Forsetinn og bankastjórinn

Núna í miðju öldurótinu þá er ekki besti tíminn til að greina hvað gerðist. Það þarf meiri fjarlægð frá atburðunum. En við erum öll ósjálfrátt í leit að sökudólgum. Við höfum reyndar fundið þá víða og böndin berast að litlum hópi ófyrirleitinna fjárglæframanna sem notfærði sér veilur í eftirlitslausu flæði fjármagns á milli landa og hvernig hægt er nánast að búa til peninga með því að selja hver öðrum hlutabréf og eiga ítök í bönkum sem lána viðkomandi peninga fyrir skuldsettar yfirtökur. En við erum líka að leita að sökudólgum hjá þeim sem hefði átt að vera á verðinum og spyrjum eins og Lilló Af hverju sagði enginn okkur neitt?

Það eru margir sem hefðu átt að vara okkur við og vaka yfir velferð okkar. Fyrst eru það stjórnmálamennirnir sem voru við völd og fjármálastofnanir samfélagsins. En það eru líka fjölmiðlarnir og það verður að horfast í augu við að einmitt þeir sem glæfralegast fóru með fé lögðu kapp á að eiga fjölmiðlana og margir bestu fjölmiðlamenn Íslands sungu þeim lof og dýrð því þeir höfðu atvinnu af því. En það voru líka margir aðrir sem dásömuðu útrásina og voru erindrekar hennar. Einn þeirra var forseti Íslands.

Það voru í kvöld áhugaverð viðtöl við forsetann á Rúv og við fyrrum bankastjóra Landsbankans á Stöð 2. Þetta var í báðum tilvikum einhvers konar uppgjör manna sem hafa staðið fyrir stefnu sem ekki gekk upp. Báðir eru þessir menn ljónskarpir og ég held að það hjálpi okkur að skilja hvað gerðist að hlusta á þá. Hins vegar er orðræða þeirra lituð af sýn þeirra og þeirri eðlislægu viðleitni okkar mannanna að fegra sjálfan sig. Ég held ekki að Jón Ásgeir sem flaug hingað í einkaþotunni sinni með breskan hrægamm  muni hjálpa til við að reisa Ísland úr rústum. Ég held að siðferðisþroski hans sé ekki mikill og hann skorti bæði gáfur og skerpu og það sem er allra mikilvægast, það er samhygð (empathy).

En ég held að bæði forseti Íslands og fyrrum landsbankastjóri geti unnið gott starf í uppbyggingarstarfi á Íslandi. 


mbl.is Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ragnar Önundarson var líka duglegur að vara við, en enginn hlustaði. Það verður að fara fram almennilegt uppgjör þegar fer að róast.

Villi Asgeirsson, 14.10.2008 kl. 09:30

2 identicon

Staðreyndirnar eru öllum augljósar:

Sjálfstæðisflokkurinn er ábyrgur fyrir þessu hörmungum.

Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands og stjórnaði einkavinavæðingu bankanna frá upphafi til enda.
Aðal hugmyndafræðingur hans við þetta verk var Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Davíð Oddson er 100% ábyrgur fyrir þessu ferli.
Hann gerðist síðan æðsti embættismaður fjármála Íslands.

Hann ber ábyrgð á því að skuld íslenska ríkisins í dag er 12 föld þjóðarframleiðsla þjóðarinnar.
Hann átti að sjá til þess að íslenska þjóðin væri ekki þátttakandi í þeirri áhættu sem sem fylgdi bankastarfseminni.

Hann er einnig ábyrgur fyrir því sem hefur gerst síðustu daga.
Hann ætlaði að hefna sín á Baugsmðnnum og taka Glitnir aftur.
Þetta var hin fullkomna snilld hins “Stóra Leiðtoga”

Síðan ætlaði hann að setjast í helgan stein í Öryggisráðinu og verða ódauðlegur
sem alþjóðlegur snillingur,

En málin snérust illilega í höndunum á honum
Í æsingnum að ná hefndum sló hann stoðunum undan hinum bönkunum og allt fjármálakerfi Íslands hrundi í einni svipan.

Davíð Oddsson er maðurinn sem eyðilagði Ísland.

Sjálfstæðisflokkurinn verður lagður niður.

Það verður að stofna nýja stjórnmálaflokka með nýju fólki.

sjá einnig:
http://www.ft.com/cms/s/0/e17cb5a0-98ce-11dd-ace3-000077b07658.html?nclick_check=1

RagnarA (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 10:00

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Góð grein í ft.com sem þú bendir á RagnarA. Það þarf vissulega uppstokkun í stjórnmálum og við þurfum ekki þá sem hafa kollsiglt okkur í brúnni áfram. En það má líka breyta gömlum stjórnmálaflokkum. Það er afar erfitt reyndar en kosningalög á Íslandi eru hins vegar þannig að verulega erfitt er fyrir ný stjórnmálaöfl að koma fram þannig að hugsanlega er besta og sársaukalausasta leiðin að breyta gömlu flokkunum. Það átta sig allir á því að við þurfum nýtt gildismat.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.10.2008 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband