Samstarf um efnahagsaðstoð sem grípa þarf til í mótvindi

Frelsi er að hafa val. Þeir sem skulda mikið hafa lítið val. Þeir sem skulda meira en þeir ráða við að borga hafa ekkert val. Það eru mestu og jafnframt ósýnilegustu fjötrar sem lagðir eru á einstaklinga, hópa og þjóðir í dag að hneppa þau í skuldafangelsi. Það er hið nýja þrælahald, þannig er hægt að hneppa fólk í lýðræðisríkjum í ánauð. Það er meira segja hægt að hneppa margar kynslóðir í ánauð með því að lánadrottnar hirði allt sem getur orðið til tekjuöflunar í framtíðinni og hagi hlutum þannig að hinir skuldugu geti ekkert gert, hafi engan aðgang að aðföngum fyrir framleiðslu og hafi enga möguleika til að bæta kjör sín heldur séu fangaðir inn í einhverju risastóru ósýnilegu gettói.

Ríkisstjórn Íslands hefur ekkert val í þeirri stöðu sem núna er komin upp. Nema orðin sem hún notar sem skrauthvörf fyrir þann eina kost sem er í stöðu þeirrar þjóðar sem kreppt hefur verið saman og króuð af. Orð kosta ekkert og Geir forsætisráðherra sem kallaði fyrir nokkrum vikum heimskreppuna "mótvind" kallar núna alvarlegustu neyðaraðstoð siðmenntaðra þjóða "samstarf um efnahagsaðstoð sem grípa þurfi til".

Það er afleitur kostur að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En afleitur kostur er þó betri en enginn kostur og það er hlutverk sjóðsins að koma til hjálpar við svona alvarlegar aðstæður. Fjöldi sérfræðinga vinnur fyrir sjóðinn og þó að saga sjóðsins sé langt í frá saga um hve vel hafi farið fyrir þeim þjóðum sem leituðu á náðir hans þá held ég að staðan sé núna þannig að ég treysti sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins betur en þeim íslensku sérfræðingum, stjórnmálamönnum og stjórnendum fjármálastofnana og eftirlitsstofnana sem ekki sáu fyrir og ekki réðu við að koma okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í núna. Ég held einnig að hið  fornkveðna gildi  að betur sjá augu en auga og það er gott og gagnlegt að fá sýn utanaðkomandi óháðra sérfræðinga og það er gott að fá sýn þeirra sem standa fjarri hringiðu atburða en við hérna á Íslandi. Ég veit vel að IMF er handbendi þeirra sem vilja gæta þess valds sem þjóðskipulag og auðvaldsskipulag sem ríkir milli þeirra þjóða sem mestu ráða í heiminum í dag og það verður að taka ábendingum og ráðleggingum þaðan með það í huga. Hins vegar er ekki ástæða til að ætla að IMF ráðleggi það sama núna og klárlega hefur mislukkast verulega oft áður. Stofnanir læra líka eins og fólk.

Ég held ekki að sú  heimskreppa sem nú skellur yfir heiminn sé meinfýsilegt plott hjá Davíð Oddssyni til að ná sér niðri á Baugsveldinu en ég held ekki að hann og aðrir í stjórn Seðlabanka Íslands hafi tekið réttar ákvarðanir. Ég held að margir hafi tekið rangar ákvarðanir og margir sem voru í trúnaðarstöðum kosnir til þess af alþýðu manna á Íslandi hafi sofið á verðinum og andvaraleysi þeirra og glópska hafi komið okkur í þessa stöðu. Frá því að ég man eftir hefur Sjálfstæðisflokkurinn einblínt á aðeins eitt í efnahagsmálum. Það er kallað "að ná niður verðbólgunni".   Efnahagpólitísk saga Sjálfstæðisflokksins er Geirum studd. Hún spannar frá leiftursókn Geirs Hallgrímssonar til mótvindsins sem Geir Haarde segir leika um okkkur. 

 


mbl.is Einhugur um að sækja um lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband