að flóran verður fátækari?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 13.4.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Almáttugur   viltu taka þessargersemar frá okkur??

Hólmdís Hjartardóttir, 14.4.2008 kl. 04:07

3 Smámynd: Auðun Gíslason

Mikið á nú blessuð manneskjan bágt!

Auðun Gíslason, 14.4.2008 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband