Dópsaladýrkun sjónvarpsins - Forvarnarverðlaun til þeirra!

Ídolstjörnunni  föllnu  Kalli Bjarna var skotið rækilega aftur upp á stjörnuhimininn í Kastljósi RÚV núna í kvöld. Við fylgdumst með svölum náunga á sjó á línubátnum Dóra frá Grindavík  segja frá kröggum sínum og hve lítilfjörleg afbrot hann hefði framið. Segja frá hvað hann væri góður pabbi og hvað hann væri lítið innviklaður í þennan dópinnflutning sem hann hefði þó verið dæmdur fyrir, hann gæti nú ekki hafa fjármagnað neinn dópinnflutning sjálfur, hann sem þyrfti að betla peninga fyrir mjólk af öryrkjanum móður sinni.  Svo var hann ansi drýgindalegur um hollustu sína gagnvart þeim sem hann var í vinnu hjá við eiturlyfjainnflutning, hann ætlaði svo sannanlega ekki að koma upp um þá, honum hefði næstum verið hótað.

Þetta viðtal var sorglegt dæmi um sjálfeyðingarmáttinn í íslensku samfélagi, samfélagi sem gyllir ýmis konar vímuefnaneyslu og samfélagi þar sem hetjurnar eru spennufíklar sem svífast einskis í einhverjum peningalottóum og þar sem græðgi og dómgreindarleysi hjá ídolstjörnu er þvílíkt að hún hika ekki við að flytja inn eiturlyf í von um skjótfenginn gróða.    

Hér er viðtalið: 

Rætt við Kalla Bjarna

 

Kannski verður maður bara að sjá spaugilegu hliðina á þessu, eða kannski fremur þá grátbroslegu og æfa sig að raula sjómannaslagarann fræga um fræknu sjómennina sem sigla um öll heimsins höf færandi varninginn heim... bara varningurinn hefur breyst úr fisk í duft  eftir að kvótinn hvarf úr þorpunum. 

 

Svo má náttúrulega brosa skakkt af því að Ölgerð Egils Skallagrímssonar fékk nýlega  forvarnarverðlaun með mikilli viðhöfn  Já sniðugt að veita fyrirtæki sem framleiðir og flytur inn bjór og  segir á heimasíðu sinni að helstu vörumerkin séu  Egils Gull, Egils Premium, Egils Lite, Tuborg, Holsten, Budweiser, Grolsch og Guinness. Ekki má gleyma því að forvarnarverðlaunahafinn segir stoltur frá því að hann hafi umboð fyrir Smirnoff vodka og framleiði sinn eigin vodka. Og svo hampar forvarnarverðlaunahafinn íslenska brennivíninu á vef sínum og segir:

 

"Brennivín er ein af gersemum íslensku þjóðarinnar og sannkallaður þjóðardrykkur. Brennivín er 100% íslenskt og var fyrst framleitt þann 1. febrúar árið 1935, þegar Áfengisverslun Ríkisins aflétti banni á sölu á sterku áfengi."

 

Vá, hvað ég er stolt af því að vera Íslendingur með þessar séríslensku vörur og Kalla Bjarna á stjörnuhimninum út á rúmsjó.

 

Ég sé núna ljósið, RÚV vinnur merkilegt forvarnarstarf á Íslandi  í sama anda og Ölgerðin og ætti náttúrulega að fá forvarnarverðlaun eins og Ölgerð Egils Skalla-Grímssonar.  Fyrir hvað? Fyrir að vera griðastaður og gjallarhorn fyrir fallnar dópstjörnur og iðrandi slagsmálahunda .  Fyrir að vera ókeypis auglýsingamiðill fyrir bjórframleiðslu illa farinna alkóhólista. Nýlega var einhver vesalings maður, langt leiddur alki puntaður upp í viðtalsþættinum Sunnudagskvöld með Evu Maríu. Í þættinum var sorgarsaga hans sögð á galsafenginn hátt og því lýst eins og einhverju sniðugu hvernig yfirvöld í samfélaginu hans - litlu sveitarfélagi út á landi - hefðu komið honum reglulega inn á Vog til að  þurrka hann upp  svo hann væri í standi til að halda jólatrésskemmtanir o.þ.h. í plássinu. Þessi vesalings maður rekur bar og selur áfengi í plássinu sínu og virtist þessi sjónvarpsþáttur vera einhvers konar auglýsing fyrir einhvern grillubjór sem hann er að framleiða og dreifa. Þessi grillubjór var líka auglýstur rækilega einu sinni í sjónvarpsfréttum hjá RÚV. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FLÓTTAMAÐURINN

Ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta yfir bullinu í þér

FLÓTTAMAÐURINN, 8.1.2008 kl. 22:30

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta. Mér hefði þótt mega örla fyrir aðeins meiri iðrun af hendi Kalla Bjarna en þegar upp er staðið, hefði það verið eitthvað betra?  Mér fannst hann reyndar ekki vera að hreykja sér af því að ætla ekki að segja til eiginlega innflytjandans. Aðeins að segja það blátt áfram að til að halda fjölskyldunni öruggri myndi hann ekki tala. Hann talaði líka um að skilaboðin til barnsins hans væru að útgangspunkti að þegar maður gerði mistök í lífinu þá væri ekkert hægt annað en að reyna að bæta fyrir þau. Einnig talaði hann um að snemma í gæsluvarðhaldinu hefði hann ákveðið að þetta væri ekki endastöðin fyrir hann, heldur ætlaði hann að líta á þetta sem byrjunarpunkt.

Þegar öllu er á botninn hvolft.. batnandi mönnum er best að lifa og ef hann talaði af einlægni í þessu viðtali (sem ég hef reyndar ekki horft á allt saman) þá ætti hann að geta bætt fyrir sín mistök og byrjað nýtt líf. Og svo innilega óska ég honum þess.

Jóna Á. Gísladóttir, 8.1.2008 kl. 22:44

3 identicon

Ég tek undir með þér Salvör. Það að Kastljósið fari inn á þessa línu í efnisöflun finnst mér eiginlega bara sorglegt. Mér fannst Kalli Bjarni afskaplega ótrúverðugur í þessu viðtali svo ekki sé meira sagt. Ég botna hreinlega ekkert í þeim í Kastljósinu og sé ekkert jákvætt við þessa dagskrárgerð.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 22:56

4 Smámynd: Heidi Strand

Ég var mjög undrandi yfir þessu viðtali með fallna stjörnuna og fannst mjög óþægilegt að horfa á. Ég skil ekki hvers vegna sjónvarp er með viðtal við glæpamenn sem aldrei segja  nema hálfan sannleikann. Svo var viðtalið allt of langdregið. þetta er ekki uppbyggilegt. Fólk sem er í sviðsljósinu og er fyrirmynd barna og unglinga ber mikla ábyrgð. Sjónvarpið hefur verið duglegt að fræða okkur um dóp gegnum árin.
Mér finnst þetta poppaða Kastljósi minna svolítið um "menningaritið" Séð og Heyrt.
Svo virðist líka stundum sem sjónvarpið sé yfir alla gagnrýni hafin.

Heidi Strand, 8.1.2008 kl. 23:01

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Hjartanlega sammála þér Salvör.

Skilaboðin voru þau að við skulum sannarlega vera nógu hrædd við aðalmennina í bransanum með öðrum orðum hræðslupólítik.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 9.1.2008 kl. 00:23

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Enn ein sönnunin á nauðsyn þess að leggja þessa atvinnuleysisgeymslu Ríkissjónvarpið niður. Þeir eru bara að reyna að slá út samkeppnina við Stöð 2 í lýðskrumi.

Á að taka með silkihönskum á glæpamönnum ef þeir eru poppstjörnur?

Samt get ég skilið viðleitni KB að vernda fjölskyldu sína. 

Theódór Norðkvist, 9.1.2008 kl. 00:29

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég efast um að svokölluð vitnavernd sé gagnleg. Það þyrfti þá að láta lögreglumann vakta húsið hjá honum allan sólarhringinn.

Ef þessir sölumenn dauðans skirrast ekki við að ráðast gegn fjölskyldum fórnarlamba sinna, þá er ótti Kalla Bjarna á rökum reistur.

Að flýja til Danmerkur myndi ekki duga. Í nútíma upplýsingasamfélagi er auðvelt að komast að því hvar Íslendingar búa erlendis.

Theódór Norðkvist, 9.1.2008 kl. 02:23

8 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Sammálar þér, Salvör. Maður hlýtur að setja stórt spurningarmerki við svona „dagskrárgerð“. Kastljósið er orðið óttalegt villuljós og oft á tíðum svo rýrt að innhaldi, að mann setur hreinlega hljóðan eftir áhorfið. Ríkissjónvarpið er tímaskekkja í dag, algerlega máttlaus fjölmiðill í þessum afþreyingarfrumskógi, og að reka slíkt batterí fyrir almannafé, þar sem sjónvarpsstjórinn les fréttir og tekur 1.500.000.kr. á mán. fyrir, er ekki forsvaranlegt. Annað mál er með Rás 1. Gamla Gufan stendur fyrir sínu og gott betur. Ég legg til, að Ríkið losi sig við sjónvarpsreksturinn og selji húsið í Efstaleiti og flytji Gufuna á upphafsreit, þ.e. Landsímahúsið við Austurvöll.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 9.1.2008 kl. 09:57

9 Smámynd: Mummi Guð

Ég er alveg sammála þér varðandi þetta blessaða viðtal við Kalla Bjarna og skil ekki alveg hver sé ástæðan fyrir því.

En ég skil ekki alveg hvað þú ert að draga forvarnarverðlaununum sem Ölgerðin fékk hjá Tryggingamiðstöðinni inn í þetta. Mér finnst bara við besta mál að Ölgerðin skuli fá þessa viðurkenningu fyrir að koma í veg fyrir slys og óhöpp á vinnustaðnum og að byggja upp öruggari vinnustað. Fréttatilkynningin frá Tm var svohljóðandi:

  • Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur hlotið forvarnarverðlaunin Varðbergið. Verðlaunin hlýtur árlega viðskiptavinur Tryggingamiðstöðvarinnar sem þykir skara fram úr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum. TM veitti jafnframt fyrirtækjunum Eykt hf. og Skeljungi hf. sérstaka viðurkenningu fyrir forvarnir.

Mummi Guð, 9.1.2008 kl. 11:59

10 Smámynd: Fröken M

Mér þótti þetta viðtal hreint út sagt fáránlegt. Maðurinn hafði ekkert fram að færa, hann sýndi enga iðrun en tafsaði þess í stað á sömu hlutunum. Í einni setningu hélt því fram að hann væri hálfgert fórnarlamb í þessu öllu saman  en í þeirri næstu var hann farinn að tala um lygina sem allir fíklar þurfa að beita fyrir sig. Samt áttu áhorfendur bara að trúa ídolinu Kalla sem einu sinni var bara krúttlegt barn ( þau voru meira segja með myndirnar til að sanna það ).

Myndatakan, soft focusinn, tónlistin ... já það sótti að manni nett klígja.

Fröken M, 9.1.2008 kl. 13:32

11 Smámynd: Björn Zoéga Björnsson

Sæl Salvör - ég er hjartanlega sammála þér, það er eitthvað að þegar glæpamenn fá að koma sér svona á framfæri. Og að það skuli vera Ríkisútvarpið sem geri svona er til skammar. Flott þessi ímyndaða teiknisaga :) segir allt sem segja þarf. En Ríkisútvarpið er með dæmdan mann í vinnu hjá sér, því miður. Einn álitsgjafi Laugardagslaganna hefur verið dæmdur fyrir brot, fékk skilorð að vísu. Skyldu þeir ekki hafa neinar siðareglur hjá RÚV ? Spyr sá sem ekki veit.

Björn Zoéga Björnsson, 9.1.2008 kl. 13:33

12 Smámynd: Landfari

Skilboðin eru nefnilega að það sé bara allt í lagi að dópa. Öll þessi viðtöl við fólk sem hefur verið djúpt sokkið og svo náð sér upp gera það að verkum að sumir gætu haldið að þetta væri ekkert mál.

Ef það á að vera forvarnsrstarf í þessu þarf að taka viðtöl við liðið sem ekki nær sér upp. Þeir eru því miður miklu fleiri en hinir sem fjölmiðlarnir eru sífellt að auglýsa.

Er ekki alveg sáttur við að þetta lið sleppi til þess að gera "billega" frá svona innflutningi af því þau eru bara "burðardýr" nema þau gefi þá upp fyrir hverja þau eru að vinna. Hvert kíló sem flutt er inn drepur jafn marga og sundrar jafn mörgum fjölskyldum, sama hvort innflytjandinn er bara burðardýr eða höfuðpaur.

Forvarnir gegn vinnuslysum eru svo allt annað mál eins og fram er komið hér að ofan hjá Mumma

Landfari, 9.1.2008 kl. 13:36

13 Smámynd: 365

Viðtalið við þennan Bjarna Kalla eða Kalla Bjarna sýndi svo ekki var um villst að aumingja dýrkunin er í hávegum höfð á RÚV.  Hvað kom fram í þessu viðtali sem okkur kom við, núna er mælirinn fullur.  Kastljósið þarf að vinna betur og lesa heimalærdómin.  Það þýðir ekki að koma ólesinn í skólann.  Hvað verður næst.  Heimilislausar dúfur????

365, 9.1.2008 kl. 15:46

14 identicon

Viðtalið átti ekki að eiga sér stað á þessu stigi. Maðurinn var að fá á sig dóm fyrir innflutning á töluverðu magni af stórskaðlegu fíkniefni. Eins og fram kom í viðtalinu:  þá var þetta,  bara hér um bil óvart hjá honum, hann ætlaði eiginlega ekki að gera þetta, en samt.!  Ég fékk það á tilfinninguna að maðurinn hafi ekki verið að gera sér grein fyrir,  þeim skaða sem af hefði hlotist, ef efnið hefði komist á markað hérlendis. Reyndar má ætla að hann hafi ekki verið í jafnvægi þegar hann fer út í innflutninginn. En það er enginn afsökun. Maðurinn var stjarna og er kannski enn, í augum sumra.  Því ættu fjölmiðlar, að mínu mati, ekki að koma með viðtöl af þessu tagi , að minnsta kosti ekki á téðum tímapunkti. Viðtal sem þetta gerir/gæti einfaldlega gefið þeim sem eru sleipir á svellinu röng skilaboð.

Elías Kristjánsson,

foreldri  

Elías Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 16:29

15 identicon

Sammála sumu

Umgjörð þáttarins var í besta falli hallærisleg, aðallega óviðeigandi.

Einhver hér að framan sagði svo réttilega að það væri háskaleg aðferð að sýna og taka viðtöl, oft og einatt við þá sem falla æ ofaní æ í ofneyslu, af því að þar með mætti ætla að "uppreisn" væri ekki svo mikið átak. Sennilega væri ekki úr vegi að einhver, sæmilega frambærilegur, færi (dröslaðist) með örlagabyttur, heilaskemmdar manneskjur af pilluáti og alls kyns ólyfjan (hasshausa, sýruhausa og dómsdags hryggðarmyndir) í skóla og þá staði sem "fíkill aftrar frjálsa frá fíkn". Ekki geri ég lítið úr því að krakkarnir okkar fái fræðslu, en stífaður og strokinn óvirkur fíkill er kannski ekki alltaf það besta... en nauðsynlegir með.

BK fannst mér svo sem ekki vera hampað, heldur "skoðaður" a la Séð og heyrt. Það finnst manni aðeins á skjön við Kastljós.

Ég hefði viljað sjá þessum þætti stýrt sem beinskeyttri upplýsingu:

Þessi maður sem hamast að vinna í erfiðri sjómennsku, tók áhættu með að byrja að nota fíkniefni. Hann tók aftur áhættu með því að taka þátt í spennuævintýri skemmtanabransans þegar hann var búinn að vera laus við dópið um tíma. Spennan að öllum líkindum lækkað viðspyrnukraftinn. Áhættan með því að flytja inn efnin, jamm. Áhættusækni (sem kannski enginn ræður við frekar en aðrar fíknir)

Hann er heppinn að hafa náðst, ef hann getur nýtt sér það til að losna úr klafanum. Eftir stendur að hann mun aldrei um frjálst höfuð strjúka gagnvart undirheimayfirmönnum sínum.

Hvernig væri að setja myndina svona fyrir þá sem á að forða frá ógninni.

Kannski er ég komin langt út fyrir efnið, en þá er þetta bara efnið mitt, ekki satt?

Varnir gegn fíkniefnaneyslu svona "venjulegra" ungmenna eru grundaðar heima fyrir, hjá foreldrum/fjölskyldu. Allt annað er kjaftæði (undanskil sjúkleika og hömlun sem aftra samskipti)

Beturvitringur (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 17:08

16 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég tek undir með þér Salvör. Sérlega snjallt sjónarhorn. Flestir falla nefnilega fyrir þessum frásögnum og finnst þær fyndnar og jafnvel skemmtilegar. En þegar maður hugsar nánar út i þetta er þessi framsetning Ruv og margra fjölmiðla bara prúðbúin lýgi og einfeldningsháttur. Menn hljóta að geta fundið eitthvað áhugaverðara. Annars held ég þetta sé séríslenskt fyrirbæri. Þetta myndi ekki sjást á NRK, SVT og DR. amk ekki í þessum búningi.

Guðmundur Pálsson, 9.1.2008 kl. 19:01

17 Smámynd: Benna

Ég er sammála því að þetta er viðtal var virkilega sorglegt og það sem sló mig rosalega er að Kastljós skuli hafa birt það þrátt fyrir að mjög augljóst var að Kalli Bjarni var undir miklum áhrifum vímuefna.
Kastljós var þarna greinilega bara að nýta sér eymd hans til að skjóta sér sem sjónvarpsþátt á stjörnuhimininn.
það er langt því frá að þessi þáttur hafi verið Kalla Bjarna til framdráttar, þvert á móti var þátturinn hræðilega sorglegur þar sem hann sýndi fíkilinn í sinni verstu mynd.

Það hvernig þú og flestir sem kommenta hér í kerfinu hjá þér tala um hann segir mér að þið hafið ekkert vit á fíknsjúkdómum og að þið eruð einmitt fólkið sem dæmir okkur fíklana harðast án þess að hafa reynt að kynna okkur þann hörmunga sjúkdóm sem við erum með, þið dæmið okkur og talið um að við sýnum dómgreindarleysi og öktum á græðgi en þegar raunin er að það er fíknin og sjúkdómurinn sem stjórnar ferðinni og við höfum ekkert um það að segja frekar en þið.

Alkóhólismi snýst ekki um það að geta sagt NEI eða JÁ við fíkniefnum heldur er þetta sjúkdómur sem er í vitund okkar og við sem fíklar höfum misst allan hæfileika til að velja eða hafna þegar áfengi eða fíkniefni eru annars vegar og öktum við eftir því.

Það var Kastljós sem sýndi dómgreindarleysi þar sem Kalli Bjarni var þarna fárveikur og hafði hvorki stjórn á sjálfum sér né öðrum og bullaði bara eitthvað til að reyna að líta betur út og bjarga þeirri litlu sjálfsvirðingu sem eftir er. 

Benna, 9.1.2008 kl. 19:32

18 identicon

Bíðum nú aðeins með yfirlýsingarnar. Ég er sammála ykkur með það að Kalli Bjarni hafi verið að afsaka sig eins og hann gat og gera lítið úr glæp sínum. Hins vegar finnst mér ekkert að því að taka viðtal við hann og sýna í sjónvarpi. Hann er frægur og þetta var stór frétt þegar hann var tekinn við að flytja þetta inn og mér fannst fréttamaðurinn sem tók viðtalið ekkert vera að hampa honum sem neinni hetju, heldur bara að leyfa honum að tala, Kalli Bjarni sá um restina. Ég sé enga ástæðu til að fela alla dópista og hefta málfrelsi þeirra til að "vernda" þessa viðkvæmu þjóð fyrir upplýsingum um raunveruleikann, fólk þarf bara að beita dómgreind sinni þegar metið er hversu trúverðugur Kalli Bjarni er.

 Varðandi annað sem þú varst að tala um í þessari grein þá fynnst mér þú ganga ansi langt í forræðishyggjunni þó sumt hafi kannski átt rétt á sér en látum það liggja milli hluta. 

Svo vildi ég benda á viðtalið sem tekið var við Einar Ágúst úr skímó en það var í svipuðum dúr og viðtalið við Kalla Bjarna. Í því viðtali leit Einar ekki út fyrir að vera nein hetja heldur lýsti hann sér sem þvílíkum vesalingi sem væri meira að segja svo "lélegur" dópisti að honum hefði ekki einu sinni tekist að kála sér á eitrinu en það hafi verið það sem hann vildi. Ekki gat ég séð að þarna hafi verið nein dýrkun í gangi og viðtalið og spurningarnar voru með nákvæmlega sama hætti og hjá Kalla Bjarna, munirinn var fólginn í því hvernig þeir svöruðu spurningunum og lýstu viðhorfum sínum til eigin breytni. 

Hættum að skammast út í sjónvarpið fyrir það hvernig viðmælendur svara í viðtölum. 

Jóhannes Ólafsson (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 19:38

19 identicon

Ég sá ekki viðtalið (horfi lítið á sjónvarp). En færslan þín, Salvör, hleypir í mig illu blóði og ég efast um að Kalli Bjarni hafi verið fær um að framreiða jafn mikið skrum og hroka og finnast í þessari færslu og kommentum viðhlæjenda þinna. Ég tek undir það sem Benna segir hér að ofan enda hefur hún gott vit á þessum málum. Það hefur þú aftur á móti ekki og ættir kannski bara að sleppa stóryrðum um sjúkdóm sem leiðir til geðveiki eða dauða - mér finnst a.m.k. heldur billegt að láta að því liggja að sjúklingarnir séu bara aumingjar. Ég myndi sjálf ekki treysta mér að blogga um aðra fíknarsjúkdóma en ég hef vit á, sem dæmi mætti nefna ofát / átfíkn eða búlimíu eða aneroxíu ... og salla svoleiðis sjúklinga niður í duftið eftir viðtal í Kastljósi.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 20:07

20 identicon

Þessi færsla er þér ekki sæmandi

Kristjón Kormákur Guðjónsson (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 22:41

21 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Er hægt að búast við meiru af okkur? Ég meina, við erum með dæmdan glæpamann á þingi sem að auki syngur á helstu kvöldvökum og brennum landans, m.a. hér í Bolungarvík. Ömurlegt. Mér hefur svo sem verið bent á að maðurinn hafi fengið sinn dóm og afplánað hann, mér er bara alveg sama. Ég vil ekki hafa hann í Alþingishúsinu! Kalli Bjarni er auðvitað bara fíkill og fíklar ljúga. Svo mikið hef ég lært.

Hitt er annað að mér finnst þessi myndasaga eiginlega fyrir neðan allar hellur. Sá sem hannaði hana hefur ekki einu sinni nægilega mikið vald á orðfæri ungs fólks, til  að þetta geti verið annað en hallærislegt.  Þá finnst mér þessi setning hérna: "þar sem græðgi og dómgreindarleysi hjá ídolstjörnum er þvílíkt að þær hika ekki við að flytja inn eiturlyf í von um skjótfenginn gróða."  vera álíka alhæfing og nánast jafn ósmekkleg og jólakort femínistafélagsins.   

Ylfa Mist Helgadóttir, 10.1.2008 kl. 10:46

22 identicon

Ég er ekki að reyna tala máli Kalla en mér finnst þetta samt skemmtilega
fordómafull færsla hjá henni Salvör. Að tala svona illa um veikt fólk er
illa gert, myndi einhver tala svona illa um einhver sem ætti við alvarleg
geðræn vandmál að stríða eða krabbameinssjúkling.

Færsla sem lyktar af fáfræði og fordómum í garð fíkla !!!

Svo getur velverið að Kalli sé það hræddur að hann þorir ekki að segja til höfuðpaurana. Ég þekki nokkra sem hafa framið sjálfsmorð of ótta við menn eins og Kalli Bjarna er að díla við. Veit líka til þess að fjölskylda var rænd öllu sýnu og gengið í skrokk á fjölskylduföðurnum 2 árum eftir að sonur hans framdi sjálfsmorð af ótta við handrukkara.

Ég held að þú ættir ekkert að vera dæma Kalla fyrr en þú hefur lent í svipaðri stöðu og hann. Þægilegt að standa svona utan við þetta með alla þessa vitneskju um hvernig þessi heimur virkar. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 12:00

23 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég hef við umhugsun og lestur á athugasemdum hérna breytt blogginu mínu á tvennan hátt. Annars vegar breytti ég fyrirsögninni Dópistadýrkun sjónvarpsins í Dópsaladýrkun sjónvarpsins og hins vegar breytti ég orðalagi þar sem ég talaði um idolstjörnur í fleirtölu í idolstjörnu.

Með þessu vil ég undirstrika að bloggið er ekki árás á ósjálfbjarga fíkla sem enga björg geta sér veitt og enga stjórn hafa á sjúkdómi sínum. Þetta blogg er árás á fréttaflutning ríkisfjölmiðils sem hefur upp til skýjanna dæmdan glæpamann  og eiturlyfjainnflytjenda og gefur honum færi á að gera lítið úr glæpum sínum og útvarpa á öldum ljósvakans hve mikilvægt sé fyrir þá sem eru í sama bransa  og hann að sýna hollustu og þagmælsku við stórlaxana í fíkniefnaheiminum. 

Reyndar var mín upplifun af þessu að þarna væri dópinnflytjandi að nota hvert hálmstrá sem hann gæti gripið til að fegra sinn hlut og reyna að breyta sjálfum sér úr umfangsmiklum fíkniefnainnflytjenda í varnarlaust og ofsótt fórnarlamb. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.1.2008 kl. 16:48

24 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það snart mig að lesa hérna ásakanir frá fíklum um að ég hefði ekki skilning á vandamálum þeirra og sýndi þeim fordóma. Ef til vill er það satt. Ég mun alla vega íhuga það. Ég tel mikilvægt fyrir umræðu að hlusta á þá sem eru mér óssammála.

En það er því miður smíðisgalli á mannkyninu varðandi fíkn í ýmis efni og það hafa verið reyndar ýmsar leiðir til að forða því að fólk steypti sér beint út í foraðið. Ein leið er t.d. trúarbrögð eða lífsstíll sem bannar neyslu áfengis og vímuefna (t.d. Islam).

Það er hins vegar næsta öruggt að samfélag þar sem ríkisfjölmiðlar útvarpa  sjónarhornum dæmdra fíklaefnainnflytjenda og setja það upp eins og hetjusögur er ekki gott forvarnarstarf.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.1.2008 kl. 16:57

25 identicon

Viltu þá ekki umskrifa þessa klausu líka:  "Ég sé núna ljósið, RÚV vinnur merkilegt forvarnarstarf á Íslandi  í sama anda og Ölgerðin og ætti náttúrulega að fá forvarnarverðlaun eins og Ölgerð Egils Skalla-Grímssonar.  Fyrir hvað? Fyrir að vera griðastaður og gjallarhorn fyrir fallnar dópstjörnur og iðrandi slagsmálahunda .  Fyrir að vera ókeypis auglýsingamiðill fyrir bjórframleiðslu illa farinna alkóhólista."

Svo kæmi til greina að bæta við, í sama anda, að Rúv væri griðastaður og gjallarhorn fyrir menn sem stuðluðu að því að misbeita drengi kynferðislega (með tilvísun í nýsýnda mynd um Breiðavík) og jafnvel ókeypis auglýsingamiðill fyrir sjálfsvíg sem lausn á ævilöngum vanda (tilvísun í sömu mynd).

Síðasta efnisgreinin hljómar hroðalega grimm en það sem þú ert að segja um þetta viðtal og viðmælanda er alveg jafn grimmt, ef maður þekkir til sjúkdómsins (alkóhólisma eða eiturlyfjafíkn). Það er kristaltært að það gerir þú ekki. Ég þakka guði fyrir meðan þú ferð ekki að tjá þig um aðra geðræna sjúkdóma!

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 17:00

26 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta neðanjarðarklám selur vel í gulu pressuni og er meginstoð svokallaðrar "Nýju blaðamennsku" Má ég þá heldur biðja um endurflutning á viðtölum Jökuls við rónana sem bjuggu í togaranum Síríusi við Grandagarð!

Júlíus Valsson, 11.1.2008 kl. 09:28

27 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Harpa: Skil ekki hvað þú telur hroðalega grimmt. Er það orðalagið um að Rúv sé ókeypis auglýsingamiðill fyrir bjórframleiðslu illa farinna alkóhólista? Ef þú átt við það þá veit ég ekki hvort þú hefur séð það viðtal sem ég var að vísa í (sunnudagskvöld með Evu Maríu fyrir þónokkru síðan, hefur ekkert með Kalla Bjarna að gera) en þar kom mjög skýrt fram að viðmælandi hennar þó var virkur alkóhólisti sem fer reglulega í meðferðir inn á Vog. Það komu líka fram atriði um hvernig alkóhólisminn hafði markað lífshlaup hans þannig að ég sé ekkert athugavert að nota orðalagið "illa farinn alkóhólisti". Ekki frekar en það hefði verið þáttur um einhvern sem væri örkumlaður vegna annars sjúkdóms og hefði opinberað þann sjúkdóm í sjónvarpsviðtali. Mætti ég ekki segja "N.N. er illa farinn liðagigt" eða "N.N. er illa farinn asmasjúklingur"?  Má ekki kalla alkóhólista alkóhólista? Í þessu tilviki er einmitt mjög mikilvægt að gera það því í sjónvarpsviðtalinu var teiknuð upp mynd af einhverjum sniðugum karakter, karakter sem er fyrirmynd einnar sögupersónu í Rokland og drykkjutúrar mannsins gerðir að skopefni. Já og svo var miklu púðri eytt í leyfa manninum að auglýsa bjór sem hann er að framleiða og markaðsetja. 

Hvort er grimmara, þáttur á RÚV sem hampar drykkjumanni og birtir okkur innsýn í hömlulaust líf hans sem virks alkóhólista á gyllandi hátt eins og kersknisögur eða orðræða mín þar sem ég leitast við að sýna mín sýn á  orðræðu í þessum þætti og mikilvægur þáttur í því er að  beina athyglinni að því hve ósmekklegt er hjá RÚV að upphefja alkalífsstíl mannsins og auglýsa upp bjórframleiðslu hans.

Varðandi það sem þú nefndir um sjálfsvíg þá er vel þekkt að fjölmiðlaumræða um sjálfvíg stuðlar að fleiri sjálfsvígum. Á sama hátt stuðlar fréttaefni um hroðaleg ofbeldisverk t.d. þegar ungir piltar hafa skotið á allt kvíkt í skólum að því að það aðrir ungir piltar sem vilja það heitast að verða frægir og búa yfir reiði herma eftir slíkum glæpum með von um að fá líka svona mikla umfjöllun. Það sama gildir sennilega líka um suma umræðu um kynferðislega misnotkun, sú umfjöllun getur orðið að einhvers konar fréttaklámi sem getur leiðst út í það að hafa þann tilgang einan að skemmta hlustendum sem þyrstir í fréttir af ódæðisverkum og sadisma, skemmta þeim á sama hátt og þeir lesa sakamálasögur þar sem fólk er pínt og drepið og limlest.  Ábyrgð fjölmiðla er mikil í svona viðkvæmum málum. það er auðvelt og næsta örugg leið til að tryggja mikla hlustun og skoðun að bjóða upp á klámefni (t.d. Guðmundar í Byrginu efnið sem aðgengilegt var víða á Netinu) undir því yfirskyni að verið sé að fletta ofan af samfélagsmeinum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 11.1.2008 kl. 20:35

28 identicon

Mér finnst sorglegt að sjá hvernig þú skrifar um manneskju sem þú veist ekki nokkurn skapaðan hlut um. Ég tek undir með Kristjóni, þessi færsla er þér ekki sæmandi.

Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband