Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.3.2007 | 23:36
Stelpa eins og ég
Hér er skemmtilegt 7. mín. myndband "Girl like I" þar sem nokkrar blökkustúlkur segja frá hvernig þær fá sífellt skilaboð úr umhverfinu um að það sé ljótt að vera svartur, það sé ljótt að vera eins og þær. Þær segja hins vegar svo fjörlega frá að maður getur brosað með þeim - alveg þangað til sýnt er þegar blökkubörn eru látin velja hvernig dúkku þau vilji leika að og hver sé vonda dúkkan. Það er of sorglegt til að maður geti brosað yfir því.
3.3.2007 | 18:02
Málum bæinn bleikan
Hafmeyjan litla fær ekki að vera í friði. Einhverjir máluðu hana bleika í nótt. Sumir grínast með að hér hafi skærufemínistar frá Íslandi verið á ferð, við höfum jú málað bæinn bleikan í nokkur ár og hvatt alla til að bera bleikt - líka styttur bæjarins. Ég hef sjálf málað sveitina bleika, ég málaði bleikan stein fyrir nokkrum árum og setti hann við glæstan minnisvarða um nokkra bræður frá Víðivöllum í Blönduhlíð, ég kallaði bleika steininn minnisvarða um óþekktu systurina. En ég veit ekki um neinn femínista sem hefur skemmt eitthvað eða aðhafst eitthvað ólöglegt vegna málstaðarins. En það stendur nú til halda bleika samkomu í Kaupmannahöfn 8. mars í Jónshúsi, það verður örugglega gaman þar. Rósa flytur þar ræðu.
Varðandi spellvirkin á styttunni þá minnir mig að það hafi verið hafmeyjustytta í tjörninni í Reykjavík en hún hafi verið afhausuð og listamaðurinn (var það Nína Tryggvadóttir?) hafi tekið það mjög nærri sér.
![]() |
Litla hafmeyjan máluð bleik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2007 | 12:10
Reykkofi í Götusmiðjunni
Ég hélt að það væri 1. apríl eða einhver gabbfrétt á síðu 4 í Mogganum í dag. Þar segir frá pólskum arkitekt sem vildi láta gott af sér leiða eftir dvöl hér á landi og þetta góða var að byggja fíkniefnaafdrep fyrir krakka sem eru vistuð í Götusmiðjunni. Þetta framtak var svo styrkt af Bykó og segist arkitektinn hafa haft samband við Barnaverndaryfirvöld til að komast að því hvar neyðin er stærst.
Er neyðin virkilega stærst varðandi það að koma upp aðstöðu til reykinga á meðferðarheimilum sem rekin eru af ríkisstyrk? Tóbak er hættulegt eitur og það er alveg forkastanlegt að því sé tekið vel og veitt aðstaða til að koma upp eiturefnaúðunarklefa á meðferðarheimilum sem rekin eru með ríkisstyrk.
Ég hvet fólk til að skrifa til Barnaverndarstofu og Götusmiðjunnar og lýsa andúð á þessu háttalagi.
Reykingar drepa.
Hmmm.... ég fór í smávegis rannsóknarbloggmennsku á Netinu og fann þá þetta á Netinu um rekstur Götusmiðjunnar á Akurhóli:
Þau 16 meðferðarrými sem til staðar eru á Akurhóli skiptast á eftirfarandi hátt:
- 12 rými fyrir ósjálfráða nemendur
- 2 rými fyrir 18 til 20 ára nemendur
- 2 rými fyrir neyðarinntöku og -endurkomu og vikudvalir
Það er sem sagt þannig að langflest meðferðarrýmin eru fyrir ósjálfráða unglinga og það er forkastanlegt að það skuli vera unnið hörðum höndum að því að stuðla að því að þau séu í harðri neyslu stórhættulegra efna á meðan þau eru ósjálfráða vistuð á stofnun sem rekin er af ríkisstyrk. Þetta er skömm og svívirða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.2.2007 | 10:44
Óðal fyrr og nú
Það er hægt að taka púlsinn á samtímanum með að skoða einn lítinn blett í Reykjavík og hvernig hann breytist. Einn af þeim blettum sem ég skoða er Óðal, skemmtistaðurinn sem ég hékk á þau ár sem ég taldi helgum best varið í að sitja að sumbli á öldurhúsum. Núna er Óðal staður þar sem karlmenn koma til að "have some quality time with balanced music , soft lighting and fabulous ladies." eins og stendur á vefsíðu þessa staðar. Þessi mynd hérna er af vefsíðu þeirra og ég held hún segi til um hvernig þjónusta er veitt á staðnum. Þar stendur líka:
Club Odal is proud to have hosted some of the hottest feature acts in the world. Our feature Entertainers have appeared in major men's magazines, films, videos, TV shows, and been the winners of many contests around the world, such as Miss Nude USA and Miss Nude World.
Saga Óðals er þyrnum stráð. Sú starfsemi sem þar fer fram núna er lítilsvirðing við konur. Fyrir aldarfjórðung tröðkuðu eigendur Óðals líka á mannréttindum en þá með því að meina samkynhneigðum aðgang að staðnum og vísa á dyr öllum sem sýndu af sér einhverja hegðun sem gæti túlkast sem samkynhneigð. Ég man vel eftir þessum tíma á Óðali og varð oftar en einu sinni vitni að því að fólki var vísað á dyr fyrir að faðmast og kyssast og halda hvort utan um annað.
Guðrún Rögnvaldardóttir skrifar greinina "Ég er í Samtökunum '78" í Morgunblaðið í gær. Hún byrjar greinina svona:
Kvöld eitt fyrir 25 árum stóð ég í biðröð til að komast inn í Óðal, sem þá var einn af helstu skemmtistöðum borgarinnar. Með mér í för var kærastinn minn, síðar eiginmaður. næstir á eftir okkur í röðinni voru þáverandi formaður Samtakanna '78 og sambýlismaður hans. Eftir um hálftíma tíðindalausa bið var röðin komin að okkur að vera hleypt inn. Ég og kærastinn gengum inn, en síðan hrintu dyraverðirnir sambýlismanni formannsins frá, kipptu formanninum inn fyrir, fleygðu honum á grúfu í góllfið, settust ofan á hann og lömdu hann og létu svívirðingarnar dynja á honum - sögðust ekki vilja sjá hans líka inni á staðnum, og honum væri fyrir bestu að hætta að reyna að sækja staðinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2007 | 10:07
Áhrif á Íslandi út af hlutabréfum í Sjanghai
Það er líklegt að hinar miklu sviptingar á fjármálamörkuðum í Asíu hafi áhrif hérna á Íslandi. Hér er frétt á RÚV um áframhaldandi fall á Asíumörkuðum Hér er vídeóið frá CNBC frá gærdeginum
Núna er stór hluti af veltu banka tengdur starfsemi erlendis. Kína verður alltaf stærri og stærri aðili á alþjóðamarkaði. Þar er skrýtið ástand - miðstýrt ríkishagkerfi í kommúnistaríki og svo líka markaðshagkerfi í alþjóðaviðskiptum. Ein af ástæðum fyrir lágu gengi dollara er fastgengisstefna kínverskra valdhafa, það er eina tækið til að tempra kínverskan innflutning í USA.
Það virðist nú ekki ljóst hversu djúp og kröpp þessi peningalægð er en það er ekki séð fyrir botninn á henni. Hér er síðasta fréttin á BBC: Word Slump hit Second Day
![]() |
Dow Jones hríðfellur: Lækkaði um 500 stig en rétti lítillega úr kútnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 11:25
Myndin af pabba
Morgunblaðið segir á forsíðu í dag frá því að samið hafi verið um kvikmyndunarréttindi á sögu Thelmu "Myndin af pabba" sem Gerður Kristný skráði. Thelma Ásdísardóttir segir að það sé mikilvægt að það sem máli skiptir í bókinni sé ekki kæft í aukaatriðum. Aðalatriðið sé að sannleikurinn komi fram og ábyrgðin sé á réttum stað og t.d. að móðir hennar verði ekki sett upp sem einhver sem átti sök á þessu eða samfélagið gert að ófreskjum og svikurum.
Ég las bókina nótt eina fyrir ári síðan. Ég lá inn á spítala, ég var í morfínvímu og allt í kringum mig var fársjúkt fólk og hjúkrunarfólk á þönum. Bókin var nístandi sár - þrátt fyrir vímuna og þrátt fyrir að ég teldi mig vita allt um efni hennar af mikilli blaða- og fjölmiðlaumfjöllun.
Ég hef séð margar konur sem eru eins beygðar og kúgaðar og móðir Thelmu og ég hef séð mörg börn vaxa upp í fjölskyldum þar sem vitstola óreglumenn drottna yfir lífi þeirra.
Ég held ennþá að skynsamlegasta leiðin til að fyrirbyggja svona fjölskyldumynstur þar sem geðsjúkur óþokki gerir líf fjölskyldu að martröð sé að styrkja sjálfsmynd og baráttuþrek konunnar. Ég segi ennþá vegna þess að ég hef reynt og reynt að gera slíkt í fjölskyldu sem ég þekki til og það fór ekki á þann veg sem ég vildi. Ég reyndi eins og ég gat að fá konu sem var mjög kúguð af margra ára sambúð við óþokka til að tjá sig og berjast fyrir sig og börn sín, hún er stórvel gefin og mjög vel máli farin og mjög ritfær. Það heppnaðist svo sem ágætlega, hún fór að skrifa í blöðin alveg ágætis greinar. Um hvað skrifaði hún? Þá kúgun og harðneskju og skilningsleysi sem hún hefur upplifað í lífinu og þær kröfur sem hún gerði til samfélagsins fyrir hönd sína og dætra sinna? Nei. Hún skrifaði varnargrein fyrir nauðgara sem sat í gæsluvarðhaldi og þann órétt sem hún taldi hann vera beittan. Núna mörgum árum seinna þá kóar hún áfram með siðblindum óþokka í fjölskyldu sinni og kýs eða kann ekki annað en sjá hið bjagaða sjónarhorn hins sturlaða kúgara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2007 | 15:43
Takk allir
Takk allir sem lögðust á eitt við verja landið fyrir klámhundunum. Sérstaklega hinum ötulu femínistum sem tóku málið upp og höfðu hátt. Enn og aftur sýnir þetta okkur að umræðan hefur áhrif. Þetta var bara besta lausnin. Að gera fólki í svona bransa lífið leitt.
Ég var nú ekki búin að sjá neins staðar að SAS hótelið ætlaði ekki að hýsa fólkið. Ég er samt dáldið hugsi yfir hvort ekki eigi að vera reglur um hvort fyrirtæki sem bjóða þjónustu sé ekki skylt að veita hana öllum. Þegar ég bjó í Iowa City í USA þá voru þar húsaleigulög sem bönnuðu þeim sem voru að leigja að gera upp á milli leigenda og handpikka fólk sem það vildi inn í íbúðir, það var vegna þess að blökkumenn í Bandaríkjunum hafa mætt miklu misrétti og mismunun og verið sniðgengnir í húsnæði í ákveðnum hverfum. Sama gildir um útlendinga og nýbúa hér á Íslandi. Þeir sæta mismunum þegar kemur að því að finna sér húsaskjól. Við erum svo vön svona mismunun að við tökum ekki eftir því að hún er mannréttindabrot.
Það er ágætt að prófa á eigin skinni hvernig er að vera í þessum sporum. Ég var einu sinni í Osló og var húsnæðislaus og hringdi og hringdi vikum saman í allar auglýsingar. Það var alltaf búið að leigja bara þegar ég gat stunið upp einni setningu, þrátt fyrir að ég sæti um að hringja um leið og dagblöðin komu út. Það var ótrúlega margar sögur sem fólk sagði til að losna við mann úr símanum. Það náttúrulega heyrðist eins og skot í símanum að ég var útlendingur. Svo gaf frænka mín mér ráð, hún sagði mér að byrja samtalið strax með því að segja að ég sé Íslendingur í námi þarna. Ég fór eftir því og það brá svo við að eftir það voru allar íbúðir lausar sem ég spurðist fyrir um og allir vildu fá mig til að leigja hjá sér, þurftu ekkert að vita meira um mig og ekkert að sjá mig, það nægði bara að vita þjóðernisuppruna. Það var sárt að uppgötva hvað fólk var að blekkja mig mikið þegar það hélt að ég væri nýbúi frá fjarlægri menningu og kannski öðruvísi en Norðmenn á litinn.
Oft þarf maður í lífinu að gera upp á milli tveggja viðhorfa og lífsýnar - stundum stangast á það sem ég vil sem femínisti og þar sem ég vil sem talsmaður þess að mannréttindi allra séu virt, líka þeirra sem stunda iðju sem ég fyrirlít og vil ekki sjá nálægt mér. Það er kúnst í lífinu að kunna að samræma og forgangsraða hvaða sjónarmið eru ofar. Femínismabarátta er mannréttindabarátta og það er líka mannréttindabarátta að fólki sé ekki úthýst neins staðar úr gistingu. Þetta er nú ekki alveg glænýtt vandamál, þetta er yfir tvö þúsund ára vandamál sem er lesið fyrir okkur í jólaguðspjallinu á hverju ári. Ætli það hafi verið raunverulega þannig að öll gistihúsin í Betlehem hafi verið full á aðfangadagskvöld.... eða var þetta mismunun vegna uppruna þeirra og kannski vegna starfa þeirra, þjóðernisuppruna og stöðu Jóseps og Maríu í lífinu?
![]() |
Hætt við klámráðstefnu hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
20.2.2007 | 11:42
Fanney í Kastljósinu
Í Kastljósinu í gær var viðtal við aðstandendur Alsheimersjúklinga. Það var viðtal við Fanney Proppé. Ég hef þekkt Fanney allt mitt líf, mæður okkar voru vinkonur, feður okkar voru stjúpbræður, yngri systir hennar var vinkona og leikfélagi minn í bernsku og fjölskyldur okkar bjuggu á sama stað alla bernsku mína, fyrst á Óðinsgötu en síðan byggðu foreldrar okkar íbúðir í blokk í sama stigagangi á Laugarnesveg og þar ólumst við upp.
Fanney var hetja okkar stelpnanna í bernsku, þegar við yrðum stórar ætluðum við að verða eins og Fanney, fallegar og alltaf í flottum fötum og eiga flott herbergi og svo eignast kærasta og barn og fara að búa eins og hún og byrja löngu áður að safna í búið og geyma búdótið í fataskápnum okkar. Við fylgdumst lotningarfullar með þegar Fanney var að fara á böll, hún kom með tískublað og efni og hannaði fötin sín sjálf og Maja mamma hennar saumaði á nokkrum klukkustundum á hana kjól á handknúnu saumavélina sína, ég held að Fanney hafi farið í nýjum kjól á hvert ball. Við litlu stelpurnar stálumst til að máta kjólana hennar, prófa málningardótið hennar og dást að búsafninu.
Fanney var líka ævintýramanneskja sem sigldi á ókunnar strendur og nam þar land og ég fylgdist sem unglingur með frásögnum hennar og þráði að komast til þessa ævintýrastaða. Fanney og Erling fluttu til Ástralíu í kringum 1969 með litlu dóttur sína. Þá var hart í ári á Íslandi en Ástralar reyndu að fá til sín innflytjendur, ég man að um tíma hugleiddu bæði foreldrar Fanneyjar og foreldrar mínir að taka sig upp og flytja með fjölskyldur sínar. Ég var spennt og sá Ástralíu sem framtíðarlandið og lagði hart að foreldrum mínum að flytja og ég óska þess ennþá að þau hefðu flutt, ég held að við hefðum spjarað okkur ágætlega í Ástralíu. En þau fluttu bara í Kópavog.
Fanney var með barni þegar hún flutti til Ástralíu og komin svo langt á leið að þau gátu ekki flogið heldur fengu far með stóru farþegaskipi og ferðin tók að mig minnir einhverjar vikur. Það voru hátíðarstundir á Laugarnesveg þegar bréfin frá Fanney í Ástralíu voru lesin, þau voru lesin aftur og aftur og rætt um allt þetta skrýtna og nýstárlega sem bar fyrir augu innflytjendanna, ferðina yfir hafið, aðkomuna í innflytjendabúðirnar og hvernig þau komu undir sig fótunum, keyptu sér hús, innréttuðu það fallega og komu sér fyrir í samfélaginu, lærðu tungumálið, unnu og ólu upp börnin. Fanney sendi skyggnur og ljósmyndir og það var hápunkturinn í fjölskylduboðum hjá foreldrum hennar að sýndar voru skyggnur og sagðar nýjustu fréttir af fjölskyldunni í Ástralíu - á staðnum hinu megin á hnettinum þar sem var brennandi hiti þegar skammdegið og veturinn var þrúgandi hér heima. Ég held að Fanney hafi hringt í móður sína einu sinni á ári og bréfin voru margar vikur að berast milli Ástralíu og Íslands.
Svo fór Haraldur bróðir Fanneyjar út til Ástralíu kornungur maður í ævintýraleit. Hann flutti til þeirra og hann var töffari sem ók um á mótorhljóli eins og hann hafði gert hér á Íslandi. Svo varð slysið. Haraldur var á mótórhjólinu á vegum Ástralíu og lenti í árekstri. Hann slasaðist svo illa að hann komst aldrei til sömu meðvitundar og áður og gat ekki tjáð sig. Haraldur var fyrst lengi á sjúkrastofnun í Ástralíu en var síðan fluttur til Íslands á sjúkrabörum. Hann dvaldi hér á Grensásdeildinni þar til hann dó og móðir hans heimsótti hann á hverjum degi. Fanney og Erling undu ekki í Ástralíu eftir þetta áfall. Þau fluttu aftur til Íslands með börnum sínum til að vera nálægt ættingjum og vinum. Um svipað leyti og Haraldur slasast kom í ljós að Addi, barnið sem fæddist í Ástralíu og fór í móðurkviði yfir hafið mikla myndi þurfa mikla aðstoð í lífinu.
Það er erfitt að ala upp fatlað barn í samfélagi eins og íslenska samfélagið var og það er jafnvel ennþá erfiðara að vera nánasti aðstandandi fullorðinna fatlaðra. Fanney hefur verið virk í samtökum sem vinna að hagsmunum fatlaðra og hún hefur eins og svo margir foreldrar í sömu aðstæðum lagt mikið á sig og barist hart til að tryggja barni sínu sem bestu lífsgæði. Addi var á Sólheimum en býr núna í stuðningsíbúð. Núna hugsar Fanney um Erling manninn sem hún hefur verið gift í meira en 40 ár og hann þekkir hana ekki lengur.
Ég hitti Fanney og Erling fyrir tveimur árum í afmælishátíð Sólheima í Grímsnesi. Þau eru bæði stórglæsileg og hress og ég hefði ekki getað merkt að neitt væri að Erling ef ég hefði ekki vitað það fyrir. Hann var ræðinn og glaður og tók þá fullan þátt í gleðskapnum. Hann var hjálpsamur og fór að sækja handa okkur meira kaffi þegar kláraðist úr kaffikönnunni. En Fanney fór fljótlega á stað að leita að honum, sagði að hann gleymdi stundum hvað hann ætlaði að gera. Bara þetta litla viðvik sýndi mér hvernig Fanney hefur unnið. Hún hefur lagt mikið á sig til að líf Erlings verði sem bærilegast, hamingjuríkast og eðlilegast og hann fyndi sem minnst fyrir sjúkdómi sínum. Ég veit hún reyndi að ferðast með honum og hætti að vinna til að þau gætu átt sem bestan og lengstan tíma saman á meðan sjúkdómurinn væri ekki svo langt genginn fram.
Fanney var hetja mín í bernsku en hún er líka hetja sem ég lít upp til í dag. Ekki lengur fyrir fallegu fötin og fallega dótin sem var alltaf og er alltaf í kringum hana heldur núna fyrir að hafa tekist á við margs konar erfiðleika í lífinu og vaxið af þeim sem manneskja og fyrir að hafa verið stoð og stytta þeirra sem þurftu og þurfa á henni að halda og fyrir að hafa verið talsmaður þeirra sem ekki geta talað fyrir sig sjálfa og barist fyrir réttindum þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.2.2007 kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.2.2007 | 15:38
Hverskonar ást
Klámunnendur og femínistar skiptast á skeytum á umræðuþræðinum um viðskipti klámhópsins hjá Katrínu Önnu. Í tilefni af nýliðnum degi elskenda Valentínusardeginum og þessari klámumræðu þá hef ég tekið bút úr umræðuþræðinum upp í þetta vefskrípó. Það eru Ásdís, Aðalheiður og Beta sem hafa orðið.
Ég teiknaði þetta skrípó í Inkscape.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.2.2007 | 22:16
Gústi og Gvendur í Kompási
Kompásumfjöllunin um Byrgið var besti og áhrifaríkasti þátturinn í íslensku sjónvarpi á síðasta ári, ekki bara vegna þeirra uppljóstrana sem þar komu fram heldur líka vegna þess hve miklum jarðskjálfta í íslensku samfélagi umfjöllunin olli. Þetta mál afhjúpaði vond vinnubrögð og vanvirðingu við skjólstæðinga og almenning hjá Byrginu en ekki síður hjá öllum opinberum eftirlitsaðilum sem og þeim sem skrúfuðu frá peningakrönum. Það sér ekki ennþá fyrir endann á því hvaða áhrif eftirskjálftarnir munu hafa.
Myndirnar af Gústa og Gvendi sem dregnar hafa verið upp í nýlegum Kompásþáttum eru stórfenglegar - annars vegar af trúarleiðtoga sértrúarsafnaðar sem segir sig hafa mátt til að líkna og leiða djúpt sokkna fíkla til betri vegar en stundar kynlíf sem einkennist af pyntingarlosta með skjólstæðingum sínum og hins vegar af fanga í Vernd sem gengur líka á Guðs vegum að eigin sögn, dæmdur kynferðisafbrotamaður sem reynir að níðast á börnum akkúrat þegar samfélagið á að vera óhultast fyrir honum - á meðan hann situr inni.
Þessar tvær myndir af Gvendi og Gústa eru í huga mér orðnar táknmyndir um ástandið á Íslandi í ársbyrjun 2007 - um skinhelgina og hræsnina sem vafin er inn í guðsótta og önnur valdakerfi svo sem valdakerfi þess sem líknar og þess sem er skjólstæðingur/fíkill/vistmaður og brotalamirnar í öllum þeim kerfum sem samfélagið hefur til að passa þegnana. Báðir þessir menn hafa fallegar og seiðandi raddir sem hafa náð til fólks - á vakningarsamkomum og í útvarpi, þeir tala sannfærandi en það er flett ofan af þeim og þeir skrælaðir þannig að við sjáum hvað er bak við forhúðina á trúarleiðtoganum og trúaða KFUK stráknum.
það var gaman að sjá að moggabloggarinn og moggablaðamaðurinn Davíð Logi fékk verðlaun. Ég fletti upp í gagnasafni Morgunblaðsins greinum hans um Íslensku friðargæsluna því ég hef bæði áhuga og innsýn í hvað þar hefur gerst. Lengsta umfjöllunin sem ég fann var greinin Vopnaskak í Paradís 8. des (innskráning þarf) og svo fann ég nokkrar viðhorfsgreinar. Grein Davíðs Loga um Vopnaskakin í paradís er ágætis grein og fræðandi en þetta er ekki beitt ádeilugrein. Frekar svona varfærnisleg skrif mjög í samhljómi við það sem stjórnvöld eru að gera og breytingar í áherslum hjá stjórnvöldum og það er sjónarhorn valdhafans sem skín í gegnum þessa grein.
![]() |
Davíð Logi fær tvær viðurkenningar fyrir umfjöllun um Guantanamo |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)