Plögg fyrir álver hjá Dorrit forsetafrú og Ríkisútvarpinu

Kastljósið í gær var viðtal Evu Maríu við Dorrit Moussaieff forsetafrú. Ég berst við að láta Dorrit njóta sannmælis og spái í hvort ég hafi fordóma gagnvart útlendingum, fordóma gagnvart skartbúnu ríku fólki sem vill umgangast frægt og áhrifamikið fólk eða fordóma gagnvart fólki í viðskiptum. Ég held það geti alveg verið og ég er ekkert að fegra sjálfa mig en mér fannst þetta viðtal við Dorrit vera í algjörri falsettu og laust við einlægni. Ég held að Dorrit sé kjarnorkukona og hún er örugglega dugleg í viðskiptum. En það eru nokkur tilvik sem fylla mig tortryggni gagnvart því  hversu einlægt það er sem hún segir.

Guðmundur Magnússon  hefur bent á að það er sama almannatengslafyrirtækið sem vinnur fyrir álverið og forsetaembættið. Þetta innslag í þættinum var eins og  ímyndarauglýsing fyrir álverið.  Nú er ég alls ekki að tala sem hatrammur vinstri grænn álversandstæðingur, ég styð uppbyggingu á atvinnulífi og finnst ekkert að áliðnaði fremur en öðrum iðnaði svo fremi sem það sé ekki mengandi og lífshættuleg iðja en ég vil fá að taka afstöðu án þess að Ríkisútvarpið og forsetafrúin gangi erinda  þeirra afla sem hafa auðmagn og  hafa hagsmuna að gæta.

Svo fannst mér innslag forsetafrúannar um stjórnmál í heiminum vera afar seinheppið. Það er henni ekki til sóma hvernig hún hegðaði sér á ísraelskum flugvelli og það hefði verið meiri háttar diplómatamál nema af því um er að ræða svona mikið dvergríki eins og Ísland. Svo fannst mér í þessum Kastljósþætti hún viðhafa taktleysi í umræðu um alþjóðamál en mér finnst eins og það sé ekki heit einlæg ósk hennar með þessum yfirlýsingum að vinna að friði heldur vaki bara fyrir henni klekkja á Ísrael, ef hverju byrjar hún núna að tala opinberlega um að Jerúsalem eigi að vera alþjóðleg borg og að lýsa andstöðu sinni á Írak og upphefja lífið í Írak á tímum Saddams?  Er það út af því að það passar núna þegar hún hefur verið niðurlægð af ísraelskum yfirvöldum og hefur afsalað sér ríkisborgarrétti þar? Við erum sennilega núna flestir Íslendingar sannfærðir um að innrás Bandaríkjanna í Írak hafi verið mistök en það hljómar ekki sannfærandi eða diplómatiskt að forsetafrú sem á harma að hefna við náinn bandamann Bandaríkjanna mæli þetta fram. Dorrit segir í rökum sínum: "You dont fight people that do not harm you". Þýðir það þá að hún hafi haft sömu skoðun á innrásinni í Afganistan?  Átti ekki að ráðast inn í Afganistan af því að þar voru Talibanar sem ekki voru ógn við Vesturlandabúa?  

Það var líka falskur tónn í því hvernig Dorrit talaði um hve peningar og veraldleg gæði eru einskís virði og hún lýsti andstöðu á neysluhyggju. það eru allt of margar myndir af henni sem holdgervingi þessarar sömu taumlausu neysluhyggju sem hafa birst af ýmsum tilefnum.

 Ég veit reyndar ekki hvort sú manngæska og samúð fyrir lítilmagnanum og þeim sem hafa brotið allar brýr að baki sér birtist í lífi Dorritar, í Kastljósþættinum þá segist hún bera kjör þeirra fyrir brjósti. Á flestum myndum sem maður hefur séð í pressunni þá er hún ekki í hópi þeirra hrjáðu og smáðu heldur að baða sig í sviðsljósinu í hópi þeirra sem líka eru í framlínu viðskipta og auðæva og þjóðhöfðingja og að mæta eins og drottningarfulltrúi eða verndari samtaka við hátíðleg tækifæri, svona sem "first lady of Iceland".

Ef hún hefur gert eitthvað til að bæta kjör þeirra sem eru hrjáðir og smáðir  þá hefur það farið fram hjá mér en það má vera að hún styrki ýmis konar mannúðarstarfsemi í kyrrþey og hjálpi persónulega illa stöddu fólki að fóta sig aftur í lífinu, ég vona það.

Svo er alls ekkert sannfærandi þegar hún talar um að hún vilji forðast fréttaflutning af lífi sínu, flestir Íslendingar muna ennþá eftir því  tilfinningalega svigrúm sem Ólafur forseti bað um á sínum tíma í tilhugalífinu og svo senunni þegar hann handleggsbrotnaði í einhverri hestaferð með Dorrit og það var óvart ljósmyndari frá einhverju erlendu tímariti staddur með í þeirri ferð til að taka svona myndir af ástarævintýrinu á norðurhjara væntanlega til að birta í einhverju útlendu glanstímariti.

En ég held að það sé einlægt þegar Dorrit talar um Ísland eins og viðskiptafyrirtæki og hún sé í eins konar almannatengslum fyrir landið "market Iceland abroad" eins og hún orðar það. Ég held líka að Ólafur Ragnar vinni heilmikið í því. Það sem mér gremst hins vegar er að ég held að þau vinni bæði frekar fyrir þá sem sem hafa fjármálaleg völd í landinu og tengjast stórfyrirtækjum í útrás og alþjóðlegum fyrirtækjum sem eru að tryggja ítök sín hérlendis heldur en hinn almenna Íslending.

Ef til vill er þetta nútíminn, við höfum núna forsetapar sem er fulltrúar alþjóðavæðingarinnar og hinnar ríku sem eru að verða ríkari  og óhefts flæðis fjármuna milli landa. Það er náttúrulega við hæfi, það hefur samfélagið á Íslandi gengið út á síðustu misseri. En kannski verður það ekki endilega í framtíðinni.

Viðbót 16. janúar - Dorrit og samsærið

Sigmar skrifar pistilinn Dorrit og samsærið  þar sem hann fjallar um þennan bloggpistil og ef rýnt er mjög vandlega og djúpt í texta hans þá má greina merki um að hann sé ekki hrifinn af minni orðræðu en Sigmar segir :

Er til of mikils mælst að fólk hugsi pínulítið áður en það vegur að fjölmiðlafólki með svona bulli? ....Það er oftast vit í því sem Salvör segir en þessi pistill er vanhugsaður.Í honum má greina þekkingarleysi á störfum ritstjórna og andúð í garð forsetafrúarinnar.

 

Eins og vanalega þá tek ég vel gagnrýni frá svona miklum andans jöfrum  og beygi mig í auðmýkt og reyni að gera iðrun og yfirbót. Ég klóra samt soldið í bakkann og skrifaði þessa athugasemd áðan við bloggið hjá Sigmari:

Takk fyrir að benda mér á að ég ruglaði saman álverinu og járnblendinu, ég hef tekið það út. Einnig hef ég lagfært og mildað það sem ég segi um álversinnslagið. Það var ekki ætlun mín að vega að fjölmiðlafólki og mér finnst Eva María vera frábær fjölmiðlamaður.  Það kann að vera að umsjónarmönnum Kastljóss sárni gagnrýnin umræða um að hugsanlega sé reynt að planta þar inn einhverju efni.

Þetta er nú samt sá fjölmiðlaveruleiki sem ég hef lifað við á Íslandi síðan ég byrjaði að fylgjast með fjölmiðlum og er þar RÚV ekki undanskilið. Stjórnmálamenn reyna að hafa áhrif á fjölmiðlaumræðu og hér á árum áður þá horfði maður á hvern fréttatímann á fætur öðrum sem var bara samsett úr ráðherraviðtali eftir ráðherraviðtal. Ráðningar á fjölmiðla hafa farið eftir flokkspólitiskum línum og þeir sem hafa verið lengst við völd (lesist Sjálfstæðismenn) hafa reynt að tryggja heiðbláan lit á fréttastofu RÚV og áttað sig vel á því að þarna væri útungunarstöð fyrir pólitíkusa framtíðarinnar, skjáþokki og þjálfun í sjónvarpsumræðu hefur verið góð leið til að ná til fjöldans.

Það sem hefur breyst er að það hefur fjarað undan stjórnmálamönnum og þeir hafa ekki sama tangarhald á fjömiðlum, flokksblöðin gufað upp og ítökin á RÚV orðið lausari. En það hafa aðrir tekið við völdum og leggja sama ofurkappið á að miðla sínum sannleika og sinni heimssýn til almennings. Núna eru valdamestu gerendur í íslensku þjóðlífi auðmenn og viðskiptajöfrar í útrás og erlend stórfyrirtæki í innrás. Það þarf að vera  blindur til að sjá ekki hvaða ofurkapp slíkir aðilar leggja á að tryggja sér aðgang að fjölmiðlum á Íslandi.  

Það er einmitt út af þessu sem ég er eindreginn stuðningsmaður Ríkisútvarps. Ég tel mig alveg geta gagnrýnt það sem einn af eigendum þess (á einn hlut á móti þrjú hundruð þúsund öðrum) og ég tel skyldu mína að vera vakandi yfir því að það endurspegli sjónarmið allra íbúa á Íslandi og þar sé ekki slagsíða á einhver ákveðinn viðhorf sem valdamiklir aðilar vilja halda að okkur. Ég hætti alveg á það að orðræða mín sé sögð vanhugsuð og byggð á þekkingarleysi á hvernig ritstjórnir vinna og andúð á forsetafrú. Ég reyni ekki að breiða yfir að ég er hvorki aðdáandi forsetafrúarinnar né forsetans og ég tel þau ekki vera neitt að vinna fyrir almenning á Íslandi. Ég tel líka að ég hafi fordóma gagnvart forsetafrúnni m.a. vegna þess að hún kemur úr umhverfi sem er mér framandi og ég kann ekki að meta og skil ekki.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dorrit er virkilega flott kona sem kann að koma sér á framfæri, gerir það vel og reyndar miklu betur en höfundur þessarar "litlu" greinar sem ber vott af ákveðinni öfundssýki og þröngsýni. 

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 20:27

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Þakka þér fyrir þessa prýðilegu yfirferð, Salvör. Ég hafði sjálfur ekki geð í mér til að sitja undir þessu viðtali enda var glassúrinn svo þykkur að manni var ómótt.

Páll Vilhjálmsson, 15.1.2007 kl. 21:45

3 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæl Salvör. Ég er enn að melta þetta viðtal. Ég verð samt að segja það að ég er sammála þér að mörgu leiti í því sem þú segir hér í þessari athugasemd.  Mín skoðun í dag á forsetaembættinu er augljós. Leggja það niður. Við eigum ekki að hafa svona glamúrlífstílista á launum. Þetta var skömm að mínu mati og dæmi um hræsni að mínu mati.

Sveinn Hjörtur , 15.1.2007 kl. 22:52

4 identicon

úff já eflaust yndæliskona en stendur fyrir hluti sem eru ekki efst á mínum vinsældalista. Þegar hún og Ólafur fóru í ferð til Kína til að kynnast íslenskum viðskiptaítökum þar sagði hún einmitt svo eftirminnilega eitthvað á þá leið að Íslendingar ættu eftir að hagnast svo mikið á viðskiptum í Kína að allar íslenskar konur gætu keypt sér demant! úff hvað mig langar ekki í demant...

Auður Magndís (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 22:55

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er góð líking að glassúrinn var svo þykkur að það  er bara  óhollt fyrir alla að innbyrða svona sykurleðju. 

Auður Magndís, gaman að sjá að fólk í London fylgist með moggablogginu. Af hverju stofnar þú ekki moggablogg og byrjar að útbreiða sannleikann sem við báðar trúum á? það kemur mér virkilega á óvart að þú viljir ekki eiga fullt af demöntum.
 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.1.2007 kl. 00:05

6 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Er berlega að koma í ljós að við höfum svo ekkert að gera við þetta blessaða tilgangslausa forsetaembætti. Það dó þegar það fór að vasast í pólitík

Rúnar Haukur Ingimarsson, 16.1.2007 kl. 00:48

7 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Blessuð Salvör

Mér finnst pínulítið óviðeigandi hvernig þú dæmir álversandstæðinga með eftirfarandi staðhæfingu:

"Nú er ég alls ekki að tala sem brjálaður vinstri grænn álversandstæðingur, ég styð uppbyggingu á atvinnulífi og  og finnst ekkert að áliðnaði fremur en öðrum iðnaði svo fremi sem það sé ekki mengandi og lífshættuleg iðja "

Eru nú þeir sem styðja annars konar atvinnuuppbyggingu orðnir brjálaðir? Það er ótrúlegt að þú skulir láta slíkt út úr þér :)

Þú segir að þú hafir ekkert á móti áliðnaði eða öðrum iðnaði ef hann er ekki mengandi og lífshættulegur. En er það ekki einmitt það sem áliðnaðurinn er? Mjög mengandi og lífshættulegur. Fengu ekki börn í Noregi í álversbæ krabbamein af völdum mengunar þar? Er ekki fólk að verða ansi mikið veikt í kringum áliðnaðinn víða um heim? Hefurðu ekkert lesið þig til um það? Það er kannski einmitt þess vegna sem sumir eru að tala gegn frekari áliðnaði, vegna þess að hann er mjög mengandi og lífshættulegur ;)

Andrea J. Ólafsdóttir, 16.1.2007 kl. 01:04

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Merkilegt hvernig frú Dorrit lýsti því yfir, að hún mætti ekki stöðu sinnar vegna tala um pólitík. Fór svo á fullt að tala um pólitískustu mál heimsins.

Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 01:38

9 identicon

og spái í hvort ég hafi fordóma gagnvart útlendingum, fordóma gagnvart skartbúnu ríku fólki sem vill umgangast frægt og áhrifamikið fólk eða fordóma gagnvart fólki í viðskiptum.

Salvör mín. Ég held að þú hafir þessa fordóma sem þú vars að spá í hvort þú hefðir...

Þín vinkona, Hrafnhildur Þórólfsd

Hrafnhildur Þ (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 10:02

10 identicon

Gylfi talar um öfund og þröngsýni.Vísa því til föðurhúsa enda skoðanafrelsi í landinu sem betur fer.Þetta hefur ekkert með útlit konunnar að gera,bara alls ekki,þetta hefur með trúverðuleika að gera,og með einum eða öðrum hætti var einhver holur hljómur í þessu viðtali,og nýjar upplýsingar frá því sem áður hafði verið kynnt ein og t.d.menntun konunnar.Predikun hennar um hvað betur mætti fari hjá okkur var bara ekki trúðverðug.Ég þekki til dæmis fólk sem á lítið en gefur það þó allt,og án þess að pressann sé viðstödd.Ég virði hins vegar skoðannir þeirra sem hrífast af þessu leikriti,en áskil mér rétt á að hafa megnustu skömm á því

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 10:26

11 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Jón Valur.

Það er rét sem þú segir. Hún var voða varasöm að segjast ekki mega tala um stjórnmál, og svo bara varð hún með munnræpu....

Sveinn Hjörtur , 16.1.2007 kl. 10:26

12 identicon

Myndirnar úr hestaferðinni eru eftir Gunnar V Andrésson, ljósm. sem þá hefur sennilega verið á DV. Mér finnst engin ástæða til að gera lítið úr hans verki sem var ágætlega unnið hvað sem líður skoðunum fólks á fyrirsætunum. 

björn j 

björn j (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 11:39

13 identicon

Til Andreu

Að segja:"En er það ekki einmitt það sem áliðnaðurinn er? Mjög mengandi og lífshættulegur. Fengu ekki börn í Noregi í álversbæ krabbamein af völdum mengunar þar? Er ekki fólk að verða ansi mikið veikt í kringum áliðnaðinn víða um heim? Hefurðu ekkert lesið þig til um það? Það er kannski einmitt þess vegna sem sumir eru að tala gegn frekari áliðnaði, vegna þess að hann er mjög mengandi og lífshættulegur ;)".  getur gert það freistandi að kalla andstæðing álversframkvæmda brjálaðan vinstri grænan. 

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan á Íslandi

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 12:12

14 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

hæ Andrea, ég breytti brjálaður vinstri grænn í  hatrammur vinstri grænn ég skrifaði þetta bara af gömlum vana, ég er svo vön að heyra og nota sjálf orðið brjálaður um aktívista þ.e. þá sem vilja gera eitthvað í málunum s.b."brjálaðir femínistar". Orðið brjálaður hefur í mínum huga ekki lengur neina neikvæða merkingu. skal líka breyta hatrammur ef þér finnst það ekki nógu gott - annars er það flott orð, sá sem hefur afl út af hatri eða óbeit á einhverju.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.1.2007 kl. 12:20

15 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir björnj að benda á að ljósmyndirnar úr hestaferðinni eru eftir Gunnar V Andrésson.  Þetta var ævintýraleg hestaferð.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.1.2007 kl. 12:22

16 Smámynd: Kristján Pétursson

Viðtalið við forsetafrúna var frábært.Blátt áfram og einlæg,skynsöm kona,sem við getum verið stolt af.Vitanlega á hún að hafa skoðanir á þjóðmálum,hún hefur allt frá komu sinni fyrst til Íslands farið lofsamlegum orðum um land og þjóð og sýnt það vissulega í verki.Er það pólutík að vera á móti Írak stríðinu,sem mikill meirihluti þjóðarinnar var á móti.Kærar þakkir Dorrit fyrir frábært viðtal.

Kristján Pétursson, 16.1.2007 kl. 13:53

17 Smámynd: Hildur Sif Kristborgardóttir

Flott blogg hjá þér Salvör. Fyrir mína parta þá finnst mér hún Dorritt stórglæsileg kona og ísland mátti alveg við því að komast úr sauðgærunni og fá svona flotta konu með öll þessi sambönd hingað á land. Ég er ekki að segja að ég sé sammála því að hafa forsetaembættið en ef ekki það þá verður bara fundinn einhver fáranleg leið til að eyða þessum peningum svo er hún sjáld moldrík. Ég hef sjálf unnið á auglýsingardeild á stórum fjölmiðli og ég veit að eigin hendi að stjórnmálamenn eða eigendur eru ekki að skipta sér að ristjón miðlanna... Þetta er ein mesta samsæriskenning sem ég veit um og skil ekki af hverju fólk er alltaf með það á heilanum og ef svo væri eigum við ekki að líta til annara landa og sjá hvað er að gerast þar með fjölmiðla og stjórnmálmenn og forseta. Það sem hræðir mig meira en nokkuð annað er Davíð Oddson ég fæ bara hræðslutilfinngu að vita að sá maður er seðlabankastjóri.. en allavega mjög flott blogg hjá þér alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar og auðvitað er málfrelsi og fólk má segja sýnar skoðanir..

Hildur Sif Kristborgardóttir, 16.1.2007 kl. 18:25

18 Smámynd: Hildur Sif Kristborgardóttir

p.s afsakið með allar þessar stafsetingarvillur

Hildur Sif Kristborgardóttir, 16.1.2007 kl. 18:26

19 Smámynd: Sveinhildur Torfadóttir

Ég segi bara Húrra fyrir Dorrit...mér finnst hún einn glæsilegasti fulltrúi Íslendinga. Og við megum vera stolt af henni. Hún hefur sterkan og góðan karakter, og þorir að vera hreinskilin. Að kalla það pólitíska umræðu að vera á móti því að drepa saklaust fólk...hmm...get ekki alveg skilið þig að finnast það vera eitthvað pólitískt. Stríðið í Írak voru og eru mistök, og það er bara greyið hann Bush sem hefur ekki áttað sig á því, enda ekki sá best gefni.  Og já ég held að það votti fyrir ansi mikilli afbrýðisemi hjá þér. 

lifðu heil 

Sveinhildur Torfadóttir, 16.1.2007 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband