Lesið úr tölum - Lýst eftir 100 milljón konum

Ég var að skoða frétt á mbl.is um að fóstureyðingalyf hefði verið bannað í einu héraði í Kína til þess að rétta við kynjahlutfallið.  Inntak greinarinnar og það sjónarhorn sem hún sýnir er súmmað upp í þessari setningu: "Samkvæmt rannsókn sem franska lýðfræðirannsóknarstofnunin hefur gert munu 25 milljónir kínverskra karla verða einhleypir og án vonar um að eignast konu árið 2015 ef fer fram sem horfir."

Það er skrýtið hvað fólk getur lesið út úr statistík. Það er aðalatriði í þessari frétt hvaða spá hún felur í sér um konuvöntun í framtíðinni og þolendurnir eru samkvæmt fréttinni einhleypir karlmenn. Þessi frétt breiðir yfir grimmd og morð þar sem fóstur eru deydd í móðurkviði og meybörnum slátrað. Það er ekki gert einu sinni og ekki tvisvar. Það bendir allt til þess að það sé gert mörg hundruð milljón sinnum.  Ég skrifaði 12. maí 2006 eftirfarandi  pistil Það vantar 100 milljón konur :

 uno-svenson1
Fyrir nokkrum árum fór ég á sýningu á verkum listamannsins Uno Svenson (Svíi númer eitt) í menningarmiðstöðinni í heimabæ hans Ronneby. Þar hreifst ég mest af málverkum hans af fóstrum - málverkum af mistökum í fósturframleiðslu og úrgangi í framleiðsluferli sem framleiðir menn, málverkum af fóstrum og barnslíkum sem kastað er í ruslið. Á sama tíma og ég horfði á verk Unos þá heyrði ég í lúðrasveit eða hljómsveit, svo þusti inn í sýningarsalinn stelpnahópur í skærrauðum búningum, glaðar og háværar litlar stelpur í með sprota í hendi. Í huga mér tengist stelpnahópurinn við hryllingsmyndirnar af tæknivæddri mannaframleiðslu sem Uno Svensson brá upp og minnir mig á hverju er helst kastað burt úr mannaframleiðslunni. (Mynd: Sænskar stelpur fyrir framan verk Uno Svenson, Ronneby 2001)

Í gærkvöldi horfi ég á þáttinn Saknas: 100 milljoner kvinnor í sænska sjónvarpinu. Það var frönsk heimildarmynd gerð af Manon Loizeau á ferðalögum í Indlandi, Pakistan og Kína. Í sumum héruðum Indlands svo sem Punjab og Haryana eru miklu fleiri karlmenn en konur, já miklu fleiri en tölfræðin myndi áætla. Skýringin er sú að stúlkubörnum er slátrað þegar í móðurkviði. Í hverju þorpi eru einkareknar sónarstöðvar sem geta skoðað fóstur og sagt til um hvort það er strákur eða stelpa og ein vinsæl auglýsing slíkra stöðva er slagorðið "Borgaðu 500 rúpíur núna í dag - sparaðu 50000 rúpíur í framtíðinni", auglýsing sem við skiljum ekki en vísar til þess að í indversku samfélagi er víða litið á stúlkubörn sem bagga og fjölskyldur eru hræddar við að eiga ekki fyrir heimanmundi (dowry) þegar stúlkur giftast.

Tölur sem nefndar voru í myndinni eru að af sex milljónum fóstureyðinga í Indlandi á ákveðnu tímabili þá eru 90 % þeirra deyðing á kvenkyns fóstrum. Í þættinum var viðtal við mæður í sveitahéruðum sem lýstu því hvernig þær höfðu drepið meybörn með því að svelta þau, blanda tóbaki og öðru eitri við mjólk eða kæfa þau. Það var líka sýnt inn í þorp piparsveina - sveitaþorp þar sem unga fólkið er næstum eingöngu ungir karlmenn og það var viðtal við unga menn sem hafa enga möguleika á því að kvænast - það eru engar konur. Það var líka fylgst með samtökum sem reynir að greina hvaða stúlkubörn eru í hættu á að vera drepin og vanrækt til dauða, fjölskyldan er heimsótt og reynt að styðja við móðurina og fá hana hana til að annast barnið.

Kvikmyndagerðarmaðurinn ferðaðist líka til Pakistan og fylgdi eftir manni sem safnar saman barnslíkum og reynir að finna ungabörn á lífi - hann finnur um 20 börn á mánuði, allt stúlkubörn. Svo var líka fjallað um Kína en þar vantar bara 50 milljón konur. Þar eru munaðarleysingjahælin full af stelpum, strákar eru ekki bornir út nema þeir séu bæklaðir.

Það eru margar skýringar gefnar á útburði meybarna og hvers vegna meyfóstur eru deydd í móðurkviði. Í Kína er skýringin sögð eins barns stefna stjórnvalda - það að fjölskyldur megi ekki eiga nema eitt barn en í Indlandi er skýringin sögð barnmargar fjölskyldur og fátækt, í Pakistan er það allsleysi og örbirgð.

uno-svenson2Útburður meybarna og deyðing meyfóstra er langt í frá neitt nýtt í mannkynssögunni, á gendercide.org er grein um útrýmingu meybarna. Í sögum af bernsku tveggja persóna í biblíunni eru talað um útrýmingu sveinbarna. Þannig var Móses lagður í reyrkörfu og fleytt út á Níl vegna þess að slátra átti sveinbörnum og Jesús hafður í felum út af Heródesi sem ætlaði að aflífa öll nýfædd sveinbörn. Ef til vill eru sögurnar sannar og ef til vill var þetta vopn sem herraþjóð beitti. En það getur líka verið að þessar sögur hafi orðið til vegna þess að það var svo sjaldgæft að aflífa sveinbörn - og þessi tilhugsun að slátra sveinbörnum hafi gert sögurnar áhrifameiri og fest þær í minni samfélaga sem undursamlega og guðdómlega björgun.


Hér er ein af myndum Uno Svenson af úrkastinu úr framleiðslu manna.

 


mbl.is Fóstureyðingarlyf bönnuð í kínversku héraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég gæti reyndar trúað því að hluti af vandamálinu við svona fréttir sé hugsanlega ekki sjónarhornið heldur athyglisbresturinn sem einkennir fjölmiðlun í dag, enginn tími virðist vera til að kafa í málin og því er heldur ekki tími til að útskýra hversvegna tiltekið sjónarhorn er valið fram yfir annað. Því það er vissulega, burtséð frá hryllingnum sem er uppruni vandans, vandamál per se að 25 miljónir Kínverja muni vanta brúðir eftir x mörg ár, ég allavega býst alveg við því að konur frá verr stöddum nágrannalöndum verði þannig í enn meira mæli gerðar að verslunarvarningi fyrir þá karlmenn sem ekki hafa efni á því að keppast um lókal stúlkurnar. Ég er líka alveg tilbúin til að sjá fyrir mér að frelsi lókal stúlkna til að velja hverjum þær giftist verði stórlega skert af fjölskyldum þeirra. Og ég hika ekki við, þrátt fyrir að vita lítið um kínverska menningu, að spá fyrir um aukna kynferðislega misnotkun kvenna og barn . Þannig að þetta er ekki bara peningur og tvær hliðar heldur að minnsta kosti þrjátíu og tveggja hliða teningur.

 En ég er sammála því að mér leiðist svona yfirborðskennd fréttamennska.

Unnur María (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 14:48

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég held að þetta sé einmitt eins og þú segir, ungar konur úr fátækari löndum eru fluttar til Kína til að vera brúðir hinna einhleypu karla. Þessi kynjaslagsíða verður síður en svo til að auka völd kvenna. Það er reyndar umhugsunarefni að bæði fjölveri og fjölkvæmi eru aðstæður þar sem völd kvenna eru afar lítil.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.1.2007 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband