Kvíði fyrir morgundeginum

Það er farið að vera erfitt að mæta hverri nýrri viku. Því miður eru engar líkur á því að við séum búin að ná botninum. Síðasta vika var martröð. En enginn á Íslandi átti þó von á því að breska ríkisstjórnin myndi breytast í urrandi villidýr sem hikaði ekki við að meðhöndla eigur íslenskra banka eftir hryðjuverkalögum. Þetta er atburðarás sem Íslendingar sjá ekki við og skilja ekki, atburðarás hönnuð af spindoktorum Breta, leikur sem þeir eru öðrum klárari í. Hugsanlega tengist þetta því að breski forsætisráðherrann vill nota þetta vinsæla mál í Bretlandi til að leiða athyglina frá því að þar falla bankar eins og hráviði alveg eins og íslensku bankarnir.

Ég segi að þetta sé vinsælt mál í Bretlandi vegna þess að það er myndrænt. Hér er sagan af hetjunni Gordon sem leggur til atlögu við  víkinga eða sjóræningja sem komu frá eyju út í ballarhafi og hjuggu strandhögg og stálu sjóðum frá löggum og líknarfélögum og sveitarfélögum, svo senda bretar sendinefnd til að sækja ránsfenginn. Sendinefndin snýr við því hún heimtar meira en Íslendingar vilja ábyrgjast og heldur þannig Íslendingum áfram í gíslingu og passar til að beina athyglinni frá bankafalli þarlendra banka.

Það að hvæsa sig við Íslendinga hefur sennilega  einhvern hernaðarlegan tilgang, það er núna að hefjast barátta um orkulindirnar miklu við Íshafið og ítök stórveldanna á þessu svæði. Bretar eru að byrja að teikna upp Íslendinga upp á nýtt, ekki sem bandalagsþjóð heldur sem peningaþvættis hryðjuverkalið sem ætlar að selja sig Rússum á  hönd. 

Jónas.is  segir okkur að ástandið sé verra en Geir hefur sagt. Málið er að það er ekkert nýtt að það sé ekki mikið að marka það sem Geir Haarde segir þegar hann talar um efnahagsmál Íslendinga. Ég hugsa að upp á síðkastið hafi hann vísvitandi leynt ástandinu m.a. vegna þess að hann vissi að það myndi setja á stað keðjuverkun í bönkum erlendis í eigu íslendinga  og meðal viðskiptavina þeirra.  Geir hlýtur að hafa í mörg misseri áttað sig á því að Ísland sæti á púðurtunnu, hann er hagfræðimenntaður og hefur stýrt fjármálum þjóðarinnar allt þar til hann verður forsætisráðherra. Ef einhver hefði átt að sjá fyrir þessa stöðu og vita hvert stefndi og hafa aðgang að upplýsingum þá var það Geir Haarde. Ég held hins vegar að Geir vinni eins og hann getur núna að því að tryggja hagsmuni Íslendinga til framtíðar.

Hugsanlega virkar þetta upphlaup Gordons Brown líka þannig að Geir verður ekki fyrir þeirri gagnrýni hér innanlands sem hann myndi ella verða fyrir. Er þetta Gordon-Geirs dæmi kannski sameiginlegt spinn þeirra og búið að ákveða hvenær sættir verða? Það er örugglega dáldið erfitt f fyrir Nató að  kyngja því að Ísland þurfi að leita til Rússa. Ef Nató skilgreinir Rússland sem eina mestu ógnina er þá ekki ansi lúpulegt ef stórt landsvæði á þeim stað þar sem baráttan verður harðvítugust næsta áratuginn er háð Rússlandi? 

En mér finnst mikilvægt að sæta ekki neinum afarkostum frá Bretum. Ísland verður að standa við alþjóðasamninga þ.e þessa lágmarksupphæð sem er tryggð á reikningum en ekki meira en það.

Hérna er það sem Jónas skrifaði: 

12.10.2008
Fjárkúgun Gordon Browns
Ástandið er miklu verra en Geir Haarde hefur sagt ykkur. Gordon Brown hefur í krafti nýrra laga um hryðjuverk lagt hald á 4 milljarða punda af eignum Íslands og Íslendinga í Bretlandi. Bara til að mæta 3 milljarða punda skuldum IceSave við stofnanir í Bretlandi. Er til viðbótar 2 milljarða skuldum IceSave við einstaklinga í Bretlandi. Ekki er vitað, hvort gull- og gjaldeyrisforði Íslendinga er innifalinn. Þetta ætlar Brown að hafa frosið meðan Ísland og Bretland semja um málið. Ef staðan er eins og fréttastofan Press Association segir núna, er betra fyrir Geir að neita alveg að borga.


mbl.is Breskir bankar yfirteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Við getum urrað líka og eigum að gera það miskunnarlaust!

Hjörtur J. Guðmundsson, 12.10.2008 kl. 21:05

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Rétt hjá þér Salvör. Ekki borgaði bandaríkjastjórn Kaupþingi eða Glitni fyrir tap þeirra á Leman brothers. Það hefur engin ríkisstjórn leyfi til að skuldsetja marga ættliði fram í tímann vegna þessa brasks, jafnvel þótt stjórnvöld hafi sýnt vangá.

Sigurður Þórðarson, 12.10.2008 kl. 21:35

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Var ekki unnið í samræmi við EES-sáttmálann þarna? Ef Bretar ætla nú að fara að brjóta hann á okkur, hvaða erindi höfum við þá í þetta bévítans Evrópusamband?

Guðmundur Ásgeirsson, 12.10.2008 kl. 22:20

4 identicon

Skemmtilegur punktur hjá þér með að viðbrögð GB hjálpi almenningsáliti Haarde. Hafði ekki spáð í þetta svona. Djöfuls pólitík, það er það eina sem hægt er að segja.

Ég er sjálf búin að akveða að treysta BBC aldrei aftur. Hefði alrei trúað því fyrir þessa viku hversu hlutdrægur sá miðill gæti orðið. Sem dæmi má nefna að ég fór í partí í gærkvöld og þar var ég náttúrulega spurð spjörunum úr um það hvað væri að gerast á Íslandi. En þeir gestanna í partíinu sem aðeins höfðu treyst á BBC með fréttir undanfarna viku höfðu ekki hugmynd um að Ísland væri í nokkrum vandræðum.

Umfjöllun BBC News var nefnilega svo einhliða að eina sagan sem var sögð aftur og aftur var að Icesave og aðrir bankar hefðu farið á hausinn og að forsætisráðherra Íslands hefði dirfst að segja að ríkissjóður Íslands myndi ekki borga brúsann. Hins vegar þyrfti ekkert að óttast, Mr. Brown ætlaði ekki að láta Íslendinga komast upp með það að stela pening frá breskum sveitastjórnum.

Það kom spanskt fyrir sjónir að það var aldrei minnst á það að kannski væri Ísland ekki "borgunarmaður" fyrir skuldunum. Og engum datt í hug að minnast á að Íslenskir ráðamenn staðhæfðu að þeir hefðu aldrei sagst ekki ætla að borga.

Það er ekki auðvelt að vera Íslendingur í Bretlandi þessa dagana. En það er örugglega hvergi auðvelt að vera Íslendingur þessa dagana hvort sem er...

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 22:23

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er stærra samhengi í þessu öllu og við erum að gelta upp í vitlaus tré, eins og stendur.

Ef við semjum við IMF, þá er sjálfstæði Íslands farið og þar með ákvörðunarréttur okkar yfir auðlindunum. Það verður að stöðva þann gerning. Að senda borderline mongólíta í slíkar viðræður er algert sjálfsmorð.  Tökum boði Rússa ef skilyrðin eru ekki of bindandi og vonum svo að þeir afskrifi þær svo er betur árar. 

Það er orðið ansi undarlegt, þegar IMF er farinn að biðla til þjóðar um að fá að lána henni. Þeim díl fylgir yfirtaka efnahagstjórnar hér. Semsagt alger valdataka, manna með annarlega hagsmuni, Bildenbergera og hringborðsriddara Globalistanna, sem hafa það eitt að markmiði að koma öllum helvítins heiminum á eina hendi.

Ég vona að menn átti sig á hvað er í uppsiglingu hér.

Ágæt byrjun, er að lesa "Falið Vald," sem hægt er að nálgast á www.vald.org Lesið síðan um sjóðinn og sérstaklega um skilyrði hans og gagnrýni á hann hér: http://en.wikipedia.org/wiki/International_Monetary_Fund

Þetta heitir Globalismi - One world Goverment og hún er IMF.  Þetta monster er búið að halda vanþróuðum ríkjum í helgreipum skulda í marga áratugi með upptöku auðlinda og arðráni í gegnum ofurvexti og ofurskilyrði. Nú er kominn tími til að fólk hætti að rífa hvert annað á hol hér heima og sjái hið raunverulega samhengi.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2008 kl. 23:27

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Jón Steinar: Hvaða auðlindir myndi IMF taka yfir? Mesta auðlindin er fiskimiðin og það er búið að gefa þau til útgerðarmanna. Landsvirkjun og OR eru í eigu opinberra aðila, ég get ekki séð að þeim verði neitt ráðstafað og ég hugsa að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur út af virkjunum sem spretti upp þvers og kruss um landið næstu ár, það er nú því miður þannig að núna hefur gufað upp það fé sem hefði farið til fjárfestinga í heiminum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.10.2008 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband