Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
6.10.2007 | 18:18
Íslenski jólasveinninn og fararskjóti hans
Yfir 70% af þeim leikföngum sem framleidd eru í heiminum í dag koma frá Kína. Mörg börn á Vesturlöndum trúa því að jólasveinninn komi með gjafir til þeirra á jóladag akandi um loftin blá á sleða sem hreindýr draga. Þessar gjafir hafa önnum kafnir jólaálfar framleitt fyrir öll börnin á Vesturlöndum.
Hér eru myndir úr leikfangaverkstæðum í Kína til þar sem leikföngin fyrir börn á Vesturlöndum eru búin til. Svona líta álfarnir út sem framleiða leikföngin. Maður getur samt ekki annað en hugsað hvort það sé alltaf gaman að vera svona álfur á jólasveinaverkstæði, alla vega virðast þeir svolítið þreyttir á öllu puðinu á þessari mynd, þarna hafa þeir lagt sig undir framleiðsluborðinu.
Hvað skyldu álfar jólasveinsins hafa í tímakaup?
Margir halda að jólasveinninn noti ennþá svona gamaldags farartæki eins og hreindýrasleða. Sem betur fer þá erum við upplýst í þessari frétt um hvernig jólasveinninn þeysist milli landa. Hann gerir það með öðrum í þotuliðinu í boði Glitnis.
Að öllu gamni slepptu þá vil ég segja að mér finnst mjög óeðlilegt að forseti Íslands sé ferjaður á milli landa af stórfyrirtækjum og almennt að forsetaembættið eða önnur opinber embætti á Íslandi séu háð góðmennsku einkafyrirtækja um skutl milli staða. Mér finnst dáldið nöturlegt að forsetinn sem á sínum sokkabandsárum þeyttist um Ísland uppfullur af hugsjónaanda og flutti töluna "Hver á Ísland?" í hverju krummaskuði og talaði um fjölskyldurnar fjórtán eða hvað þær voru margar - hafi þegar hann sjálfur kemst í embætti ekki þá dómgreind til að bera að slá ekki hversu óviðeigandi þessi ferðamáti er.
![]() |
Ólafur Ragnar flaug til Kína í boði Glitnis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2007 | 13:51
Gullfiskaminni kjósenda
Ætli þeir stjórnmálamenn sem koma að REI-Geysir Green Energy hafi engan áhuga á framtíðarferli sínum í stjórnmálum? Eða treysta þeir á gullfiskaminni kjósenda og halda að kjósendur í Reykjavík séu heimskir og illa upplýstir og spái ekkert í hvernig kjörnir fulltrúar fari með fjármuni og eigur borgarbúa? Halda þeir að það þurfi ekki annað en smala grimmt og hóa kjósendum saman og gefa þeim nokkrar bjórdollur fyrir næstu kosningar til að þeir kjósi það sama? Ætli þeir telji að einu skyldur þeirra milli kosninga séu að gæta hagsmuna þeirra sem gáfu stórar upphæðir í kosningastjóði og styrktu þá til valda?
Ég er frekar vonlaus yfir stöðunni í íslensku samfélagi í dag, mörg plott og fléttuleikir eru í gangi til að reka almenning til og frá og slá ryki í augun á fólki. Flestir íslenskir fjölmiðlar eru í eigu örfárra áhrifamanna í viðskiptum og stundum virðast fjölmiðlar hérlendis beinlínis vera reknir með það í huga að tryggja hliðholla umfjöllun í stóru málunum þó þeim blekkingarleik sé haldið í gangi dags daglega að viðkomandi fjölmiðill sé frjáls og óháður og geti alveg gagnrýnt eigendur sína eins grimmilega aðra.
Ísland er ekki lengur heitur reitur í köldu stríði. Ráðstjórnarríkin hrundu innan frá og vígvöllur Bandaríkjamanna er fjarri okkur í Mið-Austurlöndum. En það eru aðrir hagsmunir hér núna, hagmunir sem tengjast orkuauðlindum landsins og hagsmunir sem tengjast legu landsins og siglingaleiðum og hagsmunir sem tengjast því að landið er fullvalda smáríki í samfélagi Evrópuþjóða. Stórveldi í austri eins og t.d. Kínverjar hafa því fullan hug á ítökum hér á landi.
5.10.2007 | 10:42
Rödd óbreytta Framsóknarmannsins
Ég held ódeig áfram við það markmið mitt að bæta innviði og grasrótarstarf Framsóknarflokksins. Þessi hugsjónabarátta mín hefur þó ekki skilað neinum árangri hingað til og reyndar oft orðið til þess að ég verð fyrir hnútuköstum annars vegar frá hollum Framsóknarmönnum sem finnst ég ekkert eiga með að gagnrýna og benda á það sem miður fer, ég eigi bara að vera stilllt og mæra og lofa foringjana og tala fallega um allt sem Framsókn hefur staðið að og hins vegar frá fólki utan Framsóknarflokksins sem finnst Framsóknarflokkurinn vera samsafn af óþjóðalýð sem hafi spillst svo af setu við kjötkatlana að honum sé ekki viðbjargandi.
Það er ekki alltaf þannig að úrslit kosninga ráði hvernig stjórn er mynduð og það er ekki víst að mestu sigurvegarnir setjist í stjórn. Það er ein leið í stjórnmálabaráttu að breyta flokkum innanfrá. Sú leið er hins vegar torsótt ef það eru hagsmunir einhverra að stjórnmálaflokkur breytist ekki.
Ég er ekki sátt við það sem borgarstjórn er að aðhafast þessa daganna í orkumálum, ég fatta ekki hvernig veitufyrirtæki í almannaeigu getur staðið svona að málum og ég hef bæði skrifað bæði Birni Inga oddvita okkar í borgarstjórn og fulltrúa í stjórn OR og póstaði áðan þetta bréf á umræðupóstlista Framsóknarmanna;
Ágætir framsóknarmenn,
Er ég ein um að hafa áhyggjur af því hvað er að gerast í borgarstjórn Reykjavíkur sb. þá umfjöllun sem er núna í fréttum? Ég velti því fyrir mér hvaða farvegur er innan framsóknarflokksins til þess að við óbreyttir flokksmenn getum fræðst um og komið sjónarmiðum okkar á framfæri.
Ég held að það sé einn meginveikleiki Framsóknarflokksins í Reykjavík (a.m.k.í Reykjavík norður þar sem ég þekki best til) að grasrótin er alveg óvirk og ekki farvegur til að ræða málin.
Ég sendi þetta bréf líka til oddvita okkar í borgarstjórns Björns Inga Rafnssonar með ósk um að þessi Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Engergy verði rædd á vettvangi Framsóknarflokksins í Reykjavík og við frædd um hvers vegna Framsóknarflokkurinn tekur þátt í afgreiðslu með þessum hætti.
bestu kveðjur
Salvör Gissurardóttir
Framsóknarmaður í Reykjavík
![]() |
Vilja fara með Orkuveitufund fyrir dómstóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2007 | 08:12
Bloggarar helsta fréttalindin í átökunum í Búrma
Fréttavaktir Vesturlanda reyna að flytja okkur fréttir af því sem er að gerast í Búrma en erfitt er að fá fréttir. Þær koma helst frá bloggurum í landinu og bloggurum staðsettum í Bretlandi sem fá sendar myndir heiman frá gegnum Internetsendingar, oft eru fréttamyndirnar teknar af sjónarvottum á GSM síma. BBC er með grein um þetta (http://news.bbc.co.uk/2/hi/asia-pacific/7012984.stm ) og ég hlustaði á fréttaskýranda á BBC bera þetta saman við þegar herstjórnin kom til valda á sínum tíma, þá var jafnalvarlegt ástand en heimsbyggðin gat ekki fylgst með, ekkert Internet og ekkert blogg.
Búrma er á botninum varðandi tjáningarfrelsi, er númer 164 af 168 skv. Reporters without borders. það eru bara 0,56 % af fólki sem hefur Internettengningu og öll Internetþjónusta er ríkisrekin og ritskoðuð. Ég hugsa að þessir sem blogga sendi bloggin eitthvað í nágrannaríkin.
![]() |
Mótmælendur særðust í átökum í Yangon |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.9.2007 | 23:54
Munkarnir í Búrma
Það búast margir við að til tíðinda dragi í Búrma þar sem rauðklæddir munkar marséra núna upp á hvern dag og biðja um lýðræði. Það er frekar lítið um lýðréttindi hjá þessum 50 milljónum sem í landinum búa. Þarna er reyndar athyglisvert ástandi, einhvers konar trúarlegur kommúnísmi.
BBC er með ágæta umfjöllum um ástandið í Búrma. Það er sennilega ekki spurning um hvort heldur hvenær núverandi stjórnvöldum verður steypt í Búrma. Spurningin er frekar hvað kemur í staðinn og hvaða áhrif hefur það á þennan heimshluta. Búrma er vegna legu sinnar nokkurs konar stuðpúði milli Indverja og Kínverja og það er líklegt að þau ríki reyni að skipta sér af þróun þar og ef til vill ekki fara með friði.
Lífið í Búrma snýst mikið um trúarbrögð, það eru allir karlmenn skyldugir til að vera í klaustri einhvern tíma. Það er nú samt ekki þannig að strákar séu munkar ævilangt.
Hér er mynd sem ég fann á flickr af nokkrum smávöxnum munkum í Búrma. Mér virðist þeir ekki vera að mótmæla neinu sérstöku. Myndinar fékk ég hjá Sofia & Tobias
![]() |
Útgöngubann í stærstu borgum Myanmar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.9.2007 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.9.2007 | 18:05
Sjokk kapítalismi
Það er margt sniðugt í skrifum Miltons Friedmans t.d. kenningum hans um verðbólgu og hugmyndir hans um skólanám sem er svipuð hugmynd og frístundakortin sem núna eru hjá Reykjavíkurborg þ.e. að þeir sem njóti menntunarinnar ráðstafi sjálfir styrk eða niðurgreiðslu. En taumlaus frjálshyggja er trúarbrögð hinna ríku eða þeirra sem halda að þeir séu í forréttindastöðu eða líklegir til að komast í forréttindastöðu í lífinu, trúarbrögð til að réttlæta að fátækt og umkomulaust fólk sé svipt mannréttindum og aðgangi að gæðum þessa heims.
Það er nýkomin út áhugaverð bók um sjokk kapítalisma. Þetta virðist áhrifamikil bók ef marka má þetta myndskeið um bókina:
Sjá viðtal og upplýsingar um höfundinn Naomi Klein
The Shock Doctrine: Naomi Klein on the Rise of Disaster Capitalism
http://www.naomiklein.org/main
16.9.2007 | 13:07
Fjölmiðlar og eigendur þeirra - Bestu auðmenn Íslands
Það er gaman að fylgjast með ólgunni í íslenskum fjölmiðlaheimi, stundum held ég að þúsundir manna séu að skrifa og tala lon og don, mörg hundruð þeirra á launum hjá einhverjum skrýtnum útgáfufyrirtækjum með tölur í nöfnunum, með nöfn sem minna mig á tvö hundruð þúsund naglbíta - en flestir eru þó eins og ég ekki á launum hjá neinum og skrifa af einhvers konar tjáningar- og samskiptaþörf.
Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar ágætt blogg Af sjálfstæðum og óháðum miðlum þar sem hún bendir á hversu innantóm þau orð eru þegar fjölmiðlar halda fram að þeir séu frjálsir og óháðir. Einn ritfærasti bloggari þessa lands Guðmundur Magnússon hefur núna gengið til liðs við DV og bloggar þar á nýjum vefmiðli dv.is tekur þetta óstinnt upp og kallar skrif Guðbjargar Fljótfærnisleg skrif
Guðmundur vill eins og aðrir fjölmiðlamenn sem eru á launum við að ganga erinda eigenda sinna halda í þá ímynd að þeir séu alveg óbundnir af því að skrifa um það sem eigendurnir hafa velþóknun á - já og geti skrifað alveg óhræddir um það sem eigendurnir vilja ekki að sé skrifað um.
Þetta veit náttúrulega enginn betur en ritsnillingurinn Guðmundur enda hefur hann skrifað Sögu Thorsaranna en þeir sem höfðu fengið Guðmund í það verk og greiddu honum ritlaun töldu að hann hefði ekki sagt söguna eins og átti að gera og fyrsta upplaginu var hent og sagan prentuð aftur án frásagna sem stuðuðu þá sem greiddu verkið.
Frásögnin sem klippt var úr bókinni kom í DV og varð til þess að einn afkomandi Thorsara vildi kaupa DV gagngert til að leggja það niður. Guðmundur Magnússon veit því manna best hverjum klukkan glymur í íslenskri fjölmiðlum enda segir hann "Dv.is er sjálfstæður miðill í þeim skilningi að hann hefur eigin ritstjórn og er rekinn sem sérstök eining innan DV útgáfufélags ehf.".
Við hin getum lika tekið undir með Guðmundi og öðrum fjölmiðlamönnum og talað mikið og oft um tjáningarfrelsi okkar til að dáleiða okkur sjálf til að halda að það sé sannleikur. Nú eða kannski það sem er skemmtilegra, að stunda sjálfsefjunina með því að raula undir með Megasi í kvæðinu hans "Ég á mig sjálf".
Fyrsta erindið er svona:
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
en Mammaboba
starfrækir mig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2007 | 10:01
Morðinginn í næsta húsi
Á meðan borgarstjórinn í Reykjavík spáir í hvort bjórinn eigi að vera volgur eða ekki til að slá á rósturnar og ólætin í miðbæ Reykjavíkur á næturna þá er minn veruleiki annar. Ég fer sjaldan í miðbæinn en ég er stundum lengi að vinna frameftir á vinnustað mínum. Þegar ég fer þá er ég alltaf hrædd og það er ekki að ástæðulausu. Þar hefur oft verið brotist inn og núna nýlega gekk samstarfsmaður minn fram á hóp þjófa sem voru búnir að brjóta upp innganga og voru að leita að ránsfeng þegar hann kom til vinnu í morgunsárið. Þjófarnir leggja bílum bak við húsið í myrku porti einmitt þar sem er bílastæði starfsmanna eins og mín.
Ég bý í Teigahverfinu og úr bakgarðinum sem snýr að Laugateig þá er ég andspænis við Laugateig 19 sem er hús Verndar. Þar er nú fangelsi, ég held að allir sem þar sitja séu að afplána dóma. Það hefur aldrei verið borið undir íbúana í þessu íbúahverfi hvort þeir séu samþykkir því að hættulegir ofbeldismenn og fangar séu vistaðir þar. Við vitum ekki af því nema þegar þeir sleppa lausir.
Ég hef oft vakið athygli á þessu sjá m.a. þetta blogg:
Hættulegir fangar í opnu fangelsi - Fangar á Vernd hafa oft brotið af sér
Við vitum ekki af því nema þegar þessir fangar brjóta af sér þegar þeir eru á Vernd. Þannig kom í fréttum að þarna hafa dvalið Stóragerðismorðinginn, Sólbaðstofuræninginn og Gústi guðsmaður sem Kompás afhjúpaði þegar hann var að reyna að véla börn. Núna er frétt í DV "Harðsvíraður morðingi gekk laus" þar sem kemur fram núna á aðfaranótt sunnudagsins hafi strokið af heimili Verndar að Laugateig 19 annar tvíburanna sem myrtu mann á hrottafenginn hátt í Heiðmörk og keyrðu yfir hann margoft.
Þessi morðingi í hverfinu mínu mun hafa gengið laus í nokkra daga. Það kemur fram í DV að Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri taldi ekki ástæðu til að auglýsa eftir tvíburamorðingjanum vegna þess að hann vildi vernda hinn tvíburann...
En hver verndar mig og aðra íbúa hverfisins sem ég bý í og hver verndar mig og aðra starfsmenn í húsinu sem ég vinn í?
9.9.2007 | 18:51
Bókakynningar og flugseinkanir
Er von að ég nenni ekkert að blogga um fréttir? Ég fékk samviskubit yfir að ég væri allt of mikið horfin inn í netheiminn og pældi ekki í öðru en veseni við að setja inn og tvinna saman módúla í mediawiki. Nema hvað ég ákvað að renna yfir fréttirnar til að fylgjast með hvað væri að gerast í heiminum. Það var þá stórfrétt á moggavefsíðunni að Ísland ætli að taka þátt í einhverri bókasýningu og svo mýgrútur af fréttum yfir að þessi og hinni flugvélinni seinkaði frá útlöndum vegna þess að helsti hasarinn á Íslandi í dag eru flugmenn sem fara sér að engu óðslega í mótmælaskyni.
Jú og svo hefur það fréttnæma gerst í vikunni að utanríkisráðherra okkar kallaði íslenska herinn heim, hana Herdísi. Það er sennilega meiri þörf á henni núna hérlendis eftir að Rússarnir eru farnir að sveima hérna yfir háloftunum, það þarf að vera í viðbragðstöðu út af því og íslenski herinn verður að vera á vaktinni
Svo eru fjölmiðlar fullir af einhverjum fréttum yfir þessu framboði Íslands til öryggisráðsins og að Microsoft vilji að hér sér netþjónabú. Sama hvað ég reyni að horfa víðsýnt á þetta þá finnst mér þetta hvort tveggja mjög skrýtið, ég sé engin haldbær rök fyrir því að Ísland - nú eða eitthvað annað örríki heimsins eigi að vera í þessu öryggisráði og mér finnst afar vafasamt að hafa einhver netþjónabú hérlendis á meðal það þarf ekki annað en klippa í sundur tvo víra og þá er landið sambandslaust.
En það er nú út af fyrir sig forréttindi að búa í ríki þar sem væntanlegar bókakynningar eftir eitt ár og seinkanir á flugi eru aðalfréttamálin - alla vega á tímum þar sem fréttamennska er einhvers konar frásagnarlist hrakfara og harmleikja og erfiðleika.
![]() |
Menningarútrás í vændum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.9.2007 | 12:11
Húrra fyrir opnum aðgangi á vefbækur.is !
Það er frábært að íslenskir nemendur hafi núna aðgang að efninu á vefbækur.is
Það er miklu mikilvægara að nemendur hafi aðgang að efni á stafrænu formi heldur en að námsbókum. Við erum að fara inn í þann tíma að flestir nemendur eru nettengdir og sjálf tölvan kostar ekki mikið. Þannig er verkefni eins og OLPC (one laptop per child eða ein fartölva fyrir hvern nemanda) að vinna að því að börn í fátækari samfélögum hafi öll vefaðgang og eigin tölvu. Það getur ekki verið mikið mál fyrir okkur í einu ríkasta landi heims að bjóða sams konar aðstæður fyrir íslensk börn og ungmenni. Reykjavík niðurgreiðir tómstundir barna um 12. þús á önn, OLPC fartölvur eru hins vegar núna að komast undir $100 svo það kostar kannski bráðum ekki nema um 7 þús á barn að kaupa fartölvur og slík tæki duga amk þrjú ár - þá er nú líklegt að tækninni hafi fleygt svo fram að tölva sem er fín í dag sé orðin úrelt.
Ég og nemendur mínir höfum verið að vinna í íslenskum wikibókum (is.wikibooks.org), það er líka efni sem er frítt fyrir alla og hver sem er getur skrifað þar námsefni og það má afrita að vild og breyta og aðlaga. Sem dæmi má nefna wikibók um listdanskennslu og hér námsefni um hvít blóðkorn og námsefni um listamenn í Hveragerði og námsefni um vita á Íslandi.
Ég held að það sé miklu betra að skrifa námsefni í svoleiðis kerfi, kerfi þar sem auðvelt er fyrir aðra að taka upp þráðinn og bæta við efni og byggja á vinnu annarra.
Við verðum líka að fara að venja okkur af þeim hugsunarhætti að námsefni sé eitthvað sem nemendur fá í hendur og sem þeir eiga bara að skoða. Nemendur eiga líka að taka þátt í að skapa og endurskapa og endurraða efni - það má kannski líkja þessu við remix í tónlistinni, nemandinn þarf að draga að sér efni úr ýmsum áttum og setja það saman í eigin verk.
Námsefni í svoleiðis námsumhverfi verður að vera algjörlega opið, ekki aðeins opið til að nemendur geti skoðað það og afritað heldur líka opið til að nemendur geti tætt það í sundur og notað einingar úr því í eigin verk. Því miður eru þau höfundarlög sem við búum við í dag ekki að taka mið af þeirri þróun sem núna er í netheimum.
Það er þó þannig að núna eru að þróast alveg ný höfundarréttarkerfi sem styðja betur vinnubrögð nútímans og næstu framtíðar. Ég mæli með að fólk kynni sér creative commons og hvernig eigi að leita að efni þar. Ég er einmitt með wikibók í smíðum um höfundarrétt og Internetið.
Takk fyrir þennan opna aðgang að vefbækur.is og vonandi kemur meira opið efni á Netið og vonandi verður það efni sem er opið, sem má afrita og kannski allra, allra mikilvægast að það sé efni sem nota má sem efnivið í önnur verk t.d. verk nemenda.
![]() |
Íslenskir námsmenn fá aðgang að bókum á vefnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |