Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hús hvalfangarans og stuttmyndin Flott tölva

Mótmæli eða skrílslæti. Eða listrænn gjörningur. Ég mætti við Ráðherrabústaðinn í dag.Mér fannst skemmtilegt að vera fyrir framan þetta hús sem er í mínum huga tákngervingur fyrir hvernig stjórnvöld tóku á mesta arðráni sem um getur í Íslandssögunni. Stjórnvöld þökkuðu pent fyrir arðránið og gerðu hús arðræningjans að sínum veislu- og móttökustað. Mesti arðræningi Íslandssögunnar alveg til ársins 2008 var hvalfangarinn á Sólbakka í Önundarfirði sem framdi arðránið árin 1889-1901. Fjármálastarfsemi var stór og mannfrek atvinnugrein á Íslandi árið 2008 en árin sem hvalveiðistöðin starfaði þá var hún stærsta atvinnufyrirtæki á Íslandi, þar störfuðu 200 manns. 

Hvalveiðarnar á Vestfjörðum eru blóðugasta arðrán á náttúru Íslands sem um getur, hvölum var útrýmt á mörgum stöðum.  Svo þegar hvalfangarinn var búinn að ryksuga upp íslensku hvalamiðin þá pakkaði hann saman og fór að stunda sams konar iðju á öðrum stöðum, fyrst á Austfjörðum og svo annars staðar í heiminum og gaf (reyndar seldi fyrir eina krónu)  vini sínum Hannesi Hafstein húsið sitt sem var tekið niður og flutt til Reykjavíkur. Fyrir þetta er honum þakkað. 

Hannes Hafstein mun á sinni tíð oft hafa þegið skutl með hvalbátum vinar síns milli staða á Íslandi. Á þeim tíma var skutl í einkaþotum á milli landa ekki algengt.

Dóttir mín vildi ekki koma með mér að Ráðherrabústaðnum, sagðist ekki styðja þessar aðgerðir, þetta væri lýðskrum. Ég held hún hafi rétt fyrir sér að sumu leyti, það eru sumir sem hátt  heyrist í núna lýðskrumarar sem eru að reyna að fljúga framan við gæsahóp á oddaflugi og láta sem þeir stýri fluginu.

En mér sýndist fólkið sem saman var komið vera flest alvörugefið fólk sem kallaði á breytingar. Og það sem ég heyrði af samkomunni fór vel fram, ég heyrði Ómar Ragnarsson syngja og ég heyrði Jón Baldvin hrópa á fyrirgefningabeiðni sökudólga.  Ég hef reyndar ekki heyrt margar fyrirgefningarbeiðnir ennþá, man ekki eftir neinni nema frá Jóni Trausta á DV og Illugi hefur huggað hann og segir "Þetta er ekki þér að kenna, Jón Trausti!"

Þegar samkomunni var slitið þá hófust skrílslætin. Það voru anarkistar að ég held. Það var fólk með svarta fána og skilti þar sem það bölvaði auðvaldi, bönkum og kapítalisma. Mjög myndrænt og listrænt og svo kveikti fólkið líka elda og hrópaði vígorð.  Mér heyrðist það bölva öllu, já ég heyrði ekki betur en það hrópaði í takt "Alla burt".  Svo tók ég allt í einu eftir því að einn mótmælenda sem hafði sig mikið í frammi  og hrópaði niður auðvaldið var sú sama og ég tók eftir þegar ég var í vikunni stödd í Borgarbókasafninu. Hún var þar  að kaupa mjög flotta fartölvu af fyrrum bankamanni. Það var engin krepputölva. Svo tók ég líka eftir að einn anarkistanna er hálfbróðir dóttur minnar. 

Hér fyrir ofan er 3. mínútu myndbrot af skrílslátunum. Ég kalla þessa stuttmynd Flott tölva. Tek fram að samkoman áður var alls ekki svona, hún var hins vegar ekki eins myndræn og skrílslætin. 


mbl.is Þögn ráðamanna mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttukveðjur til allra sem voru að útskrifast í dag

Þau sem voru að útskrifast í dag koma sennilega út í verstu aðstæður til að sækja um vinnu og fá sennilega ekki núna vinnu í því sem þau hafa menntað sig til. En öll él styttir upp um síðir.  Það er búið að vera svo mikil eftirspurn eftir fólki undanfarin ár að íslenskt samfélag er ekki búið undir þessar aðstæður, að margir nemendur útskrifist og geti ekki fengið vinnu vegna þess að hvergi er ráðið inn fólk.  Mágkona mín var að útskrifast í dag með BA próf. Hún er heppin að hafa vinnu, hún ber núna út póst. Hún hefur líka unnið á dvalarheimilinu Grund undanfarið ár og kunni vel við það starf. Ef til vill veldur ástandið því núnaa

Það er mikilvægt að samfélagið skapi aðstæður til að það fólk sem nú útskrifast úr skólum geti tekið þátt í að búa til ný atvinnutækifæri á Íslandi. Það er betra að búa til þróunarverkefni þar sem fólk vinnur að hönnun eða einhvers konar uppbyggingu sem endilega er ekki bein framleiðsla  heldur en að fjöldi fólks sé beint á atvinnuleysisskrá.


mbl.is Háskólinn mun svara kalli samtímans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti vetrardagur

Er fyrsti vetrardagur í dag? Ég hef ekkert fylgst með veðrinu, ekki síðan ég fór í bjartsýnisgöngu í Esjuhlíðar með dóttur minni sem núna bíður eftir símtalinu frá Kaupþingsbankanum nýja. Núna horfi ég á trén út um gluggann hjá mér og sé að öll laufblöðin er farin á trjánum  og nú sé ég athafnalífið hinum megin við veginn. Reyndar hélt ég að eitthvað stórslys hefði gerst, það voru alls konar björgunarsveitabílar og sjúkrabílar og bláar sírennur sem ennþá blikka. En þetta er sennilega ekki slys, sennilega er þetta einhvers konar þing björgunaraðila þar sem einn liður í því er að sýna græjurnar.

Í dag ætla ég að fara út og skoða veðrið úti og fagna vetri, ég ætla út í hlýju íslensks vetrarveðurs  út úr lemjandi frosthríð fjármálafárviðris.  Það er sniðugt og viðeigandi að fara í sund og fara í fjölskyldugarðinn og skoða náttúruna inn í Reykjavík. Svo er kjötsúpudagurinn á Skólavörðustíg og samstaða á Austurvelli. Ég held að auglýst hafi verið að eitthvað um að mótmæla þögn ráðamanna, það er ekkert viðeigandi lengur því bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa mikið verið í sviðsljósinu. Ég hef heldur enga orku í neina mótmælastöður, ég vil bara fara í samstöður þessa daganna. 

Ég er þessa daganna að rifja upp hvernig ég hef hegðað lífi mínu undanfarin ár og hvaða hugmyndir ég hef haft um samtíð mína. Ég spyr mig þeirrar spurningar, átti ég einhverja sök? Spilaði ég með í þeirri spilakassamenningu og ofurtrú á markað og einkaframtak sem einkenndi íslenskt samfélag?

Hefði ég átt að vara kröftugar við? 

Ég hef skrásett líf mitt á blogg alveg frá apríl 2001 svo ég get farið yfir hvað ég hef hugsað. Ég þarf að fara yfir  allar færslur mínar sem ég get tengt við það sem nú er að gerast.

Það eru örugglega mörg hundruð blogg. Hér eru tvö þeirra þar sem ég fjalla um náttúruna kringum Reykjavík og hve mikil villuljós eru í samfélagi sem gengur út á fjárhættuspil 

 Fjárhættuspil er fátækraskattur

Hver á Heiðmörk, Esjuhlíðar og Úlfarsfell?

 


mbl.is Gerum okkur dagamun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skilvirkni fjármálamarkaða hefur skaddast, tímabundið"

Það er gott að nú hafi Íslendingar leitað til IMF. Það var eini sjáanlegi kosturinn í stöðunni. Ég er fegin að Geir Haarde er forsætisráðherra. Geir og Ingibjörg eru gott fólk í forustu núna og við sem tilheyrum öðrum flokkum eigum að skilja að það besta fyrir Ísland er að við stöndum öll  á bak við þau á meðan á mestu hremmingunum stendur.  Það þarf svo seinna að fara fram uppgjör og greina hvað  gerði þennan skell svona stóran og hverjir sem áttu að gæta hagsmuna almennings gerðu það ekki.

Geir er greindur maður og hann er hagfræðingur og skilur gangvirki fjármálamarkaðarins. Reyndar skilur hann betur hvernig hagkerfið sem hvarf  virkaði  og  hann áttar sig ekki á því að það kemur aldrei aftur. Geir kallaði kreppuna lengi vel mótvind. Hann er markaðshyggjumaður og hann telur að hrundar rústir fjármálamarkaðar se einhvers konar tímabundin löskun. Ég held að þetta sé endir ákveðins tímabils.

Geir talar um að lífskjör muni versna hérna á þessu ári og næsta. Fólk á Íslandi verði að færa fórnir á meðan við séum að vinna okkur upp úr þessum öldudal.  Þetta minnir mig á þegar ég var lítið barn þá var faðir minn trúaður sanntrúaður kommúnisti en allar fréttir  sem við höfðum frá löndunum hinu megin við járntjaldið voru þannig að þeir höfðu það miklu verra en við. Ég spurði mömmu mína Framsóknarkonuna hvernig stæði á þessi, hvernig virkaði þessi kommúnismi sem ætti að hjálpa öllum en mér virtist hann gera alla fátæka og auka eymd. Ég man ennþá það sem mamma sagði, hún sagði að þetta gengi út á að fólkið væri að færa fórnir til að hafa það betra í framtíðinni.

Svo þegar venjulegir Rússar voru búnir að færa fórnir í marga áratugi þá brotnaði kommúnistakerfið þeirra og olíarkarnir tóku yfir afraksturinn af öllum fórnunum.

En við verðum sem sagt öll að færa fórnir næstu árin.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð í skjóli kreppu

Því miður er þannig ástand núna í Bretlandi ríkisstjórnin þar virðist geta farið fram gagnvart grannþjóðum, beitt hryðjuverkalögum til að kyrrsetja eignir og beitt engum lögum til að selja eignir. Dagurinn í dag er einn svartasti dagurinn í kauphöllum heimsins. Það bendir allt til þess að heimurinn sé að fara sömu leið og Íslendingar. Sennilega verður að loka kauphöllum. Norska kauphöllin hefur farið niður 10% í dag.

Það er margt gruggugt að gerast.  Gestur rifjar upp lagagreinar um landráð, sjá hérna Til íhugunar fyrir Björgúlfana

Það er hins vegar svo að  áætlanir og yfirlýsingar Björgúlfana hafa ekki staðist.  Og það er margs skrýtið í þeirra fyrirtækjarekstri síðustu fimm árin. Þeirra fyrirtæki er Eimskip og þeir Björgólfsfeðgar voru tilbúnir að bjarga Eimskip

Það var blekking. 

Fyrir mörgum árum þá ákvað ég að ég skyldi komast yfir  einn hlut af 200.000 hlutum í kvóta íslenskra sjávarútvegsins, ég skyldi kaupa upp minn skerf af kvótanum í hlutfalli við fjölda Islendinga úr því að útgerðarmönnunum hefði verið afhentur hann. Ég setti sparifé mitt til að kaupa fyrirtæki sem áttu kvóta Reykvíkinga. Það var auðvitað fyrst gamla Bæjarútgerðin sem núna heitir HB GRandi og svo var það Eimskip. Ég stúderaði ársreikninga Eimskips og sá að það fyrirtæki átti stóran part af kvóta Íslendinga, það hafði markvisst sankað að sér sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég var því glöð að eiga minn skerf af kvótanum í gegnum Eimskip. En þá komust Björgúlfsfeðgar inn í þetta og fyrirtækjasplittengarnar hófust. Eimskip splittaðist í Burðarás og Eimskip og einhverjir (hverjir?) hrifsuðu til sín kvótann sem Eimskip átti. Ég varð allt í einu orðin eigandi að hlutabréfum í einhverju fjárfestingarfélagi, ég sem hafði einmitt keypt í Eimskip vegna þess að ég vissi að það félag átti skip og það félag átti sjávarútvegsfyrirtæki.  Eftir það langaði mig ekkert til að eiga lengur í þessum félögum og seldi bréfin í Burðarás.  Sem betur fer.

Ég á náttúrulega ekki að vorkenna neinum sem grunaður er um landráð og tilræði gegn Íslendingum en ég get ekki annað en sagt að Björgólfur eldri er eindæma seinheppinn varðandi tímasetningar þessa daganna. Þannig virkaði Hafskipsbókin sem hann lét skrifa til að útbreiða það sem honum fannst vera sannleikur ekki neitt vel þegar hún kom út á sama tíma og Ísland var slegið niður. Eins hugsa ég að kombakkið hans í Morgunblaðinu um helgina geti nú farið á ýmsa vegu. Björgólfur hefur alltaf lagt kapp á að eiga fjölmiðla og hafa hinar talandi stéttir í vinnu hjá sér.  Kannski eru einhverjir ennþá eftir sem hann greiðir kaup?


mbl.is Bretar selja eignir Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðlega fjármálamiðstöðin London og barátta breskra við hryðjuverkamenn

Afrit af símtali Darlings og Árna er rakið að hluta í FT, sjá hérnaTranscript challenges UK position on Iceland

Samtalið er algjörlega í samræmi við það sem ráðamenn á Íslandi hafa haldið fram og sýnir ekki annað en vilja Íslendinga til að leysa málin. Neyð okkar Íslendinga mikil og ofan á það bættist að bresk stjórnvöld fóru í stríð við okkur, stríð sem háð er í spindoktoraleik í breskum fjölmiðlum og stríð sem er háð með hryðjuverkalögum.

Það er ekki víst að breskur almenningur átti sig á  hve hroðalega ráðamenn breskir stóðu að þessu máli og hve alvarlegar afleiðingar það kann að hafa á London sem miðstöð í fjármálaviðskiptum heimsins. Ég hugsa að  fólki á Bretlandi sem fylgist ekki vel með mannréttindamálum og hvernig terroristalögum er beitt átti sig ekki á alvöru málsins heldur sjái frekar ráðherra sem er grimmur og harður í að gæta að sparifé breskra þegna. 

Þetta mál er alvarlegt fyrir Ísland en þetta er grafalvarlegt fyrir allan heiminn og öll þau lönd sem eiga einhver viðskipti við hina alþjóðlegu fjármálamiðstöð í Bretlandi. Það eru sennilega flest lönd heimsins.  Með því að beita hryðjuverkalögum til að þvinga smáríki á barmi þjóðargjaldþrots inn í ennþá hörmulegri stöðu í stað þess að leysa ágreiningsmál eftir hefðbundnum lagalegum leiðum þá sýndi breska ríkisstjórnin fádæma ofbeldi.

Gerðir breskra stjórnvalda eru stríðsyfirlýsing. Stríðið gegn hryðjuverkum er stríð 21. aldar og við sjáum nú sem þátttakendur í þannig stríði hvernig andstæðingar eru teiknaðir upp af stjórnvöldum. 

Vonandi lærir heimurinn á þessum viðbrögðum Breta og áttar sig á því hvað stríðið gegn hryðjuverkum er farið að taka á sig hryllilegar myndir, orðin réttlæting fyrir gerræðisstjórn. Vonandi lærum við  Íslendingar á þessum viðbrögðum Breta, vonandi lærum við að það eru mjög margir sem hafa verið í sömu stöðu, ekki síst múslimar í London. Ég fór til London um það leyti sem seinni sprengjutilræðið voru í London og dvaldi í Austur-London í nokkrar vikur. Hvar sem ég kom þá sá ég einangrun fólks af múslimaþjóðerni, ég sá oft í kringum brautarstöðvarnar lögreglu handtaka fólk og yfirheyra og ég sá alla veitingastaði  austurlandabúa í Brick Lane tóma. Margir múslimar sem ráku  lítla veitingastaði og verslanir hafa örugglega orðið gjaldþrota. Hvar vetna mættu múslimar miklum fordómum í bresku samfélagi og gera ennþá. Samt vita allir sem það vilja kynna sér að trú þeirra er boðskapur friðar og kærleika og samhyggju milli manna alveg eins og kristin trú. Og flestir múslimar sinna trú sinni ekki af meira offorsi né pæla meira í trúmálum heldur en við Íslendingar gerum. Við vonandi getum dregið lærdóm af þessum aðförum Breta, þann lærdóm að grimm og völdug stjórnvöld með hættulega hryðjuverkalöggjöf geta búið til hryðjuverkafólk úr norrænum fiskimannaþjóðflokki sem býr á afskekktri eyju og neitar að hafa her.

Hér er um samtalið sem gerði Íslendinga að hryðjuverkamönnum:

At no point does the Icelandic finance minister state unequivocally that Iceland would not honour its obligations.

Instead, Mr Mathiesen says that Iceland plans to use its compensation scheme to try to meet obligations to British depositors.

Mr Darling told BBC Radio on October 8: “The Icelandic government, believe it or not, have told me yesterday they have no intention of honouring their obligations here.”

The Icelandic government believes that Mr Darling’s state

Iceland’s perceived refusal to honour its obligations was also instrumental in convincing the British government to use anti-terror legislation to freeze Icelandic banking assets to try to protect depositors.

Hér eru minningarbrot mín sem ég hef skráð á blogg af ferðum mínum til London, ferðum sem voru farnar áður en við Íslendingar urðum hryðjuverkaþjóð í augum breskra stjórnvalda: 

Ég skráði minningar mínar frá London 2005 hérna London ..... Strætisvagn No. 26 á Hackney Road

London minnir mig á strætisvagn  No. 26  á  Hackney Road  í  Bethnal Green  en það var sprenging í þeim vagni 21. júli 2005 einmitt á sama tíma og ég kom til London og var á leiðinni í þetta hverfi. London minnir mig á löggur og hermenn. London minnir mig á Brick Lane og karrýstaði  þar sem engir viðskiptamenn koma og moskuna í Finbury Park.

Hér er líka gamalt blogg um þegar ég kom í London 21. júlí 2005

1.7.05
      ( 10:03 PM ) Salvor  
London i dag
Vid forum til London gegnum Stansted i morgun. Vid skiptum a ibud og bil vid fjolskyldu sem byr i Austur London, nalaegt brautarstodinni Bethnal Green. Vid thurftum ad syna vegabrefin okkar alla vega fjorum sinnum a Islandi og a flugvellinum i Stansted thegar vid lentum thar rett fyrir hadegi voru vigalegir logreglumenn med alvaepni i vegabrefaskoduninni, their gengu eftir rodinni af Islendingum sem bidu med hendi a gikknum a velbyssu og their voru lika med skammbyssur og thad glytti i handjarn i rassvasanum. Vid gontudumst med thetta, Bretar vaeru ordnir paranoid eftir 7. juli og vid toldum ad thetta vaeri lika odrum thraedi syning, svona til ad syna almenningi ad thad vaeri verid ad passa obreytta borgara.

Svo tokum vid rutu fra Terravision sem for fra Stansted kl. 12.30 og atti ad fara ad Liverpoolstreet og svo a Victoria stodina. Vid satum i naestaftasta saetinu. Rett adur en rutan for tha uppgotvadi madur i aftursaetinu ad thar var bakboki sem enginn i aftasta saetinu atti. Hann spurdi okkur i naestu saetum hvort vid aettum hann en enginn kannadist vid thad. Madurinn for med bakpokann fram i rutuna og eg held ad bakpokinn hafi verid fjarlaegdur, svona farangur sem skilinn er eftir i almenningssamgongutaekjum er litinn alvarlegum augum og vid hugsudum eins og allir hugsa i London nuna ad thad vaeri gott ad folkid i saetinu fyrir aftan okkur vaeri a verdi. Madur veit aldrei.. Brostum lika yfir hvad vid erum ordin tortryggin. Rutan for um sveitirnar i nagrenni London og vid spadum i hvad vaeri verid ad raekta a okrunum og hvada trjategundir yxu a morkum akurteiganna.

Vid komum a Liverpoolstodina kl. 13.30 og akkurat tha hafdi verid tilkynnt um sprengingu i straetisvagni i Bethnal Green. "1330: Police respond to reports of an explosion on a Number 26 bus in Bethnal Green, east London. There are no injuries." Vid vissum thad ekki tha, vissum bara ad thad var undarlega erfitt ad fa leigubil. Vid vissum fyrst af sprengingunum thegar Gyda sem vid vorum ad fara til hringdi og sagdi ad Hackney Road og stor hluti af hverfinu i kring vaeri lokad en vid vorum ad fara i husid hennar sem er thar rett hja. Vid komumst tho thangad a endanum eftir ad hun hafdi gefid bilstjoranum fyrirmaeli um hvada leid hann aetti ad fara. Allan daginn hafa verid mikil laeti her i hverfinu ut af sirennum logreglubila og hopum logreglumanna sem her fara um a motorhjolum. Thad eru enntha i kvold borgarlogreglur a verdi vid Hackney road her rett hja. En nuna adan var eg ad sja i frettum ad i einhverjum af sprengingunum i dag tha var thad bakpoki sem skilinn hafdi verid eftir sem sprakk i loft upp. Eg get ekki annad en hugsad til bakpokans sem var i rutunni i morgun, a sama tima og hinar sprengingarnar, get ekki annad hugsad en hvad ef thad hefur verid sprengja i theim bakpoka..

Brautarstodin herna hja okkur Bethnal Green var vettvangur harmleiks i heimstyrjoldinni sidari, fjoldi folks hafdi leitad thar skjols vegna loftarasanna a London og margir letust thegar sprengjur fellu thar. Thessu atviki var haldid leyndu thangad til i stridslok, ad eg held til ad draga ekki kjark ur ibuum London a medan a loftarasunum stod. En nuna er onnur ogn, sprengjurnar koma innan fra og thad er talad um "the enemy within" og ovinurinn er ad vinna, nuna hafa stjornvold enginn rad til ad takmarka frettaflutning sem eydileggur barattuthrek borgarbua - ovinurinn er ad vinna fjolmidlastridid og sa otta og tortryggni i salu allra sem nota almenningssamgongur herna i borginni.

En thratt fyrir ad komu okkar her til Austur London hafi komid a thessum tima tha hofum vid thad gott herna og kunnum vel vid okkur. Vid erum i meira en hundrad ara gomlu radhusi med longum og villtum og frabaerum gardi og vid enda gardsins er siki og hinum megin vid thad er Viktoriugardurinn. Thetta er eins og ad vera ut i sveit en vera samt midsvaedis i London. Folk er a batum a sikinu og Thames ain er her stutt fra. Pete segir frabaera gonguleid ad fylgja sikinu ad Thames. Eg kann strax vel vid mig herna og hlakka til ad verda "East ender" naesta halfa manudinn. Vona samt ad thad verdi meira folgid i ad skoda mannlifid og menninguna og umhverfid en ad fylgjast med og ottast sprengjur.

Eg las i frettunum a BBC adan:"The attacks took place almost simultaneously, at about 1230 BST." Mer finnst othaegilegt ad hugsa um ad einmitt tha var eg i rutu thar sem fannst bakpoki sem enginn kannadist vid og vid oll sem vorum i oftustu saetunum i rutunni vorum ad hugsa um hrydjuverkaognina.

 


mbl.is Samtal Árna og Darlings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vér hryðjuverkamenn

Fjármálaorð dagsins er "stagflation". 

Kreppuorðabókin hjá BBC útskýrir stagflation svona: "The dreaded combination of inflation and stagnation - an economy that is not growing while prices continue to rise".

Það er magnað hvað ég hef lært mikið í ensku síðustu vikurnar, alls konar orð sem ég vissi ekki að væru til ... sem skiptir kannski ekki miklu því mörg hver lýstu fyrirbærum sem þurrkuðust út og hurfu í risastórri manngerðri flóðbylgju sem nú skellur yfir heim allan.

Þetta er ef til vill eitt risastórt samsæri til að velta heiminum á hliðina eins og höfundur greinarinnar the Iceland syndrome ýjar að. Það er nú samt ekki auðvelt að sjá að neinn sé að græða á ástandinu af þeim sem heimsálfu okkar byggja. Vissulega hafa herkonungar allra tíma notað peninga til að greiða sér leið og tryggja völd sín. Sagði ekki Hammúrabí hinn forni að enginn borgarmúr væri svo hár að asni klyfjaður gulli kæmist ekki þar yfir?  Núna þarf ekkert að sigra þjóðir með mútufé. Það er nóg að senda inn eldsprengjur í fréttum um að einhver hlutabréf á verðbréfamarkaði standi tæpt, þá verður einhvers konar sjálfsíkveikja, þá fuðrar samfélagið upp af sjálfu sér og splundrast. Þetta sparar marga asna.

Í greininni The Iceland Syndrome þá hugleiðir höfundur:

To put it another way: If you wanted to destabilize a country, wouldn't this be an excellent time to do it? If Country X's stock market can crash after the publication of a single article in an obscure newspaper, think what might happen if someone conducted a systematic campaign against Country X. And if you can imagine this, so can others. 

 Hmmm... þegar ég hugsa þetta upp á nýtt og pússa gleraugun betur þá sé ég þetta miklu skýrar. Við erum fórnarlömb, við höfum orðið fyrir hryðjuverkaárás inn á fjármálamarkaðinn hérna og það hefur velt öllu á hvolft. Nú þarf bara að bíða eftir að einhver lýsi verknaðinum á hendur sér. Það getur verið löng bið en mér líður alla vega betur eftir þetta nýuppgötvaða píslarvætti. Það er betra að vera fórnarlamb heldur en gerandi, heldur en sjóræningaútrásarÍslendingur sem rænir og ruplar alls staðar í útlöndum. 

Mér líður eins og þegar ég prófaði Hljómskálann hennar Þórunnar Valdimarsdóttur, sjá þessa frásögn af vitrun minni þar.  Í bók Þórunnar á bersyndugt fólk athvarf og gestgjafar í hljómskálanum eru Samtök sannleikans en um þau segir:

"Þessi ameríska hreyfing byggir á þeirri sálfræðilegu staðreynd að fólk bætir líðan sína með því að opna sig. Það hefur reynst mörgum vel að koma í ræðustól í Hljómskálanum, en ekki síður að setjast síðar í ró og næði heima við tölvuna og halda áfram að ræða um sín mál á Netinu. Allir hafa aðgengi að heimasíðunni okkar en sumir kjósa að skrifa þar undir dulnefni, meðan að fleiri og fleiri horfast í augu við heiminn með allt sitt. Í þeim hópi er að sumra dómi afbrotafólk, sem kýs að hafa syndir sínar öllum opnar á Netinu, með eigin apologiu. Æ fleiri viðurkenna að gott og illt hafi óljós mörk."

Eða er ég ennþá hryðjuverkamaður (hér fer betur á að segja hryðjuverkakona)? 

Hvenær byrja réttarhöldin?

Er ég orðin að  bjöllu?


mbl.is Svíþjóð hikandi um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óveðurskýin hrannast upp

ovedursky Það er enginn huggun fyrir okkur Íslendinga að allt bendir til að heimskreppan skelli líka á aðrar þjóðir með miklum þunga. Financial Times birti í fyrradag þetta efnahagslega veðurkort fyrir Evrópu.

Það eru mörg lönd sem eru í þrumuveðri, þar eru Ísland, Ungverjaland, Írland og Eystrasaltsþjóðir. Svo er alls staðar spáð miklu meira atvinnuleysi. Það kemur auðvitað langverst niður þar sem atvinnuleysi var mikið fyrir eins og á Spáni. Heildaratvinnuleysistölur eru líka villandi, atvinnuleysi er  miklu meira meðal ungs fólks. 


mbl.is Mikil lækkun á Asíumörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni bankamaður í Noregi

Núna þegar fyrirsjáanlegt er að það verði með neyðarráðstöfunum að þjóðvæða alla helstu innviði íslensks  athafnalífs þá er rétti tíminn til að horfa yfir blóði drifna slóð helsta bankahöndlara Íslendinga.

Það er Bjarni Ármannsson. 
Hann var uppgötvaður af Pétri Blöndal sem réð Bjarna til KAupþings 1991 og  hafinn til metorða af  Finni  Ingólfssyni þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra  og Þorsteini Ólafssyni en þeir gerðu Bjarna  að bankastjóra FBA  árið 1997. Svo sameinaðist FBA Íslandsbanka og upp hófust axarsköftin þegar Bjarni hjó sér leið til að búa til handa sjálfum sér digra sjóði úr engu nema blekkingum og trúgirni og þeim fjárhagslegu svikamyllum sem drifu áfram íslenska bankaútrás þar sem menn eins og Pétur Blöndal reyndu að telja okkur trú um að allt í kringum okkur væri eigendalaust fjármagn sem best væri að hinir klókustu og ófyrirleitnustu sem hefðu einokað alla upplýsinga og valdaþræði í hendi sér hrifsuðu til sín og létu mala sér gull eins og úr kvörninni Grótta

Bjarni bankamaður keypti banka í Noregi í gríð og elg. Hann einblíndi á fjárfestingarhugsunina og útrás bankans erlendis.  Hann  sá um kaup á KredittBanken og BN-banka í Noregi og var mánuðum saman í útlöndum að gera samninga um kaup á bönkum.

Bjarni virðist hafa plantað sér alls staðar í stjórn og formennsku og notað aðstöðu sína til að ausa fyrir sjálfa sig úr þeim sjóðum sem honum var trúað fyrir. Margt er afar siðlaust og undarlegt að það hafi verið löglegt t.d. hvernig hann dílaði við sjálfan sig. 

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitni, rétt sinn samkvæmt kaupréttarsamningi dagsettum 1.3.2002 við bankann um að kaupa 15 milljón hluti í Glitni á verðinu 2,81 og seldi bankanum aftur á verðinu 28,2. Keypti Bjarni bréfin því á 4,15 milljónir króna en seldi þau aftur á 423 milljónir. Söluhagnaður hans nemur 380,85 milljónum króna. 

Nú hefur komið í ljós að það var engin viðskiptasnilld bak við útrásina, bara "carry trade" ásamt blekkingum og einokunaraðstöðu nokkurra manna sem gátu búið til spilaborg fyrir sjálfan sig úr íslensku athafnalífi og lífeyrisjóðafé og öðrum sjóðum landsmanna, oft á mjög vafasaman og siðlausan hátt. Oft er talað um að opinberir aðilar séu spilltir á Íslandi, þeir hygli vinum og sjálfum sér. En eru nokkur dæmi um að fólk í opinberri þjónustu eða fólk sem stýrði samvinnuhreyfingunni forðum daga hafi orðið uppvíst að  eins stórkostlega spillingu eins og viðgengst í þessari svokölluðu útrás? Eru nokkur dæmi um að fólk hafi farið svona með fé sem því hefur verið trúað fyrir alveg án nokkurra tengsla við hagsmuni almennings á Íslandi, almennings sem átti sannarlega mest af því fé sem Bjarni Ármannsson og hans líkar spiluðu með?

Sem betur fer fékk Bjarni Ármannsson og hans líkar ekki að læsa klónum í íslenskar orkulindir. Hvernig hefði farið fyrir okkur ef þetta bankahrun hefði verið  einhverjum árum seinna? Eftir að forsetinn og Össur í Samfylkingunni og Illugi Gunnarsson hefðu verið búnir að lofsyngja einkavæðingu orkulinda og breyta umgjörðinni þannig að allur sá auður gæti sogast úr landi í digra sjóði allra Bjarna bankamanna þessa heims.

Bjarni Ármannsson stóð á bak við REI og þar átti að nota ímynd Íslands og tengja Orkuveitu Reykvíkinga á einhvern dularfullan hátt við áhættufyrirtæki sem var byrjað að auglýsa sig upp eins og það væri Orkuveitan. Þetta átti greinilega að vera sams konar markaðssetning eins og á Icesave reikningunum, um að gera að tengja sem mest við Ísland og láta líta út fyrir að þetta væri 120 ára banki á ÍSlandi sem stæði í þessu.

Svona svarar Bjarni Ármannsson í Deigluviðtali í fyrra:

Stjórnmálin eru grimm á Deiglan.com - vefrit um þjóðmál

Nú varst þú í bankastjórastóli þegar ríkisbankarnir voru hver af öðrum einkavæddir og árangurinn hefur ekki látið standa á sér fyrir íslenskt þjóðfélag. Telur þú að sambærileg tækifæri séu fólgin í einkavæðingu orkufyrirtækjanna?

 Hvað orkugeirann varðar, þá eru tækifærin þar mikil. Það væri í raun efni í sér viðtal að rekja það. En það er ljóst að sú staðreynd að þau eru öll meira og minna í ríkiseigu eru hamlandi fyrir framþróunina. Þá er ég að horfa til þess að tækifærin liggja fyrst og fremst alþjóðlega. Þessi fyrirtæki kunna ekki að vinna í því umhverfi - eðli málsins samkvæmt. Og eigendur þeirra vilja ekki taka þá áhættu sem er nauðsynleg til að fyrirtækin geti blómstrað. Þessi tilfærsla er hins vegar flóknari en ég taldi fyrir nokkrum vikum síðan! En tækifærin verða ekki nýtt nema til komi verulegt áhættufjármagn. Þá er ég að tala um áhættufjármagn sem er mælt í hundruðum milljarða króna og langt yfir því sem okkar innlenda hagkerfi getur stutt.

Hér er brot úr grein Mannlífs um Bjarna bankamann. 

Nærmynd af Bjarna Ármannssyni (mannlif.is)

Annar maður innan bankageirans bendir á að Bjarni hafi losað sig við eldri og reyndari menn hjá FBA og fengið með sér unga menn á hans aldri, alla meira og minna nýútskrifaða úr háskóla. Þetta hafi verið menn sem hann stýrði algerlega. FBA gekk því oft undir nafninu “drengjabankinn” manna á meðal.

Maður sem var tengdur Orca-hópnum svonefnda hafði þetta að segja um Bjarna:

“Hann hefur alltaf verið laginn að koma sér í mjúkinn hjá þeim sem hann telur að hafi mikil völd. Ef það eru ákveðnir menn sem honum þykir mikið til koma þá gengur hann langt til að þóknast þeim. Sem dæmi má nefna fjórmenningana í Orca hópnum en í honum voru þeir Eyjólfur Sveinsson, Jón Ólafsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þeir voru stórir hluthafar í FBA og höfðu veitt Bjarna skjól þar. Bjarni gerði ýmislegt fyrir þá í staðinn og gekk m.a. oft erinda Orca-hópsins í Íslandsbanka. Nú í seinni tíð hefur hann lagt sig mikið fram við að þóknast Kristjáni Ragnarssyni og nú síðast Einari Sveinssyni en hann hefur þurft á stuðningi þeirra að halda til að ná auknum völdum í bankanum.”

...

Bjarni lagði þunga áherslu á að hann yrði einn bankastjóri Íslandsbanka þegar Valur Valsson hætti störfum sem bankastjóri þar í ársbyrjun 2003. Bjarni fékk sínu framgengt í bankaráði en sú ákvörðun bankaráðsins þótti mjög umdeild. Brotthvarf Vals var mjög erfitt fyrir marga aðila innan bankans, menn sem höfðu lagt mikið traust á Val.

“Það þóttust margir sjá að það væri ekki góð ráðstöfun að Bjarni væri einn forstjóri bankans. Hann hefur aðeins áhuga á hluta rekstrarins. Hann vill sjá um að gera stóru samningana en margt annað, eins og þjónustan við viðskiptavini og almennur rekstur bankans, skiptir hann engu máli.
..........

“Bjarni hefur gert ýmislegt gott í viðskiptum en hann hefur einnig gert mörg mistök þótt hann virðist alltaf stíga uppréttur frá þeim. Þegar hann var bankastjóri FBA keypti hann Rafael-bankann í Bretlandi sem fór fljótlega á hausinn. Þá stofnuðu FBA-menn Basis-bankann í Danmörku og hann fór sömu leið, rakleitt á hausinn. Bjarni og hans menn ætluðu síðan að kaupa Rietumo-bankann í Lettlandi í kringum sameininguna við Íslandsbanka en menn þar á bæ munu hafa stöðvað kaupin. Það var eins gott fyrir Bjarna því annað stórslys var í aðsigi,” segir fyrrum starfsmaður FBA.

.....

Bjarni og Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, voru í allmiklum viðskiptum og munu hafa verið ágætis vinir á tímabili. Jón Ásgeir bauð Bjarna m.a. nokkrum sinnum á snekkjunni Thee Viking í Flórída ásamt fleiri toppum úr íslenska viðskiptageiranum. Eftir að Orca-hópurinn var keyptur út úr Íslandsbanka haustið 2002 slitnaði hins vegar upp úr vinskapnum á milli þeirra. Svo virðist sem flestir fyrrum samstarfsmenn og viðskiptafélagar Bjarna hafi snúið við honum baki á einhverjum tímapunkti. Margir heimildarmenn Mannlífs segja þetta stafa af því að erfitt sé að treysta honum, hann sé iðulega grunaður um að vera með ráðabrugg í gangi og skipti oft um lið eftir því hvað hentar honum hverju sinni.

Það þykir mjög umdeilt að Bjarni sé stjórnarformaður Kauphallar Íslands. Ágúst Einarsson prófessor hefur m.a. gagnrýnt það opinberlega og margir innan viðskipta- og bankageirans telja þetta mjög siðlaust, enda eigi Kauphöllin að fylgjast með bönkunum og markaði fyrir hlutabréf og verðbréf hér á landi.

Þetta virðist endurspegla hina miklu valdaþrá Bjarna. Hann vill vera stjórinn alls staðar. Það er ekki nóg fyrir hann að vera forstjóri Íslandsbanka, heldur þarf hann líka að vera stjórnarformaður Kauphallarinnar, Sjóvar-Almennra, KredittBankans og BN-banka í Noregi og Íslandsbanka í Lúxemborg.

 

Bjarni Ármannsson vildi líka læsa klónum í Húsnæðislánasjóð. Sem betur fer stóðu Framsóknarmenn vörð um þann sjóð. 

Meira um Bjarna Ármannsson, það er afar áhugavert að lesa þetta yfir núna:

Bjarni Ármannsson kaupir og selur í Glitni - mbl.is

Bjarni Ármannsson stjórnarformaður Reykjavik Energy Invest - mbl.is

Vísir - Bjarni Ármannsson láti kaup sín í REI ganga til baka

Hver skyldi vera tímaskekkjan Bjarni Ármannsson? - Frá lesendum ...

Bjarni Ármannsson - Erindi á Iðnþingi 2004

Bjarni  á CNBC

 Bjarni  á Bloomberg

 

DV.is - Frétt - Borgarstjóri gaf grænt ljós



mbl.is Íslenskar bankaeignir á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræði þess sem er ókeypis

Þegar rykið sest og rás tímans hefur fært okkur svo mikið frá þeim atburðum sem við erum nú bæði vitni að og þátttakendur í,  þá sjáum við ef til vill skýrar hvað er að gerast.

Tími frjálshyggjunnar er vissulega liðinn og tími markaðsbúskapar í sama formi og hann var á tuttugustu öld er líka liðinn. Það er eins og að berja hausnum í steininn að halda að við séum ennþá inn í sams konar samfélagi framleiðslu og félagskerfa og virkuðu vel í iðnaðarsamfélagi þar sem þjóðir versluðu með vörur sín á milli  og allir græddu á sérhæfingu  á því að hjól markaðskerfisins væru sem smurðust. Helgasta vé þessa kerfis er trúin á einkaeignaréttinn og trúin á að einstaklingar drifnir áfram af gróðaþrá til að bæta sín skilyrði muni á undursamlegan hátt draga alla með, gera alla ríkari og betur setta ef búr hinna gráðugu og glorsoltnu óargadýra væri nógu opið og nánast engar hömlur og nánast engar bremsur væru á hvernig þeir mættu hegða sé.

Þetta er ekkert að ganga upp, þetta kerfi virkaði í framleiðsluháttum og samfélagi sem er óðum að hverfa. Í því samfélagi sem við erum að fara inn í núna þá eru skilin milli framleiðenda og neytanda óljós og margofin saman, ekki í föstu óbreytanlegu kerfi heldur í síkviku sambandi þar sem ný tegund af samvinnu verður sífellt algengari, samvinnu þar sem fólk vinnur saman að því að framleiða eitthvað og hlutverk hvers einstaklings geta verið breytileg, stundum er hann neytandi eða notandi, stundum er hann framleiðandi, stundum er hann að framleiða vörur til eigin nota. Í þessu kerfi þarf öðruvísi smurningsolíu en það peningamarkaðskerfi sem við núna búum við. Raunar er það svo að sumt af því regluverki sem virkaði afar vel til að tryggja eignarétt og  skilvirkni í iðnaðarsamfélaginu þar sem skýrt var hver varan er, hver er framleiðandi, hver er söluaðili og hver er neytandi virka sem alvarlegar hindranir núna. 

Í iðnaðarsamfélagi þar sem þjóðir eiga viðskipti sín á milli þá eru milliliðir afar mikilvægir og raunar er það þannig að þar hefur oft ábatinn komið fram af viðskiptum.  Þessir milliliðir í verslun og annars konar umgjörð svo sem bankaviðskiptum/fjárfestingarflæði eru mikilvægir þegar við erum með framleiðslukerfi þar sem flytja á vörur milli framleiðenda og neytenda og varan er skýrt afmörkuð eining. Í því samfélagi sem við erum að fara inn í þá hagar ekki þannig til að margir af þeim milliliðum sem voru nauðsynlegir í samfélagi iðnaðarframleiðslu eru núna eins og ónauðsynlegar afætur á sambandinu milli þess sem býr til og þess sem notar.  Hins vegar eiga mörg öflug og stór kerfi afkomu sína undir því að þessi skattlagning milliliðanna virki og þeir geti haldið áfram að taka inn fé fyrir ónauðsynlega og hamlandi milliliðastarfsemi.  Það má hér nefna dæmi tónlistarframleiðslu og tónlistarlistsköpun, þar hafa framleiðslu- og dreifingarkerfin molnað niður hraðar en nokkur ímyndaði sér að gæti gerst. En það er langt í frá að þetta sé að gerast eingöngu í tónlist, það sama er að gerast á mörgum sviðum, sérstaklega þar sem varan er einhvers konar hugverk og skipst er á stafrænum verkum. Það er hins vegar margt sem bendir til að sams konar framleiðslubreyting verði líka í sambandi við hluti, við getum vænst þess að það verði neytandinn sem hannar húsið sem hann ætlar að búa í og bílinn sem hann ætlar að keyra og geri það í síkvíku samspili við aðra neytendur og hönnuði og framleiðendur.

Það þarf annars konar kerfi til að skiptast á vörum í slíku samfélagi en í iðnaðarsamfélagi. Það hafa komið fram dreifingarkerfi sem virka ágætlega en ennþá eru þau kerfi fæst viðurkennd og sum eru víða bönnuð vegna þess að þar fer fram dreifing sem er ólögleg, dreifing sem er ekki viðurkennd þar sem hún passar ekki við þá umgjörð eignaréttar stafrænna gæða sem við búum við.  Sjóræningjagáttir eins og piratebay dreifa og miðla efni oft ólöglega en gáttir fyrir opinn hugbúnað fylgja lagaramma en dreifa og miðla efni á hátt sem er miklu nær því samfélagi sem við erum að fara inn í. 

Svona framleiðsla þar sem innbyggt er í framleiðslukerfið samvinna milli framleiðenda og óljós mörk milli framleiðenda og neytenda og samvinna neytenda er kerfi þar sem frjálshyggja gróðadrifinnar einstaklingshyggju  gengur ekki upp í.  Það þarf að endurskilgreina eignarrétt í slíku kerfi og það þarf líka að endurskilgreina peninga inn í svona kerfi. Það þarf ef til vill ekkert miðstýrt apparat til að endurskoða og endurskipuleggja, það hafa sprottið upp úr grasrótinni ýmis svona samfélög sem virka vel. það þarf hins vegar að vera þannig að þeir sem setja leikreglurnar þ.e. stjórnvöld skilji og skynji hvað er að gerast og átti sig á því að sumu geta þau ekki spornað við og það er ekki rétta leiðin að verja einkaeignarrétt og þá hluti af markaðshagkerfi sem ganga ekki upp. Það eru mörg stafræn samfélög sem virka alveg ágætlega án þess að lögmál ágóðadrifins markaðar virðist vera þar að verki. Það er sérstaklega í heimi stafrænna gæða og heimi þar sem framleiðslan fer fram í því að skiptast á upplýsingum sem þessi nýja tegund af framleiðslu ryðst núna fram en það er engin ástæða til að ætla annað en hún breiðast yfir flest svið bæði stafrænna og efnislegra gæða.

Þessi nýja tegund af framleiðanda-notanda ætti að fá okkur til að hugsa hagfræði upp á nýtt. Í heimi stafrænna gæða eru sum gæði nóg fyrir alla og þó við fjölföldum efni þá þýðir það ekki að einhver annar fái minna efni. 

Ég hugsa að  þegar kommúnisminn og kapítalisminn hafa brotnað  niður í frumeindir þá rísi upp tími hagfræði sem er ekki lögmál skortsins heldur hagfræði þess sem er ókeypis. 

Hér eru nokkrar greinar sem andlegt fóður fyrir þessar pælingar:

Hvaða áhrif hefur kreppan á tækni?

Nat Torkingson skrifaði bloggið  Effect of the Depression on Technology

 

 The Grand Unified Theory On The Economics Of Free

Economics Of Abundance Getting Some Well Deserved Attention

 


mbl.is Er tími frjálshyggjunnar liðinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband