Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Vargafélagið

HaförnMaður var nýlega sýknaður af ákæru um brot á lögum um vernd og friðum á villtum fuglum. Maðurinn var sakaður um að koma fyrir gasbyssu á eyju á Breiðafirði og hleypa af henni í þeim tilgangi að fæla erni frá hreiðurstæði í hólmanum og hindra þá í að verpa þar.  

Mesta útrýmingarherferð gegn örnum á Íslandi var við Breiðafjörð og Húnaflóa í kringum 1890. Svo langt var gengið að örnum var nánast  útrýmt um aldamótin 1900. Það var félag æðarræktenda sem gekk harðast fram í að hvetja til arnardrápsins og félag þeirra var kallað Vargafélagið en það veitti verðlaun fyrir hvern drepinn örn. Örn var friðaður á Íslandi með lögum sem  gengu í gildi 1. janúar 1914. Fuglaverndarfélag Íslands  var stofnað 1963 og var helsta markmið þess að beita sér fyrir verndun arnarins.  Sjá nánar í grein í gagnasafni Mbl.

Það hefur ekki mikið unnist þrátt fyrir alfriðun í 90 ár. Eiginlega grunsamlega lítið og það er mjög líklegt að steypt sé undan vargfugli hvar og hvenær sem fólk kemst að varpi þeirra og beitt sé aðferðum til að fæla ránfugla frá á öllum þeim stöðum þar sem hagsmunir æðarræktenda eru í veði. Arnarstofninn er ekki nema 65 pör í dag.  Fólk kemst ennþá upp með aðferðir eins og þessar gasbyssur. Maðurinn var sýknaður og það verður eflaust mörgum öðrum fordæmi til að koma upp gasbyssum á næsta ári á öðrum eyjum. Breiðafjörður er ein af náttúruperlum Íslands og vonandi verður þar einhvern tíma í framtíðinni stofnaður þjóðgarður bæði eyjar og fjörðurinn sjálfur. 

Vissulega  er réttur æðarræktenda mikill og nýting æðarvarps er gott dæmi um samspil dýrategunda þar sem báðir hafa hag af. Það má hins vegar ekki vera á þann veg í náttúrunni að einn aðilinn fái svo mikil völd og vopn að hann geti útrýmt og flæmt burt alla aðra en þá fugla sem skila honum tekjum. 

Það er flott að nota orðið Vargafélagið yfir alla þá sem taka þátt í að flæma burt villta fugla og alla þá sem láta átölulausa slíka hegðun. Það hefur ekkert breyst á einni öld nema okkur er núna ljósara hver er mesti vargurinn í náttúru landsins. Það er maðurinn. 


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að koma fyrir gasbyssu á Breiðafjarðareyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurstræti, ys og læti...fálkaæti

Alltaf missi ég af öllu fjörinu. Fálki í Austurstræti. Haförninn sloppinn úr Húsdýragarðinum og floginn út á Grundarfjörð. Og mig sem vantar svo mikið betri ljósmyndir af fálka og erni á Íslandi. Ég skrifaði grein á íslensku Wikipedia um fálka og um haförn en það eru ekki nógu góðar myndir við greinarnar. Ég verð að halda mig við myndir sem til eru á Wikimedia Commons eða hlaða sjálf inn myndum.  Mig vantar líka myndir af fálkum, haförnum og rjúpum til að nota  í wikibók.


mbl.is Ungur fálki að snæðingi í Austurstræti; lét fjölmiðla ekki raska ró sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fugl dagsins er margæs

MargæsMargæsir eru fargestir á Íslandi, fljúga hérna yfir á leið sinni til varpstöðvanna á heimskautasvæðum Kanada. Þær safna forða hérna áður en þær leggja upp í flugið yfir Grænlandsjökul. Ég skrifaði grein um margæs inn á íslensku Wikipedia í gær því þá fór ég í heimsókn í Sjálandsskóla í Garðabæ. Skólinn er staðsettur við sjóinn og einmitt þarna yfir Álftanesið og strandlengjuna við Faxaflóa fljúga margæsirnar yfir á leið sinni til og frá varpstöðvunum. Nemendur í skólanum  fylgjast með margæsunum, þeir skoða líka lífríkið í sjónum og fjörunni og í skólanum er stórt fiskabúr þar sem við blasa fiskar og krabbar. 

11648868012023Krístín sagði okkur frá því hvernig hún notar ferðir margæsanna sem kveikju í upplýsingatækni. Það hafa verið settir sendar á nokkrar margæsir og það er hægt að fylgjast með ferðum þeirra á korti á Netinu. Krakkarnir í Sjálandsskóla geta því fylgst með hvenær margæsirnar fljúga yfir vor og haust

Ég ætla að reyna að hafa það sem venju   þegar ég heimsæki skóla  að skrifa grein á Wikipedia um eitthvað efni sem tengist skólanum og námsumhverfi þar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband