Þátttökumótmæli eða miðstýrð mótmæli

Það er reginmunur á kryddsíldarmótmælunum og laugardagsmótmælafundum Radda fólksins á Austurvelli varðandi virkni mótmælenda. Á Austurvelli er miðstýrð umræða og hefðbundin uppsetning, hátalarakerfi og ræðumenn tala einn af öðrum. Þátttakendur tjá sig eingöngu með því að halda skiltum á lofti og með því klappa eftir hvern ræðumann og með því að hrópa í kór með Herði að við viljum ríkisstjórnina burt. Suma mótmælafundina hefur tjáning þátttakenda fyrst og fremst falist í að mæta og þegja. 

 

Kryddsíldarmótmælin voru öðruvísi, það var nýr tónn sleginn þar. Það er reyndar góð samlíking með tóna því þau mótmæli einkenndust af alls konar hljóðum,  hljóðum frá neyðarblysum og neyðarópum við stjórnarráðið, tónlist götusöngarans sem syngur Imagine meðan gangan rann frá stjórnarráðinu að Austurvelli, hljóðum mótmælenda á Austurvelli sem byrja með glens og gleði, það eru hrópuð grínslagorð eins og "Álver í Árbæinn" og svo kemur nýr kafli í þessa miklu hljómkviðu þegar trumburnar eru slegnar. Þá birtast svartálfarnir fyrst á sviðinu og hljóðfærið eru flatir hnefar sem slá utan rúðurnar í Hótel Borg. Þegar maður hlustar og horfir á mótmælin þá skynjar maður að það var taktur í þessu, mótmælendur hlustuðu hver á annan og samstilltu köll sín og þann hávaða sem þeir framleiddu.

Það er ekki rétt hjá Herði Torfasyni að þetta hafi verið óskipuleg mótmæli. Þetta voru mjög skipulögð mótmæli, stór hópur þeirra sem mættu var greinilega með mjög fókusað markmið, það var ekki að vera bakgrunnsmúsík og skemmtiatriði í kryddsíldinni, það var að trufla útsendinguna og rjúfa hana. Það er líka áberandi að   hluti mótmælenda er vel skólaður í borgaralegri óhlýðni og fylgir þeim trixum sem hafa gefist vel erlendis og stillir saman krafta sína.

Það er reyndar líka áberandi hvað íslenska lögreglan er ráðþrota og óundirbúin. Hvernig gátu þessi mótmæli komið lögreglu á óvart? þau voru auglýst grimmt á facebook og hundruðir búnir að skrá sig í þau. Hvernig datt lögreglunni annað í hug en að þeir hópar sem hafa ruðst inn í banka o.fl. myndu nota tækifærin til að ryðjast inn á alla íslensku þjóðina og alla formenn stjórnmálaflokkanna á sama bretti í lok ársins?

Fyrsti hluti mótmælanna þ.e. sá hluti sem var auglýstur og sem ég tók fullan þátt í var mjög friðsamlegur, kveikt á blysum, hrópað á hjálp og safnast saman á Austurvelli og hrópað. En það er ekki eins og þetta hafi verið í fyrsta skipti sem aðgerðir annarra öfgasinnaðri hópa byrja einmitt þegar friðsömum mótmælaaðgerðum lýkur og reyndar renna saman í þau. Það er sennilega meðvitað hjá þeim hópum sem hafa í huga að vinna einhver spellvirki, það er partur af dulargervi að fela sig meðal mótmælenda og það er reyndar nokkur vörn að því t.d. ef reynt er að handtaka einhvern, það er styrkur í fjöldanum.

Það var reyndar mjög undarlegt úr því að Ari Edward kallar innganginn í portið sem aðalmótmælin urðu í "lokað öryggishlið" að hann og aðrir bæði lögregla og þeir sem stóðu að sjónvarpsþættinum hefðu innganginn svona berskjaldaðan, stilltu þeir kannski upp svona auglýsingaskilti  til að auðveldara væri að klifra yfir hliðið? Hver opnaði hliðið? Það var galopið og það var ekki eins og múgurinn streymdi þar inn, fólk fór varfærnislega í byrjun og vissi ekki alveg hvað væri að gerast, forvitnin rak flesta til að kanna það. Hvar var lögreglan þá? Af hverju voru þeir ekki með bíl (hefði getað verið ómerktur) fyrir framan þetta hlið og gættu þess betur?

En með þessu bloggi eru vídeó af fyrsta hluta mótmælanna, neyðarblysunum við stjórnarráðið, ógöngunni á Austurvöll og  stöðu á Austurvelli þegar beðið er eftir að Kryddsíldin hefjist.  Það sést vel og heyrist ennþá betur á vídeóunum sem eru í tímaröð hvernig mótmælin stigmagnast og hvernig vettvangurinn færist til - byrjar við stjórnarráðið - síðan Austurstræti - síðan styttan Jón Sigurðsson á Austurvelli - síðan gluggarnir á Hótel borg - síðan portið við hlið hótel Borgar - síðan ryðst hluti mótmælenda inn í húsið og situr á gólfinu (situr til að það sé erfiðara að bola þeim burt) og syngur við raust.  Svo birtist löggan.


mbl.is Mótmælaróður hertur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornin og góði hirðirinn

kryddsild-modir-sonur

Skemmdarverkin á Nornabúðinni stafa líklega frekar af því að einhverjum líkar ekki sú tegund af aktívisma sem nornin Eva stundar heldur en af því að einhver óánægður viðskiptavinur hefur ekki náð nógu góðum árangri með kreppukörlunum. Þetta er mjög óþægilegt og þrúgandi og Eva á samúð mína alla.

Þeir aðilar sem Eva hefur beint aðgerðum að eiga mjög mikið undir sér á Íslandi og hafa sýnt að þeir eru mjög ófyrirleitnir og samviskulausir í viðskiptum, þeir hafa ekki hikað við að hrifsa til sín almannaeigur á Íslandi, stundum hafa þeir gert það í skálkaskjóli bankaleyndar og bankaeigenda ítaka en stundum hafa þeir gert þar grímulaust og fyrir opnum tjöldum og látið eins  og þeir séu dýrlingar í  helgileik og gripdeildir þeirra séu einhvers konar hirðusemi sem við almenningur eigum að dásama og verðlauna. Og athæfi  þeirra hefur verið blessað af veraldlegum og geistlegum yfirvöldum.

godi-hirdirinn

Einn af þeim æðstuprestum sem bjó til réttlætingu  þegar skúrkar hirtu verðmæti af alþýðu og sölsuðu undir sig almenningseign var Pétur Blöndal alþingismaður en hann hefur enmitt árum saman klifað á því svo oft að sennilega trúir hann því sjálfur að almannafé sem einhvers staðar hefur safnast fyrir sé "fé án hirðis".  Líkingin er augljós - einhvers konar réttlæting fyrir fjárglæpamenn að þegar þeir hrifsa til sín verðmæti þá séu þeir eins og góði hirðirinn. Já að gera einhvers konar góðverk, að finna týndu sauðina. Og éta þá síðan sjálfir. Það kallast að skapa verðmæti.


mbl.is Ráðist gegn Nornabúðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skríllinn mun eiga síðasta orðið

Ég varð fyrir miklum hótunum um ofbeldi frá tveimur mótmælendum á gamlársdag, hótunum sem  voru aggressívar og ruddalegar. Ég ætlaði að fara heim eftir að hafa farið á kaffihús en svo brá við að bíllinn minn sem ég hafði skilið eftir í Lækjargötu var lokaður inni því þar var urmull af lögreglubílum sem króuðu af götuna. Ég ákvað bara að doka við þangað til ég kæmist á stað og geng um götuna þar sem einhver mannsöfnuður var og fullt af löggum. Ég ákvað að mynda þetta viðfangsefni eins og annað þennan dag enda minn aktívismi fólginn í að skrásetja og sýna viðburði í gegnum mitt sjónarhorn, sjónarhorn sem oft er mjög frábrugðið því sem fjölmiðlar segja frá.  Ég hef reynt að segja frá því sem er að gerast í íslensku samfélagi í gegnum bloggsíðu mína eins og það kemur mér fyrir sjónir.  

En þegar ég kem að fólkinu og tek mynd af aðstæðum m.a. svartklæddri stúlku sem hafði hulið andlit sitt og var í einhvers konar dulargervi þá réðst hún að mér með óbótaskömmum, heimtaði að ég tæki ekki mynd þar sem hún kæmi inn á.

Þetta voru nú nokkuð súrrelískar aðstæður. Fyrir framan okkur var rimlahlið og tugur af óeirðalögreglu í viðbragðstöðu fyrir árás og fyrir aftan okkur á Lækjargötu voru nokkrir tugir af lögreglubílum og krökkt af löggum og hún var í dulargervi og í kringum okkur var eitthvað af fólki af götunni sem hafði safnast þar saman.  Hún öskraði líka hvort ég væri ekki systir Hannesar og ég náttúrulega játaði því eins og ég geri alltaf. Henni virtist eitthvað uppsigað við mig út af bróður mínum og því sem hún kallaði "þessa viðbjóðslegu vefsíðu þína" (átti hún kannski við þetta blogg?).  Svo kom önnur stúlka sem var miklu grófari, hún sagðist myndu ráðast á mig og taka af mér myndavélina ef ég hætti ekki að mynda.  Ég var nú ekki hrædd við það og tjáði viðkomandi að ég væri ekkert hrædd en minnug þess að sá vægir sem vitið hefur meira þá sá ég ekki að þetta væru heppilegar aðstæður til að enda árið í að lenda í slagsmálum þarna á milli óeirðalögreglu innan við rimlahlið og óeirðalögreglu á Lækjargötu, ég held satt að segja að það hafi ekki verið sniðugt móv hjá mér á þessum stað og stund að lenda í götubardaga. 

Þó ég hefði vægt þarna fyrir rugludöllunum þá héldu þær áfram að kasta í mig hnjóðsyrðum, ég áttaði mig ekki alveg á til hvers. Kannski voru þær að fara á taugum í þessum aðstæðum og ætluðu að gera eitthvað sem ég veit ekki hvað er , kannski voru þær bara búnar að taka borgaralega óhlýðni 101 og vissu ekki hvernig átti að hegða sér, kannski voru þær meðvitað að búa til hasar og reyna að skapa glundroða og æsa upp fólk og láta handtaka sig og vissu að það var betra að ákæran væri  að þær hefðu ráðist á mig heldur en lögreglumann. Kannski héldu þær að ég væri einhver afleggjari af bróður mínum og hugsaði eins og hann. Kannski finnst þeim bloggið mitt ömurlegt. Hvað veit ég?

Þó það stuði mig að vera sjálf þolandi svona lítilsvirðandi og truntulegrar hegðunar þá finnst mér þetta í aðra röndina fyndið, þetta var eiginlega svo absúrd hjá þessum gellum að vera að veitast að fólki og hóta þegar þær voru  sjálfar gjörsamlega innikróaðar og áður en ég kom þarna að þá virtust þær hafa verið að rífast við aðra vegfarendur. En sókn er stundum besta vörnin. 

Hér fyrir neðan er  mynd  sem ég náði af þessum herskáu stúlkum áður en þær urðu svo aggressívar og leiðinlegar og hótuðu að rífa mér myndavélina. Hér er líka myndin er af lófa annarrar sem hún setti fyrir myndavélina mína til að hindra mig í myndatöku.  Svo er hérna fyrir neðan líka mynd til að minna mig á hvers vegna ég birti á þessu bloggi myndir af þeim aktívisma og þeim mótmælum sem eru í gangi á Íslandi. Það er vegna þess að þeir fjölmiðlar sem bergmála valdið þ.e. dagblöð, ríkisfjölmiðlar og einkasjónvarpsstöðvar kölluðu lengi vel fólk eins og sést á myndinni hér fyrir neðan skríl. Ef þetta er skríll þá er ég líka skríll.

Skríllinn mun eiga síðasta orðið.

 IMG_3078 IMG_3079

--------------------------IMG_1934

IMG_2062
mbl.is Mótmælendum ógnað á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

You may say I'm a dreamer - But I'm not the only one

Farandsöngvarinn sem sat fyrir utan verslunina í Austurstræti þegar gangan gekk þar framhjá á gamlársdag söng lagið  Imagine lag John Lennon frá árinu 1971. Farandsöngvarinn breytti reyndar textanum, setti " Iceland will be as one" í staðinn fyrir "the world will be as one".

Hér eru tvær útgáfur,  John Lennon að syngja lagið 1971 og óþekktur götusöngvari í Austurstræti 2008.

Í Viðey er Friðarsúlan , listaverk Joko Ono reist í minningu Johns Lennons.  Súlan er ljóskastari en á stallinn er ristur textinn  "imagine peace" sem er vísun í ljóðlínu úr Imagine.  Á gamlársdag, sama dag og við tendruðum neyðarblys við stjórnarráðið var tendrað ljós á súlunni,ljós sem logar fram á þrettándann.

Imagine er ljóð um draum um heim sem byggir á samvinnu og friði. Um heim þar sem menn fylkja sem saman undir sömu hugsjón, sama draum.

Sumum draumum getum við ekki stjórnað, stundum verða draumar að martröð og stundum verða draumar að þrá sem teygir sig út úr draumheimi inn í raunveruleikann  og sefjar okkur og dáleiðir. Stundum eru draumar eins og saga með táknum, saga frá annarri veröld, skráðir á framandi tungumál.

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um drauma og gert tilraun með að skrá nður drauma. Núna á árinu sem ísbirnirnir komu að landi þá rifja ég upp drauminn um ísbjörninn og það sem ég hef skrifað um drauma:

Draumar á bloggi og draumaráðningar

Ísbjörn og draumur

Í fyrsti skipti sem ég sá bláan logann frá friðarsúlunni fannst mér eins og ég væri stödd á mörkum draumheims og raunheims. Ég sá ljós á himni eitt kvöldið og vissi ekki hvað þetta var. Ég keyrði út á Laugarnestanga og virti þetta fyrir mér. Mér fannst skyndilega ég vera stödd inn í draumi.
Draumi sem mig hafði dreymt í nóvember árið 2001.

Ég skráði þennan draum á blogg þá svona:

Mig dreymdi að ég byggi í blokk, held ég á þriðju hæð og svo horfði ég út um alla glugga og hvarvetna blasir við mér svona eins og her af fólki - já eins og her því allir héldu á spjöldum sem minntu mig á skildi og þau voru mjög litskrúðug og fjölbreytileg í lit og formi og á þau letruð alls konar tákn sem ég skyldi ekki - eins og svona myndletur þar sem á hverjum skildi var kannski eitt tákn. Og fólkið raðar sér með spjöldin eins og þéttur her eða varnarlið. Mér verður hvelft við í draumnum, held fyrst að þetta sé einhvers konar umsátur sem er beint gegn mér en átta mig svo á því að þetta hefur ekkert með mig að gera heldur er allt hverfið sem mér finnst núna vera breiðgata við strönd einhvers staðar þakið af fólki sem hefur stillt sér upp með svona skilti því það er einhver viðburður í vændum, einhvers konar hátíð. Á einum stað men ég eftir einhvers konar íþróttahátíð sem þó ekkert eins og nein sem ég hef séð. Einhvers konar tæki eða verur eða vélar sem flogið var beint upp í loftið, ekki mjög hátt, frá mér séð leit þetta út eins og fljúgandi hestar og var uppljómað. Mannmergðin fylgdist með þessu allt í kring.

Mér vitanlega hafa engin tæki eða verur flogið upp úr friðarsúlunni og ég hef ekki séð neina fljúgandi hesta á himni og ég hef aldrei séð fólk drifa að ströndinni með skilti til að horfa á slíkt. En mikill er kynngikraftur friðarsúlunnar.  Þegar hún er fyrst tendruð splundrast borgarstjórn Reykjavíkur. Árið eftir splundrast Ísland. Hvað gerist á þessu ári?

Hér er textinn með laginu Imagine: 

Imagine there's no heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today...

Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace...

You may say I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world...

You may say I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one

 


Fólkið hrópaði "Vanhæf ríkisstjórn"

 

Hér eru vídeó sem ég tók upp í kryddsíldarmótmælunum. Það var magnþrungin stemming inn í portinu við Hótel Borg, þetta var eins og hljómkviða. Sumir voru með potta og ýlur og þvottabretti og fólkið hrópaði í kór "Vanhæf ríkisstjórn" og "Valdníðsla" og að þetta væru lögleg mótmæli en ólögleg ríkisstjórn.  Ég sá ekki þegar sprautað var með piparúða. Ég heyrði bara mjög óljós í einhverjum mjög ámátlegum og máttlausum háttalara að þetta væri síðasta aðvörun, lögreglan hefði fengið heimild til að nota táragas. Það skemmdi stemminguna dáldið og mér fannst hyggilegt að koma mér langt út á Austurvöll. Nú veit ég ekki hvort að piparúði og táragas er það sama, mér finnst orðið piparúði hjóma eitthvað minna ógnvekjandi, er piparúði sama og táragas? 

En mér finnst bara hallærislegt að lögreglan sé svo illa búin að hún hafi einhver hátalaraskrapatól sem næstum heyrist ekkert í, það var bara mildi að ég heyrði þessa viðvörun lögreglunnar, hún drukknaði næstum í mótmælaskarkalanum. Svo er ég ekki frá því að mér hafi vöknað um augu, ég veit ekki alveg hvort það var út af einhverjum piparúða eða hvort það var út að  því sem einn strákurinn hrópaði að lögreglumönnunum. Hann hrópaði "Af hverju standið þið ekki með okkur? Þeir hafa rænt ykkur líka. Þið eruð í sömu sporum og við"

Eftir mótmælin leit sviðið á einum stað svona út:

 


mbl.is Mótmælin áttu að vera friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmyndir og vídeó frá mótmælunum

IMG_3029

IMG_3077

IMG_3005

 

"Ég var ekki þar, ég var að æfa lögreglukórinn" söng Bubbi einu sinni. En ég var þar og þar var líka örugglega megnið af lögreglukórnum en þeir sungu ekki. Mótmælendur sungu hins vegar við raust og reyndu að hafa hátt enda var held ég markmiðið að hafa svo hátt að það truflaði útsendinguna þar sem formenn stjórnmálaflokkanna voru að tjá sig í kryddsíldinni. Það tókst að trufla útsendinguna.

Hér eru myndasyrpa sem ég er að hlaða inn á flickr sem ég er að hlaða inn af kryddsíldarmótmælunum. Hér er myndasyrpa af tendrun neyðarblysa við stjórnarráðið.

Það tekur tíma að hlaða inn myndum þannig að ég bæti við þetta smán saman. Tók líka mikið af vídeóklippum sem ég set inn á eftir.


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarblys við stjórnarráðið

IMG_2939

IMG_2942

 Ég mætti við stjórnarráðið í dag og tendraði neyðarblys. Ég sem hef  aldrei skotið upp rakettu, ég sem hef í mesta lagi fagnað áramótunum með einni einum pakka af stjörnuljósum. En það er ástæða í ár til að senda út neyðarkall, ekki bara til umheimsins heldur líka til Íslendinga sjálfra enda er ég fyrir löngu búin að missa trúna um að nokkur bjargi okkur nema við sjálf.

Hér er myndasyrpa af neyðarblysunum við stjórnarráðið, ljósmyndir og  vídeó.

Hér er vídeó af mér með neyðarblysið 

vídeó 2 af neyðarablysum 

vídeó 3 af neyðarblysum 

Svo fór ég í göngu á Austurvöll. Ég tók myndir af látunum þar og set þær inn á eftir. Svo þegar táragasdæmið var búið þá fór ég á kaffihús en þegar ég ætlaði að fara í bílinn minn sem var í Lækjargötu þá var þar allt fullt af lögreglubílum og ég komst ekki lönd eða strönd fyrr en eftir langan tíma. 

IMG_2956

IMG_2958


mbl.is Á þriðja hundrað manns mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjáklarar og álitsgjafar

Kastljósið bauð upp á nýbreytni í áramótauppgjöri sínu, nokkrir bloggarar voru spurnir álits. Ég var ein þeirra og spókaði mig í Kastljósinu bæði í gærkvöldi og núna í kvöld. Ég finn náttúrulega mikið til mín og finnst þetta allt miða á rétta leið þegar ég er komin meðal þeirra álitsgjafa á Íslandi sem gera upp árið við áramót. Ég valdi Geir Haarde sem skúrk ársins, ég sagði Sigurð Einarsson í Kaupþingi versta viðskiptamann ársins og sagði það mesta aulahroll ársins þegar Sjálfstæðismenn í borginni dubbuðu Ólaf Magnússon upp sem borgarstjóra. Sem ummæli ársins valdi ég "Ég er með mörg hnífasett í bakinu" sem Guðjón Ólafur sagði í Kastljósi og þó ég hikaði ekki við að persónugera vandann og miða fast á einstaklinga til að fókusera á skúrkana og þá verstu og það fáránlegasta þá hafði ég soft fókus á hetjunum en í þann flokk setti ég alla þá sem skapað hafa okkur alþýðu Íslands eitthvað rými til að vinna úr og með þá stöðu sem komin er upp - hetjurnar mínar voru Hörður Torfason með sína mótmælafundi, Gunnar Sigurðsson með borgarafundi, Egill Helgason með sitt blogg og bloggkommentasamfélag og Björk Guðmundsdóttir með sitt næmi og sína skapandi atorku sem beinist að því að virkja - ekki orkuna úr fallvötnunum - heldur skapandi kraftinn sem ólgar í Íslendingum núna, kraftinn sem getur alveg farið í að brjóta allt og bramla en getur líka farið í að skapa og búa til eitthvað nýtt og öðruvísi.

Hér eru Kastljósin með bloggálitsgjöfunum:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431286/2008/12/29/5/ 

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431287/2008/12/30/ 

Beint á bloggálitsgjafana: 

Bloggarar velja hetjur ársins

Bloggarar velja aulahroll ársins

Bloggarar velja versta viðskiptamann ársins

Skúrkar ársins að mati álitsgjafa

Ummæli ársins að mati álitsgjafa

Hneyksli ársins að mati álitsgjafa

Ég sofnaði nún í kvöld en vaknaði við skrýtið símtal úr númerinu 8494331 sem ég kannast ekki við. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið einhvers konar símaat tengt því að ég var í Kastljósinu en mér fannst símtalið óþægilegt, ég er ekki vön að verða skotspónn stjáklara. Annars er stjáklari annað orð fyrir stalker, ég lærði þetta af bókinni hennar Guðrúnar Evu Mínervudóttur sem ég er núna að lesa. En þetta símaat gekk sem sagt út á það að einhver maður spurði mig fyrst út í sjálfa mig og bakgrunn minn. Ég svaraði því eftir bestu getu, hélt að maðurinn vildi vita hvort hann færi mannavillt. Svo fór viðmælandinn eitthvað að rugla um að hann sjálfur væri geðlæknir og hvernig ég gæti fullyrt að einhver væri geðveikur. Ég kom nú alveg af fjöllum, ég talaði örugglega ekkert um geðveiki eins eða neins og það  að vera skúrkur, versti viðskiptamaðurinn, óhæfur borgarstjóri eða telja sig með mörg hnífasett í bakinu er nú ekki sama og vera geðveikur. Ég hvessti mig nokkur við viðmælanda í símanum þegar ég hafði áttað mig á hvað hann væri að ásaka mig um og heimtaði að vita meira um við hvern ég talaði og hvaða lægi að baki símtalinu. Viðmælandi lauk símtalinu með einhvers konar hótun, eitthvað um að símtalið væri tekið upp og sýnt í beinni, rövlaði eitthvað um einhvern skjá.

Svo sá ég rétt áðan að einhver hafði skráð sig inn á blog.is undir nafni Kristins H. Gunnarssonar alþingismanns og mynd af Kristni og  skrifað  einhverja aulalega typpalengingarfærslu sem komment við bloggið hjá mér.  Mér finnst þessi stjáklarahegðun vera alvarleg, það er í fyrsta lagi alvarlegt að falsa auðkenni annarrar áberandi persónu og tengja nafn alþingismanns við svona kommentastalkera. Í öðru lagi er alvarlegt að ráðast inn í líf fólks með símtölum og ógnandi framkomu, tala niður til fólks og saka það um eitthvers konar glæp (ég áttaði mig nú reyndar ekki á því í símtalinu hvaða glæp ég átti að hafa framið með tjáningu í Kastljósviðtölum í gær og dag) og í þriðja lagi þá gekk gjörsamlega fram af mér þegar sá sem hringdi í mig var með einhverja hótun að hann hefði tekið þetta upp og væri að spila einhvers staðar í beinni.  Þetta er mjög vondur hrekkur. Það virkar nú reyndar ekki á mig hvort eitthvað sé spilað í beinni sem ég segi, ég hef einmitt reynt að vera með sem opnasta tjáningu sjálf í ýmsum vefrýmum  í mörg ártil að prófa svona miðlun. En það er ólöglegt að taka upp einkasamtal og það er ólöglegt að birta svona einkasamtöl og það sem var verst - það virtist vera einlægur ásetningur þess sem stóð að þessu símaati að fá mig til að tala eitthvað um geðveilu nafngreindra persóna (sem ég reyndar fékkst ekki til að gera þó þetta væri einkasamtal) og að því leyti er þetta samtal siðlaust. Ég velti fyrir mér hvort löglegt er hjá mér að skrifa þetta símanúmer hérna en það var hringt í mig úr númeri 8494331 kl. 22:13 í kvöld. 

Ef einhver annar hefur fengið  sams konar símtöl úr þessu símanúmeri eða þekkir til þeirra sem að því standa þá væri gott að vita af því. 

En ég nenni ekki að gera meira í þessu máli úr því ég er búin að tjá mig um hve það pirraði mig mikið. Kannski var sami að stalka mig í kommentum og í símtali.

Smáupprifjun um álitsgjafann mig: 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég hóf upp raust mína í bloggheimum þann 1. apríl 2001 með blogginu Álitsgjafar Íslands en það fjallaði einmitt um valdið sem orðræðan býr til og það er hugleiðing um hvernig eða hvort blogg muni breyta fjölmiðlun. Á þeim tíma vissu fæstir hvað blogg var og bloggsamfélagið á Íslandi var um tuttugu sjálfhverfir nördar.

En það er gaman að rifja upp það sem ég sagði um blogg og álitsgjafa og vald fyrir sjö árum.
Hér er brot af því: 

Það er samt umhugsunarefni er að með því að segja að einhver sé álitsgjafi þá verður hann að álitsgjafa eða alla vega fær eins konar völd í krafti þess að einhver heldur að hann hafi áhrif og hamrar á því við aðra. Ef við lifðum ennþá í einangruðu samfélagi þar sem einu boðin sem berast um samfélagið væru þessi skekkta mynd sem hefðbundnir fjölmiðlar gefa af valdinu - þessi mynd sem er byggð að hluta til á óskhyggju þeirra sem ráða yfir rödd sem ómar lengra en annara um að þeirra sé mátturinn og dýrðin - þá myndum við ef til vill trúa og þannig ýta undir valdið sem orðræðan býr til. En tímarnir eru breyttir og enginn þarf nú að treysta á fjölmiðlarisa og opinberar fréttastofur sem einu rásina sem lýsir og skýrir framvindu atburða. Rödd hvers einstaklings getur hljómað og náð til þúsunda í gegnum ljósþræði Netsins en þær raddir sem þar kveða nú eru ekki samvalinn kór heldur sundurlausar og hrjúfar og stundum eins og gargandi hávaði.

Mun frásagnarstíll breytast?

Þeim fjölgar óðum sem tjá skoðanir sínar, viðhorf og flytja fréttir af tilveru sinni á Netinu. Í sumum tilvikum er það í gegnum netrit gróinna áhrifaafla - eins konar framlenging, umbreyting og útvíkkun á annarri áróðusstarfsemi en í sumum tilvikum er þetta nýtt form, tjáningarform sem Netið hefur gert mögulegt. Einstaklingar sem tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?

Það er umhugsunarefni að í þessu bloggi er ég sérstaklega að bera saman blogg og dagblöð. Ég held að á þessum tíma hafi ég verið  einna framsýnust á Íslandi um hvaða áhrif blogg myndi hafa, þetta var á tíma þar sem blogg þótti mjög óvirðulegt og ungæðingsleg tímaeyðsla og nördaiðja. Núna aðeins sjö árum seinna eru það sem áður voru dagblöð að breytast í einhvers konar blogggáttir. Þannig  er Mogginn á Netinu afar mikið tengdur blogginu og eyjan.is er blogggátt. Það er ekkert efamál að bloggsamfélagið styrkir mbl.is, það tryggir miklu meiri umræðu og lestur að hafa í kringum sig öflugt notendasamfélag. 

 

test

Sagan um Ísland (2008) og Vínland hið góða (2010)

Sagan segir að fyrir meira en þúsund árum komu forfeður Íslendinga úr Noregi, þeir voru að flýja norska hárprúða kónga sem settu skatt á þegna sína, ekki  velferðarskatta til að dreifa afrakstri vinnunnar um samfélagið og jafna lífskjörin heldur hrifsiskatta sem kóngar tóku til að geta haldið áfram að vera kóngar og snyrta hár sitt og hafa um sig hirð og halda hirðskáld sem sem skálduðu upp hetjusögum um þá.

Þúsund ár eru langur tími fyrir fólk. En í heimi þar sem lífið sem við þekkjum er bundið við  örsmáa plánetu inn í örsmáu sólkerfi sem sjálft er inn í einni af fjölmörgum vetrarbrautum, heimi þar sem sólin örsmáa er 200 milljónir ára að fara hring um okkar vetrarbraut, heimi þar sem okkar vetrarbraut er bara ein af  um 100 milljörðum  af vetrarbrautum þá eru þúsund ár dagur og einn dagur sem þúsund ár og jarðlífið  er andartak þar sem lífið lýtur dauðanum og allt byrjaði í örlitlum punkti.

Árin þúsund er hæg að setja inn í sögu og nú skálda þeir sem eftir sátu í gamla landinu upp andhetjusögur um þá sem flúðu  Noreg fyrir þúsund árum.  Nýjasta sagan er goðsaga og gleðisaga um peningaspilið sem barst um heiminn frá Íslandi og hún er birt hérna  Soga om islendingane og det store pengespelet

Hvernig grínsögur munu Norðmenn segja um Vínland hið góða árið 2010? Halda Norðmenn og Bretar og Bandaríkjamenn að ríki sín séu svo voldug og stór að ekkert muni þeim granda? Saga siðmenninga og ríkja í hinu örsmáa mannlífi á hinni örsmáu plánetu er ekki löng en samt hafa siðmenningar dáið út og borgir lagst í eyði og tíminn afmáð spor um menningu sem einu sinni var. Því flóknara og samtengdara sem samfélagið er þeim mun viðkvæmara er það fyrir því að brotna niður.

Rússar vita vel að voldug og stór menningarríki geta liðast í sundur á örskömmum tíma.  Landakort heimsins og heimsmyndin breyttist með hruni Íslands og landið færðist einhvers staðar langt út í haf, miklu lengra út en það var áður.

En hvernig lítur landakortið fyrir landið sem Leifur heppni fann á ferðum sínum fyrir þúsund árum? Verður það skráð á kort eins og þessi grein segir frá? 

As if Things Weren't Bad Enough, Russian Professor Predicts End of U.S. - WSJ.com

 

 

 



 


Prjónajól

xIMG_2810
Þetta voru prjónajól. Systir mín á Hanhóli í Bolungarvík gaf dætrum mínum í jólagjöf  prjóna og garn og skrautritað kort sem var félagsskírteini í Handverks-, hannyrða og heimslistaklúbbinn "Ásta frá Undirfelli". Á félagskírteininu stóð: 

"Elsku frænka

Þú ert hér með innvígð í Handverks-, hannyrða og heimslistaklúbbinn "Ástu frá Undirfelli. Félagsfundir eru sveigjanlegir og fara fram er formaður er í bænum eða 2 eða fleiri klúbbmeðlimir óska þess. Skilyrði fyrir veru í klúbbnum er skapandi hegðun til hugar og handa, glaðværð, kæti og kímnigáfa. Klúbbaðild getur gengið í arf eins og eiginleikar."

Svo gaf ég Kristínu bókina "Lærið að prjóna". Kristín kom svo á óvart því hún hefur haft ýmislegt á prjónunum undanfarið og hefur lært að prjóna vettlinga og gaf bæði mér og systur sinni í jólagjöf  lopavettlinga sem hún hafði prjónað sjálf. Hún er líka að prjóna sokka handa pabba sínum og hefur nú með aðstoð bókarinnar góðu náð tökum á hælúrtöku. 

Ásta Lilja á afmæli í dag. Við mæðgurnar héldum upp á það með því að fara út að borða. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband