Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Tölvuleikir og vinnuumhverfi

Leikir búa ungviði undir fullorðinsárin. Þannig hafa leikir barna búið börnin undir lífið, bæði fjölskyldulífið þar sem þau leika fjölskyldumynstur í mömmuleikjum og svo bílaleiki og búskaparleiki með leggjum og skel. Það verður sennilega hlutskiptri fárra barna núna að standa fyrir búi og kunna að auka búsmala sinn með hyggindum og heyöflun. En mörg börn sem vaxa upp í dag munu þurfa starfa og sækja félagslíf sitt til hins starfræna samfélags á Internetinu. Þau munu vinna í fyrirtækjum þar sem starfsfólkið er dreift um allar heimsins álfur og þau verða að kunna að vinna saman í hinu stafræna umhverfi í einhvers konar hópum. 

Tölvuleikirnir sem krakkarnir spila í dag rækta að sumu leyti slíka samskiptatækni. Hér er grein á BBC um það: http://news.bbc.co.uk/2/hi/technology/7030234.stm

 


Ljóstvistar og ljósahátíð

Ég er hugfangin af LED tækni í ljósum, ég held að þetta sé byltingakennd tækni í svona skammdegisborg eins og Reykjavík. Þetta heita ljóstvistar eða ljósdíóður á íslensku. Ég byrjaði áðan á grein um LED á íslensku wikipedia.

Hugsanlega mun þessi tækni gera okkur kleift að lýsa upp vegi og umhverfi á hátt sem ekki er mögulegt núna. Núna sér maður sums staðar svona ljósdíóður notaðar í jörðinni til að lýsa upp heimreiðar.  Nokkrar borgir eru farnar að skipta út  venjulegri götulýsingu í svona LED lýsingu, sjá þessa grein á Engadget

Ætli  vegir í dreifbýli á Íslandi og hafnir og skip og fleiri mannvirki verði lýst á þennan hátt í framtíðinni? 

Mér sýnist óteljandi notkunarmöguleikar fyrir þessa nýju ljósatækni í dimmu landi  á Norðurslóðum.

Það væri flott ef ljósahátíð í Reykjavík tæki fyrir ljóstvista.

Best að gera tillögu um það.


Tortryggin út í Myspace

Ég er nú búin að vera tortryggin úr í Myspace alveg síðan þeir lokuðu Myspace síðunni minni um árið. Það var út af því að ég gagnrýndi að þeir lokuðu á vídeó frá Youtube. Á þeim tíma þá voru eigendur Myspace sennilega að reyna að kaupa upp eigin vídeóþjónustu og lokuðu fyrir aðgang frá öðrum.

Hér eru mín blogg um þetta (á ensku): 

Myspace and Web 2.0

Myspace censorship continues

 Misunderstanding??? MySpace swallows and silences YouTube

 Flushing Myspace Down the Tubes

Myspace in the Brave New World

Það var nú svo mikið ergelsi út af þessu að Myspace opnaði fyrir Youtube aðgang aftur. Það er fyndið að á þeim tíma þá leit ég á Youtube sem litla og óþekkta vídeóþjónustu sem bara ég og nokkrir sérvitringar notuðu. Svo bara nokkrum mánuðum seinna þá kom í ljós að þetta er ein mest heimsótta vefslóð í heiminum.

Annars líst mér þrælvel á þetta samstarf Myspace og Skype. Vonandi kemur Skype líka til að virka með ning.com og facebook.com. Það eru félagsnet sem passa betur við sum kennslunot.


mbl.is MySpace og Skype hefja samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinnuþýðingar

Nú hef ég síðustu tímana verið að bisa við þýðingar í https://launchpad.net/ það er feikisniðugt kerfi til að þýða opinn hugbúnað milli tungumála. Mikið vildi ég að tungutækniverkefnin íslensku hefðu eitthvað komið inn á þetta svið og notað svona verkfæri. Það léttir mikið lífið að hafa þýðingar svona á vefnum.

Ég er aðallega að þýða Elgg hugbúnaðinn, ég byrjaði á því fyrir meira en ári síðan og ég sé að alla vega fimm hafa lagt hönd á plóginn við þýðinguna. Það geta allir komið að svona þýðingu og ef eitthvað orð eða orðasamband  hefur verið þýtt í öðrum opnum hugbúnaði á íslensku þá fæ ég uppástungu um þær þýðingar. 

Hér eru nokkur af þeim  forrit sem ég spreytti mig við að bæta eða byrja á þýðingum í launchpad:

  • https://translations.launchpad.net/elgg
  • https://translations.launchpad.net/cuecard
  • https://translations.launchpad.net/focus-sis
  • https://translations.launchpad.net/g2image
  • https://translations.launchpad.net/pybridge
  • https://translations.launchpad.net/stellarium
  • https://translations.launchpad.net/wpg2
  • https://translations.launchpad.net/wesay
  • https://translations.launchpad.net/inkscape/

Ég reyni eins og ég get að nota tölvuorðasafnið 4. útgáfu því það er mikilvægt að hafa svona þýðingar sem mest staðlaðar. Tölvuorðasafnið er á vefnum: http://tos.sky.is/tos/to/

Það eru samt sum orð mjög óþjál og framandi  í tölvuorðasafninu t.d. að nota fyrir parent orðið  umflekkur og færsluhnappur fyrir Enter. Ég er ekki viss um að fólk átti sig á þessu. Ég fann að orðið "dashboard" er þýtt þar sem lesborð en það vantar alveg þýðingu á "widget". Sumir hafa þýtt það sem viðmótshlut en mér finnst sú þýðing ekki góð. "Widget" er meira eins og tæki eða tól oft frá þriðja aðila sem límt er eða hengt á  lesborðið. Besta orðið sem mér dettur núna í hug er smától. 

Ég veit ekki alveg hvort borgar sig að  þýða forrit eins Inkscape. 


Dagur opins og frjáls hugbúnaðar

young-softwarefreedomÍ dag er Softwarefreedomday 2007 eða dagur þar sem vakin er athygli á frjálsum og opnum hugbúnaði. Það er mjög mikilvægt í skólastarfi að hafa aðgang að góðum hugbúnaði og ekki síst hugbúnaði sem er uppfærður og sem auðvelt og leyfilegt er að aðlaga að þörfum notenda. Það hættir mörgum við að einblína á að það verði að kaupa tölvur fyrir börnin en það er ekki nóg, það skiptir meira máli til hvers þau nota tölvuna. Það er ekki nóg að hafa fullkomin tæki  fyrir nemendur ef enginn hugbúnaður er til að nota þau. 

Einu sinni var hugbúnaður alveg fáránlega dýr. Núna bjóðast skólanemum Office forrit á mjög hagkvæmum kjörum. Það eru fín forrit. En það eru líka til opin og ókeypis útgáfa af sambærilegum forritum Open Office.  

Ég nota núna margs konar opinn hugbúnað með nemendum. Sérstaklega vil ég nefna Mediawiki, Moodle og Elgg. Það eru allt kerfi sem eru í mikilli þróun. 

Ég hélt upp á daginn með því að vera mest allan daginn að pæla í opnum hugbúnaði og setja upp nokkur vefsvæði með slíkum forritum þ.e. með Mediawiki, Wordpress og Moodle.

Sigurður Fjalar   og Fjóla  og Ella Jóna hafa nýlega skrifað  góðar blogggreinar um hvernig þau nota og sjá fyrir sér hvernig má nota opnar lausnir í skólastarfi. Við erum mörg sem notum opinn hugbúnað jafnt í háskóla, framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla.

Á Softwarefreedomday árið 2006 stofnuðum við félag um opinn hugbúnað í skólastarfi.

Ég setti í dag upp Wordpress vef fyrir það félag á isfoss.org

3F félag um upplýsingatækni og menntun er nýbúið að setja upp finan vef joomla vef  á 3F.is 

Það hefur orðin mikil breyting  á seinustu misserum  í viðhorfi þeirra sem sjá um tölvuumhverfið á mínum vinnustað til opins hugbúnaðar. Núna er skilningur og áhugi fyrir opnum hugbúnaði og ég og Sólveig höfum fengið aðstöðu til að prófa slíkan hugbúnað með nemendum. Vonandi vaknar áhugi hjá Námsgagnastofnun og fleiri aðilum í menntakerfinu á mikilvægi opins aðgangs bæði að hugbúnaði og námsgögnum.


mbl.is Verðið á „100 dollara fartölvunni“ komið í 188 dollara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vefhýsing fátæka mannsins.. á linux

Ég er búin að vera núna í marga klukkutíma að baxa við að uppfæra Mediawiki vef sem ég er með til ýmissa tilrauna. Ég er með  lén og tilheyrandi vefsvæði á dreamhost.com vegna þess að það er svo ódýrt og þó aðallega vegna þess að þeir bjóða upp á það sem þeir kalla "one click installs".

Dreamhost er reyndar ekki með fantastico  og cpanel sem er innsetningarbúnaður sem margir vefhýsingaraðilar bjóða. Fantastico er mjög flott og afar einfalt að setja inn forrit, það er mjög einfalt t.d. að setja upp wordpress blogg þar eða moodle  vefi.  En því miður er Mediawiki ekki meðal forritana sem eru í Fantastico pakkanum og því valdi ég Dreamhost vegna þess að það á sem sagt að vera hægt að setja upp Mediawiki með einum músasmelli.Það er reyndar ekki erfitt að setja upp Mediawiki en það þarf alltaf öðru hverju að uppfæra forritin og ég var að uppfæra í dag. Þá krassaði allt og ég fann ekki út úr hvað hefði gerst þannig að ég setti inn svona hjálparmiðabeiðni í notendaþjónustu Dreamhost.

Ég fékk strax svar, þar sem stóð að það þyrfti alltaf að keyra eitthvað uppsetningardæmi þegar uppfært væri og ég yrði líka að passa að hafa sett upp php 5 ekki php 4. Ég var búin að því, ég var búin að lesa mér til um það. Svo stóð að ég ætti að fara í skeljaraðgang og skrifa inn einhverja skipun. Ég fann út úr því hvernig ég færi í þennan skeljaaðgang og hlóð niður einhverju telnet forriti Puffy til þess, komst inn og sló inn skipunina. Það gekk ekki. Svo ég skrifaði aftur. Fékk svar aftur um að prófa eitthvað annað, ég gerði það, virkaði ekki og ég skrifaði aftur út, fékk þá  að það væri hægt að velja um tvær skipanir og ég ætti að prófa að slá inn eitthvað svona:

/usr/local/php5/bin/php

/home/vefslodnet/vefslod.net/wiki/maintenance/update.php

Ég gerði það og  þetta virkaði ekki, ég skrifaði aftur til baka og sagði frá því og þá prófaði hinn það sjálfur og það gekk  og það kom bréf frá honum að þetta hefði gengið  og það yrði allt að vera í einni línu. 

Hmmm... ef þetta er dæmi um one click installs þá... Tæknimaðurinn sem ég var í bréfaskiptum við í dag virtist gefa sér að ég fyndi það á mér að einhver langloka sem hann skrifar í bréfi í tveimur línum ætti að setjast saman í eina línu. Þetta er líka dæmi sem skýrir út hvers vegna ég er komin yfir í þennan linux heim, hann er stundum svona eins og þetta dæmi. 

Annars talandi um Mediawiki þá er það sama kerfið og Wikipedia keyrir á og er bara ansi þjált wikikerfi, alla vega fyrir okkur sem erum orðin vön kerfinu. Allt á íslensku og mikið framþróun í því því að margt af fólkinu sem skrifar og setur upp wikipedia vinnur í framþróun Mediawiki. Það er auðvitað opinn hugbúnaður svo hver sem er getur tekið hann og notað.  Svo er ég búin að kynna mér að það er hægt að fá alls konar viðbætur t.d. til að hægt sé að spila youtube videó og hafa gagnvirk próf og ég er að reyna að setja það inn.

Hér er eru nokkrar spurningar sem ég gerði sem dæmi um prófaviðbótina sem hægt er að fá  á Mediawiki og hér er dæmi um viðbót til að setja vídeó inn á mediawiki. það er líka hægt að sækja sér viðbót til að krakkar geti teiknað saman eina mynd.

Það er reyndar pirrandi að kunna ekki sjálf nógu mikið í þessu php/linux uppsetningarmálum og þurfa að vera háð tæknifólki um það. Það virkar ekki vel og ég ætla því að finna sjálf út úr því hvað þarf að gera. 

Það er ekki nóg að það sé auðvelt að setja forrit upp í fyrsta skipti, það er mjög mikils virði að það sé auðvelt að uppfæra þau, það er nú einmitt meira í húfi því þá eru kannski komin mikilvæg gögn í gagnagrunn sem vera að virka og vera aðgengileg í nýju uppfærslunni. 

Flestar ókeypis vefhýsingar eru geymdar erlendis, einhvers staðar þar sem hýsing er ódýr. Þetta vefhotel.com sem bauð íslenska vefhýsingu var bara eitt svoleiðis dæmi, svoleiðis vefþjónustur eru gjarnan hýstar af stórum aðilum eins og dreamhost.

Það er ódýrt fyrir marga aðila að slá saman og vera með vef t.d. hjá dreamhost. Það má hafa mörg lén á hverju svæði þar og fyrsta lénið er frítt en næstu kosta svona 6 til 10 dollara á ári þannig að það er hverfandi kostnaður að vera með sitt  eigið .net lén á dreamhost. 

Ódýrar vefhýsingar eru t.d.

http://www.dreamhost.com 

http://www.site5.com/ 

http://www.mediatemple.net

 Það kostar mig ekki nema um 500 krónur íslenskar á mánuði að hafa svæði á Dreamhost þar sem ég get núna geymt allt að  250 Gígabyte. Sú heimild stækkar með hverri viku. Ég var reyndar að taka eftir að ég er ekki að nota nema 2% af því plássi sem ég má nota. Ég má setja upp eins marga Mysql gagnagrunna eins og ég vil, eins mörg lén og ég vil og ég get sett upp ftp aðgang.

Svo ef maður er blankur og vill ekki borga neitt fyrir vefhýsingu þá er hægt að fá ókeypis vefsvæði víða. Það er hægt að setja upp flotta vefi án auglýsinga á googlepages og svo er líka hægt að fá ókeypis vefsíður á http://www.freewebs.com/  og ókeypis wiki t.d.  á  PBwiki.com og  wikidot.com

Ef maður þarf bara geymslustað fyrir stafræna draslið sitt þá er hægt að koma sér upp geymslu á Box.net  það er ókeypis alla vega 1 GB og kostar ekki mikið að stækka svæðið.

Það er  oftast betra fyrir leikmenn að notfæra sér vefþjónustur sem bjóða upp á tæki til að setja upp sjálfvirkt þannig að maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af uppsetningu.  En þá hefur maður líka minna frelsi til að aðlaga umhverfið. Sérstaklega bagalegt er að þá er umhverfið yfirleitt á ensku og ekki hægt að íslenska.

 

Það er reyndar mjög áhugaverð grein um vefhýsingar á http://news.netcraft.com/ 

Þar má sjá að markaðshlutdeild Microsoft vefþjóna er að aukast

vefthjonar

 

 

 


Stafrænar myndavélar eru ekki bara til að taka myndir

Ég hef átt þrjár stafrænar myndavélar og fjórðu átti pabbi minn.  Síðustu tvær eru einmitt af gerðinni Canon Ixus, núna tek á ég Canon Ixus 500 sem er með 5.0 megapixels.

Ég held að það sé ekkert verkfæri sem ég nota eins mikið og þessa myndavél. Ég tek aragrúa af myndum og margar myndanna hleð ég rakleiðis inn á myndasvæði mitt á Flickr.com. Ég nota sérstakan hugbúnað Flickr uploader til þess að vera fljót að því.

En ég nota myndavélina mína ekki bara sem ljósmyndavél til að taka myndir. Ég er eiginlega alltaf með myndavélina á mér, hún er svo pínulítil og nett. Núna nota ég myndavélina oft til að taka upp vídeó með hljóði. Það kemur sér oft vel að vera með upptökutæki á sér, stundum nota ég þetta bara sem minnisatriði en stundum set ég svona vídeóklipp inn á youtube. 

Ég nota líka stafrænu myndavélina mína oft sem ljósritunarvél og skanna, ég tek myndir af blöðum og reikningum, ég tek myndir af því sem stendur á skiltum o.s.frv. Ég tek stundum myndir af blaðagreinum sem ég ætla að halda upp á, þá get ég hent blaðinu en á myndina. 

Ég  nota myndavélina í margs konar praktískum tilgangi og ég er alltaf að finna nýja notkunarmöguleika. Eitt seinasta er að taka mynd af öllum tenglunum aftan á nýju tölvunni minni og hafa þá mynd aðgengilega á flickr með skýringum um hvað  er hvað því ég er orðin svo leið á því að skríða á gólfinu og reyna að plögga inn þessari og hinni snúrunni og sjá ekkert til hvað er hvaða tengill í hvert skipti sem ég er að skipta eitthvað um inntakstæki.

057

Svo tek ég líka myndir af ýmsu  í umhverfinu sem vekur athygli mínu. Ég var að taka eftir að núna er ég með 3.361 myndir á flickr. Þær eru flestar teknar á Digital Ixus myndavélina mína en reyndar eru sennilega líka þar margar skjámyndir sem ég tek beint af vefsíðum.

Það sem ég myndi óska mér væri að eiga ljósnæmari vél, ég er oft að taka myndir af viðburðum í slæmum ljósaskilyrðum. Einnig hef ég ekki fundið út hvernig ég stilli digital vélina mína til að vera vefmyndavél. Það gengur alveg að taka upp en ég get bara tekið upp eina mínútu í einu og get ekki horft beint á upptökuna þegar ég stilli það á "self-timer". 

En digital myndavél getur sem sagt auk þess að taka myndir, tekið upp vídeó og hljóð, verið ljósritunarvél og skanni og vefmyndavél. 


mbl.is Minni munur á gæðum en verði myndavéla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er andspyrnuhreyfingin á Íslandi?

Mesta fjörið og mesta andspyrnan á Íslandi í gær var á fundi Staðlaráðs Íslands í gær. Það þurfti ekki neinn speking til að sjá að fundarmenn þar voru ekki beinlínis í hollvinafélagi Microsoft fyrirtækisins. Þar var tekist á um OOXML staðalinn Það var múgur og margmenni á fundinum, áður hafði farið fram umræða á Netinu t.d. Sigurður Fjalar skrifað pistilinn Segjum nseei við OOXML! og heit umræða hefur verið á rgug póstlistanum.Á vefsíðunni noooxml.org  og víða á vefsíðum er hægt að lesa meira um gagnrýnina á OOXML.

Hér er 7. mín. vídeó sem ég tók á fundinum í gær.

 Athugasemd!!!

Ég fjarlægði vídeóið sem ég birti hér í morgun vegna sérstakrar beiðni og ábendingar (sjá athugasemdir með þessu bloggi) um að upptaka mín og birting á efninu  stangaðist á við persónuverndarlög. Ég hafði í framhaldi samband við Rakel lögfræðing hjá Persónuvernd og spurðist fyrir um það. Af svörum hennar get ég ekki ráðið að ég hafi gert neitt ólöglegt. Hér stangast á sjónarmið tjáningarfrelsis og persónuverndar og það er mat mitt eftir samtal við Rakel að ég sé í fullum rétti að birta þessa upptöku eftir að ég hef gert á henni þá breytingu að ég hef tekið út upptöku af þeim sem hafa lýst sig mótfallna birtingu þess. Það var náttúrulega sjálfsögð kurteisi hjá mér að gera það og ég mun verða við þannig óskum frá öllum þeim sem birtast á vídeóinu. Ég mun hins vegar ekki fjarlægja það eins og beðið var um því þetta vídeó er höfundarverk mitt og mín sýn á stemmingu á þessum fundi og skráning mín á samtímaatburði. Allt sem kemur fram á þessu vídeó er gert af virðingu við fólkið sem þar er sýnt og þetta fjallar ekki um nein einkamálefni. Þetta eru umræður á opinberum fundi og þeir sem taka til máls tala afar skynsamlega og segja frá hvernig til hafi tekist varðandi tæknileg mál og eða ræða rök með eða móti því að gagnasnið sem upprunnið er hjá Microsoft verði að alþjóðlegum staðli. Það er hins vegar ekkert launungarmál að ég reyni að draga taum þeirra sem tala fyrir opnum hugbúnaði og vinna í þannig umhverfi, ég reyni að sýna stöðu þeirra m.a. með að sýna hvernig á þessum opinbera fundi margar hendur voru á lofti og margir vildu tjá sig en fengu ekki tækifæri til þess. Ég er að leitast við að sýna þennan veruleika sem við búum við þar sem afar völdugir hugbúnaðarrisar eru í nánast einokunaraðstöðu  og ekki tekið tillit þeirra sem þó hafa þekkingu og færni og benda á aðrar leiðir. Ég tók einnig út vídeó sem var af fulltrúa frá Microsoft sem var á upprunalega myndbandinu þar sem ég var að leitast við að sýna báða málstaði. Það var allt skynsamlegt sem hann sagði. En af því að ég held að birting mín og öll opinber umræða um þetta mál sé Microsoft í óhag þá vil ég ekki draga viðkomandi starfsmann inn í þetta á neinn hátt. Það voru kurteislegar, upplýsandi og málefnalegar umræður á þessum fundi. Ég tel að almenningur eigi gjarnan að fá að fylgjast með slíkum fundum m.a. í gegnum skráningar þeirra sem eru á fundum. Það er hins vegar hætta á að frásagnir af svona fundum séu litaðar af viðhorfum þeirra sem vilja fá einhverja ákveðna niðurstöðu. Þannig er ekki gott að öll skráning á því hvað gerist á svona fundum komi frá stjórnvöldum eða stórum hagsmunaaðilum.

hér er frásögn Sigurðar Fjalar frá fundinum: Stál í stál á opnum fundi Staðlaráðs

 

það eru engir skæruliðar í hlíðum Esju og það eru engir liðsmenn Hróa hattar sem fela sig í skógarkjarrinu í Heiðmörk og það eru engir alþýðuherir hérna með fyrirsát og götuvirki á Reykjnesbrautinni. Það er meira segja allur vindur úr herstöðvarandstæðingum núna þegar herinn er farinn og allir hvort sem er á móti Bush og stríðinu í Írak, það er erfitt að halda uppi dampi með eitthvað baráttumál sem allir eru hvort sem er sammála um.

 

það er enginn grundvöllur fyrir Keflavíkurgöngum lengur og tímanna tákn að baráttujaxlinn Birna þórðardóttir er farin að leiða göngur túrísta um götur Reykjavíkur fyrir utan að klæða sig upp á einn dag á ári og berja svipur í Gaypride. Femínisminn er búinn að gjörsigra á Íslandi, margir yfirlýstir femínistar eru í ríkisstjórninni og búið að banna súlunektardansinn. Ég  get þessa daganna ekki fengið af mér að ráðast  mikið að andstæðingum okkar femínistanna því það er eins og að sparka í liggjandi fólk. Sennilega verður þess ekki langt að bíða að Keflavíkurgangan verður endurvakin sem heilsubótarganga fjölskyldunnar svona eins og súludans eða súlufitness er núna aðaltískan í heilsuræktinni.

En hvar er andspyrnuhreyfing nýrra tíma á Íslandi? Eru engir undirstraumar sem síðar munu renna saman í stórt fljót og brjóta sér leið upp á yfirborðið? Ég held að slík hreyfing muni vaxa upp í því net- og tölvuumhverfi sem umlykur okkur. Það er áhugavert að skoða hakkarasamfélög og  samfélög um opinn og frjálsan hugbúnað og samfélög um opið aðgengi að gögnum opg sjá hvernig smám saman eru þar að vaxa upp félagslegar hreyfingar. Wikipedia samfélagið er ekki bara samfélag þar sem saman kemur fólk sem vill endilega skrifa greinar í alfræðirit, það er líka samfélag þar sem að dregst fólk sem flest deilir þeirri sýn að þekking eigi að vera opin og frjáls til afnota fyrir hvern sem er en ekki sérstök gæði valdastétta til að tryggja áframhaldandi völd.

Búin að setja vídeóið aftur inn eftir ritskoðun!
Sjá efst í þessu bloggi


Fyndið fréttaskot hjá Rúv úr fréttum 1988

salvor-1988ruvÉg brosti þegar sjónvarpsréttirnar í kvöld enduðu með því að sýna upptöku frá tölvusýningu 1988. Reyndar skellihló ég þegar ég svo sá að inn í því var viðtal við mig sem tekið var fyrir 19 árum. Það er gaman að sjá hvað allt er eitthvað svo forneskjulegt, það má ekki á milli sjá hvort er forneskjulegra ég með permanent og risastór gleraugu og einhverja skrýtna hálsfesti með trédýrum eða tölvurnar fornu með græna letrinu. Þegar ég horfði á þáttinn fylltist ég sams konar nostalgíu og þegar ég horfi á  vídeobrot úr  kvikmyndinni "Síðasti bærinn í dalnum" eða frá hagyrðingamótunum sem sjónvarpið bauð okkur upp forðum daga. 

Ég vildi að ég ætti ennþá allar þær tölvur sem ég hef átt og losað mig við um dagana - sérstaklega væri nú gaman að eiga Sinclair Spectrum sem var mín fyrsta tölva, ég held ég hafi fengið hana árið 1982 eða 1983. Svo átti ég Apple IIe og síðar Macintosh og svo nokkrar PC tölvur. Ég hef nú ekki tengst neinum af þessum PC tölvum neinum tilfinningaböndum, þær hafa bara verið vinnujálkar sem koma og fara.

Sennilega þyrfti ég stóra geymslu fyrir allar þær tölvur sem ég hef átt um ævina og sem tæknibreytingar hafa gert undrafljótt úreldar, meðalendingartími tölvu er og hefur verið svona um þrjú ár, þá er hún orðin svo úrelt og seinvirk að það borgar sig ekki að lappa upp á hana. Reyndar gildir það sama um gemsa og stafrænar myndavélar, ég er núna með fjórðu stafrænu myndavélina um ævina. 

Núna eru aðstæður að verða þannig að það er bara tímaspursmál þangað til tölvur verða svo ódýrar að hvert einasta barn í grunnskóla getur haft sína eigin nettengdu fartölvu. Það eru reyndar mikil þróunarvinna núna lögð í alþjóðlega OLPC verkefnið (one laptop per child) - að framleiða fartölvu sem kostar innan við $100 sem myndi nýtast í þróunalöndum og fyrir fátæk börn. Hugbúnaður er einnig að verða ódýrari ekki síst vegna opins hugbúnaðar en samkeppni við hann hefur þvingað marga hugbúnaðarsala til að lækka verðið á sínum vörum. Það er erfitt að selja vöru rándýrt þegar allir geta hlaðið niður ókeypis sams konar eða betri vöru. 

En það er gaman að velta fyrir sér hvernig ástandið verður eftir tuttugu ár. Sennilega munum við líka brosa þegar við lítum á fréttaskot úr sjónvarpi frá árinu 2007 og þann búnað sem þá var notaður, við munum hlæja okkur máttlaus af því að einhverjir hafi nennt að horfa á pínkulítil og óskýr vídeó á Youtube og við munum brosa að blogg og netkynslóðinni sem notaðu jafneinföld verkfæri til samskipta og  moggabloggið og myspace-ið.  En það getur verið að eftir tuttugu ár þá þyki okkur allra broslegast að árið 2007 og áratugina á undan hafi fólk verið fast í þá ímynd að sjónvarp ætti að vera eitthvað miðstýrt stórt batterí í eigu ríkisins eða stórfyrirtækja og með heimkynni í musterum eins og RÚV kirkjunni í Ofanleiti. Líka að sjónvarp ætti að senda út straum á ákveðnum tímum til margra viðtakenda. Sennilega hefur eftir tuttugu ár þetta líkan brotnað upp,það verða ekki eins skýr mörk milli þess sem sendir út og þeirra sem hlusta. Ef til vill verður Þjóðarsálin þá í einhvers konar vídeóþingi þar sem margir taka þátt í útsendingu sem ekki hefur endilega neina miðju eða stjórnanda.

En svona til að geta hlegið aftur eftir tuttugu ár þá er hérna  lítið youtube vídeóblogg frá mér:


Opinn hugbúnaður í skólastarfi

Ég var í morgun í Eldborg í Bláa lóninu og flutti erindi um opinn hugbúnað í skólastarfi á Íslandi á fundi COSSNordic netsins en það  er verkefni styrkt af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni og eru Samtök iðnaðarins þátttakendur þar. Á undan mér talaði Halla Björg sem stýrir verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu og hún talaði um stefnu stjórnvalda og opinn hugbúnað og hver reynslan hefði verið í stjórnsýslunni. Vonandi mun ríkisstjórnin sem fyrst samþykkja stefnu um opinn hugbúnað.

Það var gaman að hitta Höllu Björgu, hún var einu sinni framhaldsskólakennari eins og ég og skrifaði kennslubók í Basic sem ég kenndi einu sinni fyrir guð má vita hvað löngu. Svo er hún líka að vinna núna á sömu skrifstofu og ég vann hjá fyrir nokkrum árum í forsætisráðuneytinu. Ég á góðar minningar þaðan, það var frábær vinnustaður.

Eftir hádegi fór ég fund með tölvufólki hér í vinnunni um  uppsetningu hugbúnaðar í tölvuverum. Þaðer búið  að setja  nýjar tölvur í tölvuverin. Ég  er búið skrifa langan óskalista um það sem ætti að vera inn á öllum tölvum og geri allt sem ég get til að fá nemendur og starfsfólk til að nota opinn hugbúnað. 

Það er nú reyndar ekki allt sem er opinn hugbúnaður sem ég vil fá inn á nemendatölvur, það er líka ýmis ókeypis hugbúnaður. Hér er listi yfir nokkur af þeim forritum/búnaði sem ég bað um til viðbótar ð við þessa venjulega windows-office forritavöndla og photoshop. Mér finnst atriði að hafa líka Gimp inn á vélunum eins og photoshop jafnvel þó flestir noti photoshop.

 

*  Moviemaker  (ókeypis microsoft)

* Reaper (ókeypis óskráð útgáfa)

* Scratch (ókeypis)

* Skype (ókeypis)

* Winsnap (ókeypis)

* Inkscape (ókeypis, open source)

* Blender (ókeypis, open source)

* Pichasa  (ókeypis)

* Filezilla (ókeypis, open source)

* Audacity (ókeypis, open source)

* Freemind (ókeypis, open source)

* Paint.net (ókeypis, open source)

* tuxpaint  (ókeypis, open source)

* artrage (ókeypis útgáfan) 

* Camstudio (í staðinn fyrir camtasia)   (ókeypis, open source)

* jing (í staðinn fyrir camtasia) (ókeypis - tímabundið)

* photostory (ókeypis microsoft)

* hot potatos (http://hotpot.uvic.ca/) (ókeypis)

sketchup (ókeypis frá google) 

 Flest forrit sem ég nota eru reyndar vefþjónustur og þá þarf oftast ekki að hlaða neinu niður. Það getur verið að það sé vesen að setja ýmislegt inn. Það er nú frekar ólíklegt að skype verði sett um í tölvuverum, það er p2p kerfi sem erfitt að sýsla með í skólaumhverfi segja mér fróðari menn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband