Siðbót í Framsóknarflokknum

Guðjón Ólafur Jónsson er ekki minn eftirlætis stjórnmálamaður og ég hef gagnrýnt harkalega skrif hans á hrifla.is og vinnubrögð hans og fleiri aðila í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður, vinnubrögð sem mér finnst fjarri öllu því sem lýðræðislegt starf í grasrótarsamtökum eins og stjórnmálaflokkum eigi að vera. Sérstaklega hefur mér fundist miður að sum skrif Guðjóns Ólafs hafa verið þrungin kvenfyrirlitningu t.d. þessi grein sem hann skrifaði um Freyjumálið í Kópavogi. Það er heldur ekki hægt að leyna því að hann hefur reynt leynt og ljóst að vinna gegn Siv Friðleifsdóttur. Það er hið besta mál að Guðjón Ólafur þurfi að svara gagnrýni fyrir það sem hann sannarlega gerir og fyrir þau viðhorf og skoðanir sem birtast í skrifum hans og orðræðu en hann á ekki fremur en aðrir að þurfa að þola það að vera gerður ærulaus í fjölmiðlum fyrir dylgjur og gerður einn að blóraböggli fyrir starf nefndar sem hann situr í. Það er Bjarni Benediktsson formaður nefndarinnar sem á að svara fyrir starf nefndarinnar og vinnubrögð þar. 

Að smala og tala
Framsóknarflokkurinn og Kvennalistinn bornir saman

Ég hef undanfarin ár reynt að vinna að siðbót í Framsóknarfélaginu í Reykjavík norður sem óbreyttur félagsmaður og boðið fram krafta mína til að byggja upp félagið og stuðla að vandaðri og lýðræðislegri vinnubrögðum þar. Því miður hafa þeir sem stýrt hafa félaginu ekki borið gæfu til að vilja nýta það. Ég held að það sé mikilvægt að  starf í stjórnmálafélögum sé heiðarlegt og lýðræðislegt, ég held að ef fólk vinnur að alúð og hugsjón í stjórnmálafélögum og þar sé vettvangur þar sem fólk hlustar hvert á annað og kemur vitinu fyrir hvert annað og nýtir þau samlegðaráhrif sem felast í hópnum þá muni það til langs tíma skila sér í betri og viturlegri vinnubrögðum á vettvangi þjóðmálanna.  Þannig þakka ég fyrir að hafa fengið að vinna í Kvennalistanum í gamla daga og lært af þeim grasrótarvinnubrögðum sem þar voru þar sem alltaf tíðkaðist að hlusta á alla og það hefði aldrei komið til mála að keyra í gegn einhverjar afgreiðslur í einhvers konar skrípaleiksatkvæðagreiðslu þar sem fólki var smalað á fundi bara til að kjósa. Það var reyndar megn andstaða við að kjósa um eitt eða neitt í Kvennalistanum, ég man aldrei eftir kosningu þar. Það var alltaf reynt að tala út um málin og komast að einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu. 

Það hefur verið áhugavert að starfa með Framsóknarflokknum undanfarin ár og bera saman vinnubrögð þessara tveggja hreyfinga. Það er eins og hvítt og svart. Það er lögð ofuráhersla á kosningar og smalanir og plott í Framsóknarflokknum á sama hátt og það var lögð ofuráhersla á umræður sem gengu hring eftir hring í Kvennalistanum. Það er margt gott í Framsóknarflokknum og þar er hefð fyrir athöfnum, atorku og drift og framkvæmdum - eitthvað sem ég saknaði verulega úr Kvennalistanum - en ég er viss um að það myndi vera verulega góð blanda ef flokkur sem byggir á samhygð og samvinnuhugsjón eins og Framsóknarflokkurinn myndi tileinka sér öðru vísi vinnubrögð og taka eitthvað upp frá Kvennalistanum gamla. Ég held að mínir ágætu fyrrum samherjar í Kvennalistanum hafi einmitt smitað þessi vinnubrögð Kvennalistans út í Reykjavíkurlistasamstarfið og síðar Samfylkinguna og það hafi haft góð áhrif á þessar hreyfingar. 

Nú er ég eins og vanalega búin að missa þráðinn og þetta blogg sem átti að vera varnarræða fyrir Guðjón Ólaf orðið að áróðri fyrir því að byggja upp betra grasrótarstarf og lýðræðislegri vinnubrögð í Framsóknarflokknum. En aftur Guðjóni Ólafi. Þó ég sé ekki sammála áherslum hans og vinnubrögðum eins og þau hafa birst mér í Framsóknarflokknum þá finnst mér mjög ómaklega að honum vegið núna með dylgjum í Dagblaðinu og fleiri stöðum þar sem því er haldið fram að hann hafði einn manna keyrt í gegn einhverja flýtiumsókn um ríkisborgararétt og því blákalt haldið fram að hann hafi knúið í gegn einmitt núna þessa umsókn en aðrir nefndarmenn hafi viljað setja hana í salt. Ég veit að Guðjón Ólafur er samviskusamur og trúr sínum stjórnmálaflokk og ég held að hann hafi hugsjónir í stjórnmálum  og virði leikreglur lýðræðisins þó ég sé ekki alltaf sammála honum. Hann er auk þess lögfræðingur og ágætlega gefinn og veit vel hvaða vinnubrögð eru sæmandi í afgreiðslu mála. Þess vegna hef ég enga trú á því að hann hafi gert samherjum sínum í Framsóknarflokknum þann óleik að taka vitandi vits þátt í óeðlilegri fyrirgreiðslu til ættingja ráðherra Framsóknarflokksins. Það hefði verið hreint glapræði ekki síst svona skömmu fyrir kosningar. Allt þetta mál hefur verið gífurlega skemmandi fyrir Framsóknarflokkinn núna á lokaspretti kosningabaráttunnar og það hefði hver maður með skynsemi getað sagt sér það fyrir. Þar að auki er málið þannig vaxið að það voru ekki miklir hagsmunir í húfi fyrir stúlkuna sem hlaut ríkisborgararéttinn hvort hún fékk hann núna eða hefði þurft að bíða ef til vill einu ári lengur eftir að fá ríkisborgararétt. Aðstæður hennar eru þannig að það var bara tímaspursmál hvenær hún fengi ríkisborgararétt. Það er þessi nefnd sem í eru Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir sem verða öll að svara fyrir þessa mjög svo greiðu afgreiðslu og ef einhver ber meiri ábyrgð en aðrir þá er það Bjarni Benediktsson formaður þessarar nefndar. 

Fyrir utan hve þessar dylgjur um persónulega fyrirgreiðslu um ríkisborgararétt er skemmandi fyrir Framsóknarflokkinn á viðkvæmum tíma þegar allir ráðherrar flokksins hér á höfuðborgarsvæðinu eru mjög óöruggir með að ná endurkjöri  þá vil ég biðja fólk að hugleiða hve nærgöngul og ósanngjörn þessi umræða er fyrir það fólk sem er í skotlínunni. Þá á ég við Jónínu (og fjölskyldu hennar) og Guðjón Ólaf sem núna heyja óhemjuerfiða kosningabaráttu sem tekur allan þeirra tíma þó ekki bætist svo ofan á að vera rúinn ærunni dag eftir dag í hinum ýmsu fjölmiðlum. 


Ellý á toppnum

Ofurbloggarar fylgjast undrandi með æsireið  Ellýar Ármannsdóttur á moggablogginu en mektardagar bloggara og vigt er ekki mælt í kílóum eða valdasprotum heldur hversu hratt teljarinn snýst. Ellý trjónir á toppnum með 74561 heimsóknir þessa viku og næsti maður að vinsældum hann Sigmar er bara með 32699 heimsóknir. það er von að  bloggarar sem vilja ná upp teljaranum sínum velti fyrir sér leyndardómnum að velgengni Ellýar. Það gerir Tómas í blogginu Ellý upp úr þakinu og svo reyndi Björn Ingi af veikum mætti að herma eftir Ellý í gær með nokkrum tvíræðum bröndurum í blogginu  Fótboltinn og samskipti kynjanna en  stílbrögðin hjá Birni Ingi voru ekkert að slá í gegn og fékk hann samstundis þessa ádrepu á Trúnó blogginu:  ,Léttur húmor" í boði Björns Inga

Þá varð málið femíniskt og Ómar bloggar um Húmorslausa femínista sármóðgaður yfir að ekki þyki öllum brandarar Björns Inga fyndnir og spyr: " Af hverju þarf líf últra-femínista að vera svona gerilsneytt af húmor?"

Ég ætla nú ekki að svara Ómari og segi ekki annað en það að mikið er ég fegin að Árni Mathiesen fjármálaráðherra er ekki moggabloggari. Það er viðbúið að hann væri núna að þræða sömu braut og Björn Ingi og prófa hvort hann gæti ekki náð upp teljaranum og þeyst um bloggheima eins og Ellý með tvíræðnum og klámfengnum bröndurum. Ég er nokkuð viss um að ég mun ekki hlæja að bröndurum sem  Árni Mathiesen segir og mér er slétt sama þó einhver segi mig gerilsneydda af húmor fyrir vikið. Fólk getur kynnt sér brandarasmekk Árna fjármálaráðherra hérna.

En af hverju er blogg Ellýar Ármannsdóttur svona vinsælt? 

 

Ég held að það sé sambland af innihaldinu og hver skrifar. Ég held að til langframa sé ekki hægt að halda neinum dampi með ekkert innihald. Þessar litlu sögur eða atvikslýsingar á blogginu hennar eru ansi vel skrifaðar, ég renndi yfir nokkrar alveg harðákveðin í að hneykslast á meintu klámi þarna en ég fann ekkert. Bara skoplegar aðstæður og samskipti kynja.  En ég held ekki að þessar sögur myndu vekja svona mikla eftirtekt ef einhver annar skrifaði þær t.d. ef karlmaður sem hyggði á frama í stjórmálum  myndi  skrifa svona sögur þá værir hann samstundis dæmdur klúr. Björn Ingi prófaði sig aðeins með frekar hallærislega en voða meinlausa fótboltabrandara og uppskar ádrepu og hneykslan.

Ég hugsa að ef Gunnar í Krossinum myndi blogga svona eins og Ellý þá myndi teljarinn hjá honum líka hafa rokið upp. Það hefði sýnt eitthvað svo skrýtna og öðru vísi mynd af honum og sýnt að hann er margbrotinn persónuleiki ekki strengjabrúða og bókstafstrúarmaður. Það er eitthvað  súrrelistískt við  að kona sem brosir eins og prúðbúin og dúkka við okkur á sjónvarpsskjánum og er komin á steypirinn skrifi svona glettnar og listrænar sögur.

Ég enda svo þetta teljarablogg með lista yfir topp 50 bloggara dagsins í dag. Það er bara að muna að það nægir alveg að hafa sínar fimmtán mínútur af frægð, það koma aðrir á toppinn á öðrum vikum og það er allt í lagi og bara mannbætandi að vera ekki að eltast við að fá sem flesta til að lesa bloggið sitt. Mikilvægasti lesandi allra blogga er sá sem skrifar bloggið, blogg er samræða einstaklingsins við sitt eigið sjálf, ígrundun um lífið og skráning á lífshlaupinu.

 

SætiHöfundurSlóðHeimsóknir

Tíminn þegar Sjálfstæðismenn parkeruðu

Ingibjörg Sólrún stóð sig vel í Kastljósinu í gærkvöldi, sérstaklega þegar hún var spurð um biðlistana eftir hjúkrununar- og dvalarrýmum fyrir aldraða og hún sagði eitthvað á þessa leið "Við erum vön að eyða biðlistum eftir Sjálfstæðismenn". Maður á náttúrulega ekki að hæla stjórnmálaleiðtogum úr öðrum flokkum svona rétt fyrir kosningar en þetta er bara svo mikill sannleikur og það verður að hrósa öllum þeim sem stóðu að Reykjavíkurlistanum og þá ekki síst forustumanni hans Ingibjörgu Sólrúnu fyrir hvernig gengið var til verks og drifið í að breyta morknu og steinrunnu borgarkerfi þar sem Sjálfstæðismenn höfðu dagað uppi eins og nátttröll og engan veginn áttað sig á samfélagsbreytingum. Þeir héldu bara áfram að malbika og þetta ár - árið sem þeir misstu völdin í Reykjavík til Reykjavíkurlistans voru þeir ekki einu sinni á hreyfingu heldur alveg kyrrstæðir sem lýsir sér best í því að það ár voru þeir aðallega í því að malbika bílastæði. Ég rifja hér upp þessa sögu í bloggi rétt yfir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra:


Tíminn þegar Sjálfstæðismenn parkeruðu

Meira segja Sjálfstæðismenn leggja núna áherslu á leikskólamálin, boða lækkun á gjaldskrá og ýmis framfaramál í leikskólum. Verður þar að segjast að batnandi flokki er best að lifa og er ekki annað en gott um það að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loksins áttað sig á því að þetta eru brýn mál - þetta rifjar hins vegar upp fyrir mér ömurlegan tíma þegar yngri dóttir mín var á leikskólaaldri og Sjálfstæðisflokkurinn réði öllu í borginni fyrir tíma Reykjavíkurlistans. Þá var hrikalega búið að barnafólki og útilokað að fá nema hálfsdags leikskólapláss og það fyrst eftir margra ára biðlista - á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík eins og steingert tröll sem hafði dagað uppi, algjörlega blint á brýn samfélagsmál. Mig minnir að ein helstu kosningamálin hjá Sjálfstæðisflokknum árið sem hann tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum hafi verið að byggja og byggja glás af bílastæðahúsum. Þetta var táknrænt fyrir ástandið þá - í staðinn fyrir að greina vandamálin og fylgjast með kalli tímans þá parkeruðu Sjálfstæðismenn. Vonandi hefur langt tímabil í stjórnarandstöðu kennt þeim að hlusta á raddir borgarbúa og koma sér inn í 21. öldina.

Framfaraskeið í Reykjavík - Reykjavíkurlistinn

Það tímabil sem Reykjavíkurlistinn hefur verið við völd í Reykjavík hefur verið mikið framfaraskeið. Reykjavík hefur breyst í blómlega höfuðborg þar sem er gott að búa. Það var Reykjavíkurlistasamstarfið sem varð til að sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyrði þ.e. Kvennalistinn leið undir lok - eða öllu fremur rann inn í Samfylkinguna. En það er ekki hægt annað en fagna því hverju Kvennalistinn kom í verk inn í Reykjavíkurlistanum og ég stolt yfir þeim tveimur borgarstjórum í Reykjavík sem komu frá Kvennalistanum, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Steinunni Valdísi og sem og af öllu því starfi sem Kvennalistakonur unnu í borgarstjórn. Það er engin eftirsjá í Kvennalistanum, það var flott að enda með því að komast til valda og að fá tækifæri til að móta stefnu og framfylgja henni í stærsta sveitarfélaginu og einu stærsta atvinnufyrirtæki á landinu.

Engan hefði grunað að allir flokkar væru nú árið 2006 með stefnu í fjölskyldumálum sem hefðu þótt týpiskar Kvennalistaáherslur á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum

Reisupassi og griðabréf

það er ekkert að skýrast hvers vegna þessi alsherjarnefnd afgreiddi ríkisborgararétt til erlendrar stúlku þrátt fyrir skamma dvöl í landinu og að mér virðist veigalitlar ástæður í umsókn, ég veit að það eru mikilvægar ástæður fyrir alla að geta ferðast án vesens milli Íslands og annarra landa og unnið hérna að vild á meðan maður er í námi en frá sjónarhóli íslenska ríkisins þá hljóta þetta að teljast veigalitlar ástæður, ég held að það sé ekki sniðugt að ríkisborgararéttur sé svona eins konar reisupassi fyrir erlenda námsmenn.

Alsherjarnefnd - undirnefndÞað er mjög undarlegt hvernig þessi nefnd starfaði, þau  Bjarni Benediktsson (formaður nefndarinnar og sá sem ber mesta ábyrgð), Guðjón Ólafur Jónsson og GuðrúnÖgmundsdóttir verða að svara betur fyrir það ef þau ætla að hafa einhvern trúverðugleika í stjórnmálum.

 

Það kom nú ekkert nýtt fram í skýrslu frá alsherjarnefndinni, mest skjalfest það sem áður hefur komið fram. Hér er brot úr bréfinu: 

Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði laga til þess að fá íslenskt ríkisfang getur hann óskað þess að málið verði sent Alþingi til frekari skoðunar.

Umsóknir um ríkisfang fara til allsherjarnefndar til úrvinnslu. Löng hefð er fyrir því að nefndin feli þremur nefndarmönnum að fara yfir hverja og eina umsókn og fylgiskjöl. Er það gert á fundi sem boðaður er með fulltrúa dómsmálaráðuneytis og Útlendingastofnunar. Þessir aðilar hafa áður farið yfir gögn málsins og veita nefndarmönnum frekari upplýsingar og skýringar eftir því sem þörf krefur.

Að lokinni yfirferð umsókna leggja fulltrúar nefndarinnar tillögur sínar fyrir allsherjarnefnd. Við afgreiðslu málsins geta nefndarmenn fengið skýringar, aðgang að gögnum eða upplýsingar um eðli og ástæður.

 

 Vísir er líka búinn að setja hér inn frétt um samantekt alsherjarnefndar.

Ég skil ekki þessa seinustu setningu um að nefndarmenn geti fengið skýringar, aðgang að gögnum eða upplýsingar um eðli og ástæður. Hlýtur það ekki að þýða að nefndarmennirnir geta fengið gögn sem eru hjá Útlendingastofnun? Það er nú eiginlega furðulegt ef umrædd stúlka hefur fengið ríkisborgararétt fyrir svo veigalitlar ástæður í umsókn (ef það er rétt sem kom fram í Kastljósi) nema nefndarmenn hafi kynnst sér betur aðstæður hennar. Það er mikið fjallað um hentihjónabönd og mikil tortryggni gagnvart ungum útlendingum sem giftast Íslendingum m.a. hafa verið sett sérstök lög um aldur. Það hefur eftir því sem ég best veit ekkert komið fram um að stúlkan sé gift Íslendingi. Það er því ótrúlegt að nefndarmenn hafi ekki kynnt sér aðstæður hennar vel og þar með fjölskyldu. Íslenskt þjóðfélag er nú svo lítið og fyrsta spurningin er jafnan um ættir fólks og uppruna þannig að það er bara alls ekki trúlegt að þessi nefnd hafi ekki vitað um tengsl stúlkunnar við Jónínu Bjartmarz. En nefndin vinnur afar loðið, verklagsreglurnar eru þessar: "Afgreiðsla mála byggir síðan á heildarmati á hverri og einni umsókn". Ég hef tekið eftir því að sumum finnst þetta í lagi, finnst að um leið og stjórnmálamenn eru kosnir á þing þá eigi þeir að hafa umboð kjósenda og frítt spil um hvað þeir gera. Ég held að það virki bara alls ekki vel. Ég held að við eigum að hafa stíft eftirlit með stjórnmálamönnum og hvernig þeir fara með vald sitt. Þeir virðast ekki hafa farið vel með vald sitt í þessari nefnd - alla vega ef ég gef mér það að það sé ekki hægt fyrir alla útlendinga sem hér dvelja og eru í sambandi við Íslendinga að fá sams konar fyrirgreiðslu.

En mikil vildi ég óska að allir stjórnmálaflokkar byggist samtökum um að gera Ísland að sams konar griðastað og danskir stjórnmálamenn eru að gera í sínu landi, sjá þessa frétt á Vísi:

Danir bjóða ofsóttum rithöfundum hæli


Danir hafa ákveðið að veita ofsóttum rithöfundum hæli og vernd gegn andskotum sínum. Þetta á við um blaðamenn, rithöfunda og teiknara sem hafa ástæðu til þess að óttast um hag sinn. Annaðhvort vegna ofsókna ríkisstjórna eða trúarsamtaka.

Danska ríkisstjórnin gengur þarna til liðs við samtökin ICORN, sem stendur fyrir "International City of Refuge Network."

Það var rithöfundurinn Salman Rushdie sem stofnaði ICORN eftir að hann var dæmdur til dauða af múslimadómstól fyrir bók sína Söngvar Satans. Hælislandið veitir flóttamönnunum dvalarleyfi, húsaskjól og eftir atvikum fjárhagsaðstoð.

Stuðningur er við þessa ákvörðun meðal allra stjórnmálaflokka í Danmörku.

 Það má orða þetta þannig að skynsamlegra og réttlátara sé að  íslenskur ríkisborgararéttur sé veittur sem griðabréf fyrir þá sem eru ofsóttir vegna skrifa sinna fremur en alsherjarnefnd úthluti reisupössum til þeirra  sem þurfa að ferðast snurðulaust milli Íslands og umheimsins.

Annars í sambandi við þetta mál þá ættu þeir menn sem líta á þetta sem mesta hneykslismál í íslenskum stjórnmálum að hugleiða hve mikil forréttindi það eru að búa í landi þar sem æstustu spillingartilvikin eru af þessu tagi - að hliðrað sé til fyrir ungum útlendingi sem vill verða íslendingur og tengist íslenskri fjölskyldu og vill mennta sig meira og myndi hvort sem er hafa fengið hérna ríkisborgararétt í fyllingu tímans. Ég held að þessi unga stúlka sé ágætis Íslendingur og auðgi íslenskt samfélag. Ég vil búa í samfélagi fjölbreytileika og umburðarlyndis. 


mbl.is Umsóknir um ríkisborgararétt afgreiddar ágreiningslaust innan allsherjarnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hauslausa drottingin

Hauslausa drottninginÞað er illa farið með ljósmyndina af Alexandrínu drottningu Íslands og Danmerkur og manni hennar Kristján X sem tekin var á  á Þingvöllum árin 1926 að höggva svona hausinn af drottningunni með stóreflis exi. 

Þessi mynd er frá ljósmyndasafni Íslands og hana má sjá á vefsíðum þess. Ég birti þessa mynd hérna til að sýna hvað mér finnst afleitt í hvernig menningarstofnanir á Íslandi miðla stafrænu menningarefni.

Í fyrsta lagi þá setja menningarstofnanir afar lítið af efni sínu á stafrænt form og lúra á því eins og ormar á gulli. Ég hef heyrt ágætis fólk í söfnum segja frá því að það vilji ekki setja efni sem það hefur tekið saman á vefinn vegna þess að þýði að fólk komi ekki í safnið. Þess vegna hafa sum söfn tekið upp á að hafa einhvers konar margmiðlunarsýningar á safnsvæðinu sjálfu og sýna þar margmiðlunarefni sem ekki er hægt að skoða nema á sérstökum tölvum í safninu. 

Í öðru lagi þá setja þær menningarstofnanir sem þó eru svo framsýnar að þær birta efni á vefnum það út á hátt sem er mjög takmarkandi. það ber að þakka fyrir að hafa fengið að berja þessa mynd af Alexandrínu drottningu augum en út af hverju í ósköpunum þarf að skemma þessar myndir sem og allar myndir sem ljósmyndasafn Íslands setur á vefinn með svona exi? Hvaða notagildi eru af þessari mynd? Ég veit auðvitað að þessi blóðöx er einhvers konar merki til að tryggja að fólk afriti ekki myndirnar af vefsíðum ljósmyndasafnsins og birti þær annars staðar eða noti þær í öðrum verkum. En ég veit líka að þessi mynd er svo gömul að það er ekki lengur höfundarréttur að henni og ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum Ljósmyndasafn Íslands er að gera öllum sem hugsanlega vildu nota þessa mynd (t.d. nemendum í skólum) erfitt fyrir, af hverju í ósköpunum er myndin ekki sett á vefinn undir einhverju sem efni sem er til afnota fyrir alla.

Ég kenni nemendum mínum að búa til námsefni sem wikibækur, hér er námsefni sem þau eru með í vinnslu. Einn liður í því er að kenna þeim og þjálfa þau í að nota wikimedia commons og creative commons og nota myndefni annarra á löglegan hátt í sínum verkum og vita hvaða efni má afrita og endurnota og breyta. Sá hugsunarháttur sem einkennir þessar merktu og ónothæfu myndir frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er alveg andstæðan við það sem einkennir þessi commons  samfélög/samvinnufélög þar sem allir geta tekið út eftir þörfum og notað að vild. Það eru nokkrar myndir af Kristjáni X konungi á Wikipedia Commons en enginn af drottningunni. Hér eru listi yfir danska kónga. 

með tengingum í vefsíður um þá á dönsku wikipedia. Það væri gaman að þýða þetta á íslensku wikipedia, vonandi gerir einhver það fyrir þá kónga sem teljast líka konungar Íslands. 

í nútíma netsamfélagi þá erum við þátttakendur, okkur nægir ekki að nota efni eins og myndir bara til að horfa á þær og sjá þær í einu samhengi (sem mynd sem hangir uppi á vefsíðu ljósmyndasafns Íslands) heldur viljum við nota svona myndir og annað vefefni í okkar eigin verkum og endurblöndun (remix) þannig að við búum til verk sem sett eru saman að hluta úr einingum frá öðrum og að hluta úr einingum frá okkur, verk sem eru síkvik og tengd við önnur verk. Blogg er notar myndir frá öðrum og tengir í efni frá öðrum er einmitt dæmi um þannig miðlun. 

Ég skrifaði á sínum tíma grein um Sigurð málara  og grein um Þjóðminjasafn Íslands á íslensku wikipedia. Mikið vildi ég óska að íslenskar menningarstofnanir kynntu sér wikipedia og creative commons og miðluðu stafrænu efni á þann hátt. Það myndi gera okkur sem störfum í skólakerfinu miklu auðveldara að nýta allt það góða efni sem þar er geymt og núna bara aðgengilegt sérfræðingum eða þeim sem koma sérstaklega í söfnin.

 


Geta bara karlmenn talað um skatta?

Það var methallærislegt að sjá í Kastljósi gærdagsins hvernig það voru bara karlmenn sem fjölluðu um skattamál og hve kynskipt umræðan var annars vegar um heilbrigðismál þar sem voru fimm konur og einn karl og um skattamál þar sem voru sex karlar. 

kastljos-1mail-07-2 Það er líka magnað hve grunn og yfirborðsleg umræðan  er í svona þáttum, ég velti fyrir mér hver sé ástæðan - er það vegna þess að þessi miðill sjónvarpið og sá knappi tími sem hver viðmælandi hefur þar og hve lítið af bakgrunnsupplýsingum koma fram sem veldur því?

Ég sakna þess að ekkert ítarefni sé með svona umfjöllun þannig að fólk geti betur borið saman stefnu flokkanna. Þegar ég sá um vef Femínistafélagsins þá setti ég upp sérstakan kosningavef fyrir femínista fyrir síðustu kosningar, heimsótti kosningaskrifstofur og  setti inn upplýsingar um stefnu flokkanna í kvenfrelsismálum.  Mér hefði ekki fundist ofverkið hjá þáttum eins og Kastljósinu að taka saman hliðarupplýsingar og setja á vef með svona þáttum, annars vegar um heilbrigðismál og hins vegar um skattamál. Það er kannski gallinn að fréttastofurnar lifa í núinu og útsendingunni  og hafa ekki almennilega áttað sig á hina sítengda og margflækta og tengda samfélagi Netsins og telja kannski ekki það vera í sínum verkahring að 

kastljos-1mail-07-1

Eða er umræðan svona grunn  út af því að þeir sem skipuleggja þessa þætti gera það frekar illa og virðast ekki hafa unnið mikla heimavinnu?  Hér vil ég t.d. nefnda að í upphafi þáttarins var fjallað um stimpilgjöldin og gengið á röðina "hvað finnst þínum flokki um stimpilgjöldin?" og svo kom í ljós að allir vildu þau burt. Út af hverju var þá verið að eyða dýrmætum tíma þáttarins í þetta lítilfjörlega mál sem allir eru sammála og sem almenningur hefur sennilega afar lítinn áhuga á? Ég leyfi mér líka að efast um að allur þorri fólks viti hvað stimpilgjöld eru. Eiginlega fékk ég ekkert út úr þessari umræðu um hver skilin eru milli flokka nema helst að vinstri grænir hafa skýrari afstöðu en aðrir þ.e. vilja fjármagnstekjuskatt og hækkun á frítekjumarki í áföngum.

En hvers vegna voru bara karlmenn í þessari umræðu um skattamálin? Ekki getur það verið vegna þess að þetta var svona djúp speki og mikil sérfræði að það hefur enginn kona treyst sér í að fjalla á ábúðarmikinn hátt um þennan málaflokk. Hvað var talað um í þessum þætti?  Spyrillinn hjá Kastljósi  sagði í byrjun að hann vildi fara hringinn og spyrja fulltrúanna nokkrurra spurninga. þessar spurningar voru:


1. stimpligjöldin á að fella þau niður?

2. fjármagnstekjuskattur á að hækka hann eða fella hann niður eða hafa hann óbreyttan?

3. hver eiga skattleysismörk að vera í krónutölu?

4. hvernig  hyggist þið borga þennan reikning? (þ.e. hækkun á skattleysismörkum)

Þetta var allt og sumt sem rætt var í þættinum. Ég held það hefði ekki þurft neinn umræðuþátt um þetta, það hefði verið best að fá flokkana til að senda inn skriflega svör og bakgrunnsupplýsingar og setja á vefsíðu RÚV. það hefði verið eins upplýsandi.  


300 kýr í fjósi

Ég fór ekki í 1. maí gönguna í dag, ég hef samt oftast farið í þessa göngu, það hefur verið einn af árlegum ritúölum í lífi mínu. Ég hef haft gaman af því að velja mér skilti að ganga undir og svo vera með eigin skilti og spá í hvernig þau skilti sem fólk heldur á loft endurspegla tíðarandann. En ég fór heldur ekki í göngunni 1. maí fyrir tíu árum. Ég heyrði í fréttum í kvöld að það hefði verið tímamótadagur því þá hefði Tony Blair tekið við stjórnartaumum í Bretlandi. Það er samt ekki það sem mér er minnistæðast um þennan dag fyrir tíu árum heldur það að 1. maí þann dag þá var ég allan daginn í biðröð fyrir utan skrifstofu Borgarskipulags í Reykjavík.

Það var þannig að þá var lóðum í Reykjavík  úthlutað eftir reglunni "fyrstir koma, fyrstir fá" og það var verið að úthluta fyrstu lóðunum í Staðahverfinu í Reykjavík, hverfinu sem dregur nafn sitt af Korpúlfstöðum og er byggt út úr túnum þess býlis.

Þeir sem  eins og ég ætluðu sér að fá lóð á góðum stað tóku enga sjensa heldur biðu yfir einn sólarhring í biðröð þangað til skrifstofan opnaði 2. maí og það mátti skila inn lóðaumsókninni. Ég hafði mörgum árum áður heillast af fjörunni og strandlengjunni fyrir neðan Korpúlfsstaði og ennþá finnst mér þetta einn fallegasti staðurinn í Reykjavík. Ég var númer 2 í biðröðinni og fékk lóð. Það var engin brjáluð eftirspurn eftir lóðum í úthverfum Reykjavíkur þá, reyndar voru aðstæður þannig að það þótti snarbilað fólk sem sóttist eftir lóðum og vildi byggja sjálft því þá var verðlagið á húsum þannig að tilbúin hús í grónum hverfum voru svona helmingi ódýrari en áætlaður byggingarkostnaður. 

Það var því við hæfi að fara í dag í pílagrímsferð á jörðina Korpúlfsstaði og skoða vinnustofur listamanna sem voru opnar almenningi í dag.  Þar var í dag opnuð Sjónlistarmiðstöð. Fyrir tæpum áttatíu árum voru þarna 300 kýr í fjósi. En hér eru nokkrar myndir sem ég tók í dag á Korpúlfsstöðum. Myndaalbúmið er hérna með 27 myndum: http://salvor.blog.is/album/Korpulfsstadir/

 
Vinnustofurnar eru sumar með upprunalega gólfinu. Þetta hefur verið eldhús starfsmanna í fjósinu á Korpúlfsstöðum.

 Landslag bernskunnar

Þuríður myndlistarkona í vinnustofu sinni á Korpúlfsstöðum. Þar sýndi hún olíumálverk af hestskinnum og af jurtum í úthaga. Þuríður er alin upp á sömu  slóðum og ég, hún er alin upp á Laugarnesbýlinu þar sem við börnin í hverfinu lékum okkur og faðir hennar var þar með hesta og kindur.

Myndlistamennirnir útskýrðu fyrir gestum hvernig þeir unnu verkin sín, hér er Elli að segja frá því hvernig hann tekur ljósmyndir inn um glugga hjá fólki og listakona að segja frá hvernig hún blandar litina.

 


Loddaraskapur og hálfsannleikur í fjölmiðlum

Seinni Kastljósþátturinn  um ríkisborgararéttarmálið var góður og upplýsandi og fagmannlegur. Það má hins vegar velta fyrir sér hvaðan Kastljós fékk umsókn stúlkunnar sem lesin var upp í þættinum, því  eftir því sem ég best veit er umsóknin einkagögn sem hún lagði fram til opinberrar nefndar  (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og mér skilst að það sé eina fólkið sem fékk að lesa gögnin frá umsækjendum. Ef Kastljós hefur komist yfir þessa umsókn öðru vísi en beinlínis frá stúlkunni sjálfri og með samþykki hennar þá er sennilega ólöglegt hjá þeim að birta þessi gögn þ.e. lesa upp umsókninni. Þetta er sennilega brot á upplýsingalögum. Þeir átta sig væntanlega á því en taka áhættuna eins og fjölmiðlar gera jafnan í skúbbinu, áhættu á  að enginn ákæri þá og/eða afleiðingar dóms/ákæru verði minni en ávinningur af að koma með góða frétt. 

Mér finnst það fróðlegt að fjölmiðlar hafa upplýst  að ástæður fyrir því að umræddri stúlku var veittur ríkisborgararéttur á svo skjótan hátt voru fremur lítilfjörlegar amk ef þetta er rétt sem fram kom í Kastljósi. Það breytir nokkuð viðhorfi mínu til þessa máls, svo ég segi bara hreinskilnislega þá er ég steinhissa og trúi þessu varla og finnst skrýtið að hægt sé að fá ríkisborgararétt á svona auðveldan hátt á Íslandi. Ég vil gjarnan að Ísland sé griðastaður fólks sem þarf að flýja heimkynni sín og ég hef skammast mín mikið hve Íslendingar hafa staðið sig illa í að taka á móti flóttamönnum þannig að ég hélt að það væri erfitt að fá ríkisborgararétt á Íslandi. Það er  einkennilegt og tortryggilegt  hvernig alsherjarnefnd afgreiddi þetta mál.  Mér finnst að þessi nefnd (Bjarni Ben. Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds) verði að svara betur fyrir það. 

Kastljósumfjöllun Helga Seljan verður hins vegar seint talið dæmi um góða fréttamennsku. Ef Kastljós bjó þegar yfir þeim upplýsingum sem komu fram í þættinum á mánudagskvöldi þ.e. hafði undir höndum umsókn stúlkunnar og þetta var einhver liður í að grilla stjórnmálamenn og fylla Kastljósið af djúsí fréttaefni kvöld eftir kvöld þá er þetta dæmi um afspyrnuslæma fréttamennsku. Framganga Helga Seljan í Rúv verður ennþá siðlausari og rustalegri ef maður gerir ráð fyrir að hann hafi þegar séð þessa umsókn og viti fyrir hverjar þessar sérstöku ástæður eru sem stúlkan sótti um. 

það sem Helgi Seljan gerði vitlaust er að hann hegðaði sér eins og pólitískur andstæðingur viðmælanda síns, andstæðingur sem vill koma höggi á veikan blett á andstæðingi og knésetja hann með öllum ráðum. Helgi Seljan er á launum hjá okkur öllum, hann starfar á opinberum fréttamiðli sem vissulega á að vera fimmta valdið og veita stjórnsýslunni aðhald og fletta ofan af misfellum og skrýtnum vinnubrögðum þar. 

Þessi afgreiðsla á undanþágu sem um ræðir er hins vegar afgreiðsla alsherjarnefndar (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og það er sú afgreiðsla sem er afar einkennileg. Jónína Bjartmarz ber ábyrgð á því sem hún ber ábyrgð á og það er sem þingmaður og sem umhverfisráðherra og sem nefndarmaður í  nefndum sem hún tekur þátt í en hún ber ekki ábyrgð á því þó fólk henni tengt hljóti einkennilega greiða fyrirgreiðslu hjá einhverri nefnd sem hún hefur ekki haft einhver afskipti að. 

Auðvitað hefur Jónína hjálpað stúlkunni að fóta sig í kerfinu og bent henni á leiðir. Skárra væri það nú.  En það er ekkert óeðlilegt við að fólk leiðbeini fjölskyldum sínum hvort sem það eru þingmenn eða ekki. Það var ekkert athugavert við það að fjölmiðlar spyrðu Jónínu út í þetta mál en það er ekki hægt að kalla orðræðu Helga Seljan spurningar. Það er frekar árásir. En Helgi Seljan var að ráðast á rangan aðila og á röngum forsendum. Það er mjög hættulegt ef fjölmiðlar verða þannig og segja einhvern hálfsannleika og gangast upp í loddaraskap. 

Flest fólk er illa að sér í gangvirki stjórnsýslunnar og það er auðvelt að afvegaleiða fólk með skrípafréttamennsku og búa til sökudólga og búa til sök. Það er hins vegar ekki hlutverk ríkisfjölmiðils að gera það.

Í vetur hefur verið sleginn nýr tónn í fréttamennsku á Íslandi. Það er viðbúið að þessi fréttamennska teygi sig inní stjórnmálaumræðu. Þetta hófst með Byrgismálinu og teygði sig yfir í önnur sambærileg mál og varð eins konar samkeppni milli sjónvarpsstöðva. Vissulega er þetta afhjúpandi fréttamennska og við verðum margs vísari um hvernig farið var með lítilmagnann í íslensku samfélagi. En þetta hafa líka verið tímar þar sem ógæfa annarra og eymd hefur verið gerð að áfergjulegu fréttaefni - svipað eins og í sakamálaþættum þar sem kvöl fórnarlamba morðingja og kvalalostara er sýnd í nærmynd og dvalið við pyntingarsenurnar.

Þetta hefur verið vetur hinna blörruðu bölla í fjölmiðlaumræðu á Íslandi. 


Skert ferðafrelsi

Kastljósið upplýsti að stúlkan frá Guatemala hefði fengið ríkisborgararétt vegna umsóknar sem sagði frá veseni hennar við að fara í nám erlendis. Þetta vekur afar áleitnar spurningar um hvernig alsherjarnefnd þ.e. þingmennirnir Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson  og Guðrún Ögmundsdóttir störfuðu þegar þau fóru yfir þessar umsóknir. Það hlýtur að vera krafa okkar að vinnureglur Alsherjarnefndar séu gegnsæjar og réttlátar. Ég vildi svo sannarlega búa í landi það sem svo auðvelt er fyrir útlendinga að setjast hér að og verða fullgildir ríkisborgarar en ég er nokkuð viss um að svona auðvelt er ekki að verða Íslendingur fyrir flesta útlendinga.

Ég vona svo sannarlega að enginn úr alsherjarnefnd hafi talið sig vera að gera Jónínu Bjartmarz pólitískan greiða með þessari afgreiðslu og trúi ekki svoleiðis flónsku upp á neinn sem þar situr. Það hefði nú heldur betur verið bjarnargreiði. En mér finnst upplagt að nota þetta tækifæri til að benda á að við Framsóknarmenn viljum heiðarleg og fagleg vinnubrögð í stjórnsýslunni. Ég hef sjálf reynt að starfa af alefli með það að leiðarljósi  í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður en reyndar ekki orðið eins vel ágengt og ég vildi. Það er önnur saga. 


Þau afgreiddu málið: Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds


Mikil umræða er um þetta mál á moggablogginu. Það er áhugavert um stöðuna í íslenskum stjórnmálum að þetta mál vekur miklu meiri athygli en t.d. hvernig Geir Harde og Ómar Ragnarsson standa sig í Kastljósi. Ég geri ráð fyrir að flestir hraðspóli yfir þá þegar þeir hlusta á Kastljósin um ríkisborgaramálið á Netinu. Aumingja Ómar, hann á það ekki skilið. Það er svo gott sem hann er að segja. Gallinn bara að við höfum heyrt það allt áður og erum svo sammála honum. Geir Haarde var hins vegar afspyrnuleiðinlegur í Kastljósinu. Það þarf ekkert að hlusta á hann. Alveg óhætt að hraðspóla. Hann segir hvort sem er alltaf það sama, það sé sjálfsagt að athuga málið. Geir er mjög athugull maður. 

Hér eru nokkrar tengingar um ríkisborgaramálið:

Afgreiðsla máls um veitingu ríkisborgararéttar 

Brotalamir 

 Bjarni Benediktsson segir ósatt

Hvar er skandallinn?

Pólitískar pælingar um stöðu Jónínu Bjartmarz

Skiptar skoðanir á viðtalinu við Jónínu Bjartmarz

Spilling Framsóknarráðherra og/eða vinavæðing?

 Jónína Bjartmars og ríkisborgararéttur tengdadótturinnar.

 Kastljósið að girða sig í brók

 Svekktur ...

 Fréttastofa Sjónvarpsins að missa allan trúverðugleika

 Mismunandi umfjöllun Stöðvar 2 og RÚV á "Jónínumálinu"

 Nornaveiðar Helga Seljan

 Bloggrúntur

 Öðrum fórst en ekki þér, Össur

 Bloggrúntur

 Skjóta fyrst og spyrja svo


Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína

Setti  inn  á Youtube 7. mín. af viðtalinu í Kastljósinu seinasta þegar Helgi Seljan ræddi við Jónínu Bjartmarz.  Reyndar bara talið en það má hlusta á Kastljósið inn á vef RÚV.  Ég er búin að hlusta nokkrum sinnum á þetta viðtal  til að reyna að greina það  og  spá í hvers konar orðræða eigi sér stað. Það sem ég heyri  er  yfirmáta hrokafullur og  ruddalegur og óupplýstur fjölmiðlamaður sem  ekki hefur unnið heimavinnuna sína að ræða við reyndan, kurteisan og orðvaran lögfræðing og alþingismann um málefni sem tengjast fjölskyldu hennar og biðja hana að opinbera í sjónvarpi  persónulegar upplýsingar um fjölskyldumeðlim, upplýsingar sem hún á ekki að hafa aðgang að nema bara vegna fjölskyldutengsla. 

Þetta er fádæma ruddalegt tilræði við stjórnmálakonu og ég held að sumt af þeim tilburðum sem Helgi Seljan leyfir sér í viðtalinu sé af því að hann talar við konu. Ég hugsa að hann hefði aldrei leyft sér að tala svona til t.d. Davíðs Oddssonar eða Geirs Haarde. Helgi talar margoft til Jónínu í skipandi og niðrandi tón. 

Ég vil taka fram að mér finnst ekkert að því að fjölmiðlar velti upp máli sem þessu og gagnrýni eða leiti svara við hvers vegna eða hvort afgreiðsla erinda sem tengjast fjölskyldu ráðamanna hljóti einhverja sérmeðferð í kerfinu. Það að gera það á þennan hátt er hins vegar skrípaleikur og RÚV til háborinnar skammar. Það er alveg ljóst að Jónína tók ekki þátt í að velja á lista þá sem fengu undanþágu, það gerði sérstök undirnefnd alsherjarnefndar (Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ö.) og það er sú nefnd ein sem fékk að sjá gögnin sem umsækjendur lögðu fram.  Eina sem eðlilegt er að spyrja Jónínu um í þessu máli er 1) hvers vegna hún tók þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi og hvort og hvers vegna henni hafi þótt það viðeigandi og 2) hvort hún hafi reynt að hafa áhrif á nefndarmenn sem völdu á listann.

Helgi Seljan tönglast margoft á því að í viðtalinu að Jónína verði að svara hvaða sérstöku ástæður það eru sem valda því að þessi stúlka fékk ríkisborgararétt. Það er ekki Jónínu að lýsa því og ég hugsa reyndar að það sé brot á lögum um persónuvernd að upplýsa opinberlega um viðkvæm einkamálefni og það muni alsherjarnefnd (Bjarni, Guðjón Ólafur og Guðrún Ö.) ekki gera, ég hugsa að margar þær aðstæður sem fólk sem sækir um undanþágur séu einmitt viðkvæm persónuleg atriði.  Reyndar vissi ég ekki að það væri einhver hraðbraut fyrir afreksfólk í íþróttum að fá ríkisborgararétt, það þarf svo sannarlega að skoða þessi mál og verklagsreglur, það er óumdeilanlegt. Það er áhugavert að Helga Seljan virðist ekki setja neitt spurningamerki við þessa afreksíþróttadýrkun heldur öskar á Jónínu spurningum eins og "Er hún afrekskona í íþróttum?" alveg eins og það hefði verið eitthvað úrslitaatriði.

En það verður að vera krafa okkar til fjölmiðlamanna að þeir spyrji þá sem taka ákvarðanirnar og sem fjölluðu um málið en yfirheyri ekki  ráðamenn út af persónulegum málefnum fjölskyldna þeirra nema að því leyti að það sé grunur um að eitthvað óheiðarlegt eigi sér stað. Það að þessi umræða kemur núna rétt fyrir kosningar er þar að auki afar gróft tilræði við þingmann og það er ekki nema eðlileg og sjálfsögð krafa okkar hlustenda að RÚV upplýsi þetta mál á hlutlausan og vandaðan hátt og leyfi Jónínu og öðrum sem tengjast málinu að koma sjónarmiðum sínum á framfæri án þess að vera púaðar niður af fjölmiðlamanni eins og Helga Seljan.

 En ég hripaði niður hjá mér svolítið úr orðræðu Helga Seljan. Það verður samt að hlusta á Kastljósið til að átta sig á hversu gífurlega lítilsvirðandi og ruddaleg orðræða hans er:

leyfðu mér nú að spyrja Jónína
þetta er ekki rétt sem þú ert að segja

svaraðu spurningunn
svaraðu spurningunni
hvaða sérstöku ástæður
veistu ekki á hvaða ástæðum hún sótti um
er það rétt, er þetta eins og mál Bobby Fishers?
hlustaðu nú Jónína
er ekki þa
Mergurinn málsins er að þið eruð

Af hverju getur þú ekki útskýrt fyrir mér hvaða sérstöku ástæður ..

svaraðu spurningum
það er ég sem er að spyrja Jónína
svaraðu spurningum
finnst þér óeðlilegt að þú sért spurð um það

finnst þér óeðlilegt að þú sért spurð að þessu
finnst þér óeðlilegt að þú sérð spurð að þessu
leiðbeindir þú stúlkunni?
hverjar eru þessar aðstæður Jónína?
þú vilt ekki svara
þú segist hafa leiðbeint henni með að fara með þetta inn í nefndina
hverjar voru þessar aðstæður
þú hefur ekki sagt mér hvernar þessar aðstæður eru
þú verður að svara


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband