Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
18.1.2007 | 18:06
Flott að fá fleiri konur í friðargæslu
Ég er mjög ánægð með þá stefnu Valgerðar í utanríkisráðuneytinu að fá fleiri konur til starfa í friðargæsluna og ég held þetta snúist ekki bara um að rétta við kynjahlutfallið heldur um öðruvísi áherslur í friðargæslu. Ég hef fylgst með íslensku friðargæslunni í mörg ár, bæði vegna þess að ég skráði mig strax á viðbragðslista þegar það var auglýst og fór alla vega á tvö námskeið og vonaði að ég fengi tækifæri til að fara en svo varð nú ekki, sennilega vegna þess að áherslur utanríkisráðuneytisins voru ekki þannig að óskað væri eftir borgarlegum sérfræðingum með minn bakgrunn, margir sem fóru voru lögreglumenn og slökkviliðsmenn og iðnmenntaðir/tæknimenntaðir menn.
Ég fékk Magnús líka til að skrá sig á viðbragðslistann og hann fór tvisvar sinnum til Afganistan og ég setti það sem hann skrifaði heim þegar hann var úti í fyrra skiptið in á blogg á slóðinni afganistan.blogspot.com
Ég skrifaði hugleiðingu á bloggið mitt 11.9.03 um dvöl Magnúsar í Afganistan
Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan eftir New York árásina og þar kom á eftir ISAF sem er fjölþjóðlegt friðargæslulið vestrænna þjóða. Magnús fór í mars til Afganistan á vegum íslensku friðargæslunnar og kom aftur núna í byrjun september. Hann var hermaður eins og allir í friðargæsluliðinu þarna og hann var með þýskri herdeild. Nokkrum sinnum á þeim tíma sem Magnús dvaldi þarna var alvarlegt ástand vegna sprengjuárása og hryðjuverka og slysa. Dögum saman vissi ég ekki hvort hann væri óhultur. Margir ISAF hermenn dóu á þessum tíma, flestir í einu mannskæðu flugvélahrapi. Sérstaklega alvarlegt var þegar hann kom í frí heim þegar Kristín fermdist í júní og lenti þá í bráðri lífshættu því hryðjuverkamenn gerðu þá sjálfsmorðsárás og keyrðu inn í rútu sem flutti þýska hermenn út á flugvöll. Það vildi honum til happs að hermenn voru fluttir út á flugvöllinn í Kabul í tveimur hópum og hann lenti í seinni hópnum. Þegar Magnús fór til Afganistan voru aðaláhugamál hans skógrækt og útivist og gönguferðir um hálendi Íslands. Eftir hálfs árs friðargæslustörf í stríðsþjáðu landi hugsar hann mest um hermennsku og stríðstæki og hann telur öflugan og vel búinn her vera bestu leiðina til að tryggja frið á þessum slóðum nú.
Ég sé að ég hef oft skrifað um tímabilið þegar Magnús var í friðargæslunni í Afganistan inn á blogg:
- Íslenska sveitin (13.12.04)
- Magnús er kominn frá Afganistan (3.9.04)
- Magnús á heimleið (4.9.03)
- Fjölmiðladagur (10.6.03)
- Magnús hringdi (7.6.03)
- Kabúl í fréttum - Hryðjuverk (7.6.03)
- Furstinn af Íslandi (2.6.03)
- Flugvél með friðargæsluliðum ferst í Afganistan (26.5.03)
- Haglél í Afganistan og afbrigði af fegurð (24.5.03)
- Eitrað andrúmsloft - skotbardagi (23.5.03)
- Myndir og bréf frá Kabúl (22.5.03)
- Ekki vinnufriður hjá Magnúsi (9.4.03)
- Óvinir okkar voru með leiðindi 1.4.03
- Beðið eftir fréttum (31.3.03)
- Flugskeytaárás og slys (30.3.03)
- Lauksúpa í Kabúl (28.03.03)
- Saumaskapur í Afganistan (19.03.03)
- Frá herkampi í Afganistan ( 12.03.03)
- .af fyrir Afganistan ( 10.03.03)
- Bokhandleren i Kabul ( 8.03.03)
![]() |
Konur í friðargæslunni sendar til Afganistan, Balkanskaga og Líberíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.1.2007 kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 15:35
Óbyggðaferð í hópi
Ómar ársins 2006 hefur lagt upp í ferðalag í bloggheima. Hann ævintýramaður og þrælvanur óbyggðaferðum og hópsamfélögum þar og baráttumaður fyrir landslag á Íslandi.
Myndbrot þar sem Björk syngur um landslag tilfinninga og state of emergency
Það er frábært að fá fleira hugsjónafólk inn í bloggsamfélagið á Íslandi. Okkur greinir á um markmið og leiðir en það sem vinnst í samræðunni er að fólk kemur smám saman vitinu hvert fyrir annað og ef einhver málstaður skín í gegn sem réttur og skynsamlegastur fyrir sem flesta þá ætti orðræðan að verða til þess að fleiri og fleiri fylki sér undir þann málstað. Ég held að umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni sé þannig málstaður.
En ég held ekkert endilega að besta tegund af umhverfisvernd sé svona nútímaútgáfa af Skírisskógi þar sem öllum er bannaðar veiðar í skóginum af því að veiðidýrin eru bara fyrir kónginn og aðalinn og skógurinn er leikvangur þeirra. Vissulega er hægt að tryggja náttúruvernd á þann hátt og þannig hafa sum svæði varðveist í margar aldir en ég vil bara miklu frekar vera í liði með Hróa hetti.
![]() |
Ómar byrjaður að blogga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2007 | 20:00
Plögg fyrir álver hjá Dorrit forsetafrú og Ríkisútvarpinu
Kastljósið í gær var viðtal Evu Maríu við Dorrit Moussaieff forsetafrú. Ég berst við að láta Dorrit njóta sannmælis og spái í hvort ég hafi fordóma gagnvart útlendingum, fordóma gagnvart skartbúnu ríku fólki sem vill umgangast frægt og áhrifamikið fólk eða fordóma gagnvart fólki í viðskiptum. Ég held það geti alveg verið og ég er ekkert að fegra sjálfa mig en mér fannst þetta viðtal við Dorrit vera í algjörri falsettu og laust við einlægni. Ég held að Dorrit sé kjarnorkukona og hún er örugglega dugleg í viðskiptum. En það eru nokkur tilvik sem fylla mig tortryggni gagnvart því hversu einlægt það er sem hún segir.
Guðmundur Magnússon hefur bent á að það er sama almannatengslafyrirtækið sem vinnur fyrir álverið og forsetaembættið. Þetta innslag í þættinum var eins og ímyndarauglýsing fyrir álverið. Nú er ég alls ekki að tala sem hatrammur vinstri grænn álversandstæðingur, ég styð uppbyggingu á atvinnulífi og finnst ekkert að áliðnaði fremur en öðrum iðnaði svo fremi sem það sé ekki mengandi og lífshættuleg iðja en ég vil fá að taka afstöðu án þess að Ríkisútvarpið og forsetafrúin gangi erinda þeirra afla sem hafa auðmagn og hafa hagsmuna að gæta.
Svo fannst mér innslag forsetafrúannar um stjórnmál í heiminum vera afar seinheppið. Það er henni ekki til sóma hvernig hún hegðaði sér á ísraelskum flugvelli og það hefði verið meiri háttar diplómatamál nema af því um er að ræða svona mikið dvergríki eins og Ísland. Svo fannst mér í þessum Kastljósþætti hún viðhafa taktleysi í umræðu um alþjóðamál en mér finnst eins og það sé ekki heit einlæg ósk hennar með þessum yfirlýsingum að vinna að friði heldur vaki bara fyrir henni klekkja á Ísrael, ef hverju byrjar hún núna að tala opinberlega um að Jerúsalem eigi að vera alþjóðleg borg og að lýsa andstöðu sinni á Írak og upphefja lífið í Írak á tímum Saddams? Er það út af því að það passar núna þegar hún hefur verið niðurlægð af ísraelskum yfirvöldum og hefur afsalað sér ríkisborgarrétti þar? Við erum sennilega núna flestir Íslendingar sannfærðir um að innrás Bandaríkjanna í Írak hafi verið mistök en það hljómar ekki sannfærandi eða diplómatiskt að forsetafrú sem á harma að hefna við náinn bandamann Bandaríkjanna mæli þetta fram. Dorrit segir í rökum sínum: "You dont fight people that do not harm you". Þýðir það þá að hún hafi haft sömu skoðun á innrásinni í Afganistan? Átti ekki að ráðast inn í Afganistan af því að þar voru Talibanar sem ekki voru ógn við Vesturlandabúa?
Það var líka falskur tónn í því hvernig Dorrit talaði um hve peningar og veraldleg gæði eru einskís virði og hún lýsti andstöðu á neysluhyggju. það eru allt of margar myndir af henni sem holdgervingi þessarar sömu taumlausu neysluhyggju sem hafa birst af ýmsum tilefnum.
Ég veit reyndar ekki hvort sú manngæska og samúð fyrir lítilmagnanum og þeim sem hafa brotið allar brýr að baki sér birtist í lífi Dorritar, í Kastljósþættinum þá segist hún bera kjör þeirra fyrir brjósti. Á flestum myndum sem maður hefur séð í pressunni þá er hún ekki í hópi þeirra hrjáðu og smáðu heldur að baða sig í sviðsljósinu í hópi þeirra sem líka eru í framlínu viðskipta og auðæva og þjóðhöfðingja og að mæta eins og drottningarfulltrúi eða verndari samtaka við hátíðleg tækifæri, svona sem "first lady of Iceland".
Ef hún hefur gert eitthvað til að bæta kjör þeirra sem eru hrjáðir og smáðir þá hefur það farið fram hjá mér en það má vera að hún styrki ýmis konar mannúðarstarfsemi í kyrrþey og hjálpi persónulega illa stöddu fólki að fóta sig aftur í lífinu, ég vona það.
Svo er alls ekkert sannfærandi þegar hún talar um að hún vilji forðast fréttaflutning af lífi sínu, flestir Íslendingar muna ennþá eftir því tilfinningalega svigrúm sem Ólafur forseti bað um á sínum tíma í tilhugalífinu og svo senunni þegar hann handleggsbrotnaði í einhverri hestaferð með Dorrit og það var óvart ljósmyndari frá einhverju erlendu tímariti staddur með í þeirri ferð til að taka svona myndir af ástarævintýrinu á norðurhjara væntanlega til að birta í einhverju útlendu glanstímariti.
En ég held að það sé einlægt þegar Dorrit talar um Ísland eins og viðskiptafyrirtæki og hún sé í eins konar almannatengslum fyrir landið "market Iceland abroad" eins og hún orðar það. Ég held líka að Ólafur Ragnar vinni heilmikið í því. Það sem mér gremst hins vegar er að ég held að þau vinni bæði frekar fyrir þá sem sem hafa fjármálaleg völd í landinu og tengjast stórfyrirtækjum í útrás og alþjóðlegum fyrirtækjum sem eru að tryggja ítök sín hérlendis heldur en hinn almenna Íslending.
Ef til vill er þetta nútíminn, við höfum núna forsetapar sem er fulltrúar alþjóðavæðingarinnar og hinnar ríku sem eru að verða ríkari og óhefts flæðis fjármuna milli landa. Það er náttúrulega við hæfi, það hefur samfélagið á Íslandi gengið út á síðustu misseri. En kannski verður það ekki endilega í framtíðinni.
Viðbót 16. janúar - Dorrit og samsæriðSigmar skrifar pistilinn Dorrit og samsærið þar sem hann fjallar um þennan bloggpistil og ef rýnt er mjög vandlega og djúpt í texta hans þá má greina merki um að hann sé ekki hrifinn af minni orðræðu en Sigmar segir :
Er til of mikils mælst að fólk hugsi pínulítið áður en það vegur að fjölmiðlafólki með svona bulli? ....Það er oftast vit í því sem Salvör segir en þessi pistill er vanhugsaður.Í honum má greina þekkingarleysi á störfum ritstjórna og andúð í garð forsetafrúarinnar.
Eins og vanalega þá tek ég vel gagnrýni frá svona miklum andans jöfrum og beygi mig í auðmýkt og reyni að gera iðrun og yfirbót. Ég klóra samt soldið í bakkann og skrifaði þessa athugasemd áðan við bloggið hjá Sigmari:
Takk fyrir að benda mér á að ég ruglaði saman álverinu og járnblendinu, ég hef tekið það út. Einnig hef ég lagfært og mildað það sem ég segi um álversinnslagið. Það var ekki ætlun mín að vega að fjölmiðlafólki og mér finnst Eva María vera frábær fjölmiðlamaður. Það kann að vera að umsjónarmönnum Kastljóss sárni gagnrýnin umræða um að hugsanlega sé reynt að planta þar inn einhverju efni.
Þetta er nú samt sá fjölmiðlaveruleiki sem ég hef lifað við á Íslandi síðan ég byrjaði að fylgjast með fjölmiðlum og er þar RÚV ekki undanskilið. Stjórnmálamenn reyna að hafa áhrif á fjölmiðlaumræðu og hér á árum áður þá horfði maður á hvern fréttatímann á fætur öðrum sem var bara samsett úr ráðherraviðtali eftir ráðherraviðtal. Ráðningar á fjölmiðla hafa farið eftir flokkspólitiskum línum og þeir sem hafa verið lengst við völd (lesist Sjálfstæðismenn) hafa reynt að tryggja heiðbláan lit á fréttastofu RÚV og áttað sig vel á því að þarna væri útungunarstöð fyrir pólitíkusa framtíðarinnar, skjáþokki og þjálfun í sjónvarpsumræðu hefur verið góð leið til að ná til fjöldans.
Það sem hefur breyst er að það hefur fjarað undan stjórnmálamönnum og þeir hafa ekki sama tangarhald á fjömiðlum, flokksblöðin gufað upp og ítökin á RÚV orðið lausari. En það hafa aðrir tekið við völdum og leggja sama ofurkappið á að miðla sínum sannleika og sinni heimssýn til almennings. Núna eru valdamestu gerendur í íslensku þjóðlífi auðmenn og viðskiptajöfrar í útrás og erlend stórfyrirtæki í innrás. Það þarf að vera blindur til að sjá ekki hvaða ofurkapp slíkir aðilar leggja á að tryggja sér aðgang að fjölmiðlum á Íslandi.
Það er einmitt út af þessu sem ég er eindreginn stuðningsmaður Ríkisútvarps. Ég tel mig alveg geta gagnrýnt það sem einn af eigendum þess (á einn hlut á móti þrjú hundruð þúsund öðrum) og ég tel skyldu mína að vera vakandi yfir því að það endurspegli sjónarmið allra íbúa á Íslandi og þar sé ekki slagsíða á einhver ákveðinn viðhorf sem valdamiklir aðilar vilja halda að okkur. Ég hætti alveg á það að orðræða mín sé sögð vanhugsuð og byggð á þekkingarleysi á hvernig ritstjórnir vinna og andúð á forsetafrú. Ég reyni ekki að breiða yfir að ég er hvorki aðdáandi forsetafrúarinnar né forsetans og ég tel þau ekki vera neitt að vinna fyrir almenning á Íslandi. Ég tel líka að ég hafi fordóma gagnvart forsetafrúnni m.a. vegna þess að hún kemur úr umhverfi sem er mér framandi og ég kann ekki að meta og skil ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.1.2007 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.1.2007 | 17:12
Illa farið með fé í Byrginu, illa farið með örorkubætur óreglufólks
Það virðist hafa verið mikil fjármálaóreiða hjá Byrginu og samkrull á fjármálum forstöðumanns og fjármálum meðferðarheimilis. Mér virðist hins vegar á því sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ekki sé ástæða til að ætla að þarna sé einhver vísvitandi að féfletta skjólstæðinga og opinbera aðila , frekar virðist þetta dæmi um rassvasabókhald manns sem skilur ekki á milli persónulegs lífs síns og þess reksturs sem hann hefur með höndum og fylgir ekki góðum verkreglum við bókhald og reikningshald.
Það er nú þannig að sá drifkraftur sem forstöðumaður Byrgisins hafði og starfsemin byggðist á var hvorki tilkominn vegna reikningshaldskunnáttu né fagþekkingar heilbrigðisstétta á meðhöndlun á áfengis- og eiturlyfjafíkn. Það er erfitt að skilja hvers vegna starfsemi sem rekin var svona skrýtilega fékk mikið fé frá opinberum aðilum fyrir einhvers konar umönnun og meðferð á mjög veiku fólki.
Sennilega hefur ástand þess fólks sem Byrgið sinnti bara verið svo alvarlegt að það hefur verið allt gert til að taka fólkið af götunni og koma því á staði eins og Byrgið. Það sem mér finnst reyndar verst er að það skuli hafa verið eina úrræðið sem var í boði fyrir mjög langt leidda fíkla að verða ofurseldir einhvers konar ofsatrú og þá á ég nú ekki bara við Byrgið. Það er nú ekki þannig að ég viti ekki að trúarinnlifun hjálpar sumum við svona aðstæður heldur frekar það að mér finnst fólk í þessum erfiðu aðstæðum ekki hafa haft neitt val. Var einhver annar staður sem bauð sams konar þjónustu og sinnti sama hópi og Byrgið?
Það hins vegar verður að gera eitthvað í málefnum skjólstæðinga Byrgisins og það er ekki víst að það sé neitt gott að loka þeim stað eða láta starfsemina þar fjara út.
í fréttablaðinu í dag var þessi klausa sem vakti mig til umhugsunar:
"Jóhann Vísir Gunnarsson og Sævar Ciesielski, sem eru fastagestir Gistiskýlisins segja mikla þörf á úrbótum. Þeir vilja að yfirvöld bregðist við af alvöru og setji fram lausnir sem miði að því að gera heimilislaust fólk að þátttakendum í samfélaginu."
Ég er alveg sammála þessu. Það er skammarlegt hvernig yfirvöld standa sig í þessum málaflokki. Það er líka afar einkennilegt hvernig yfirvöld og allt samfélagið kóar með fíklum og ógæfufólki og viðheldur eymd þessa hóps með ýmsum hætti. Ég hugsa að stór hluti óreglufólks sé á opinberum bótum sem það notar ekki sér til framfærslu heldur til að viðhalda fíkn sinni.
![]() |
Innlegg úr söfnun fóru jafnóðum inn á persónulegan bankareikning forstöðumanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2007 | 17:26
Ósagðar sögur
Mál nr. 290 frá 2000 segir sögu af kynferðisofbeldi gegn heyrnarlausum stúlkum. Það er áhugavert að skoða hvern þátt Stígamót átti í að það mál komst upp á yfirborðið. Það sama á við um sögu Thelmu Ásdísardóttur. Ég hef heyrt marga segja núna um kynferðisrbrot gagnvart heyrnarlausum að það sé aðalmálið að heyrnarlausir hafi ekki mátt nota táknmál, þess vegna hafi þessar sögur verið þaggaðar. Ég held að það sé ekki rétt. Það eru margar svona sögur þaggaðar niður jafnvel þó þolendur séu fullkomlega færir að tjá sig á íslensku. Þetta hefur meira að gera með valdaleysi þolanda, á hann er ekki hversu vel sem hann tjáir sig.
Ég hugsa að ef ekki hefðu verið til svona samtök eins og Stígamót og ef ekki hefði komið til sú umræða sem femínistar hafa beitt sér fyrir varðandi kynferðisofbeldi þá væru þetta ennþá ósagðar sögur.
Reyndar held ég að einangruð samfélög séu í meiri hættu. Ég man eftir nýlegu máli varðandi samfélagi á afskekktri eyju í Kyrrahafinu. Þar kom í ljós að kynferðisofbeldi gagnvart börnum var gífurlega algengt. Sjá hérna:
Bloody history of empire's last outpost
Pitcairn sexual assault trial of 2004 - Wikipedia, the free ...
Konur á Pitcairn verja sakborninga
Það eru líka vísbendingar um að kynferðisofbeldi gagnvart börnum sé gífurlega algengt á Grænlandi. Það eru mörg samfélög afskekkt og einangruð á Íslandi. Það er ekki ástæða til að halda að samfélag heyrnarlausra sé eina samfélagið þar sem kynferðisofbeldi er svona algengt.
![]() |
Tillögur um aukna ráðgjöf fyrir heyrnarlausa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 14.1.2007 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.1.2007 | 16:34
Tungumálakunnátta og elliglöp
Merkilegt að þeir sem eru tvítyngdir sýni merki elliglapa seinna en aðrir. Þetta er ennþá ein vísbendingin um að það sem er vefrænn sjúkdómur þ.e. Alzheimer er háður umhverfisþáttum og lífstíl. Jafnvel þó ekki sé enn sem komið er hægt að lækna sjúkdóminn og sennilega sé erfðafræðilega ákvarðað hvort fólk fær Alzheimer þá er getur ýmis konar andleg áreynsla og þjálfun tafið framgang og hvenær sjúkdómurinn gerir fólk ósjálfbjarga.
Fólk sem hefur búið í umhverfi sem krefst þeirrar andlegu áreynslu að skipta milli tungumála hefur ekki komist hjá því að reyna meira á heilann og nota mismunandi heilabrautir. Ef til vill hefur það fólk komið sér upp einhverjum varaleiðum fyrir taugaboð. Það lifir sennilega í samfélagi sem reynir meira á hugann og ef það þarf að vera viðbúið að skipta milli táknkerfa oft á dag þá er það mikil örvun fyrir heilann. Það mætti segja mér að ef gerðar væru athuganir eftir einhver ár á okkur sem höngum á Netinu þá sé það sennilega okkur í vil, það er heilmikið heilaleikfimi að æða milli vefsíðna og skanna það nýjasta á BBC og hraðlesa allt um nýjustu tækniundrin á Engadget og hlaða ínn alls konar stöffi á vélarnar okkar og prófa alltaf nýtt og nýtt.
Ég hef oftar en einu sinni heyrt fólk sem á fullorðna ættingja sem eru komnir út úr heiminum að mestu segja frá því að jafnvel þó það hafi ekki getað haft samband við ættingja sinn með venjulegu máli þá hafi það getað sungið með honum og hann munað texta og lag. Það bendir til að rytmi í tjáningu eins og söng geti farið aðrar boðleiðir en venjulegt tal.
Alzheimer sjúkdómnum var fyrst lýst árið 1906 af lækninum Alzheimer sem lýsti geðveiki konu sem var sjúklingur hans. Hún var krufin og hann fann í heila hennar kekki eða útfellingar og flækjur í taugatrefjum. Það var ekki fyrr en árið 1984 að vísindamenn fundu út að þessir kekkir í heila alzheimer sjúklinga eru skellur úr próteininu amyloid. Sú tilgáta er núna uppi að það séu svona amyloid útfellingar sem smám saman drepi heilafrumurnar þegar þetta hleðst upp í heilanum. Það gerist á 3 til 12 árum. Líkur á að fá Alzheimer aukast tvöfaldast á hverju fimm ára bili yfir 65 ára og þegar maður er orðinn 85 ára þá eru líkur á Alheimer orðnar mjög miklar. Einhvers staðar las ég að flestir sem eru með Downs heilkenni virðist fá Alzheimer.
Þeir sem þjást af offita eða sykursýki eða hafa fengið höfuðáverkar virðast frekar fá Alzheimer. Það getur verið að gott mataræði (miðjarðarhafsmataræði), mikil neysla andoxunarefna (ávextir), omega-3 fitusýra (lýsi), karrý (efnið curcumin sem finnst í turmeric), rauðvín og marijuana hafi áhrif til góðs.
![]() |
Tungumálakunnátta tefur fyrir elliglöpum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2007 | 18:53
Skyldi þetta vera ofauðgun?
mynd sem ég teiknaði af ofauðgun í íslensku wikipedia.
Skyldu fiskarnir í Grundarfirði hafa dáið út af ofauðgun í sjónun? Mér sýnist það á fréttinni. Það lítur samt út fyrir að sá sem skrifaði fréttina sé ekki alveg að fatta hvað var að gerast, fyrirsögnin er að súrefnistigið mælist yfir hættustigi en svo í fréttinni sjálfri þá kemur fram að súrefni mælist mjög lágt.
Lokaverkefni mitt í háskóla í USA var tölvustudd námsefni um líf í opnu hafi. Verkefnið var nú tæknilegt og kennslufræðilegt og mestmegnis pælingar hvernig maður setti fram námsefni á tölvu. En ég þurfti að lesa mér mikið til um efnið og síðan þá hef ég alltaf haft mikinn áhuga á lífríki sjávar, bíomassahreyfingum í hafinu s.s. vorhámarki svifþörunga og hvernig lífskilyrði einnar tegundar hefur áhrif aðra og svo hvað ræður því hve mikill fiskur veiðist.
Eftir að ég fékk áhuga á Wikipedia verkefninu þá hef ég reynt að skrifa eins margar greinar og ég get um lífríki sjávar. Bæði út af því að mér finnst þetta svo áhugavert og svo finnst mér svo mikil þörf á því að Íslendingar viti eitthvað um þessa fjársjóðskistu sem þeir sitja á og finni til ábyrgðar sinnar á því að gæta silfurs hafsins og lífríkis hafsins.
Það er mikil vakning núna um náttúruna á hálendinu og vonandi mun þessi vakning halda áfram og fólk átta sig á hve íslensk náttúru í hafinu og við strendur landsins er stórmerkileg og hvað það er mikilvægt að fara að öllu með gát t.d. varðandi fiskeldi og hafnariðnað.
Ein af greinunum sem ég skrifaði á íslensku wikipedia er um ofauðgun. Ég er virkilega hreykin af þeirri grein, ekki síst vegna þess að ég vissi akkurat ekki neitt um þetta fyrirbæri þegar ég skrifaði greinina. Ég fékk bara áhuga á eitrun í sjávarlífverum og skrifaði fyrst grein um eiturþörunga í sjónum og þörungablóma í framhaldi af því þá skrifaði ég grein um ofauðgun, aðallega til að geta prófað að búa til skýringamynd í Inkscape sem er ókeypis, opinn hugbúnaður til að teikna með og virkar þrælvel fyrir svona skýringarmyndir.
![]() |
Súrefnisstig sjávar í Grundarfirði mælist yfir hættustigi í slæmu veðri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.1.2007 | 19:18
Föndur dagsins : Zapatista vetrarhúfur
Ég held áfram með föndurþátt á þessu bloggi og föndurhugmynd dagsins er Zapatista vetrarhúfur fyrir íslenska veðráttu. Þetta eru einkar klæðilegar flíkur og henta vel fyrir íslensk vetrarveður. Auðvelt er að prjóna svona húfur og má prjóna bæði á hringprjón og sem klukkuprjón eða garðaprjón. Svo má skreyta húfurnar með ýmsum merkjum og þær þurfa ekki endilega að vera svartar og það má gjarnan setja húfu á húfu.
Það má líka kynna sér uppruna húfunnar hérna:
Lausleg samantekt um zapatista-uppreisnina í Mexíkó og
Fleiri myndir af þessum fallegu húfum
Zapatista menningin er mjög myndræn og tíðkast að skreyta byggingar og veggi og bera borða með myndum. Zapatistar eru uppreisnarmenn sem berjast fyrir réttindum frumbyggja í Chiapas sem er fátækasta héraðið í Mexíkó.
Tölvur og tækni | Breytt 27.10.2007 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2007 | 23:20
Ein tölva á barn - kaupa tvær
Loksins gleðileg frétt. Ég hef fylgst lengi með þróun á OLPC, (One Laptop Per Child) og held að það sé eitt það mest spennandi sem nú er að gerast í þróunarsamvinnu. Ég held hins vegar að það sé of mikið látið með tölvuna sjálfa, það sem kemur til með að stranda á varðandi notkun er ekki bara vélbúnaður heldur að það vantar kennara sem kunna að skipuleggja nám þar sem allir nemendur hafa slíka fartölvu og það vantar námsefni fyrir þessar tölvur.
- Video: Hands-on with OLPC
- BBC NEWS | Technology | $100 laptop could sell to public
- OLPC Human Interface Guidelines - OLPCWiki
- YouTube - Slightly better demo of the OLPC User Interface
- Hugmyndir N. Negroponte um skólastarf á Upplýsingaöld (pistill sem ég skrifaði árið 1998)
Sniðugt að styrkja barn í þróunarlandi með því að kaupa tvær svona. Eitt af nýársheitunum hjá mér er líka að vinna að efni fyrir ung börn sem gæti verið hluti af námspakka fyrir svona tölvur þ.e. að vinna efni sem er með CC leyfi þannig að hver sem er geti notað það áfram og breytt því.
![]() |
Barnafartölva seld almenningi í góðgerðaskyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 11.1.2007 kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.1.2007 | 18:38
Fjárhættuspil er fátækraskattur
Það er ljótt að stela frá þeim sem eru vitlausir og fákunnandi og það er ljótt að nýta sér veikleika fáráðlinga til að féfletta þá. Ríkisrekið fjárhættuspil er ekki annað en skattur á fátæklinga. Það þýðir nú samt ekki að lausnin sé að einkavæða þannig rekstur og leyfa einhverjum skrýtnum netfyrirtækjum að féfletta fáráðlinga á Íslandi og flytja hagnaðinn inn á eigin reikninga í erlendum skattaparadísum til að geta staðið undir munaðarlífi sínu. Það er ljótt að sjá að fjármálafyrirtæki, dagblöð og háskólar á Íslandi tengist spilavítisrekstri sb. þennan pistil hjá Steingrími Sævari: Veðmál inn á sjálfu Morgunblaðinu
Vilhjálmur borgarstjóri stendur sig vel að vilja ekki fjárhættuspilasali í Reykjavík.
Það er einhver smíðagalli í mannkyninu varðandi fjárhættuspil og áhættuhegðun með peninga. Sennilega kemur það sér vel í lífsbaráttunni út í náttúrunni að taka einhverja áhættu og prófa þó það heppnist ekki nema endum og eins. Í viðskiptum og á umróts og breytingatímum þarf fólk sem er tilbúið til að prófa breytingar og heldur ótrautt áfram þó þær mislukkist stundum.
Það eins með spilafíkn og fíkn í áfenga drykki og önnur vímuefni, þessi vandamál hafa fylgt mannkyninu í mörg árþúsund og valdið svo miklu böli að víðast hvar hefur verið gripið til ýmis konar ráðstafanna svo sem boða og banna opinberra aðila og fordæmingar á fjárhættuspili af trúarástæðum.
Ég hef alltaf verið á móti fjárhættuspili, mér finnst það viðbjóðslegt og ganga út á að blekkja fólk og fá það til að ráðstafa fé sínu á fávíslegan og siðlausan hátt. Peningar eru skiptimynt vöru og þjónustu sem fólk framleiðir og flæði peninga um samfélagið í gegnum viðskipti er mikilvægt til að lífskjör okkar séu sem best. En þegar við erum farin að líta á peninga sem verðmæti í sjálfu sér og farin að stunda iðju sem gengur út á að skipta þeim fram og til baka án þess að einhver verðmæti séu bak við það þá erum við búin að tapa áttum.
Því miður þá virðist mér íslenskt samfélag hafa tapað áttum í þessu fyrir guðslifandi löngu og skýrasta dæmi um það er hvað er boðið upp á dýrasta auglýsingatíma á "prime time" í íslensku sjónvarpi. Það eru lottóauglýsingar og lottóúrdrættir. Ég hef fyrir reglu að þusa alltaf yfir þessu og æsa mig yfir lottókúltúrnum í sjónvarpinu dætrum mínum til sárrar gremju en ég hætti ekki því ég trúi á mátt endurtekningarinnar og vona að mér takist að innræta þeim sömu andúð á þessari iðju með því að endurtaka þetta nógu oft.
Það má rifja upp að einn þekktur jólasveinn á Íslandi, forsetaframbjóðandinn Ástþór rak svona spilavíti á Netinu.
Stundum er rætt um útgerð spilavíta sem arðbæra iðju og ég yrði ekki hissa þó einhver ruglarinn komi með tillögu um að leyfa spilavíti á Íslandi og gera út á erlenda aðila sem koma hingað af því hérna sé allt leyfilegt. Þannig eru spilavíti rekin víða um heim t.d. í Bandaríkjunum. Þar eru spilavíti rekin í fylkjum sem eru bara eyðimerkur og sem hafa lög sem leyfa spilavíti og svo í fljótabátum og svo síðast en ekki síst á verndarsvæðum Indjána. Það var ömurlegt að ferðast um svæði Indjána í suðurríkjum Bandaríkjanna, alls staðar var verið að setja upp spilavíti og það virtist vera aðalatvinnugreinin. Þetta er út af því að verndarsvæðin mega hafa eigin lög og fólk úr nærliggjandi byggðum kemur á verndarsvæðin til að spila fjárhættuspil sem er bannað í fylkinu nema á verndarsvæðunum.
Það er ofsagróði af þessum Indjánaspilavítum en þessi gróði er tilkominn vegna þess að það eru ekki fleiri um hituna og vegna takmarkana annars staðar. Ef engar hömlur væru á fjárhættuspilarekstri þá myndi sennilega enginn spila á verndarsvæðunum.
Ég skrifaði þetta á blogg um Indjánaspilavíti fyrir fimm árum:
16.5.02
( 9:23 AM ) Salvor GissurardottirSpilavíti á verndarsvæðum Indjána
Það var í fyrrakvöld danskur fræðsluþáttur í sjónvarpinu um Indjána í Ameríku. Í þættinum var fjallað um hve Indjánar væru að sækja í sig veðrið, legðu áherslu á að sækja rétt sinn með lögum og legðu rækt við menningararf sinn. Þetta er alveg rétt og það er ekki bundið við þá sem rekja ættir sínar til Indjána að hafa áhuga á þessari arfleifð. Bandaríkjamenn eru stoltir af þessum menningararfi og saga Ameríku hófst ekki þegar Cólumbus gekk þar á land, hluti af sögu Bandaríkjanna er t.d.Anasazi fólkið sem bjó í New Mexíkó.
The Anasazi - DesertUSA
Sipapu
Anasazi Site Planning
Það stakk mig samt að í þessum þætti var farið mjög lofsamlegum orðum um það framtak Indjána að byggja spilavíti á verndarsvæðum sínum. Ég var á ferð í suðurríkjum Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum og fór um mörg verndarsvæði. Alls staðar þar sem þau lágu að stórum borgum eða samgönguæðum höfðu verið sett upp spilavíti. Þetta er vegna þess að verndarsvæðin lúta ekki fylkislögum og þarna er glufa til að bjóða upp á þjónustu sem er bönnuð í nærliggjandi fylkjum
Það er núna stórt hneykslismál í Bandaríkjunum varðandi almannatengslamanninn Jach Abramoff sem vann við að sannfæra stjórnmálamenn um ágæti spilavíta á verndarsvæðum Indjána. Það tengist stjórnmálaflokkum í USA sem munu hafa fengið 5 milljónir dollara til að liðka til fyrir lögum um spilavíti Indjána. Repúblikanari fengu 2/3 af fénu, Demókratar 1/3 þannig að smurningsolían virðist hafa verið borin á alla.
Vonandi er þetta bettson spilavíti í eigu íslenskra aðila ekki að spreða fé í íslenska stjórnmálaflokka.
En þetta er áhugaverð saga um hinn spillta Jach Abramoff og fall hans, sjá hérna:
Jack Abramoff lobbying and corruption scandal
![]() |
Hafði næstum spilað mig til bana" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)