Hver bloggar fyrir þig?

Það er fleira sem skilur á milli þess að vera ráðherra og vera ekki ráðherra en að fá bíl með bílstjóra. Ráðherrar og háttsettir menn í stjórnkerfinu og viðskiptalífinu losna nefnilega oft við að skrifa sínar ræður og greinar sjálfir, þeir hafa fólk í þessu fyrir sig. Alla vega til að semja ræðupunkta og afla bakgrunnsupplýsinga. Enda eins gott, þeir þurfa að vera á þönum að setja alls konar samkomur.

Ég man einu sinni eftir skemtilegu tilviki þar sem einn ráðherra átti að byrja að ávarpa samkomu. Ráðherrann var seinn fyrir og greinilega ætlaði svo að hespa þetta af þegar hann kom og talaði blaðalaust - tja... og að mér fannst svolítið út í loftið. Hann sagði nokkra brandara frá þorrablóti austur á landi og af sveitungum þar. Ræðan tengdist ekkert tilefni samkomunnar svo ég hafði nú á tilfinningunni að ráðherrann hefði týnt eða ekki haft tíma til að lesa minnispunktana og bara treyst á sinn ræðusjarma að bjarga sér út úr aðstæðum. Næstur kom aðstoðarmaður ráðherrans í ræðustól og hann var nú ennþá skemmtilegri og staðfesti grun minn. Hann byrjaði á að veifa blaði með ræðu sem hann hefði samið fyrir ráðherrann og sem hann var soldið sár yfir að ráðherrann hefði ekki flutt því þar hefði komið fram fullt af tölfræðiupplýsingum sem tengdust efninu. Ég var nú bara fegin að losna við upptalningu á talnarunum.

Núna er það þannig að flestir ráðherrar vilja fylgjast með nútímanum og ná til allra kynslóða, líka þessarar sem hangir á myspace og bloggum. Sennilega mun það skipta máli í framtíðinni - og þá á ég við í næstu kosningum - hvort þú hefur verið áberandi á Netinu og hvort þú upplýsir almenning um hvað þú ert að gera í stjórnmálum og hver viðhorf þín eru og hvort þú sért í góðu sambandi við kjósendur á Netinu.  Fyrir síðustu kosningar voru mjög margir stjórnmálamenn sem töldu sig þurfa að stofna blogg og sumir blogguðu eitthvað rétt fyrir kosningar en hættu  eftir það. Sumir stjórnmálamenn sem hafa notið lýðhylli og vinsælda og koma vel út í sjónvarpi ná ekki til mín á bloggi, oftast er það vegna þess að mér finnst koma í ljós hvað þeir eru grunnir og yfirborðslegir og hafa engu að miðla og ekkert að segja frá.  

Blogg og netsamfélög eru öðruvísi miðlar en sjónvarp og ræðupúlt og ég hugsa að þeir sem eru stjörnur í sjónvarpi  því þeir geisla af skjáþokka eða geta talað undir borðið alla á bændafundum og fengið salinn til að veltast af hlátri séu ekki endilega að meika það á bloggi.  Ég held að  sjónvarp sé miklu yfirborðslegri miðill en  blogg og þú getir auðveldar slegið ryki í augum á fólki og eitthvað sem þú segir á einni mínútu geti gert útslagið. Það er möguleiki á miklu meiri íhugun á bloggi og það er möguleiki á öðruvísi samskiptum.

Ég held að það sé sjálfgefið að núna þegar tilvera á Netinu er orðinn þáttur í stjórnmálabaráttu þá sé aðstoðarmönnum ráðherra fengið það hlutverk að aðstoða líka við að skrifa bloggið þeirra og sjá um og fylgjast með og hugsanlega taka þátt í netumræðu sem tengjast ráðherranum. Sumir stjórnmálamenn eins og Björn Bjarnason eru þó svo ritfærir og góðir í netumræðu að þeir skrifa sjálfir allt sem þeir birta á Netinu. Það mun eflaust skipta máli fyrir stjórnmálamenn framtíðarinnar að þeir hafi orðspor í Netheimum og netumræðu en láti ekki eins og það séu álfheimar sem koma þeim ekki við og eru þeim ósýnilegir. Sennilega mun á næstu misserum meira tal og útsendingar og netfundir skipta máli í bloggi, það verður ekki eingöngu orðræða gegnum ritað mál.

það mun eflaust koma að því að mektarmenn í íslensku samfélagi hafi fólk fyrir sig í að skrifa hugsanir þess og orð og teikna upp ímynd þeirra. Það er skemmtileg grein á BBC núna Are my online friends for real? sem lýsir þessari þróun.  Sumir hafa ef til vill þegar atvinnu sína af því að skrifa blogg og halda úti Myspace síðu undir nafni einhvers annars. 

Núna hefur moggabloggið tekið við af málefnavefnum og við erum margir málverjarnir að tjá okkur hérna. Ég og StebbiFr vorum að ég best man þau einu sem voru undir eigin nafni þar. Þetta minnir mig á að þegar ég byrjaði að tjá mig á málefnunum þá heyrði ég oftar en einu sinni þá samsæriskenningu um það sem ég skrifaði að það væri bróðir minn sem væri að skrifa undir mínu nafni.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Björgvin

Skemmtilegur pistill og pæling sem vert er að velta vöngum yfir. Ef að bróðir þinn skrifar ekki fyrir þig hér eins og á málefnavefnum hver gerir það þá? (-:

Pétur Björgvin, 2.7.2007 kl. 17:00

2 Smámynd: TómasHa

:) Gaman, þú hefur hnotið um sömu umfjöllun og ég, ég sá þetta hjá þér eftir að ég var búinn að skrifa þetta:

Bloggað fyrir mig

TómasHa, 2.7.2007 kl. 17:22

3 identicon

Gaman að lesa þennan pistil Salvör. Ég sé alveg fyrir mér að fyrir næstu kosningar muni bloggið hafa þróast meira yfir í sambland af töluðu máli, myndskeiðum og rituðum texta. Það verður mjög spennandi að fylgjast með þessari þróun

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband