Hvað kostar að kaupa rödd Íslendinga?

Undanfarin ár hefur verið mikill völlur á fjölmiðlum á Íslandi. Gefin út fjögur blöð Mogginn, Fréttablaðið, 24 Stundir og DV og fjöldi tímarita. Sum þessara blaða eru fríblöð og þar birtust auglýsingar frá fyrirtækjum þeirra sem kallaðir eru útrásarvíkingar því þeir áttu orðið öll fyrirtæki sem auglýstu á Íslandi nema opinber fyrirtæki. Aldrei hefur niðurlægingartími íslenskra fjölmiðla verið meiri en á síðustu árum þegar nánast öll fjölmiðlastétt Íslands átti allt sitt undir að lofsyngja dýrð útrásarliðsins. En útrásarliðið var líka innrásarlið, lið sem fékk  afhentar peningagerðarvélar samfélagsins í gegnum einkavæðingu bankanna og lið sem hreiðraði um sig og athafnaði sig með aðstoð  óhemjuslaks eftirlitskerfis, innrásarliðs sem gerði svikamyllur zikk-zakk kaupa á hlutafélagakássum svo fáránlegar að svæsnustu pýramídaviðskiptakeðjur blikna og fölna í samanburðinum.

Hvers vegna tókst nokkrum mönnum að haga því svo til að kynslóðir Íslendinga eru flæktir í skuldafjötrum og orðspor landsins að engu orðið? Hvernig tókst nokkrum skálkum að hrifsa til sín óhemjufé og búa til handa sjálfum sér peninga? Hvers vegna var lúxúslífstíll þeirra vegsamaður og fluttar um þá skjallgreinar í blöðum og tímaritum og öðrum fjölmiðlum? Svarið er einfalt. Þeir pössuðu sig á að eiga fjölmiðlana og ráða  þá til sín sem hefðu átt að vera á verði. Það  eru fáir sem bíta á höndina sem færir þeim brauðið. Andvaraleysi Íslendinga undanfarin ár skrifast á marga.  En fjölmiðlarnir hafa staðið sig eindæma illa, fjölmiðlaflóran á Íslandi hefur verið skrípaleikur og fjölmiðlar sem eru ekki annað en umbúðir utan um auglýsingar er ekki að ganga hagsmuna neinna nema auglýsenda.

það er hins vegar undarlega mikil gróska í íslenskri fjölmiðlun, það er eins og haldið sé upp her manns án þess að sjáanlegt sé eitthvað röklegt viðskiptamódel, hugsanlega er því fólki ætlað að plægja akurinn fyrir einhverja framtíðarhagsmuni. Það er mjög mikilvægt að það sé ljóst hver á fjölmiðla og ekki síður hver hefur tangarhald á þeim sem að nafninu til á fjölmiðla. Sá sem ætlar að tryggja sér ítök og miðla sínum sannleika til Íslendinga mun reyna að tryggja sér hvernig umfjöllun er í  íslenskum  fjölmiðlum. Fjölmiðlun fyrir bankahrunið var stórundarleg á Íslandi en núna eftir hrunið þá hlýtur auglýsingamarkaður að stráfalla. Það er áhyggjuefni hverjir reyna núna að kaupa upp rödd Íslendinga og hvaða hagmuni þeir eru að verja.

Mörg af viðskiptum Jóns Ásgeirs og Pálma í Fons eru stórundarleg og að mér virðist bara einhvers konar svikamyllur til að búa til meiri peninga. Mér finnst hættulegt að fjölmiðlar landsins haldi áfram að vera í eigu sömu manna og stunda mjög vafasöm viðskipti.

Fjölmiðlar ganga alltaf erinda eigenda sinna. Það er bara blekking þegar fjölmiðlamenn segja að eigendurnir hafi engin áhrif, stundum held ég að þeir trúi því sjálfir, þetta sé einhvers konar sjálfdáleiðsla sem fjölmiðlamenn stunda til að finnast þeir ráða meiru en þeir raunverulega gera. Það getur verið að svona dags daglega þá telji eigendur sig ekki þurfa að skipta sér af rekstrinum og stundum er það þeim ágætlega í hag leyfa smásprikl blaðamanna til að skapa og viðhalda þeirri  ímynd að fjölmiðillinn sé óháður og frjáls og þeim ekki undirgefinn á neinn hátt.

Ég hef oft skrifað um fjölmiðlamál á blogg t.d. þetta: 

Á Mogginn að ráða hvað má tala um? - salvor.blog.is


mbl.is Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er alveg stórfurðulegt að skuli ekki vera æsingar út af þessu með fjölmiðlana eins og út af bankahruninu. Að Jón Ásgeir, einn af þeim sem hneppir kynslóiðir í skuldafjötra og eyð'ilegt hefur orðsír þjóðarinnar, skuli svo komast upp með þetta. Hvers konar land er Ísland orðið?  

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.11.2008 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband