Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Moral Combat


Hér er trailerinn fyrir nýja  heimildarmynd  Moral Kombat (Moral  Kombat trailer á Google Videos) eftir Spencer Halpin en hún fjallar um ofbeldi í vídeóleikjum og áhrif þess á börn og unglinga. Vonandi er þetta vísbending um að vakning sé núna um hve gegnsósa samfélag okkar er af ofbeldi og ofbeldisdýrkun. Í menningarheimi okkar er gróft ofbeldi dýrkað í máli og myndum í margs konar miðlum s.s. sjónvarpi, netmiðlum og tölvuleikjum. 

Ég tek það sem persónulega árás ef Netinu er kennt  um allt sem aflaga fer í í íslensku samfélagi. Þess vegna varð ég grautfúl í morgun þegar við mér blasti á sjálfri forsíðu blaðs allra landsmanna stór fyrirsögn "Netið ýtir undir hömluleysi og gróft ofbeldi". Í greininni stendur:

„Ofbeldisvæðingin sem kemur í gegnum Netið er orðin augljós og á sér svipaðar rætur og klámvæðingin. Það má t.d. benda á að það er ekki í sjónvarpi sem aftaka Saddams Husseins er sýnd heldur á Netinu. Alls staðar á Netinu er vísað á myndskeið með mjög grófu ofbeldi og ég held að þetta ýti undir ákveðið hömluleysi," segir hann.

Skýringar á ofbeldishegðun af þeim toga sem átti sér stað í Garðastræti helgast af ólíkum þáttum að mati sérfræðinga og er um að ræða samspil firringar, fíkniefnaneyslu og þess sem nefnt er ofbeldisfíkn.

Ég vil benda á að það er afar mikil alhæfing að gera Netið að blóraböggli, það er eins og að segja að Borgarbókasafnið ýti undir ofbeldi og morð af því að þar geta vaxið upp glæponar framtíðarinnar sem  lesa sakamálasögur eins og uppskriftir á hvernig þeir geta sjálfir framið morð.

Það er eitthvað að samfélagi okkar, þessi skefjalausa ofbeldisdýrkun sem birtist í ýmsum myndum svo sem sakamálasögum, fréttum, vídeóleikjum, netleikjum og netefni.  Ég hef oft bent á það hve algengt er að umfjöllunarefnið sé ofbeldi á konum.  Núna í nótt tók ég eftir að á báðum þeim sjónvarpsrásum sem ég horfði á (rúv og að mig minnir sircus) var gróft ofbeldisefni og keflaðar konur  miðjan í frásögninni, annars vegar var það sænsk mynd, konan var með sprengju bundna um hálsinn og hins vegar var það japönsk mynd (house of horror) þar sem konur voru seldar kaupum og sölum og unnu í vændi og ein var afskræmd  og önnur pyntuð í myndinni og pyndingarsenurnar voru myndaðar eins og ástarsenur og sýnt nákvæmlega hvernig það var verið að pynda vændiskonuna ef eigenda sínum þannig að ekkert sæist á henni, hún þurfti jú að halda áfram blíðusölunni. Það voru sýndar nærmyndir af  pyndingum  þar sem hún var brennd með logandi teinum og það voru sýndar pyndingar þar sem nálum var stungið í fingur hennar og alltaf reglulega sýndar andlitsmyndir af kvöl þeirrar sem var pynduð og sælu þess sem pyndaði hana.  Ég veit ekki af hverju ég er að lýsa þessu hérna, það virðist enginn taka eftir því að stór hluti af okkar afþreygingarefni eru svona formúlubókmenntir í pyndingum.


mbl.is „Netið ýtir undir hömluleysi og gróft ofbeldi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fengitíð hjá Steingrími

Margir femínistar eru æfir út af orðræðu Steingríms J. Sigfússonar í Kryddsíldarþættinum á Stöð 2 á gamlársdag. Hér er tveggja mínútu vídeóskrípó, það er  upptaka úr þættinum með þremur skrípamyndum sem ég gerði.


Steingrímur var kokhraustur að vanda og vildi að stjórnmálamenn töluðu skýrt um hvað þeir vildu eftir kosningar en svo þegar gengið var á hann og hann beðinn að tala skýrt  sjálfur um hver ætti að leiða hjörðina eftir kosningar  þá jarmaði hann bara og sneri talinu upp í fengitíð hjá sauðfé. Sagði líka að sá flokkur sem ynni stóra kosningasigra ætti visst tilkall.... þetta var nú bara dáldið broslegt að heyra hann fagna kosningasigri nokkrum mánuðum fyrir kosningar og útnefna sjálfa sig til forsætisráðherraefni út af framtíðarsigri sínum svona í beinni. 

Ég hefði nú brosað meira ef ég hefði ekki pirrast svona mikið af því að sjá þarna Ingibjörgu Sólrúnu málefnalega og kurteisa að vanda milli Steingríms formanns hjá Vinstri Grænum og Guðjóns formanns Frjálslynda og þeir sýndu henni báðir lítilsvirðingu og svo er nú þannig að þó þeir standi fyrir andstæða póla í íslenskum stjórnmálum þá eiga þeir báðir það sameiginlegt að hafa yfirgefið flokka af því þeir töpuðu baráttum þar sem konur komust þeim ofan. Guðjón gekk á sínum tíma úr Sjálfstæðisflokkum á Vestfjörðum og fór í sérframboð af því að konur þar gerðu kröfu um kona væri ofar honum á lista.

Ef það er satt sem stendur í ævisögu Margrétar Frímannsdóttur þá er Steingrímur í sauðagæru í sínum femíniska flokki. Það hefði nú verið skemmtilegra að horfa á Margréti Sverrisdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur ráðslaga þarna með Ingibjörgu Sólrúnu. Jón Sigurðsson og Geir Haarde voru kurteisir og málefnalegir. 

Það væri nú ágætt að heyra Steingrím tjá sig um hvernig Margrét Frímannsdóttir lýsir samskiptum þeirra. En á meðan hann hefur ekki rekið af sér það orð sem af honum fer í þeirri bók og gasprar svona eins og í Kryddsíldinni þá er það ekkert sérstaklega sannfærandi þessi femíníska áhersla hjá Vinstri Grænum.

Hér má  horfa á Kryddsíldarþættina: 

 Kryddsíldin fyrri hluti

Kryddsíldin seinni hluti 

Bryndís Ísfold, Björn Ingi og Nýkratar lýstu líka yfir vandlætingu sinni á Steingrím:

Hinn feminíski VG

Ósmekklegheit ársins?

Þarf Steingrímur aldrei að svara?

Smekkleysi 

 p.s. setti smábrot úr upptökunni hér inn sem videóklipp vegna þess að það virkar ekkert hjá mér að setja inn hljóðskrár. Setti þrjár myndir með til að skreyta. Vann það í Inkscape. Ég er að gera tilraunir með það forrit.


Koddaenglar og foreldrar þeirra

Ég var að skoða vefsíðu sem foreldrar  9 ára fatlaðrar stúlku settu upp. Slóðin er http://ashleytreatment.spaces.live.com/ 

Þar er lýst meðferð og aðgerðum sem stúlkan fór í sem miða að því að  stöðva vöxt og kynþroska. Hún er talin hafa þroska á við 3 mánaða barn. Foreldrarnir virðast  hafi skoðað mjög vandlega hvernig þau gætu búið dóttur sinni sem best lífsskilyrði og unnið  í samráði við lækna og gætt þess að fara að lögum og fá úrskurði frá siðanefndum spítala.  Á vefsíðu foreldranna er fjallað um hinar ýmsu röksemdir með og á móti. Það virðist hafa verið tekin ákvörðun með það í huga að lífsgæði  fötluðu stúlkunnar yrðu eins góð og kostur væri í hennar aðstæðum.  Eins og foreldrarnir benda á þá var sams konar hormónameðferð notuð til að stöðva eða hægja á vexti stúlkubarna  og það þá út af hugrænum ástæðum þ.e. að ekki þótti gott að konur yrðu of hávaxnar.  Slíkri meðferð var (og er hugsanlega ennþá?) beitt á Íslandi. 

Það má reyndar finna mörg ófögur dæmi í mannkynssögunni um að gripið sé fram í náttúrunni til að hefta og stöðva þroska og vöxt. Strákar með fagrar englaraddir hafa verið geldir til að þeir fari ekki í mútur og afreksstelpur í fimleikum hafa fengið einhver lyf til að  draga úr vexti og kynþroska. Enn óhugnanlegri eru dæmi sem gerast í nútímanum þar sem börn eru örkumluð eða fötlun þeirra viðhaldið og gerð verri og vöxtur þeirra stöðvaður vegna þess að einhverjir byggja afkomu sína á því að börnin séu til sýnis og betli á almannafæri og veki meðaumkun. 

Ég hugsa að hormónameðferð til að draga úr vexti sé ekki það sem veldur því að við hrökkvum við heldur sú aðgerð að fjarlægja leg og brjóstakirtla stúlkunnar. En af hverju finnst okkur eitthvað að því þegar allt bendir til þess að lífsgæði hennar batni við það?  Ef til vill endurspeglar þetta þá fordóma og það siðfræðilega mat sem við göngum út frá en gerum okkur ekki grein fyrir nema í tilviki eins og þessu. Við gerum ráð fyrir að hin náttúrulega þróun sé hið rétta og það eigi ekki að grípa fram í fyrir náttúrunni. Foreldrarnir svara þessu svo:

The objection that this treatment interferes with nature is one of the most ridiculous objections of all; medicine is all about interfering with nature. Why not let cancer spread and nature takes its course. Why give antibiotics for infections? Even an act as basic as cutting hair or trimming nails is interfering with nature

Af hverju er þessi meðferð eitthvað öðru vísi en t.d. kuðungsígræðsla í heyrnarlaus börn og að stöðva risavöxt hjá börnum og gefa dvergvöxnum börnum vaxtahormón til að auka vöxt þeirra? Ef til vill afhjúpar mál þessarar fötluðu stúlku hvernig við hugsum alltaf um normið sem hið eina rétta og fordæmum inngrip í náttúrulega þróun ef það víkur út af því venjulega.  Venjuleg stærð og venjuleg kynþroskaþróun passar ef til vill ágætlega fyrir fólk sem er sjálfbjarga, getur gengið, stofnað fjölskyldur og eignast börn. En ef fyrirsjáanlegt er að líf þitt verði þannig að þú munir alltaf vera ósjálfbjarga og borinn um af öðru fólki er þá eitthvað að því að búa þig þá sem best undir þannig líf? 


mbl.is Hefta líkamlegan þroska fatlaðrar dóttur sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkibloggsaga Íslands

Þegar árið kvaddi og kryddsíldin súrnaði og skaupið helltist yfir okkur eins og skrípóbjórauglýsing á Sirkus þá lýstu margir  af Íslands bestu sonum frati á Netið og púuðu á  bloggskrílinn. Guðmundur trúarleiðtogi í Byrginu sagði að Netið sé Dýrið og Bubbi  6.6.6. sem er  ekki eins læs á teiknstafi sagði af sinni alkunnu hógværð og kurteisi  að bloggarar væru mestmegnis illa skrifandi, sjálfumglatt hyski. 

Það var nú ekki eins og mælirinn væri fullur heldur bættist nú í hópinn Egill sem stráð hefur silfri yfir landsmenn árum saman og útnefndi sjálfa sig hróðugur ekki bloggara og setti fram  söguskýringu  sem er  hetjusaga af því hvernig hann fattaði þetta með Internetið fyrstur manna löngu áður en bloggið var fundið upp og hvað hann sé sammála öðrum gáfumönnum íslenskum um að  blogg sé hljóm eitt og þar sé lítið af semningi slegið. 

Ekki-bloggarinn Egill bloggar þessi frómu orð:

"Sögu mína á internetinu má rekja til 1. febrúar árið 2000, sem er sirka fimm árum áður en bloggið var fundið upp. Þar af leiðandi get ég ekki verið bloggari. Ég hef skrifað á netið í næstum sjö ár. Ég er líka að sumu leyti sammála Jónasi Kristjánssyni um að að bloggið sé ekki sérlega merkilegt - alvöru dagblöð eru miklu merkilegri."

Svona ósvífni olli náttúrlega tryllingi í bloggheimum og stungu bloggarar niður beittum stílvopnum í mörgum bloggum og ætla menn ekki að leyfa Agli að breyta bloggsögunni baráttulaust. Ég er með þessu bloggi að bæta í skotin á Egil, það veitir ekki af  að skjóta á hann úr öllum áttum.

Nokkur skot á Egil og moggablogg: 

Forsögulegur bloggari 

Leiðin að falli moggabloggsins

Egill og bloggið

Sannleikurinn er nefnilega sá að það var blómlegt bloggsamfélag á Íslandi strax árið 2000 og margir notuðu þá þegar bloggkerfið blogger.com. Það voru kannski ekki svo margir bloggarar, sennilega einn eða tveir tugir og það varð svo  til samfélag Nagportal þar sem bloggarar fylgdust með skrifum hver hjá öðrum.  Síðar tók rss molar og fleiri kerfi við.

Fyrsti íslenski bloggarinn (þ.e. miðað við þá skilgreiningu að nota sérstakt bloggkerfi Blogger ) er sennilega Björgvin Ingi. Hann segir svo frá (athugasemdir hjá Stefáni): "Ég byrjaði á þessu í jólaprófunum 1999 (http://www.blogtree.com/blogtree.php?blogid=5238) og notaði þá notepad og vistaði þetta á háskólasíðunni minni. Skömmu síðar byrjaði ég að nota blogger.com sem byrjaði þá um haustið. Af miklum hégóma spurði ég Evan hjá Pyra, stofnanda Blogger, meira að segja út í það hvort ég væri ekki örugglega sá fyrsti á Íslandi sem byrjaði að nota kerfið. Hann játti því og mér leið rosa vel að vera frumnörd."

Hugsanlega er Björn Bjarnason fyrsti íslenski bloggarinn ef við miðum við þá skilgreiningu að blogg sé regluleg opin dagbókarskrif á Netinu. Ég man reyndar eftir að fyrir mörgum árum var ég ásamt Stefáni í Kastljósi í fyrstu umfjöllun íslensks sjónvarps um blogg og þá hélt ég því fram að Björn teldist bloggari. Það þótti nú reyndar ennþá óvirðulegra þá en nú að vera bloggari.

Ég skrifaði fyrsta bloggið á blogger 8. desember árið 2000. Ég hafði þá tekið eftir að nokkrir verkfræðinemar notuðu sniðugt kerfi blogger til að uppfæra heimasíðurnar sínar og ég skráði mig sem notanda þar og prófaði. Svona er fyrsta bloggið mitt:
"Nu hefst jólaannáll 2000. Hérna nota ég kerfi sem heitir blogger.com til að setja inn svona slitrur úr því sem helst er að gerast og varðar íslenskt jólahald og þennan jólavef. 8. des. breytt
skrifar Salvor Gissurardottir 12/8/2000 07:01:58 AM "

Ég ætlaði fyrst að nota bloggið fyrir ákveðið efni þ.e. jólavef en svo sá ég að það virkaði betur fyrir tjáningu sem snerist um einstaklinga og samræðu við sjálfið - að hugsa meðan maður talar við sjálfan sig. Ég stofnaði svo nýtt blogg og byrjaði svo regluleg bloggskrif 1. apríl 2001 og kallaði bloggið fyrst Meinhorn því ég ætlaði bara að þusa og skammast út í allt og alla en uppgötvaði að það var ekkert gefandi og svo endurskírði ég bloggið og kallaði  Metamorphoses eftir 11. september 2001. 

Reyndar komu Íslendingar dáldið inn í bloggsögu heimsins að mig minnir árið 2002 eða 2003 en þá var íslenska að mig minnir tíunda algengasta málið á blogger en eins og allir ekki bloggarar vita þá er Íslenska ekki í hópi tíu algengustu tungumála í heiminum. Þetta vakti furðu á mörgum erlendum vefjum sem sérstaklega fylgdust með framþróun upplýsingasamfélagsins. Þar sem ég er alveg jafn hógvær og ekki bloggarinn þá vil ég eigna mér skerf af því. Ég hafði trú á bloggi sem námstæki og lét nemendur mína prófa að stofna blogg á blogger. Einu sinni í janúar  áður en kastljós netheimsins beindist að blogger þá tók ég eftir að bara nemendur mínir höfðu stofnað 10% af öllum blogspot bloggum sem voru stofnuð   þann mánuð. Ég held að það hafi átt sinn þátt í hversu sýnilegt Ísland var í bloggheimum. 

Ég finn nú ekki mikið um þetta í gúgli núna, Netið er hverfult en þessi statistic var á vegum Jupiter Research og ég fann í Google þennan kafla í fræðiskýrslu frá University of California  How Much Information? 2003: "

"C. Who is blogging?

According to Jupiter Research, about 2 percent of Internet users have created a blog. The majority of bloggers use dial-up access to get online, and more than half have a household income below $60,000 per year. Jupiter also found that blogging is split evenly between the genders and that 70 percent of the bloggers have used the Internet for more than 5 years. (Source: Blogging by the Numbers)

More than 50 percent (350,000) of the 655,000 web logs crawled in National Institute for Technology and Liberal Education (NTILE) web log census are written in English. The rest of the top 10 languages for blogs are (in order): Portuguese, Polish, Farsi, French, Spanish, German, Italian, Dutch and Icelandic. "

Það er náttúrulega gaman að bera þessa skýrslu frá University of California  saman við tímatal Egils, íslenskan virðist eftir þessu hafa verið eitt af algengustu bloggtungumálum heimsins tveim árum áður en Egill segir að bloggið hafi verið fundið upp Grin

Mogginn þar sem nú hafa hreiðrað um sig  helstu samfélagsbloggarar Íslands (vandlega orðað svona til að hella olíu á eld kaninkuklansins) tók eftir bloggurum  og birti heila opnu með viðtölum við nokkra bloggara  22. júní 2001  sem er fjórum árum áður en Egill segir að bloggið hafi verið fundið upp. Ég var náttúrulega og er einn af eðalbloggurum þessa lands og þess vegna útvalin í  í viðtalið : Þarf að vaða blint í sjóinn.

Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að ég valdi ekki titilinn enda eru öll mín blogg útpældur fróðleikur en ekki neinn buslugangur og froðusnakk. W00t


Sjónarhorn hverra? Eru myndsímar og vídeóklipp sterk áróðurstæki?

Mogginn flytur okkur hugleiðingu um hvernig myndsíminn hafi öðlast sess í Írak sem áróðurstæki, frelsis- og sjálfstæðistákn og tekur sérstaklega sem dæmi farsímaupptökuna af aftöku Saddams og myndirnar frá Abu Ghraib fangelsinu.  Það er satt að þessar myndir eru sterkar táknmyndir og hafa áhrif á fólk en það sem einkennir þær til viðbótar er sjónarhornið.

Orustan um Fredriksburg 1862Það hafa í öllum stríðum í mörg þúsund ár verið dregnar upp áróðursmyndir af þeim herskáu og þeim sem standa að stríðsrekstrinum og við erum svo samdauna þessum áróðursmyndum að við köllum þær iðulega sagnfræði og notum þær til að skreyta sagnfræðirit.  Þær áróðursmyndir og táknmyndir sem stríðsrekstraraðilar framleiða og passa mjög rækilega að við fáum að sjá þær eru kallaðar fréttir. 

Sterkasta táknmynd stríðsins í Vietnam er ljósmynd frá 1972 af  börnum sem hafa orðið fyrir Napal sprengjum og hlaupa um skelfingu lostin og kvalin. Myndirnar frá Abu Ghraig af bandarískum hermönnum að skemmta sér við að pynda og smána fanga hefur á sama hátt náð að brenna sig inn inn í vitund heimsins.

Ég skrifaði á sínum tíma inn á flickr umræðu um Abu Ghraig myndirnar:

I am just thinking... what makes these pictures so offensive...it is not the nudity... it is not the violence... we see more violence everyday on the TV screen... I guess it because this is a self portait... these are real pictures taking by cheerful soldiers... these are pictures taken by those in power showing how they use the power in a sadistic way on the opressed... like often is the case in pornography.

nickut-1972 I started discussion about this in our Icelandic forum several days ago  comparing Abu Graph pictures with the 1972 Vietnam picture by Nick Ut of nine year old girl and siblings running naked in the street... perhaps the power in that picture was the same as in the Abu Graph... It is the power of pain..



I like to quote Katharine Viner who wrote
The sexual sadism of our culture, in peace and in war, May 22 2004
www.guardian.co.uk/comment/story/0,3604,1222354,00.html

She says:
"It is hard not to see links between the culturally unacceptable behaviour of the soldiers in Abu Ghraib and the culturally accepted actions of what happens in porn. Of course there is a gulf between them, and it is insulting to suggest that all porn actors are in the same situation as Iraqis, confined and brutalised in terrifying conditions. And yet, the images in both are the same. The pornographic culture has clearly influenced the soldiers; at the very least, in their exhibitionism, their enthusiasm to photograph their handiwork. And the victims in both don't have feelings: to the abusers, they didn't in Abu Ghraib; to the punter they don't in pornography. Both point to just how degraded sex has become in western culture. Porn hasn't even pretended to show loving sex for decades; in films and TV most sex is violent, joyless. The Abu Ghraib torturers are merely acting out their culture: the sexual humiliation of the weak."

That is what it is all about. Sexual humiliation of the weak.
That is what prostitution is about.

Það er sjónarhornið - þessi sjálfsmynd óbreyttra bandarískra hermanna sem veldur sjokkinu og sýnir okkur í einni mynd hvernig þetta fangelsi virkar. Hermennirnir eru ótýndur ribbaldalýður sem svívirðir, pyndar og hlakkar yfir þjáðum föngum.

Sem betur fer hafa engar aftökur eða stríðsátök verið á Íslandi undanfarna undanfarna áratugi  en það er áhugavert að skoða hvernig frásögnin er af náttúruhamförum, mengunarslysum og annarri vá og hvort alþýðleg fréttamennska (citizen journalism) hefur skipt einhverju máli.  Það varð mengunarslys í hverfinu mínu Laugarnesinu þann 22. nóvember 2004 og  þá tók ég 3 mín. stuttmynd af bruna í Sundahöfn. Þetta var stór mengunarslys og ég setti myndirnar  strax á Netið. Það voru fyrstu myndirnar sem birtust af þessu og man ég að mbl.is tengdi í síðuna mína. Þetta sýndi mér að frásögn sjónarvotta skrásett í myndskeiðum er öflugt fréttatæki og getur verið miklu hraðvirkara en hefðbundnir miðlar. Fyrstu fréttaskotin frá RÚV komu mörgum klukkustundum seinna, mig minnir að það hafi verið aukafréttatími um morguninn eða í hádeginu.

Ég man eftir hvað ég var agndofa þegar ég fylgdist með fyrstu fréttunum frá RÚV og það rann upp fyrir mér hvað sjónarhornið og frásögnin þar var frábrugðin því sem ég hafði séð og sem ég hafði tekið upp og sögunni sem ég sagði sem sjónarvottur að þessum atburðum,  ég sem hafði þó líka verið á staðnum og fylgst með og hafði  líka tekið upp á vídeó. RÚV krúið hafði náttúrulega það fram yfir mig að þeim var hleypt miklu nær eldinum og voru þarna í velþóknun þeirra sem stýrðu björgunarstarfi (ég stalst inn á svæðið í þann mund er lögreglan girti allt af og lokaði fyrir umferð) þeir höfðu miklu flottari græjur en þeirra saga var hetjusaga. Hún var saga um það hvernig ráðandi stjórnvöld í gervi lögreglu og slökkviliðsmanna  höfðu allt undir kontrol og réðu við aðstæður. Rúv sagði í máli og myndum frá hetjunum slökkviliðsmönnum og senurnar hjá þeim voru af slökkviliðsmönnum með slöngur eins og vopn  svona eins og stríðsmenn í orrustu við óvininn eldinn.

Þetta var ekki það sem ég sá eins og áhorfandi. Hér er vídeóið mitt, það má reyndar heyra á einum tíma að einhver (ég?) segir: "þeir ráða ekki neit við þetta". Ástandið varð alvarlegt, um miðja nótt keyrðu rútur um hverfið og fluttu íbúana á brott. Ég held ekki að sagan sem RÚV sagði  af brunanum í Sundahöfn hafi verið neitt sannari en mín. Við svona aðstæður þ.e. mengunarslys, stríð og náttúruhamfarir þá mun allur fréttaflutningur frá valdhöfum miða að því að róa fólk og passa að engin ringulreið skapist og sannfæra fólk um að stjórnvöld séu að passa það og hafi stjórn á atburðarásinni.

Því miður hafa miðstýrð stjórnvöld oft virkað illa við svona aðstæður sb. þegar flóðbylgjan skall á Tailandi og þegar flóðin urðu í New Orleans. Veðurstofan í Tailandi vissi alveg um hættuna á flóðbylgju en það var meðvituð pólitísk ákvörðun að senda ekki út aðvörun vegna þess að það gæti skaðað ferðamannaiðnaðinn við strandsvæðin. Flóðin í New Orleans birtu okkur í myndum sterka  og ófagra táknmynd af innviðum Bandaríkja nútímans, bæði þessari rosalegu ringulreið og glundroða og upplausn  og óhæfi stjórnvalda til að takast á við svona hamfarir og sýndi okkur samfélag sem einkennist of lagskiptingu  og stéttaskiptingu þar sem hinir fátæku eru hafðir útundan og afskiptir.

Ég held að það hefði verið allt annar fréttaflutningur frá New Orleans ef það hefðu bara verið stjórnvöld sem sömdu fréttirnar og stýrðu því hvernig þær birtust. Ég hugsa að allar fréttir sem við hefðum fengið frá flóðasvæðunum hefðu verið björgunar- og afrekssögur þar sem stjórnvöld og fulltrúar þeirra (lögreglumenn og björgunaraðilar á vegum hins opinbera) láta einskís ófreista við  að koma þegnum sínum til hjálpar.

Frásögn mín af brunanum í Sundahöfn (vídeó og texti): 

 

Eldur og svartur reykur
Sundahöfn

3 mínútna stuttmynd - 3 mb.

22. nóvember 2004

Systir mín hringdi í okkur rétt um tíuleytið að kvöldi 22 nóv. Hún var þá að keyra og sá að eitthvað var á seyði inn í Sundahöfn, mikill eldur og slökkvilið og lögregla á leið á vettvang. Ég fletti strax upp á mbl.is og sá að það var eldur í hjólbörðum hjá endurvinnslufyrirtækinu Hringrás. Við keyrðum inn að Sundahöfn og sáum að svartur mökkur lagðist yfir Reykjavík. Á þessari vefsíðu er upptaka sem ég tók ef brunanum á litla stafræna myndbandsvél.

Tíminn hefur verið rúmlega kl. 10. Ég klippti svo upptökuna til í MovieMaker og setti þetta svo á vefinn rétt eftir kl. eitt eftir miðnætti. Þetta er dæmi um fjölmiðlun sem nú færist í vöxt - fólk sem er á vettvangi tekur upp atburði í máli og myndum og miðlar því beint. Núna er ég að skoða umfjöllun fjölmiðla og sé að það eru ekki komnar neinar vídeóupptökur af atburðinum - mitt videóklipp er eina upptakan sem hægt er að skoða nú á vefnum.

Frétt á Rúv:

"Eldur í Hringrás í Klettagörðum 22. nóvember 2004
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var sent að Hringrás í Klettagörðum 9 í Reykjavík skömmu fyrir klukkan 10 í kvöld. Húsið er alelda og allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent á staðinn.

Mikill reykur liggur yfir svæðinu í kring en talið er að fjöldi gúmmídekkja sé innandyra.

Neyðarlínan beinir því til íbúa á höfuðborgarsvæðinu að loka gluggum því mikinn reyk leggur frá svæðinu, einkum yfir Kleppsveg og Laugarneshverfi.

Björgunarsveitir voru kallaðar út upp úr klukkan 11. Fólk í blokkum við Kleppsveg hefur verið flutt úr íbúðum sínum í stætisvagna og þaðan í Langholtsskóla þar sem Rauði krossinn hefur sett upp hjálparstöð.

Um miðnætti virtist sem slökkviliðinu hefði tekist að ná tökum á eldinum."

Seinna keyrðu strætisvagnar um hverfið okkar (Laugarneshverfið) og buðu fólki að rýma hús sín.

Ég stóðst svo ekki mátið að vinna svolítið með stuttmyndina - og setja einhverja tónlist undir - ég er að sýna hvernig hægt er að gera stuttmyndir. Ég valdi brot úr laginu Revolution með Scooter og vona að ég sé ekki að brjóta höfundarréttarlög með því, tilgangurinn er bara listrænn, ég var að prófa að setja tónlist undir mjög dramatísk atriði.

Salvör Gissurardóttir

Lexían í þessu bloggi er sem sagt  að það er líklegra að það sé sjónarmið stjórnvalda sem birtist okkur í áróðurstáknmyndum og þær eru kallaðar sögulegt efni ef þær eru gamlar en fréttir ef þær eru nýjar.  Ný verkfæri eins og myndsímar, vídeóvélar, stafrænar myndavélar og Netið gera kleift að lýsa atburðum út frá öðrum og fleiri sjónarhornum og hugsanlega bregðast við þeim á réttari eða hagkvæmari hátt.  En fólk treystir tölum og fólk treystir myndum úr myndsímum miklu betur en frásögn sjónarvotta í orðum. Samt er mjög auðvelt að stilla upp myndum og það er mjög auðvelt að setja eitthvað tal inn á digital upptöku. Guðmundur í Byrginu segir að myndsímaupptakan sem sýnd var í Kompási hafi verið skeytt saman og sé fölsun.  Það getur vel verið og hann á að njóta vafans þangað til annað kemur fram fyrir dómstólum. Það má samt ímynda sér að miklu, miklu fleiri hafi hag af því að falsa talið við aftöku Saddams heldur en falsa  orðræðu  trúarleiðtoga í litlum söfnuði á Íslandi. 


mbl.is Myndsíminn sterkasta frelsistáknið og beittasta áróðurstækið í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lesið úr tölum - Lýst eftir 100 milljón konum

Ég var að skoða frétt á mbl.is um að fóstureyðingalyf hefði verið bannað í einu héraði í Kína til þess að rétta við kynjahlutfallið.  Inntak greinarinnar og það sjónarhorn sem hún sýnir er súmmað upp í þessari setningu: "Samkvæmt rannsókn sem franska lýðfræðirannsóknarstofnunin hefur gert munu 25 milljónir kínverskra karla verða einhleypir og án vonar um að eignast konu árið 2015 ef fer fram sem horfir."

Það er skrýtið hvað fólk getur lesið út úr statistík. Það er aðalatriði í þessari frétt hvaða spá hún felur í sér um konuvöntun í framtíðinni og þolendurnir eru samkvæmt fréttinni einhleypir karlmenn. Þessi frétt breiðir yfir grimmd og morð þar sem fóstur eru deydd í móðurkviði og meybörnum slátrað. Það er ekki gert einu sinni og ekki tvisvar. Það bendir allt til þess að það sé gert mörg hundruð milljón sinnum.  Ég skrifaði 12. maí 2006 eftirfarandi  pistil Það vantar 100 milljón konur :

 uno-svenson1
Fyrir nokkrum árum fór ég á sýningu á verkum listamannsins Uno Svenson (Svíi númer eitt) í menningarmiðstöðinni í heimabæ hans Ronneby. Þar hreifst ég mest af málverkum hans af fóstrum - málverkum af mistökum í fósturframleiðslu og úrgangi í framleiðsluferli sem framleiðir menn, málverkum af fóstrum og barnslíkum sem kastað er í ruslið. Á sama tíma og ég horfði á verk Unos þá heyrði ég í lúðrasveit eða hljómsveit, svo þusti inn í sýningarsalinn stelpnahópur í skærrauðum búningum, glaðar og háværar litlar stelpur í með sprota í hendi. Í huga mér tengist stelpnahópurinn við hryllingsmyndirnar af tæknivæddri mannaframleiðslu sem Uno Svensson brá upp og minnir mig á hverju er helst kastað burt úr mannaframleiðslunni. (Mynd: Sænskar stelpur fyrir framan verk Uno Svenson, Ronneby 2001)

Í gærkvöldi horfi ég á þáttinn Saknas: 100 milljoner kvinnor í sænska sjónvarpinu. Það var frönsk heimildarmynd gerð af Manon Loizeau á ferðalögum í Indlandi, Pakistan og Kína. Í sumum héruðum Indlands svo sem Punjab og Haryana eru miklu fleiri karlmenn en konur, já miklu fleiri en tölfræðin myndi áætla. Skýringin er sú að stúlkubörnum er slátrað þegar í móðurkviði. Í hverju þorpi eru einkareknar sónarstöðvar sem geta skoðað fóstur og sagt til um hvort það er strákur eða stelpa og ein vinsæl auglýsing slíkra stöðva er slagorðið "Borgaðu 500 rúpíur núna í dag - sparaðu 50000 rúpíur í framtíðinni", auglýsing sem við skiljum ekki en vísar til þess að í indversku samfélagi er víða litið á stúlkubörn sem bagga og fjölskyldur eru hræddar við að eiga ekki fyrir heimanmundi (dowry) þegar stúlkur giftast.

Tölur sem nefndar voru í myndinni eru að af sex milljónum fóstureyðinga í Indlandi á ákveðnu tímabili þá eru 90 % þeirra deyðing á kvenkyns fóstrum. Í þættinum var viðtal við mæður í sveitahéruðum sem lýstu því hvernig þær höfðu drepið meybörn með því að svelta þau, blanda tóbaki og öðru eitri við mjólk eða kæfa þau. Það var líka sýnt inn í þorp piparsveina - sveitaþorp þar sem unga fólkið er næstum eingöngu ungir karlmenn og það var viðtal við unga menn sem hafa enga möguleika á því að kvænast - það eru engar konur. Það var líka fylgst með samtökum sem reynir að greina hvaða stúlkubörn eru í hættu á að vera drepin og vanrækt til dauða, fjölskyldan er heimsótt og reynt að styðja við móðurina og fá hana hana til að annast barnið.

Kvikmyndagerðarmaðurinn ferðaðist líka til Pakistan og fylgdi eftir manni sem safnar saman barnslíkum og reynir að finna ungabörn á lífi - hann finnur um 20 börn á mánuði, allt stúlkubörn. Svo var líka fjallað um Kína en þar vantar bara 50 milljón konur. Þar eru munaðarleysingjahælin full af stelpum, strákar eru ekki bornir út nema þeir séu bæklaðir.

Það eru margar skýringar gefnar á útburði meybarna og hvers vegna meyfóstur eru deydd í móðurkviði. Í Kína er skýringin sögð eins barns stefna stjórnvalda - það að fjölskyldur megi ekki eiga nema eitt barn en í Indlandi er skýringin sögð barnmargar fjölskyldur og fátækt, í Pakistan er það allsleysi og örbirgð.

uno-svenson2Útburður meybarna og deyðing meyfóstra er langt í frá neitt nýtt í mannkynssögunni, á gendercide.org er grein um útrýmingu meybarna. Í sögum af bernsku tveggja persóna í biblíunni eru talað um útrýmingu sveinbarna. Þannig var Móses lagður í reyrkörfu og fleytt út á Níl vegna þess að slátra átti sveinbörnum og Jesús hafður í felum út af Heródesi sem ætlaði að aflífa öll nýfædd sveinbörn. Ef til vill eru sögurnar sannar og ef til vill var þetta vopn sem herraþjóð beitti. En það getur líka verið að þessar sögur hafi orðið til vegna þess að það var svo sjaldgæft að aflífa sveinbörn - og þessi tilhugsun að slátra sveinbörnum hafi gert sögurnar áhrifameiri og fest þær í minni samfélaga sem undursamlega og guðdómlega björgun.


Hér er ein af myndum Uno Svenson af úrkastinu úr framleiðslu manna.

 


mbl.is Fóstureyðingarlyf bönnuð í kínversku héraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áramótamyndir

Nokkur vídeóklipp og myndaalbúm frá áramótunum. Vídeóklippin eru um 60 sekúndur að lengd.


Hér er yngsta frænka mín, Una Borg sem er bara tveggja mánaða. 

Kvöldverður 31. desember 

Við mæðgurnar.

Hér er líka vídeóklipp frá Hallgrímskirkju:

Tónlistin sem heyrist í vídeóklippunum er Season of Love og svo gelískt vögguvísa. 


Annáll 2006

Hér skrifa ég annál ársins 2006 og hef hann með einnar mínútu vídeóklippi sem ég tók við Hallgrímskirkju þegar klukkurnar hringdu inn nýja árið. Það heyrist ekkert í klukkunum því að leikvangurinn á Skólavörðuholtinu er þannig á Gamlárskvöld að það er eins og maður sé staddur í sprengiárás. Ég skrifaði áramótahugleiðinguna Skotárás á turninn  fyrir fjórum árum einmitt um Hallgrímskirkjuturn. 

Hvað einkennir árið 2006? Þegar ég renni yfir bloggið mitt árið 2006 þá finnst mér sá atburður sem mest áhrif hafði á mig í heimsumræðunni  hljóti að hafa verið skrípamyndirnar af Múhameð. Ég virðist hafa verið með það á heilanum um tíma og bloggaði endalaust um málið. Ég fékk líka köllun til að verða sjálf skopmyndateiknari. Það verður eitt af áramótaheitum mínum fyrir 2007 að láta það rætast. Ég held að skrípómálið hafi heillað mig af því hve myndrænt það var og hve það virtist sakleysislegt á yfirborðinu en hve þungir undirstraumar og iðuköst fylgdu málinu - menningarheimum laust saman, mismunandi trúarheimar glímdu, tekist var á um tjáningarfrelsi og hatur sem fann sér útrás í einföldum auðskildum táknmyndum.  

Hér eru nokkrar af bloggfærslum mínum um skrípamyndirnar 

Teiknimyndir af Múhameð spámanni 

Konan á krossinum wikipedia

Skrípóstríðið heldur áfram

Meira skrípó og guðlast

Í stuði með Guði - Jesúdúkkulísur

Um júðana og lygar þeirra

Stungið niður stílvopni

Látið Ali Mohaqiq Nasab lausan!

Villandi og rangar fréttir á Íslandi og bóksalinn í Kabúl

Við erum öll Danir núna... nú eða breskir námsmenn í ögrandi fötum

Vi danskere og vores national identitet

Danskurinn og fjanskurinn sitt hvorum megin við Djúpavog

Háfrónskan og skopmyndaskáldin

Svo sýnist mér þegar ég lít yfir það sem ég hef skrifað á blogg  á árinu að ég tjái mig  alltaf meira og meira um mannréttindamál og miðlun þekkingar. Ég bloggaði töluvert um femínisk málefni eins og undanfarin ár en ég blogga alltaf meira og meira um mannréttindamál og tjáningarfrelsi og frjálst flæði þekkingar og reyni að vara við þeim manngerðu fangelsum sem reist eru í netheimum og hvernig lög og reglur samfélagsins eru ekki miðuð við þennan nýja tíma og þá sem ferðast í netheimum heldur fyrst og fremst til að gæta hagsmuna höfundarréttahafa og  eignafólks.

Ég held að skopmyndamálið hafi verið ein leið til að sprengja gjá milli þeirra frjálslyndu og umburðarlyndu sem verja tjáningarfrelsið og þeirra sem böðlast áfram í trúarofstæki og blindri bókstafstrú. Eða kannski þetta sýndi hvað er mikil hyldýpisgjá milli öfgatrúarhópa í Austurlöndum og Evrópubúa. En alla vega mun ég verja rétt fólks til að guðlasta og hafa illa ígrundaðar og hallærislegar skoðanir og ég er full tortryggni gagnvart öllum þeim sem vilja hefta slíka tjáningu. Tjáningarfrelsi er líka fyrir ruddalegt fólk sem fylgir ekki því sem okkur finnst vera rétta skoðunin og rétta framsetningin.

 Ég held að þetta ár hafi breytt landakortinu af Íslandi. Við höllum okkur nær Evrópu og fjær Bandaríkjunum og skilin milli Evrópu og Austurlanda nær urðu skarpari á árinu.  Herinn fór og Hálslón varð til.  Eftir árið erum við Evrópuþjóð þar sem margir vilja taka upp Evru og sennilega myndum við þjóta inn í Evrópusambandið á methraða ef það væri ekki út af sjávarútvegsstefnu bandalagsins. Markalínur menningarheima snúast núna um trú og markalínur stjórnmála á Íslandi um hálendið og náttúru Íslands.  Ég tek eftir að ég hef ekki haft neinn sérstakan áhuga á trúmálum eða náttúruverndarmálum undanfarin ár, ég alla vega blogga ekkert mikið um þau mál.  Ef til vill ætti ég breyta því á árinu 2007, ég hef reyndar meiri áhuga á dýravernd bæði gæludýra og alidýra en náttúruvernd, aðallega af því mér finnst  meiri þörf fyrir baráttu og upplýsingar þar, það eru færri sem berjast fyrir svín og kjúklinga en fyrir lónum á hálendinu. 

Nokkrir punktar úr lífi mínu og fjölskyldu minnar

Ég fór tvisvar erlendis á árinu, ég fór til Boston á Wikimania í ágúst og ég fór til Póllands í lok ágúst. Innanlands fór ég nokkrum sinnum í Borgarfjörð og eina ferð út í Flatey og eina til Vestfjarða til systur minnar. Hún var þá að flytja aftur til mannsins síns en þau skildu í lok síðasta árs.  Ég fór ekkert til Skagafjarðar á þessu ári og geri ekki ráð fyrir að fara mikið þangað framar nema til að koma við á Víðivöllum og Víðinesi. Það er mjög sorglegt mál og ekkert bendir til annars en nú verði höfðað dómsmál. Ég skrifaði um það í þremur bloggum Kýrhaus, Málaferli um Vagla og Lögfræði. 
Ég hef forðast að skrifa meira um þetta mál vegna þess að ég get engan veginn verið hlutlaus og á meðan ég vonaði að einhver lausn væri í sjónmáli þá gætu óvarleg orð spillt fyrir. Ég finn til með móður Magnúsar og vona að fólkið sem hún er hjá reynist henni vel.  Það  getur nú samt ekki annað en hryggt hana að hafa misst allt samband við flest sín börn og barnabörn.  Ég held að  margt roskin fólk sé einangrað og í einhvers konar gíslingu  út af því að einhverjir hafa hagsmuni af því  að ráðskast með  og komast yfir eigur þeirra. Það er mjög lítil umræða á Íslandi um Elder Abuse og enginn innan félagslega kerfisins virðist taka á þessu. Í Bandaríkjunum eru nýgengin í gildi lög þar sem fjármálastofnanir hafa tilkynningaskyldu ef grunur vaknar um að reynt sé að féfletta eldra fólk og þar er fólk á varðbergi fyrir ýmis konar misneytingu sem snýr  hópum eins og öldruðum og sjúkum. 

Bróðir minn stóð í ströngu í ár sem undanfarin ár en hann hefur þó alla vega unnið sínar síðustu baráttulotur. Vonandi slotar bráðum þeim stórhríðum sem á hann hafa skollið. Eitt ljós í öllu því myrkri sem umlukið hefur fjölskyldu mína undanfarin ár er að ég hef endurheimt unglinginn. Hún umhverfist og týndist mér algjörlega í marga mánuði, sást ekki nema endrum og eins og lagði sig í glíma með því að stunda lífsstíl sem ég  var andsnúin og get ég varla sagt að við töluðum saman í marga mánuði. Frá því í sumar er hún hins vegar hið mesta ljós og virðist hafa tekið út einhvern þroska. Nú eða bara ég hef látið undan öllu hennar sjálfstæðisbrölti og hún er bara ánægð núna þegar hún getur farið sínu fram. Frænka hennar Ó. er hins vegar ekki í nógu góðum málum og hef ég núna í lok árs samvisku yfir að hafa ekki gert neitt í hennar málum. Mér finnst kerfið hafa svikið hana. Hún á rétt á menntun  og umhyggju eða einhvers konar greiningu og úrlausn sem verður henni veganesti í lífinu. Ég reyndi nú það sem ég gat, hafði samband við bæði Fjölsmiðjuna og Barnaverndarnefnd út af árásinni sem hún varð fyrir en bæði mamma hennar og hún telja að hún sé best komin án afskipta Barnaverndarnefndar.  

Í mínu lífi er þetta ár  fremur helgað líkama en sál og það snerist um heilsu. Ég  var  í veikindaleyfi hluta ársins og ég held að heilsa mín sé töluvert betri núna en fyrir ári síðan. Húsbyggingin gekk vel á árinu, ég held að það hafi eitthvað með það að gera að auðveldara varð að fá iðnaðarmenn eftir 1. maí en þá opnaðist íslenskur vinnumarkaður  fyrir Pólverja.  Ég er samt orðin leið á að vera alltaf mörg hundruð þúsund í yfirdrætti í hverjum mánuði og þurfa ekki einu sinni að velta fyrir sér hverri krónu. Það er nefnilega mjög lítið hægt að velta krónum sem allar eru bundnar í grjóti og sementi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband