Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Forsetinn og bankastjórinn

Núna í miðju öldurótinu þá er ekki besti tíminn til að greina hvað gerðist. Það þarf meiri fjarlægð frá atburðunum. En við erum öll ósjálfrátt í leit að sökudólgum. Við höfum reyndar fundið þá víða og böndin berast að litlum hópi ófyrirleitinna fjárglæframanna sem notfærði sér veilur í eftirlitslausu flæði fjármagns á milli landa og hvernig hægt er nánast að búa til peninga með því að selja hver öðrum hlutabréf og eiga ítök í bönkum sem lána viðkomandi peninga fyrir skuldsettar yfirtökur. En við erum líka að leita að sökudólgum hjá þeim sem hefði átt að vera á verðinum og spyrjum eins og Lilló Af hverju sagði enginn okkur neitt?

Það eru margir sem hefðu átt að vara okkur við og vaka yfir velferð okkar. Fyrst eru það stjórnmálamennirnir sem voru við völd og fjármálastofnanir samfélagsins. En það eru líka fjölmiðlarnir og það verður að horfast í augu við að einmitt þeir sem glæfralegast fóru með fé lögðu kapp á að eiga fjölmiðlana og margir bestu fjölmiðlamenn Íslands sungu þeim lof og dýrð því þeir höfðu atvinnu af því. En það voru líka margir aðrir sem dásömuðu útrásina og voru erindrekar hennar. Einn þeirra var forseti Íslands.

Það voru í kvöld áhugaverð viðtöl við forsetann á Rúv og við fyrrum bankastjóra Landsbankans á Stöð 2. Þetta var í báðum tilvikum einhvers konar uppgjör manna sem hafa staðið fyrir stefnu sem ekki gekk upp. Báðir eru þessir menn ljónskarpir og ég held að það hjálpi okkur að skilja hvað gerðist að hlusta á þá. Hins vegar er orðræða þeirra lituð af sýn þeirra og þeirri eðlislægu viðleitni okkar mannanna að fegra sjálfan sig. Ég held ekki að Jón Ásgeir sem flaug hingað í einkaþotunni sinni með breskan hrægamm  muni hjálpa til við að reisa Ísland úr rústum. Ég held að siðferðisþroski hans sé ekki mikill og hann skorti bæði gáfur og skerpu og það sem er allra mikilvægast, það er samhygð (empathy).

En ég held að bæði forseti Íslands og fyrrum landsbankastjóri geti unnið gott starf í uppbyggingarstarfi á Íslandi. 


mbl.is Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gordon Brown með lunda á hausnum

 

Það voru nokkrar fyndnar myndir á timesonline.co.uk.  Hér er mynd af Íslandsvininum Gordon Brown. Hann er með lunda á hausnum. Lundinn virðist vera tákn um Ísland. Mér finnst þetta soldið sniðugt vegna þess að í fyrsta skipti sem ég las eitthvað um þennan fugl (þ.e. lundann ekki Brown) þá var það í einni af bókum Enid Blyton um hin fimm fræknu.  Ég man hvað mér fannst þetta ævintýralegt og spennandi sagan af krökkunum sem voru ganga um lundaholubyggð. Þetta hefur sennilega verið sagan"The Sea of Adventure".

Svo eru ekki mörg ár síðan ég komst að því að það eru miklar lundabyggðir rétt hjá þar sem ég ólst upp í Laugarnesinu, það er mikil lundabyggð í eyjunum þar fyrir framan. 

morland385_413576aÞessi mynd af Gordon Brown segir frá því hvernig hann ver nú fé skattgreiðenda en við það aukast vinsældir hans mjög. 

Það hefur hjálpað Gordo Brown að skammast við Íslendinga. það hefur hitt alveg í mark hjá Bretum að manni sýnist. 

En hér eru meiri skopmyndir af þessum ástmögi íslensku þjóðarinnar.

Ég hef gott af því að skoða svona myndir. Þegar ég hlustaði á fyrstu skammirnar til Íslendinga þá leið mér eins og ég hugsa að almenningi Í Írak hafi liðið þegar það hlustaði á Bush Bandaríkjaforseta búa til óvin úr þeim og fullyrða eða gefa í skyn að þær geymdi fólk kjarnorkusprengjur undir koddanum eins og við ættum að hafa geymt þessa peninga Icesave. Mér fannst maðurinn svo ógnandi og svo yfirmáta furðulegt að búa til hryðjuverkafólk úr okkur hérna á Íslandi. En  svona geta stórir og grimmir og voldugir foringjar í lögregluríki hegðað sér. Þessir menn eru hættulegir.

 


mbl.is Ábyrgjumst 600 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóður dóttur minnar

Yngri dóttir mín 18 ára var dugleg að safna sér fé í sumarvinnu og vinnu meðfram skóla og hún treysti mér til að varðveita það. Hún ætlaði þetta fé til að kaupa bíl.  Ég hef þetta fé bundið í tveimur hlutafélögum og sagði við hana að þetta skyldi vera lexía hennar í fjármálum, hún skyldi fylgjast með því  hvernig hlutabréfamarkaður virkaði en ég myndi taka ábyrgð á því ef hlutabréf þessara félaga lækkuðu mikið. Þessi hlutafélög sem ég festi fé dóttur minna í eru Atorka og HB-Grandi. Svo vill til að frá því að hún byrjaði að spara þá hafa bæði þessi félög verið tekin af hlutabréfamarkaði.

Nú hefur hún lært þá lexíu að hlutabréfamarkaður virkar stundum alls ekki. Nú er ekki lengur verslað með bréf í þessum félögum og það er engin verðmyndun á markaði með þau.  Bréfin í HB-Granda hljóta hins vegar að halda nokkuð vel verðgildi sínu, það eru sjáanlegar eignir og kvóti og frystitogarar bak við þau bréf. Bréfin í Atorku eru óviss eign, Atorka er kjölfestufjárfestir í Geysir Green Energy og í ýmsum fleiri fyrirtækjum eins og  Promens sem mun að vera einn af stærstu plastframleiðendum í heimi og vera á Íslandi (sjá hérna)

Hvernig fer með sjóð dóttur minnar í nánustu framtíð? 

Hún á núna lítill part af því sem áður var Bæjarútgerð Reykvíkinga en heitir núna HB-Grandi og hún á núna lítinn part af fjárfestingarfyrirtæki. Það er ekki víst að þetta sé mikils virði núna þegar allt er á hvolfi  en það getur verið að það breytist.

Hér er er upplýsingar um stjórn Atorku. Þar sitja nú í stjórn Þorsteinn Vilhelmsson, Hrafn Magnússon, Ólafur Njál Sigurðsson, Örn Andrésson, Karl Axelsson, Stefán Bjarnason og Magnús Gústafsson.

Hér er skipurit yfir stjórn Granda. Þar sitja eingöngu karlmenn í stjórn.

Hugsanlega verður þetta öðruvísi lexía fyrir dóttur mína en ég ætlaði upphaflega. Hugsanlega verður þetta lexía í því hverjir sýsla með og stjórna verðmætum í samfélaginu og hvaða hópar samfélagsþegna fá ekki að að koma þar að. Af hverju eru engar konur hvorki í stjórn Atorku né stjórn HB-Granda?

Ég mætti á síðasta aðalfund hjá HB-Granda og ég bauð mig fram í stjórnina. Ég stefni líka að því að mæta á næsta aðalfund og þá ætla ég líka að bjóða mig fram. Ég sennilega býð mig líka fram í stjórn Atorku og vonandi tekur dóttir mín við af mér og reynir að komast til áhrifa þar sem sýslað er með lífsafkomu fólks og eigur heilla samfélaga. Vonandi mun hún berjast fyrir því að löggjöf okkar leyfi ekki að svona mikil slagsíða sé á félögum amk ekki almenningshlutafélögum varðandi kynjahlutföll. Það er kannski ekki hægt að kalla þetta slagsíðu, því á báðum stöðum eru konur ekki sýnilegar.

Talandi annars um það.... hvað voru margar konur í hinum margumtalaða útrásarvíkingahópi og í hinum glæfralegu fjárfestingum sem núna hafa sett Ísland á hliðina?

 

 


mbl.is Atorka óskar eftir afskráningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannauður í bönkunum - Bjartsýnisganga á Esjuna

IMG_1549

Við ættum að huga að því núna að það er mikill mannauður meðal starfsmanna íslensku bankanna, bæði meðal þeirra sem núna takast á við það mikla verkefni að byggja aftur upp úr rústum íslenska bankaþjónustu og líka meðal þeirra sem ekki halda vinnunni.  Störf í fjárfestingarfyrirtækjum og bönkum hafa undanfarin ár tekið til sín margt hæfileikafólk, margir starfsmenn eru sérmenntaðir í einhvers konar viðskipta- og markaðsfræðum en margir eru líka með ýmis konar annars konar menntun. 

Það er afar sorglegt að blómlegur atvinnugrein sem veitti mörgum vinnu leggist nú á hliðina en þetta er að gerast alls staðar í markaðskerfi heimsins, það er eflaust mælt í hundruð þúsunda allir bankastarfsmenn sem eru að missa vinnuna í heiminum í dag. Vonandi mun það fara svo að samfélagið nýtir hugvit og krafta þeirra sem nú missa vinnuna við að byggja upp annars konar atvinnustarfsemi, ég er sannfærð um að einmitt í bönkunum hafi verið samankomið einmitt það hugvit sem samfélög þurfa á í dag. Það voru aðstæður sem voru ekki í valdi venjulegra bankastarfsmanna sem veltu fjármálakerfi heimsins á hliðina. Það er mjög erfitt hjá mörgum bankastarfsmönnum á Íslandi í dag og við þurfum að standa við bakið á því fólki.

esjan-salvor

 Það er ennþá éljaveður og fárvirði í samfélaginu og óvissa um hvernig lendingin verður. Ég fór á laugardaginn í bjartsýnisgöngu með Ferðafélaginu upp á Esjuna, það hjálpar til að horfa yfir þessa yndislega fallegu borg ofan af þessu fjalli sem hefur verið hluti af tilveru minni síðan ég man eftir mér. Ég hugsaði þegar ég horfi niður á Reykjavík að þessi borg með þessi miklu landgæði gæti ekki annað en staðið af sér þetta óveður og hún mundi í fyllingu tímans halda áfram að vaxa og dafna. Það hafa oft komið þrengingatímabil í sögu borgarinnar, saga hennar er lengri en saga mín. Yfir borginni gnæfir Esjan og þó allt sé á fleygiferð í veröldinni og mörg mannanna verk sem byggð eru úr efni sem ekki stenst áhlaup þá  stendur Esjan  ennþá á sínum stað.
Esjan er fjallið í Reykjavík.

Efri myndin er af dóttur minni bankastarfsmanninum í bjartsýnisgöngunni á Esjuna og neðri myndin er af mér.


mbl.is Um 300 fá ekki störf í Nýja Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er hægt að gera í ástandi sem er verra en þjóðargjaldþrot?

Það er of snemmt að  stilla upp hverjar þær skuldir eru sem Íslendingar þurfa nú að greiða vegna lögbundinna ábyrgða, það á eftir að selja þær eignir sem bankarnir áttu. Það hins vegar er engin ástæða til bjartsýni, sérstaklega ekki þegar við sjáum hvernig gráðuðir fésýslumenn eru eins og hrægammar að kaupa núna upp eignirnar fyrir aðeins brot af því sem þær hefðu farið fyrir ella. Eigur bankanna eru á brunaútsölu og það getur líka verið að stór hluti þessarra eigna séu einhvers konar bankapappírar sem misst hafa verðgildi sitt þegar bankaspilaborg heimsins hrundi.

Í  versta falli verða skuldirnar kannski þjóðarframleiðsla nokkurra ára á Íslandi. Það eru óheyrilega miklar skuldir og ef svo fer þá má hugleiða hvort hér sé ekki alveg brostinn grundvöllur til að halda uppi sjálfstæðu ríki. Svona stórskuldugt ríki hefur enga möguleika að standa vörð um hagsmuni þegna sinna og við getum ekki greitt þessar skuldir nema með stórkostlegum skattahækkunum eða með því að selja frá okkur allt sem gæti tryggt framtíð okkar. 

Sumir horfa á Evrópusambandið og það er nú örugglega þannig að við getum ekki verið hér innimúruð í krónufangelsi. Það virðist allt benda til þess að við séum á þeirri leið. Hins vegar er stefna Evrópusambandsins varðandi auðlindir okkar ekki góð. 

Það kann að vera miklu betra fyrir okkur að gangast aftur Noregskonungi á hönd.  Við höfum sömu hagsmuni og Norðmenn varðandi auðlindir hafsins og stórt ríki á Norðurslóðum hefur meiri slagkraft en lítil og dreifð þegar baráttan hefst fyrir alvöru um Íshafið.


mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef þetta virkar ekki?

Ég er ekki allt of bjartsýn á að leiðtogar Evrópuríkja ráði við kreppuna. Það er bara því miður ekki hægt að planta aftur trausti inn í heila allra jarðarbúa, það eru flestir sem fylgjast með viðskiptum í paník og viðbrögð flestra eru að girða sig sem mest inni og kaupa sem minnst. Þetta þýðir að eftirspurn eftir flestum vörum minnkar. Ríki sem stóðu ágætlega áður og bjuggu ekki við neina lausafjárkreppu finna fyrir því að eftirspurn hefur minnkað á vörum sem þau selja.

En samstillt átak þjóða Evrópu dregur alveg örugglega úr skaðlegum áhrifum. Hins vegar er hagkerfi Evrópu og það kerfi sem fjármagn og fjármagnsupplýsingar flæða eftir mun þróaðra og samtvinnaðra og samhæfðara en stjórnkerfi landanna. Hið samtvinnaða hagkerfi hefur frosið blýfast en það er ekki víst að stjórnvöld ráði við að þýða klakann úr kerfinu. 

Það er áhugavert að lesa umræðuna, Ísland kemur þar víða við sögu. Kreppan er eins gríðarlega hamfarir og tortíming heimsins. Hér er grein á Guardian sem byrjar á því að greinarhöfndur segir frá því að hann hafi farið í sumarfrí en komið í breyttan heim, bankar loguðu stafna á milli og Bretland komið í stríð við Ísland.

Is this the end of the world? If so, it's a bit more boring than I imagined: an invisible apocalypse

 

Great. I go on holiday, turn my back for a few weeks, come back and what has happened? The banks are on fire and we're at war with Iceland.

Bankar og fjármálastofnanir falla eins og spilaborgir, já og reyndar voru þær líka eins konar spilaborgir sem bjuggu til peninga með að velta upphæðum og pappírum til og frá.

Wall Street Journal er með fínt myndrænt kort um hvernig heimskreppan læsir krumlum sínum um heiminn.  

Hér er wikipedia greinar um kreppuna Financial crisis of 2007–2008 og Economic crisis of 2008

Svo eru hérna greinar um hvernig kreppan er í einstökum löndum


mbl.is Ábyrgjast millibankalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvíði fyrir morgundeginum

Það er farið að vera erfitt að mæta hverri nýrri viku. Því miður eru engar líkur á því að við séum búin að ná botninum. Síðasta vika var martröð. En enginn á Íslandi átti þó von á því að breska ríkisstjórnin myndi breytast í urrandi villidýr sem hikaði ekki við að meðhöndla eigur íslenskra banka eftir hryðjuverkalögum. Þetta er atburðarás sem Íslendingar sjá ekki við og skilja ekki, atburðarás hönnuð af spindoktorum Breta, leikur sem þeir eru öðrum klárari í. Hugsanlega tengist þetta því að breski forsætisráðherrann vill nota þetta vinsæla mál í Bretlandi til að leiða athyglina frá því að þar falla bankar eins og hráviði alveg eins og íslensku bankarnir.

Ég segi að þetta sé vinsælt mál í Bretlandi vegna þess að það er myndrænt. Hér er sagan af hetjunni Gordon sem leggur til atlögu við  víkinga eða sjóræningja sem komu frá eyju út í ballarhafi og hjuggu strandhögg og stálu sjóðum frá löggum og líknarfélögum og sveitarfélögum, svo senda bretar sendinefnd til að sækja ránsfenginn. Sendinefndin snýr við því hún heimtar meira en Íslendingar vilja ábyrgjast og heldur þannig Íslendingum áfram í gíslingu og passar til að beina athyglinni frá bankafalli þarlendra banka.

Það að hvæsa sig við Íslendinga hefur sennilega  einhvern hernaðarlegan tilgang, það er núna að hefjast barátta um orkulindirnar miklu við Íshafið og ítök stórveldanna á þessu svæði. Bretar eru að byrja að teikna upp Íslendinga upp á nýtt, ekki sem bandalagsþjóð heldur sem peningaþvættis hryðjuverkalið sem ætlar að selja sig Rússum á  hönd. 

Jónas.is  segir okkur að ástandið sé verra en Geir hefur sagt. Málið er að það er ekkert nýtt að það sé ekki mikið að marka það sem Geir Haarde segir þegar hann talar um efnahagsmál Íslendinga. Ég hugsa að upp á síðkastið hafi hann vísvitandi leynt ástandinu m.a. vegna þess að hann vissi að það myndi setja á stað keðjuverkun í bönkum erlendis í eigu íslendinga  og meðal viðskiptavina þeirra.  Geir hlýtur að hafa í mörg misseri áttað sig á því að Ísland sæti á púðurtunnu, hann er hagfræðimenntaður og hefur stýrt fjármálum þjóðarinnar allt þar til hann verður forsætisráðherra. Ef einhver hefði átt að sjá fyrir þessa stöðu og vita hvert stefndi og hafa aðgang að upplýsingum þá var það Geir Haarde. Ég held hins vegar að Geir vinni eins og hann getur núna að því að tryggja hagsmuni Íslendinga til framtíðar.

Hugsanlega virkar þetta upphlaup Gordons Brown líka þannig að Geir verður ekki fyrir þeirri gagnrýni hér innanlands sem hann myndi ella verða fyrir. Er þetta Gordon-Geirs dæmi kannski sameiginlegt spinn þeirra og búið að ákveða hvenær sættir verða? Það er örugglega dáldið erfitt f fyrir Nató að  kyngja því að Ísland þurfi að leita til Rússa. Ef Nató skilgreinir Rússland sem eina mestu ógnina er þá ekki ansi lúpulegt ef stórt landsvæði á þeim stað þar sem baráttan verður harðvítugust næsta áratuginn er háð Rússlandi? 

En mér finnst mikilvægt að sæta ekki neinum afarkostum frá Bretum. Ísland verður að standa við alþjóðasamninga þ.e þessa lágmarksupphæð sem er tryggð á reikningum en ekki meira en það.

Hérna er það sem Jónas skrifaði: 

12.10.2008
Fjárkúgun Gordon Browns
Ástandið er miklu verra en Geir Haarde hefur sagt ykkur. Gordon Brown hefur í krafti nýrra laga um hryðjuverk lagt hald á 4 milljarða punda af eignum Íslands og Íslendinga í Bretlandi. Bara til að mæta 3 milljarða punda skuldum IceSave við stofnanir í Bretlandi. Er til viðbótar 2 milljarða skuldum IceSave við einstaklinga í Bretlandi. Ekki er vitað, hvort gull- og gjaldeyrisforði Íslendinga er innifalinn. Þetta ætlar Brown að hafa frosið meðan Ísland og Bretland semja um málið. Ef staðan er eins og fréttastofan Press Association segir núna, er betra fyrir Geir að neita alveg að borga.


mbl.is Breskir bankar yfirteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wikipedíugreinar um kreppuna á Íslandi komnar á sex tungumál

Ísland er núna fyrsta forsíðufréttin á   Wikipedia.

Það eru komnar greinar á nokkur tungumál um Íslandskreppuna. 

 Íslenska

 English

 Français

 Bahasa Indonesia

 中文

עברית


Útsala í október - stríð um Íshafið

 chris

Ef ég skil málin rétt þá eru Íslendingar í mjög klemmdri stöðu. Þessa stöðu hafa spunameistarar breska fyrrum heimsveldisins búið til.  Gordon Brown forsætisráðherra hvæsir á Íslendinga og sendir hérna  vin sinn til að semja um að maður með breskt vegabréf og fulltrúi þarlendra vogunarsjóða taki við eigum Baugs og þar með dýrmætustu veðum íslensku bankanna á brunaútsöluverði. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er okkar helsta von núna en hann setur þau skilyrði að fyrst sé samið við Breta.  

Þetta mál er afar stórt í sniðum og hefur eldfima þýðingu ekki bara á Íslandi heldur líka fyrir Bretland. Það eru 35.000 störf í húfi í þessum fyrirtækjum að því er Jón Ásgeir segir. Það kemur fram í breskum vefmiðlum að það voru 25% breskra sveitarstjórna sem voru með reikninga á Icesave og þar voru líka geymdir sjóðir lögreglu. Svo er hryðjuverkjalögum beitt á Ísland. Það er afar loðið hvort hryðjuverkalögum hafi eingöngu verið beitt á banka (sem mér sýnist vera) eða líka á fyrirtæki sem Íslendingar eiga. Alla vega er þetta að hafa mikil áhrif ekki eingöngu á Baugsfyrirtækin heldur líka á alla verslun Íslendinga og ég geri ráð fyrir að stór hluti af fiski okkar sé selt til Bretlands.

Svo eru Íslendingar í viðræðum við Rússa um lán og myndi það verða í fyrsta skipti sem Rússar koma Natóþjóð til aðstoðar.

Hvað geta Íslendingar gert? 

Sennilega myndi koma sér ansi illa fyrir Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands að fyrirtæki Baugs færu í þrot og aðgerðir hans yrðu til að 35.000 manns væru í lausu lofti. Hugsanlega mun það valda svo mikilli upplausn að hann hrekst frá völdum. Ekki sítum við það Íslendingar.

Hins vegar eru að mér skilst helstu eignir íslensku bankanna veð í hlutabréfum félaga eins og Baugs og það er auðvitað mikilvægt að gera ekki hluti sem verða til þess að þessi veð verða að engu. En málið er reyndar þannig núna að allt útlit er fyrir að bréf í mörgum hlutafélögum í heiminum séu orðin að engu og það er ekkert sem íslensk stjórnvöld ráða við.

Ég hlustaði á Ragnar í Silfri Egils áðan. Ég er sammála honum, við eigum ekki að ganga að afarkostum, við getum róið til fiskjar og við getum ræktað hérna rófur og kartöflur og höfum nú töluverð verðmæti uppsöfnuð í landinu til að þola töluverðar þrengingar næstu ár. Við þurfum bara að gerbreyta um lífsstíl og hugsa um að spara allt sem kemur erlendis frá.

Hins vegar hugsa ég að þær þrengingar sem þjóðir heims standa núna frammi fyrir séu ekki bara varðandi hrun í fjármálakerfinu. Hrun fjármálakerfisins mun hafa áhrif á fyrirtæki og fyrirtækin munu falla og fólk missir vinnuna.  Stórskuldug stjórnvöld hafa ekki mikið að bjóða í fjöldaatvinnuleysi þegar skatttekjur minnka á sama tíma mjög mikið.  þetta mun valda mikilli upplausn, það er viss hætta á að sú upplausn verði svo mikil að það einhver ríki verði á barmi borgarastyrjaldar, ríki sem við núna tengjum við vestræn lýðræðisríki. Stjórnvöld í þessum ríkjum munu kalla þetta "war on terror" og ekki hika við að beita lögum sem þau hafa komið sér upp til að vernda "alsherjarreglu".

Það getur líka verið að það verði vinsælt í svona ástandi að gera árás á óvinveitt nágrannaríki sem hafa gengist Rússlandi á hönd. Kannski er nú svo komið að helsta ástæðan fyrir okkur að vera í Nató er það skjól sem það gefur okkur gagnvart Bretlandi. Kannski er það ekkert skjól þegar til kastanna kemur, það er ekki víst að við samninga sé staðið. Gordon Brown og hans líkar geta spunnið upp ástæður alveg eins og þeir gátu spunnið upp ástæður til að beita hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi. Hugsanlega var það með ráðum gert - hugsanlega var það að beita núna hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi gert til að sá fræum í huga bresks almennings, að tengja Íslendinga við hryðjuverk. Hugsanlega var þetta raunverulegur ásetningur þessarar aðgerðar.

Við skulum vera minnug þess að flestar innrásir og stríð sem við höfum háð (ekki mjög mörg, og ekki mjög mannskæð) eru við Englendinga. Var það ekki við þá sem þorskastríðin voru háð? Voru það ekki Englendingar sem peppuðu upp Jörund hundadagakonung á sínum tíma? 

Varðskipin tvö eru nú ekkert sérlega miklar landvarnir hérna á Íslandi. 

En það þarf að hefja málaferli og reyna að skýra málstað okkar í breskum fjölmiðlum.  Það þjónar hagsmunum Breta meira en Íslendinga að hindra að fyrirtæki í Bretlandi fara í greiðslustöðvun og það er sennilegt að stjórnvöld þarlend átti sig vel á því.

Sókn er stundum besta vörnin.


mbl.is Samskipti Philips Green og Íslendinga endurvakin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóræningjaþjóðin

Sagan um Ísland og ævintýrið um hvað gerðist á Íslandi er vinsælt umfjöllunarefni í heimspressunni þessa daganna.  Greinin Iceland meltdown í Sunday Times er afar vel skrifuð en hún er mikil einföldun á sögunni um hvað gerðist. Greinin er skrifuð eins og víkingasaga, væringjasaga af Íslendingnum Thor sem byrjaði víkingaáhlaup sín í Pétursborg og bruggaði þar mjöð. Síðan setti hann upp bækistöðvar á Íslandi til að vera í skjóli krónunnar og hóf strandhögg við Bretland.  Hann og svipaðir aðilar sem óðu í lánsfjármagni fóru á "acquisition spree" þar sem skuldsett yfirtaka en ekki sverð og spjót er víkingavopn 21. aldar.  Greinin er líka um víkingahöfðingjann Davíð sem yrkir ljóð og lofar Auden og vill búa til land sem skáldin dásama en ræður einn öllu og stjórnar með ofríki.

Það er vissulega illa komið fyrir Íslandi og það er að hluta til komið vegna rangra ákvarðana stjórnvalda og seðlabanka og vegna þess að útrásarvíkingar sem áttu banka eða ítök í bönkum sem lánuðu þeim peninga komust upp með að stunda einhvers konar fjárhættuspil og matador með stórar verslunarkeðjur í Bretlandi. 

Ég hugsa hins vegar að þegar rykið sest þá muni sagan af því sem gerðist á Íslandi vera meira sett í samband við það sem gerðist í heiminum. Það er nefnilega ekki víst að ástandið sé neitt miklu betra annars staðar og  núna í dag 12. október eru voldugust þjóðir heims á fundi í París að taka örlagaríkar ákvarðanir. Hugsanlega ákvarðanir um að helstu verðbréfamarkaðir heimsins verði lokaðir um sinn.

En ástæðan fyrir því að sagan af Íslandi er sögð núna er vegna þess að þar féllu bankarnir. Íslenskir bankar stóðu vissulega á brauðfótum en það gera líka bankar um allan heim. Það var hins vegar íslensku þjóðinni algjörlega ofviða að bjarga bönkunum og það kemur reyndar mér og sennilega öllum Íslendingum núna á óvart að við séum sem þjóð ábyrg fyrir einhverjum hluta af innlánum á netbankareikninga í Bretlandi og Hollandi. Það er ansi mikill skellur fyrir íslensku þjóðina að þurfa að taka á sig slíkar skuldbindingar. Við verðum bara að bíða og sjá hvað kemur út úr þessum samningum til að sjá hve miklar skuldir Íslendingar þurfa að taka á sig. Geir segir að ríkissjóður okkar sé núna nánast skuldlaus. Það getur að þrátt fyrir að þessar ábyrgðir ríkissjóðs falli á okkur þá verðum við ekki skuldugri en þjóð heldur en t.d. Bretar og Bandaríkjamenn.  


mbl.is Ísland enn í kastljósinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband