Færsluflokkur: Tölvur og tækni
25.5.2008 | 19:30
Vefstríðið mikla
Google og Microsoft berjast nú um yfirráð í vefheimum. Samþjöppun valds í hinu stafræna rými getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir netnotendur. Google og Microsoft eru mismunandi fyrirtæki, tekjur Google koma frá auglýsingum en tekjur Microsoft frá sölu á stýrikerfum. Microsoft reynir nú að kaupa upp veffyrirtæki eins og Yahoo og Facebook.
Fyrrum starfsmaður Microsoft og einn mest lesni bloggari heimsins Scobleizer varar við hvað muni gerast ef Facebook kemst í hendur Microsoft. Hann segir að þá muni Microsoft geta stjórnað leitinni og stoppað Google í að leita í gögnum þar. Hann segir um Facebook: "This is a scary company and if it gets in the hands of Microsoft will create a scary monopoly."
Sjá nánar bloggið hans:
Scobleizer: Why Microsoft will buy Facebook and keep it closed
Aðrar greinar
Microsoft vs. Google: Are all monopolies created equal? | All about Microsoft
Netnotendur verða sífellt óbilgjarnari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2008 | 12:20
Mitt eigið digg
Digg.com er sennilega vinsælasta fréttaveitan þar sem notendur semja sjálfir fréttir. En nú getur hver sem er sett upp sína eigin fréttaveitu í anda digg og boðið gestum og gangandi að setja inn fréttir. Það er til fleiri en ein gerð af ókeypis opnum hugbúnaði sem líkir eftir digg.
Ég er að gera tilraun með fréttaveitu á http://www.kynja.net og þætti vænt um ef einhverjir voru til í að prófa þetta kerfi. Það er mjög einfalt og fljótlegt að átta sig á þessu kerfi. Þetta er opinn, ókeypis hugbúnaður sem heitir Pligg og er eftirlíking af digg. Ég þýddi þennan hugbúnað að mestu leyti þannig að viðmótið er á íslensku.
Þetta er fréttakerfi sem er þannig að notendur (allir geta gerst notendur) skrá inn fréttir og geta greidd atkvæði um fréttir með að smella á kosningahnapp sem er fyrir framan hverja frétt. Fréttir poppa svo upp á forsíðu ef þær hafa fengið ákveðinn fjölda atkvæða eða ef stjórnandi hefur sett þær á forsíðu.
Svona fréttakerfi er að mörgu leyti handhægara en fréttakerfi sem eru miðlæg og ritstýrð af einhverjum einum aðila. Dæmi um svona fjölmiðlun eru kerfi eins og www.digg.com og http://reddit.com/ og http://buzz.yahoo.com/
Ég stillti http://www.kynja.net þannig að allir, líka óinnskráðir geta greitt atkvæði um fréttir og innkomin frétt poppar upp á forsíðu ef hún fær 3 atkvæði. Aðeins innskráðir geta sett inn fréttir en það er auðvelt að skrá sig sem notanda.
Það er gert ráð fyrir að vefslóð/tengill sé með hverri frétt. Það er hægt að skrá inn frétt með að smella á flipann Skrá nýja sögu en það er miklu einfaldara að setja bókamerki í vafra (búa til hnapp á slána fyrir bókamerki) fyrir þessa fréttaveitu og svo þegar maður er kominn á slóð þar maður ætlar að búa til frétt þá má smella á hnappinn og þá er forskráð bæði slóðin og fyrirsögnin. Undir Notendalýsing er neðst á skjánum leiðbeiningar um hvernig á að setja inn nýja tengla.
Það eru margir kostir við svona fréttamiðlun. Ókostir eru hins vegar að kerfið er alveg opið og viðkvæmt fyrir ruslpósti og skemmdarverkum þ.e. notendum sem eru skráðir beinlínis til að koma inn einhverjum auglýsingum. Stjórnandi getur takmarkað aðgengi og eytt notendum og eytt fréttum.
Það geta verið ýmis konar not af slíku fréttakerfi fyrir ýmis samfélög t.d. nemendasamfélög eða kennarasamfélög eða sérfræðinga eða áhugahópa á ákveðnu sviði. Í skólasamhengi væri t.d. hægt að segja frá ráðstefnum, viðburðum og sýningum og benda á áhugavert efni. Um leið og innskráður notandi hefur greitt einhverri frétt atkvæði þá hefur hann sett hana á minnislista sinn. Notendur flokka fréttirnar sem þeir senda inn í fyrirfram tilbúna flokka. Notendur merkja (tagging) fréttirnar sínar sjálfir með orðum sem þeir ákveða( t.d. gæti ráðstefna um umhverfismál á Akrnesi fengið þrjár merkingar þ.e. ráðstefna, umhverfismál, Akranes) og það er hægt að fletta upp í merkingum á innskráðum fréttum. Svona merkingar frá notendum (folksonomy) eða dreifð lýsigagnaskráning er einkenni á mörgum web 2.0 notendasamfélögum. Það er líka einkenni á slíkum kerfum að upplýsingar um hversu margir hafa merkt ákveðið atriði t.d. með að kjósa um frétt á digg.com eða kynja.net eða með því að vista bókamerki í del.icio.us er vísbending um hversu gagnlegt viðkomandi atriði er, vinsældir eru góð vísbending. Svona fréttakerfi eins og digg og pligg auðvelda leitina að því sem er vinsælast og nýjast með því að setja það efst.
Allir ættu að skoða svona kerfi því þau eru vísbending um í hvaða átt fjölmiðlun er að fara. Vinsæl kerfi eins og digg eru hins vegar ekki eins gagnleg núna og áður fyrir tölvunörda vegna þess að þar er orðið svo mikið kraðak af alls konar lítt áhugaverðum fréttum. Núna er t.d. á forsíðunni þessi frétt:5 Social Networking Sites Of The Wealthy og þegar maður smellir á hana þá fer maður í gegnum auglýsingu eftir auglýsingu og kemur svo að grein sem er netrusl skrifuð fyrir hvítt rusl. Digg er orðin auglýsingaruslamaskína dauðans og hjarir áfram á fornri frægð.
p.s. ef einhver vill fá þýðingarskrána hjá mér fyrir íslenskun á pligg þá er það velkomið. Skrifið í athugasemdir.
10.5.2008 | 13:08
Sellufundur hjá infokommúnistunum
Ég fór á fund í gærkvöldi á Hressó með stjórn FSFÍ eða félags um stafrænt frelsi á Íslandi. Félagið stefnir að því að halda ráðstefnu 5. júlí næstkomandi og aðalnúmerið á þeirri ráðstefnu er Eben Moglen sem er mikill gúrú allra sem nú fylkja sér um þann málstað að vilja meira frelsi og opnara umhverfi í stafrænni framleiðslu og stafrænni dreifingu gagna. Áður hefur Stallmann komið til Íslands á vegum sömu aðila.
Hér er mynd af stjórninni Freyr, Hallgrímur, Tryggvi, Steinn og Smári.
Hér eru myndir frá fundinum
Ekki eru nú allir í þessari hreyfingu hrifnir af því að vera bendlaðir við kommúnisma, sumir segja þetta eiga meira skylt við anarkisma. Ég segi að þetta sé hin nýja samvinnuhreyfing 21. aldar. En þessi hreyfing er í mótun og kannski ekki ennþá orðin til, það eru allir skynsamir menn að hugsa það sama en það á eftir að sameina kraftana í eitthvað samstillt átak til að breyta samfélaginu.
Hér er ný grein um Infokommúnisma hjá First Monday.
Info- communism?Ownership and Freedom in the digital economy
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2008 | 23:20
Íslensk lén, íslenskir vafrar
Það er hægt að fá lén með íslenskum stöfum. Ég fékk mér lénið salvör.net og borgaði um 600 kr. íslenskar fyrir það ($8) hjá godaddy.com. Þetta er nú nú reyndar lénið http://www.xn--salvr-mua.net/ en svona íslenskun notar það sem kallað er Punycode
Það virkar fínt að slá inn í vafra bæði Internet Explorer og Firefox. Í Internet Explorer þá sér sá sem skoðar lénið aldrei nema íslenska lénið salvör.net í glugganum fyrir vefslóð en í Firefox þá sér maður slóðina á þessu skrýtnu punycode formi. Þetta stafar að því mér skilst af því að það er öryggisglufa varðandi svona lén, það er hægt að nota svona til að láta birtast eitt en senda notandann á annan stað einhvað stað til að komast yfir upplýsingar (Phishing)
Ég held að þetta sé leyst varðandi IE en ekki Firefox og því sé öruggast að birta notandanum raunverulegu slóðina. Það var reyndar hægt eitthvað að breyta þessu í Firefox en ég fann ekki út úr því. En jafnvel þó maður sjái skrýtnu slóðina www.xn--salvr-mua.net þá getur verið praktískt að eiga svona íslensk lén t.d. til að geta vísað íslenskum notendum á ákveðnar vefslóðir, það er ekki mikill kostnaður að borga 600 kall árlega fyrir það. Það er á mörgum stöðum á netinu hægt að fá ókeypis svæði til að vista gögnin sín, bæði vefi og blogg. Svo getur maður átt sitt lén og látið það vísa á það.
Það er hægt að kaupa lén á íslensku hjá icnic.is með .is endingu. Verðið er út í hött eins og raunar öll verðlagning á íslenskum lénum.
Íslenskun á vöfrum.
Það er líka hægt að sækja íslenska þýðingu á Firefox á firefoxis
Það er líka til íslensk orðabók fyrir Firefox
Það mun vera væntanleg íslenskun á Windows Vista núna í maí, ég veit nú ekki hvort vafrinn Internet Explorer sé inn í þeirri íslenskun, sjá nánar Windows XP á íslensku
Tölvur og tækni | Breytt 4.5.2008 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2008 | 15:54
Byltingartækni - veraldarvefur og opin miðlun á neti
Ég kynntist veraldarvefnum fyrst á námskeiði í Edinborg í ágúst 1993. Það var þá vafri sem kallaður var Mosaic. Áður hafði ég reyndar kynnst Lynx sem var svona textavafri og Gopher og árum saman hangið á Usenet ráðstefnum. Ég var strax hugfangin að þessu nýja verkfæri, þetta var mikil framför. Gaman að rifja upp sögu veraldarvefsins og sjá hvernig hann spratt upp sem byltingartækni, það skipti t.d. miklu máli að þetta var ókeypis tækni, margir notendur svissuðu frá Gopher yfir í www tækni þegar háskólinn í Minnesota tilkynnti að þeir ætluðu að innheimta leyfisgjald fyrir notkun á Gopher.
Það sá enginn fyrir hversu útbreidd þessi tækni yrði, alla vega ekki ég. Ég fór á 4. WWW ráðstefnuna sem haldin var í Santa Clara í Californíu árið 1996 að mig minnir og ég man að ég skrifaði nemendum mínum heim í tölvupósti frá öllum þeim kynjum sem ég sá, að hugsa sér að við helstu umferðargöturnar sá ég vegaskilti þar sem vefslóðir voru auglýstar. Það var fáheyrt hérna á Íslandi, fáir vissu þá hvað vefslóðir væru. Þegar ég sá fyrstu auglýsinguna um vefslóð á bíl á Íslandi þá mátti ég til að taka ljósmynd af því. Alveg eins og ég tók ljósmynd af fyrstu rúlluböggunum sem ég sá á Íslandi. Það var eitthvað í kringum 1986 sem ég sá rúllubagga á túni á Hvanneyri.
Núna er veraldarvefurinn orðinn ómissandi tæki hjá mörgum. Allt bendir til að þau tölvuverkfæri sem við notum vanalega verði vefþjónustur, sennilega munum við nota ritvinnslukerfi og tölvureikna og allan office vöndulinn sem vefþjónustur innan tíðar. Google býður þegar upp á svoleiðis þjónustu. Það opnast nýir möguleikar þegar unnið er á vefnum, það er þá hægt að vinna saman með öðru fólki og maður er ekki háður einhverjum fýsískum vinnustað þegar gögnin og allt vinnuumhverfið er komið inn í Netheima. Sennilega verður þetta til að vinna breytist meira en okkur órar fyrir. Þetta skapar möguleika á samvinnu sem hafa ekki áður verið fyrir hendi. Núna geta margir unnið samtímis í sama skjali eða sama stafræna verki. Besta leiðin til að skilja hvað er að gerast og sjá vísbendingar um hvernig framtíðin verður er að gefa sér tíma til að skoða hvernig Wikipedia vinnur og skoða hvers vegna eða hvort svona wikivinnubrögð virka betur en eldri vinnubrögð. Ég held að það sé óumflýjanlegt að við færumst inn í heim opinna vinnubragða og ýmis konar stafrænna samvinnuverkfæra en það mun riðla mörgum kerfum sem við höfum núna til að safna saman og miðla þekkingu. Þessi kerfi miða við bókasamfélagið eða samfélag lesmenningar og hafa virkað vel og virka ennþá þó það sé alltaf að molna meira og meira úr þeim. Einhvern tímann kemur að því að þau verða alveg gagnlaus og passa ekki við þá farvegi sem fljót þekkingar og mannlegrar sköpunar heimsins er að renna í núna. Það er nú reyndar skynsamlegra að breyta strúktúrnum í samfélaginu hægfara þannig að hann virki eins og áveitukerfi frekar en tjasla upp á einhverjar stíflur sem munu ekki gera annað en brotna með brambolti í fyllingu tímans.
Vefurinn á byrjunarstigi" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2008 | 15:42
Vefhýsing
Hér er listi yfir aðrar vefhýsingar
Það getur verið skynsamlegt hjá fólki að kaupa eigin lén og vista gögnin sín t.d. bloggið sitt á einhverju svæði þar sem það ræður sjálft öllum aðgangi. Það er reyndar skynsamlegt að hafa gögnin sín á fleiri en einum stað þ.e. eiga afrit ef eitthvað gerist.
Ég hef sjálf nokkur lén með .net endingu og vefhýsingu til ýmis konar tilraunastarfsemi. Ég kaupi vefhýsingu á dreamhost.com en ég vil helst ekki hafa lénin hjá sama (reyndar fylgdi eitt ókeypis lén með dreamhost), ég vil geta flutt mig milli eftir því sem vindurinn blæs.
Ég er ekkert ánægð með dreamhost en ég veit ekki um annan stað þar sem er eins auðvelt að setja upp mediawiki vefi (one click install). Það er mikið gagnamagn sem kemur með hýsingu á dreamhost og það eykst í sífellu, ég nota bara brot af því sem ég má. Það er hins vegar engin verðmæti fólgin í því að hafa gögnin sín vistuð erlendis ef það tekur mjög langan tíma að nálgast gögnin, það skiptir mig miklu máli því oftast er mín notkun fólgin í að gera einhverjar tilraunir. Dreamhost er discount hosting og aðstaðan er eftir því.
Ég vildi svo sannarlega geta vistað mín gögn á vefþjónum hér á Íslandi. En það er því miður ekki valkostur hjá mér, bæði út af verði og út af þjónustu. Það er óhemjudýr og það er líka óhemjuléleg þjónusta alla vega hjá þeim Internetaðila sem ég fékk einu sinni til að setja upp gagnagrunn fyrir félagasamtök, Það þurfti að borga stóré mánaðarlega til hafa einn MySQL gagnagrunn og þegar hann hrundi þá var ekkert hægt að nálgast afrit. Það virtist ekki vera nein kunnátta fyrir hendi til að þjónusta smærri aðila sem eru í LAMP kerfum (linux-apache-mysql-php). Það eru einstaka íslenskir aðilar sem bjóða slíkar hýsingar en mér virðist oft að það sé bara frontur, þeir séu umboðsmenn sem hafi leigt pláss af stærri vefhýsingarhúsum.
Dreamhost býður upp á ótakmarkað magn af mysql gagnagrunnum og ftp aðganga og eins og skipti mig mestu máli - auðvelt að setja upp mediawiki. Ég var að taka eftir einu, núna get ég sett upp Google Apps og tengt það við lén. Ég er nú ekki alveg búin að fá það til að virka, ég var að prófa að setja slíkt upp í tengslum við lénið www.arnarholt.net og svo setti ég upp googlepages vefsíður í tenglslum við þann vef. Ég reyndi fyrst að tengja lénið við googlepages vefinn, ég held að það eigi að vera hægt en kannski var þetta ekki að virka vegna þess að lénið er ekki skráð hjá dreamhost.
Ég fletti upp áðan hvernig staðan er á þessu dreamhost svæði sem ég hef:
Total Bandwidth Provided: | 6353 GB ($0.1/GB over) |
Ég sem sagt bý yfir mikilli ónotaðri bandvídd sem ég veit ekkert ég á að nota í og nota sennilega ekki neitt nema í einhvers konar föndur. Ég borga fyrir þetta 190 dollara fyrir 2 ár fyrir pakka sem heitir my crasy domain insane sem gerir nokkra dollara á mánuði.
Þau kerfi sem ég get sett upp með svona one-click install eru:
AF þessum kerfum hef ég nú ekki sérlega mikil not nema mediawiki, wordpress og moodle. Flest hinna hef ég prófað að setja upp bara til að sjá hvernig þau virka.
Mig dreymir um að setja upp blogg á tölvu sem er vistuð hjá mér:
Hack Attack: Set up and host a blog on your home computer
Ég þyrfti kannski líka að pæla í til hvers ég geti notað öll þessi ónotuðu gígabæti. Sennilega er það samt álíka skynsamlegt og pæla í hvað ég ætti að gera við GSM símann minn sem kannski er ekki í notkun nema nokkrar mínútur af hverjum sólarhring.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2008 | 19:44
Netfundir í palbee.com
Ég er að prófa vefþjónustuna palbee.com, það er ókeypis kerfi þar sem ég get haft fund. Ég er núna búin að hlaða inn glærum en finn þær ekki aftur. Sennilega virkar það ekki ennþá.
Ég breytti úr Firefox yfir í IE og þá gat ég hlaðið inn glærum og myndum. Ég var bara ein á fundinum þannig að ég gat nú ekki prófað alla virkni í þessu. Það virðast fjórir aðrir geta komið á fundinn.
Hér er upptakan af þessari tilraun, ég er að rövla eitthvað við sjálfa mig á meðan ég er að átta mig á hvernig þetta kerfi virkar, varla til neitt meira óspennandi: Dæmi um upptöku í palbee
Þetta er ansi sniðugt, ég hlóð inn powerpointglærum og svo sýni ég þær og líka myndir. Það er svo hægt að hlaða niður powerpointglærunum.
En ég á að geta límt þetta inn í blogg. Best að prófa það.
Svona var þetta á moggablogginu og þá birtist einhver sem fylgdist með tilraunum mínum. Viðkomandi var ekki með vefmyndavél.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2008 | 07:24
Hægt að setja vídeó inn í Flickr
Núna er hægt að setja vídeó (þó ekki nema 1 mínútu) inn eins og myndir í Flickr. Það gildir reyndar eingöngu fyrir þá sem borga fyrir áskrift (pro accounts). Þetta er eitthvað sem margir hafa beðið eftir. Flickr er tímamótavefþjónusta, sennilega núna stærsti og aðgengilegast myndabanki á vefnum. Ég skráði mig á Flickr daginn sem sú þjónusta opnaði og er núna með mörg þúsund myndir í geymslu þar. Vídeó getur maður geymt eins og myndir og sett í myndasöfn og merkt á sama hátt. Hér er fyrsta vídeóið sem ég hlóð þar inn, þetta er af Salvöru Sól og er tekið í janúar 2008.
Þessi nýja þjónusta opnaði í gær. Ég held reyndar að enn um sinn keppi þetta ekki við Youtube vegna þess að það er allt of lítið að geta bara hlaðið inn 1 mínútu vídeómyndum. Youtube er líka ókeypis. En Flickr er eftirlætismyndakerfi flestra sem hlaða inn miklu af ljósmyndum, ekki síst atvinnufólks.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008 | 18:14
Prófa Gcast podcast
Tæknistöff. Eins og ég sé ekki búin að prófa nógu mikið af þessum podcastsvæðum.
Pirrandi að podcastið kemur ekki strax fram.
Íslenskir stafir virka ekki.
Subscribe Free
Add to my Page
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 15:24
Kastljósviðtalið við vídeóbloggarann
Ég fékk mínar fimm mínútur af frægð í Kastljósinu fyrir viku síðan. Það var ég kölluð vídeóbloggari og sýnt voða fyndið og viðvaningsleg vídeóskot af blogginu mínu, annað þar sem ég er að prófa viðtal við fræðimann frá Lithauen sem kom í heimsókn til okkar og hitt þar sem ég er tapa mér í vídeóeffektunum og töfra fram eldglæringar og sjó á skrifstofu minni. Ég náttúrulega held kúlinu og segi að þetta sé partur af vídeóbloggmennskunni að sjást að ég kann lítið á græjurnar og hef litlar og aumingalegar græjur, svona eins konar vídeoblogg dogma. Það er nú reyndar ekki alveg sannleikur, mér finnst mjög gaman af því að hafa góð verkfæri og gott hráefni til að vinna úr við svona vídeólistsköpun og býð í ofvæni eftir að smágræjurnar verði betri. Stafrænu myndavélarnar eru orðnar góðar en ennþá er langt í land að hljóð og vídeó sé af viðunandi gæðum í svona youtube/ustream umhverfi.
hér er viðtalið, ég tók það upp á ustream því það hverfur í gleymskunnar dá af vef RÚV eftir 2 vikur.
Ef þetta spilast ekki þá vistaði ég það líka hérna: Kastljósviðtalið við mig (vistað á Íslandi)
Ég geymi þetta upp á vídeóbloggsögu Íslands svo að þegar Egill Helgason uppgötvar vídeóblogg þá geti ég sýnt fram á að það hafi verið til áður. En eins og allir vita þá gnæfir Egill yfir íslenskum fjölmiðlaheimi og lýsir íslenskum veruleika í bókmenntum og stjórnmálum að að hlutirnir eru ekki til fyrr en hann hefur komið auga á þá eða farið að experimenta sjálfur. Þannig fann Egill upp bloggið á sínum tíma.
En það er spennandi að ef til vill verða allir eða flestir komnir með einhvers konar vídeóútsendingar og sína eigin rás á Internetinu eftir einn áratug. Þegar ég var lítil stelpa var vinsælt skemmtiatriði á skólaskemmtunum að leika leikþátt þar sem útvarpsþáttum hafði slengst saman og út kom mikill ruglingur. Þetta fannst okkur alltaf jafnfyndið og það þó ég sé alin upp í þeim veruleika að það var bara alltaf hlustað á eina rás, það hét að hlusta á útvarpið og það var náttúrulega það sem núna heitir Rás 1.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)