Suðurnesjamenn og Sunnlendingar

Það er gaman að fylgjast með hreppapólítíkinni hér steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu. Hjálmar telur skipta miklu máli að Suðurnesjamaður sé í þriðja sæti hjá Framsókn í Suðurkjördæmi. Til hvers var þá prófkjörið sem Hjálmar þó tók þátt í af fullum þunga? Hvers vegna eru ekki sömu viðhorf uppi um að það sé mikilvægara að kona sé í öðru sæti?

Reyndar er ég ekki viss um það samræmist reglum Framsóknarflokksins að hafa þrjá karla í þremur efstu sætum á lista, það hefði verið afar ógæfulegt að fara á stað með þannig lista og sennilega hefði verið afar mikil pressa á Hjálmar að fara neðar á listann. Ég held hins vegar að það séu ekki neinar skráðar starfsreglur um hvernig hlutfall á lista eigi að vera eftir búsetu í kjördæminu. Það er samt auðvitað skynsamlegast og sigurstranglegast að stilla upp lista sem endurspeglar samfélagið, þar sem er fólk með alls konar bakgrunn og reynslu, þar sem eru bæði karlar og konur og fólk á ýmsum aldri.

Þó prófkjör séu góð leið til að ná upp stemmingu og láta reyna á hver er vinsælastur þá hafa þau þann annmarka að það er einsleitari hópur sem hefur sjéns í prófkjörum en allt samfélagið. Þannig hygla prófkjör þar sem engar hömlur eru á hvað þátttakendur mega gera ansi mikið eignamönnum og þeim sem tekst að afla sér styrkja hjá eignamönnum og konur hafa átt erfitt uppdráttar í prófkjörum.  Mér finnst Hjálmar gera lítið úr sigri Eyglóar Harðardóttur frá Vestmanneyjum í þessu prófkjöri og hennar vinnu með því að leggja til að hún dragi sig í hlé eða taki sæti neðar á listanum. 

Mér sem Framsóknarmanni í Reykjavík finnst miklu mikilvægara að hugað sé að kynjahlutfalli á framboðslistum heldur en úr hvaða hverfi Reykjavíkur eða nágrannasveitarfélaga frambjóðendur koma. Þess vegna finnst mér í fína lagi að Kópavogsbúinn Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins sé í efsta sætinu í mínu kjördæmi í Reykjavík Norður. Reyndar finnst mér til fyrirmyndar hjá Vinstri Grænum að halda sameiginlegt prófkjör fyrir þrjú kjördæmi og raða síðan niður á listana eftir niðurstöðum þess. Það verður til þess að meira kastljós er á málefni sem eru sameiginleg og minna á málefni sem eru sérstaklega bundin við landssvæði. 

 Í sveitarstjórnarkosningum á kastljósið að vera á málefnum einstakra byggðalaga en í alþingiskosningum á það sem sameinar stjórnmálaflokkinn, ekki það sem sundrar. 

En hver eru hin stórpólitísku mál? Eru það hreppapólítísk mál þar sem landssvæði berjast innbyrgðis um bita af kökunni? 

Ég held okkur greini á um það og það sé þarft að ræða það alls staðar á Íslandi, jafnt í Reykjanesbæ, Árborg,  Vestmanneyjum og annars staðar á Íslandi. Ég er hjartanlega sammála því sem Sigurður Bogi Sævarsson segir í  pistlinum  Meinloka Bjarna og en hann mælir þar spaklega:

"Mun fleiri eru farnir að líta á það sem pólitískt stórmál að vinnutíminn sé ekki óhóflega langur, að konur njóti sömu réttinda á við karla, heilbrigðisþjónustan sé bærileg, byrgðin af húsnæðislánunum sé ekki óhófleg og að grunnskóli barnanna þeirra sé góður. Af þessu má ráða að tími hinna mjúku mála sé runninn upp, mála sem eru þó grjóthörð þegar betur er að gáð. Af þessari staðreynd þurfa frambjóðendur að taka mið og haga áherslum sínum eftir því."


mbl.is Vill að Suðurnesjamaður komi í 3. sætið í sinn stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Ekki er pólitískt vit mikið enda verið fjarverandi í langan tíma frá baráttunni.  Kjánalegt að óska eftir kyn en ekki kröftum í 3ja sætið, spurning hvort pungstæði fylgi stólnum!   

www.zordis.com, 22.1.2007 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband