Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.1.2007 | 18:58
Áfengisauglýsingar sem beint er til unglinga
Það spretta upp eins og gorkúlur vefir sem höfða til unglinga á framhaldsskólastigi. Ég hef bent á það áður í pistlinum Cult Shaker kúltúr á Íslandi. Það er augljóst hverjir styðja við þessa vefi, það eru þeir birgjar sem selja vímuefni, þetta eru vefir sem gera út á að ánetja unglinga fíkniefnum, þarna eru áfengisauglýsingar í bland við einhvers konar skólatengt efni. Svo er þetta kryddað með kvenfyrirlitningu í máli og myndum og alls konar kynlífsvísunum í myndum. Er einhver að furða sig á hvaðan fólkið kemur sem þarf á aðstoð SÁÁ og Byrgisins að halda? Er einhver að furða sig á hve íslenskt samfélag er þrungið kvenfyrirlitningu?
Hvað eru aðilar sem sjá um einhverjar fyrirbyggjandi aðgerðir í vímuefnamálum að hugsa? Hvað er lögreglan að hugsa? Ég hélt að það mætti ekki auglýsa áfengi, var ég að missa af einhverju, er búið að leyfa það ? Vilja foreldrar á Íslandi virkilega svona menningu og skemmtanalíf unglinga?
Hér fyrir ofan er skjámynd af vefnum splash.is sem ég tók rétt áðan. Það er pistil upp eitthvað skólatengt og svo krökkt af áfengisauglýsingum. Ef þetta er ekki lágmenning þá veit ég ekki hvað lágmenning er.
Hér fyrir neðan er skjámynd af einni af vefnum pose.is. Það eru á þessum vefum gjarnan djammmyndaseríur sem sýna myndir frá drykkjusamkomum á skemmtistöðum. Allar myndirnar eru skreyttar ókjöri af áfengisauglýsingum og sjá má að veitingastaðirnir sem djammið fer fram eru líka skreyttir með áfengisauglýsingum. Myndirnar af konum á þessum stöðum eru oft myndir af fáklæddum konum sb þessa mynd sem lítur út fyrir að vera pornósýning og myndirnar af strákum eru gjarnan þannig að þeir eru að drekka, það virðast vera einhvers konar bjórauglýsingar.
Það vekur athygli hvað vefirnir pose.is, 69.is og leikjaland.is eru tengdir og vísa hver á annan. Þeir virðast vera reknir af sama aðila og það virðist vera kappsmál þeirra aðila að halda áfengi og svona lífsstíl þrungnum kvenfyrirlitningu að ungmennum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.1.2007 kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.1.2007 | 11:59
Þekkir landlæknir ekki lög um skyldur landlæknis?
Matthías Halldórsson landlæknir segir í grein á bls. 28. í Morgunblaðinu í dag: "....þar sem ég tjáði ráðuneytisstjóranum að við hefðum ekkert um fortíð Byrgisins að segja þar sem það heyrði ekki undir eftirlitshlutverk landlæknisembættisins, það teldist ekki sjúkrastofnun og ég vissi ekki til að embættið hefði komið neitt að ákvörðun um fjárveitingar til þess. Fréttir af fjárveitingum til Byrgisins sjáum við nú orðið bara í fréttum eins og aðrir".
Í lögum nr. 39 frá 1964 er kveðið á um meðferð drykkjusjúkra og eftirlitsskyldu landllæknis.
8. gr. Meðferð drykkjusjúkra skal vera í höndum lækna, sjúkrahúsa, heilsuverndarstöðva eða annarra stofnana, sem til þess hafa hlotið sérstakt leyfi heilbrigðisstjórnarinnar og háðar eru eftirliti hennar.
Stofnanir eða einstakir læknar, sem hafa drykkjusjúklinga til meðferðar, skulu senda landlækni, eða þeim, er hann ákveður, upplýsingar á þar til gerðum eyðublöðum, er skrifstofa landlæknis lætur í té.
Er hægt að túlka þetta öðru vísi en að landlækni beri að hafa eftirlit með stofnunum sem stunda einhvers konar meðferð á drykkjusjúkum og gera það í velþóknun og með fjárstuðningi frá opinberum aðilum? Landlæknir segir í greininni "Við flokkum handayfirlagningar og annað í þeim dúr ekki til meðferðar". Þetta er vissulega þörf ábending til yfirvalda og það er afar þarft að fagaðilar og aðilar með sérfræðikunnáttu eins og landlæknir skýri hvað er meðferð og hvað er ekki meðferð.
En þegar rýnt er í skýrslur og plögg um Byrgið þá er alveg ljóst að þar fór fram einhvers konar meðferð þó hún væri ekki í höndum læknis og það hefur nú einmitt verið vegna trúar á þessa tegund af meðferð að Byrgið hefur fengið opinbert fé. Er það fyrst núna sem landlæknir gerir athugasemd við starfsemi Byrgisins og er það fyrst núna sem hann útskýrir hvað landlæknisembættið telur vera meðferð?
Í lögum um landlæknisembættið segir: " Landlæknir skal vera ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt, er varðar heilbrigðismál." og þar stendur líka: " Landllæknir heldur uppi eftirliti með lækningastarfsemi allri, m. a. í því skyni að sporna við skottulækningum og annarri ólögmætri lækningastarfsemi."
Ef til vill er ég að misskilja hlutverk landlæknis en mér virðist að hann hefði átt að fylgjast með og hafa eftirlit með meðferð drykkjusjúkra og hafa vit fyrir stjórnvöldum á umliðnum árum a.m.k. með því að benda á að það væri ekki rétt að hafa heimili eins og Byrgið og að aðilar sem ekki væru hæfir til að bjóða meðferð gerðu það. Einmitt eins og landlæknir gerir í greininni í Morgunblaðinu í dag þar sem hann bendir á að það er skynsamlegra að fela heilbrigðisstofnun Suðurlands aðhlynningu skjólstæðinga Byrgisins en að fela öðru trúfélagi Samhjálp það verkefni.
Það hefur margt brugðist í Byrgismálinu og frammistaða Félagsmálaráðuneytisins er þar alls ekkert glæsileg, reyndar mikil hneisa, það er ótrúlegt að rekstur á slíkum brauðfótum skuli ekki hafa sætt meiru fjárhagslegu eftirliti. Fjármálaóreiða og meint kynferðisbrot eru eitt en meðferð við drykkjusýki sem er einhvers konar trúarkukl og handayfirlagningar er annað. Hefði ekki landlæknir átt að benda fyrr á að þetta er ekkert sniðug og fagleg meðferð fyrir drykkjusjúka? Ég reyndar held að þessi tegund af meðferð virki fyrir einhverja en það er bara óumræðilega sorglegt að þeir sem eru dýpst sokknir hafa ekki haft neitt val á íslandi. Þeir hafa orðið að leita í skjól hjá ofsatrúarsöfnuðum eða vera á götunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það er afar athyglisvert að hlusta á þetta fréttaskot á Stöð 2 um fangelsið á Laugarteig
Boðað til stjórnarfundar eftir Kompás
Hvernig getur fangelsismálastjóri verið forviða yfir að fangar brjóti af sér þegar þeir eru að afplána í Vernd? Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem það gerist. Ég hef sjálf oftar en einu sinni á liðnum árum haft samband við Fangelsismálastofnun og borið fram kvörtun sem íbúi í nærliggjandi húsi og beðið um upplýsingar vegna þess að birst hafa fréttir um að hættulegir glæpamenn í afplánun hafi verið vistaðir í húsi Verndar við Laugateig og brotið af sér á meðan og verið færðir í böndum aftur á Litla Hraun.
Ég hef reynt bæði að vekja athygli Fangelsismálastofnunar og fjölmiðla á því að það er eitthvað bogið við það að í húsi í venjulegri íbúðargötu sé opið fangelsi þar sem hættulegir glæpamenn eru vistaðir en þessir sömu menn séu vistaðir í últra öryggisgæslufangelsi með tvöföldum rafgirðingum ef þeir eru hinum megin við Hellisheiðina, á Litla Hrauni. Hvernig má það vera að það sé hægt að læða fangelsi inn í íbúðarhverfi og vista þar alls konar geðveila menn í opnu fangelsi án þess að nokkur íbúi í hverfinu fái nokkuð um það að segja eða fái einu sinni nokkra vitneskju um að þarna sé fangelsi. Ég held að málin standi þannig í dag að heimili Verndar við Laugarteig sé bara fangelsi og ekkert nema fangelsi, þar eru sennilega engir núna nema fangar sem eru að afplána. Þannig var þetta heimili ekki hugsað, þetta átti að vera áfangaheimili fyrir fyrrum fanga.
En sem dæmi um hvað ég hef gert til að vekja athygli á þessu þá læt ég hérna með bréf sem ég sendi til fjölmiðlamanns fyrir tveimur árum en þá var umræða um fanga á Sólheimum. Ég vonaði að bréfið myndi verða til þess að einhver umræða yrði í fjölmiðlum um þetta mál en svo varð ekki. Geri ég því ráð fyrir að fjölmiðlafólki hafi ekki þótt málið þess vert að fjalla um það.
Bréf sem ég sendi til fréttamanns á RÚV 1/30/05:
"En erindið var nú bara það að ég var að skoða fréttir á fimmtudaginn um fanga á Sólheimum. Mig langar í framhaldið til að benda á að hús Verndar hérna við Laugateig (ég bý í næstu götu) hefur a ég held árum saman verið notað sem fangelsi. Það voru mikil mótmæli þegar Vernd keypti húsið á sínum tíma en það var ætlað til búsetu fyrrverandi fanga sem eru að fóta sig í lífinu og eru búnir að afplána.
Það getur hins vegar auðvitað enginn sagt neitt um hverjir búa í hverfinu manns, ef það eru frjálsir menn en í rás tímans hefur Verndarheimilið þróast í aðra átt. Þarna eru menn sem eru að afplána dóma. Það væri nú bara hið besta mál ef það væru fangar sem vandlega eru valdir inn eins og forstjóri fangelsismálastofnunar sagði að væri með fangana á Sólheimum.
En svo virðist alls ekki alltaf vera. Í gegnum fréttir í DV hef ég séð (eða ályktað... ég reyndi að ræða þetta í símtali við fangelsismálastofnun á sínum tíma en fékk þau svör að það kæmi íbúum ekkert við hvort þarna væru menn í fangelsi) að mjög hættulegir og vitstola menn s.s. Sólbaðsstofuræninginn og Stóragerðismorðinginn hafa verið í húsi Verndar sem staðsett er við venjulega íbúagötu. Það reyndar kom eingöngu í fréttum vegna þess að þeir brutu báðir af sér á meðan og voru sendir aftur á Litlahraun. Þetta var fyrir einhverjum misserum þannig að þetta er ekki nýtt mál. Ég veit ekki í hvaða átt þetta hefur þróast. Reyndar sá ég líka sjálf Sólbaðsstofuræningjann einu sinni hér í búðinni á horninu, þekkti hann á myndum sem höfðu birst af honum í blöðum.
Þessi þróun er sem sagt að heimili sem upphaflega átti að vera áfangastöð fyrir frjálsa menn sem nýbúnir eru að afplána, breyttist fyrst í fangelsi fyrir hvítflippaafbrotamenn en virðist vera orðið fangelsi þar sem jafnvel stórhættulegir glæpamenn sem hafa framið mörg ofbeldisbrot eru vistaðir. Þessi þróun varð án þess að íbúarnir í götunni vissu nokkuð um þetta, ég geri fastlega ráð fyrir að mjög fáir viti að Verndarheimilið er kannski fyrst og fremst fangelsi (ég veit þetta vegna þess að ég þekkti fanga sem fékk að afplána þar á sínum tíma) og það er eitthvað bogið við það ef hægt er að læða fangelsi inn í kyrrláta íbúagötu án vitundar íbúa og smám saman með árunum eru gerðar minni kröfur til vistmanna þarna.
Ef það væri settur upp leikskóli eða einhver önnur stofnun í götunni þá held ég að það þyrfti að fara í einhvers konar kynningu og það þyrfti að gefa íbúum möguleika á að gera athugasemdir. Vegna þessarar reynslu okkar í Laugarneshverfi þá finnst mér full ástæða til að leggja ekki trúnað á þau orð fangelsismálastjóra sem komu fram í þættinum að það myndi verða vandað valið á föngum sem fengju að vera á Sólheimum. Við vitum ekki hvort að það sé gert núna í húsi Verndar við Laugarteig og íbúarnir í kring fá engar upplýsingar um hvort þarna séu vistaðir fangar sem hugsanlegt er að íbúum - sérstaklega börnum og unglingum - stafi hætta af.
Með von um að einhvern tíma verði fjölmiðlaumræða um fanga og afplánun það eru allt of fáir möguleikar í stöðunni og því miður koma margir skemmdari út úr afplánun.
bestu kveðjur
Salvör Gissurardóttir"
22.1.2007 | 19:07
Eyjaskeggjar og fastalandið
Ég sé að bloggið hennar Eygló hefur ratað sem frétt á innlendar fréttir á mbl.is. Það er gott mál núna á þessum myrka mánudagi. Það er þó alla vega ekki neitt verra að gerast í íslensku þjóðlífi að en Framsóknarmenn séu að senda hver öðrum tóninn milli lands og eyja.
Gleymdi reyndar að það er eitthvað smálegt að gerast í öðrum stjórnmálaflokkum líka, fylkingar að draga sig saman með eða móti Margréti Sverrisdóttur og flestallir bloggarar líka uppteknir í að tala niður Ingibjörgu Sólrúnu, launfyndnasta bloggið þar var þegar Hrafn Jökulsson bloggar um útlit Ingibjargar, alltaf skulum við konur þurfa að lifa með þessu eilífa útlitstali, skjáþokki og útlit er nú það sem blífur í pólitík bæði karla og kvenna alla vega þangað til bloggið slær í gegn og bloggfimi fer að fleyta fólki til valda. Verst að Ingibjörg bloggar ekki, það er nú hennar aðalókostur. Össur er hins vegar skemmtilegur bloggari. En það er sem sagt mikið í tísku núna að tala niður konur, það er góðs viti og liður í baráttunni um heimsyfiráðin að vera í umræðunni. Betra er illt umtal en ekkert . Þetta ekkert köllum við þöggun á femínistamáli.
Ég get ekki gert að því að ég ber saman Vestmanneyingana Árna Johnsen og Eygló Harðardóttur. Er það eitthvað misminni í mér en ég hef aldrei, aldrei heyrt það fundið Árna til foráttu að hann væri úr Vestmanneyjum og hann ætti ekkert erindi á þing því að aðrir útkjálkar á Suðurlandi hefðu meiri rétt til að setja sína menn á þingi. Samt er Árni í eilífðarplottum fyrir Vestmanneyinga og reyndar alla í kjördæminu og sjálfan sig mest og veltir upp víðáttuvitlausum hugmyndum eins og þessum með jarðgöng til Vestmanneyja. Það hefur verið annað sem fólk hefur fundið að Árna, fyrir sakamálið var það ákaflega lítil afköst á þingi og að því virtist lítill áhugi á þingstörfum, hann mætti ekki einu sinni til að greiða atkvæði hvað þá til að taka þátt í umræðum, það meira segja kom einu sinni fyrir að annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði fyrir Árna þegar hann var fjarstaddur, sagði að Árni hefði hvort sem er kosið svona. Svo þarf náttúrulega ekki að rekja dómsmálið sem Árni var sakfelldur í og hvernig Árni lítur sjálfur á gerðir sínar sem tæknileg mistök.
En það virðist vera mörgum Framsóknarmönnum ótamt að Eygló Vestmanneyingur sem tók þátt í prófkjörinu hjá Framsóknarflokknum setjist í það sæti sem eðlilegt er og ástæðan er að hún býr í Vestmanneyjum. Af hverju er þetta ekki vandamál hjá öðrum Framsóknarmönnum? Af hverju er það ekki vandamál að Jón Sigurðsson Kópavogsbúi er í framboði í Reykjavík Norður? Munu Reykvíkingar kjósa utanbæjarfólk sem gæti farið að plotta í einhverjum Kópavogsplottum ?
Ég ber takmarkað traust til Árna eyjaskeggja þó hann sé bæði hugmyndaríkur og skemmtilegur maður en ég treysti Eygló eyjarskeggja alveg til að vaka yfir hagsmunum bæði síns víðfeðma kjördæmis og líka hagsmunum okkar allra Íslendinganna á fastalandinu.
![]() |
Segir menn í öðrum kjördæmum ekki eiga að skipta sér af uppstillingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 14:01
Áfram Eygló
Eygló stendur sig bara vel strax í fyrstu atlögunni sem hófst daginn eftir að kosningaúrslit í prófkjöri Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi lágu fyrir. Hún skrifar greinina Karlaplott og þúfupólitík um þá orðræðu nokkurra karlmanna úr röðum Framsóknarmanna að finna annan í hennar stað í þriðja sætið á listanum.
Þessi grein Steingríms Sævars er mjög pirrandi: Petrína í þriðja sæti hjá Framsókn?
"Petrína, sem gekk til liðs við flokkinn fyrir rúmu ári, var áður þingmaður Alþýðuflokksins og hefur mikið persónufylgi á Suðurnesjum.
Það vita frammámenn í Framsóknarflokknum sem, líkt og flestir aðrir stjórnmálaflokkar, hafa ekki aðila af Reykjanesi í efstu sætum listanna.
Nái Framsóknarflokkurinn að fá Petrínu til að taka þriðja sætið á lista flokksins styrkir það stöðu hans verulega í þeirri erfiðu kosningabaráttu sem framundan er."
Maður spyr sig þegar svona grein er lesin hvort sumum finnist ennþá konur bara uppfyllingarefni og punt á framboðslistum Framsóknar. Er fólk ekki að átta sig á því að svona umræða er gífurlega mógðandi fyrir allar konur? Eygló tók þátt í prófkjörinu af fullum þunga og náði þar afbragðskosningu, af hverju er þá umræðan um að finna konu úr öðru byggðalagi í hennar stað?
Björn Ingi skrifar í athugasemdir hjá Eygló: "Við verðum að þola umræðuna og það er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvernig rétta megi hlut Suðurnesja á framboðslistanum í ljósi þess að þar eru um 40% atkvæðanna".
Ég geri ráð fyrir að Björn Ingi eigi við að 40% kjósenda í Suðurkjördæmi séu á Suðurnesjum og það sé mikilvægt að fulltrúi þaðan sé ofarlega á lista. Ég tek undir það en það er nú bara við Hjálmar að sakast ef svo verður ekki, það var hann sem gaf kost á sér í prófkjörinu og það var væntanlega hann sem sumir Suðurnesjamenn kusu af því hann er Suðurnesjamaður.
En ég vil benda á að þó prósentutölur mögulegra atkvæða vissra byggðalaga séu sláandi háar þá er prósentutala kvenna sem munu ganga til kosninga ennþá hærri eða um 50%. Ég held að það séu ekki miklu færri konur í Suðurkjördæmi en annars staðar á landinu. Það er móðgandi fyrir Eygló og allar konur sem sýna þann kjark og þor að taka þátt í prófkjörum að það vigti ekki einu sinni að þær taki þátt í baráttunni, baráttu sem er alla jafna mjög óhliðholl konum og það sé ekki fyrr búið að telja í prófkjörinu fyrr en raddir koma upp að finna einhvern annan fyrir sæti sem hún hefur barist fyrir og haft mestan stuðning í.
Eygló var kjörkuð að bjóða sig fram og hún bauð sig fram í 2. sæti þannig öllum á að vera ljóst að hún vill vera ofarlega á lista. Ef Hjálmar hefði ekki strax dregið sig í hlé þá hefðu náttúrulega komið strax raddir um að listinn væri afar hallærislegur með þrjá karlmenn í þremur efstu sætum. En núna reynir Hjálmar og fleiri að etja konum í Framsóknarflokknum saman og finna konu úr sínu byggðalagi á listann, ágæta konu en hún var bara alls ekki í framboði.
Það er nú umhugsunarvert að einmitt núna um helgina þá var tilkynnt að annar Vestmanneyingur Árni Johnsen myndi sitja sem fastast í sæti á lista Sjálfstæðismanna skv. niðurstöðum prófkjörs hjá þeim. Ég hvet fólk til að bera nú saman Vestmanneyinganna Eygló og Árna og hvaða ástæður menn finna fyrir að þau eigi ekki að vera á lista í þeim sætum sem þau hafa barist fyrir og fengið styrk í prófkjöri í.
Mér finnst þetta sýna í hnotskurn hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum. Annars vegar er gífurlegt umburðarlyndi við karlmann sem orðið hefur uppvís að spillingu og fjársvikum og iðrast einskís og kallar gjörðir sínar tæknileg mistök og hins vegar er lagt ofurkapp á að bregða fæti fyrir konu sem hefur vegnað vel í prófkjöri. Það sem aðallega er fundið henni til foráttu er að hún búi í Vestmanneyjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.1.2007 | 09:49
Suðurnesjamenn og Sunnlendingar
Það er gaman að fylgjast með hreppapólítíkinni hér steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu. Hjálmar telur skipta miklu máli að Suðurnesjamaður sé í þriðja sæti hjá Framsókn í Suðurkjördæmi. Til hvers var þá prófkjörið sem Hjálmar þó tók þátt í af fullum þunga? Hvers vegna eru ekki sömu viðhorf uppi um að það sé mikilvægara að kona sé í öðru sæti?
Reyndar er ég ekki viss um það samræmist reglum Framsóknarflokksins að hafa þrjá karla í þremur efstu sætum á lista, það hefði verið afar ógæfulegt að fara á stað með þannig lista og sennilega hefði verið afar mikil pressa á Hjálmar að fara neðar á listann. Ég held hins vegar að það séu ekki neinar skráðar starfsreglur um hvernig hlutfall á lista eigi að vera eftir búsetu í kjördæminu. Það er samt auðvitað skynsamlegast og sigurstranglegast að stilla upp lista sem endurspeglar samfélagið, þar sem er fólk með alls konar bakgrunn og reynslu, þar sem eru bæði karlar og konur og fólk á ýmsum aldri.
Þó prófkjör séu góð leið til að ná upp stemmingu og láta reyna á hver er vinsælastur þá hafa þau þann annmarka að það er einsleitari hópur sem hefur sjéns í prófkjörum en allt samfélagið. Þannig hygla prófkjör þar sem engar hömlur eru á hvað þátttakendur mega gera ansi mikið eignamönnum og þeim sem tekst að afla sér styrkja hjá eignamönnum og konur hafa átt erfitt uppdráttar í prófkjörum. Mér finnst Hjálmar gera lítið úr sigri Eyglóar Harðardóttur frá Vestmanneyjum í þessu prófkjöri og hennar vinnu með því að leggja til að hún dragi sig í hlé eða taki sæti neðar á listanum.
Mér sem Framsóknarmanni í Reykjavík finnst miklu mikilvægara að hugað sé að kynjahlutfalli á framboðslistum heldur en úr hvaða hverfi Reykjavíkur eða nágrannasveitarfélaga frambjóðendur koma. Þess vegna finnst mér í fína lagi að Kópavogsbúinn Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins sé í efsta sætinu í mínu kjördæmi í Reykjavík Norður. Reyndar finnst mér til fyrirmyndar hjá Vinstri Grænum að halda sameiginlegt prófkjör fyrir þrjú kjördæmi og raða síðan niður á listana eftir niðurstöðum þess. Það verður til þess að meira kastljós er á málefni sem eru sameiginleg og minna á málefni sem eru sérstaklega bundin við landssvæði.
Í sveitarstjórnarkosningum á kastljósið að vera á málefnum einstakra byggðalaga en í alþingiskosningum á það sem sameinar stjórnmálaflokkinn, ekki það sem sundrar.
En hver eru hin stórpólitísku mál? Eru það hreppapólítísk mál þar sem landssvæði berjast innbyrgðis um bita af kökunni?
Ég held okkur greini á um það og það sé þarft að ræða það alls staðar á Íslandi, jafnt í Reykjanesbæ, Árborg, Vestmanneyjum og annars staðar á Íslandi. Ég er hjartanlega sammála því sem Sigurður Bogi Sævarsson segir í pistlinum Meinloka Bjarna og en hann mælir þar spaklega:
"Mun fleiri eru farnir að líta á það sem pólitískt stórmál að vinnutíminn sé ekki óhóflega langur, að konur njóti sömu réttinda á við karla, heilbrigðisþjónustan sé bærileg, byrgðin af húsnæðislánunum sé ekki óhófleg og að grunnskóli barnanna þeirra sé góður. Af þessu má ráða að tími hinna mjúku mála sé runninn upp, mála sem eru þó grjóthörð þegar betur er að gáð. Af þessari staðreynd þurfa frambjóðendur að taka mið og haga áherslum sínum eftir því."
![]() |
Vill að Suðurnesjamaður komi í 3. sætið í sinn stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2007 | 22:44
Bjarni Harðarson er sigurvegarinn
Ég vil óska Bjarna Harðarssyni til hamingju með árangurinn í prófkjöri Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Hann er mesti sigurvegari þessara kosninga. Guðni Ágústsson er feikivinsæll og stóð alveg af sér áhlaupið og þetta er nú svo sannarlega ekki eina orusta hans á árinu. Það er gaman að heyra að alltaf hefur Guðni hlýleg orð um andstæðinga sína jafnvel þó þeir hljóli í hann og vilji ekkert heitara en velta honum úr sessi.
Það var nú fyrirsjáanlegt að Hjálmar Árnason myndi ekki taka sæti á lista í alþingiskosningunum næstu ef hann lenti í þriðja sæti. Það er engin von um þingsæti þar og sitjandi þingmaður sem hefur beðið ósigur í prófkjöri er að sjálfsögðu ekki sáttur við þann sess.
Ég vona að Bjarni Harðarson verði einn af framtíðarleiðtogum Framsóknarflokksins. Ég hef fylgst með skrifum hans og hann er afar ritfær, skarpur og framsýnn maður. Svo er líklegt að Eygló Harðardóttir verði í þriðja sæti og hún er afar efnileg í stjórnmálum. Þau eru bæði bloggarar hérna á moggablogginu (Bjarni og Eygló). Það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.
![]() |
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2007 | 14:51
Göfugt að gefa í velferðarsjóð til að göfga mannlíf
Það er ánægjuleg frétt að Ingibjörg og Ólafur í Samskip skuli hafa stofnað velgerðarsjóð til að göfga mannlíf á Íslandi og aðstoða við verkefni í þróunarlöndunum. Vonandi styrkir þessi sjóður íslensk verkefni á sviði mennta og menningar og verkefni í þróunarlöndum sem miða að því að gera fólk sjálfbjarga til framtíðar.
Ég held að verkefni sem miða að því að flytja þekkingu og færni inn í þróunarlönd og tengjast stórum sameiginlegum alþjóðlegum verkefnum þar sem margir leggjast á eitt eins og One Laptop per Child verkefnið og menntun tengd því verkefni sé líkleg til að skila árangri og eitt af því mest spennandi sem unnið er að núna varðandi þróunarmál. Þau verkefni er mjög í anda þess "open source" og "open content" hugsunarhátts sem eru þeir undirstraumar sem nú flæða um hafdjúp hins nettengda heims. Talandi um það verkefni þá má geta þess að forkólfurinn að því verkefni er Nicholas Negroponte maður sem ég hef lengi haft aðdáun á vegna hugsjóna og djúphygli hans í skólamálum (sjá t.d. þennan pistil frá 1998 eftir mig um hugmyndir hans) og hugmyndum um hið nýja tæknivædda samfélag. Eldri bróðir Nicholasar er John Negroponte sem er nú ekki beint þekktur fyrir hugsjónastarf.
Þróunarverkefni sem miða að því að auka menntun og valkosti og þá verkefni sem sérstaklega að því að bæta menntun og aðstöðu stúlkubarna til að læra eitthvað í þróunarlöndum eru líklegust til að skila til langs tíma mestum árangri. Mikið af félagsmótun fer fram á heimilum í bernsku og það er víða í samfélögum konurnar sem varðveita menninguna og miðla henni áfram og ala upp börnin. Það virðist fara saman að þar sem stjórnarfarið er afleitast og kjör almennings kröppust þar er kúgun kvenna líka mest.
En það er ánægjulegt að efnafólk deili auðævum sínum á þennan hátt með heimsbyggðinni. Það er að láta verkin tala að gera svoleiðis.
![]() |
Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.1.2007 | 18:06
Flott að fá fleiri konur í friðargæslu
Ég er mjög ánægð með þá stefnu Valgerðar í utanríkisráðuneytinu að fá fleiri konur til starfa í friðargæsluna og ég held þetta snúist ekki bara um að rétta við kynjahlutfallið heldur um öðruvísi áherslur í friðargæslu. Ég hef fylgst með íslensku friðargæslunni í mörg ár, bæði vegna þess að ég skráði mig strax á viðbragðslista þegar það var auglýst og fór alla vega á tvö námskeið og vonaði að ég fengi tækifæri til að fara en svo varð nú ekki, sennilega vegna þess að áherslur utanríkisráðuneytisins voru ekki þannig að óskað væri eftir borgarlegum sérfræðingum með minn bakgrunn, margir sem fóru voru lögreglumenn og slökkviliðsmenn og iðnmenntaðir/tæknimenntaðir menn.
Ég fékk Magnús líka til að skrá sig á viðbragðslistann og hann fór tvisvar sinnum til Afganistan og ég setti það sem hann skrifaði heim þegar hann var úti í fyrra skiptið in á blogg á slóðinni afganistan.blogspot.com
Ég skrifaði hugleiðingu á bloggið mitt 11.9.03 um dvöl Magnúsar í Afganistan
Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan eftir New York árásina og þar kom á eftir ISAF sem er fjölþjóðlegt friðargæslulið vestrænna þjóða. Magnús fór í mars til Afganistan á vegum íslensku friðargæslunnar og kom aftur núna í byrjun september. Hann var hermaður eins og allir í friðargæsluliðinu þarna og hann var með þýskri herdeild. Nokkrum sinnum á þeim tíma sem Magnús dvaldi þarna var alvarlegt ástand vegna sprengjuárása og hryðjuverka og slysa. Dögum saman vissi ég ekki hvort hann væri óhultur. Margir ISAF hermenn dóu á þessum tíma, flestir í einu mannskæðu flugvélahrapi. Sérstaklega alvarlegt var þegar hann kom í frí heim þegar Kristín fermdist í júní og lenti þá í bráðri lífshættu því hryðjuverkamenn gerðu þá sjálfsmorðsárás og keyrðu inn í rútu sem flutti þýska hermenn út á flugvöll. Það vildi honum til happs að hermenn voru fluttir út á flugvöllinn í Kabul í tveimur hópum og hann lenti í seinni hópnum. Þegar Magnús fór til Afganistan voru aðaláhugamál hans skógrækt og útivist og gönguferðir um hálendi Íslands. Eftir hálfs árs friðargæslustörf í stríðsþjáðu landi hugsar hann mest um hermennsku og stríðstæki og hann telur öflugan og vel búinn her vera bestu leiðina til að tryggja frið á þessum slóðum nú.
Ég sé að ég hef oft skrifað um tímabilið þegar Magnús var í friðargæslunni í Afganistan inn á blogg:
- Íslenska sveitin (13.12.04)
- Magnús er kominn frá Afganistan (3.9.04)
- Magnús á heimleið (4.9.03)
- Fjölmiðladagur (10.6.03)
- Magnús hringdi (7.6.03)
- Kabúl í fréttum - Hryðjuverk (7.6.03)
- Furstinn af Íslandi (2.6.03)
- Flugvél með friðargæsluliðum ferst í Afganistan (26.5.03)
- Haglél í Afganistan og afbrigði af fegurð (24.5.03)
- Eitrað andrúmsloft - skotbardagi (23.5.03)
- Myndir og bréf frá Kabúl (22.5.03)
- Ekki vinnufriður hjá Magnúsi (9.4.03)
- Óvinir okkar voru með leiðindi 1.4.03
- Beðið eftir fréttum (31.3.03)
- Flugskeytaárás og slys (30.3.03)
- Lauksúpa í Kabúl (28.03.03)
- Saumaskapur í Afganistan (19.03.03)
- Frá herkampi í Afganistan ( 12.03.03)
- .af fyrir Afganistan ( 10.03.03)
- Bokhandleren i Kabul ( 8.03.03)
![]() |
Konur í friðargæslunni sendar til Afganistan, Balkanskaga og Líberíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.1.2007 kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 15:35
Óbyggðaferð í hópi
Ómar ársins 2006 hefur lagt upp í ferðalag í bloggheima. Hann ævintýramaður og þrælvanur óbyggðaferðum og hópsamfélögum þar og baráttumaður fyrir landslag á Íslandi.
Myndbrot þar sem Björk syngur um landslag tilfinninga og state of emergency
Það er frábært að fá fleira hugsjónafólk inn í bloggsamfélagið á Íslandi. Okkur greinir á um markmið og leiðir en það sem vinnst í samræðunni er að fólk kemur smám saman vitinu hvert fyrir annað og ef einhver málstaður skín í gegn sem réttur og skynsamlegastur fyrir sem flesta þá ætti orðræðan að verða til þess að fleiri og fleiri fylki sér undir þann málstað. Ég held að umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni sé þannig málstaður.
En ég held ekkert endilega að besta tegund af umhverfisvernd sé svona nútímaútgáfa af Skírisskógi þar sem öllum er bannaðar veiðar í skóginum af því að veiðidýrin eru bara fyrir kónginn og aðalinn og skógurinn er leikvangur þeirra. Vissulega er hægt að tryggja náttúruvernd á þann hátt og þannig hafa sum svæði varðveist í margar aldir en ég vil bara miklu frekar vera í liði með Hróa hetti.
![]() |
Ómar byrjaður að blogga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)