Áfram Eygló

 Eygló stendur sig bara vel strax í fyrstu atlögunni sem hófst daginn eftir að kosningaúrslit í prófkjöri Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi lágu fyrir.  Hún skrifar greinina Karlaplott og þúfupólitík um þá orðræðu nokkurra karlmanna úr röðum Framsóknarmanna að finna annan í hennar stað í þriðja sætið á listanum.

Þessi grein Steingríms Sævars er mjög pirrandi: Petrína í þriðja sæti hjá Framsókn?

"Petrína, sem gekk til liðs við flokkinn fyrir rúmu ári, var áður þingmaður Alþýðuflokksins og hefur mikið persónufylgi á Suðurnesjum.

Það vita frammámenn í Framsóknarflokknum sem, líkt og flestir aðrir stjórnmálaflokkar, hafa ekki aðila af Reykjanesi í efstu sætum listanna.

Nái Framsóknarflokkurinn að fá Petrínu til að taka þriðja sætið á lista flokksins styrkir það stöðu hans verulega í þeirri erfiðu kosningabaráttu sem framundan er."

Maður spyr sig þegar svona grein er lesin hvort sumum finnist ennþá  konur bara uppfyllingarefni og punt á framboðslistum Framsóknar. Er fólk ekki að átta sig á því að svona umræða er gífurlega mógðandi fyrir allar konur? Eygló tók þátt í prófkjörinu af fullum þunga og náði þar afbragðskosningu, af hverju er þá umræðan um að finna konu úr öðru byggðalagi í hennar stað?

Björn Ingi skrifar í athugasemdir hjá Eygló: "Við verðum að þola umræðuna og það er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvernig rétta megi hlut Suðurnesja á framboðslistanum í ljósi þess að þar eru um 40% atkvæðanna".

Ég geri ráð fyrir að Björn Ingi eigi við að 40% kjósenda í Suðurkjördæmi séu á Suðurnesjum og það sé mikilvægt að fulltrúi þaðan sé ofarlega á lista. Ég tek undir það en það er nú bara við Hjálmar að sakast ef svo verður ekki, það var hann sem gaf kost á sér í prófkjörinu og það var væntanlega hann sem sumir Suðurnesjamenn kusu af því hann er Suðurnesjamaður. 

En ég vil benda á að þó prósentutölur mögulegra atkvæða vissra byggðalaga séu sláandi háar þá er prósentutala kvenna sem munu ganga til kosninga ennþá hærri eða um 50%. Ég held að það séu ekki miklu færri konur í Suðurkjördæmi en annars staðar á landinu. Það er móðgandi fyrir Eygló og allar konur sem sýna þann kjark og þor að taka þátt í prófkjörum að það vigti ekki einu sinni að þær taki þátt í baráttunni, baráttu sem er alla jafna mjög óhliðholl konum og það sé ekki fyrr búið að telja í prófkjörinu fyrr en raddir koma upp að finna einhvern annan fyrir sæti sem hún hefur barist fyrir og haft mestan stuðning í.

Eygló var kjörkuð að bjóða sig fram og hún bauð sig fram í 2. sæti þannig öllum á að vera ljóst að hún vill vera ofarlega á lista. Ef Hjálmar hefði ekki strax dregið sig í hlé þá hefðu náttúrulega komið strax raddir um að listinn væri afar hallærislegur með þrjá karlmenn í þremur efstu sætum. En núna reynir Hjálmar og fleiri að etja konum í Framsóknarflokknum saman og finna konu úr sínu byggðalagi á listann, ágæta konu en hún var bara alls ekki í framboði.

Það er nú umhugsunarvert að einmitt núna um helgina þá var tilkynnt að annar Vestmanneyingur Árni Johnsen myndi sitja sem fastast í  sæti á lista Sjálfstæðismanna skv. niðurstöðum prófkjörs hjá þeim. Ég hvet fólk til að bera nú saman Vestmanneyinganna Eygló og Árna og hvaða ástæður menn finna fyrir að þau eigi ekki að vera á lista í þeim sætum sem þau hafa barist fyrir og fengið styrk í prófkjöri í. 

Mér finnst þetta sýna í hnotskurn hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum. Annars vegar er gífurlegt umburðarlyndi við karlmann sem orðið hefur uppvís að spillingu og  fjársvikum og iðrast einskís og kallar gjörðir sínar tæknileg mistök og hins vegar er lagt ofurkapp á að bregða fæti fyrir konu sem hefur vegnað vel í prófkjöri. Það sem aðallega er fundið henni til foráttu er að hún búi í Vestmanneyjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem ég hef lesið af greinarskrifum Eyglóar í eyjablöðin hefur eytt að mestu allri virðingu sem ég hafði fyrir þessari konu. Það er kannski kaldhæðni örlagana að ef hún kemst á þing og flytur, þá verður hún ekki lengur eyjamaður samkvæmt eigin skilgreiningu í grein sem uppskar mikin pirring og reiði eyjamanna.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 14:21

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Getur þú kannski tjáð þig skýrar en véfréttin í Delfi? Um hvað fjallaði þessi grein og hvaða viðhorf voru það í henni sem stuðuðu þig?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.1.2007 kl. 14:46

5 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Þeir koma víða við spunadrengirnir í Framsókn

Guðmundur Gunnarsson, 22.1.2007 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband