Draumar á bloggi og draumaráðningar

Fyrir mörgum árum þá reyndi ég um tíma að skrá niður drauma á blogg, ég var undir áhrifum frá draumasálfræði Carl Jung og pælingum um  psychological archetypescollective unconscious og synchronicity.

Ég hef ekki haldið þessu áfram, aðallega af því að það svo erfitt að muna drauma og það er líka erfitt að skrifa drauma á blogg, það er nærgöngula og opnara fyrir túlkun en að skrifa blogg sem er álit á þjóðmálum eða hvern maður hitti og hvert maður fór þennan eða hinn daginn. Í draumum kemur fram einhver sýn sem maður stjórnar ekki sjálfur og sumir draumaráðningamenn heimsins hafa búið til draumakenningar sem gegnsýra draumarýni nútímans. 

Ég rifja hér upp nokkur draumablogg fyrir sjálfri mér og hugsa hve draumar geta verið óráðnir og í þeim býr margs konar túlkun. Ég rifja upp drauminn um ísbjörninn og núna finnst mér sá draumur ekki vera draumur um snjóflóð heldur vera tákn fyrir árið  sem ísbirnirnir komu að landi og kreppan læsti sig um Ísland og árið ég varð hrædd um líf og afkomu dætra minna í illa byggðu húsi.

Ég rifja líka upp drauminn þar sem mig dreymdi Ingibjörgu Sólrúnu á floti í vatni, aðeins höfuðið upp úr og núna finnst mér sá draumur ekki vera fyrir litlum árangri í kosningum á sínum tíma, það sé hégómi miðað við það ástand sem núna ríkir.

Ég rifja líka upp drauminn af því þegar ég sá hátíð þar eitthvað flaug upp í loftið beint upp, ekki mjög hátt. Ég rifja líka upp óþægilega tilfinningu sem ég fékk þegar í fyrsta skipti var prufukeyrt ljósalistaverk Joko Ono í Viðey. Ég ók út í Laugarnes og horfði á bláleita ljósasúluna, áttaði mig augnablik ekki á því  hvað væri að gerast og hvort ég væri stödd í draumi eða veruleika og fannst ljósasúlan vera eins og  hið uppljómaða tákn sem mannfjöldinn fylgdist með í draumi mínum. 

Hér eru draumabloggin: 


 29.12.02 ( 8:12 PM ) Salvor Gissurardottir  

Draumur um þorp og bókasafn

Rétt fyrir jólin dreymdi mig að ég þóttist vera stödd í risastóru bókasafni. Það var allt fullt af krókum og kimum með borðum og stólum og hillum. Það var glerfínt og nýtt og á yfirborðinu var eins og allt væri í röð og reglu en það var ekkert líf í því. Í hillunum voru bækur og alls konar efni en það var ekkert kerfi þarna svona eins og á venjulegum bókasöfnunum. Ég var að skoða og lesa íslenskar skáldsögur og ákveð í leiðinni að búa til eitthvað kerfi, skrifa á litla gula-postit miða hvaða bækur eru í þessari hillu og reyna að setja eitthvað skipulag eða leiðarkerfi í þessa hrikalegu óreiðu sem hið undirliggjandi þekkingarkerfi var og mig minnir að ég hafi bæði sett þessa post-it miða og skrifað með blýanti á kantinn á bókahillum. Draumur endaði hins vegar með að starfsfólk í þessu safni réðst að mér og sagði að það væri bannað að drasla svona til. Ég var sármóðguð og ákvað að fjarlægja öll ummerki um þessi leiðarkort um safnið sem ég hafði verið að vinna með alls konar pári og lausum sneplum.

Í fyrrinótt (aðfaranótt 28. des) dreymdi mig einhverja ferð aftur í tímann. Kannski var ég að blaða í bók eða skoða eldgamla kvikmynd. En þarna sá ég eins og loftmynd af bóndabæ á eyju eða hólma og svo man ég eftir mynd af Ingibjörgu Sólrúnu að bíða eftir strætó eða rútu. Hún er glaðbeitt á svip en aðstæður er samt all svakalegar. Hún er á kafi í vatni nema höfuðið stendur upp úr, vatnið er tært og stillt eins og það hafi orðið eitthvað flóð og mér finnst eins og hún sé unglingur og í sveit á þessum bóndabæ. Ég kom síðar í einhvern kaupstað eða öllu heldur er að horfa á gamla kvikmynd sem tekin er í útjaðri kaupstaðs þar sem hesthúsahverfi er og myndir er ekki í svarthvítu, heldur sýnir rauðbrúna tóna. Það er mikið líf í myndinni, hestar eru bundnir fyrir framan eða sjást í gættum húsa og ég spái í hve vel hestarnir komi út í þessari gömlu þöglu mynd, þeir séu svo stórar skepnur og hreyfingar þeirra miklar á myndfletinum og þeir séu allir rauðbrúnir svo það skeri sig flott út úr bakgrunninum. Svo er einhver þulur undir myndinni sem segir söguna og segir að á þessum tíma hafi meira segja hestar frá þessum eina sveitabæ sem ég var áður að skoða fengið merkið II. Svo finnst mér ég vera sérstaklega að rannsaka og leita að verkum eftir einhverja þekkta listakonu og það mikið tækifæri að geta svona farið inn í lífið eins og það var í þessum kaupstað. Mér finnst þetta ekki vera eins og neinn íslenskur kaupstaður, mig minnir að húsin hafi verið tréhús svona falumrauð eða miðevrópuleg tréhús. En listin fólst í því að mála utan á húsin, að mála glugga og blóm á gluggalausa pakkhúsvegi og lífga þannig upp dimm sund og vöruskemmur. Svo finnst mér að listakonan sem hefur málað blómin á veggina vera útlendur gestur sem er þar í boði konunnar sem ræður öllu í kaupstaðnum og það er sú kona sem fær hugmyndir um hvar eigi að mála þessi framandi útlendu blóm utan á húsveggi. Mér finnst listakonan frekar upplifa sig sem handverksmann sem málar eftir pöntunum.

----------------------------

3.6.2008 | 16:46

Ísbjörn og draumur

  Ég hef ekki fylgst með fréttum í dag fyrr en núna. Ég sé að mál málanna í dag hefur verið ísbjörninn, sjá hérna skjámyndina til hliðar yfir mest lesnu fréttirnar í dag.

Það var sorglegt að ísbjörninn var drepinn. Það var mikið voðaverk. Ég ætla ekki að heimsækja það safn sem í framtíðinni státar af þessum ísbirni uppstoppuðum.  

En mér finnst óþægilegt að sjá allar þessar ísbjarnarfréttir. Þær minna mig á draum sem mig dreymdi um miðjan janúar árið 1995. Þá hafði mikið snjóað og móðir mín og fleiri ættingjar voru áhyggjufullir um hvort Hellisheiðin yrði ófær því þau voru á leið norður, ætluðu í jarðarför Huldu frænku minnar á Höllustöðum. 

Einum eða tveimur nóttum fyrir jarðarförina dreymdi mig draum þannig að mér fannst ég búa í sjávarþorpi. Þá sé ég að upp úr sjónum á höfninni í þessu þorpi kemur ísbjörn. Ekki svo svona ísbjörn eins og ég sé vanalega í þessum náttúrulífsþáttum, ekki svona kraftmikill og hættulegur ísbjörn með þykkan og hvítan feld heldur meira eins og einhver vera sem skreiðist örmagna á land. Ég man eftir að það fyrsta sem ég hugsaði í draumnum var að koma þyrftir fréttum sem fyrst til fjölmiðla og  í draumnum  flýti ég mér í  símaklefa sem stóð einn sér í þorpinu  til að hringja inn fréttaskot til fjölmiðla um ísbjarnarkomuna. Ég man líka eftir að ég var mjög hrædd um að ísbjörninn gæti brotist inn og brotið niður húsið sem ég bjó í, húsið var  hrófatildur, sérstaklega útbygging og inngangur sem sneri í átt að sjónum, ég var hrædd um dætur mínar sem mér fannst líka búa í þessu húsi.

Einum eða tveimur dögum eftir að mig dreymdi þennan draum þá féll snjóflóðið í Súðavík þannig að ég tengdi þennan draum við þá atburði. Ég er samt ekki viss um að ég sé búin að finna þorpið í draumnum, ég hugsa alltaf um þennan draum þegar ég er í sjávarþorpi þar sem er símklefi.

 --------------------

13.11.01
      ( 11:26 PM ) Salvor Gissurardottir  

Draumar


Ég hugsa að það sé skammdegið og sú höfgi og depurð sem því fylgir sem veldur því að margir ferðast um í draumum á þessum árstíma. Kannski er ferðalagið mest inn í draumum annarra því núna detta jólabækurnar út úr draumaverksmiðjum höfundanna og við ferðumst í þeim, lifum okkur inn í dagdrauma og spuna þess sem hefur samið skáldverkið og drepum tímann. Ég sé að þjóðskáldið Hallgrímur Helgason kemur með nýjan draumapakka í ár, það er skáldsaga um rithöfundinn sem vaknar upp í eigin draumi. Ég hef verið að kynna mér höfundinn Steinunni Sigurðardóttur síðan ég fór á ritþingið hennar á laugardaginn. Ein þekktasta skáldsaga hennar heitir Tímaþjófurinn og hún hefur verið kvikmynduð. Í einni bókmenntaumfjöllun um verk Steinunnar las ég að sögupersónur hennar væru oft manneskjur sem eyddu meiri tíma í að hugsa um hlutina og fara yfir líf sitt en að lifa lífinu. Eyddu meiri tíma í að spá í ástina en að elska. Svona sögupersónur sem tærðust upp af ást og þrá og eftirsjá. Stundum finnst mér eins og við sem hrífumst af skáldsögum og lifum okkur inn í kvikmyndir séum eins og svoleiðis sögupersónur, við sökkvum okkur niður í drauma og það eru ekki einu sinni okkar eigin draumar.

Talandi um drauma þá man ég þá drauma sem mig dreymdi undanfarnar tvær nætur. Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri stödd í framandi landi á einhvers konar viðkomustað og ég gat ekki gert mig skiljanlega við neinn, reyndar fannst mér ég skilja allt sem fram fór en enginn skildi mig og ég fann heldur ekki hjá mér neina hvöt til að reyna að gera mig skiljanlega. Ég vissi eiginlega ekkert um hvar ég væri eða hvað ég væri að gera en var alveg sama um það og spáði ekkert í það. Bara var þarna og horfði og skynjaði. Tvær konur voru að reyna að finna út eitthvað um hvenær ég ætti að fara, ég held þær hafi fundið einhvern flugfarseðil með tímasetningu. Draumurinn endaði þar sem ég sat á bekk með I. að bíða eftir lest. Þessi draumur gerðist í mjög gráu og hrjóstrugu og köldu og manngerðu umhverfi, allt fullt af steinsteypu, bekkurinn var líka steyptur.

Síðustu nótt dreymdi mig miklu fjörugri og litskrúðugri draum. Mig dreymdi að ég byggi í blokk, held ég á þriðju hæð og svo horfði ég út um alla glugga og hvarvetna blasir við mér svona eins og her af fólki - já eins og her því allir héldu á spjöldum sem minntu mig á skildi og þau voru mjög litskrúðug og fjölbreytileg í lit og formi og á þau letruð alls konar tákn sem ég skyldi ekki - eins og svona myndletur þar sem á hverjum skildi var kannski eitt tákn. Og fólkið raðar sér með spjöldin eins og þéttur her eða varnarlið. Mér verður hvelft við í draumnum, held fyrst að þetta sé einhvers konar umsátur sem er beint gegn mér en átta mig svo á því að þetta hefur ekkert með mig að gera heldur er allt hverfið sem mér finnst núna vera breiðgata við strönd einhvers staðar þakið af fólki sem hefur stillt sér upp með svona skilti því það er einhver viðburður í vændum, einhvers konar hátíð. Á einum stað men ég eftir einhvers konar íþróttahátíð sem þó ekkert eins og nein sem ég hef séð. Einhvers konar tæki eða verur eða vélar sem flogið var beint upp í loftið, ekki mjög hátt, frá mér séð leit þetta út eins og fljúgandi hestar og var uppljómað. Mannmergðin fylgdist með þessu allt í kring.
------------------
Draumar21.11.01
      ( 7:44 AM ) Salvor Gissurardottir 

Er að gera tilraun með að skrá niður drauma, ætti kannski að búa til sérstakt draumablogg. Man draum sem mig dreymdi fyrstu nóttina í Ronneby. Dreymdi að ég væri læknir og beitti lækningaraðferð sem var nokkurs konar viðtalstækni sem gekk út á að lifa mig inn í líf viðmælandans og hugsa með honum og eins og leysa upp vandamál eða flækjur þannig. Lækningaaðferðin gafst vel og ég var sannfærð um ágæti hennar en í draumnum var líka eitthvað um vesen út af lækningaleyfi, þessi lækningaaðferð hafði ekki löggildingu og ég ekki leyfi til að stunda lækningar. Man svo að í draumnum er ég búin með eitt viðtal og fer fram til að athuga hvort ég geti ekki farið en kom þá í biðstofu sem er full af fólki og er reyndar líka eins og geymsla eða vöruskáli, kössum er staflað upp. Draumurinn endaði það sem ég var að hugsa um hvað ég ætti að gera, velti fyrir mér þeim möguleika að gera einhvers konar plan eða skipulag og deila tíma niður á þá sem biðu. Í draumnum var það hins vegar í hrópandi ósamræmi við lækningaaðferðina að búta tímann svona niður í litla skammta.
#
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Strax í byrjun kreppunnar fór mér að detta í hug hvort ekki ætti hreinlega að opna "Draumavakt" á blogginu, enda þjóðin berdreymin með afbrigðum.

(Dreymdi m.a.s. sjálfa svo svakalegan hamfaradraum fyrir nokkrum árum að ég ætla bara rétt að vona að hann sé nú þegar kominn fram.  Sá verður þó seint "public property", þar sem ég hef enga löngun til að hræða líftóruna úr löndum mínum).

Lagði þó ekki í þá framkvæmd, enda t.d. afar plássfrek.

Sé samt nú að skyldar hugmyndir blunda með öðrum.

Þeim, sem kunna að fussa við slíku, má svo benda á, að varla geta draumfarir Íslendinga orðið mikið fjarstæðukenndari en raunveruleiki líðandi stundar.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 2.11.2008 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband