Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Vindur, vindur vinur minn

Hér er fyndið og hugljúft myndband um hvernig Kári er tekinn í sátt af samfélaginu

Svo er hérna skemmtilegt blogg um vindmyllugerð  frá ungum strák í Malawi sem byggir vindmyllu til að vinna rafmagn fyrir fjölskyldu sína. Strákurinn heitir William Kamkwamba og er bara 19 ára og bloggið hans segir heilmikið frá samfélaginu í þorpinu hans.

Hér er vefur um virkjun vindafls á Íslandi

Svo eru skólarnir á Íslandi með vefsíður um orkugjafa, hér er orkuvefur sem settur er upp hjá Norðlingaskóla


Sjálfsbókmenntir og einsaga Sigurðar Gylfa

Það er áhugavert fyrir bloggara að fylgjast með ritdeilum  Sigurðar Gylfa Magnússonar. Núna hefur Sigurður Gylfi birt á Kistunni dómnefndarálit yfir sjálfum sér en hann lagði fram ritsmíðar til doktorsprófs við HÍ, sjá hérna Dómur yfir hverjum?

Áhugi minn á verkum og hugmyndum Sigurðar Gylfa er af sama meiði og áhugi minn á tjáningu og miðlun í bloggheimum. Blogg er oft einsaga og sjálfævisaga, sagan sögð út frá sjónarhóli einstaklingsins en verk Sigurðar Gylfa liggja einmitt á því sviði, hann hefur t.d. rannsakað dagbækur.  Það er  verst að Sigurður Gylfi hefur ekki sýnt blogginu neinn áhuga að því ég best veit. Ef til vill er það eðli sagnfræðinga að rótast eingöngu í því liðna og velta við hverjum steini ef fjallar er um Jónas Hallgrímsson eða eitthvað sem gerðist fyrir hundruðum ára en láta samtímann þjóta framhjá sér án þess að taka eftir hvað er að breytast þar. Nema náttúrulega taka eftir sinni eigin stöðu og staðsetja sjálfan sig, Sigurður Gylfi er þar svona eins og riddarinn hugumprúði í sínu sögustríði sem háð hefur verið undanfarið í lesbók Morgunblaðsins.

Mér finnst þetta dómnefndarálit og það að Sigurður Gylfi kjósi að birta það vera áhugavert - áhugavert að fylgjast með hve opinber viðkvæm gögn eins og umsagnir um skrif fræðimanna/nemenda eru og líka áhugavert út frá höfundarréttarsjónarmiðum/persónuvernd.

Má gera opinber svona dómnefndarálit/umsagnir um verk sem eru lögð fram til mats við háskóla? Hver er réttur þeirra sem eru umsagnaraðilar?  Hver er réttur þeirra sem eru til umsagnar? 

Svo er þetta ekki síður áhugavert til að opna umræðuna um hvernig fræðaframlag fólks er metið, sérstaklega fólks eins og Sigurðar Gylfa sem hefur tvímælalaust hrært upp í sagnfræðisamfélaginu og veitt inn nýjum straumum. Ég  hef öðru hverju farið á hádegiserindi og sagnfræðifyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins ef mér hefur fundist efnið áhugavert. Sem leikmaður sé ég ekki betur en Sigurður Gylfi hafi verið einn aðaldrifkrafturinn í samfélagi sagnfræðinga á Íslandi undanfarin ár og verið bæði afar duglegur og notað áhugaverðar aðferðir og nálgun.   

Reyndar get ég ekki séð betur en Sigurður Gylfi sé þegar með doktorspróf, það er spurningin hvers vegna hann telur sig þurfa fleiri doktorsgráður. Hugsanlega er þetta einhver liður í að fá umræðu og mat á verkum sínum og/eða liður í einhvers konar starfendarannsókn (action research) á starfsháttum íslenska fræðasamfélagsins. 

Fólk notar ýmsar frumlegar leiðir til að koma ritverkum sínum á framfæri. Ungir vinir mínir gáfu út tímarit fyrir mörgum áratugum og þeir höfðu þá aðferð við sölu á tímaritinu að þeir settu upp söluborð með tímaritinu og einum skó og sátu þar nokkrir saman. Svo falbuðu þeir tímaritið og ef fólk vildi ekki kaupa þá köstuðu þeir í það skó. Þetta var kannski ekki svo sniðugt, fólk tók því illa að fá skó í sig.

Sigurður Gylfi notar þær leiðir sem honum  finnst sniðugast til að vekja umræðu um verk sín. Hann leggur þau fram til doktorsmats og hann segir: 

Ástæðan fyrir því að ég fór af stað með þá hugmynd að leggja nýju bækurnar tvær í mat hugvísindadeildar Háskóla Íslands var sú að ég sá ekki aðra leið færa til að koma þeim á dagskrá háskólasamfélagsins; afgerandi vettvang fyrir slíka umræðu skorti nær algerlega.

 


Sniglapirringur

Mér finnst mjög mikilvægt að fólk viti sem mest um snigla. Þess vegna ákvað ég að útbreiða fagnaðarerindið um flokkun snigla sem ég fann á Vísindavefnum. Ég treysti fullkomlega Vísindavefnum, það er heimild sem er góð og gild til að byggja Wikipedia greinar á. Ég fann þar greinina Hvað getið þið sagt mér um snigla? og í þeirri grein sem er frá árinu 2003 þá eru sniglar blákalt flokkaðir í þrjá flokka sem sagt fortálkna, bertálkna og lungnasnigla. Ég skrifaði áðan greinastubb á íslensku wikipedia um litla kuðunginn gljásilfra af því mér fannst svo sniðugt að tildrur velta við steinum til að finna þennan kuðung og ákvað í framhaldinu að helga sniglum og kuðungum daginn enda eru þetta mjög merkilegar skepnur og fjölskrúðugar, það eru til 65 þúsund tegundir af sniglum.

Svo ég dældi inn greinum á íslensku Wikipedíu um bæði fortálkna og bertálkna og á eftir að setja inn grein um lungnasnigla. En nú er ég búin að fatta að greinin á Vísindavefnum sem ég byggði á sem heimild er með úreldri flokkun.  Samkvæmt greinunum um þessar tegundir á ensku wikipedia er nefnilega úrelt að flokka snigla á þennan hátt. Hmmmm....

Mér finnst frekar pirrandi þegar ég kemst að því að ég hef verið á villigötum. Jafnframt er þetta gott dæmi um hve sú lýsing sem við höfum á heiminum sem við köllum vísindalega flokkun er skeikul og óstabíl. Mér skilst að nútíma mælingar og rannsóknir m.a. DNA rannsóknir hafi sýnt að þær tegundir sem hingað til hafa verið  taldar til  bertálkna hafi fleiri en einn uppruna ef ég er að skilja orðið Cladistics.

Ég skrifa margar greinar um lífverur og efni á wikipedia og þar verður að halda sig við stranga og mjög nákvæma flokkun, flokkun sem er svo samofin lífi okkar að við tökum hana sem sannleika t.d. flokkun eins og lotukerfið og hina vísindalegu flokkun. Mér finnst gaman að því að því nákvæmari og djúpt sokknari í þessa flokkun sem ég er og því meira sem ég sekk mér ofan í svona flokkunarkerfi heimsins - þetta kerfi sem við notum til að teikna upp heimsmynd nútímans - þeim mun minni trú hef ég á þessu kerfi. Það er ekki að það sé alslæmt, þetta er það skásta sem við getum ráðið við núna en þetta er ekki að birta okkur nema örlítið brot af heiminum og það brot er gegnum ýmsar síur. Jú, ég skrifaði á sínum tíma wikipedia grein um frummyndakenningu Platós.


Hvað hefði Jónas verið að bauka í dag?

Núna um helgina er hyllingarhátíð Jónasanna, háskólarnir hylla þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson með vandaðri dagskrá á Jónasarstefnu, ég var að skrá mig í Þingvallaferðina á morgun. Það er fínt að fara einu sinni á ári á Þingvöll og strengja sín heit og gaman að gera það undir góðri leiðsögn. 

Fyrsta erindið á Jónasarhátíðinni í dag er erindið "Var Jónas vinstri-grænn?"  Ég brosti við þegar ég sá þennan titil, hann endurspeglar þrá mannanna til að heimfæra allt upp á sinn samtíma. En ég fór að hugsa... hvað hefði lærdómsmaður eins og Jónas haft áhuga á í dag, hann sem var boðberi nýrra tíma og nýrrar hugsunar á svo mörgum sviðum, hann var ekki  eingöngu skáld heldur var hann náttúruvísindamaður og leitandi sál.  Mörg af verkum Jónasar eru byggð á hugmyndum annarra skálda og fræðimanna, sérstaklega danskra og þýskra.

Ég ætla að nota helgina til að lesa aftur ævisögu Jónasar eftir Pál Valsson og lesa vefinn um Jónas og ef ég hef tíma þá ætla ég að bæta í wikipediagreinina um Jónas eða jafnvel skrifa sérstaka wikibók um Jónas. Ég hugsa að Jónas hefði verið hrifinn af wikimedia verkefnum. Hann hefði örugglega gert það sama og ég reyni að gera, hann hefði sett inn greinar á íslensku sem lýsa íslenskri náttúru. Ég hef t.d. sett inn greinar á íslensku wikipedia  um gabbró og surtarbrand og  ofauðgun og eiturþörunga og fiska eins og ála og loðnu og lúðu.

Jónas hefði ekkert verið að setja það fyrir sig að framlag mitt og annarra er skoplítið þegar horft er til þess hve mikið verk er óunnið, hversu mörgum náttúrufyrirbærum og verum þarf að lýsa og tengja hvert við annað.  Var það ekki hann sem kvað:

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim.

Ég held að Jónas hefði alveg haft smekk fyrir verkfæri eins og wikipedia til Íslandslýsingar, svona höfundarlausum samvinnuskrifum en hann hefði kannski ekki verið neitt sérstaklega þekktur í dag og ekki verið hampað og  upphafinn af samfélagi nútímans - samfélagi  höfundanna og höfundarétthafanna. En andi Jónasar og þeirra sem höfðu áhrif á hann lýsir ennþá upp sál okkar. Mér finnst skemmtilegra að lesa ljóðið hans um alheimsvíðáttuna heldur en reikna út hvort ég hafi kolefnisjafnað nógu miklu í dag.  

Alheimsvíðáttan

(Hugmyndin er eftir Schiller)

Eg er sá geisli,
er guðs hönd skapanda
fyrr úr ginnunga
gapi stökkti;
flýg eg á vinda
vængjum yfir
háar leiðir
himinljósa.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
öldur sem alheims
á eiði brotna,
akkeri varpa
fyrir auðri strönd
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.

Sá eg í ungum
æskublóma
stjörnur úr himin-
straumum rísa,
þúsund alda
að þreyta skeið
heiðfagran gegnum
himinbláma.

Sá eg þær blika
á baki mér,
er eg til heima
hafnar þreytti;
ókyrrt auga
sást allt um kring;
stóð eg þá í geimi
stjörnulausum.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
Ekkert sem ríkir
og Óskapnaður;
leið vil eg þreyta
ljóss vængjum á,
hraustum huga
til hafnar stýra.

Gránar í geimi,
geysa ég um himin
þokuþungaðan
þjótandi fram;
dunar mér á baki
dökknaðra sóla
flugniður allra,
sem fossa deyjandi.

Kemur þá óðfluga
um auðan veg
mér í móti
mynd farandi:
"bíddu flugmóður
ferðamaður!
heyrðu! hermdu mér,
hvurt á að leita?"

""Vegur minn liggur
til veralda þinna;
flug vil eg þreyta
á fjarlæga strönd,
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.""

"Hættu, Hættu!
um himingeima
ónýtisferð
þú áfram heldur;
vittu að fyrir
framan þig er
Ómælisundur
og endaleysa."

""Hættu, Hættu!
þú sem hér kemur,
ónýtisferð
þú áfram heldur;
belja mér á baki
bláir straumar,
eilífðar ógrynni
og endaleysa.""

Arnfleygur hugur!
hættu nú sveimi;
sárþreytta vængi
síga láttu niður;
skáldhraður skipstjóri,
sköpunarmagn!
fleini farmóður
flýttu hér úr stafni.

 


Heilablóðfall

Ég var að lesa áhugaverða grein um heilablóðfall  í New York Times, greinina Lost Chances for Survival, Before and After Stroke

Ég vissi ekki að heilablóðfall væri einn af stóru orsökum dauðsfalla en ég hef reyndar sjálf þekkt fólk sem hefur örkumlast vegna  heilaskemmda í kjölfar heilablóðfalls. Í mörgum tilvikum er hægt að minnka heilaskemmdir með því að gefa lyfið tPA til að leysa upp blóðtappa en það verður að gerast innan þriggja klukkustunda frá heilablóðfalli. Í Bandaríkjunum er staðan hins vegar þannig að þrátt fyrir að tPA geti gagnast um helmingi þeirra sem fá heilablóðfall þá fá það lyf ekki nema 3 til 4 prósent. Á því eru nokkrar skýringar. Ein er sú að fólk kemur of seint á spítala til að gagn sé að lyfinu, önnur sú að spítalar hika við að gefa lyfið vegna óvissu um hvort raunverulega sé um heilablóðfall að ræða m.a. vegna þess að spítalar eru ekki búnir nógu góðum greiningartækjum (MRI skönnum) og óttast málaferli ef lyfið (sem getur valdið dauða v. blæðinga í einhverjum tilvika) er gefið ef ekki er um heilablóðfall að ræða. Sjúklingar sem koma á spítala með heilablóðfall eru auk þess stundum ekki í þannig ástandi að þeir geti sagt hvenær heilablóðfallið varð. 

Hérna á Íslandi fá 600 manns heilablóðfall á ári. Flestir eru eldri en 65 ára.

Sjá nánar á Doktor.is - HEILABLÓÐFALL

Svo er hér skýringarmyndband á New York Times  Stroke, an Animation

 

Heilablóðfall er þriðja algengasta dánarorsökin á eftir hjartasjúkdómum og krabbameini en 150  þúsund Bandaríkjamenn látast árlega vegna heilablóðfalls og miklu fleiri lamast eða örkumlast. Í greininni í  New York Times segir:

Many patients with stroke symptoms are examined by emergency room doctors who are uncomfortable deciding whether the patient is really having a stroke — a blockage or rupture of a blood vessel in the brain that injures or kills brain cells — or is suffering from another condition. Doctors are therefore reluctant to give the only drug shown to make a real difference, tPA, or tissue plasminogen activator.

Many hospitals say they cannot afford to have neurologists on call to diagnose strokes, and cannot afford to have M.R.I. scanners, the most accurate way to diagnose strokes, for the emergency room.

Although tPA was shown in 1996 to save lives and prevent brain damage, and although the drug could help half of all stroke patients, only 3 percent to 4 percent receive it. Most patients, denying or failing to appreciate their symptoms, wait too long to seek help — tPA must be given within three hours. And even when patients call 911 promptly, most hospitals, often uncertain about stroke diagnoses, do not provide the drug.

 Það er mikið að heilbrigðiskerfi þar sem til er árangurríkt lyf sem getur komið í veg fyrir dauða eða varanlegar heilaskemmdir sem þó er aðeins gefið örfáum. Það eru mörg árangursrík lyf í heiminum sem eru svo dýr að fólk í fátækum löndum hefur ekki aðgang að þeim. Í þessu tilviki er ekki um það að ræða, það er ekki verðið á lyfinu sem skiptir máli heldur að þetta er lyf sem eingöngu passar fyrir bráðameðferð og það eru ekki nógu snögg viðbrögð og ekki nógu góð greiningartæki til að greina aðstæður hjá annars vegar sjúklingnum og hins vegar hjá sjúkrahúsum.

Það kemur einnig fram í greininni að langstærsti áhættuþátturinn við heilablóðfall er of hár blóðþrýstingur en auk þess eru reykingar og sykursýki áhættuþættir.  Það má í mörgum tilvikum koma í veg fyrir heilablóðfall með nógu nákvæmum fyrirbyggjandi aðgerðum m.a. með því að mæla blóðþrýsting og taka blóðþynnandi lyf.

Til að heilbrigðiskerfi sé gott þá held ég að fólk þurfi að vera upplýst um sjúkdóma og meðhöndlan þeirra - t.d. í þessu tilviki hvað skiptir miklu máli að komast strax undir lækna hendur -  og heilbrigðisþjónustan sem og almenningur þurfa að hafa sem  best greiningartæki. Ég spái í hvort ekki er skynsamlegra að leggja meiri áherslu á að skrá heilsufarssögu eftir sjúklingum heldur en heilsufarssögu þjóða. 


Leitin að Adam

Ég var að horfa á ofboðslega lélegan fræðsluþátt í íslenska sjónvarpinu, þáttinn "DNA Mystery: The Search for Adam". Þetta var einhvers konar sambland af þróunarkenningar-erðafræði-vísindahyggju og bókstafstrú á bíblíuna ásamt því að segja þróunarsögu mannkynsins sem hetjusögu karlmanna, já í þessu tilviki meira karllitninga.  Þessi þáttur sameinaði eiginlega flest sem mér finnst athugavert við vísindi, trú og kynjavídd og hvernig heimsmyndin sem dregin er upp og sú rannsóknarnálgun sem er á fyrirbæri í þessum heimi er háð því hvað því fólki sem hefur völd í þessum heimi finnst að eigi að koma út út vísindum. 

Heimspekingurinn Aristoteles er engin undantekning frá því. Honum var mikið í mun að lýsa fólki sem var eins líkt honum sjálfum sem hinum miklu gerendum í hetjusögu mannkyns. En hann var ekkert inn í genahugsun. Ég hugsa að ef Aristóteles væri uppi núna þá væri hann allur í svona Y-litninga hetjusögum.

Ég skrifaði á blogg 4.nóv. 2001 um kenningar hans:

Svo fór ég á aðra málstofu þar sem femínistar fjölluðu um heimspeki. Hlustaði á heimspekinginn Vigdísi frá Noregi rekja sýn Aristótelesar á hlutverki kynjanna. Óttalegur rugludallur þessi Aristóteles en honum er kannski vorkunn, hafði enga innsýn í genahugmyndafræði nútímans en þurfti bara að útskýra náttúrannar eðli þannig að það væri valdhöfum þóknanlegt og réttlætti þeirra stöðu. Hann tjáði sig líka um þrælahald og er það álíka bull og þessi kynjapæling hans. Aristóteles hélt því fram að sæði mannsins væri það sem gæfi lífverum form, konan legði bara til efnið. Hún væri nokkurs konar blómapottur fyrir sæði mannsins sem væri eins og akarn sem sprytti í moldinni.


Stjarna deyr

Stjarnan SN 2006gy er að splundrast. Þessi stjarna er 150 sinnum stærri en sólin. Hún verður að sprengistjörnu (super nova). Ég held að við séum ekki í bráðri hættu að verða fyrir ögnunum því stjarnan er í 240 milljón ljósára fjarlægð.

Ég velti fyrir mér hvort einhvern tíma verði þær hugmyndir sem við höfum um alheiminn og sem fremstu vísindamenn okkar styðja með útreikningum sínum kollvarpað með öðrum kenningum og annarri hugsun. Tyche Brahe var fremsti vísindamaður Norðurlandanna á sinni tíð. Hann reiknaði og reiknaði og færði rök fyrir alheimi sem væri þannig að sólin snerist um jörðina.

Wikipedia greinin um Tyche Brahe fjallar meira um vandamál hans við að pissa og úr hvernig nefið á honum var gert heldur en hinar merku kenningar hans um stjörnufræði.

 


Wikipedia og umhverfisdagurinn

Dagur umhverfisins er í dag 25. apríl. Mogginn í dag er undirlagður af umhverfisgreinum og fréttum af  opnunum á nýjum vefsetrum. Þannig munu vefirnir co2.is og natturan.is fara í loftið í dag og kolvidur.is eftir hálfan mánuð. Þetta er ágætt tækifæri til að uppfræða Íslendinga um efnafræði og samspil og hringrás efna á jörðinni og vonandi vita núna flestir hvað kolefnisbinding er.

Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum til að fræða almenning og skólafólk um umhverfismál en ég hef eins og við öll sem skrifum greinar á íslensku Wikipedia unnið það verk í kyrrþey. En það er upplagt einmitt í dag að vekja athygli á því að  íslenska Wikipedia er einn besti miðillinn til að miðla fróðleik um efnafræði og umhverfismál og hringrás efna - ekki síst út af þeim möguleika að tengja greinar innbyrgðis.

Hér eru nokkrar af þeim greinum sem ég hef skrifað um umhverfismál og efnafræði í íslensku Wikipedia:

Ég skrifa líka stundum greinar um einstök efni og efnafræði , ég skrifaði nýlega greinarnar   Gler og pottaska því ég var að vinna efni um glerblástur og vildi sýna nemendum mínum hvernig ég tengdi í wikipedíu. Svo skrifa ég líka greinar um ýmis dýr og jurtir t.d. grein um Fjallagrös, aðallega skrifa ég greinar sem tengjast íslensku líffríki. Ég skrifa líka stundum greinar um iðjuver og framkvæmdir af manna völdum og skrifaði greinina Hellisheiðarvirkjun

Á notendasíðu minni á is.wikipedia.org listi yfir nokkrar af þeim greinum sem ég hef skrifað á íslensku Wikipedia. Ég hef líka skrifað nokkrar greinar um umhverfismál á ensku wikipedia t.d. skrifaði ég meginpartinn í  greininni Breiðafjörður og þar er frábært að vinna í ensku wikipedia vegna þess að þar er hægt að tengja í allt nema að ég tók eftir að það vantaði grein um selalátur (haul-out) á ensku wikipedia. Hér er lítið brot úr greininni um Breiðafjörð sem sýnir hvað það er sniðugt að geta tengt í greinar um öll fyrirbæri sem nefnd eru:

The big intertideal zone is high in biodiversity and productivity and has extensive algal forests and other important habitats for fish and invertebrates. The area supports 230 species of vascular plants and around 50 breeding bird species including Common Shag, Glaucous Gull, White-tailed Eagle, Common Eider, Black Guillemot and Grey Phalarope. The area is important staging area for brent goose and Red Knot. The Common Seal and the Grey Seal have their main haul-out on the islands and skerries.

Several species of Cetaceans are commonly found including Common Porpoise, White-beaked Dolphin , Killer Whale and Minke Whale.

 Það er miklu sniðugra fyrir þá sem vilja koma fræðslu til almennings um umhverfismál að setja greinar inn í Wikipedia alfræðiritið heldur en að hafa slíka fræðslumola staðsetta í hinum ýmsu vefsetrum sem öll eru mismunandi uppbyggð. Það er líka þannig að Google leitar í Wikipedia, ég prófaði áðan að slá inn í Google leitarorðið eiturþörungar og þá fékk ég fyrst upp greinina sem ég skrifaði í Wikipedia, ekki hinn fína vef sem Hafrannsóknastofnun setti upp um vöktun eiturþörunga.

Lexían sem opinberar stofnanir sem sinna fræðslumálum geta lært af þessu er að passa að upplýsingar á wikipedia séu réttar og t.d. setja greinar inn á wikipedia sem síðan vísa í vefsetur sem heimildir eins og ég geri í wikipedia greininni um eiturþörunga.


Fyrsta prentaða bókin á íslensku

Þann 12. apríl  árið 1540  kom úr prentun  Nýja-testamenti sem Oddur Gottskálksson þýddi. Þetta er talin fyrsta bók sem prentuð var á íslensku. Sagan segir að Oddur hafi bardúsað við þýðinguna í laumi út í fjósi. Hann var skrifari hjá Ögmundi Pálssyni biskupi í Skálholti. Oddur var lútherstrúar þó hann væri skrifari hjá kaþólskum biskupi. Hann var reyndar líka biskupssonur, sonur Gottskálks grimma Nikulássonar sem var biskup á Hólum 1496- 1520. Hann var svo vinur Gissurs Einarssonar sem varð Skálholtssbiskup eftir siðskiptin og fékk til ábúðar Reyki í Ölfusi leigulaust og síðar Reykholt og svo Reynistað. Hann var þó ekki prestur.

 


Tungumálakunnátta og elliglöp

Merkilegt að  þeir sem eru tvítyngdir sýni merki elliglapa seinna en aðrir. Þetta er ennþá ein vísbendingin um að það sem er vefrænn sjúkdómur þ.e. Alzheimer er háður umhverfisþáttum og lífstíl. Jafnvel þó ekki sé enn sem komið er hægt að lækna sjúkdóminn og sennilega sé erfðafræðilega ákvarðað hvort fólk fær Alzheimer þá er getur ýmis konar andleg áreynsla og þjálfun tafið framgang og hvenær sjúkdómurinn gerir fólk ósjálfbjarga.

Fólk sem hefur búið í umhverfi sem krefst þeirrar andlegu áreynslu að skipta milli tungumála hefur ekki komist hjá því að reyna meira á heilann og nota mismunandi heilabrautir. Ef til vill hefur það fólk komið sér upp einhverjum varaleiðum fyrir taugaboð. Það lifir sennilega í samfélagi sem reynir meira á hugann og ef það þarf að vera viðbúið að skipta milli táknkerfa oft á dag þá er það mikil örvun fyrir heilann. Það mætti segja mér að ef gerðar væru athuganir eftir einhver ár á okkur sem höngum á Netinu þá sé það sennilega okkur í vil, það er heilmikið heilaleikfimi að æða milli vefsíðna og skanna það nýjasta á BBC og hraðlesa allt um nýjustu tækniundrin á Engadget og hlaða ínn alls konar stöffi á vélarnar okkar og prófa alltaf nýtt og nýtt. 

Ég hef oftar en einu sinni heyrt fólk sem á fullorðna ættingja sem eru komnir út úr heiminum að mestu segja frá því að jafnvel þó það hafi ekki getað haft samband við ættingja sinn  með venjulegu máli þá hafi það getað sungið  með honum og hann munað texta og lag. Það bendir til að  rytmi í tjáningu eins og söng geti farið aðrar boðleiðir en venjulegt tal.

Alzheimer sjúkdómnum var fyrst lýst árið 1906  af lækninum Alzheimer sem lýsti geðveiki konu sem var sjúklingur hans. Hún var krufin og hann fann í heila hennar kekki eða útfellingar og flækjur í taugatrefjum. Það var ekki fyrr en árið 1984 að vísindamenn fundu út að þessir kekkir í heila alzheimer sjúklinga eru skellur úr próteininu  amyloid. Sú tilgáta er núna uppi að það séu svona amyloid útfellingar sem smám saman drepi heilafrumurnar þegar þetta hleðst upp í heilanum.  Það gerist á 3 til 12 árum. Líkur á að fá Alzheimer aukast tvöfaldast á hverju fimm ára bili yfir 65 ára og þegar maður er orðinn 85 ára þá eru líkur á Alheimer orðnar  mjög miklar. Einhvers staðar las ég að flestir sem eru  með Downs heilkenni virðist fá Alzheimer.

Þeir sem þjást af offita eða sykursýki eða hafa fengið höfuðáverkar virðast frekar fá Alzheimer. Það getur verið að  gott mataræði (miðjarðarhafsmataræði), mikil neysla andoxunarefna (ávextir), omega-3 fitusýra (lýsi), karrý (efnið curcumin sem finnst í turmeric), rauðvín og marijuana hafi áhrif til góðs. 



mbl.is Tungumálakunnátta tefur fyrir elliglöpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband