Hver bloggar fyrir þig?

Það er fleira sem skilur á milli þess að vera ráðherra og vera ekki ráðherra en að fá bíl með bílstjóra. Ráðherrar og háttsettir menn í stjórnkerfinu og viðskiptalífinu losna nefnilega oft við að skrifa sínar ræður og greinar sjálfir, þeir hafa fólk í þessu fyrir sig. Alla vega til að semja ræðupunkta og afla bakgrunnsupplýsinga. Enda eins gott, þeir þurfa að vera á þönum að setja alls konar samkomur.

Ég man einu sinni eftir skemtilegu tilviki þar sem einn ráðherra átti að byrja að ávarpa samkomu. Ráðherrann var seinn fyrir og greinilega ætlaði svo að hespa þetta af þegar hann kom og talaði blaðalaust - tja... og að mér fannst svolítið út í loftið. Hann sagði nokkra brandara frá þorrablóti austur á landi og af sveitungum þar. Ræðan tengdist ekkert tilefni samkomunnar svo ég hafði nú á tilfinningunni að ráðherrann hefði týnt eða ekki haft tíma til að lesa minnispunktana og bara treyst á sinn ræðusjarma að bjarga sér út úr aðstæðum. Næstur kom aðstoðarmaður ráðherrans í ræðustól og hann var nú ennþá skemmtilegri og staðfesti grun minn. Hann byrjaði á að veifa blaði með ræðu sem hann hefði samið fyrir ráðherrann og sem hann var soldið sár yfir að ráðherrann hefði ekki flutt því þar hefði komið fram fullt af tölfræðiupplýsingum sem tengdust efninu. Ég var nú bara fegin að losna við upptalningu á talnarunum.

Núna er það þannig að flestir ráðherrar vilja fylgjast með nútímanum og ná til allra kynslóða, líka þessarar sem hangir á myspace og bloggum. Sennilega mun það skipta máli í framtíðinni - og þá á ég við í næstu kosningum - hvort þú hefur verið áberandi á Netinu og hvort þú upplýsir almenning um hvað þú ert að gera í stjórnmálum og hver viðhorf þín eru og hvort þú sért í góðu sambandi við kjósendur á Netinu.  Fyrir síðustu kosningar voru mjög margir stjórnmálamenn sem töldu sig þurfa að stofna blogg og sumir blogguðu eitthvað rétt fyrir kosningar en hættu  eftir það. Sumir stjórnmálamenn sem hafa notið lýðhylli og vinsælda og koma vel út í sjónvarpi ná ekki til mín á bloggi, oftast er það vegna þess að mér finnst koma í ljós hvað þeir eru grunnir og yfirborðslegir og hafa engu að miðla og ekkert að segja frá.  

Blogg og netsamfélög eru öðruvísi miðlar en sjónvarp og ræðupúlt og ég hugsa að þeir sem eru stjörnur í sjónvarpi  því þeir geisla af skjáþokka eða geta talað undir borðið alla á bændafundum og fengið salinn til að veltast af hlátri séu ekki endilega að meika það á bloggi.  Ég held að  sjónvarp sé miklu yfirborðslegri miðill en  blogg og þú getir auðveldar slegið ryki í augum á fólki og eitthvað sem þú segir á einni mínútu geti gert útslagið. Það er möguleiki á miklu meiri íhugun á bloggi og það er möguleiki á öðruvísi samskiptum.

Ég held að það sé sjálfgefið að núna þegar tilvera á Netinu er orðinn þáttur í stjórnmálabaráttu þá sé aðstoðarmönnum ráðherra fengið það hlutverk að aðstoða líka við að skrifa bloggið þeirra og sjá um og fylgjast með og hugsanlega taka þátt í netumræðu sem tengjast ráðherranum. Sumir stjórnmálamenn eins og Björn Bjarnason eru þó svo ritfærir og góðir í netumræðu að þeir skrifa sjálfir allt sem þeir birta á Netinu. Það mun eflaust skipta máli fyrir stjórnmálamenn framtíðarinnar að þeir hafi orðspor í Netheimum og netumræðu en láti ekki eins og það séu álfheimar sem koma þeim ekki við og eru þeim ósýnilegir. Sennilega mun á næstu misserum meira tal og útsendingar og netfundir skipta máli í bloggi, það verður ekki eingöngu orðræða gegnum ritað mál.

það mun eflaust koma að því að mektarmenn í íslensku samfélagi hafi fólk fyrir sig í að skrifa hugsanir þess og orð og teikna upp ímynd þeirra. Það er skemmtileg grein á BBC núna Are my online friends for real? sem lýsir þessari þróun.  Sumir hafa ef til vill þegar atvinnu sína af því að skrifa blogg og halda úti Myspace síðu undir nafni einhvers annars. 

Núna hefur moggabloggið tekið við af málefnavefnum og við erum margir málverjarnir að tjá okkur hérna. Ég og StebbiFr vorum að ég best man þau einu sem voru undir eigin nafni þar. Þetta minnir mig á að þegar ég byrjaði að tjá mig á málefnunum þá heyrði ég oftar en einu sinni þá samsæriskenningu um það sem ég skrifaði að það væri bróðir minn sem væri að skrifa undir mínu nafni.   


Hvað er fólk að gera á Netinu?

Business week birti 11.júní síðastliðinni  greinina Web Strategies that caters to customers svona til að leiðbeina fyrirtækjum um hvernig eigi að ná til fólks núna á netvæðingartímum. Það fylgdu með greininni tvær afar áhugaverðar yfirlitsmyndir um hvað fólk er að gera á vefnum. í fyrri myndinni þá má sjá hver skipting aldurshópanna er. Það er áhugavert hve fólk á menntaskólaaldri les mikið blogg og er að notað félagsnet s.s. Myspace og hve margir í eldri kynslóðum eru ekkert að fylgjast með þessum nýju samskiptaleiðum.

business-week-juni07-2

 Það er líka áhugavert að það eru mjög fáir að setja inn efni og skapa efni t.d. á youtube, flickr og wikipedia. Mér finnst þetta sérstaklega áhugavert vegna þess að ég er stórnotandi á öllum þessum kerfum, ég hef sett inn meira en 3000 myndir á flickr  og ég hef sett inn marga tugi af vídeóum sem ég hef búið til sjálf á Youtube og ég skrifa reglulega greinar á Wikipedia. Ég er greinilega í minnihluta. Hér er kortið yfir þetta:

business-week-juni07-1

 


Avatar

01_10015271912Í mörgum kerfum á Interneti þá þarf maður að búa til persónu eða avatar. Í netheimum eins og Second Life þá er fólk lengi að hanna útlitið á leikmanni sínum og breyta ímynd sínni.

Robbie Cooper hefur skrifað bókina Alter Ego - Avatar and their Creators.

Hann fær út að leikmennirnir líkist skapara sínum. 

Sjá nánar frétt á CNN Identity in a virtual world

Ég var að prófa áðan kerfi sem heitir meez.com

þar getur maður búið til sína eigin þrívíddarvélveru og ákveðið útlit og bakgrunn. Ég bjó til þessa veru hérna til hliðar, ég veit ekki hvort það segir eitthvað um mig að ég bjó til málaða gellu í anarkistabol og skæruliðabuxum og rauðbleikum skóm að taka heljarstökk afturábak í druslulegu eldhúsi. Ævintýrið um rauðu skóna sem ekki mátti dansa í hefur alltaf heillað mig, það er eitt af þeim ævintýrum sem eru ólar til að reyra fólk niður - svona kerfi þar sem ekki þarf neina alvöru fjötra heldur fjötra sem eru úr sama efni og nýju fötin keisarans. 

Þetta er sem sagt minn avatar um rauðu skóna. 


Hryðjuverk og vasaþjófar

Núna er viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkahættu eins hátt og það getur verið í London. Ég var nýlent í London þegar seinni hryðjuverkahrinan reið yfir 21. júlí 2005. Það ríkti skrýtið ástand í borginni næstu vikur á eftir. Það greip um sig mikil hræðsla og tortryggni gagnvart ungum karlmönnum af austrænum uppruna. Ég bjó í Austur London og þar var áberandi að fólk forðaðist verslanir og matsölustaði sem reknir voru af múslimum. Veitingahúsin við Brick Lane voru auð. Ég sá oft á götunum lögreglumenn handtaka og/eða yfirheyra menn og alls staðar voru löggæslumenn og hermenn áberandi. Það var mikil löggæsla við neðanjarðarstöðvar. Það var samt uggur í flestum en fólk hefur ekkert val í London, það verða allir að nota samgöngukerfin.

ég man eftir einu atviki þar sem ég var augnabliksstund skelfd, ég var að koma út úr neðanjarðarlestinni við Finsbury Park moskuna og þar semm strætisvagnarnir stoppa kom fólk hlaupandi á móti okkur, ég man eftir að sá fyrsti sem ég sá var ungur maður og ég man ennþá hræðsluna og örvæntinguna í svip hans. Það var eins og um líf og dauða væri að tefla. Á hæla honum hlupu aðrir.  

En rétt eftir að hann hleypur beint á móti okkur þá hendir hann tösku í jörðina og svo átta ég mig á því að hann var vasaþjófur sem hafði rænt handtösku af konu og einhverjir voru að hlaupa hann upp svona eins og "stöðvið þjófinn" sena í gamalli Oliver tvist mynd. 

En Finsbury Park moskan gengdi stóru hlutverki í hryðjuverkunum í London og margir hryðjuverkamannanna höfðu tengsl við þá mosku.


mbl.is Fjórir í haldi vegna árása í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta útsendingin á Operator11

Ég var að prófa áðan sniðuga græju til að senda út beint á Netið. það var einhver einn sem hlustaði á mig. Útsendingin vistast svo það er hægt að hlusta seinna. Hún er alveg methallærisleg  en ég læt slóðina hérna svo fólk geti brosað að þessum viðfangingslegu heimaútsendingum hjá mér.

Vodkasala Íslands

reyka-vodka8-imarkEr viðeigandi að forseti Íslands auglýsi vodka? Ég er döpur yfir því að engum virðist finnast athugavert að  framlag til ferðamála og landkynningar á Íslandi fari í að auglýsa  vodka og opinberir aðilar á sviði ferðamála skuli leggja blessun sína yfir og styðja að erlend fyrirtæki í vafasamri framleiðslu setji hér upp átöppunarverksmiðju til að geta notað Ísland í markaðssetningu sinni.  Vodka er eimað áfengi og frekar einsleit vara og er skólabókardæmi um hvernig hægt er búa til einhverja ímynd utan um ekki neitt. þetta vodka sem er tappað hér á íslandi er markaðsett sem séríslensk afurð sem hafi í sér eitthvað af hreinleika og ósnortinni náttúru Íslands, það er notað orðalag eins og  "filtered through lava rock collected from local volcano fields in Iceland".

Vodka er líka hættulegt eiturlyf sem er ásamt öðrum brenndum drykkjum stór áhrifavaldur í mannlegri eymd víða um lönd. Það má sjá dæmi um hvernig þetta vodka er markaðsett með aðstoð Íslands í þessari Glærusýningu sem er frá ráðstefnu sem Ímark hélt á markaðsdeginum 2007

Ég benti  í síðasta bloggi á hvernig markaðsátakið Iceland Naturally virðist vera á glapstigum með því að spyrða markaðssetningu á íslenskum vörum og Íslandi við áfengi og ákveðna vodkategund. Reyndar virðist mér núna vefsvæði þessa markaðsátaks vera undirlagt af vodkaauglýsingum og kynningum á áfengi. Sem dæmi má nefna að núna er á forsíðunni kynnt eitthvað martini samkvæmi eins og það sé það helsta sem er á döfinni varðandi Ísland: "From Iceland with Love” Cocktail Party - featuring Icelandic vodka, fish, cheese, skyr and products. The Martini Society July 7"

Finnst ferðamálayfirvöldum á Íslandi og ferðamannaiðnaðinum á Íslandi þetta virkilega vera góð markaðssetning á Íslandi? Er svona markaðsetning með velþóknun opinberra aðila?

reyka-vodka5 Eina sem ég fann á Netinu um Iceland Naturally átakið frá opinberum aðilum m.a. Sturlu Böðvarssyni fyrrum samgönguráðherra og frá Birni Inga Hrafnssyni fyrrum aðstoðarmanni forsætisráðherra og utanríkisráðherra um Iceland Naturally  var afar jákvætt. Björn Ingi skrifar  2005 sjá hér hérna afar lofsamlegt blogg um Iceland Naturally. Hann segir þar:

 "Á fimmtudag skildi ég við föruneyti forsætisráðherra og hélt á stjórnarfund í Iceland Naturally, landkynningarverkefni okkar Íslendinga í Norður Ameríku. ... Iceland Naturally er að mínu mati einstaklega gott dæmi um vel heppnað verkefni, þar sem tiltölulega takmarkaðir fjármunir nýtast til hins ítrasta. Lykilorðið hefur verið að nýta auglýsingafé vel, en huga ennfremur að kynningu og umfjöllun með þeim árangri að ótölulegur fjöldi greina um Ísland og íslenskar vörur hefur birst í stærstu fjölmiðlum Bandaríkjanna á undanförnum árum."

 Ég veit að forseti Íslands kynnir oft íslenskar vörur og greiðir götu íslenskra fyrirtækja í heimsóknum sínum erlendis. Munum við sjá forsetann í framtíðinni auglýsa vodka sem tappað er á flöskur á Íslandi þrátt fyrir að það sé skaðlegt eiturlyf og bannað að auglýsa samkvæmt íslenskri áfengislöggjöf? Ég er nokkuð viss um að Ólafur Ragnar Grímsson lætur ekki bendla sig við áfengisauglýsingar eða óhollan lífsstíl, hann hefur verið talsmaður virðingar fyrir náttúru og hófsemi í lífsháttum. Ég vona líka að Björn Ingi Hrafnsson oddviti okkar framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur hafi ekki verið að hrósa vodka og martini auglýsingum hjá Iceland Naturally í bloggfærslunni sem ég vitna í. 

reyka-vodka6

 Allir sem auglýsa vörur bera ábyrgð. Í þessu tilviki er verið að nota ímynd Íslands sem hreina og ómengaða og villta náttúru til að auglýsa upp hættulegt og mengandi eiturlyf. Til langs tíma þá eyðileggur þetta ímynd Íslands. Það er einnig verið að auglýsa vöru sem er ekki íslensk og sennilega er framleiðslan á Íslandi ef hún er einhver eingöngu gerviframleiðsla - einhvers konar umskipun og átöppun og vatnsblöndun - eingöngu tilkomin til að geta selt vöruna sem íslenska vöru. það munu í framtíðinni koma mörg svona tilvik, ekki síst með auknum siglingum framhjá Íslandi. Er ekki ástæða til að spá í hvað er íslensk vara?

Af hverju er 66 gráður norður íslensk vara? Mér vitanlega fer öll framleiðslan fram núna erlendis í einhverju asíulandi þar sem fólk fær lægri laun en hérna. Er það út af því að hönnunin er ennþá íslensk? Er eitthvað annað í 66 gráðu norður fatnaðinum íslenskt?

Er þetta vodka íslenskt af því að hér var sett upp átöppun til að gera vöruna íslenska? 

(skjámynd af forseta Íslands er frá forsíðu imark.is og af vodkaauglýsingu frá glærum á markaðsdegi imark.is) 


Ferðamálayfirvöld á glapstigum

Það er reginhneyksli að peningar íslenskra skattborgara sé notaðir til að auglýsa upp vodka frá fyrirtækinu William Grant & Sons International og að íslensk ferðamálayfirvöld skuli taka þátt í að auglýsa áfengi og ennþá verra að þær auglýsingar  beinast sérstaklega að ungmennum. Það er líka reginhneyksli að íslensk ferðamálayfirvöld hafi velþóknun á og ýti undir að ímynd Íslands sé tengd við vodkaframleiðslu og hvatt sé til neyslu sterkra drykkja með því að draga ímynd Íslands niður í drykkjufen.  Það er eitthvað verulega mikið að dómgreind allra þeirra sem koma að þessum málum og sem ekki sjá hversu viðurstyggileg þessi samsetning er.

Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég kynnti mér hvernig markaðsetning á Reyka vodka er styrkt af íslenskum ferðamálayfirvöldum og íslenskum flugfélögum, ég skoðaði greinar og vefi sem Jón Axel benti á í blogginu  Athyglisverð markaðssetning

 Það virðist vera að enginn sem starfar að markaðsetningu Íslands sem ferðamálalands sjái neitt athugavert við að alþjóðlegt fyrirtæki sem selur  sterka áfenga drykki sem bannað er með lögum að auglýsa hér á landi setji upp átöppun hérlendis og fái þannig aðgang að því að auglýsa sínar vörur í gegnum ýmsa ferðamálavefi sem styrktir eru með opinberu fé.

Það er veruleg þörf á því að það sé farið ofan í hvernig opinberu framlagi Íslands til ferðamála er varið og hvers konar viðmið eiga að gilda fyrir þær vörur og þjónustu sem ferðamálayfirvöld hampa og reyna að beina neyslu að.

Hvernig styrkir það ímynd Íslands að landið sé notað til að auglýsa upp vodka og hvatt sé til neyslu hættulegra eiturefna? Munum við á næstunni eiga von á því að íslensk ferðamálayfirvöld auglýsi upp fylgdarþjónustu og kjöltudans og munum við á næstu árum eiga von á því að sett verði upp veðmálahverfi upp í miðbænum í Reykjavík og reykvísk spilavíti verði auglýst upp með tilstuðlan ferðamálayfirvalda? 

Hver er alþjóðleg ábyrgð ferðamálayfirvalda? Er allt í lagi að stuðla að ungmennadrykkju og vímuefnaneyslu erlendis ef það er  getur selt einhverjar vörur sem eru í þykjustunni framleiddar hérlendis - þar sem Ísland er annað hvort  átöppunarverksmiðja eða umskipunarhöfn.

Ég bendi sérstaklaga á að átakið Iceland Naturally er algjörlega á villigötum, mér virðist það átak vera afar nátengt þessum vodkasala.  Ég fæ ekki betur séð en að þetta átak sé styrkt af opinberu fé frá Íslandi, fé sem ætlað er að auka hróður Íslands erlendis. Hvernig í ósköpunum er hægt að auka hróður Íslands erlendis með lágkúrulegum auglýsingum um vörur sem eru svo hættuleg eiturefni og mikill partur af eymd fjölskyldna og einstaklinga að það er bannað að auglýsa þær á Íslandi?

Í fréttatilkynningu segir að Iceland Naturally (IN) vinni að framgangi Íslands, íslenskra fyrirtækja og vörumerkja  í N-Ameríku og stefnan að byggja upp jákvæða ímynd Íslands. Nánari upplýsingar fást hjá Einari Gústavssyni, framkvæmdastj. Ferðamálaráðs Íslands í N-Ameríku (iceinar@goiceland.org) eða Hlyni Guðjónssyni, viðskiptafulltrúa Íslands í N-Ameríku (hlynur@mfa.is). Mbl. Mánudaginn 5. febrúar, 2007

Fimmtudaginn 1. mars, 2007 var grein í mbl um þessa vodkaframleiðslu. Þar segir að  vodkað og Ísland verði ekki aðskilið í markaðssetningu því markaðsstarfið byggi á ímynd Íslands erlendis. Þar er líka eftirfarandi haft eftir fulltrúa vodkasölufyrirtækisins:

Bandaríkjamarkaður er stór og þeir velja sína staði vandlega og til að byrja með þá staði sem Icelandair flýgur til, enda auðveldara að vinna kynningarstarfið þar sem góð tenging við landið er fyrir hendi. Það starf hefur nú staðið yfir í tvö ár og árangurinn verið góður. Reyka er orðið hluti af Iceland Naturally og nú stendur fyrir dyrum auglýsingaherferð í Bandaríkjunum í sjónvarpi og á Netinu. Þar verður Hafdís Huld í aðalhlutverki og Ísland auðvitað. Þar koma einnig við sögu lundinn, fyrsti íslenski kvenforsetinn, hugsanlegur bandarískur kvenforseti, útkjálkabar og ísjakar, svo fátt eitt spennandi sé nefnt í þessari sérstöku blöndu af Reyka-vodka."

 

 Skjámyndirnar tók ég frá íslenskum ferðamálavefjum. Ég skora á ferðamálayfirvöld, ferðamálastofu og samgönguráðherra og ferðamálaráð að íhuga hvort þessi tegund af markaðssetningu á Íslandi sem ferðamálalandi og þessi samanspyrðing á Íslandi  við hættuleg eiturlyf (vodka) er í samræmi við það sem við Íslendingar viljum tengja við ímynd landsins.


Skírn á Jónsmessu

274Litla frænka mín var skírð heima hjá sér á Hanhóli í Syðridal í Bolungarvík á Jónsmessu 2007. Hún heitir hér eftir ekki litla frænka heldur Salvör Sól. Ég var skírnarvottur og Magnea Gná systir hennar hélt henni undir skírn. Séra Agnes prestur Bolvíkinga skírði og Ásta Björg spilaði á píanó. Þetta var hátíðleg stund og það þarf náttúrulega ekki að taka fram að ég er ákaflega ánægð með nafnið. Hún er núna fimm vikna gömul og fimm kíló. Grin

Hér er mynd af henni með elstu systur sinni Ástu Björgu

Hér eru líka nokkrar myndir af henni mánudaginn eftir skírnina. 

Fleiri nýjar myndir af Salvöru Sól má sjá í myndasyrpu frá skírnardeginum og deginum eftir.
salvorsol4 salvorsol3 salvorsol1 salvorsol5 


BlogTV

Fyrir tæpum áratug þá var aðalfélagsnet ungmenna á Interneti irkið. Síðan komu kerfi eins og msn og myspace og irkið fjaraði út. það var líka bara hægt að vera með texta þar. Ég var að prófa áðan blogtv.com  og skráði mig sem notanda þar 

Þetta er sniðugt kerfi og hægt að vera með beinar sjónvarpsútsendingar eða útvarpsútsendingar á Netinu og geta þeir sem fylgjast með útsendingunum tjáð sig á meðan á eins konar irki.  Ég ætla að prófa einhverjar útsendingar á þessu kerfi, það virkar sniðugt. Núna er mikil gróska í svona beinum útsútsendingum á Netinu og mörg kerfi hafa komið fram sem gera þetta kleift. Techcrunch birti í dag greinina Who will be the Youtube of live video?

 


Sumarsólstöður á Vestfjörðum

Ég lenti á Ísafirði rétt eftir klukkan sex á sumarsólstöðum 21. júní og núna er ég á Hanhóli í Syðridal við Bolungarvík en þar býr systir mín og mágur. Nú er klukkan fjögur um nótt en ég er ennþá vakandi og horfði á umhverfið baðað morgunsól. Allt í kring eru snarbrött há fjöll, flöt að ofan en með snjókórónu og úr eldhúsglugganum horfi ég út á Syðridalsvatn.

Myndavélin nemur ekki töfra sumarnætur á sólstöðum nálægt heimskautsbaug, litirnir verða allt öðruvísi en ég sé þá út um gluggann.

 

solstice5

 

solstodur4

 

solstodur2

solstodur1


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband