Hagfræði þess sem er ókeypis

Þegar rykið sest og rás tímans hefur fært okkur svo mikið frá þeim atburðum sem við erum nú bæði vitni að og þátttakendur í,  þá sjáum við ef til vill skýrar hvað er að gerast.

Tími frjálshyggjunnar er vissulega liðinn og tími markaðsbúskapar í sama formi og hann var á tuttugustu öld er líka liðinn. Það er eins og að berja hausnum í steininn að halda að við séum ennþá inn í sams konar samfélagi framleiðslu og félagskerfa og virkuðu vel í iðnaðarsamfélagi þar sem þjóðir versluðu með vörur sín á milli  og allir græddu á sérhæfingu  á því að hjól markaðskerfisins væru sem smurðust. Helgasta vé þessa kerfis er trúin á einkaeignaréttinn og trúin á að einstaklingar drifnir áfram af gróðaþrá til að bæta sín skilyrði muni á undursamlegan hátt draga alla með, gera alla ríkari og betur setta ef búr hinna gráðugu og glorsoltnu óargadýra væri nógu opið og nánast engar hömlur og nánast engar bremsur væru á hvernig þeir mættu hegða sé.

Þetta er ekkert að ganga upp, þetta kerfi virkaði í framleiðsluháttum og samfélagi sem er óðum að hverfa. Í því samfélagi sem við erum að fara inn í núna þá eru skilin milli framleiðenda og neytanda óljós og margofin saman, ekki í föstu óbreytanlegu kerfi heldur í síkviku sambandi þar sem ný tegund af samvinnu verður sífellt algengari, samvinnu þar sem fólk vinnur saman að því að framleiða eitthvað og hlutverk hvers einstaklings geta verið breytileg, stundum er hann neytandi eða notandi, stundum er hann framleiðandi, stundum er hann að framleiða vörur til eigin nota. Í þessu kerfi þarf öðruvísi smurningsolíu en það peningamarkaðskerfi sem við núna búum við. Raunar er það svo að sumt af því regluverki sem virkaði afar vel til að tryggja eignarétt og  skilvirkni í iðnaðarsamfélaginu þar sem skýrt var hver varan er, hver er framleiðandi, hver er söluaðili og hver er neytandi virka sem alvarlegar hindranir núna. 

Í iðnaðarsamfélagi þar sem þjóðir eiga viðskipti sín á milli þá eru milliliðir afar mikilvægir og raunar er það þannig að þar hefur oft ábatinn komið fram af viðskiptum.  Þessir milliliðir í verslun og annars konar umgjörð svo sem bankaviðskiptum/fjárfestingarflæði eru mikilvægir þegar við erum með framleiðslukerfi þar sem flytja á vörur milli framleiðenda og neytenda og varan er skýrt afmörkuð eining. Í því samfélagi sem við erum að fara inn í þá hagar ekki þannig til að margir af þeim milliliðum sem voru nauðsynlegir í samfélagi iðnaðarframleiðslu eru núna eins og ónauðsynlegar afætur á sambandinu milli þess sem býr til og þess sem notar.  Hins vegar eiga mörg öflug og stór kerfi afkomu sína undir því að þessi skattlagning milliliðanna virki og þeir geti haldið áfram að taka inn fé fyrir ónauðsynlega og hamlandi milliliðastarfsemi.  Það má hér nefna dæmi tónlistarframleiðslu og tónlistarlistsköpun, þar hafa framleiðslu- og dreifingarkerfin molnað niður hraðar en nokkur ímyndaði sér að gæti gerst. En það er langt í frá að þetta sé að gerast eingöngu í tónlist, það sama er að gerast á mörgum sviðum, sérstaklega þar sem varan er einhvers konar hugverk og skipst er á stafrænum verkum. Það er hins vegar margt sem bendir til að sams konar framleiðslubreyting verði líka í sambandi við hluti, við getum vænst þess að það verði neytandinn sem hannar húsið sem hann ætlar að búa í og bílinn sem hann ætlar að keyra og geri það í síkvíku samspili við aðra neytendur og hönnuði og framleiðendur.

Það þarf annars konar kerfi til að skiptast á vörum í slíku samfélagi en í iðnaðarsamfélagi. Það hafa komið fram dreifingarkerfi sem virka ágætlega en ennþá eru þau kerfi fæst viðurkennd og sum eru víða bönnuð vegna þess að þar fer fram dreifing sem er ólögleg, dreifing sem er ekki viðurkennd þar sem hún passar ekki við þá umgjörð eignaréttar stafrænna gæða sem við búum við.  Sjóræningjagáttir eins og piratebay dreifa og miðla efni oft ólöglega en gáttir fyrir opinn hugbúnað fylgja lagaramma en dreifa og miðla efni á hátt sem er miklu nær því samfélagi sem við erum að fara inn í. 

Svona framleiðsla þar sem innbyggt er í framleiðslukerfið samvinna milli framleiðenda og óljós mörk milli framleiðenda og neytenda og samvinna neytenda er kerfi þar sem frjálshyggja gróðadrifinnar einstaklingshyggju  gengur ekki upp í.  Það þarf að endurskilgreina eignarrétt í slíku kerfi og það þarf líka að endurskilgreina peninga inn í svona kerfi. Það þarf ef til vill ekkert miðstýrt apparat til að endurskoða og endurskipuleggja, það hafa sprottið upp úr grasrótinni ýmis svona samfélög sem virka vel. það þarf hins vegar að vera þannig að þeir sem setja leikreglurnar þ.e. stjórnvöld skilji og skynji hvað er að gerast og átti sig á því að sumu geta þau ekki spornað við og það er ekki rétta leiðin að verja einkaeignarrétt og þá hluti af markaðshagkerfi sem ganga ekki upp. Það eru mörg stafræn samfélög sem virka alveg ágætlega án þess að lögmál ágóðadrifins markaðar virðist vera þar að verki. Það er sérstaklega í heimi stafrænna gæða og heimi þar sem framleiðslan fer fram í því að skiptast á upplýsingum sem þessi nýja tegund af framleiðslu ryðst núna fram en það er engin ástæða til að ætla annað en hún breiðast yfir flest svið bæði stafrænna og efnislegra gæða.

Þessi nýja tegund af framleiðanda-notanda ætti að fá okkur til að hugsa hagfræði upp á nýtt. Í heimi stafrænna gæða eru sum gæði nóg fyrir alla og þó við fjölföldum efni þá þýðir það ekki að einhver annar fái minna efni. 

Ég hugsa að  þegar kommúnisminn og kapítalisminn hafa brotnað  niður í frumeindir þá rísi upp tími hagfræði sem er ekki lögmál skortsins heldur hagfræði þess sem er ókeypis. 

Hér eru nokkrar greinar sem andlegt fóður fyrir þessar pælingar:

Hvaða áhrif hefur kreppan á tækni?

Nat Torkingson skrifaði bloggið  Effect of the Depression on Technology

 

 The Grand Unified Theory On The Economics Of Free

Economics Of Abundance Getting Some Well Deserved Attention

 


mbl.is Er tími frjálshyggjunnar liðinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband