21.6.2007 | 15:32
Myndbandasafnari Salvarar
Ég er alveg dottin í að prófa ýmsar netgræjur. Áðan var ég að prófa netgræjuna Vodpod .com en það er svona safnari sem safnar saman vídeóum. Ég setti upp þennan safnara http://salvorice.vodpod.com Ég hugsa að þetta verði verulega gagnlegt þegar allir verða komnir með eitthvað video ipod kerfi. En það er hægt að birta þau vídeó sem maður hefur safnað saman á einum stað á bloggi. Ég set hérna inn spilara fyrir safnið mitt. Það seinasta sem ég mæli með er heimildarmynd í þremur hlutum "Hitler search fo the Holy Grail".
Þetta er sniðugt kerfi vegna þess að það leitar á mörgum vídeókerfum t.d. youtube, googlevideos og fleira og það er hægt að ráða útlitinu og setja sínar eigin merkingar. Ég held þetta geti verið gagnlegt fyrir kennara sem vill benda nemendum sínum á ákveðin myndbönd.

Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 18:32
Krukkspá fyrir Internetið
Ég fann þetta skemmtilega myndband á Youtube sem lýsir framtíðinni í netheimum til ársins 2051
Man is God. He is everywhere, he is anybody, he knows everything. This is the Prometeus new world. All started with the Media Revolution, with Internet, at the end of the last century. Everything related to the old media vanished: Gutenberg, the copyright, the radio, the television, the publicity. The old world reacts: more restrictions for the copyright, new laws against non authorized copies...... Virtual life is the biggest market on the planet. Prometeus finances all the space missions to find new worlds for its customers: the terrestrial avatar. Experience is the new reality.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2007 | 14:50
Karaoki
Núna er ég að prófa http://bix.yahoo.com en það er ennþá eitt félagsnetið þar sem inntakið kemur frá notendur. Þetta kerfi gengur út á samkeppnir, sérstaklega samkeppnir um karaoki og lip-sync. Það er nú reyndar skemmtilegt og einfalt að taka þátt í karaoki keppni þarna, maður velur sér bara lag og getur hlustað á það fyrst og svo tekið sjálfan sig upp að syngja undir og sent upptökuna í keppnina. Þetta er nú eitt einfaldasta karaoki kerfið á netinu.
Það er hægt að búa til alls konar samkeppnir í bix. Það er hægt að hlaða inn eigin vídeóum, taka beint upp af vefmyndavél og setja inn vídeo sem þegar eru á youtube eða photobucket. Keppnin er nú ekki aðalatriðið heldur umræðan og samfélagið. Mér sýnist að margir tónlistarmenn séu á myspace til að koma sér á framfæri, ég held að svona kerfi eins og Bix séu ennþá betur sniðið að þörfum listamanna.
Það er gaman að skoða hversu mikill leikmannabragur er á mörgu því efni sem er á Bix, upptakan er léleg og ódýrasta gerð af hljóðnema og vefmyndavél og svo er upptökustúdíóið oftast stofan eða eitthvað rými á heimili og oft má sjá heimilislífið í bakgrunni eins og á þessu vídeó þar sem heimavinnandi húsmóðir er að taka sjálfa sig upp og börnin hlaupa um í bakgrunni myndarinnar.
Þó að þessar upptökur séu viðvaningslegar og það líti út fyrir að það sé lítil sköpun þarna eigi sér stað þegar fólk velur bara lag annarra flytjenda og hermir eftir þá held ég að það samfélag sem er á bix vísi einmitt í þá átt sem listir eða stafrænt föndur stefnir í - að notendur skapi eitthvað sjálfir og leggi sín verk í dóm og umsögn annarra og að notendur geti notað við sína listsköpun einhverjar einingar (t.d. textann og lagið) frá öðrum. Ég hugsa að fólk muni innan skamms fara að gera meira við svona félagsnet eins og Bix t.d. að syngja aðra texta og mixa saman mismunandi tónlist.
Þetta er ein tegund af alþýðulist hins stafræna almúga árið 2007.
Hver sem er getur búið til sína samkeppni. Ég prófaði að búa til mína eigin samkeppni um vídeó frá sumri á Íslandi.
Vefurinn | Breytt 27.10.2007 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2007 | 07:56
Reisupassi handa S. H. Guðmunsen
Jón Sigurðsson, Jónas Hallgrímsson og herra S.H. Guðmundsen voru uppi á sama tíma á Íslandi og unnu að ýmsum þjóðþrifamálum. S.H. Guðmundsen ferðaðist um landið á vegabréfi sem lýsir hinum ýmsu mannkostum hans. Sölvi var jafnhógvær maður og frelsishetjan Jón og þjóðskáldið Jónas. Gallinn er bara sá að vegabréfið var falsað og Sölvi skrifaði það sjálfur og falsaði undirskrift sýslumanns. En það gerir það nú bara skemmtilegra, svona er reisupassinn:
Sýslumaðurinn yfir Norðurmúlasýslu gjörir vitanlegt: að herra silfur- og gullsmíður, málari og hárskerarari m.m. Sölvi Helgason Guðmundsen, óskar í dag af mér reisupassa frá Norðurmúlasýslu yfir austur- og suður- og norðurfjórðunga Íslands, til ýmislegra þarflegra erinda. Meðfram öðrum hans erindum, ætlar hann að setja sig niður í einhverri sýslu á þessari ferð sem annar handverksmaður, hver að er þó flestum handverksmönnum meiri, og betur að sér til sálar og líkama: og er hann fyrir laungu búinn að gjöra að sig nafnfrægan í norður- og austurfjórðungum landsins með sínum framúrskarandi gáfum á flestum smíðum, og á alla málma, klæði og tré; líka fyrir uppáfinningar og ýmsar frólegar og hugvitsfullar kúnstir, en þó mest fyrir iðni, kapp, minni, ástundan, sálarflug, skapandi ímyndunarafl og kraft, bæði smekk, tilfinning og fegurð í öllum bókmenntum og vísindagreinum, líka svo fyrir karlmennsku, krapta og glímur, fjör og fimleika, gang og hörku, sund og bandahlaup. Með sundinu hefur hann bjargað, að öllu samanlögðu, 18 manns, er fallið hafa í ár, vötn (ströng og lygn) og sjó. Á handahlaupum hefir hann verið reyndur við færustu hesta, bæði nyrðra og eystra, og hefir hann (að frásögn annarra en hans sjálfs) borið lángt af.
Margar eru hans íþróttir, fleiri og meiri, þó ekki sé hér upptaldar, og mætti þó tilnefna nokkrar, sem hann skarar fram úr öðrum í, sem eru: allar listir hér að ofan töldu, einnig frábær ráðvendni og stilling, góðmennska og lítillæti, hógvörð og hreinskilni, greiði og gjafmildi og fl. Fyrir þessar dygðir og listir, sem hann er útbúinn með, og sem hann sýnir jafnt öllum, af öllum stéttum, þá er hann elskaður af hverjum manni, í hverri röð sem er, sem verðugt er.
Þessi passi gildir frá 1. ágústmánaðar 1843 til þess 30. júníusmánaðar 1844, handa herra gullsmið, málara og hárskerara S. H. Guðmundsen, sem reisupassi, en að öllu sem fullkominn sýslupassi, ef hann setur sig niður í einhverri sýslu, eins og hér er getið um að framan.
Þessi passi gildir fyrir herra Guðmundsen héðan frá Norðurmúlasýslu yfir allan þann part landsins, sem hér er að framan skrifaðaur (þótt enginn embættismaður teikni á hann) heim til Norðurmúlasýslu aptur, ef hann setur sig ekki niður í einhverri sýslu á ferðinni, eins og hans áform er, sem fyr er sagt hér að framan.
Þessi passi gjörist gildandi fyrir herra silfur- og gullsmið, málara og hárskerara Sölva Helgason Guðmundsen, til að fara svo hart og hægt um landið, sem honum þóknast, á þessu tímabili, sem hér er fyr frásagt í passanum, því hann er í þeim erindum, er hann verður að hafa hæga ferð, en það er við náttúrufræði, að skoða grös og steina, málma og svo frv. En að vetrinum ætlar hann að skoða, hvernig veður haga sér til í hverju héraði á þeim parti landsins, sem hann fer um (eða reisir um), og þarf hann að halda miklar skriptir á öllum þessum tíma, bæði dagbækur, veðrabækur og lýsingabælur af ýmsum pörtum landsins, líka teikningar af ýmsum hlutum, s.s. fossum, hverum, fjöllum, jöklum, elfum, ám, brunahraunum, gjám, stöðum, fjörðum, eyjum, draungum, standbjörgum, eyðisöndum, öræfum, skógum, dölum, giljum, grafningum, byggðum, bæjum, fiskiverum, höndlunarstöðum, byggðalögum, búnaðarháttum og svo mörgu og mörgu fleira, sem ekki verður hér upptalið, sem hann ætlar að skoða og sjá og um að skrifa og sumt upp að teikna, allt á sinn kostnað m.fl.
Það er mín ósk og þénustusamleg tilmæli til allra, sem margnefndan herra gullsmið m.m. S. H. Guðmundssen fyrir hitta, að þér látið hann passéra frítt, og liðsinnið, hjálip og lánið honum það sem hann meðþurfa kann til ferðarinnar, því það er óhann fyrir hvern mann, að hjálpa honum og lána, ef hann þess með þurfa kann, þótt hann fjarlægist þann, er kynni lána honum peninga og annað sem hann kynni meðþurfa, sjá hans vitnisburðu hér að framan.
Passinn þessi gildir, þó ekki sé um það getið hér að framan í passanum, yfir allan Vestfirðingafjórðung, ef herra Guðmundsen á þangað erilndi, eða vill þar eitthvað skoða, viðkomandi náttúrufræðinni, eða ef hann vill þar setja sig niður sem handverksmaður í einhverri sýslu þar.Samt gildir ekki þessi passi, hvorki þar né í hinum fjórðungum landsins um lengra tímabil, en ´her er getið um að framan, nefnilega frá 1. ágústusmánaðar 1843 til þess 30. júníusmánaðar 1844 sem reisupassi, en að öllu sem sýslupassi, hvar sem hann setur sig niður í hverjum fjórðungi landsins, og þarf hann ekki sýslupassa héðan frá Norðurmúlasýslu, annan en þenna.
Norðurmúlasýslu skrifstofu 1sta águstusm. 1843.
F.Ch. Valsnöe
(l.s)(Heimild Ný félagsrit 1849 bls. 153)
15.6.2007 | 14:08
Femínistastripp
Geiri í Goldfinger er mikið í fjölmiðlum þessa daganna eftir greinina í Ísafold. Sú starfssemi sem hann rekur í Kópavogi er ömurleg svívirða og vona ég svo sannarlega að bæjaryfirvöld þar taki ekki þátt í að greiða götu svona reksturs. Ég rakst á skemmtilega og einfalda netþjónustu comeeko þar sem hægt er að búa til "comic strip" og hér er femínistastripp sem ég bjó til um Geira í Goldfinger. Ég notaði skjámyndir af fréttum og kastljósi rúv í gærkvöldi.
Við femínistar vorum fyrir nokkrum árum með aðgerðir fyrir utan Goldfinger í Kópavogi.
Reyndar er hægt að nota comeeko fyrir fleira en femínistastripp. Það er skemmtilegt að búa til sín eigin comic strip t.d. af litlum börnum og skrýtnum svipbrigðum þeirra. Hér er eitt skemmtilegt:
Ég hvet alla sem hafa gaman af stafrænu föndri með myndir og teikningar til að prófa, það verður samt að athuga að ef textinn á að vera á íslensku þá má ekki nota sumar leturgerðir t.d. ekki leturgerðina comics.
Hér er eitt dæmi sem ég gerði um möguleikana sem eru í þessu skemmtilega verkfæri. Þetta er mjög einfalt og á allra færi að gera svona comic strip.

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.6.2007 | 12:12
Sjálfsbókmenntir og einsaga Sigurðar Gylfa
Það er áhugavert fyrir bloggara að fylgjast með ritdeilum Sigurðar Gylfa Magnússonar. Núna hefur Sigurður Gylfi birt á Kistunni dómnefndarálit yfir sjálfum sér en hann lagði fram ritsmíðar til doktorsprófs við HÍ, sjá hérna Dómur yfir hverjum?
Áhugi minn á verkum og hugmyndum Sigurðar Gylfa er af sama meiði og áhugi minn á tjáningu og miðlun í bloggheimum. Blogg er oft einsaga og sjálfævisaga, sagan sögð út frá sjónarhóli einstaklingsins en verk Sigurðar Gylfa liggja einmitt á því sviði, hann hefur t.d. rannsakað dagbækur. Það er verst að Sigurður Gylfi hefur ekki sýnt blogginu neinn áhuga að því ég best veit. Ef til vill er það eðli sagnfræðinga að rótast eingöngu í því liðna og velta við hverjum steini ef fjallar er um Jónas Hallgrímsson eða eitthvað sem gerðist fyrir hundruðum ára en láta samtímann þjóta framhjá sér án þess að taka eftir hvað er að breytast þar. Nema náttúrulega taka eftir sinni eigin stöðu og staðsetja sjálfan sig, Sigurður Gylfi er þar svona eins og riddarinn hugumprúði í sínu sögustríði sem háð hefur verið undanfarið í lesbók Morgunblaðsins.
Mér finnst þetta dómnefndarálit og það að Sigurður Gylfi kjósi að birta það vera áhugavert - áhugavert að fylgjast með hve opinber viðkvæm gögn eins og umsagnir um skrif fræðimanna/nemenda eru og líka áhugavert út frá höfundarréttarsjónarmiðum/persónuvernd.
Má gera opinber svona dómnefndarálit/umsagnir um verk sem eru lögð fram til mats við háskóla? Hver er réttur þeirra sem eru umsagnaraðilar? Hver er réttur þeirra sem eru til umsagnar?
Svo er þetta ekki síður áhugavert til að opna umræðuna um hvernig fræðaframlag fólks er metið, sérstaklega fólks eins og Sigurðar Gylfa sem hefur tvímælalaust hrært upp í sagnfræðisamfélaginu og veitt inn nýjum straumum. Ég hef öðru hverju farið á hádegiserindi og sagnfræðifyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins ef mér hefur fundist efnið áhugavert. Sem leikmaður sé ég ekki betur en Sigurður Gylfi hafi verið einn aðaldrifkrafturinn í samfélagi sagnfræðinga á Íslandi undanfarin ár og verið bæði afar duglegur og notað áhugaverðar aðferðir og nálgun.
Reyndar get ég ekki séð betur en Sigurður Gylfi sé þegar með doktorspróf, það er spurningin hvers vegna hann telur sig þurfa fleiri doktorsgráður. Hugsanlega er þetta einhver liður í að fá umræðu og mat á verkum sínum og/eða liður í einhvers konar starfendarannsókn (action research) á starfsháttum íslenska fræðasamfélagsins.
Fólk notar ýmsar frumlegar leiðir til að koma ritverkum sínum á framfæri. Ungir vinir mínir gáfu út tímarit fyrir mörgum áratugum og þeir höfðu þá aðferð við sölu á tímaritinu að þeir settu upp söluborð með tímaritinu og einum skó og sátu þar nokkrir saman. Svo falbuðu þeir tímaritið og ef fólk vildi ekki kaupa þá köstuðu þeir í það skó. Þetta var kannski ekki svo sniðugt, fólk tók því illa að fá skó í sig.
Sigurður Gylfi notar þær leiðir sem honum finnst sniðugast til að vekja umræðu um verk sín. Hann leggur þau fram til doktorsmats og hann segir:
Ástæðan fyrir því að ég fór af stað með þá hugmynd að leggja nýju bækurnar tvær í mat hugvísindadeildar Háskóla Íslands var sú að ég sá ekki aðra leið færa til að koma þeim á dagskrá háskólasamfélagsins; afgerandi vettvang fyrir slíka umræðu skorti nær algerlega.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2007 | 18:36
Sniglapirringur
Mér finnst mjög mikilvægt að fólk viti sem mest um snigla. Þess vegna ákvað ég að útbreiða fagnaðarerindið um flokkun snigla sem ég fann á Vísindavefnum. Ég treysti fullkomlega Vísindavefnum, það er heimild sem er góð og gild til að byggja Wikipedia greinar á. Ég fann þar greinina Hvað getið þið sagt mér um snigla? og í þeirri grein sem er frá árinu 2003 þá eru sniglar blákalt flokkaðir í þrjá flokka sem sagt fortálkna, bertálkna og lungnasnigla. Ég skrifaði áðan greinastubb á íslensku wikipedia um litla kuðunginn gljásilfra af því mér fannst svo sniðugt að tildrur velta við steinum til að finna þennan kuðung og ákvað í framhaldinu að helga sniglum og kuðungum daginn enda eru þetta mjög merkilegar skepnur og fjölskrúðugar, það eru til 65 þúsund tegundir af sniglum.
Svo ég dældi inn greinum á íslensku Wikipedíu um bæði fortálkna og bertálkna og á eftir að setja inn grein um lungnasnigla. En nú er ég búin að fatta að greinin á Vísindavefnum sem ég byggði á sem heimild er með úreldri flokkun. Samkvæmt greinunum um þessar tegundir á ensku wikipedia er nefnilega úrelt að flokka snigla á þennan hátt. Hmmmm....
Mér finnst frekar pirrandi þegar ég kemst að því að ég hef verið á villigötum. Jafnframt er þetta gott dæmi um hve sú lýsing sem við höfum á heiminum sem við köllum vísindalega flokkun er skeikul og óstabíl. Mér skilst að nútíma mælingar og rannsóknir m.a. DNA rannsóknir hafi sýnt að þær tegundir sem hingað til hafa verið taldar til bertálkna hafi fleiri en einn uppruna ef ég er að skilja orðið Cladistics.
Ég skrifa margar greinar um lífverur og efni á wikipedia og þar verður að halda sig við stranga og mjög nákvæma flokkun, flokkun sem er svo samofin lífi okkar að við tökum hana sem sannleika t.d. flokkun eins og lotukerfið og hina vísindalegu flokkun. Mér finnst gaman að því að því nákvæmari og djúpt sokknari í þessa flokkun sem ég er og því meira sem ég sekk mér ofan í svona flokkunarkerfi heimsins - þetta kerfi sem við notum til að teikna upp heimsmynd nútímans - þeim mun minni trú hef ég á þessu kerfi. Það er ekki að það sé alslæmt, þetta er það skásta sem við getum ráðið við núna en þetta er ekki að birta okkur nema örlítið brot af heiminum og það brot er gegnum ýmsar síur. Jú, ég skrifaði á sínum tíma wikipedia grein um frummyndakenningu Platós.
13.6.2007 | 12:41
Fuglaskoðun í Viðey
Ég fór í fuglaskoðun í Viðey í gærkvöldi. Þetta var skemmtileg gönguferð um eyna undir leiðsögn fuglafræðings, ævintýralega fallegt útsýni og fuglakvak alls staðar. En þó ég mætti brynjuð kíki og myndavél þá fannst mér ég vera bæði blind og heyrnarlaus því fuglafræðingurinn benti á nokkra örlitla depla langt í burtu á tjörn eða út í sjó eða klettum eða á lofti og sagði að þetta væru tildrur eða blesgæsir eða óðinshanar eða jaðrakan eða sandlóur. Svo hlustaði hann og heyrði í þessari eða hinni fuglategundinni. Fyrir mér rann þetta allt saman. Ég þekkti nú samt nokkra fugla t.d. æðarfugl, kríu, sílamáf og hrossagauk. Það tekur sennilega langan tíma að verða fær í að þekkja fugla og ég þarf mun betri kíki. En ég lærði slatta um fugla t.d. að sílamáfar (kallaðir vorboðinn hrjúfi) eru um þúsundum saman á öskuhaugunum og þeir og krían eru í vandræðum út af því að það eru ekki nóg sandsíli.
Ég skrifaði svo áðan grein á íslensku wikipedia um tvo fugla, annars vegar um tildru og hins vegar kjóa. Svo setti ég mynd sem ég tók af Viðeyjarkirkju og Viðeyjarstofu inn á Commons og setti hana í public domain þannig að hver sem er getur notað hana til hvers sem honum þóknast. Svo byrjaði ég á wikibók um fargesti á Íslandi, mér finnst mjög spennandi svona fuglar eins og margæsir og tildrur sem koma hér við vor og haust í óralangri ferð sinni milli varpsvæða í norðri og vetrarstöðva í suðri. Ég er eiginlega alveg heilluð af svona bíomassahreyfingum jarðarinnar og ég tek eftir að margar af þeim greinum sem ég skrifa um náttúrufræði á wikipedia eru um dýr sem ferðast svona eins og loðna og áll. Reyndar er ég líka heilluð af dýrum sem taka miklum myndbreytingum á æviskeiðinu og eru jarðföst og rótföst hluta ævinnar en reka með straumum hluta ævinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 11:31
Gulag og Stasi staðsett í vestrinu
Ég vona að stjórnarfar í Bandaríkjunum sé ekki eins slæmt og orðsporið sem nú fer af stjórn Bush. Ég sé ekki betur en Gulagið og Stasi sé núna að staðsetja sig þar vestra þó það sé undir öðrum nöfnum. Fangabúðir og fangaflutningar Bandaríkjamanna í Guantanamo og víðar hafa ekki aukið hróður þeirra og dómsmálaráðherrann Alberto Gonzales er miklu, miklu verri en Björn Bjarnason okkar Íslendinga.
Hér er myndband þar sem þingmaður spyr Gonzales út í hvernig fangabúðir þar sem fólki er haldið í fangelsi án dóms og laga geti samræmst stjórnarskrá Bandaríkjanna, þetta fjallar um Habeas corpus
Eiginlega er Gonzales afar fráhrindandi svo ekki sé meira sagt. Hann rak slatta af ríkissaksóknurum að eigin sögn vegna þess að þeir voru ekki nógu duglegir en að sögn annarra þá voru sérstaklega reknir þeir saksóknarar sem voru að rannsaka mál sem tengdust repúblikönum eða sem voru ekki nógu duglegir við að ofsækja Demókrata sb.: "But critics say last year's dismissals were meant to halt investigations into Republican officials or punish the attorneys for failing to prosecute Democrats."
Mér virðist Gonzales ekki bara tengjast þessu skrýtna saksóknaramáli heldur virðist honum hafa verið mjög umhugað um að koma lögum um eftirlit með þegnunum í gegn og svífst einskis við það sb. þessa grein.
In February 2006, the Senate Judiciary Committee was inquiring into the warrantless wiretapping program whose existence had been revealed just two months before. Sketchy details had also begun to emerge of the March 2004 hospital room ambush, in which Mr. Gonzales, then the White House counsel, and then-White House chief of staff Andrew H. Card Jr. tried to browbeat the gravely ill Attorney General John D. Ashcroft, who had temporarily yielded his office to his deputy, into approving the warrantless surveillance program.
- The Gonzales Coverup
at The Washington Post (reg. req'd), May 17
Það molnar ansi hratt undan trausti heimsins á stjórnsýsluna í Bandaríkjunum. Ef stjórnsýslan þar vestra stefnir áfram í þessa átt þá getur þetta ekki farið á nema einn veg. Það er ekki falleg framtíðarsýn.
Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að Gonsales er ákaflega fylgjandi afar ströngum höfundarréttarlögum og að hægt verði að gera tölvubúnað upptækan og njósna um tölvuhegðan almennings. Hann vill líka skilgreina nýja tegund af tölvuglæpum þar sem liggur lífstíðarfangelsi við að nota ólöglegan hugbúnað.
Sjá hér:
Create a new crime of life imprisonment for using pirated software. Anyone using counterfeit products who "recklessly causes or attempts to cause death" can be imprisoned for life. During a conference call, Justice Department officials gave the example of a hospital using pirated software instead of paying for it.
Greinin úr heild:
Gonzales proposes new crime: "Attempted" copyright infringement
Og svo meira um hvers vegna mér finnst Gonsales ekkert spes..:
Terrorism used as new excuse for ISP snooping proposal
Vonandi kemur ekki sá tími á Íslandi að ég þurfi að lesa mér betur til um Habeas corpus
![]() |
Repúblikanar koma í veg fyrir að lýst verði vantrausti á Gonzales |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2007 | 08:51
Hvað hefði Jónas verið að bauka í dag?
Núna um helgina er hyllingarhátíð Jónasanna, háskólarnir hylla þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson með vandaðri dagskrá á Jónasarstefnu, ég var að skrá mig í Þingvallaferðina á morgun. Það er fínt að fara einu sinni á ári á Þingvöll og strengja sín heit og gaman að gera það undir góðri leiðsögn.
Fyrsta erindið á Jónasarhátíðinni í dag er erindið "Var Jónas vinstri-grænn?" Ég brosti við þegar ég sá þennan titil, hann endurspeglar þrá mannanna til að heimfæra allt upp á sinn samtíma. En ég fór að hugsa... hvað hefði lærdómsmaður eins og Jónas haft áhuga á í dag, hann sem var boðberi nýrra tíma og nýrrar hugsunar á svo mörgum sviðum, hann var ekki eingöngu skáld heldur var hann náttúruvísindamaður og leitandi sál. Mörg af verkum Jónasar eru byggð á hugmyndum annarra skálda og fræðimanna, sérstaklega danskra og þýskra.
Ég ætla að nota helgina til að lesa aftur ævisögu Jónasar eftir Pál Valsson og lesa vefinn um Jónas og ef ég hef tíma þá ætla ég að bæta í wikipediagreinina um Jónas eða jafnvel skrifa sérstaka wikibók um Jónas. Ég hugsa að Jónas hefði verið hrifinn af wikimedia verkefnum. Hann hefði örugglega gert það sama og ég reyni að gera, hann hefði sett inn greinar á íslensku sem lýsa íslenskri náttúru. Ég hef t.d. sett inn greinar á íslensku wikipedia um gabbró og surtarbrand og ofauðgun og eiturþörunga og fiska eins og ála og loðnu og lúðu.
Jónas hefði ekkert verið að setja það fyrir sig að framlag mitt og annarra er skoplítið þegar horft er til þess hve mikið verk er óunnið, hversu mörgum náttúrufyrirbærum og verum þarf að lýsa og tengja hvert við annað. Var það ekki hann sem kvað:
Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim.
Ég held að Jónas hefði alveg haft smekk fyrir verkfæri eins og wikipedia til Íslandslýsingar, svona höfundarlausum samvinnuskrifum en hann hefði kannski ekki verið neitt sérstaklega þekktur í dag og ekki verið hampað og upphafinn af samfélagi nútímans - samfélagi höfundanna og höfundarétthafanna. En andi Jónasar og þeirra sem höfðu áhrif á hann lýsir ennþá upp sál okkar. Mér finnst skemmtilegra að lesa ljóðið hans um alheimsvíðáttuna heldur en reikna út hvort ég hafi kolefnisjafnað nógu miklu í dag.
Alheimsvíðáttan
(Hugmyndin er eftir Schiller)
Eg er sá geisli,
er guðs hönd skapanda
fyrr úr ginnunga
gapi stökkti;
flýg eg á vinda
vængjum yfir
háar leiðir
himinljósa.Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
öldur sem alheims
á eiði brotna,
akkeri varpa
fyrir auðri strönd
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.Sá eg í ungum
æskublóma
stjörnur úr himin-
straumum rísa,
þúsund alda
að þreyta skeið
heiðfagran gegnum
himinbláma.Sá eg þær blika
á baki mér,
er eg til heima
hafnar þreytti;
ókyrrt auga
sást allt um kring;
stóð eg þá í geimi
stjörnulausum.Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
Ekkert sem ríkir
og Óskapnaður;
leið vil eg þreyta
ljóss vængjum á,
hraustum huga
til hafnar stýra.Gránar í geimi,
geysa ég um himin
þokuþungaðan
þjótandi fram;
dunar mér á baki
dökknaðra sóla
flugniður allra,
sem fossa deyjandi.Kemur þá óðfluga
um auðan veg
mér í móti
mynd farandi:
"bíddu flugmóður
ferðamaður!
heyrðu! hermdu mér,
hvurt á að leita?"""Vegur minn liggur
til veralda þinna;
flug vil eg þreyta
á fjarlæga strönd,
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins."""Hættu, Hættu!
um himingeima
ónýtisferð
þú áfram heldur;
vittu að fyrir
framan þig er
Ómælisundur
og endaleysa."""Hættu, Hættu!
þú sem hér kemur,
ónýtisferð
þú áfram heldur;
belja mér á baki
bláir straumar,
eilífðar ógrynni
og endaleysa.""Arnfleygur hugur!
hættu nú sveimi;
sárþreytta vængi
síga láttu niður;
skáldhraður skipstjóri,
sköpunarmagn!
fleini farmóður
flýttu hér úr stafni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)