Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
1.11.2008 | 12:29
Verðum að halda áfram að leita að nýjum vinum
Bankakreppa er eitt. Stjórnmálaástand og valdajafnvægi í heiminum er annað. Þetta tvinnast samt saman á ýmsa vegu. Það er nú ekkert jafnvægi í fjármálaheimi, við búum í heimi alþjóðavæðingar þar sem vörur og þjónusta geta flætt um heiminn og þar sem heilagasti rétturinn er eignarrétturinn, ekki eignarréttur á húsum og vélum og tækjum heldur eignarréttur á pappírum og skuldabréfavafningum, eignarréttur á eign sem er hluti af eign sem er hluti af eign sem er hluti af eign... osfrv. Það er löng lína milli fjármagnseigandans og hinnar raunverulegu eignar, það er ekki eins og það sé bæjarútgerð sem á togara sem hún gerir út á fiskimiðin nærri heimabyggð eða að togari sé í eigu einhvers ríks útgerðarmanns sem býr í sjávarplássinu. Meira segja húsin í plássunum sem við höldum að séu í eigu íbúanna eru skuldsett til ýmissa aðila sem munu eignast þau ef ekki er staðið í skilum. Þó við höfum fengið lán hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum eða sjóðum þá gæti það fyrirtæki selt kröfurnar áfram.
Það má hér líka spyrja hvernig húsnæðislánasjóður Íslendinga er fjármagnaður? Er það þannig að afborganir af lánum og framlög frá hinu áður skuldlausa íslenska ríki hafi staðið undir því fjármagni sem sem húsnæðislánasjóður þurfti. Eða hefur húsnæðislánasjóður virkar eins og undirmálslánin í USA, lánað stórar upphæðir til fólks og fjármagnað það með jöklabréfum eða slíkum pappírum sem nú soga fé út úr Íslandi.
Valdajafnvægi í heiminum er núna að riðlast. Bandaríska öldin er liðin á Íslandi og hún er sennilega liðin líka í heiminum. Veldi Kína hefur vaxið og það getur verið að það land hugsi til landvinninga á næstu áratugum. Ef til vill ekki með vopnaskaki heldur með friðsamlegum samingum.
En hvar á Ísland heima í þessu ölduróti fjármála og stjórnmála? Ekki í faðmi Bandaríkjanna, þar er ekkert skjól lengur. Bretar eru óvinir og framkoma forsætisráðherra þeirra sýndi að menn í því ríki hika ekki við að ráðast á skjóllausa smáþjóð til að verja hagsmuni sína og tryggja sér aðgang að hráefni.
Fjármálalega á Ísland samleið með því bandalagi sem þjóðir Evrópu hafa komið sér upp og við erum raunar þegar þátttakendur í samningi við EBE. Sennilega er fjármálalegum hagsmunum smáríkis sem ekki getur staðið eitt með örmynt betur borgið þar.
Stjórnmálalega á Ísland heima meðal annarra þjóða á Norðurslóðum. Það eru sérstaklega Noregur og dönsku sjálfstjórnarsvæðin Grænland og Færeyjar en það eru líka Kanada og Rússland. Það er nú samt svo að það er ekkert sérstakt samband milli þessara ríkja núna og reyndar erjur milli Rússa og Norðmanna m.a. varðandi varnarmál og ekki síst baráttu um Íshafið og þær auðlindir sem þar kunna að vera.
Það eru þessi ríki og lönd Noregur, Grænland, Færeyjar, Rússland og Kanada sem mér virðist langmikilvægustu hugsanlegu bandamenn Íslands á stjórnmálasviði næstu áratugum. Það er ágætt að hafa markað fyrir fisk í EBE en staðan er nú svo á næstu áratugum að það munu margir aðrir hlutar heimsins vilja kaupa fisk og það getur verið að við getum fengið þar betra verð. Við getum auðvitað keypt vörur frá EBE og vissulega eru mest viðskipti okkar núna þar en þær vörur sem við kaupum þaðan eru sumar framleiddar annars staðar og eru ódýrari þaðan.
Af hverju ættum við að selja fisk um aldur og ævi til EBE og kaupa vörur þaðan ef við getum selt fisk á hærra verði til Asíulanda og keypt vörur þar á lægra verði en Evrópa getur boðið? Sala á fisk er líka pólitísk eins og fisksala okkar til Sovétríkjanna var á sínum tíma.
Það er mjög mikilvægt fyrir Ísland núna að vera ekki of háður einhverju einu stórveldi eða ríkjasambandi, sérstaklega ekki stórveldi/ríkjasamband sem er að molna niður. Landfræðileg staða Íslands mun halda áfram að vera mikilvæg en ekki á sama hátt og áður.
Við skulum minnast þess að í heiminum hafa verið háð mörg stríð til að tryggja aðgang þjóða að hráefnum og mikilvægt hráefni núna er orka. Það er ekki langt síðan ráðist var inn í Írak af vinaþjóð okkar sem fann sér tylliástæðu til þess en margir telja að Íraksstíðið sé stríð um aðgang að olíulindum.
Það getur alveg farið svo að háð verði stríð um orkulindir í Íshafinu.
Aðvörunin verði rannsökuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)