Skúnkalegt: Guðjón Ólafur og dylgjurnar

Alsherjarnefnd - undirnefnd

Fyrir síðustu Alþingiskosningar var í einni sviphendingu fótunum kippt undan allri kosningabaráttu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Það var eitt mál sem eyðilagði  alla stjórnmálabaráttuna og alla möguleika Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmum á því að fá þingsæti. Kosningabaráttan var heiðarleg og málefnaleg, áherslur skýrar  og málefni góð og það var afbragðsfólk sem leiddi listana, Jón Sigurðsson í Reykjavík Norður og Jónína Bjartmars í Reykjavík suður.  En það var við ofurefli að etja og mannorð Jónínu Bjartmars var fótum troðið í fjölmiðlum.

Málið sem eyðilagði alla kosningabaráttuna tengdist afgreiðslu nefndar sem mælti með ríkisborgararétti til ungrar stúlku sem tengt var Jónínu Bjartmars. Guðrjón Ólafur Jónsson fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins sat í þessari nefnd fyrir hönd Framsóknarflokksins og tók þátt í þessari afgreiðslu. 

Guðjón Ólafur hafði sig lítið frammi í fjölmiðlun á meðan á árásunum á Jónínu stóð og raunar minnist ég þess ekki að frá honum hafi komið sams konar yfirlýsing og frá öðrum nefndarmönnum þ.e. yfirlýsing um að hann hefði ekki vitað neitt um fjölskyldutengsl stúlkunnar við Jónínu. En mér dettur ekki í hug að halda að hann hafi vitað að stúlkan var tengdadóttir Jónínu og þess vegna veitt henni fyrirgreiðslu, það hefði verið þvílíkur dómgreindarskortur og pólitískt glapræði  og rothögg á kosningabaráttu Jónínu eins og kom á daginn.

Guðjón Ólafur sendi reyndar frá sér yfirlýsingu þar sem hann bendir réttilega á að umfjöllun um málið má ekki einkennast af dylgjum (sjá hérna frétt í Mbl: Guðjón Ólafur:  Umfjöllunin má ekki einkennast af dylgjum )

Ég skrifaði nokkur blogg um þetta mál og gagnrýndi framgöngu fjölmiðla m.a. einstaklega rustalega og óvandaða umfjöllun Kastljóssins, umfjöllun sem byggðist á dylgjum og á því að trúnaðargögn einstaklinga sem sent höfðu gögn  til opinberrar nefndar eru birt í kastljósi og vegið að æru fólks ásamt því að RÚV virtist hafa meiri áhuga á því að eyðileggja æru stjórnmálamanna í hita kosningabaráttunnar heldur en að upplýsa almenning um einkennilega starfshætti nefnda og bendi ekki athyglinni þar sem hún átti heima þ.e.a.s. á skrýtna afgreiðslu hjá nefnd þeirri sem Guðjón Ólafur sat í og Bjarni Benediktsson stýrði.

Sjá bloggskrif mín um þetta mál: 

Brot á friðhelgi - RÚV birti trúnaðargögn

Skert ferðafrelsi

Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína

Rustalegt Kastljós hjá Helga Seljan

Kvenna(k)völd hjá Framsókn

 Það vekur því nokkra furðu mína að Guðjón Ólafur sem í ríkisborgararéttsmálinu taldi að umfjöllun mætti ekki byggjast á dylgjum hefur nú sjálfur sent nokkur þúsund Framsóknarmönnum í Reykjavík bréf sem hann merkir sem trúnaðarmál en í því bréfi eru mjög skrýtnar dylgjur um þá framsóknarmenn sem eru í forustu í borgarstjórn Reykjavíkur. 

Annars er Guðjón Ólafur sérstakur áhugamaður um fatamál Framsóknarmanna og ritstíll hans er fremur rætinn. Það var einmitt ein grein hans á hrifla.is fyrir nokkrum árum um það sem hann kallaði aulahátt hattkerlinga framsóknar sem vakti athygli mína og óbeit á vinnubrögðum hans í stjórnmálum. Það var grein sem þrungin var kvenfyrirlitningu og virðingarleysi fyrir öllu sem heitir lýðræðisleg vinnubrögð. 

Nokkrir tenglar um málið og önnur mál sem Guðjón Ólafur tengist. 

Stefán: Dylgjur 18. janúar

 Segir uppgjöf og áhugaleysi einkenna starf Framsóknar

Nýársbréf Guðjóns Ólafs um gróusögur um fatakaup framsóknar

Framsókn: Deilt um fatapeninga 

Framsóknarmenn deila um fatakaup

Svindlari á þingi.- Guðjón Ólafur Jónsson framsókn

 Siðbót í Framsóknarflokknum

Aulaháttur hattakerlinga Framsóknar, Varaþingmaður ráðherra tjáir sig

 

 


mbl.is Gagnrýnir fatapeninga framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæl Salvör

Ég þekki lítið til starfa Guðjóns á alþingi en veitti því athygli að í orðum hans í ræðu og riti var talsverð kvenfyrirlitning. Ég tók semsagt líka eftir þessu. Framganga hans virkaði yfirgangssöm, eins og hann stjórnaðist af frekju fremur en höfðingsskap...En ég vona svo sannarlega að þetta mál allt leysist. Af hverju sendir fyrrverandi þingmaður bréf um spillingu innan eigin flokks ef hann er meðal innstu koppa í flokknum. Það er einhver púsl sem vantar í þetta púsluspil. 

Anna Karlsdóttir, 19.1.2008 kl. 12:04

2 identicon

Sæl Salvör.

Já það hefur nú alltaf verið ansi hressilegur kjaftur á Guðjón Ólafii.

En það er samt mjög athyglisvert við þessa löngu grein þína að sjá að þú skulir í engu lýsa áhyggjum þínum yfir því að, það sé nú aldeilis grafalvarlegt mál, ef þær fréttir eru réttar sem Guðjón Ólafur segir, að flokkssjóðir Framsóknar hafi verið notaðir til að greiða hundruðir þúsunda í fatakaup fyrir frambjóðandur eða frambjóðanda Flokksins í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Nei nei hjá þér virðist allt snúast um að gera Guðjón Ólaf sem tortryggilegastan, þú talar um "skúnkalegt" athæfi og "dylgjur" án þess að þú svo mikið sem reynir eitthvað til að blanda þér í einhverja efnislega umræðu um þær grafalvarlegu ásakanir sem hann hefur sett setti fram.

Skjótið sendiboða slæmra tíðinda ! Það er sönn Framsóknareining og svona hefur þetta verið ansi lengi hjá Flokknum því í langri formannstíð HA þá mátti aldrei gagnrína eitt né neitt innan flokksins, þá voru viðkomandi bara þaggaðir niður og settir útaf sakramenntinu.

Án þess að ég vilji dæma þig neitt persónulega Salvör mín, því mér hefur nú alltaf fundist þú vera í siðbótini innan Framsóknar. Þá verð ég nú samt að segja það að þetta einkennilega siðferði minnir nú orðið nokkuð á þá alræmdu Framsóknarmennsku, sem vaðið hefur uppi ansi lengi innan litla valda-Flokksins, það er að spilling sé ekki spilling nema upp um hana komist.

Þessvegna eigi bara allir Flokkshollir Framsóknarmenn að steinþegja og halda kjafti verði þeir varir við eitthvað ólöglegt eða ósiðlegt í fari flokksins eða flokkshestana og gæðingana sjálfra.  

Ekki dettur mér í hug að Guðjón Ólafur hafi ekki eitthvað fyrir sér í þessu. 

Því finnst mér þetta bara lýsia hugrekki Guðjóns Ólafs og þetta þarf svo sannarlega að ræða og rannsaka alveg ofan í kjölinn því að almenningur á fullan rétt á að fá að vita hið rétta.

Þó svo að sumir innan Framsóknar haldi að Framsóknarflokkurinn sé ekki eiginlegur stjórnmálaflokkur heldur aðeins eignarhaldsfélag eða atvinnumiðlun, þá er það nú samt svo að Framsóknarflokkurinn þiggur tugi milljóna árlega af almannafé eins og reyndar allir stjórnmálaflokkarnir. Tilgangur þessa fjárausturs á að vera til að efla lýðræðið og gera það óháðara peningaöflunum.   

Þess vegna má almenningur ekki líða neina Framsóknar þöggun í þessu máli. 

Nú er lag til þess að hreinsa út hjá Framsókn og velta öllu við og fara í ærlega heilsufarsskoðun fyrir flokkinn. Það er algerlega nauðsynlegt ætli flokkurinn sér ekki endanlega að lognast útaf í íslenskum stjórnmálum.                             Sem kanski væri nú það besta. Nei annars kanski á flokkurinn sér viðreisnar von en það gerist ekki nema með að það sé loftað alveg út úr fjósinu og svo farið í almennilega endurhæfingu á eftir.  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 15:05

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Anna: Kvenfyrirlitning drýpur því miður úr mörgum af pistlum Guðjóns Ólafs. Satt að segja var einmitt hún sem vakti athygli mína á manninum, ég vissi ekkert hver hann var þegar ég fór að fylgjast með skrifum á hrifla.is í kjölfar Freyjumálsins þegar nokkrir karlar reyndu að taka yfir kvenfélagið Freyju  í Kópavogi með því að fjarstýra konum á sínum vegum til að mæta á aðalfund í félagi sem var meira segja í öðru sveitarfélagi en margar þeirra bjuggu í. Þetta var með ólíkindum enda varð Framsóknarflokkurinn að athlægi fyrir þessi vinnubrögð,

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.1.2008 kl. 16:18

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gunnlaugur: Ég  væri að falla í þá gryfju sem Guðjón Ólafur er að smíða ef ég léti athygli í mínum pistli fókusera á dylgjur sem hann setur fram. Ég forðast það vísvitandi. Þessum pistli um Guðjón Ólaf er ætlað að benda á hve ótrúverðugur hann er sem stjórnmálamaður. Reyndar held ég að hvorki ég né aðrir þurfi að benda á það, gerðir hans og vinnubrögð dæma sig sjálf. En ég vil upplýsa að ég hef oft staðið Guðjón Ólaf af því að ljúga blákalt um ástandið í Framsóknarflokknum til að upphefja sjálfan sig. Það er alveg ólýsanlegt hve dapurlegt ástand hefur verið í  Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður undanfarin ár.  Guðjón Ólafur virðist á einhverjum tímapunkti hafa talið að hann væri Framsóknaflokkurinn í Reykjavík m.a. var vefsetrið hrifla.is eins og einhvers konar einkablogg hans. Það er bara fínt að fólk sé raupsamt og montið og hæli sjálfum sér en því miður þá voru sumir pistlar Guðjóns Ólafs einhvers konar hatursgreinar út í þá sem stóðu í vegu fyrir að einhver fáránleg vitleysisplott eins og þessi kvenfélagsyfirtaka í Kópavogi gengi upp.

Ég á örugglega eftir að blogga meira um þetta mál. Um að gera að blóðmjólka svona fréttaefni, það er ekki svo oft sem fatasmekkur Framsóknarmanna fangar athygli landsmanna.  Stay tuned...

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.1.2008 kl. 16:34

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gunnlaugur: Vil bara að það komi fram að jafnvel þó þessar dylgjur um að einhverjir frambjóðendur (hverjir?) hafi ekki kostað jakkafötin sín sjálfir heldur hafi verið styrktir til þess af kosningasjóði Framsóknarflokksins þá finnst mér það ekki endilega neitt stórmál. Það geta hafa verið margar ástæður fyrir því. Mér finnst að þeir sem stýrðu kosningabaráttunni og fjármálastjórn í kringum hana hljóti að bera ábyrgð á hvernig  fé er  best varið og vonandi segja þeir til um það.

Ég var á fundi í Framsóknarflokknum þar sem frambjóðendur í prófkjörinu voru spurðir af því hvað þeir hyggðust verja miklu í prófkjörið (þau Björn Ingi, Óskar og Anna) og það kom fram að kostnaður þeirra hvers um sig  (að miklu leyti borgaður af þeim sjálfum) nam mörgum milljónum.  Prófkjörsbaráttan og svo kosningabarátta í framhaldi þýddi líka margra mánaða vinnu (án launa annars staðar frá) frambjóðenda í efstu sætum.  Jafnvel þótt frambjóðendur hafi verið duglegir að safna í kosningasjóði þá efast ég ekki um að á þau féll persónulega milljónakostnaður bæði í eigin prófkjörsbaráttu og í vinnutap í launaðri vinnu. Anna dró sig til hlés þegar hún varð nr. 2 í prófkjöri og Óskar og Björn Ingi voru í hinni geysihörðu baráttu í marga mánuði.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.1.2008 kl. 16:57

6 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Góð grein hjá þér Salvör,mikið er ég samála þessu.

Katrín Ósk Adamsdóttir, 20.1.2008 kl. 02:21

7 Smámynd: haraldurhar

Sæl Salvör.

    Tek undir með þér að bréfaskitir Guðjóns, eru vægast sagt vafasamar.   Það verður að líta til þess að Framsóknarflokkurinn starfaði ekki sem stjórnmálaafl, heldur sem atvinnumiðlun og hagsmunagæslu, og annri fyrirgreiðslu á meiihlutan af stjórnartíð Halldórs.  Jónína Bjartmars, og flokkurinn fékk þá útreið sem hann átti skilið.  Guðjón hefur ætið verið í mínum augum eins og mennskælingur í kappræðukeppni, bara látið dæluna ganga og sagt sárafátt af viti.

    Það lifir enginn flokkur, ef hann hefur ekkert stefnumál, annað en að komast að kjötkötlunum.   hvort sem er í landsmálum eða bæjarstjórnum.  

Gleymdu ekki Kópavogi.

haraldurhar, 20.1.2008 kl. 03:31

8 Smámynd: Halla Rut

Mjög góð grein hjá þér og upplýsandi.  Ég bloggaði aðeins um þetta fræga bréf í dag.

Smella HÉR.

Halla Rut , 25.1.2008 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband