Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.10.2008 | 20:45
Ríkisstjórn sem gætir hagsmuna bílasala betur en ófæddra barna
Það er afar einkennilega staðið að málum hjá Ríkisstjórn Íslands núna. Venjulegir Íslendingar þurfa að lesa vef Financial Times til að vita hvað ríkisstjórnin er að plotta og að núna sé búið að leita formlega til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er algjört virðingarleysi fyrir almennum borgurum á Íslandi. Okkur er ekki skýrt frá ástandinu og margoft hafa æðstu ráðamenn gefið okkur villandi og rangar upplýsingar.
En þessi ríkisstjórn hefur tíma til að vera í hagsmunagæslu fyrir ákveðna aðila. Núna var í kvöldfréttum sagt frá því að í smíði væri sérstakt frumvarp í fjármálaráðuneytinu til að bílasalar gætu selt úr landi 5000 bíla, það ætti að búa til undanþágu til að endurgreiða gjöld af þessum bílum. Þetta er stórfurðulegt, það er í fyrsta lagi stórfurðulegt að einhverjir telji sig geta selt bíla frekar annars staðar en hér því allar fréttir sem ég les hvaðanæva úr heiminum segja að markaður með bíla er alveg botnfrosinn, það er ekkert séríslenskt vandamál. Það er líka stórfurðulegt og siðlaust að ríkisstjórnin skuli leggja svona kapp á að redda bílasölunum. Það er fordæmalaust að það séu endurgreiddir skattar og innflutningsgjöld vegna þess að söluaðilar bíla geti ekki losnað við bíla. Það er stórundarlegt og ég get ekki skilið að það sé löglegt að hægt sé að ívilna svona einni atvinnugrein þ.e. bílasölunum.
Hér er fréttin um þennan fíflaskap, takið eftir hvernig orðalag er á fréttinni "bjarga frá gjaldþroti", "mikill gjaldeyrir", það er hins vegar ekki nein gagnrýni hjá RÚV um hvers vegna svona fyrirgreiðsla er og hverjum hún þjónar. það er oft erfitt að hlusta á fréttaflutning frá íslenskum fjölmiðlum. Þessi fréttaflutningur á RÚV er eins og frá þriðja flokks fréttamiðli sem er óbeint í eigu bílasalanna.
Gjöld á notuðum bílum endurgreidd að hluta
Það er margt ungt fólk sem hefur verið vélað til að taka dýr gengistryggð bílalán sem það ræður ekkert við að borga af. Er verið að létta skuldabagga af þessu fólki og losa það út úr samingum um bílalán með þessu? Hver er að græða á þessu? Það hlýtur að kosta offjár að flytja bíla úr landi og það er ekki hægt að losna við þá nema á hrægammaverði/brunaútsöluverði núna þegar markaður með bíla er botnfrosinn, ekki bara á Íslandi heldur annars staðar.
Af hverju eru þessir bílar ekki boðnir á því sama verði hér innanlands og þeir færu fyrir erlendis?
Er sams konar viðskipti orðin með notaða bíla á Íslandi og með lambakjöt til útflutnings? Er það dumpað inn á markað einhvers staðar annars staðar?
Það er gott hjá Ögmundi að benda á hættuna á að ríkisstjórnin skattleggi ófædd börn. Ég vil líta benda á að Kristinn þingmaður allra flokka (er hann ekki búinn að vera alls staðar?) hefur líka oft skrifað ágætar greinar um efnahagsmál m.a. rakst ég á þessa grein um græðgina og hlutabréfin.
![]() |
Rangt að skuldbinda ófædd börn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
20.10.2008 | 11:18
Ríkjasamband Norðurslóða Noregur-Ísland-Færeyjar-Grænland
Steingrímur sem hélt útréttri sáttahönd lengi, lengi og vonaðist eftir þjóðstjórn er núna ekki handadofnari en svo að hann veifar brugnum brandi í nýjustu útgáfu af íslenskum víkingaferðum, það eru ferðirnar til að slá lán. Steingrímur byrjar það strandhögg í Noregi og mér líst ekkert illa á þetta þó Steingrímur sé umboðslausari er fjandinn sjálfur til að semja um örlög Íslendinga. En þó er umboð Steingríms meira en útrásarvíkinganna, fjárglæframannanna sem hafa átt stóran þátt í að steypa okkur í glötun. Var ég spurð um hvort ég vildi vera ábyrgðaraðili á einhverjum Icesave reikningi á netbanka? Vissi ég að þessi Icesave reikningar væru til? Nei og aftur nei.
Þó að kostir Íslendinga séu þröngir núna þá eru nokkrar leiðir færar. Ein er sú að sigla á fullu stími eins hratt og hægt er inn í Evrópusambandið. Hin er sú að tengjast eitthvað annarri þjóð sem á meira undir sér en við og getur betur ráðið við að velkjast í ólgusjó sem smáþjóðir með verðlausan gjaldmiðill drukkna í. Þar er auðvitað Noregur efst á blaði, það eru margar ástæður, íslenska þjóðin er af sama meiði og norska þjóðin, sagan og menningin er sameiginleg og það sem mestu varðar er að hagsmunir fara að mörgu leyti saman núna og styrkt bandalag beggja þjóða getur gagnast báðum á næstu áratugum.
Raunar er það þannig að best væri fyrir allar Norðurslóðaþjóðir að vera í sameiginlegu ríkjasambandi undir forystu Norðmanna.
Ég held ekki að það gagnist Íslendingum neitt sérstaklega vel að verða dreifbýlisjaðarsvæði á útkanti Evrópusambandsins. Það getur vel verið skynsamlegra fyrir Ísland og fyrir heiminn að þjóðir á svipuðum slóðum með líka hagsmuni myndi bandalög. Umhverfismál beinast nú þegar að hinum miklu auðæfum Norðurslóða og þeirri viðkvæmu náttúru sem þar er. Ég held ekki að Evrópusambandið sé heppilegasti aðilinn til að hlú að því svæði.
![]() |
Steingrímur J: Biðlar til norskra stjórnvalda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.10.2008 | 08:48
Samstarf um efnahagsaðstoð sem grípa þarf til í mótvindi
Frelsi er að hafa val. Þeir sem skulda mikið hafa lítið val. Þeir sem skulda meira en þeir ráða við að borga hafa ekkert val. Það eru mestu og jafnframt ósýnilegustu fjötrar sem lagðir eru á einstaklinga, hópa og þjóðir í dag að hneppa þau í skuldafangelsi. Það er hið nýja þrælahald, þannig er hægt að hneppa fólk í lýðræðisríkjum í ánauð. Það er meira segja hægt að hneppa margar kynslóðir í ánauð með því að lánadrottnar hirði allt sem getur orðið til tekjuöflunar í framtíðinni og hagi hlutum þannig að hinir skuldugu geti ekkert gert, hafi engan aðgang að aðföngum fyrir framleiðslu og hafi enga möguleika til að bæta kjör sín heldur séu fangaðir inn í einhverju risastóru ósýnilegu gettói.
Ríkisstjórn Íslands hefur ekkert val í þeirri stöðu sem núna er komin upp. Nema orðin sem hún notar sem skrauthvörf fyrir þann eina kost sem er í stöðu þeirrar þjóðar sem kreppt hefur verið saman og króuð af. Orð kosta ekkert og Geir forsætisráðherra sem kallaði fyrir nokkrum vikum heimskreppuna "mótvind" kallar núna alvarlegustu neyðaraðstoð siðmenntaðra þjóða "samstarf um efnahagsaðstoð sem grípa þurfi til".
Það er afleitur kostur að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En afleitur kostur er þó betri en enginn kostur og það er hlutverk sjóðsins að koma til hjálpar við svona alvarlegar aðstæður. Fjöldi sérfræðinga vinnur fyrir sjóðinn og þó að saga sjóðsins sé langt í frá saga um hve vel hafi farið fyrir þeim þjóðum sem leituðu á náðir hans þá held ég að staðan sé núna þannig að ég treysti sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins betur en þeim íslensku sérfræðingum, stjórnmálamönnum og stjórnendum fjármálastofnana og eftirlitsstofnana sem ekki sáu fyrir og ekki réðu við að koma okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í núna. Ég held einnig að hið fornkveðna gildi að betur sjá augu en auga og það er gott og gagnlegt að fá sýn utanaðkomandi óháðra sérfræðinga og það er gott að fá sýn þeirra sem standa fjarri hringiðu atburða en við hérna á Íslandi. Ég veit vel að IMF er handbendi þeirra sem vilja gæta þess valds sem þjóðskipulag og auðvaldsskipulag sem ríkir milli þeirra þjóða sem mestu ráða í heiminum í dag og það verður að taka ábendingum og ráðleggingum þaðan með það í huga. Hins vegar er ekki ástæða til að ætla að IMF ráðleggi það sama núna og klárlega hefur mislukkast verulega oft áður. Stofnanir læra líka eins og fólk.
Ég held ekki að sú heimskreppa sem nú skellur yfir heiminn sé meinfýsilegt plott hjá Davíð Oddssyni til að ná sér niðri á Baugsveldinu en ég held ekki að hann og aðrir í stjórn Seðlabanka Íslands hafi tekið réttar ákvarðanir. Ég held að margir hafi tekið rangar ákvarðanir og margir sem voru í trúnaðarstöðum kosnir til þess af alþýðu manna á Íslandi hafi sofið á verðinum og andvaraleysi þeirra og glópska hafi komið okkur í þessa stöðu. Frá því að ég man eftir hefur Sjálfstæðisflokkurinn einblínt á aðeins eitt í efnahagsmálum. Það er kallað "að ná niður verðbólgunni". Efnahagpólitísk saga Sjálfstæðisflokksins er Geirum studd. Hún spannar frá leiftursókn Geirs Hallgrímssonar til mótvindsins sem Geir Haarde segir leika um okkkur.
![]() |
Einhugur um að sækja um lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2008 | 16:48
Fundur Samfylkingarinnar
Fundur Samfylkingarinnar stendur núna yfir á Grand Hótel og ég bý hinu megin við götuna. Þess vegna brá ég mér á fundinn þó ég sé nú ekki flokksbundin lengur í Samfylkingunni. Margir af félögum mínum úr Kvennalistanum í gamla dagar eru núna í fylkingarbrjósti í Samfylkingunni og óska ég þeim velfarnaðar til allra góðra verka. Það er gott að Ingibjörg Sólrún er komin heim og vonandi nær hún sem fyrst góðri heilsu aftur. Ísland þarf á öllum leiðtogum sínum og hugsuðum að halda núna og það er svo sannarlega ekki stefna og hugsjónir Ingibjargar Sólrúnar sem steyptu þjóðinni í þær aðstæður sem við erum í núna. Þaðan af síður getur enginn kennt Jóhönnu Sigurðardóttur um þessar aðstæður og Jóhanna hefur alltaf verið tákn fyrir félagshyggju innan Samfylkingar. Svo er ekki hægt annað en dáðst að því hve Björgvin viðskiptaráðherra virðist tala af rósemi og yfirvegum og skilningi þessa daganna.
En fáir geta á móti mælt að innan Samfylkingarinnar hafa undanfarin misseri talað hátt og kröftuglega raddir sem vilja hegða sér eins og örgustu markaðshyggjumenn, aðilar sem hafa hrifist með í spilakassa lotterí menningu íslensks samfélags, aðilar sem vilja setja auðlindir okkar í einhvers konar áhættusjóð sem hægt er að nota sem spilapeninga í fjárfestingum í fjarlægum löndum, löndum þar sem stjórnarfar er sums staðar mjög spillt.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: Erfiður vetur framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2008 | 14:59
Var amfetamín verksmiðjan tilraunaverkefni unnið í samstarfi við Fangelsismálastofnun?
Það er mjög áhugavert að lesa þessa frétt frá janúar síðastliðnum sem lýsir að mér virðist hvernig Fangelsismálastofnun stóð við bakið á einum af þeim aðila sem nú hefur verið ásakaður um að tengjast amfetamínverksmiðju í Hafnarfirði.Hættulegasta eiturlyfið sem er á markaði í heiminum í dag er einmitt svona amfetamín sem kallað er Meth og ekkert eyðileggur fólk á eins skömmum tíma.
Svona var fréttin:
Brotamenn verða bisnessmenn
Eftir Ægi Þór Eysteinsson aegir@24stundir.is
Þeir Jónas Ingi Ragnarsson, sem hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm árið 2005 fyrir aðild sína að líkfundarmálinu svokallaða, og Atli Helgason, sem dæmdur var í sextán ára fangelsi árið 2001 fyrir manndráp, hafa stofnað tvö fyrirtæki saman, Feni ehf. og Hjúp ehf.Atli er stjórnarformaður hjá Feni en einn endurskoðanda er Sigurbjörn Sævar Grétarsson, sem hlaut fjögurra ára fangelsi árið 2004 fyrir kynferðisbrot. Tilgangur fyrirtækisins er fjármálaráðgjöf og hliðarstarfsemi innheimta.
Jónas Ingi er stjórnarformaður hjá Hjúpi en Friðjón Veigar Gunnarsson, sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi í janúar fyrir stórfellt fíkniefnasmygl, er titlaður sem skoðunarmaður hjá fyrirtækinu. Tilgangur fyrirtækisins er fjarskiptaþjónusta og hliðarstarfsemi þess er sala á gróður- og efnavörum.Hugmyndin varð til í fangelsinuHugmyndin varð til inni á Litla-Hrauni þegar við Atli vorum að ræða af hverju menn koma þangað alltaf aftur og aftur.
Þá átti Atli hugmyndina að því að koma á fót fyrirtækjaumgjörð sem gæti skapað núverandi og fyrrverandi föngum vinnu og tekið fjármál þeirra í gegn, segir Jónas Ingi. Fenir ehf. býður föngum upp á fjármálaráðgjöf og hjá Hjúpi stendur föngum atvinna til boða.Á meðal þjónustu sem Hjúpur býður upp á er símsvörun fyrir fyrirtæki. Þá svara fangar á Kvíabryggju símtölum fyrir fyrirtæki. Þessu framtaki hefur verið misjafnlega tekið. Þegar ég fór að ræða við fyrirtæki og bjóða þessa þjónustu voru sum ekki hrifin af því að nafntogaðir einstaklingar með stór afbrot á bakinu væru að svara símanum fyrir þau.
En eftir að hafa komið þeim í skilning um að fangar sem sinna símsvörun verði sérvaldir og ekki þurfi að greiða föngum nema fjögur hundruð krónur á tímann, skiptu nokkur þeirra um skoðun og við náðum samningum. Sömuleiðis áttuðu fyrirtækin sig á hversu gott málefni þetta framtak er.Að sögn Jónasar er um að ræða tilraunaverkefni til árs, unnið í samstarfi við Fangelsismálastofnun. Auðvitað er markmið okkar að græða peninga á þessu, en með hagsmuni fanga fyrst og fremst að leiðarljósi. Ef til vill verður samfélagslegur ávinningur af verkefninu það mikill að það verði gróðasjónarmiðinu yfirsterkara.Í hnotskurn
Að fyrirtækjunum koma um tuttugu manns, núverandi og fyrrverandi fangar og aðstandendur þeirra. Fenir ehf. býður föngum upp á gagngerra endurskoðun á fjármálum þeirra . Hjúpur býður nú fyrirtækjum uppá símsvörun. Fleiri verkefni eru í burðarliðnum.
![]() |
Brotamenn verða bisnessmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.10.2008 | 06:08
Fangelsið í næsta húsi
Í fangelsinu á Litla-Hrauni þarf tvöfalda rafmagnsgirðingu, strangar öryggisreglur, fjölda fangavarða og lása til að halda sakamönnum þar innan dyra. Í fangelsinu á Laugarteig þarf ekkert slíkt og það þarf ekki einu sinni að aðvara nágranna í Teigahverfinu að þarna sé rekið fangelsi fyrir hættulega glæpamenn inn í friðsælli íbúagötu. Því það er ekki kallað fangelsi á opinberum pappírum, það er kallað áfangaheimili fangahjálparinnar Verndar. Samt eru sennilega allir sem þar búa ennþá að afplána fangelsisdóm en þeir fá samþykki hjá Fangelsismálastofnun að gera það á Vernd. Fyrir mörgum árum voru þarna eingöngu hvítflibbaglæpamenn en raunar höfum við íbúarnir í Teigahverfi enga vitnesku um hverjir eru vistaðir þarna nema þá vitneskju sem við fáum í gegnum fjölmiðla og það er þá aðallega fréttir um þá sem hafa brotið af sér á meðan þeir dvöldu á Vernd.
Þannig höfum við fengið að vita í blöðum að þarna á Vernd hafa verið vistaðir margir af hættulegustu glæpamönnum Íslands, þarna var Stóragerðismorðinginn, þarna var Sólbaðsstofuræningjinn, þarna var Gústi guðsmaður, þarna var annar tvíburanna sem myrti mann upp í Heiðmörk, þarna var ofbeldismaðurinn T. sem núna hefur verið handtekinn vegna dópverksmiðju en hann er hættulegur ofbeldismaður sem dæmdur var í sex ára fangelsi fyrir morðtilraun og margar líkamsárásir. Ágúst guðsmaður er margdæmdur barnaníðingur og hann reyndi að halda áfram að níðast á börnum á meðan hann var vistaður á Verndarheimilinu eins og berað var fyrir alþjóð í frægum Kompásþætti. Annar tvíburamorðinginn strauk frá Vernd en Fangelsismálastofnun auglýsti ekki að hættulegur strokufangi hefði strokið frá fangelsinu í Teigahverfinu, það liðu margir dagar þar til auglýst var eftir honum. Fanginn T. var dæmdur í sex ára fangelsi í Hæstarétti en var tæpt ár á Kvíabryggju og síðan sumar og vetur á Vernd. Þegar hann dvaldi á Verndarheimilinu mun hann hafa lagt stund á efnafræðinám sem skilaði sér þannig að skömmu eftir að hann fékk reynslulausn þá var hann handtekinn og grunaður um að vera höfuðpaur í stofnsetningu amfetamínverksmiðju.
Sú afgreiðsla Fangelsismálastofnunar að hafa hættulega ofbeldismenn, morðingja, nauðgara og barnaníðinga í opnu fangelsi í venjulegu íbúðahverfi í Reykjavík er stórundarleg svo ekkert sé meira sagt. Þetta er hættulegt staða fyrir börn og aðra íbúa hverfisins og það er ömurlegt að hættulegum föngum sé sköpuð skilyrði til að halda áfram afbrotum sínum á meðan þeir eru í opnu fangelsi eða þeir fái tækifæri til að læra að fremja stórkostleg lögbrot.
Um fangann T. sem fékk aðstöðu til að búa í opnu fangelsi í íbúðahverfi og fékk líka aðstöðu til að læra að búa til dópverksmiðju þá segir þetta í hæstaréttardómi:
T var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að E vopnaður stórum hnífi eða sveðju og höggvið í höfuð hans og líkama. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir fjórar líkamsárásir, brot á vopnalögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Tekið var fram að T væri nú sakfelldur fyrir mörg alvarleg brot og hefði með þeim rofið skilorð þriggja mánaða fangelsisdóms vegna tveggja líkamsárása og fleiri brota. Þá var vísað til fyrirliggjandi vottorða um hegðun og hagi T eftir að brotin voru framin og til þess að T hefði greitt E bætur í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Að því öllu virtu var hann dæmdur til að sæta fangelsi í sex ár.
Er eðlilegt að maður með svona dóm fái að afplána refsingu sína í opnu fangelsi í kyrrlátu íbúahverfi?
Er eðlilegt að vista hættulega glæpamenn, morðingja, nauðgara, barnaníðinga og ofstopamenn í opnu fangelsi í venjulegri íbúðargötu? Það er í meira lagi undarlegt hvernig Fangelsismálastofnun hefur unnið í þessu máli. Ég hef oft áður vakið athygli á þessu hættulega ástandi, ástandi sem ógnar öryggi íbúa sem búa nálægt heimilum Verndar. Þessir íbúar vita ekki af þessum stórundarlega fangelsisrekstri sem hefur verið smyglað inn í hverfið hjá þeim án þess að neinn íbúi væri spurður um álit.
Ég hef oft áður vakið athygli á þessu alvarlega máli, sjá m.a. þessi blogg:
Hættulegir fangar í opnu fangelsi - Fangar á Vernd hafa oft brotið af sér
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.10.2008 | 12:14
Sjóður handa komandi kynslóðum?
Núna þegar Íslendingar vita ekki hvort þeir verða hnepptir í skuldaánauð í margar kynslóðir út af einhverjum netbankareikningum sem við vissum fæst hver að væru til og þaðan af síður að þeir kæmu okkur eitthvað við þá er rétti tíminn að rifja upp greinaskrif Helga Hjörvars Samfylkingarfrömuðar um hinn mikla fjárfestingarsjóð sem ætti að búa til með því að selja allar orkulindir Íslendinga. Við vitum núna að litlum hópi manna tókst að búa til risastóran vogunarsjóð úr Íslandi og spila í alþjóðlegu fjárhættuspili um eignir og tekraujur og framtíðartekjur Íslenska ríkisins.
Ég rifjaði upp hvernig fór fyrir Raufarhöfn þegar það pláss ætlaði að búa til baktryggingasjóð og seldi frá sér kvótann og lagði hann í áhættufjárfestingar. Hvar er sá sjóður núna?
Sjá bloggið Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar
Við skulum líka fylgjast vel með hvernig fer fyrir Selfoss og þeim hluti sem það sveitarfélag átti í Hitaveitu Suðurnesja. Hvar er það fé núna?
Egill Helgason sem sumir kalla þjóðarsál Íslands fannst þetta sniðug hugmynd hjá Helga að búa til risavogunarsjóð úr auðlindum Íslendinga og skrifaði 24. september síðastliðinn:
"Fyrir utan að þetta gæti verið ráð fyrir þjóð sem horfir fram á erfiða kreppu til að laða hingað erlenda fjárfesta og fjármagn sem okkur sárvantar".
Vill Egill ennþá selja frá sér allar auðlindir Íslands og nýta þær fyrir Íslendinga á sama hátt og kvótasalan nýttist Raufarhöfn og hitaveitusalan nýttist Selfossi?
![]() |
„Það er búið að þurrausa sjóðinn“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2008 | 17:22
Sjálfsmynd Íslendinga
Þessa daganna hugsa ég mikið um Íslendinga sem þjóð. Ég hef áhyggjur af framtíð íslensku þjóðarinnar. Þetta eru ekki nýjar áhyggjur. Undanfarin ár hefur allt stefnt í að sú íslenska þjóð sem ég fæddist inn í leystist upp. En ég hélt að sú upplausn yrði öðruvísi, yrði meira innan frá og meira innanlands. Ég hélt að það myndi verða þannig að með innflutningi á fólki frá öðrum menningarsvæðum að frumbyggjarnir myndu smám saman týna sérkennum sínum og menningu sinni og hið alþjóðlega umhverfi sem margir vinna í myndi smám saman vinna á. Ég sé þetta gerast á hverju götuhorni. Ég sé þetta gerast á hverjum vinnustað. Ég heyri þetta gerast í hverjum samræðum. Smám saman stinga alþjóðleg orð og alþjóðleg sýn sér inn í orðræðu, inni í vinnuna og inn í skilti og vegvísa okkar um samfélagið.
Nú speglum við okkur gegnum auga heimsins, hamfarauga sem býr til úr okkur sjóræningja og ruslaralýð sem hleypur frá ógreiddum skuldum. Þetta kemur mjög illa við okkur, við höfum sennilega öll notið þess á ferðum okkar erlendis að vera Íslendingar og fundið fyrir að það lætur okkur standa upp úr fjöldanum á jákvæðan hátt. Það tengist því að heimskautasvæði og Norðurslóðir hafa verið í tísku og það tengist umhverfisvernd og áhuga á óspjallaðri náttúru og áhuga á fjölbreytni, áhuginn á Íslendingum er af sama meiði og áhuginn á sjaldgæfum dýrategundum í útrýmingarhættu, áhuginn sem hljómar í slagorðinu "Celebrate diversity".
Hér eru grein um íslenska þjóðflutninga
Out and Sometimes Home Again. The Politics of Icelandic Migration
![]() |
Blaðamannafundur hjá forsætisráðherra í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2008 | 12:24
Ísstormurinn - Góð grein hjá Gauta
Grein Gauta um Ísstorminn er góð. Það brast eitthvað á Íslandi og það brast inn í höfðinu á hverjum einasta Íslendingi. Þetta er ekki mótvindur, fjármálakreppa eða djúp efnahagslægð. Þetta eru pólskipti hugans. Líka heimsins. Það getur verið að lánalínur bankanna leiki ekki lengur um Ísland en hér á Norðurslóðum liggja samt átakalínur í nýju heimskorti þar sem hart verður barist um ítök og auðlindir á næstu áratugum.
Það brast traust á alla sem áttu að vera á vaktinni. Hvar voru eftirlitsaðilar, hvar voru stjórnmálamenn, hvar voru stjórnendur almenningshlutafélaga, hvar voru fræðimenn, hvar voru fjölmiðlar? Og hvað gerist núna? Er boðskapur dagsins "Yfir litlu varstu ótrúr, yfir allt skaltu settur", sömu mennirnir eru í brúnni og steyptu okkur í glötun og fjármálaeftirlitið er orðið alræðisvald í fjármálalífinu. Hnakkus skrifar um ástandið hérna.
Ég held eins og Gauti að endirinn verði óvæntur og við erum núna sundurtætt af þessari óvissu um framtíðina. Það er ekkert afturhvarf til sams konar markaðsdrifins módels og féll með brauki og bramli. Tími lítilla mynta eins og krónunnar er liðinn. En það getur líka verið að tími lítilla þjóðríkja sé líka liðinn. Það getur verið að það sem er að gerast í heiminum í dag sýni vanmátt þjóðríkjanna í heimi hnattvæðingar og sá vanmáttur komi fyrst fram hjá smæstu leikendunum og þeim sem áttu hvað mest undir í hnattvæðingu.
Fyrir tíu árum þýddi ég grein eftir hagfræðinginn Angell sem snarað á íslensku er Hinn hugrakki nýi heimur samrunans. Það er fróðlegt að lesa þá grein aftur núna og hugsa um hvort sá heimur sem nýjar tæknibreytingar búa til eigi að vera rúin allri samhygð og samkennd, eigi að vera heimur þar sem hörð lífsbarátta náttúruvals ríkir, þar sem hver étur annan.
![]() |
Allir eru sekir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2008 | 10:46
Hlutabréf hrapa í dag - Nikkei niður 11% í dag, Evrópumarkaðir niður
Ennþá einn svartur dagur. Ekki bara svartur fyrir Ísland heldur líka svartur fyrir heiminn. Alls staðar lækka hlutabréf og það er engin orkukreppa því orkuverð hrynur og verð á málmum eins og áli hrynur. Allt hrynur nema matvælaverð.
Það er kreppa. Djúp kreppa. Ennþá kalla sumir þetta fjármálakreppu eða lausafjárkreppu en það er þannig að kreppan læsir sig inn á sífellt fleiri svið. hún hefur þegar gert það á Íslandi. Því miður mun almenningur í öðrum löndum líka finna fyrir kreppunni. Vonandi verður það ekki eins mikil brotlending og á Íslandi. Ég óska engri þjóð að lenda í sömu hörmungum og við Íslendingar.
Við vitum að íslenska ríkið hefur ekki bolmagn til að afstýra kreppu á Íslandi. En við höldum að stór og voldug ríki geti það í sínum löndum þó þau séu skuldug og hafi staðið í og standi í stríðsrekstri. Almenningur í þeim löndum trúir því líka. Vonandi tekst stjórnvöldum í USA og Bretlandi ætlunarverk sitt en því miður er það ekki alveg víst. Bretland stendur þó miklu betur, þar er hefð fyrir meiri ríkisafskiptum og núna tiltrú á Keynes pólitík Gordons Brown. Bandaríkin standa mjög illa þangað til kosinn hefur verið nýr forseti. Keynes pólitík gengur út á að opinberir aðilar reyni að eyða og setja á stað framkvæmdir til að hindra að allt frjósi pikkfast og hirði ekki um að safna skuldum.
Útlitið er svart fyrir USA:
Most analysts now say that a US recession appears virtually certain as a crippling credit crunch and housing meltdown drags down the rest of the economy despite a 700-billion-dollar banking sector rescue plan.
![]() |
Nánast engin viðskipti í Kauphöll Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |