Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Undarleg röksemdafærsla hjá formanni VR

Gunnar Páll Pálsson formaður VR og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi notar afar einkennileg rök þegar hann réttlætir hvers vegna hann tók þátt í að fella niður skuldir starfsmanna bankans vegna hlutabréfakaupa. Hann viðurkennir að hafa fellt niður skuldir starfsmanna bankans í því augnamiði að hafa áhrif á verðmyndun hlutabréfa Kaupþings á verðbréfamarkaði og segir : ".... Sala lykilstjórnenda á hlutabréfum er tilkynningarskyld til Kauphallarinnar og því hefði sala bréfanna væntanlega leitt til ofsaótta á markaðinum og að öllum líkindum verulegs söluþrýstings frá öðrum aðilum."

Ég er alveg gáttuð á þessu.

Núna hlusta ég á þennan mann í Kastljósi og ég gersamlega skil ekki hugsunarhátt mannsins eða viðskiptasiðferði. Þetta stangast á við allar leikreglur sem ég hélt að giltu um heiðarleg bankaviðskipti. 

Ég get ekki annað séð en það þetta sé tvöfalt afbrot. Annars vegar að fella niður útistandandi kröfur bankans og hins vegar að gera það í því augnamiði að blöffa á verðbréfamarkaði.

Stjórn gamla Kaupþings mismunar hluthöfum.
Stjórn gamla Kaupþings mismunar lántakendum.
Stjórn gamla Kaupþings reynir að hafa áhrif á verðmyndum á hlutabréfum með því að mismuna hluthöfum og lántakendum.

Formaður stéttarfélags tekur þátt í þessu.
Svona er Ísland í dag.


mbl.is Ekki hægt að taka aðra ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarstjórn kvenna starfar af krafti

Hugarflæðisfundur

Um eitt hundrað konur komu saman í gærkvöldi á fyrsta hugarflæðisfundinum í Neyðarstjórn kvenna. Hér eru myndir sem ég tók á  fundinum og setti inn á Facebook myndasafn.

Það eru komnar 1391 konur í hópinn Neyðarstjórn kvenna á facebook en hann var stofnaður á fimmtudaginn var.

Um hópinn segir:

Hópur kvenna sem hefur ákveðið, með almannaheill í fyrirrúmi, að mynda neyðarstjórn yfir landinu enda hafa valdhafar sýnt fram á ótvírætt vanhæfi.

Hópurinn er opinn öllum konum sem langar að leggja sitt af mörkum til að byggja upp samfélag þar sem jafnræði kvenna og karla ríkir á öllum sviðum.

mbl.is Reykjavík á krossgötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldurum mismunað hjá bönkum

Það hefur komið á daginn að lykilstjórnendur hjá gamla Kaupþingi fengu einhvers konar skuldaaflausn frá stjórn bankans  þannig að þeir þurfa ekki að borga fyrir hlutabréf sem þeir fengu keypt í gegnum skuld.  Fátt sýnir betur hve bankastjórnum á Íslandi var orðin feyskin en þessi gjörningur. Það hlýtur að vera krafa okkar almennings að reynt sé að rifta þessum samningi og innheimta þessar útistandandi skuldir bankanna sem og aðrar bankaskuldir.  Viðskiptaráðherra hefur einnig lýst því yfir að stjórnvöld muni óska eftir riftun.

Hópur lykilstjórnenda hjá Kaupþingi virðist virðist hafa fengið mjög óeðlilega fyrirgreiðslu, þetta er meðferð sem skuldugum Íslendingum býðst ekki, að skuldir séu felldar niður með einu bréfi og viðkomandi bjargað frá gjaldþroti. Þetta er afar vont mál, sumir lykilstjórnendur hjá Kaupþingi eru tengdir starfandi stjórnmálamönnum og á meðan ekki hefur verið birtur listi yfir þá sem fengu þessi kjör eða þessum samningum rift þá hlýtur trúverðugleiki stjórnvalda að vera dreginn í efa. 

Það er að auki afar undarlegt ef þetta er löglegur gjörningur hjá stjórn gamla Kaupþings. 


mbl.is Þurfa ekki að greiða fyrir hluti í Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúkasinn tekinn á bankamenn

Bankamenn á Íslandi  liggja vel við höggi þessa daganna. Þúsundir þeirra hafa misst vinnuna, margir hafa misst aleiguna vegna þess að þeir settu sparifé sitt í fyrirtækið sem þeir unnu hjá. Þar að auki þurfa þeir að þola að gert er lítið úr starfi þeirra og þeir málaðir upp sem ótíndir glæpamenn. Flestir bankamenn munu á undanförnum árum hafa talið sig vinna þarft verk í athafnalífi Íslendinga og svo virtist sem þar kæmu verðmætin fram. Það eru aðeins örfáir bankamenn sem hafa með fengið svimandi upphæðir, ekki í kaupi heldur með kaupréttarsamningum. En nú er staðan þannig að flestir ef ekki allir sem voru auðjöfrar áður eru ekki borgunarmenn fyrir skuldum sínum.

Það hefur hins vegar magnast upp mikil umræða, umræða sem byrjaði í athugasemdum á bloggi á Silfri Egils á þá leið að bankamenn fengju einhver sérstök fríðindi og yfirhilmingu til að passa að þeir verði ekki gjaldþrota. Svo virðist að tölvupóstar þjóti manna á milli um það.

Þessar sögusagnir eru auðvitað alvarlegar en nú hefur Fjármálaráðuneytið svarað þeim og sennilega kemur ítarlegra svar í fréttum og Kastljósi kvöldsins. Ef það er ekkert hæft í þessum sögum og engar skuldir vegna hlutabréfakaupa hafi verið niðurfelldar  þá verður ekki annað sagt en að nú hafi lúkasinn verið tekinn á bankamenn.

Það að margir segi sömu söguna og hún ómi til manns úr öllum áttum þýðir ekki endilega að hún sé sönn.

Það er hins vegar mannúðlegt og eðlilegt að gera einhverjar ráðstafanir vegna bankamanna sem og annarra þjóðfélagsþegna sem verða gjaldþrota. Ný gjaldþrotalög geta hjálpað því fólki sem og öðru gjaldþrota fólki.

Uppfært

Rúv segir frá því að í september áður en bankinn fór í þrot hafi skuldir fjölda bankamanna verið afskrifaðar hjá Kaupþingi. Það verður að teljast undarlegt og sennilega saknæmt ef banki afskrifar skuldir starfsmanna án þess að farið sé eftir einhverjum reglum.

Sjá einnig frétt á visir.is


mbl.is FME hefur ekki samþykkt niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánið sem er rúmlega 1 % af því sem norskir fjölmiðlar segja heiminn tapa á íslenska bankahruninu

verden-taper.jpgÉg átta mig ekki á upphæð þessa láns, dugar þetta til að halda krónunni á floti? Ég átta mig heldur ekki á stærðargráðum íslenska bankahrunsins, núna er fyrirsögn á fjármálavef norskum n24.no Verden taper 350 000 000 000 pa Islands banker.

Er það sem sagt um 1 % af því sem sagt er að heimurinn tapi á íslenska bankahruninu sem Norðmenn eru núna að lána íslenska ríkinu.

En Norðmenn eru vinir og líka bandamenn til að verja norræna hagsmuni á Norðurslóðum.  Norðmenn og Færeyingar eru vinir okkar Íslendinga og okkar hagsmunir fara oftast saman.

Ég er þakklát öllum sem koma Íslendingum til bjargar til að reisa efnahag þjóðarinnar úr rústum. 

Það breytir því samt ekki að mér finnst það alþjóðlega fjármálakerfi sem við lifum í vera stórbilað. 


mbl.is Norðmenn lána Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukabólur og ættartengsl

Fjármálamarkaður heimsins er morkinn. Það er einhvers konar skuldaverksmiðja og skuldadreifing í gangi sem flytur fjármagn með leifturhraða milli landa og steypir heilum þjóðum í glötun.  Fjármagn sogast á milli staða, leysist upp og safnast saman og líkamnast í eldglæringum eins og skrímsli sem engu eirir. En hér á Íslandi eru margs konar aukabólur sem magna upp áhrifin. Ein af þeim var þegar fjárglæframennirnir versluðu hver við annan eða við sjálfan sig til að búa þannig til verð á hlutabréfum sínum svo þeir gætu farið í meiri skuldsettar yfirtökur. Ein aukabólan er svo  tengd genginu. Hér á Íslandi stunduðu íslensku bankarnir líka "carry trade" og versluðu við sjálfa sig á sama hátt og kaupahéðnarnir pumpuðu upp verðið á hlutabréfum. Þetta heitir á bankamáli eitthvað  "...afleiðutengdra skuldabréfa, í flestum tilfellum, þar sem ávöxtunin vex eftir því sem krónan veikist."

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hve undirstöður íslenska fjármálakerfisins voru hæpnar og hve undarlega þeim hefur verið stjórnað. Og hve nátengd stjórnun bankanna og stórra fyrirtækja á Íslandi er stjórnmálamönnum m.a. í gegnum fjölskyldutengsl.  Víst er Ísland lítið land og víst erum við öll meira og minna skyld en það er samt afar, afar einkennilegt hvernig margir af þeim sem hafa stýrt Íslandi undanfarin ár eru tengdir. Reyndar er það svo að Ísland virðist hafa verið rekið sem einhvers konar sjeikasamfélag eins og Saudi-Arabía þar sem gæðum samfélagsins var dreift eftir einhvers konar ættbálkum til karla sem voru í ættbálknum eða tengdust honum gegnum mægðir.

Það verður verðugt rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að rannsaka samspil ríkisvalds og athafnalífs í gegnum fjölskyldutengsl.

Núna er því miður ástandið þannig í íslensku samfélagi að almenningur hefur litla ástæðu til að treysta þeim sem stjórna landinu.  það er hins vegar eðlileg krafa almennings að þeir sem núna telja sig vera að slökkva elda séu ekki í leiðinni að bjarga einhverju góssi úr eldinum og koma því fyrir hjá aðilum sem stjórnvöld hafa velþóknun á.

Gilda hæfisreglur bara í útför útrásarinnar (HuX)


mbl.is Veðjuðu á veikingu krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að falsa tölur

Ennþá er haldið  áfram þeirri iðju sem íslenskt viðskiptalíf er gegnsýrt af. Það er iðjan að falsa tölur, að láta skuldir á einhvern dularfullan hátt líta út eins og eignir. Skuldarar eða öllu heldur þeir sem eiga skuldir skuldara  geta möndlað með fyrirtækin og selt þau fram og til baka til annarra skuldara eða til sjálfs sín og þannig falsað ennþá meiri tölur. Núna er líklegt að þessi iðja fari fram með vitund og vilja ríkisbankanna þjóðvæddu. 

Ef ég  skil málið rétt þá eru  allir frjálsir fjölmiðlar á  Íslandi að verða gjaldþrota því þeir  eiga ekkert nema skuldir og nú er komið að skuldadögum .  Í gær var kynnt tillaga sem sögð var komin frá Jóni Ásgeir um fyrirtækið Rauðsól sem keypti þann hluta pressunnar sem eitthvað pólitískt gildi hefur. Þetta var að hluta  verið að færa frá einum vasa til annars á sama manninum en þetta var meira. Þetta leit í fljótu bragði út eins og undanskot eigna rétt fyrir gjaldþrot. Jón Ásgeir hefur sjálfur sagt að sá sem á skuldir fyrirtækis ráði rekstri þess. Þetta sagði hann þegar hrægammurinn breski Green kom hérna með Jóni Ásgeir í einkaþotunni og vildi kaupa eignir Baugs.  Mér skilst  að eitthvað lán hafi verið komið á gjalddaga og Þess vegna sé  Jón  Ásgeir að kaupa núna. Að því er fólk  telur ekki með eigin  peningum heldur með peningum sem hann fær að láni í bankakerfinu. Ef svo   er  þá  má  spyrja  hvers  vegna  verið  sé  að  bjarga  einstökum fjölmiðlum   núna, hvers vegna er  það  gert? Hver verður rekstrargrundvöllur þessara fjölmiðla í hinu nýja Íslandi og ætla stjórnvöld að gera eitthvað til að tryggja þann rekstrargrundvöll?

Það er vissulega mikilvægt í hvaða hendum stjórn á öllum frjálsum fjölmiðlum á Íslandi  er og það hefur skipt öllu máli í stjórnmálabaráttu að hafa stuðning fjölmiðla. Sá sem stýrir fjölmiðlum getur leitt umræðuna og búið til sannleikann.  En fjölmiðlar hafa svo sannarlega tekið þátt í fölsuninni á raunveruleikanum undanfarin ár. Þeir hafa blekkt okkur á þann hátt sem eigendur þeirra vildu að þeir blekktu okkur og það hefur ekki verið stunduð nein sannfærandi rannsóknarblaðamennska á Íslandi.

Það er eiginlega lýsandi fyrir fjölmiðlun á Íslandi í dag hvernig sagt var frá mótmælunum á síðasta laugardag. Nú er ég ein af þeim sem ekki tók þátt í þessum mótmælum einmitt út af því að ég óttaðist að þarna yrðu skrílslæti sem ég vil ekki taka þátt í - en margir mættu en það virðist vera samantekin ráð þeirra sem stýra fjölmiðlum á Íslandi að beita einhvers konar þöggun á þessi mótmæli og gera lítið úr því sem þar fór fram.  Fjölmiðlar nútímans eru hamfarapressa sem vill sjá blóð og æsing og yfirleitt magnar það upp ef einn maður stendur með skilti og hrópar.

En núna látast þeir ekki sjá fólkið.

Fjölmenn mótmæli

Hvernig þessi frétt breyttist Myndir - print screen.


mbl.is Ekki áhugi á sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur betur tengdari inn í norsk stjórnmál en norski forsætisráðherrann

Það er skynsamlega mælt hjá Þorgerði Katrínu að nú séu tímar þar sem verði að endurskoða afstöðu sína. Það er grafalvarleg staða komin upp og það þarf að leysa úr henni á þann hátt að skaðinn sé sem minnstur til lengdar fyrir íslenskt þjóðfélag. Það er augljóslega fyrsta verk að horfast í augu við stöðuna, hrunið efnahagskerfi þjóðar og örmynt sem enga framtíð virðist eiga í hnattvæddum heimi. Það kann að vera að krónan veiti skjól um tíma og geti gert hagstjórn hérna auðveldari á krepputíma a.m.k. til skamms tíma litið  (hvaða annað þjóðfélag getur lækkað í einu vettvangi kaup allra um helming og verðfellt allar eignir almenning um helming í einu vettvangi?)

EBE er augljós kostur en það tekur tíma að semja um aðild og aðild að myntbandalagi fæst ekki fyrr en stöðugleiki er kominn á hérna.  Hugsanlega eru aðrir kostir í stöðunni sem taka skemmri tíma t.d. tenging við aðra gjaldmiðla svo sem norsku krónuna. Þetta sýnist frekar æskilegur kostur ef samningar næðust við Norðmenn.

Einn af okkur í vinafélagi norsku krónunnar er Steingrímur Sigfússon formaður Vinstri Grænna. Steingrímur er ansi yfirlýsingaglaður þessa daganna, hann veit miklu betur en íslenski forsætisráðherran hvernig á að stjórna Íslandi. En ekki vissi ég að hann vissi líka miklu betur en norski forsætisráðherrann hvernig á að stjórna Noregi. Steingrímur J. Sigfússon fullyrðir að í gegnum tengsl sín við Noreg   þá viti  hann að Norðmenn muni ganga að myntbandalagi við Ísland. Það er nú ekkert smágaman að hafa hérna á skerinu íslenskan stjórnmálaleiðtoga sem er betur tengdari inn norsk stjórnmál heldur en sjálfur forsætisráðherra Noregs Stoltenberg sem  útilokar norska krónu á Íslandi

 Mikið verður gaman þegar við verður komin í EBE og Steingrímur fer að hafa vit fyrir allri framkvæmdastjórn EBE og segja þeim hvernig þeir eigi að stjórna.Grin


mbl.is Tilbúin að endurskoða afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumar á bloggi og draumaráðningar

Fyrir mörgum árum þá reyndi ég um tíma að skrá niður drauma á blogg, ég var undir áhrifum frá draumasálfræði Carl Jung og pælingum um  psychological archetypescollective unconscious og synchronicity.

Ég hef ekki haldið þessu áfram, aðallega af því að það svo erfitt að muna drauma og það er líka erfitt að skrifa drauma á blogg, það er nærgöngula og opnara fyrir túlkun en að skrifa blogg sem er álit á þjóðmálum eða hvern maður hitti og hvert maður fór þennan eða hinn daginn. Í draumum kemur fram einhver sýn sem maður stjórnar ekki sjálfur og sumir draumaráðningamenn heimsins hafa búið til draumakenningar sem gegnsýra draumarýni nútímans. 

Ég rifja hér upp nokkur draumablogg fyrir sjálfri mér og hugsa hve draumar geta verið óráðnir og í þeim býr margs konar túlkun. Ég rifja upp drauminn um ísbjörninn og núna finnst mér sá draumur ekki vera draumur um snjóflóð heldur vera tákn fyrir árið  sem ísbirnirnir komu að landi og kreppan læsti sig um Ísland og árið ég varð hrædd um líf og afkomu dætra minna í illa byggðu húsi.

Ég rifja líka upp drauminn þar sem mig dreymdi Ingibjörgu Sólrúnu á floti í vatni, aðeins höfuðið upp úr og núna finnst mér sá draumur ekki vera fyrir litlum árangri í kosningum á sínum tíma, það sé hégómi miðað við það ástand sem núna ríkir.

Ég rifja líka upp drauminn af því þegar ég sá hátíð þar eitthvað flaug upp í loftið beint upp, ekki mjög hátt. Ég rifja líka upp óþægilega tilfinningu sem ég fékk þegar í fyrsta skipti var prufukeyrt ljósalistaverk Joko Ono í Viðey. Ég ók út í Laugarnes og horfði á bláleita ljósasúluna, áttaði mig augnablik ekki á því  hvað væri að gerast og hvort ég væri stödd í draumi eða veruleika og fannst ljósasúlan vera eins og  hið uppljómaða tákn sem mannfjöldinn fylgdist með í draumi mínum. 

Hér eru draumabloggin: 


 29.12.02 ( 8:12 PM ) Salvor Gissurardottir  

Draumur um þorp og bókasafn

Rétt fyrir jólin dreymdi mig að ég þóttist vera stödd í risastóru bókasafni. Það var allt fullt af krókum og kimum með borðum og stólum og hillum. Það var glerfínt og nýtt og á yfirborðinu var eins og allt væri í röð og reglu en það var ekkert líf í því. Í hillunum voru bækur og alls konar efni en það var ekkert kerfi þarna svona eins og á venjulegum bókasöfnunum. Ég var að skoða og lesa íslenskar skáldsögur og ákveð í leiðinni að búa til eitthvað kerfi, skrifa á litla gula-postit miða hvaða bækur eru í þessari hillu og reyna að setja eitthvað skipulag eða leiðarkerfi í þessa hrikalegu óreiðu sem hið undirliggjandi þekkingarkerfi var og mig minnir að ég hafi bæði sett þessa post-it miða og skrifað með blýanti á kantinn á bókahillum. Draumur endaði hins vegar með að starfsfólk í þessu safni réðst að mér og sagði að það væri bannað að drasla svona til. Ég var sármóðguð og ákvað að fjarlægja öll ummerki um þessi leiðarkort um safnið sem ég hafði verið að vinna með alls konar pári og lausum sneplum.

Í fyrrinótt (aðfaranótt 28. des) dreymdi mig einhverja ferð aftur í tímann. Kannski var ég að blaða í bók eða skoða eldgamla kvikmynd. En þarna sá ég eins og loftmynd af bóndabæ á eyju eða hólma og svo man ég eftir mynd af Ingibjörgu Sólrúnu að bíða eftir strætó eða rútu. Hún er glaðbeitt á svip en aðstæður er samt all svakalegar. Hún er á kafi í vatni nema höfuðið stendur upp úr, vatnið er tært og stillt eins og það hafi orðið eitthvað flóð og mér finnst eins og hún sé unglingur og í sveit á þessum bóndabæ. Ég kom síðar í einhvern kaupstað eða öllu heldur er að horfa á gamla kvikmynd sem tekin er í útjaðri kaupstaðs þar sem hesthúsahverfi er og myndir er ekki í svarthvítu, heldur sýnir rauðbrúna tóna. Það er mikið líf í myndinni, hestar eru bundnir fyrir framan eða sjást í gættum húsa og ég spái í hve vel hestarnir komi út í þessari gömlu þöglu mynd, þeir séu svo stórar skepnur og hreyfingar þeirra miklar á myndfletinum og þeir séu allir rauðbrúnir svo það skeri sig flott út úr bakgrunninum. Svo er einhver þulur undir myndinni sem segir söguna og segir að á þessum tíma hafi meira segja hestar frá þessum eina sveitabæ sem ég var áður að skoða fengið merkið II. Svo finnst mér ég vera sérstaklega að rannsaka og leita að verkum eftir einhverja þekkta listakonu og það mikið tækifæri að geta svona farið inn í lífið eins og það var í þessum kaupstað. Mér finnst þetta ekki vera eins og neinn íslenskur kaupstaður, mig minnir að húsin hafi verið tréhús svona falumrauð eða miðevrópuleg tréhús. En listin fólst í því að mála utan á húsin, að mála glugga og blóm á gluggalausa pakkhúsvegi og lífga þannig upp dimm sund og vöruskemmur. Svo finnst mér að listakonan sem hefur málað blómin á veggina vera útlendur gestur sem er þar í boði konunnar sem ræður öllu í kaupstaðnum og það er sú kona sem fær hugmyndir um hvar eigi að mála þessi framandi útlendu blóm utan á húsveggi. Mér finnst listakonan frekar upplifa sig sem handverksmann sem málar eftir pöntunum.

----------------------------

3.6.2008 | 16:46

Ísbjörn og draumur

  Ég hef ekki fylgst með fréttum í dag fyrr en núna. Ég sé að mál málanna í dag hefur verið ísbjörninn, sjá hérna skjámyndina til hliðar yfir mest lesnu fréttirnar í dag.

Það var sorglegt að ísbjörninn var drepinn. Það var mikið voðaverk. Ég ætla ekki að heimsækja það safn sem í framtíðinni státar af þessum ísbirni uppstoppuðum.  

En mér finnst óþægilegt að sjá allar þessar ísbjarnarfréttir. Þær minna mig á draum sem mig dreymdi um miðjan janúar árið 1995. Þá hafði mikið snjóað og móðir mín og fleiri ættingjar voru áhyggjufullir um hvort Hellisheiðin yrði ófær því þau voru á leið norður, ætluðu í jarðarför Huldu frænku minnar á Höllustöðum. 

Einum eða tveimur nóttum fyrir jarðarförina dreymdi mig draum þannig að mér fannst ég búa í sjávarþorpi. Þá sé ég að upp úr sjónum á höfninni í þessu þorpi kemur ísbjörn. Ekki svo svona ísbjörn eins og ég sé vanalega í þessum náttúrulífsþáttum, ekki svona kraftmikill og hættulegur ísbjörn með þykkan og hvítan feld heldur meira eins og einhver vera sem skreiðist örmagna á land. Ég man eftir að það fyrsta sem ég hugsaði í draumnum var að koma þyrftir fréttum sem fyrst til fjölmiðla og  í draumnum  flýti ég mér í  símaklefa sem stóð einn sér í þorpinu  til að hringja inn fréttaskot til fjölmiðla um ísbjarnarkomuna. Ég man líka eftir að ég var mjög hrædd um að ísbjörninn gæti brotist inn og brotið niður húsið sem ég bjó í, húsið var  hrófatildur, sérstaklega útbygging og inngangur sem sneri í átt að sjónum, ég var hrædd um dætur mínar sem mér fannst líka búa í þessu húsi.

Einum eða tveimur dögum eftir að mig dreymdi þennan draum þá féll snjóflóðið í Súðavík þannig að ég tengdi þennan draum við þá atburði. Ég er samt ekki viss um að ég sé búin að finna þorpið í draumnum, ég hugsa alltaf um þennan draum þegar ég er í sjávarþorpi þar sem er símklefi.

 --------------------

13.11.01
      ( 11:26 PM ) Salvor Gissurardottir  

Draumar


Ég hugsa að það sé skammdegið og sú höfgi og depurð sem því fylgir sem veldur því að margir ferðast um í draumum á þessum árstíma. Kannski er ferðalagið mest inn í draumum annarra því núna detta jólabækurnar út úr draumaverksmiðjum höfundanna og við ferðumst í þeim, lifum okkur inn í dagdrauma og spuna þess sem hefur samið skáldverkið og drepum tímann. Ég sé að þjóðskáldið Hallgrímur Helgason kemur með nýjan draumapakka í ár, það er skáldsaga um rithöfundinn sem vaknar upp í eigin draumi. Ég hef verið að kynna mér höfundinn Steinunni Sigurðardóttur síðan ég fór á ritþingið hennar á laugardaginn. Ein þekktasta skáldsaga hennar heitir Tímaþjófurinn og hún hefur verið kvikmynduð. Í einni bókmenntaumfjöllun um verk Steinunnar las ég að sögupersónur hennar væru oft manneskjur sem eyddu meiri tíma í að hugsa um hlutina og fara yfir líf sitt en að lifa lífinu. Eyddu meiri tíma í að spá í ástina en að elska. Svona sögupersónur sem tærðust upp af ást og þrá og eftirsjá. Stundum finnst mér eins og við sem hrífumst af skáldsögum og lifum okkur inn í kvikmyndir séum eins og svoleiðis sögupersónur, við sökkvum okkur niður í drauma og það eru ekki einu sinni okkar eigin draumar.

Talandi um drauma þá man ég þá drauma sem mig dreymdi undanfarnar tvær nætur. Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri stödd í framandi landi á einhvers konar viðkomustað og ég gat ekki gert mig skiljanlega við neinn, reyndar fannst mér ég skilja allt sem fram fór en enginn skildi mig og ég fann heldur ekki hjá mér neina hvöt til að reyna að gera mig skiljanlega. Ég vissi eiginlega ekkert um hvar ég væri eða hvað ég væri að gera en var alveg sama um það og spáði ekkert í það. Bara var þarna og horfði og skynjaði. Tvær konur voru að reyna að finna út eitthvað um hvenær ég ætti að fara, ég held þær hafi fundið einhvern flugfarseðil með tímasetningu. Draumurinn endaði þar sem ég sat á bekk með I. að bíða eftir lest. Þessi draumur gerðist í mjög gráu og hrjóstrugu og köldu og manngerðu umhverfi, allt fullt af steinsteypu, bekkurinn var líka steyptur.

Síðustu nótt dreymdi mig miklu fjörugri og litskrúðugri draum. Mig dreymdi að ég byggi í blokk, held ég á þriðju hæð og svo horfði ég út um alla glugga og hvarvetna blasir við mér svona eins og her af fólki - já eins og her því allir héldu á spjöldum sem minntu mig á skildi og þau voru mjög litskrúðug og fjölbreytileg í lit og formi og á þau letruð alls konar tákn sem ég skyldi ekki - eins og svona myndletur þar sem á hverjum skildi var kannski eitt tákn. Og fólkið raðar sér með spjöldin eins og þéttur her eða varnarlið. Mér verður hvelft við í draumnum, held fyrst að þetta sé einhvers konar umsátur sem er beint gegn mér en átta mig svo á því að þetta hefur ekkert með mig að gera heldur er allt hverfið sem mér finnst núna vera breiðgata við strönd einhvers staðar þakið af fólki sem hefur stillt sér upp með svona skilti því það er einhver viðburður í vændum, einhvers konar hátíð. Á einum stað men ég eftir einhvers konar íþróttahátíð sem þó ekkert eins og nein sem ég hef séð. Einhvers konar tæki eða verur eða vélar sem flogið var beint upp í loftið, ekki mjög hátt, frá mér séð leit þetta út eins og fljúgandi hestar og var uppljómað. Mannmergðin fylgdist með þessu allt í kring.
------------------
Draumar21.11.01
      ( 7:44 AM ) Salvor Gissurardottir 

Er að gera tilraun með að skrá niður drauma, ætti kannski að búa til sérstakt draumablogg. Man draum sem mig dreymdi fyrstu nóttina í Ronneby. Dreymdi að ég væri læknir og beitti lækningaraðferð sem var nokkurs konar viðtalstækni sem gekk út á að lifa mig inn í líf viðmælandans og hugsa með honum og eins og leysa upp vandamál eða flækjur þannig. Lækningaaðferðin gafst vel og ég var sannfærð um ágæti hennar en í draumnum var líka eitthvað um vesen út af lækningaleyfi, þessi lækningaaðferð hafði ekki löggildingu og ég ekki leyfi til að stunda lækningar. Man svo að í draumnum er ég búin með eitt viðtal og fer fram til að athuga hvort ég geti ekki farið en kom þá í biðstofu sem er full af fólki og er reyndar líka eins og geymsla eða vöruskáli, kössum er staflað upp. Draumurinn endaði það sem ég var að hugsa um hvað ég ætti að gera, velti fyrir mér þeim möguleika að gera einhvers konar plan eða skipulag og deila tíma niður á þá sem biðu. Í draumnum var það hins vegar í hrópandi ósamræmi við lækningaaðferðina að búta tímann svona niður í litla skammta.
#
 


Hvað kostar að kaupa rödd Íslendinga?

Undanfarin ár hefur verið mikill völlur á fjölmiðlum á Íslandi. Gefin út fjögur blöð Mogginn, Fréttablaðið, 24 Stundir og DV og fjöldi tímarita. Sum þessara blaða eru fríblöð og þar birtust auglýsingar frá fyrirtækjum þeirra sem kallaðir eru útrásarvíkingar því þeir áttu orðið öll fyrirtæki sem auglýstu á Íslandi nema opinber fyrirtæki. Aldrei hefur niðurlægingartími íslenskra fjölmiðla verið meiri en á síðustu árum þegar nánast öll fjölmiðlastétt Íslands átti allt sitt undir að lofsyngja dýrð útrásarliðsins. En útrásarliðið var líka innrásarlið, lið sem fékk  afhentar peningagerðarvélar samfélagsins í gegnum einkavæðingu bankanna og lið sem hreiðraði um sig og athafnaði sig með aðstoð  óhemjuslaks eftirlitskerfis, innrásarliðs sem gerði svikamyllur zikk-zakk kaupa á hlutafélagakássum svo fáránlegar að svæsnustu pýramídaviðskiptakeðjur blikna og fölna í samanburðinum.

Hvers vegna tókst nokkrum mönnum að haga því svo til að kynslóðir Íslendinga eru flæktir í skuldafjötrum og orðspor landsins að engu orðið? Hvernig tókst nokkrum skálkum að hrifsa til sín óhemjufé og búa til handa sjálfum sér peninga? Hvers vegna var lúxúslífstíll þeirra vegsamaður og fluttar um þá skjallgreinar í blöðum og tímaritum og öðrum fjölmiðlum? Svarið er einfalt. Þeir pössuðu sig á að eiga fjölmiðlana og ráða  þá til sín sem hefðu átt að vera á verði. Það  eru fáir sem bíta á höndina sem færir þeim brauðið. Andvaraleysi Íslendinga undanfarin ár skrifast á marga.  En fjölmiðlarnir hafa staðið sig eindæma illa, fjölmiðlaflóran á Íslandi hefur verið skrípaleikur og fjölmiðlar sem eru ekki annað en umbúðir utan um auglýsingar er ekki að ganga hagsmuna neinna nema auglýsenda.

það er hins vegar undarlega mikil gróska í íslenskri fjölmiðlun, það er eins og haldið sé upp her manns án þess að sjáanlegt sé eitthvað röklegt viðskiptamódel, hugsanlega er því fólki ætlað að plægja akurinn fyrir einhverja framtíðarhagsmuni. Það er mjög mikilvægt að það sé ljóst hver á fjölmiðla og ekki síður hver hefur tangarhald á þeim sem að nafninu til á fjölmiðla. Sá sem ætlar að tryggja sér ítök og miðla sínum sannleika til Íslendinga mun reyna að tryggja sér hvernig umfjöllun er í  íslenskum  fjölmiðlum. Fjölmiðlun fyrir bankahrunið var stórundarleg á Íslandi en núna eftir hrunið þá hlýtur auglýsingamarkaður að stráfalla. Það er áhyggjuefni hverjir reyna núna að kaupa upp rödd Íslendinga og hvaða hagmuni þeir eru að verja.

Mörg af viðskiptum Jóns Ásgeirs og Pálma í Fons eru stórundarleg og að mér virðist bara einhvers konar svikamyllur til að búa til meiri peninga. Mér finnst hættulegt að fjölmiðlar landsins haldi áfram að vera í eigu sömu manna og stunda mjög vafasöm viðskipti.

Fjölmiðlar ganga alltaf erinda eigenda sinna. Það er bara blekking þegar fjölmiðlamenn segja að eigendurnir hafi engin áhrif, stundum held ég að þeir trúi því sjálfir, þetta sé einhvers konar sjálfdáleiðsla sem fjölmiðlamenn stunda til að finnast þeir ráða meiru en þeir raunverulega gera. Það getur verið að svona dags daglega þá telji eigendur sig ekki þurfa að skipta sér af rekstrinum og stundum er það þeim ágætlega í hag leyfa smásprikl blaðamanna til að skapa og viðhalda þeirri  ímynd að fjölmiðillinn sé óháður og frjáls og þeim ekki undirgefinn á neinn hátt.

Ég hef oft skrifað um fjölmiðlamál á blogg t.d. þetta: 

Á Mogginn að ráða hvað má tala um? - salvor.blog.is


mbl.is Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband