Færsluflokkur: Tölvur og tækni
28.10.2009 | 11:05
Internetið eftir fimm ár
Eitt af því sem heillar mig alltaf mikið varðandi Sovétríkin sálugu og hið miðstýrða kommúnistaríki í Kína eru fimm ára áætlanirnar. Ég veit vel að þær snerust þegar stundir liðu fram upp í algjöra martröð og falsanir á framleiðslutölum og píningu á verksmiðjufólki til að ná markmiðum sem voru gjörsamlega ómöguleg. Ein af þessum fimm ára áætlunum var Stóra stökkið fram á við og það leiddi af sér hungursneyð og hörmungar.
En mér finnst þessi hugmynd að horfa langt fram í tímann og gera fimm ára áætlanir, að samhæfa krafta í stóru kerfi vera heillandi og eiga líka við í dag en það þarf öðruvísi áætlanir og öðruvísi sýn á framleiðslu og hagkerfi og samfélög. Við lifum á tímum sem eru einmitt andstæðan við hið miðstýrða á öllum sviðum og þegar við spáum í framtíðina og gerum plön þá verður við að skilja og skynja stóru línurnar og hver sú þróun sem við getum ekki breytt sjálf og hvað er óumflýjanlegt og hverju í framtíðinni er hægt að breyta.
Raunar held ég á tímum mikilla umbreytinga eins og við lifum á núna þá eigi hvorki einstaklingar, samfélög eða fyrirtæki að ímynda sér að þau geti breytt miklu, þau geta í mesta lagi hægt á þróuninni nú eða flýtt henni, þetta er frekar spurning um að þjálfa með sér innsæi til að horfa fram á við og haga sínum rekstri og stöðu miðað við framtíðarspá og skipuleggja rekstur og starfshætti þannig að það sé hægt að breyta á hárréttum tíma um aðferðir og vinnslu - ekki of snemma, ekki áður en þörfin eða markaðurinn er fyrir hendi - ekki of seint, ekki fjárfesta í tækni gærdagsins til að vinna í á morgun. Þessi lífsspeki mín mun vera kölluð technological determinism þegar sagnfræðingar og félagsfræðingar eru að rýna í baksýnisspegil.
Í nýlegu erindi flutti stjórnandi Google Eric Schmidt sína sýn á hvernig Internetið yrði eftir fimm ár. Sjá hérna Google's Eric Schmidt on What the Web Will Look Like in 5 Years
þetta vídeó er lítill úrdráttur úr erindi hans, unnið í notar tubechop.com
Það sem verður til almenningsnota eftir fimm ár er reynda nú þegar í notkun af ákveðnum hópum og með því að skoða hegðun þeirra hópa þá má spá fram í tímann. Eric Schmidt mælir með að við fylgjumst með táningum, þeir eru núna að búa sig undir vinnuaðferðir og samskiptaaðferðir sem eru eins og þau nota Netið í dag. Ég held reyndar að ennþá betri hópur til að fylgjast með séu þeir sem lifa og starfa í hringiðu tækninnar, "Go with the geeks", fylgjast með þeim sem búa til efni og verkfæri núna fyrir Netheima, ekki síst þeim sem lifa og hrærast í heimi opins hugbúnaðar og opinnar miðlunar á efni.
Það kemur reyndar ekkert á óvart í þessari framtíðarspá Google mannsins og þetta er ekki framtíðarspá fyrir Ísland í dag heldur veruleiki margra, veruleiki flestra ungmenna á Íslandi. Það eru hins vegar ekki nógu margir sem komnir eru á miðjan aldur sem átta sig á því og það er þess vegna fínt að hlusta á þennan úrdrátt úr erindi Google mannsins. Aðgengi að Interneti er hér almennt og notkun mikil og flestir hafa aðgang að háhraðasambandi.
Það sem stendur upp úr er það sem við sem fylgjumst með Netinu vitum, það að vægi stóru miðlanna er að hverfa og það er efni sem notendur framleiða sjálfir og endurblanda sín á milli sem er það svið sem vex mest. Og það er ekki framleiðsla á texta fyrst og fremst, það er vídeóefni sem er í hröðustum uppgangi, vídeóefni sem miðlað er og búið til af jafningjum. Svo er enskan á undanhaldi sem mál Internetsins og það verður ekki íslenska sem tekur þar við heldur mandarin kínverska. Raunar held ég að það muni myndast smán saman eins konar myndmáls táknmál Internetsins með mörg hundruð táknum. Það er þegar í bullandi gerjun, nú eru t.d. tákn fyrir hluti eins og RSS.
Ég held að þessir hnappar sem nú eru á mörgum vefsíðum "senda á facebook" séu fyrirboði um það sem koma skal þ.e. vefþjónustur sem eru samtengdar þannig að notandinn hann endurblandar efninu og sendir það áfram eftir að hafa breytt því (einfaldasta er að skrifa athugasemd með frétt og senda á facebook) og er með sinn eigin straum (mín síða á facebook er dæmi um eigin straum). Mörg vefverkfæri verða auk þess sjálfvirk og það er vísbending um framtíðina svona semantic web verkfæri t.d. þegar youtube stingur upp á vídeóum fyrir okkur að skoða miðað við hvaða leitarorð við höfum slegið inn fyrir vídeó í fortíðinni og hvað við höfum merkt sem eftirlætisefni. Það er líka vísbending um framtíðina hvernig Facebook er núna að velja hvað við sjáum af straumum og boðum þeirra sem eru á vinalista.
Ef ég vík aftur að fimm ára áætlunum þá held ég að það sé réttur tími núna til að reyna að rýna í kristalskúlu framtíðarinnar og sá í hvað muni á næstu fimm árum gerast í samskiptatækni heimsins, framleiðslukerfum og valdajafnvægi sem hefur áhrif á stöðu Íslendinga í Netheimum.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.9.2009 | 16:20
Software Freedom Day 2009 1
Í dag er Software Freedom Day 2009 og í tilefni dagsins ætla ég það sem eftir er dagsins eingöngu að blogga um opið efni og opinn hugbúnað.
Þegar talað er um Frjálsan og/eða opinn hugbúnað (Free/open source software oft skammstafað með FOSS) er átt við hugbúnað sem er öllum aðgengilegur. Hver sem er hefur aðgang að grunnkóða hugbúnaðarins og getur skoðað hann og breytt að vild. Sem dæmi um frjálsan hugbúnað má nefna Linux stýrikerfið og sem dæmi um opinn hugbúnað má nefna Mozilla.
Höfundar opins og frjáls hugbúnaðar leyfa öllum að nota hugbúnaðinn án endurgjalds. Yfirleitt er þó farið fram á að fólk samþykki ákveðna skilmála áður en notkun á hugbúnaði hefst. Til að hægt sé að tala um frjálsan hugbúnað þarf (auk aðgengilegs grunnkóða) höfundur hugbúnaðarins að vera búinn að afsala sér höfundarrétti hugbúnaðarins jafnframt því sem höfundarréttur þarf að vera til samræmist við þessi skilyrði (hin fjögur frelsi):
- það verður að vera hægt að nýta hugbúnaðinn á allan þann hátt sem hentar.
- Það verður að vera hægt að breyta hugbúnaðinum og aðlaga hann að eigin þörfum.
- Það þarf að vera heimilt að dreifa hugbúnaðinum.
- Það þarf að vera heimilt að dreifa breyttum útgáfum af hugbúnaðinum.
Opinn hugbúnaður og frjáls hugbúnaður eru að sumu leyti tvö nöfn á sama hlut. Opinn hugbúnaður þarf að innihalda eftirfarandi
- Dreifing hugbúnaðarins skal vera ókeypis.
- Hugbúnaður verður að hafa aðgengilegan grunnkóða. Forritinu skal dreifa á formi grunnkóða og sem þýddu forriti.
- Leyfi hugbúnaðar verður að leyfa breytingar. Breyttum útgáfum skal dreift á sömu forsendum og upphaflegi hugbúnaðurinn.
- Einungis má takmarka leyfi til breytinga ef leyfi er gefið fyrir gerð svokallaðra plástra.
- Ekki má mismuna fólki eða hópum þegar kemur að aðgangi fólks að hugbúnaðinum.
- Ekki má mismuna atvinnugeirum þegar kemur að aðgengi að hugbúnaðinum.
- Leyfi hugbúnaðarins verður að fylgja honum í allri dreifingu.
- Leyfi hugbúnaðarins má ekki taka eingöngu til ákveðinnar vöru. Ef hluta kerfis er dreift áfram skal leyfið fylgja með.
- Leyfi hugbúnaðarins má ekki setja öðrum hugbúnaði sem dreift er með hinum leyfða hugbúnaði takmarkanir.
- Leyfi hugbúnaðar skal vera tæknilega-hlutlaust.
Netla - Opnar lausnir: Frjáls og opinn hugbúnaður í skólastarfi
Netla - Opnar lausnir - Frumherjarnir
Myndin af rauðlauknum er fengin af flickr, hún er auðvitað með opnu höfundarleyfi.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2009 | 10:43
Örblogg með Twitter
Hér er grín um Twitteræðið í heiminum. Margt frægt fólk er núna með twitter og reynir að safna að sér áhangendum (kallast followers á twittermállýsku)
Það er mikið twitter æði í heiminum þessa daganna. Twitter er míkróblogg eða örblogg og getur hver sem er gerst áskrifandi. Það er hægt að skrifa mest 140 stafi í einu. Þetta er svona svipað og uppfæra statuslínu í Facebook. Svona örblogg eru óðum að taka við sem útbreiddasta gerðin af bloggi, þau henta betur til margra hluta, ekki síst fyrir fréttir og ábendingar t.d. ábendingar um greinar eða blogg. En Twitter örbloggin eru öðruvísi en önnur blogg að því leyti að þau eru oft skrifuð úr símum, sérstaklega er algengt að iphone notendur sendi á Twitter. Twitter hentar þannig fyrir samfélag sem er orðið það sítengt að fólk er tengt alltaf, ekki bara þegar það er við tölvu eða situr með fartölvu.
Þessar takmarkanir á Twitter að geta bara haft 140 stafi eru líka eins konar sía, Twitter virkar eins og sía á upplýsingar, hægt er að fylgjast með twitterstraumum og smella á slóðir sem bent er á ef það virkar áhugavert og maður treystir þeim sem bendir á. Það er líka ein ný notkun sem núna er komin á twitter og það er leitin. Hún er orðin mjög öflug ef maður er að leita að einhverju sem er einmitt að gerast hér og nú, leita í gegnum umræðu heimsins um t.d. eitthvað verkfæri eða það nýjasta nýtt um svínaflensuna. Ef maður t.d. fer á leitina á http://search.twitter.com og slær inn leitarorð eins og swineflu eða h1n1 þá getur maður fylgst með því nýjasta, oft ábendingum frá heilbrigðisaðilum víða um lönd en líka alls fólki að blogga út í loftið. Það er líka algengt að fólk sannmælist um að nota merkingar á twitter boðin sín og nota þá hash merkið. Það er algengt þegar fólk t.d. er á ráðstefnum eða uppákomum og tekur þátt í einhverjum viðfangsefnum. Segnum að ég vildi fylgjast með hvað verið væri að skrifa um opinn hugbúnað. Það má t.d. sjá hvað fólk hefur merkt með #opensource með því að slá þetta inn í leitargluggann í twitter leit.
Það er líka núna að þróast ýmis konar samræða með twitter, margar vefslóðir bjóða upp á að senda beint á twitter eins og facebook og svo eru ýmis verkfæri að þróast sem nota twitter til ýmis konar samskipta t.d. til að gera skoðanakannanir. Hér er ég að prófa að setja upp hugmyndasamkeppni á twitter, það er mjög einfalt að setja upp og taka þátt í svona samkeppnum:
Samkeppni um nafn á nýju ríkisstjórninni
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2009 | 07:09
Fræ og bíll - Netsala er óhjákvæmileg þróun
Núna í kjölfar hrunsins þá held ég að við munum sjá miklu meira af því að verslanir flytja sig nú inn í netheima. Það er miklu meira sýningarrými þar og margar vörur eru þannig að það er hægt að sýna þær alveg eins vel á Netinu. Margir nota núna Netið sem einn lið í að versla sér vörur þó þeir geri sér ferð í verslunina. Við höfum sennilega flest fyrst skoðað vörulista hjá verslunum áður en við förum t.d. í Ikea og skoðum sjálfar vörurnar.
Fyrstu netkaup mín voru fyrir mörgum árum, ábyggilega fyrir árþúsundamótin. Ég verslaði fræ, ég keypti fræ af áhugamanni um fræsöfnun sem safnaði fræum úr grasagörðum og seldi bæði til einstaklinga og grasagarða. Hann var lögreglumaður á eftirlaunum og þetta var hans tómstundagaman. Fræið fékk ég svo sent í pósti frá Bretlandi.
Síðustu netkaupin mín voru rétt eftir hrunið. Ég verslaði mér bíl. Ég keypti bíl óséðan á uppboði hjá bilauppbod.is og ég bauð í bílinn og fékk hann á mjög góðu verði. Nú er ég búin að eiga þenna bíl í meira en tvo mánuði og hann reynist vel. Sumum finnst þetta hafa verið mikið áhætta að kaupa bílinn óséðan og óprófaðan en mér fannst það nú ekki. Það voru fullt af myndum af bílnum á uppboðsvefnum og það voru upplýsingar um bílinn og ég bauð miðað við verð sem ég sá að svipaðir bílar voru á bílasölum þ.e. ég bauð töluvert lægra en það.
Svo held ég að við flest kaupum farseðla í flug í gegnum Netið.
Talandi um fræ, þá er áhugavert að skoða fræframboðið af trjáfræum á breska ebay.
Verslunareigendur loka búðunum og selja á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.8.2008 | 11:14
Krepputölva
Einn stærsti útgjaldaliðurinn hjá krökkum í framhaldsskólum og háskólum er fartölva. Sumir framhaldsskólar gera kröfu um að nemendur eigi fartölvu. Venjulegt verð á fartölvu er í kringum 100 þúsund. Það er líka að verða partur af lífsstíl að vilja alltaf vera í netsambandi, geta sent boð til vinna og kunningja og geta flett upp á Netinu.
Það eru hins vegar tveir stórir ókostir við þessa þróun. i fyrsta lagi eru fartölvurnar risastórar og þungar, börn og unglingar rogast með mörg kíló af svona tölvudóti og þetta eru viðkvæmir hlutir sem geta skemmst og orðið fyrir hnjaski á ferðum. Í öðru lagi hafa þessar fartölvur afar skamman endingartíma eins og raunar tölvur yfirleitt, það er bæði vegna þess að tæknin verður úrelt og það koma öflugri tölvur og vegna þess hnjasks sem fartölva verður fyrir.
Það eru fleiri kostir en að kaupa rándýra fartölvu með risastórum skjá og mörg kíló að þyngd. Einn slíkur kostur er að kaupa litla fartölvu sem notar eingöngu ókeypis opinn hugbúnað. Ein slík tölva er eee pc enúin ódýrasta gerðin núna kostar um 28 þúsund út úr búð í Reykjavík í dag. Þessi tölva vegur innan við kíló og er með 9 tommu skjá.
Það er erfiðara að nota svona lítið lyklaborð og skjá en ég hugsa að þeir sem eru mikið á ferðinni sái mikinn hag í því að ferðast með svona nettan grip. Ég fékk mér svona tölvu í gær og er núna að prófa hana. Það er svolítið erftitt að venjast svona litlu lyklaborði og ég er ekki búin að finna oddklofa og pípu á lyklaborðinu, það vantar takkann sem er vinstra megin við Z á venjulegu lyklaborði.
Ég sé nú að ég er ekki ein með þetta lyklaborðsvandamál
Svona litlar og ódýrar og léttar fartölvur verða sennilega venjulegur búnaður hjá öllum grunnskólanemum og framhaldsskólanemum og háskólanemum innan einhverra ára.
En það eru miklir hagsmunir hjá söluaðilum hugbúnaðar og vélbúnaðar að halda viðskiptum og fá fólk til að borga fyrir eitthvað sem það þarf ekki. Það er nú allt í lagi að henda peningum í sjóinn ef maður veit ekki aura sinna tal en fyrir langflesta jarðarbúa og langflesta skólanema í heiminum er hátt verð mikil fyrirstaða.
Hér eru greinar um hvernig gengur hjá OLPC verkefninu:
Why Microsoft and Intel tried to kill the XO $100 laptop
Microsoft officially teams up with OLPC
Uppfært:
Ég er búin að finna út hvernig maður fær oddklofa ( <> ) og pípu (|) á eee pc.
< minna en en fæst með að halda niðri fn hnappnum og ýta á z
> stærra en fæst með því að halda niðri fn hnappnum og Shift og ýta á z
| pípa fæst með því að halda niðri fn og Alt (athuga Alt sem er hægra megin Alt Gr) og ýta á z
Ég fann þessa umræðu um eee pc hjá Bjarna. Hann er líka að spá í svona vél og fyrir hann skipta oddklofar og pípur miklu máli. Þetta er greinilega nördavél dagsins í dag, flott vél fyrir þá sem eru á ferð og flugi en þurfa litla og létta vél sem fólk nennir að burðast með hvert sem er.
Ég hefði skilað þessari vel með það sama ef ég hefði ekki fundið út þetta með oddklofa og pípur. þetta er algjört grundvallaratriði þegar maður er að vinna í wikipedia og öðrum mediawiki kerfum og ég hafði einmitt hugsað mér það sem einn aðalnotkunarmöguleika vélarinnar að hafa hana með mér á bókasöfn og skrifa þar inn í wikipedia. Ég heyrði þá skýringu á hvers vegna franska wikipedia væri ekki stærri en hún er að það helgaðist af því að franska lyklaborðið væri þannig uppsett að sum algengt tákn í wikipedia væru þannig að það þyrfti að smella þrisvar til að fá þau fram. Svona hlutir skipta miklu máli. Forritarar sem þurfa að forrita kóða með ýmsum táknum eins og pípum verða að hafa inntakstæki þar sem auðvelt er að setja inn þessi tæki.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.8.2008 | 11:39
Guðinn í geðillskukastinu
Þegar ég var lítil stelpa ætlaði ég að vera skáld. Nú eða hagyrðingur sem var ennþá flottara. Ég prófaði mig áfram með rím og orð og ég held að ég hafi verið 9 eða 10 ára þegar ég orti innblásið trúarljóð í þremur línum. Það er svona:
Guðinn í geðillskukastinu
slökkti á perunni
í tilverunni.
Þetta er náttúrulega mjög framúrstefnulegt ljóð, ort um tölvugerða sýndarheima, löngu áður en heimsmyndin breyttist í vettvang Guðanna
þar sem jafnvel sá heimur sem við lifum í núna gæti verið sýndarheimur í einhverri mjög öflugri tölvu og óveður sem blæs yfir borgina er eins og hver annar viðburður í SimCity. Þegar maður hefur uppljómast af svona heimsýn þá skilur maður öðru vísi þessa gömlu frásögn af tölvuleikjamóti:
- Hittusk æsir
- á Iðavelli,
- þeir er hörg ok hof
- hátimbruðu,
- afla lögðu,
- auð smíðuðu,
- tangir skópu
- ok tól görðu.
- Tefldu í túni,
- teitir váru,
- var þeim vettugis
- vant ór gulli;
- unz þrjár kvámu
- þursa meyjar
- ámátkar mjök
- ór jötunheimum.
Í næstu viku kemur út tölvuleikurinn Spore.
Í þeim leik ætla ég að leika Guð.
Nokkur óveðursútköll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2008 | 16:44
Er Google að gera okkur vitlaus?
Erum við öll komin með googleheilahakk og getum ekkert lesið og hugsað lengur? Ágætur prófsteinn á hvort ástand okkar sé svo slæm er hvort við getum þvælst í gegnum greinina Is Google Making Us Stupid? eftir Nicholas Carr. Það er ansi mikill texti í þeirri grein og teygir sig á fjórar blaðsíður.
Hugsanlega höfum við hinir netvæddu og sítengdu og sígúglandi Vesturlandabúar ekki neina eirð lengur til að lesa samfelldan texta.
Hér er hraðsuða úr greininni og framhjátenging fyrir þá sem nenna ekki að lesa. Höfundinn grunar að hann stýri ekki hvernig þekkingarþráðir tvinnast saman í heila símun og hvernig hann býr til þekkingarnet, því sé stýrt of Google leit og því hvernig hann stiklar áfram á þeim steinum sem leitin í Netheimum birtir honum.
Notkun á verkfærinu Google er að breyta hvernig við hugsum. Hann vísar í breska rannsókn á þekkingarleit á Netinu sem sýndi að notendur valhoppuðu bara um Netið, skimuðu innihald á einum vef og fóru svo og komu ekki aftur og lásu ekki nema eina eða tvær blaðsíður af grein eða bók sem fyrir augu þeirra bar.
Svona lestur eða skimun þar sem notendur hoppa, spranga og stikla um í Netheimum er öðruvísi lestur, það er mikil áhersla lögð á hraða og afköst en ef til vill minna á djúpa hugsun.
Höfundur segir frá því þegar Friedrich Nietzche keypti sér ritvél. Það jók afköst hans en það breytti því líka hvernig hann hugsaði og skrifaði. Ritstíll hans breyttist í að vera eins og símskeyti og í stað hugsanna komu "puns" eða hnyttniyrði.
Höfundur ræðir um hvernig verkfæri eins og klukkur breyttu vinnulagi, hvernig fólk fór að hlýða klukkunni og láta stjórnast af tímamælingu í klukku en ekki líkamlegum þörfum um hvenær ætti að borða, sofa og fara á fætur. Höfundur segir líka að við notumst við táknmyndir úr þessum vitundarheimi sem stýrir okkur - við lítum núna á heila okkar eins og tölvur á meðan kynslóðin klukkunnar lýsti heilastarfinu eins og gangverki í klukku. (Innskot: Halldór Laxness er ágætt dæmi um svona klukkkynslóð, hann er voða upptekinn af klukkum, fyrsta greinin sem hann skrifar er um klukku, hann byrjar Brekkukotsannál með klukku og hann skrifaf Íslandsklukkuna um klukku. Það er heimsýn klukkunnar sem býr í ritverkum hans).
Höfundur segir að þetta hvernig við notum tölvu sem táknmynd fyrir heilastarfsemi okkar sé miklu dýpra en táknmyndin, þetta ráði hvernig við hugsum. Internetið sé að svelgja alla hugsanafærni okkar. Það verður kort okkar og klukka, dagblað okkar og ritvél, reiknivél og og sími, útvarp og sjónvarp.
Þegar Netið svelgir svona í sig aðra miðla þá endurskapast sá miðill í Netheimum á þann hátt sem efni er nú framreitt þar - með tenglum, blikkandi auglýsingu og tengdur öðrum miðlum sem einnig hafa verið svelgdir af Netinu. Efnið á Netinu er framreitt á öðruvísi hátt, í litlum bitum. Og fáir hugleiða að það er Netið sem er að forrita okkur, ekki öfugt.
Höfundur talar um hvernig tíma- og afkastamælingar Frederick Winslow Taylor smellpössuðu við framleiðslu í iðnaðarsamfélögum en Taylor skrifaði bókina The Principles of Scientific Management
kerfi hans er ennþá kjarninn í hugmyndum um iðnframleiðslu. Höfundur segir að taylorisminn sé endurborinn í Google hugsun, þeirri hugsun að öllu sé hægt að lýsa í kerfi, að það sé hægt að finna einhverja bestu leið til að finna upplýsingar og Google fyrirtækið hefur það á stefnu sinni að skipuleggja upplýsingalindir heimsins og gera þær aðgengilegar. Þetta er sýn á upplýsingar eins og vöru og minnir á hugmyndir frá iðnbyltingunni.
Höfundur vitnar í Sókrates, hvernig hann hræðist að fólk fari að einblína á hið ritaða orð í stað þekkingar sem geymd var í huga þeirra þá hætti fólk að reyna á vitsmuni sína og minni þess hrakar. Höfundur segir að Sókrates hafi haft rétt fyrir sér með þetta en hann hafi ekki séð fyrir að til langs tíma þá hafði lestur og skrift þau áhrif að hugmyndir dreifðust og nýjar hugmyndir kviknuðu og elfdu þekkingu.
Gutenberg prentsmiðjan á 16. öld breytti líka heimsmyndinni og það voru þá líka uppi menn sem óttuðust að þessi nýja prenttækni myndi valda hugleti og veiklun í vitsmunastarfsemi.
Höfundur virðist telja að djúplestur sé eitthvað sem komi með því að lesa prentað samfellt mál og slíkur djúplestur sé forsenda djúprar hugsunnar.
Hann varar við því að við förum að stóla á tölvur eingöngu til að skilja heiminn, þá fletjist greind okkar út og verði að gervigreind.
Þráðlausu netsambandi komið á í Túrkmenistan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2008 | 20:01
Wikinews um jarðskjálftann í Grikklandi
Hér er fréttin Large earthquake shakes Greece á en.wikinews.org. Þegar jarðskjálftinn reið yfir Ísland fyrir rúmri viku þá skrifaði ég grein Strong earthquake strikes southwestern Iceland
inn á wikinews. Wikinews er fréttakerfi sem virkar eins og wikipedia og er rekið af sömu aðilum þannig að það er auðvelt að tengja í greinar á wikipedia og myndir og margmiðlunarefni á samnýtta gagnagrunninum commons.mediawiki.org
Þegar breytingasaga greinarinnar sem ég skrifaði er skoðuð þá má sjá að greininni hefur verið breytt 36 sinnum, þar af 12 sinnum af mér. Ég sé að ég skrifaði fyrst í þá grein 29 maí kl. 16:25
Það er áhugavert að sjá hversu fljótt og ítarlegar fréttir koma á wikinews um jarðskjálftann á Grikklandi núna. Fréttakerfi sem tengist wikipedia hefur burði til að vera miklu ítarlegra með alls konar bakgrunnsupplýsingar. Ég ætlaði að reyna að setja slíkar bakgrunnsupplýsingar í fréttina um Suðurlandsskjálftann 29. maí en því miður þá vantar ennþá mjög margar greinar inn á ensku wikipedia um íslenskar aðstæður, ég fann t.d. enga grein um Suðurlandsskjálfta.
Þessi jarðskjálfti núna í Grikklandi virðist svipaður og sá sem var á Íslandi fyrir viku síðan. Þetta er nú dáldið ógnvekjandi, eins gott að það er ekki árið 2012.
En ef maður trúir nú frekar á að það sem gerist eigi sér jarðfræðilegar skýringar þá er ekki úr vegi að lesa sér til í jarðfræði núna. Júlíus hefur nokkur fín blogg um Hveragerðis og Reykjavíkur titringinn síðustu daga.
Sjá hérna:
Borgarhristingur - spennan magnast
Heitt á könnunni í Hveragerði - Hvenær sýður uppúr?
Júlíus bendir á að íbúðabyggð er svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns. Þar hefur nú risið blómleg byggð, reist á sprungum í jarðlögum. Vatnsból Reykvíkinga geta líka mengast í jarðskjálftum.
Það hefur nú líka komið ný vá með þessari nýju tísku að byggja húsin á kviksandi út í sjó. Þetta heita uppfyllingar og hverfin á kviksandinum eru kölluð bryggjuhverfi.
Er kannski fjármálahverfið við Sæbraut byggt að hluta á slíkum kviksandi?
Mér finnst nú atburðir síðustu viku vera tilefni til að fara yfir jarðskjálftavá í Reykjavík og kortleggja hvaða hættur eru mestar. Það þurfa reyndar margar borgir að gera, því hefur verið spáð að í San Fransisko komi fljótlega afar harðir jarðskjálftar.
Tveir látnir í Grikklandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2008 | 13:51
Hvað er Vatnajökulsþjóðgarður stór?
Mér finnst óþolandi að vita ekki hvort Vatnajökulsþjóðgarður er 13% af Íslandi eða 15% af Íslandi eða hvort hann nær yfir 13 þús eða 15 þús. ferkílómetra. Ég nefnilega held áfram iðju minni að skrifa greinar inn á Wikipedia og þar verða upplýsingar að vera réttar og nákvæmar, ekki síst þegar maður er að montast með að þetta sé stærsti þjóðgarður í Evrópu. Það er ekki trúverðugt ef maður veit svo ekki hvað þjóðgarðurinn er stór. Hérna er íslenska greinin sem ég skrifaði á wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og hérna er grein sem ég var að enda við að skrifa á ensku wikipedia um Vatnajökull National Park.
Mér finnst þeir aðilar sem hafa það sem hluta af vinnu sinni að fræða bæði Íslendinga og erlenda tilvonandi ferðamenn um Ísland passi ekki nógu vel upp á hvað Wikipedia er mikilvæg heimild og byrjunarreitur fyrir ferðamenn og almenning og hve mikilvægt er að þar séu upplýsingar réttar og nægar um helstu ferðamannastaði og náttúruvætti. Google notar Wikipedia mikið og greinar í Wikipedia poppa oft efst í leit. Þannig fletti ég upp orðinu Vatnajökulsþjóðgarður áðan á Google og sé að wikipedia greinin sem ég skrifaði og hef verið að breyta kemur efst og svo þar á eftir þá kemur tilkynning um frá umhverfisráðuneytinu um rútuferðir á stofnhátíðina.
Ég held að þessu rútuferðatilkynning sé gagnleg fyrir marga í dag en það er miklu mikilvægara upp á ferðamennsku og náttúruvernd á Íslandi að þeim sem gúgla,sem eru sennilega allir sem leita að upplýsingum á Netinu af Íslandi, sem beint á einhverjar bitastæðar upplýsingar.
Svo tók ég eftir að það var ekki komin nein grein á ensku wikipedia um Vatnajökulþjóðgarð og ekki búið að breyta neitt greinunum um Skaftafell og Jökulsárgjúfur þ.e. segja að þær myndu falla undir Vatnajökulsþjóðgarð.
Á síðum hjá umhverfisráðuneyti er talað um að Vatnajökulsþjóðgarður verði 15 þús en á síðu hjá Icelandic Tourist board stendur að hann sé 13 þús ferkílómetrar. Mig grunar að það sé stefnt að því að þjóðgarðurinn verði 15 þús en sé núna við opnun 13 þús. Ég hins vegar sé það hvergi skrifað og veit ekki hvora töluna ég á að taka með. Það eru líka afar litlar upplýsingar fyrir almenning um Vatnajökulsþjóðgarð á vefsíðu umhverfisráðuneytis, undarlega litlar miðað við hversu merkilegur þessi nýi þjóðgarður er, ekki bara fyrir Ísland heldur fyrir allan heiminn. Af hverju er ekki komið sérstakt vefsetur um þjóðgarðinn?
Ég sé nú reyndar á síðu hjá Iceland Tourist Board að þar benda menn á ensku Wikipedia greinina um Vatnajökull. Því spyr ég eins og fávís kona: Af hverju skrifa ferðamálayfirvöld bara ekki greinar sjálfir inn á ensku wikipedia eða fá kunnáttumenn til að þess og/eða vakta hvort upplýsingar séu réttar í wikipedia greinum og hvort þeim sem gúgla sé beint á bitastæðar upplýsingar t.d. af hverju var ekki búið að skrifa grein á ensku um Vatnajökulsþjóðgarð í dag?
Ég verð svolítið pirruð yfir þessu óvissa 2% af Íslandi (15 % - 13%) og tek ekki gleði mína á ný fyrr en ég veit nákvæmlega upp á fermetra hvað Vatnajökulsþjóðgarður er stór í dag á stofndaginn. Þetta er einhver töluþráhyggja, ég þoli ekki ónákvæmar og misvísandi tölur þar sem þær gætu verið nákvæmari.
En til hamingju Íslendingar og allur heimurinn með Vatnajökulþjóðgarð!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.5.2008 | 22:41
Stjörnustríð og geimferðalag með Worldwidetelescope.org
Microsoft hefur gefið heiminum ókeypis aðgang að hugbúnaði til að skoða himingeiminn. Hægt er að hlaða þessum búnaði niður á http://worldwidetelescope.org
Það þarf nú reyndar dáldið öfluga vél í þetta og helst með Vista stýrikerfi. Ég hlóð þessu niður og prófaði. Wordwidetelescope er gríðalega skemmtilegt verkfæri í störnufræðikennslu. Það er hægt að ferðast um alheiminn og hægt að búa til geimferðalög "guided tours". Þetta er afbragðstól fyrir alla sem eru að læra að kenna stjörnufræði. Það er hægt að hlaða niður geimferðalögum sem aðrir hafa búið til, ég prófaði að fara í ferðalag til hvirfilstjörnuþokunnar Messier 81 sem er í 12 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Það er hægt að súmma út og inn og sjá myndir sem hafa verið teknar með öflugum stjörnukíkjum, sams konar og bestu stjörnuathugunarstöðvar heimsins nota.
Svo er hægt að hægrismella á fyrirbæri sem mæta manni á þeysireiðinni um geiminn og fletta upp upplýsingum. Ég var hrifin af því að það var hægt að velja um nokkur gagnasöfn og þeirra á meðan var Wikipedia. Það eru fínar upplýsingar um ýmis stjarnfræðileg fyrirbæri í ensku wikipedíu.
Google hefur áður slegið í gegn með Google Earth og mér skilst að Google Sky sé svipað og Worldwidetelescope en ekki eins gott. Það er ekki vafamál að hin mikla barátta sem nú er milli Microsoft og Google er að skila okkur notendunum því að við höfum núna ókeypis aðgang að þessum góðu forritum.
Sjá um stjörnustríðið nýja t.d. í þessari grein:
Digital World: Virtual universe star wars | Jerusalem Post
Takk Microsoft fyrir þennan frábæra hugbúnað!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)