Tölvusvindl og fjármálaráðgjöf banka

Tölvusvindl verður alltaf algengara og ísmeygilegra. Íslendingar eru græskulausir gagnvart svindlurum því samfélagið hérna er svo lítið og  mikið traust milli manna í viðskiptum vegna þess hve auðvelt er að afla bakgrunnsupplýsinga. Við getum strax vitað hvaða Íslendingi eða íslensku fyrirtæki er treystandi. Það eru hins vegar ótrúlega margir sem samt virðast ginnast af svikum og prettum sem fara fram gegnum Netið. Flestum finnst Nígeríutölvupósturinn fyndinn og henda honum strax en það eru alltaf einhverjir mjög grunnhyggnir og einfaldir sem falla í gildrurnar. 

En svikimyllurnar verða alltaf  fullkomnari og stundum er erfitt að átta sig á að um svik sé að ræða. Nýjar aðferðir svikahrappa við að ná út úr manni lykilorði og aðgangsorði á vefi eins og paypal.com og ebay.com eru lævísar og rugla fólk.

Ég fæ oft ruslpóstbréf þar sem fullyrt er að ég hafi óhemju fé  í einhverju happdrætti og bréf um að krítarkorti mínu á paypal hafi verið lokað og bréf eins í morgun um að einhver hafi lagt inn á reikning minn í ebay út af því að ég hafi selt honum vöru. Oft eru þetta bréf sem líta mjög "professional" út og virðast fjalla um eitthvað vandamál sem verður að bregðast strax við og það eru gefnar upp slóðir í bréfunum og ef maður smellir á þær (EKKI á að gera það!!!) þá kemur upp síða sem er alveg eins og maður sé að fara inn á paypal.com eða ebay.com

Þetta eru hins vegar SVIKAMYLLUR. þetta eru ekki raunverulegu paypal og ebay vefsvæðin heldur vefir sem eru settir upp til að maður loggi sig þar inn og þá getur einhver komist yfir notendanafn og aðgangsorð sem maður notar og farið t.d. inn á ebay og keypt vörur og/eða tekið út af kreditkorti manns.

Ég fékk t.d. svona bréf í morgun sem virtist koma frá ebay:

spoof-ebay

Þetta er dæmi um svikamyllu. Ég fékk þetta á netfang sem reyndar er ekki skráð á ebay og svo er ég ekki að selja neitt á ebay. Hugsunin hjá þeim sem setja upp slíkar svikamyllur er að gera fólk forviða og búa til einhverjar aðstæður þannig að fólk bregðist strax við.  

Svona svik eru svo algeng og erfitt að vara sig á þeim að það verður að fara að huga að því að upplýsa almenning um skynsamlega hegðun í netheimum. Reyndar finnst mér að bankarnir ættu þarna að hafa frumkvæði og styrkja og/eða standa að slíkri fræðslu.  Alveg á sama hátt og tryggingarfélögin eru með herferðir til að stuðla að  bættri umferðarmenningu og reyna með því að draga úr fjölda tjóna og slysa vegna þess að það beinlínis hefur áhrif á afkomu þeirra þá hafa bankar hagsmuna að gæta varðandi fjármál almennings. Mörg af þessum svikum fara í gegnum banka og peningarreikninga og fólk sem lætur glepjast af svona glæpum mun ekki treysta bönkum vel og átta sig nógu vel á því hver er að féfletta það. Það er mikilvægt fyrir banka að hafa traust, viðskipti hafa alltaf byggst á trausti og nú á tímum þá er fjármálaráðgjöf stór hluti af bankaþjónustu og einn mikilvægur hluti af fjármálaráðgjöf í dag er að fólk láti ekki féfletta sig með svikamyllum á Netinu. 

The Fight Against Phishing- 44 Tips to Protect Yourself

 


mbl.is Íslenskur tölvunotandi varð illilega fyrir barðinu á netsvindlurum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vil bæta því við að nýjustu uppfærslur af Outlook og Outlook Express eiga ekki að opna myndir á pósti nema þú leyfir þeim það. Þannig er það nefnilega að oft ery myndir og svoleiðis í póstinum hýstar á vefþjóni þeirra sem senda út spampóstana. Um leið og þú sækir myndina vita þeir að þú hefur lesið póstinn og að emailið sem þeir sendu hann á sé gilt og lesið. Þannig vita þeir að þeir geta haldið áfram að senda þér póst ásamt því sem þeir eru duglegir við að selja öðrum spömmurum lista yfir email sem þeir vita að eru lesin reglulega. Þessvegna er best að stilla forrit á að sækja ekki myndir sjálfkrafa úr tölvupóstinum nema þú vitir með vissu frá hverjum hann er.

Stefán (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband