Færsluflokkur: Tölvur og tækni
5.3.2008 | 17:29
Fimm netfundadagur
Þetta er sex fundadagur. Það sem af er þessum degi hef ég farið á fjóra netfundi og einn venjulegan gamaldags fund í fundarherberginu í Bolholti. Þar minntumst við þess að það eru 10 ár síðan fyrsta kennslukerfið var tekið í notkun í KHÍ. Það var kerfi sem hét Web Course in a Box, ég prófaði það á námskeiðum 1998. Núna einkennist fjarnámið hér við skólann af því að hér er notað Web CT kennslukerfið. Ekki hefði mig grunað hvað miklar breytingar hafa orðið á bara einum áratug. fyrir utan alla þessa netfundi í dag þá hef ég líka tekið þátt í umræðum og sent tilkynningar til nemenda inn í WebCT í dag.
Eftir korter fer ég svo á síðasta netfund dagsins.
Fyrst fór ég á fund í kerfinu operator11.com með nemendum sem voru að koma úr vettvangsnámi, þau sögðu frá hvernig þeim gekk á vettvangi og hvað þau sáu þar. Svo fór ég á fund með fólki sem er að undirbúa Nordplus umsókn, sá fundur fór fram í kerfinu Breeze frá Adobe fyrirtækinu. Svo fór ég á útsendingu þar sem nemendur á öðru námskeiði voru með netkennslustund í ustream.tv. Það voru 12 sem fylgdust með útsendingunni. Það gekk mjög vel.
Svo kíkti ég aðeins inn á spjall þar sem nemendur hittust eftir netútsendinguna á mebeam.com sem er svona vídeóspjall þar sem allir geta verið í mynd á sama tíma. Svo byrjar núna rétt bráðum seinasti fundur dagsins í operator11.com
Núna eru allir nemendur mínir með vefmyndavél og hljóðnema en svona netfundir eru samt frekar nýir af nálinni og oft klikkar tæknidótið eða virkar svo illa að það er ekki hægt að notast við það.
Á morgun fer ég til Kaupmannahafnar á NERA ráðstefnuna.
Skjámyndir úr breeze og mebeam.
Svona upp á Nostalgíuna þá lími ég hérna inn bréf sem ég sendi fyrir akkúrat 10 árum (5. mars 1998) til samstarfsmanna eftir að Sólveig Jakobsdóttir hafði bent á mjög sniðugt kennslukerfi á vefnum. Það fjallar um kennslukerfi sem er að ég held það fyrsta sem prófað var í íslenskum skólum. Ég man að nemendum fannst mjög sérstakt að það væri hægt að taka próf á vefnum. Ég prófaði þetta kerfi fyrst á námskeiði í mars 1998. Núna eru mörg kennslukerfi í notkun á Íslandi t.d. Web CT og Blackboard, Moodle, Its Learning, Ugla og mörg fleiri. Þetta er einkenni á því tímabili sem er í hámarki núna í netvæðingu skólakerfisins.
En sem sagt fyrir 10 árum var þetta ákaflega nýstárlegt. Hér er bréfið:
From: Salvor Gissurardottir [mailto:salvor@khi.is]
Sent: 5. mars 1998 14:54
To: fjarkenn2@ismennt.is
Cc: Salvor Gissurardottir
Subject: Námsumhverfi á vef - Web Course in a Box
Sólveig sendi okkur í dag slóðina http://www.madduck.com/ og bað um
umræður um þetta verkfæri. Ég bregst hér með við:
Ég skoðaði WCB (svo er kerfið skammstafað) bæði sem nemandi og kennari.
Mér leist vel á suma hluti, sérstaklega virtist kerfið vera einfalt og
aðgengilegt. Þetta er svona námsumhverfi til að halda utan um námskeið,
þ.e. birta á vefsíðum, lexíur (kennslubréf), umræður, krossapróf,
námskeiðsáætlanir og fleira. Hægt var að tengja þetta öðrum vefsíðum og
svo setja myndir á vefsíður sem gerðar eru í þessu kerfi. Afar einfalt
er að gera vefsíður. Það er bara að hafa ritvinnslukerfið sitt opið og
skjal þar sem flytja á vefsíðu og líma það svo inn í WCB. Svo er hægt að
kalla á mynd. Ég prófaði að búa til smánámskeið (sjá vefslóð:
http://www.madduck.com/wcb/schools/TST/sdd/instruct/490/index.html það
verður að gefa upp notendanafn og lykilorðið instruct ) og það gekk bara
vel þó ég kynni ekkert á kerfið, ég setti inn námáætlun, tímaplan, helstu
slóðir og tvö kennslubréf og bjó svo til umræðulista fyrir námskeiðs
(vefumræður) þetta tók skamma stund.
Fyrirsagnirnar koma á ensku, veit ekki hvort hægt er að breyta því.
Þetta kerfi byggir á hefðbundum "metaphor" þ.e. líkir eftir námskeiði í
venjulegum bandarískum háskóla.
Mér finnst þetta einfalt kerfi og auðlæranlegt, umhverfið var fallegt,
stílhreint og aðlaðandi. Ég varð við þessa litlu prófun hjá mér ekki vör
við neina stóra ókosti. Veit ekki hvernig það virkar fyrir stóra
nemendahópa t.d. heila árganga í staðbundnu námi í KHÍ
Einn afar stór kostur er við þetta kerfi
**** Það er ókeypis *****
Þetta þýðir að það er sáralítið áhætta að prófa það, ef það gengur vel þá
geta aðrir skólar notað það og kostnaður stendur ekki í vegi fyrir notkun.
Ég held það væri mikill fengur að nota svona kerfi, ekki síst vegna þess
að það er þörf á einhverri staðlaðri uppsetningu á vefsíðum.
ÉG býð mig fram í að prófa þetta kerfi í raunverulegum tímum, þetta
passar afar vel í námsþætt sem ég er með á næstunni sem heitir
Námsumhverfi á veraldarvefnum.
Til þess þarf að setja kerfið upp á "server" hér í KHÍ.
Það get ég ekki gert, það er verksvið kerfisþjónustu.
Ég ætla því að biðja um að kerfið verði sett upp.
Gaman væri að vita hvort einhverjir aðrir vildu setja upp námskeið eða
litla námskeiðsþætti í þessu kerfi.
kær kveðja,
Salvör
Tölvur og tækni | Breytt 6.3.2008 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2008 | 15:35
Sannleikurinn um einhverfu
Ég er að fara á málþing hjá Heyrnarhjálp á eftir, ég flyt þar erindi. Ég hef verið að skoða undanfarið efni á vefnum sem tengist þeim sem tjá sig á hátt sem ég skil ekki. Hér er áhugavert myndband af konu sem einhverf og tjáir sig með handahreyfingum vakti athygli mína. Það er góð grein í Wired um þessa konu og einhverfurannsóknir.
3.3.2008 | 15:01
Erindi á málþingi í Harnosand í Svíþjóð nóvember 2007
Ég flutti erindi á málþingi í Harnosand í Svíþjóð í nóvember síðastliðnum. Mér tókst áðan að taka það upp í ustream og tengi í það hérna. Heiti erindisins er Mentors in Open Learning Environments. Talið kemur eitthvað skrýtið sums staðar. Þetta var sent út á sínum tíma í kerfi sem heitir Marratech en einnig var stór hópur í fyrirlestrasalnum í Harnosand.
9.2.2008 | 23:53
Wikipedia viðtal
Ég var í viðtali hjá Steinunni í þættinum Út um græna grundu á Rúv í morgun 9. febrúar. Hér er upptaka af vitalinu (10 mín, mp3 skrá). Ég talaði um wikipedia alfræðiritið og hvernig vinna við það fer fram.
Í morgun var ég með tíma á Netinu eins og alltaf á laugardagsmorgnum. Við notum núna ustream.tv og operator11.com fyrir útsendingar. Síðan fór ég með Valentínu frá Lithauen í útsýnisferð um Reykjavík. Seinnipartinn fór ég á fund áhugafólks um netfrelsi. Það stendur til að stofna félag og verður stofnfundurinn á næsta laugardag. Þá á líka að vera svokallað þýðingarteiti þar sem hópur manna kemur saman og þýðir ubuntu. Sjá nánar umræðuna á Rgugl póstlistanum. Von mun vera á Eben Moglen til landsins í sumar og er verið að undirbúa það.
Það er gaman að fylgjast með hvernig hreyfingar verða til, það getur tekið langan tíma að vaxa upp úr grasrótinni. Fyrri blogg mín tengd rgugl eru m.a. Hvar er andspyrnuhreyfingin á Íslandi?
Tölvur og tækni | Breytt 10.2.2008 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2008 | 17:46
Okkar á milli - Enginn vegur fær
Ég var í útvarpsviðtali í morgun á Rás 1 í þættinum Okkar á milli
Ef viðtalið spilast ekki (verður aðgengilegt næstu tvær vikur hérna á vef Rúv) þá vistaði ég það líka hérna. Þetta var spjall m.a. um félagsnet og tölvuleiki.
Viðmælandi átti að velja tvö lög til að spila í þættinum og ég valdi þau bæði af geisladisknum Loftmynd með Megasi. Það eru lögin Enginn vegur fær og Björt ljós, borgarljós
Hér er vídeo sem ég gerði um tónleika til heiðurs Megasi árið 2005:
6.2.2008 | 03:29
Stafræn sögugerð með myndum
Það eru ýmis verkfæri sniðug til að segja sögur með stafrænum myndum. hér er yfirlit hjá cogdogroo.wikispaces.com yfir 50 verkfæri til að búa til svoleiðis sögur.
Svoleiðis sögur geta verið úr teikningum eða ljósmyndum. Stundum eru þetta eins og teiknimyndasögur t.d. er http://www.makebeliefscomix.com skemmtilegt kerfi.
Ég prófaði að gera myndasögu með tveimur römmum þar:
Ég prófaði líka að gera myndasögu með 5 myndum í bubbleshare.com, það er ákaflega einfalt og sniðugt kerfi. Það er hægt að líma myndasögurnar inn í blogg eins og moggabloggið á mismunandi vegu, það virkaði reyndar ekki hjá mér áðan.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 03:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2008 | 19:05
Prófa vefþjónustuna utterz.com
Gengur þetta?
Ég er að reyna að líma slóðina inn hljóðblogg og vídeóblogg í utterz.com en það er eitthvað skrýtið. En slóðin beint á þetta er hérna:
http://www.utterz.com/~u-NTAyNTkxMA/utt.php
Nú prófa ég að líma bara inn vídeó:
Nú prófa ég að líma inn hljóðskrána:
Þetta er ansi sniðugt kerfi, það er gert ráð fyrir að maður geti sent hljóð og vídeó beint úr síma en það er líka hægt að gera það á vefnum. Ég held að þetta sé dæmi um í hvaða átt bloggkerfi eru að þróast, þau verða svona. Ég sé mikla möguleika í svona í skólastarfi ef nemendur geta haldið leiðarbækur þar sem þeir geta talað inn, sent inn myndir og vídeó og líka skrifað inn texta. Svo er hægt að merkja allt með "tags" eins og vanalegt er í svona vef 2.0 verkfærum.
Gæðin virðast nú ekki vera sérstaklega góð, eiginlega ferlega léleg á vídeóinu. En þetta virkar sniðugt kerfi. Ég gat ekki límt þetta inn í wordpress en það gengur fínt á moggablogginu.
Tölvur og tækni | Breytt 5.2.2008 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2008 | 08:41
Samvinna um stuttmyndagerð - Kaltura
Oft er stafræn stuttmyndagerð kölluð margmiðlun og þá er vísað til þess að maður er að blanda saman vídeó, hljóði og myndum. Ef til vill er sniðugra að fara að nota orðið margmiðlun um miðlun þar sem margir semja saman efnið og það kemur úr ýmsum áttum fremur en að það séu margar miðlunarleiðir notaðar. Ég hef tekið saman og sett á nokkrar vefsíður leiðbeininigar um stuttmyndir fyrir vefinn þær leiðbeiningar miða eins og er fyrst og fremst við að stuttmyndir séu settar saman í Moviemaker og svo settar á vefinn inn á Youtube. Moviemaker er fínt og einfalt verkfæri og fylgir Windows svo ekki þarf að borga fyrir það. Nú er það hins vegar þróunin að ýmsar vefþjónustur bjóða upp á möguleika til að setja saman stuttmyndir m.a. er það hægt í youtube og photobucket.
En þróunin heldur endalaust áfram og tæknimöguleikarnir opna nýjar og spennandi leiðir til að vinna saman. Einkenni á vefumhverfi nútímans er að auðvelt er fyrir marga að vinna að sama viðfangsefninu. Gott dæmi um slíkt eru skrif á Wikipedia þar sem margir geta verið að vinna í sömu greininni og smán saman er bætt við meiri og meiri upplýsingum.
En wikisamvinnan er löngu hætt að snúast bara um texta. Það hafa verið þróuð og eru í þróun margs konar verkfæri sem eru samvinna um annars konar efni. Eitt skemmtilegt samvinnuverkfæri er samvinna um að setja saman stuttmyndir fyrir vefinn.
Sennilega eigum við eftir að sjá svona verkfæri í notkun á Wikipedia fljótlega. En núna er hægt að gera tilraunir með þetta á Wikieducator, sjá þessa síðu Collaborative Video - Help and Sandbox
Það er notað vefverkfæri til stuttmyndagerðar sem heitir Kaltura og það getur líka hver sem er prófað það og stofnað notendasvæði á kaltura.com. Ég gerði það og setti þar inn örlitla prufu, nokkrar myndir og vídeóklipp og hver sem er getur hrært í þessu og breytt vídeóinu, sjá þessa slóð hérna.
Ég á nú reyndar að geta límt vídeókóðann inn í blogg. Best að athuga hvort moggabloggið leyfir það. Þetta virkar fínt og nú er þetta sem sagt dæmi um stuttmynd sem hver sem er getur bætt við eða breytt að vild alveg eins og síða á wikipedia. Þetta er snilldartækni. Svona gæti fólk sem er statt hér og þar í heiminum búið til saman vídeó t.d. um samtímaatburði. Endilega prófið að breyta vídeóinu mínu! Þetta er bara prufa og allt í lagi þá allt fari í skrall. Það þarf að vera innskráður á Kaltura til að breyta en það er einfalt að innskrá sig og kostar ekkert.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.12.2007 | 16:06
Að pimpa upp jólamyndirnar
Nú eru sennilega hundruðir jólamynda fljótandi hjá öllum fjölskyldum. Myndir af pakkaupptökunni, myndir af börnum í jólafötum við jólatréð, myndir af jólaborðhaldi og myndir úr fjölskylduboðunum. Þessar myndir verða skemmtilegar minningar þegar tímar líða fram, sérstaklega náttúrulega gaman að eiga myndir af litlum börnum og sjá hvernig þau breytast. Það þarf að passa vel að geyma góðar myndir í bestu upplausn.
En til að myndirnar verði svolítið skemmtilegri og líflegri þá er upplagt jólaföndur að vinna með stafrænu jólafjölskyldumyndirnar. Það þarf bara að passa að vista aldrei ofan í upphaflegu myndina. Hér fyrir ofan er mynd af Elínu 5 ára við jólatréð en ég bætti svolitlu af djásnum á jólatréð svo það glitraði meira. Svo er mynd af Kristínu Helgu og Signý með Lindu og Elínu og Lilju og ég setti glit í bakgrunninn og kórónur á prinsessurnar.
Hér er Gísli Garðar 3 ára með töfrasprota og kórónu.
Kristín og Signý í jólastemmingu að borða jólahangikjötið.
Það gerði ég með hjálp http://www.pazoen.com/
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2007 | 20:02
Bloggfréttatími Salvarar - Fyrsti þáttur - Kauptu ekkert dagurinn
Það var svo hrikalega óspennandi efni í fréttum í dag á Íslandi að ég ákvað bara að setja í loftið minn eigin fréttatíma. Ég bjó mér til rás á ustream.tv og sendi út þátt þar. Það var enginn áhorfandi að þessum fyrsta fréttatíma mínum þar en sem betur fer fyrir heiminn og íslenska moggabloggsamfélagið þá gat ég smellt á upptöku og tekið þetta upp. hérna er sem sagt hægt að horfa á þáttinn.
Það eru betri hljóðgæði í ustream.tv en í öðrum kerfum sem ég hef verið að prófa. Myndgæðin eru nú ekkert sérstök, ég á eftir að athuga hvort ég geti stillt þau betur. Þessi þáttur er um 8. mínútur.