Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.2.2007 | 17:09
Google Earth, óþokkar og þjóðaröryggi
Ég hef furðað mig á að heyra ekki fyrr umræðu um hvað gerist ef fólk ætlar að nota sér upplýsingarnar á Google Earth til að fremja spellvirki. Það sama á reyndar líka við um mjög viðkvæman og mikilvægan infrastrúktúr í samfélagi okkar t.d. upplýsingar um legu sæstrengja.
Til skamms tíma þá var nokkuð nákvæmt kort af hvað sæstrengurinn lá til Íslands á opnum vefsvæðum, hugsanlega er það kort einhvers staðar ennþá á vefnum. Tilgangurinn var að ég held að gefa fiskiskipum upplýsingar um hvar sæstrengurinn lægi svo þau væru ekki að slíta hann í sundur með botnvörpum og öðrum veiðarfærum. Það var fyrir 11. september og fáir pældu í að það yrðu ef til vill unnin skemmdarverk af einhverjum aðilum sem vildu lama samskiptakerfi okkar.
Ýmis tengivirki rafmagns og hitaveitu og vatnsgeyma og vatnsverndarsvæði sem og náttúrulega jarðgöng og brýr eru líkleg mörk og það myndi valda miklum usla ef þau væru í sundur. Það skelfir mann tilhugsunin hversu berskjölduð við erum fyrir ýmis konar voðaverkum frá óvinveittum aðilum. Það getur verið tilgangur slíkra aðila eingöngu að skapa glundroða og hræðsluástand.
Í þáttum sem voru í sjónvarpinu um ríki Máranna í Andalúsíu og fall þess þá var umfjöllun sem hafði mikið áhrif á mig. Þar var því haldið fram að því fullkomnari sem þjóðfélagið er þeim mun viðkvæmara er það og auðveldara að skemma það og brjóta það niður. Það er nokkuð til í því, fullkomið þjóðfélag byggir á ýmis konar sérhæfingu og ýmis konar tengslum og flæði af vörum, þjónustu og menningu og einstökum einingum sem háðar eru öðrum einingum. Einfalt þjóðfélag þar sem nánast allir eru með eins konar sjálfþurftarbúskap og ekki háðir öðrum um aðdrætti getur alveg þolað að einhverjar einingar lamist, aðrar einingar geta samt starfað áfram. En það þarf ekki nema að klippa sundur eina líftaug í fullkomnari samfélagi til að allt fari í glundroða, vagga menningar var þegar menn sameinust um áveitukerfi en eyðilegging menningar er svo þegar ýmis konar veitustraumar eru stöðvaðir.
Hér má nefna að Amish trúarhópurinn sprettur upp úr andstöðu við hernað og margir skrýtnir siðir í þeirri trú eru tengdir hermennsku og því að vera engum háður. Amish menn mega ekki vera með yfirskegg og þeir mega ekki bera tölur á fötum því það það var tengd einkennisbúningi hermanna. Amish fjölskyldur mega heldur ekki vera tengdar umheiminum með leiðslum, það má ekki nota rafmagn (það má nota batterí) eða síma eða gasleiðslur og auðvitað ekki Internet.
Mér sýnist allt stefna í að við verðum háðari og háðari öðrum og sérhæfing aukist. Jafnframt verður samfélagið brothættara ef einhverjir skemmdarverkamenn vilja eyðileggja infrastrúktúr.
Þessi frétt var núna á mbl.is:
Google hefur samþykkt að gera sumar gervihnattamyndir af Indlandi, sem hægt er að sjá í Google Earth-forritinu, óskýrar. Ríkisstjórn Indlands óskaði eftir því að Google myndi draga úr nákvæmni mynda af sumum svæðum landsins í öryggisskyni.
Er hægt að byggja upp samfélag þar sem upplýsingar eru opnar og öllum aðgengilegar en þar sem fólk (ríkisstjórnir og aðrir sem eiga að gæta almannaheilla) er búið undir að einhverjir kunni að hagnýta sér þessar upplýsingar til skemmdarverka?
Sennilega er hagræðið og mögulegur ávinningur af því að hafa kort og aðrar upplýsingar aðgengileg fyrir alla mun meiri en möguleg ógnun. Alvarlegustu ógnir á Íslandi eru ógnir af völdum náttúruhamfara og veðurofsa og ef til vill slysa sem stafa af því að eitthvað fer úrskeiðis.
Við slíkar aðstæður gæti farið svo að það sé betra að sem flestir séu á vaktinni. Tvær nýlegar náttúruhamfarir, flóðin í New Orleans og flóðbylgjan í Asíu sýndu hversu illa miðstýrt viðvörunarkerfi og viðbragðsáætlun stjórnvalda virkaði.
Stundum er alls ekki gott fyrir almannaheill að stjórnvöld geti pukrast með upplýsingar, ég er nokkuð viss um það að ef hér á Íslandi myndi koma upp afar hættuleg og smitandi drepsótt þá myndu fyrstu fjölmiðlafréttir af því vera villandi og reynt væri að bæla niður fréttir þ.e. ef stjórnvöld teldu sig geta ráðið við að hefta útbreiðslu, fréttir myndu verða hetjusögur af hvað stjórnvöld væru mikið að vinna í málinu og hvað það gengi vel og hvað það væri ekkert að óttast...
Það er vel hægt að ljúga að einum milljarði af fólki í Kína eins og við sáum í þáttunum um Maó formann sem voru í sjónvarpinu nýlega og það ætti að veitast auðvelt að ljúga að þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Við þurfum að vera á verði yfir að það sé ekki gert og taka eftir öllum merkjum um að það sé ekki allt með felldu.
Psss... Ég var að skoða að það hefur einhver merkt inn á wikimapia.com hvað fjársjóður Egils Skallagrímssonar er grafinn. Sniðugt að fara á stúfana og hafa skóflu með sér. Annars er mjög áhugavert að í stórborgum eru alls konar merkingar og kort sem bara innvígðir geta lesið. Áður en ókeypis heitir reitir urðu algengir þá var oft merkt hvar hægt væri að komast í netsamband (með því að stela af bandvídd einhvers annars) og hversu öflug tengingin væri. Ég hugsa að ef stjórnvöld gera mikið af því að leyna upplýsingum s.s. kortum fyrir almenningi þá muni almenningur bara koma sér upp kortum sjálfur og þá hugsanlega nota ýmis konar nettækni til þess.
![]() |
Myndir af viðkvæmum stöðum á Indlandi gerðar óskýrar í Google Earth |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2007 | 20:36
Sigur í augsýn í Írak
Finnst þetta skrípó fyndið þó ég trúi nú reyndar bæði á álfa og bleika fí... femínista
2.2.2007 | 22:38
Er Breiðavík víða?
Ég hlustaði á viðtalið í Kastljósi við Bárð sem dvalist hafði sem barn á Breiðavíkurheimilinu. Hann sagði hryllilega sögu af andrúmslofti ofbeldis og níðingsskapar. Það mun vera unnið að kvikmynd um heimilið. Mig minnir að í bók sem ég las um ævi Sævars Ciesielski hafi verið frásögn af dvöl Sævars á Breiðavík sem dró upp jafndökka mynd og Bárður.
Matthías Johannessen skrifaði leikritið Fjaðrafok. Yrkisefni þess leikriks var Bjargsmál en heimilið Bjarg var betrunarheimili fyrir afvegaleiddar stúlkur sem rekið var að mig minnir af Hjálpræðishernum fyrir mörgum áratugum. Það var töluvert í umræðunni út af harðræði við stúlkur þar.
Sennilega eru afskekkt vistheimili og stofnanir þar sem mikill valdsmunur er milli vistmanna og gæslumanna líkleg til að vera staðir þar sem ýmis konar ofbeldi er beitt. Einangrun þarf ekki að vera landfræðileg, oft er einangrun búin til af þeim sem vilja drottna og beita ofbeldi. Það er þekkt mynstur í heimilisofbeldismálum að sá sem er beittur ofbeldi er smám saman einangraður frá öllum sínum vinum og öllum tengslum við aðra nema þeim sem ofbeldismaðurinn stýrir.
Það eru margir staðir einangraðir á Íslandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.2.2007 | 09:46
Gula pressan SKAMMtímarit
Árnaðaróskir til netmoggans sem núna fagnar níu ára afmælinu. Ég óska líka sjálfri mér líka til hamingju með mitt vefrit Gula Pressan SKAMMtímarit sem einmitt var sett á vefinn sama dag og netútgáfa moggans opnaði árið 1998. Það var nú grín hjá mér og gert til þess að vekja nemendur mína til umhugsunar um hvort og hvernig Internetið skipti máli í fréttamiðlun. Líka til að sýna þeim hve auðvelt væri fyrir hvern og einn að setja eigið fréttaefni út á Internetið. Þetta var fyrir tíma bloggsins sem eins og allir vita var ekki fundið upp fyrr en Egill Helgason tók eftir að það væri til.
Ég skrifaði þetta um netritið mitt sem hefur komið ansi stopult út síðustu níu árin (lesist kom aðeins út í eitt skipti )
Hvað er Gula Pressan - SKAMMtímarit?Gula pressan er einhvers konar fréttableðill sem kemur aðeins út á Netinu og er til að sýna hvernig fréttamiðlar geta breyst á upplýsingaöld. Sérstaklega er Gula Pressan - SKAMMtímarit byggð á slúðri, kviksögum, kjaftasögum, rógi og gróusögum um nafngreinda einstaklinga. Gula pressan er helguð gulri blaðamennsku, æsifréttamennsku, dægurflugum, skömmum og skætingi, óformlegri orðræðu eða hvaða nöfnum menn kjósa að nefna svona fréttir.
Svo til að vera alvöru fjölmiðill þá skrifaði ég líka leiðara sem mér finnst bara skrambi góður þó hann sé níu ára gamall. Ég tók þar líkingu af hvalskurði. Hér er leiðarinn:
Netið er fjölmiðill
Netið er fjölmiðill. Það veit ég og það veit Mogginn, það vita Newsweek og Times, CNN og Washington Post og allir aðrir fréttafangarar sem síðustu daga og vikur hafa slípað og brýnt netfréttamennsku og búið til flugbeitta hnífa. Kvennamál Clintons var hvalrekinn sem skóp þennan nýja skóla fréttamennsku. Fiskisagan flaug fyrst á Netinu, hún hófst til flugs í slúðurdálkinum Drudge Report. Fiskimenn frétta þustu að rekanum, skáru málið niður í stykki sem þeir gegnumlýstu og krufu til mergjar, fluttu fenginn á vefsíður sínar og stöfluðu þar upp stykkjunum.
Venjulegur netverji hefur hvorki tíma né nennu til að leita djúpt að tormeltum upplýsingum. Hann sprangar um vefinn og týnir upp það sem honum finnst bitastætt. Hann er auðginntur inn í botnlanga ef fordyri þeirra lofar krassandi innihaldi. Sölumenn frétta á Netinu hafa þróað nýja frásagnartækni, lært að brytja málin niður í gómsæta munnbita. Netverjar fá að smakka og biðja um meira og meira og áður en varði eru þeir búnir að kyngja heilum hval. Þessi tegund af frásagnartækni er nokkurs konar öfugur pýramídi þar sem niðurstöðum er slegið fyrst upp með örstuttri lokkandi samantekt svo netverjinn æpi á meira.
Á Netinu er líka hægt að hafa afrit af ýmsum frumgögnum svo sem málskjölum, ljósmyndum, myndbandsupptökum og hljóðupptökum. Það er líka eðli Netsins að hver sem er getur sent þar út fréttir, stórar fréttastofur eins og CNN eða einstaklingar í hlutverki Gróu á Leiti. Gömlu stóru fréttarisarnir hafa aðrar og stundum íhaldssamari viðmiðanir í sambandi við hvað er fréttnæmt en einstaklingar sem ekki eru bundnir af hagsmunum hópa og hræðslu við málsókn eða álitshnekki. Það kostar heilmikið í vinnutímum og aðstöðu að halda úti fréttaharki á Netinu, einhver verður að fjármagna útsendingar, hjá hefðbundnu fréttastofunum virðast tekjur fyrst og fremst koma í gegnum smáauglýsingar. Sennilega eru netfréttir þeirra núna reknar með tapi, gróði frá hefðbundnu fréttaútsendingunum borgar brúsann fyrsta kastið. Einstaklingar sem senda út fréttir á Netinu fá sjaldnast neitt fyrir sína vinnu, þetta er ný tegund af tómstundaiðju.
Núna í dag hefur netfréttavefur Morgunblaðsins (http://www.mbl.is) útsendingar og á næstunni mun Vísir, netfréttarit Frjálsrar fjölmiðlunar hefja útsendingar. Morgunblaðið hefur verið á vefnum árum saman en hér er reginmunur. Fréttir og myndefni er nú skrifað sérstaklega fyrir vefinn og sett fram með því öfuga pýramídaformi sem rætt var um hér að ofan. Hingað til hefur útgáfa Morgunblaðsins á vefnum verið eins og hið prentaða blað án mynda. Það er engin tilviljun að ég vel sama dag og Mogginn til að gefa fyrst út minn eiginn netfréttamiðill en hann hef ég nefnt: GULA PRESSAN - SKAMMtímarit.
Nafnið hef ég valið svo vegna þess að þessi miðill minn er helgaður óvandari fréttamennsku, flytur SKAMMir á SKAMMarlegan hátt og kemur sennilega út í SKAMMan tíma. Ég kvíði alls ekki samkeppninni við Moggann því að meðan fréttastofa hans flytur áhugaverðar fréttafyrirsagnir sem koma á óvart eins og að Kúvætar ætli að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak þá fjallar fyrsta útgáfa á mínum miðli um mál málanna í dag, kvennamál Clintons. Þar getur þú kynnt þér innviði málsins, skoðað ljósmyndir, hlaðið inn myndbandsupptöku á þegar Clinton faðmar Monicu, lesið málskjöl og skemmt þér eða hneykslast á bröndurum um málið.
Þess verður varla langt að bíða að hval reki aftur að landi eða festist í einhverju þeirra aragrúa neta sem fréttafangarar hafa lagt með ströndum. Það eru margir fjölmiðlar í viðbragðsstöðu, hafa notað tímann til að koma sér upp verkfærum og verkkunnáttu til að skera með ógnarhraða sem stærstan hluta af fengnum. Það eru engar fornar bækur sem segja til um hvernig svona hvalreka skuli skipta og það þarf ekki að spyrja neinn leyfis til að útvarpa fréttum á Netinu. Það tjáningarfrelsi sem nú ríkir á Netinu er vandmeðfarið og það er líka vandvarið.
GULA PRESSAN - SKAMMtímarit hefur slóðina: http://www.ismennt.is/vefir/ari/gulapressan
Reykjavík 1.febrúar 1998
Salvör Gissurardóttir
![]() |
Mbl.is öflugasti fréttavefurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 17:25
Trasa migracji kapelanów
Fréttin sem ég valdi til að blogga um í dag er fréttin um að loðnukvótinn hafi verið aukinn í 380 lestir á vetrarvertíðinni í ár. Þetta eru mjög spennandi tíðindi, ég er ekki að segja það í neinu gríni, ég flýtti mér náttúrulega að því að bæta þessu við wikipedia greinina um loðnuna, ég skrifaði þá grein á sínum tíma og finnst ég hafa skyldur til að passa upp á að hún vaxi og dafni.
Svo sá ég að á vef sjávarútvegsráðuneytisins er hægt að hlaða niður nokkrum bindum af sögu sjávarútvegs við Ísland. Það er alveg til fyrirmyndar að útgáfa af fræðsluefni sem sennilega er kostuð af almannafé séu aðgengileg fyrir alla á vefnum. Vonandi verður aukning á slíku efni. Annars tók ég eftir þegar ég var að bæta loðnukvótanum við Wikipedia greinina að það er mjög ónákvæm grein á wikipedíu um mælieininguna lest það þarf nú eiginlega að laga það, ég hvet þá sem hafa vit á málinu að fara á þá grein, smella á breyta og setja inn betri skilgreiningu.
Ég var að skoða greinina um loðnu á þýsku wikipediu, það er ótrúlegt hvað þjóðverjarnir eru fljótir að taka upp það sem er komið nýtt í greinar, ég teiknaði skýringamynd af loðnugöngum við Ísland og setti inn á íslensku og ensku wikipediu en núna sé ég að einhver hefur þýtt skýringartextann við myndina á þýsku og bætt við á þýsku greinina um loðnu umfjöllun um " Lebensraum und Wanderungen der Lodde im Nordpolarmeer um Island". Það er gaman að sjá þetta, gott að vita af því að vinna mín í ensku og íslensku wikipedia og það að teikna svg skýringarmynd og setja inn í wikimedia commons nýtist í alfræðiritum á mörgum tungumálum.
Hmmm... sniðugt, ég var að skoða pólsku greinina um loðnu og þar sé ég að skýringarmyndin mín er líka komin inn og búið að þýða textann um ætisgöngur og hrygningargöngur loðnu við Ísland. Nú er ég að fatta hvað wikipedia gæti verið gott verkfæri í nýbúakennslu, ef greinar um ýmis fyrirbæri sem mikilvæg eru fyrir Ísland eins og loðnur og fiskigöngur og ýmis fyrirbrigði í náttúru landsins þá gætu nýbúar lesið líka um þessi fyrirbæri á móðurmáli sínu.
Best að ég breyti titli á þessum bloggpistli til heiðurs Pólverjum sem búa og starfa á Íslandi í "Trasa migracji kapelanów". Þetta er fyrsta setningin sem ég læri á pólsku.
Það eru bara sorglega fáir Íslendingar sem hafa áhuga á wikipedia samfélaginu og allt of fáir sem skilja hversu sniðugt er fyrir lítil málsamfélög eins og Íslendinga að dreifa ekki kröftunum um of heldur byggja upp einhver sameiginlega gagnasöfn til að skilja heiminn. Einn aukabónus við íslenska wikipediu er að það er hægt að hafa tengingar í greinar um sama efni á milli tungumála t.d. er eðlilegt fyrir okkur að tengja fræðigreinar í ensku wikipediu því þar er yfirleitt vönduðustu greinarnar.
Svo til að snúa þessari pælingu um loðnukvótann upp í femínisma þá má benda á að það er líka skynsamlegt að auka kvennakvótann í æðstu stjórn landsins.
Einmitt í dag 1. febrúar 2004 þá höldum við upp á Heimstjórnarafmælið og hyllum Hannes Hafstein Það hafa ekki margar konur verið forsætisráðherrar á Íslandi eða gerendur á sviði íslenskra stjórnmála. Það færir okkur hagsæld að stýra náttúruauðlindum okkar þannig að þær spillist ekki. Hagsæld samfélaga ræðst einnig af því hvernig mannauður er nýttur í samfélaginu og það er ekki skynsamleg nýting á mannauð að búa til samfélög þar sem alls staðar eru glerþök og ósýnilegir múrar sem halda ákveðnum þjóðfélagshópum í fjötrum. Það getur bæði verið kyn og þjóðernisuppruni sem halda fólki undir slíkum glerþökum.
![]() |
Loðnukvótinn aukinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2007 | 10:11
Bush, Björn Ingi, fangelsi og fatnaður kvenna
Sjaldan hef ég séð frjálslegra og skáldlegra farið með sannleikann og stjórnmálasöguna en í pistlinum Ein af strákunum okkar eftir Jón Karl en svo mikil áhrif hefur pistillinn á Björn Inga oddvita okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn að hann endurómar tal strákanna um klæðnað kvennanna í þessum pistli: Hvað eiga George Bush, Þorgerður Katrín og Siv Friðleifsdóttir sameiginlegt?
Aðalspekin í bloggum Jóns Karls og Björns Inga virðist vera útlitspælingar um kvenfólk í framboði og því haldið fram að það að sýnast sæll og pattaralegur og iðjulaus að skemmta sér hafi úrslitaáhrif á kosningar og hafi valdið því að Bush eldri sigraði Dukakis árið 1988 því : "Úrslit kosninga ráðast ekki af málflutningi frambjóðenda heldur líkamstjáningu þeirra, því sem á ensku kallast body-language."
Þannig vill til að ég var búsett í Bandaríkjunum eimitt þegar Dukakis versus Bush eldri slagurinn var háður og fylgdist vel með baráttunni. Það er af og frá að úrslit þeirra kosninga hafi ráðist vegna sviðsframkomu og líkamstjáningar Bush. Úrslitin réðust vegna harðrar auglýsingahríðar og hræðsluáróðurs þar mannúðarstefna Dukakis var skotin niður og þeirri hugsun haldið á lofti að það þyrfti öflug fangelsi til að passa þegnanna fyrir óbótamönnum. Mannúðarstefna Dukakis sem hann fylgdi sem fylkisstjóri bendist meðal annars að fangelsismálum en þessi stefna var í auglýsingum frá áróðursmaskínu Bush útmáluð sem kerfi sem sleppti lausum stórhættulegum nauðgurum. Þessar auglýsingar ólu á kynþáttafordómum og hatri miðstéttar á þeim sem verst eru settir í samfélaginu.
Áhrifamesta auglýsingin var Revovling Doors auglýsingin, ég held að út af þeirri auglýsingu hafi Dukakis tapað. Hún glumdi við í mörgum sjónvarpsstöðvum daginn út og daginn inn og allir vissu hver nauðgarinn Willie Horton var. Þessar auglýsingar voru ömurlegt, lúalegt og viðbjóðslegt dæmi um það sem kallað er "negative advertisment", að ráðast á andstæðinginn og ata hann út með ásökunum. Ég held að auglýsingamaðurinn sem gerði þessar auglýsingar hafi iðrast svo mikið að hann hafi sérstaklega á banabeði beðið Dukakis fyrirgefningar á þessu.
Þegar saga Bandaríkjanna er skoðuð frá þeim tíma sem Bush eldri vann Dukakis og sérstaklega staðan í dag þegar aldrei hafa verið fleiri í fangelsum í Bandaríkjunum og það er hluti af reynslu stórs hluta bandarískra blökkumanna að dvelja í fangelsi og það ömurlegasta sem Bandaríkjamenn aðhafast á alþjóðavettvangi eru fangaflutningar og rekstur á viðbjóðslegum fangelsum sem lúta í engu því sem við teljum til mannúðarstefnu og mannréttinda þá getum við ekki annað en hugsað hvað hefði gerst ef Dukakis hefði unnið. Hefði sagan orðið öðruvísi og hver er að vernda hvern fyrir hverjum með þessari ofuráherslu á fangelsi og lögregluríki?
Karlmönnum á Íslandi þykir eflaust skemmtilegt að pæla í klæðnaði og framkomu íslenskra kvenna í stjórnmálum og tengja þær við stjórnmálasögu bandaríska til að ljá sögum sínum trúverðugri blæ og búa til einhver body-language stjórmálafræði sem hjálpa til að stilla konum upp eins gripum til að horfa á, ekki til að hlusta á. En svoleiðis sögur eru ekki sannleikur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.1.2007 | 19:54
Fokkmerki framan í konur
Helstu fréttirnar um Framsóknarflokkinn þessa dagana eru yfirlýsingar frá karlmönnum sem ætla ekki að taka sæti á lista af því þeir eru dáldið svekktir yfir að þeir hafi ekki fengið það fylgi sem þeir ætluðu sér í prófkjörum. Hér má nefna alþingismanninn Kristinn á Vestfjörðum, Hjálmar þingflokksformann í Suðurkjördæmi og núna seinast formann ungmennafélags Íslands (man ekki nafnið) sem ekki komst í eitt af sex efstu sætunum í prófkjörinu í Suðurkjördæmi og sendi frá sér yfirlýsingu um að hann ætli ekki að taka sæti á listanum.
En það gegnir öðru máli um konur. Þar virðist ekki skipta máli um hvar konur lenda á lista hvort þær taka þátt í prófkjöri og ganga vel í því. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi lentu konur í fjórða, fimmta og sjötta sæti. Karlinn sem var í þriðja sæti ætlar ekki að vera á listanum vegna þess hversu illa honum gekk í prófkjörinu. Nú er í fréttum að það hefur verið bætt inn í þriðja sæti konu sem er starfsmaður þingflokks Framsóknarflokksins, konu sem ekki tók þátt í prófkjörinu.
Það er ekkert við þetta að athuga ef þetta er gert í samráði og sátt við þær konur sem lentu í þriðja til sjötta sætinu í prófkjörinu og almenn sátt sé um þessa tilhögun. En fyrir okkur sem horfum á þetta utanfrá og vitum ekkert um þetta annað en það sem kemur fram í fréttum þá er þetta bara eitt stórt fokkmerki framan í konur sem taka af fullum þunga þátt í prófkjörum. Var ekki hægt að finna kandidat í í þriðja sætið í röðum þeirra kvenna sem lentu í fjórða til sjötta sæti? Er ekki eðlilegt að taka tilliti til fylgis þeirra í prófkjörinu?
Ég er ekki að gera lítið úr því að listi þurfi að vera samsettur úr mismunandi einstaklingum og endurspegla íbúana í kjördæminu en það er af og frá að níðþröngir stakkar úreltrar hreppapólitíkur eigi að reyrast bara að konum en karlmenn geti valsað frjálsir út um allar koppagrundir.
Ég bendi á góðan pistil sem Stefán Bogi Sveinsson framsóknarmaður skrifar á blogginu sínu stefanbogi.is um þetta mál. Frá honum tek ég líkinguna um fokkmerkið sem ég nota í titli á þessu bloggi.
"Spunahjólin eru farin af stað í þeim tilgangi að finna út hver á að taka sæti Hjálmars á listanum. Þessi kenning er ekki verri en hver önnur. Eini gallinn við þetta allt saman er að það er í eðli sínu svindl að hrófla við niðurstöðum prófkjörs með þessum hætti. Ég hika ekkert við að segja það. Það eru bara svik við þátttakendur í prófkjörinu. Ég skrifaði eftirfarandi í tilefni af slíkum fimleikum á framboðslista Samfylkingarinnar í sama kjördæmi:
Af hverju virðist engum finnast þetta óeðlileg misbeiting? Ef menn á annað borð villast inn í það að halda prófkjör, sem að mínu mati er meingölluð leið til að velja á framboðslista, eiga menn að halda sig við niðurstöður þess.
Allt annað er eitt stórt ,,fokk"merki framan í þá sem lögðu það á sig að bjóða sig fram í prófkjörinu, og framan í þá sem kusu í því.
Ég hef ekki skipt um skoðun síðan. Það er algjörlega óviðunandi að einstaklingi sem gat, en ekki vildi bjóða sig fram í prófkjöri, sé svo lyft upp fyrir þá sem lögðu bæði tíma sinn, peninga og heiður að veði í slíkri baráttu."
Það andar köldu að konum á Íslandi á hundrað ára afmæli Kvenréttindafélags Íslands, sama hvort það eru konur dreifðar um byggðir Suðurkjördæmis eða konur sem berjast til forustu í Frjálslynda flokknum.
Viðbót:
Ég get ekki betur séð bæði á skráningu í þjóðskrá og símaskrá en að Helga Sigrún Harðardóttir sé Reykvíkingur, skráð til heimilis í Skipholti í 105 Reykjavík. Mér finnst 105 Reykjavík vera fínt hverfi, það er nú líka átthagar mínir og ég bý þar og þar hef ég búið mestallt mitt líf fyrir utan nokkurra ára útlegð í Kópavogi og nokkur hliðarhopp í 101 Reykjavík. En ég hefði ekki áttað mig á því áður að við 105 R-ingar værum Suðurnesjamenn og þess vegna gjaldgeng á lista í Suðurnesjamannasætin. Ég Suðurnesjamaðurinn Salvör hugsa mér gott til glóðarinnar, það hlýtur að vanta Suðurnesjamenn til að punta einhverja fleiri lista.
Hitafundur hjá Framsókn (frétt á visir.is)
![]() |
Helga Sigrún Harðardóttir í 3. sæti hjá Framsóknarflokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2007 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.1.2007 | 18:17
Mjótt á mununum
Það kemur mér á óvart hve mjótt var á mununum milli Magnúsar Þórs og Margréttar Sverrisdóttur, aðeins munaði 55 atkvæðum. Þetta getur ekki túlkast sem neinn sigur hjá Magnúsi Þór, hann er sitjandi varaformaður og formaður hefur lýst yfir stuðningi við hann.
Skyldu verða einhver eftirmál út af þessari kosningu? Það virðist allt hafa verið ansi laust í böndunum þarna og ekki erfitt fyrir fólk að koma inn af götunni og kjósa. Annars rifjast upp fyrir mér núna að þetta er ekki í fyrsta skipti sem nokkur atkvæði segja til um hvort Margrét Sverrisdóttir kemst áfram. Það munaði örfáum atkvæðum á því að Margrét Sverrisdóttir hefði komist inn á þing fyrir fjórum árum og á því að Árni Magnússon komst inn. Það mun þá hafa verið þannig að utanatkvæðisseðlar féllu öðruvísi í Reykjavíkurkjördæmunum, mig minnir að fleiri seðlar hafi verið dæmdir ógildir í Reykjavík norður.
En niðurstaðan var sem sagt þessi:
"Magnús Þór fékk 369 atkvæði eða 54% en Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri, fékk 314 atkvæði eða 46%."
Það er bara núna hægt að spá í hvort Margrét fer í sérframboð eða hvort hún gengur til liðs við einhverja aðra t.d. svokallaða hægri græna. Ómar er víst búinn að bíða eftir úrslitunum.
![]() |
Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2007 | 17:17
Er þetta lýðræði?
Ég bíð núna eftir úrslitum úr kosningum Frjálslynda flokksins. Það er mikið í húfi fyrir alla Íslendinga. Það getur farið svo að Frjálslyndi flokkurinn verði í lykilaðstöðu eftir næstu kosningar og ef hann þróast á versta hugsanlega veg sem flokkur útlendingahaturs og öfga til hægri þá er illt í efni.
Ég vona að Margréti Sverrisdóttur gangi sem best, það væri náttúrulega sú afmælisgjöf sem myndi gleðja kvenréttindakonur á Íslandi sem mest en einmitt í dag er haldið upp á 100 ára afmæli Hins Íslenska kvenfélags. En mér líst ekki á fréttir um öngþveiti og ringulreið og smalanir á kjörstaði í stjórnmálaflokkum, ég held að þetta sé birtingarmynd þess í hve miklum molum lýðræðið er í landinu. Ég er afar ósátt við undarlega smalamennsku sem hefur viðgengist í Framsóknarflokknum þar sem meira segja hefur gengið svo langt að plott hafa verið undirbúin í öðrum kjördæmum til að ná undir sig kvenfélögum. Hér á ég við Freyjumálið í Kópavogi.
Nú eru ekki komnar fréttir af varaformannskjörinu í Frjálslynda flokknum en það eru fréttir um að fólk fór af kjörstað núna þegar kosningu var lokið og flestir virðast eingöngu hafa verið þarna til að kjósa. Þetta minnir mig á það að ég fór á seinasta landsfund Framsóknarmanna en ég hafði ekki kosningarétt, ég fékk ekki að vera fulltrúi á landsþinginu vegna óeðlilegra og undarlegra vinnubragða í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður, vinnubragða sem einkenndust af spillingu og þvi að fólk hefur alveg misst sjónir á því hvað lýðræði gengur út á. Það var þá verið að kjósa formann, varaformann og ritara í stjórn Framsóknarflokksins.
Ég skrifaði bréf til stjórnar Framsóknarflokksins og kjörnefndar þar sem ég kærði þessi vinnubrögð stjórnar Framsóknarfélagsins í Reykjavík Norður og fór með það bréf á landsfundinn og afhenti starfsmanni flokksins. Ég er mjög ósátt við að því bréfi hefur ekki einu sinni verið svarað. Ég skil ekki þetta virðingarleysi fyrir almennum flokksmönnum.
![]() |
Kosningu lokið hjá Frjálslyndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2007 | 09:11
Bloggstríð og samsæriskenningar
Í Fréttablaðinu í dag á blaðsíðu 18 er greinin Bloggstríð fyrir kosningar. Það er vitnað í mig, Stefán Páls og Steingrím Sævar.
Ég held að Fréttablaðið og það fjölmiðlaveldi sem það tilheyrir sé ekki par hrifið af uppgangi moggabloggsins. Það er nú eitthvað að gerast þar og hugsa ég að þessi grein sé nú ekki til að mæra moggabloggið heldur sem liður í að blása til sóknar. Sennilega ekki tilviljun heldur að þarna var viðtal við Stefán sem bölsótast manna mest út í moggabloggið og svo Steingrím Sævar sem er kominn á mála hjá Vísi
Blaðamaðurinn sem hringdi í mig spurði eitthvað á þá leið hvort ég héldi að gróska moggabloggsins væri einhver samantekin ráð, ég tel svo ekki vera, þetta er einfaldlega besta kerfið á íslensku og það er aukakostur að það er partur af samfélagi sem tengist einu stærsta dagblaði landsins. Svo eru kosningar í nánd og reyndar svo miklar hræringar í fjölmiðlaheiminum að margir blaðamenn og fjölmiðlamenn eru milli vita og fá útrás með því að tjá sig hérna þangað til þeir verða of önnum kafnir við önnur verkefni. Sýnilleiki bloggsamfélagsins af forsíðu mbl.is hefur líka valdið því að blogg eru meira lesin en áður, auðvelt er að sjá hversu margir lesendur eru og hverjir eru tengdir hverjum og stundum verður það til þess að bloggarar drekkja sér í athyglissýkinni.
Nokkrar greinar um bloggheiminn
Mínar greinar:
Ekkibloggsaga Íslands 2. hluti
Ekkibloggsaga Íslands 1. hluti
Drottningarviðtal við sjálfa mig sem mann ársins
Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?
Greinar frá öðrum:
Byltingin í Bloggheimum og kóngurinn af Íslandi í dag (Hrafn Jökulsson)
Er Stefán Pálsson hinn íslenski Romario?(Hrafn Jökulsson)
Bloggið þróast (Guðmundur Magnússon)
Eitt allsherjarblogg? (Guðmundur Magnússon)
Hefði Jón forseti bloggað?(Guðmundur Magnússon)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)