Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Tölvusvindl og fjármálaráðgjöf banka

Tölvusvindl verður alltaf algengara og ísmeygilegra. Íslendingar eru græskulausir gagnvart svindlurum því samfélagið hérna er svo lítið og  mikið traust milli manna í viðskiptum vegna þess hve auðvelt er að afla bakgrunnsupplýsinga. Við getum strax vitað hvaða Íslendingi eða íslensku fyrirtæki er treystandi. Það eru hins vegar ótrúlega margir sem samt virðast ginnast af svikum og prettum sem fara fram gegnum Netið. Flestum finnst Nígeríutölvupósturinn fyndinn og henda honum strax en það eru alltaf einhverjir mjög grunnhyggnir og einfaldir sem falla í gildrurnar. 

En svikimyllurnar verða alltaf  fullkomnari og stundum er erfitt að átta sig á að um svik sé að ræða. Nýjar aðferðir svikahrappa við að ná út úr manni lykilorði og aðgangsorði á vefi eins og paypal.com og ebay.com eru lævísar og rugla fólk.

Ég fæ oft ruslpóstbréf þar sem fullyrt er að ég hafi óhemju fé  í einhverju happdrætti og bréf um að krítarkorti mínu á paypal hafi verið lokað og bréf eins í morgun um að einhver hafi lagt inn á reikning minn í ebay út af því að ég hafi selt honum vöru. Oft eru þetta bréf sem líta mjög "professional" út og virðast fjalla um eitthvað vandamál sem verður að bregðast strax við og það eru gefnar upp slóðir í bréfunum og ef maður smellir á þær (EKKI á að gera það!!!) þá kemur upp síða sem er alveg eins og maður sé að fara inn á paypal.com eða ebay.com

Þetta eru hins vegar SVIKAMYLLUR. þetta eru ekki raunverulegu paypal og ebay vefsvæðin heldur vefir sem eru settir upp til að maður loggi sig þar inn og þá getur einhver komist yfir notendanafn og aðgangsorð sem maður notar og farið t.d. inn á ebay og keypt vörur og/eða tekið út af kreditkorti manns.

Ég fékk t.d. svona bréf í morgun sem virtist koma frá ebay:

spoof-ebay

Þetta er dæmi um svikamyllu. Ég fékk þetta á netfang sem reyndar er ekki skráð á ebay og svo er ég ekki að selja neitt á ebay. Hugsunin hjá þeim sem setja upp slíkar svikamyllur er að gera fólk forviða og búa til einhverjar aðstæður þannig að fólk bregðist strax við.  

Svona svik eru svo algeng og erfitt að vara sig á þeim að það verður að fara að huga að því að upplýsa almenning um skynsamlega hegðun í netheimum. Reyndar finnst mér að bankarnir ættu þarna að hafa frumkvæði og styrkja og/eða standa að slíkri fræðslu.  Alveg á sama hátt og tryggingarfélögin eru með herferðir til að stuðla að  bættri umferðarmenningu og reyna með því að draga úr fjölda tjóna og slysa vegna þess að það beinlínis hefur áhrif á afkomu þeirra þá hafa bankar hagsmuna að gæta varðandi fjármál almennings. Mörg af þessum svikum fara í gegnum banka og peningarreikninga og fólk sem lætur glepjast af svona glæpum mun ekki treysta bönkum vel og átta sig nógu vel á því hver er að féfletta það. Það er mikilvægt fyrir banka að hafa traust, viðskipti hafa alltaf byggst á trausti og nú á tímum þá er fjármálaráðgjöf stór hluti af bankaþjónustu og einn mikilvægur hluti af fjármálaráðgjöf í dag er að fólk láti ekki féfletta sig með svikamyllum á Netinu. 

The Fight Against Phishing- 44 Tips to Protect Yourself

 


mbl.is Íslenskur tölvunotandi varð illilega fyrir barðinu á netsvindlurum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkibloggsaga Íslands 2. hluti

Í svarhala á kaninkublogginu um forsögulega bloggara þá dusta ýmsar fornaldareðlur í íslenskum bloggheimi af sér rykið og rifja upp hvenær þeir byrjuðu að blogga eða urðu meðvitaðir um að þeir væru bloggarar. Nú eða ekki bloggarar. Það er stórt skref í þroskasögu hvers bloggara þegar hann kemur út úr skápnum og fattar að hann er bloggari og þorir að viðurkenna það fyrir heimsbyggðinni.  Egill ekki bloggari hefur ekki stigið það skref en hann hefur þó útskýrt bloggsagnfræði sína þannig að bloggið hafi orðið til í hans huga árið 2005. Það er náttúrulega eins góð sagnfræði og hver önnur, það ættu allir að skrá sína útgáfu af veraldarsögunni eins og persónulega þroskasögu. Það er nefnilega sannleikskorn í þessu, atburðir verða til þegar við lesum um þá eða verðum meðvituð um að þeir hafi gerst. Fyrirbæri verða til þegar við gefum þeim nafn og þegar við getum lýst þeim með einhverju táknkerfi.

Einn af fyrstu bloggurum og sennilega sá fyrsti sem eitthvað bloggaði um menningu og samfélagsmál  Már sá ljósið í maí 1999 samkvæmt því sem hann skráir í risaeðlusvarhalann. Hann segir 7. janúar 2007 :

Mig grunar að ég hafi verið fyrstur íslenskra bloggara til að verða meðvitaður um að heimasíðan mín félli undir skilgreininguna “weblog”, en það gerðist í maí 1999 og sú uppgötvnum þótti mér svo merkileg að ég bloggaði um það.

Már og vinur hans Bjarni Rúnar héldu lengi að þeir væru einu bloggararnir á Íslandi. Þetta var á forsögulegum tíma um svipað leyti sem Völuspá og Hávamál voru skrifuð og telja bloggfræðingar líklegt að eftirfarandi erindi hafi einmitt verið ort um um ástandið sem forsögulega blogg Más lýsir:

Ungur var eg forðum,  
fór eg einn saman
þá varð eg villur vega.  
Auðigur þóttumst  
er eg annan fann:  
Maður er manns gaman.

Már lýsir forneskju og einsemd íslenska bloggheimsins á síðasta árþúsundi svona:

"Á þessum tíma voru íslenskar bloggsíður svo fáar og langt á milli þeirra, að engin samfélagsvitund hafði enn myndast. Hver bloggaði í sínu horni. Ég og Bjarni Rúnar álitum okkur tvo vera einu bloggarana á íslandi fyrsta hálfa árið sem við blogguðum, eða svo."

Margar kynjaverur og skrímsli sem uppi hafa verið í bloggheimum eru nú útdauðar. Bloggarar koma og fara. Þær persónur sem fólk býr til á bloggi hafa stundum (oftast) horfið sporlaust. Ég skrifaði einu sinni þessi minningarorð um blogg. 
 22.1.03
      ( 7:16 PM ) Salvor Gissurardottir  

Minningarorð um Blogg dauðans



Blogg dauðans svipti sig lífi í bloggheimi í dag. Athöfnin var látlaus, hjartnæm kveðjuorð og þakkir til þeirra sem ömuðust ekki við blogginu. Líka alls kyns spök orð og vísur. Líka um píslarvætti og ofsóknir. Soldið jesúlegt. En hvert fara dauð blogg? Er til framhaldslíf utan bloggsins? Mér virðist Bloggari dauðans trúa á framhaldslíf og annan stað í nýjum heimi. Enda virkar hann rammheiðinn og vill ekki veslast upp af einhverju innanmeini heldur deyja sem hetja í orrustu. Handanheimar bloggara eru lagskiptir, ódáinsakrar fyrir þá sem deyja píslarvættisdauða. Eða eins og hann segir sjálfur um næsta áfangastað sinn:

"Hvert? Kannski á ódáinsvelli að hitta aðra bloggara sem hafa verið „stalkaðir“ burt af netinu. Hvert sem Bloggari dauðans fer, ekki reyna að finna hann því hann vill engan hitta."

Ég er strax farin að sakna Bloggs dauðans. Svo knöpp orðnotkun og mikil speki um litla hluti. Eða kannski lýsa því sem skipti máli með hversdagslegum dæmum. Fyndið. Úrillt. Gáfað. Lesið. Bókmenntalegt ádeilublogg. Textinn oft á tíðum hrein snilld, bloggið sem byrjaði með svona setningu:"Menn skulu ekki ímynda sér að þeir fái hér yfirlit yfir þau partí sem ég mæti í, þaðanafsíður hvað ég geri í þeim."

Annars er eftirlætisetningin mín úr Bloggi Dauðans hið mikla innsæi í sænskt samfélag sem var í blogginu á Lúsíudaginn seinasta, kannski af því hann sagði þá eitthvað sem mér fannst eins og ég hefði alltaf hugsað en ekki getað orðað fyrr en Bloggari dauðans orðaði það. Hann lýsti Svíþjóð með rauðum pulsum og "...Öllum skiltunum sem á stendur: Ejutgång. Hvarvetna þar sem eru margar hurðir í Svíþjóð hanga skilti með orðinu ejutgång. Einhverjum hefði kannski þótt nærtækara að merkja hvar leyft sé að fara út. Svíum finnst mikilvægara að koma á framfæri hvar það sé bannað."

Ég hugsa að Bloggari Dauðans finni alltaf útgönguleið.

Myspace fjölmiðlamanna

Það er oftast svo vont netsamband hjá kaninkubloggurum að ég les þau blogg ekki nema endrum og eins. Það má segja að sá menningarkimi þess útskers sé álíka mikið í alfaraleið  og upplýsingahraðbrautin mikla liggur um Ísland og álíka algengt að þangað sé allt sambandslaust.

Það sem einkennir þau blogg er að þau eru held ég öll vinstri græn og í öðrum skrýtnum hreyfingum og svo er kaninkubloggurum uppsigað við moggabloggið og hafa um það háðuleg orð. 

Rakst á þessa miklu speki hjá Birki: 

Mér sýnist sem Mogga-bloggið sé að verða að MySpace fjölmiðlamanna. Þar blogga fjölmiðlamenn öllum stundum, helst hver um annan, og helst ekki án þess að vitna í bloggfærslu hjá hinum. Svo eiga allir “blogg-vini” sem þeir setja myndir af í hliðarstiku og skiptast svo á kveðjum við og kommenta svo hjá hinum og þessum til að láta vita að þeir séu nú líka með í umræðunni. Þetta virkar semsagt nákvæmlega eins og MySpace. Ég bíð spenntur eftir því hver verður fyrstur til að þakka Birni Bjarna fyrir “addið”.

Moggabloggið er sniðugt bloggkerfi og bloggsamfélag, bæði af því það er einfalt og hraðvirkt og áreiðanlegt bloggkerfi og þar skrifa margir samfélagsrýnar sem hafa eitthvað að segja. Það er auðvelt að mynda samfélög þar og tengja bloggskrif við fréttir og fylgjast með bloggum hjá öðrum. Það er vissulegt líkt Myspace en reyndar líka fjölmörgum vinsælum netsamfélögum öðrum. 

Ég gerði vefsíðu um myspace, sjá hérna.  

Sennilega er sú þróun sem við erum að sjá núna hjá Morgunblaðinu á vefnum undanfari af þróun sem mun halda áfram og breytast í kerfi eins og digg.com og newsvine.com þar sem fréttirnar eru skrifaðar af lesendum og það er í sífellu greidd atkvæði um fréttir og vinsælustu fréttirnar poppa upp á forsíðunni.

Ég fylgist öðru hvoru með vinsælustu tæknifréttunum á digg og þar eru athugasemdirnar líka metnar og þær eru oft mikilvægari og meiri fengur en fréttin sjálf. Fréttirnar á digg.com eru nefnilega oft líka eins og fréttir í hefðbundnum fjölmiðlum, þær eru dulbúnar auglýsingar sem er plantað inn af þeim sam hafa hagsmuna að gæta og eru að selja einhverja vöru eða þjónustu. Þannig verða örugglega sum blogg líka. Þannig er Myspace. Þar er fullt af gervifólki sem er ekki til í raunveruleikanum, það eru prófælar sem eru búnir til gagngert til að vingast við unglingana og reyna svo að pranga inn á þau einhverjum vörum. Það er líka hægt að kaupa sér vini á Myspace, það skiptir máli fyrir upprennandi tónlistarmenn að láta líta út fyrir að þeir eigi marga aðdáendur  strax þegar þeir koma sér upp Myspace síðu. Þess vegna er hægt (á svörtum, ekki opinberlega) að kaupa sér vini þar í þúsundatali.


mbl.is Viðgerð á Cantat 3 mun trufla netsamband hjá Rannsókna- og háskólaneti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wikispaces

Wikispaces er fínt wikikerfi sem er núna ókeypis og án auglýsinga fyrir kennara. Það þarf bara að haka við að maður hyggist nota þetta í fræðslutilgangi þegar maður skráir sitt wiki.  Það þarf bara að smella á myndina hér fyrir neðan, skrá sig og haka við "I certify this space will be used for K-12 education." og þá getur maður byrjað að skrá á sitt eigið wiki. Auðvelt er að spila vídeó frá youtube og líma inn kóða á wikisíður. Sniðugt er að láta marga  vinna saman að einhverju verkefni með svona wiki.

 

Leiðbeiningar með wikispaces

Salvör Gissurardóttir tók saman
Hvað er wiki?
Wiki er tölvubúnaður sem gerir okkur kleift að búa til og breyta vefsíðum. Wiki er þannig að allir notendur geta breytt og skrifað ofan í það sem hinir gera. Þannig er Wiki verkfæri sem býður upp á nýja möguleika við samvinnu á vefnum.

Tökum sem dæmi smíði á alfræðiorðabók - Þær alfræðiorðabækur sem við þekkjum eru smíðaðar þannig að hópur sérfræðinga undir ákveðinni ritstjórn skrifar bókina saman. En í wiki þá getum við skrifað öðruvísi alfræðiorðabók. Við getum haft það þannig að hver sem er geti skrifað og breytt hverju sem er. Og þetta er einmitt eitt dæmi um hvernig wiki er notað á vefnum. Það er í smíðum núna alfræðiorðabók WIKIPEDIA. Markmiðið er að til sé Wikipedia alfræðirit á öllum tungumálum. Það eru þegar komnar yfir milljón greinar í ensku útgáfu af Wikipedia en rúmlega 12 þúsund greinar eru í íslensku Wikipedia.

Wikipedia notar wikikerfi sem kallast Mediawiki. Það er algengt  wikikerfi og ókeypis og  opinn hugbúnaður og það sem hefur verið íslenskað. Hver sem er getur hlaðið því niður og sett upp á eigin vefþjón. Það hentar samt ekki öllum að setja sjálfir upp sín eigin wikikerfi og það krefst þess af einstaklingum að þeir hafi tæknilega þekkingu og aðgang að vefþjóni til uppsetninga. Miklu einfaldara er að þurfa sjálfur ekki að spá í uppsetningu og hýsingu og nota kerfi eins og wikispaces.

Wikispaces er ein önnur tegund af wiki og einmitt núna þá geta kennarar fengið ókeypis svæði þar. Wikikerfi eru flest mjög lík. Þú smellir bara á "Edit this Page" og bætir við því sem þú vilt bæta við og smellir svo á Save. Alltaf er hægt að fara í "history" og rekja breytingar.
Hér eru leiðbeiningar (skjákennsla í Camtasia) sem ég tók saman um Wikispaces:
Wikispaces leiðbeiningar 1. kafli 3. mín.
Wikispaces leiðbeiningar 2. kafli 4. mín.
Wikispaces leiðbeiningar 3. kafli 3. mín.
Wikispaces leiðbeiningar 4. kafli 4. mín.

 


Wiki er málið - Ekki blogg

Það er mikið umræða um blogg og á bloggi þessa dagana á Íslandi. Ég skráði á blogg Ekkiblogg sögu Íslands og helstu ekki-bloggarar blogga oft um blogg ( Vofa Víkverja gengur ljósum logum og Ekki blogg – gleðilegt ár)

 og ekki-blogg sögu, sagnfræðingar  blogga um að þetta sé allt að breytast í Eitt allsherjarblogg? og  bókmenntaliðið  reyna að skilja á milli gæðablogga og ofurblogga og amablogga og deiglupennar reyna að blása lífi í deyjandi vefrit með bloggpistlum um blogg og ekki blogg og bloggblaðmennsku.

En síðastu  ár hef ég haft miklu meiri áhuga á wiki og samfélögum í kringum wiki kerfi en því miður þá virðast ennþá vera afar fáir á Íslandi sem átta sig á og hafa áhuga á svoleiðis kerfum.  Það er helst að fólk kveiki þegar rætt er um Wikipedia, flestir hafa kynnst því alfræðiriti, alla vega ensku útgáfunni af því því það poppar upp í leit í Google.  Margir virðast ekki vita af því að það er unnið að því að skrifa íslenska útgáfu af Wikipedia í sjálfboðaliðsvinnu og þar er allt of lítill hópur sem starfar að því. Það er það nýársheit frá seinasta ári sem ég er hvað ánægðust með að ég stefndi að því að skrifa að minnsta kosti 52 pistla inn á is.wikipedia.org á árinu 2006 og ég held að ég hafi skrifað miklu fleiri.

Hér er vefur með yfirliti yfir hin ýmsu wikikerfi: http://www.wikimatrix.org/

Sniðugasta wikikerfið fyrir kennara er wikispaces, það er ókeypis og er núna án auglýsinga fyrir alla kennara. Það er flott tilboð, ástæðan er sennilega sú að þeir sem standa að þessu vilja ná sem flestum notendum og reyna svo að selja kerfið svona eins og google keypti upp jot.

Það er fínt að læra á wiki með eigin wikispaces.com


Loftárásir á þorp og höfuðborg

Forsíðufréttin er núna ennþá eitt stríðið til að leita að og uppræta Al-Qaeda en Bandaríkjamenn gerðu loftárás á þorp í Suður Sómalíu skv. þessari frétt á BBC. CNN talar líka um árás á þorp.

En skv. Mbl.is voru árásir gerðar á höfuðborgina: "Bandaríski flugherinn gerði loftárásir á Mogadishu, höfuðborg Sómalíu í nótt, skotmarkið voru meintar bækistöðvar al-Qaeda hryðjuverkamanna.". 

Er Mogadishu þorp? 

Þetta skýrist nú vonandi fljótlega. 


mbl.is Loftárásir Bandaríkjamanna á Mogadishu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki tilbúinn til að deyja

Ég lenti í Stansted London 21. júlí 2005 og við tókum rútu niður í bæ. Það fannst einhver bakpoki sem enginn kannaðist við í sæti í rútunni og farþegar urðu áhyggjufullir, þetta var jú bara tveimur vikum eftir sprengjurnar í London. Einhver fór með bakpokann út úr rútunni. Þegar komið var niður í bæ var ekki hægt að fá leigubíl og þá heyrðum að einmitt meðan við vorum í rútunni hefði verið reynd hryðjuverkaárás á nokkrum stöðum  og hverfið í Austur London sem við vorum að fara í var lokað vegna sprengju í strætisvagni þar.  Sem betur fer sprungu sprengjurnar ekki í þessari árás út af einhverjum tæknilegum málum. Ég var í London í nokkrar vikur og allan þann tíma var krökkt af lögreglufólki við allar samgönguæðar og mörgum sinnum á dag þá sá maður tilsýndar hópa af lögreglumönnum eða hermönnum vera að handtaka eða stöðva þá sem þeim fannst grunsamlegir. Þessir sem þóttu grunsamlegir virtust eiga það sameiginlegt að vera ungir menn, dökkir yfirlitum og sennilega af arabískum uppruna. Það var allt samfélagið gegnsósa af gífurlegri tortryggni og ég man eftir að menn af arabískum uppruna fygdu sérstökum reglum þegar þeir fóru í neðanjarðarlestirnar, þeir pössuðu sig að hafa enga tösku og vera að lesa dagblað og lögðu sig í glíma við að líta út fyrir að vera friðsamlegir og hættulausir. 

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las söguna af Shahawar Matin Siraj hefur verið sakfelldur af dómstól í Bandaríkjunum og dæmdur í í 30 ára fangelsi fyrir áform um hryðjuverk. Það er ítarleg frásögn hérna: Anatomy of a Foiled Plot

Þó ég hafi alveg skilning á því að yfirvöld reyni hvað sem þau geta til að koma upp um hryðjuverk þá finnst mér skrýtið  að yfirvöld  noti þá aðferð að búa til  hryðjuverkahópa og afvegaleiði við það grunnhyggna, auðginnta og vitskerta unga menn og tæli þá til voðaverka.

Yfirvöld höfðu fylgst með Siraj mánuðum saman í bókabúð sem hann vann í en ákváðu svo að fá uppljóstrarann Dawadi til starfa og hann nær vináttu Siraj og  þykist vera að leggja á ráðin um hryðjuverk. Siraj og Elshafay vinur hans eru upptendraðir í þessari nýju vináttu og hatri á USA. Það verður ekki séð að um sé að ræða harðsvíraða glæpona

Hér er frásögn af því þegar Dawadi er að vinna trúnað piltanna áður en hann vélar þá til hryðjuverkaáforma: 

"During the first six or seven months of the operation, Dawadi would hang around the bookstore, he’d occasionally drive Siraj home after work, and they would have long conversations about Islam. There was some radical talk, but nothing beyond banal, mostly boilerplate hostility. But the urgency of the rhetoric and the momentum for acting on it picked up dramatically when Siraj introduced Dawadi to his friend James Elshafay in April.

Only 19, Elshafay is the American-born product of an Irish-American mother and an Egyptian father, who split up when he was very young. Overweight, sloppy-looking, and on medication for anxiety, Elshafay has been treated for psychological problems. (A comic moment on police-surveillance video, taken the day the suspects conducted their reconnaissance of the subway, shows him standing in the rain after emerging from the station, eating a falafel with the filling oozing out the sides and onto his hands.)

Cops describe him as lost: not in school, not working, and in some state of turmoil about his identity. His only friend other than Siraj seemed to be his mother, who, cops say, coddled him and drove him everywhere."

 Það virðist hins vegar ekki hafa gengið allt of vel hjá uppljóstranum Dawadi að búa til glæpinn og plana hryðjuverkin með harðsvíruðum sjálfsmorðsaröbum. Siraj talaði meira en hann vildi framkvæma og vildi svo ekkert vera með í lokasenunni sb. þessa frásögn:

"In the midst of the session, Siraj, who had from the beginning been the most vocal about his desire to commit an act of terror and had tried to project the façade of a tough guy, seemed to get cold feet. Suddenly, he told his companions he didn’t want to handle the bombs. He would help with the planning, he would go with them to 34th Street, but he didn’t want to actually go down into the subway with the explosives. “I am not ready to die,” he said."

Siraj var handtekinn og dæmdur í þrjátíu ára fangelsi fyrir hryðjuverkaáform. 


mbl.is Dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir hryðjuverkaáform
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dvergakast og femínisk fyndni

"Þeir sem skrifa illmælgi um andstæðinga sína gera lítið úr sjálfum sér, þetta verður ekki til að sannfæra neinn um að orðræða þeirra sé yfirveguð og hófstillt, þvert á móti þá virkar svona orðræða eins og frumstæð tilraun til særinga og kukls - eins og fólk haldi að með því að gera lítið úr andstæðingnum, smætta hann og berja hann saman í dverg þá muni hann hverfa eða minnka niður í ekki neitt.

Það er mjög auðvelt að kljást við svona orðræðu og auðvelt að henda þetta á lofti og henda aftur í þann sem segir - alveg eins og búmerang hjá frumbyggjum Ástralíu. Það er hallærislegt að stunda dvergakast hvort sem það er í verkum eða orðum."

frettabladid-sida78-7jan07 Þessi skrif hér fyrir ofan er ekki pistill frá mér um Múrverjagrín um Margréti Frímanns en það er sjálfsagt að endurnýta svona meitlaða speki í hvert sinn sem einhver reynir dvergakast.

Ég skrifaði þetta árið 2005 sem innlegg í umræðu um skrif sem þá höfðu birst á  vefriti ungra jafnaðarmanna politik.is um Ísrael-Palístínumálið og þar var í byrjun þessi setning: "Í gær hitti líkamlegi dvergurinn Ariel Sharon andlega dverginn George W. Bush í arfaskógi þess síðarnefnda í Texas." Umræðan var á  bloggi eoe.is ,sjá hérna mögnuð skrif á pólitik.is 

Núna er mikil beiskja hjá Vinstri Grænum  út af ævisögu Margrétar Frímannsdóttur en hún mun ekki bera Steingrími J. Sigfússyni formanni Vinstri Grænna vel söguna.  Vonandi mun Steingrímur bráðlega svara gagnrýni Margrétar á málefnalegan hátt.  Kappsfullir Vinstri Grænir sem halda úti vefritinu Múrinn reyndu þá baráttuaðferð sem ég hef kallað dvergakast til að gera lítið úr orðræðu  Margrétar. Það hefur kastast heldur betur aftur  til baka til þeirra og loga nú blogg af hneykslan yfir athæfi þeirra. Þessi brandari þeirra er svohljóðandi: "Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig."

Kvenfyrirlitning og brandarar

Í framhaldi af þeim áhuga sem kviknað hefur í bloggheimi og fjölmiðlum um femíniska kímni þá vil ég skjóta hér inn  hugleiðingu og frásögn sem ég skrifaði árið 2005  á málefnavefinn og femínstavefinn um brandara og kvenfyrirlitningu:

"Ég vil tengja umræðuna almennt við hvernig brandarar á samkomum endurspegla oft þá kvenfyrirlitningu sem ríkir í samfélaginu. Brandarar eru góð leið til að dylja fordóma og þeir eru svona stutt og hnitmiðuð frásögn sem oft er notuð til að þjappa saman hópum og styrkja þá í einhverri sameiginlegri sýn á hvernig þeir sem eru utan hópsins eru og hvernig rétt sé að meðhöndla þá.

Ég held að húmor sé eitt af þeim tækjum sem notuð eru til að halda fólki utangarðs og lítillækka fólk. Þannig eru rasistabrandarar og þannig eru margir brandarar um konur. Ég var á þorrablóti um seinustu helgi upp í Hvalfirði og í rútunni á heimleiðinni þá gripu nokkrir karlar hljóðnemann til að syngja og segja brandara. Einn sagði nokkra mjög grófa og klámfengna brandara sem fengu mig til að kippast við. Svo sagði hann dáldið brjóstumkennanlega í hljóðnemann eftir að kona í rútunni hafði bent honum á að hann hefði farið yfir strikið: "Ég kann bara ekki öðruvísi brandara". Þetta var opinberun. Það sem þessum manni fannst fyndið og það sem hann gat haft eftir sem brandara var bara einhverjir hrákapakkar af kvenfyrirlitningu.

En einu sinni fyrir nokkrum árum var ég á árshátíð. Heiðursgesturinn sem er þekktur stjórnmálamaður flutti ræðu og sagði nokkra brandara. Þeir voru þess eðlis að við konurnar litum hver á aðra stjarfar og hugsuðum allar "Hvernig dirfist hann??? ", ég man þessa brandara ekki alla en t.d. var einn um nunnur sem þótti voða gaman að láta nauðga sér.

En svo hitti ég konu sem hafði verið á árshátíð annars fyrirtækis nokkru áður. Og þar var þessi sami ræðumaður með þessa sömu brandara og kannski svipaða ræðu. Og hún hafði nákvæmlega sömu sögu að segja. Hún var bálreið og hugsaði "Hvernig dirfist hann?" á meðan ræðumaðurinn lét móðan mása og ruddi út úr sér einhverjum sögum um kynferðisofbeldi og klám og kvenfyrirlitningu og kallaði það brandara.

En af hverju þegjum við yfir þessu og sitjum undir svona bröndurum?
Af hverju stöndum við ekki upp með látum?


Þess má geta að heiðursgesturinn sem um ræðir var Árni Matthíasson sem þá var sjávarútvegsráðherra en er nú  fjármálaráðherra og árshátíðin var árshátíð stjórnarráðsins. Þorrablótið sem ég tala um í þessum pistli var þorrablót Framsóknarfélagana í Reykjavík.

Nú hafa margir tjáð sig í mikilli hneykslan um smekklausan brandara Múrverja.  Ég hef fylgst með þeirri umræðu og ég fagna því að svo margir áhrifamiklir og ritfærir menn hafi áhuga á femíniskri fyndni og hvernig konur eru niðurlægðar í nafni gríns og jafnvel grínast með kynferðislegt ofbeldi.  Það er hógvær bón mín til þeirra sem hafa skrifað um femíniska fyndni undanfarið að þeir kynni sér  brandarann sem Árni Matthíasson sagði (skámynd af DV grein um þessa brandara er hérna)sem heiðursgestur á árshátíð og hugleiði hvaða heimssýn og viðhorf til nauðgana og kynferðislegs ofbeldis og kvenna kemur fram í slíkum bröndurum. Ég vil taka fram að ég er ekki að gera lítið úr Árna, hann mun örugglega ekki segja svona brandara í framtíðinni á opinberum samkomum  og ég geri fastlega ráð fyrir að Múrverjar hafi lært lexíu á þessu þó þeir hamist við að halda kúlinu.  

En hér er dæmi um orðræðu hina meðvituðu femínisku fyndnisbloggara. 

Berja hausnum við Múrinn Pétur Gunnarsson segir:

"Þetta  þótti mörgum fréttnæmt enda furðulegt að varaformaður flokks sem kennir sig við femínisma grínist með reynslu eins og þá sem Thelma Ásdísardóttir lýsti í bók sinni í tilraun sinni til að gera lítið úr þeim lýsingum á andlegu ofbeldi og kvenfyrirlitningu sem Margrét Frímannsdóttir lýsti að hún hefði búið við af hálfu Steingríms J. og fleiri kalla í þingflokki Alþýðubandalagsins."


BjörnIngi bloggar og bloggar um femíniska fyndni:

Molnar nú mjög undan Múrnum

Ummæli Katrínar og Múrverja standa enn

Ósmekklegheit ársins?

 Björn Ingi segir:

"En fjölmiðlar þegja annars. Halda menn virkilega að stjórnmálamenn á borð við Halldór Ásgrímsson, Davíð Odsson eða Björn Bjarnason hefðu getað látið hafa slíkt eftir sér án þess að fjölmiðlar hefðu gert úr því stórfréttir? Og kannski hefði verið efnt um umræðna í þinginu utan dagskrár?

En þegar um er að ræða varaformann VG, sem setur á prent ótrúlega smekklaus ummæli um merka stjórnmálakonu í landinu og tengir hennar málefni við þrautir landskunnar baráttukonu með þeim hætti að mann setur hljóðan, þá heyrist ekki neitt.

Í þessu tilfelli er þögnin svo sannarlega ærandi."

 

Össur hefur þetta að segja: 

 "Femíniski" flokkurinn og múr heiftarinnar


Björn Bjarnason dregur saman umræðuna og er sammála öllum nema Vinstri Grænum í þessum pistli:

Femínisk fyndni

Skrifglaðir yngri sjálfstæðismenn eins og Stefán Fr og Tómas tjá sig af krafti um femíniska fyndni. Þeim verður tíðrætt um það sem þeir kalla tæknilega iðrun og líkja yfirsjón Múrverja við yfirklór Árna Johnsen.

Tómas skrifar:
Tæknileg iðrun Múrsmanna

Stefán skrifar: 

Svandís ver ekki skrifin á Múrnum

Það sést sífellt betur að þessi skrif eru að verða mikið fótakefli og vandræðabarn fyrir VG. Hvernig getur femínisti sem á að taka alvarlega í stjórnmálaumræðu gert grín að lífsreynslusögu Thelmu, sem varð fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi í æsku sinni, og ekki beðið viðkomandi afsökunar á misheppnuðum brandaranum? Það er ekki furða að Svandís leggi ekki í að verja skrifin, enda eru þau óverjandi. 

Gremja vinstri grænna í garð Möggu Frímanns

Þessi femíniski húmor þeirra á Múrnum meikar engan sens og flestir sitja eftir hristandi hausinn yfir þeim á Múrnum sem berja hausnum við sjálfan múrinn. Afsökunarbeiðni þeirra á Múrnum er í undarlegri taginu að mínu mati, sem og fleiri, þar er sagt að hér hafi verið "djókað" með Jón Baldvin og ummæli hans um heimilisofbeldið sem Margrét þurfti að þola innan Alþýðubandalagsins frá flokkseigendafélaginu. Ekki botnar maður í því.

Finnst þeim á Múrnum virkilega fyndið að bera pólitísk söguskrif Margrétar saman við skelfilega lífsreynslu Thelmu Ásdísardóttur? Þessi afsökunarbeiðni virkar frekar hol og innantóm eins og galtóm tunna. Það liggur við að maður líti á þetta sem jafn innantóma iðrun og Árni Johnsen sýndi um daginn sjálfstæðismönnum sem veittu honum annan séns. Er þetta kannski tæknileg iðrun á Múrnum?

 

Stefán Friðrík ber skrif Múrverja saman við orðræðu Árna í 2. sæti í Suðurkjördæmi um tæknileg mistök og talar um tæknilega iðrun. Virðist á þessu sem Stefán leggi þetta að jöfðu. Hvað ætli Stefán Fr. þyki um brandara eins og Árni í 1. sæti sagði um árið?

Það er áhugavert að sjá þá  hneykslun StebbaFr  málverja og Tómasar  á óhæfu Múrverja og hugleiða hversu hneykslaðir þeir hljóta þá að vera yfir þeim bröndurum sem  forustumenn  Sjálfstæðisflokksins segja á tyllidögum sem heiðursgestir á árshátíðum.  Ég bíð spennt eftir skrifum þeirra um það.

Þetta var ósmekklegur brandari á Múrnum en árásirnar á Múrverja og alla Vinstri græna eru harðari en efni standa til og það eru ómaklegar árásir á Katrínu Jakobsdóttur út af þessu. Múrinn er ekki opinbert málgagn Vinstri Grænna, ekki frekar en Deiglan er málgagn Sjálfstæðisflokksins. Múrinn er reyndar þrælfínt vefrit og þar hafa birst góðar greinar og beittar greinar um ýmis samfélagsmál. Ef til vill er árásir á Katrínu Jakobs partur af  einhvers konar ómeðvitaðri  tilhneigingu til að tala niður konur. Ég var rétt áðan að skoða bloggin til að þræða umræðuna um þetta og skoðaði bloggið hjá Stefáni Fr. sem ég hef alltaf tekið sem dæmi um málverja og bloggara sem skrifar um stjórnmál á kurteislegan hátt, laus við rætni. Ég hef nú einmitt hælt Stefáni Friðrik fyrir þetta. Nú þegar ég var að blaða í gegnum bloggin hans þá sýnist mér hann leggja sig í glíma við að tala niður konur. Dæmi umyrirsagnir á bloggum hjá honum eru svona:

  • Blæs ekki byrlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur
  • Er að molna undan Ingibjörgu Sólrúnu? 
Það er reyndar mjög fínt að umræðan núna snúist svona mikið um konur í stjórnmálum og hversu mikið er reynt að kæfa rödd kvenna og gera lítið úr og hæðast að orðræðu þeirra. 

Tónlist límt inn í blogg

Ég er að prófa SongSpots frá   Sonific.com en það er eitt af mörgum svæðum þar sem maður getur látið spila tónlist á bloggum og Myspace. Mér tekst ekki að nota lagafídusinn í moggablogginu og get ekki hlaðið inn neinum hljóðskrám þar. Best að hlusta á latneska tónlist til að æfa mig í spænsku. Ég virðist ekki geta spilað nema eitt lag í einu. Það er nú ekki sérstaklega spennandi.

Hérna prófa ég að setja inn óperutónlist



Prófa einu sinni enn... núna keltneskt lag um álfakonung.


og stúlkuna á ströndinni 

Sniðug lög frá Smithsonianglobalsounds


Hatursblogg - útlendingahatur

Ég var að leita á minnsirkus.is áðan og þar fann ég þetta blogg, löðrandi af útlendingahatri.

 Hér er dæmi um orðræðuna í þessu bloggi:

" djö helv pólverjar hata þessa djö útlendinga skratta. það á að henda þeim öllum í hrísey og brenna hana..... og kýldur af pólverja djöfli sem kunni sko að hlaupa hehe shit hvað hann var hræddur........ djö útlendindingar hatið þið þá ekki þeir koma hérna og ræna og rupla og nauðga litlum stelpum þessir djöflar. kill them al"

Þetta yfirgengilega ruddalegt og lögbrot samkvæmt íslenskum lögum, það eru lög um að ekki má níða fólk vegna þjóðernis, trúar eða kynhneigðar. Ég vona að bloggþjónustur landsins taki sig saman um einhvers konar siðareglur.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband