Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Norðvesturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi

Gaman að heyra af  kosningabaráttu Framsóknarmanna sem núna er að hefjast. Margir vilja auðvitað vera í efstu sætum Framsóknar enda meðbyrinn mikill og málefnastaðan góð. Ég vil benda öllum sem vilja kynna sér Norðvesturkjördæmi á að íslenska wikipedia er með góðar upplýsingar um kjördæmið.  Eftirfarandi sveitarfélög eru í Norðvesturkjördæmi: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Bæjarhreppur, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Höfðahreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.

Það búa 30.120 í Norðvesturkjördæmi og er helmingur þeirra á Vesturlandi, fjórðungur á Vestfjörðum og fjórðungur á Norðurlandi vestra. Það eru 9 þingmenn (8 kjördæmakjörnir og 1 jöfnunarmaður).

Fjöldi  á bakvið hvert þingsæti í Norðvesturkjördæmi árið 2007 var 2.347

Þess má geta að árið 2007 var Guðmundur Steingrímsson í framboði í Suðvesturkjördæmi fyrir Samfylkinguna en náði ekki kjöri. Hann var reyndar mjög nálægt því, var úti og inni alla nóttina eins og Samúel. 

Fjöldi á bakvið hvert þingsæti í Suðvesturkjördæmi árið 2007 var 4.549

Ég vil benda öllum íbúum Suðvesturkjördæmis á þetta misvægi atkvæða. Hvert atkvæði í Norðvesturkjördæmi vegur helmingi meira en hvert atkvæði í Suðvesturkjördæmi. Hvað segja Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi við því? Er þetta eðlilegt?

Þarf ekki að breyta svona hlutum?

 

 


mbl.is Guðmundur: Stefnir á fyrsta sætið í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn tryggir frið í Reykjavík og á Íslandi

Ég er ansi ánægð með Framsóknarflokkinn núna.

Í Reykjavíkurborg þá kom Framsóknarflokkurinn með Óskar Bergsson í broddi fylkingar og frelsaði borgina frá algjörum glundroða, það var átakanlegt fyrir okkur borgarbúa að horfa upp á hve lítinn samhljóm fyrrum borgarstjóri (þ.e. þessi númer 3. á kjörtímabilinu) Ólafur Magnússon átti með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem þó höfðu stutt hann í embættið.

Í byrjun kjörtímabilsins þá var Óskar ekki borgarfulltrúi og eins og flestir sem fylgjast með okkar innra starfi þá kubbaðist ansi mikið úr liðinu, ekki síst vegna þess að heilu hnífasettin gengu á milli manna og stórskemmdu rándýr jakkafötSmile En Óskar hefur spilað ansi vel út úr þessari stöðu - ekki bara fyrir Framsóknarflokkinn heldur líka fyrir allt fólk í borginni. Mér finnst svo ekkert verra að samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi tryggt okkur ágæta konu sem borgarstjóra, Hanna Birna stendur sig vel í því embætti.

Núna kemur Framsóknarflokkurinn  undir forustu Sigmundar Davíðs  eins og frelsandi engill inn í landsmálin og bjargar stjórnarmálaflokkum úr landinu út úr algjöru neyðarástandi, ástandi sem var mörgum sinnum elfimara það var nokkru sinni í borgarmálunum, ástandi þar sem ríkisstjórn Geir Haarde var rúin trausti og það voru að brjótast út óeirðir og byltingarástand. Ég held reyndar að það muni áfram vera róstusamt á Ísland, menn skulu ekki ímynda sér að það nægi að skipta um ríkisstjórn til þess. En rósturnar hefðu orðið miklu hatrammari ef Geir  hefði setið áfram. 

stundaglas.gifÉg er líka ansi ánægð með að stuðningur Framsóknarflokksins verði til þess að hér verður um hríð ríkisstjórn undir forustu ágætrar konu sem nýtur mikillar virðingar og stuðnings. Tími Jóhönnu er kominn og það var Framsóknarflokkurinn sem snéri því stundarglasi. 

Ingibjörg Sólrún er frábær, það veit ég frá því að við vorum samherjar í stjórnmálum í Kvennalistanum forðum daga. Hún er líka óhemju dugmikil kona og núna er hún mjög veik að mynda nýja ríkisstjórn. Ég held að mér sé farið eins og mörgum öðrum Íslendingum, krafturinn og kjarkurinn í Ingibjörgu Sólrúnu sýnir sig hvað best núna og við dáumst öll að henni en við höfum líka öll áhyggjur, hún er veik og hún þarf að nota krafta sína til að byggja sjálfa sig upp og ná fyrri heilsu.

Framsóknarflokkurinn fékk ekki mikil kjörfylgi í síðustu kosningum og það er mikilvægt að fara vel með það umboð sem kjósendur veita. Það hefur Framsóknarflokkurinn gert núna bæði í borginni og í ríkisstjórn og þannig tryggt eins góðan vinnufrið og hægt er miðað við aðstæður. Já og stuðlað að því að núna er kona borgarstjóri í Reykjavík og kona verður forsætisráðherra. Þingflokkur Framsóknarflokksins er núna þannig samsettur að þar eru fleiri konur en karlar. 

Sem sagt, Framsóknarflokkurinn bjargar bæði borg og ríki frá glundroða, styður konur til valda bæði sem borgarstjóra og forsætisráðherra og er eini flokkurinn á þingi núna þar sem konur eru fleiri en karlar.


mbl.is Skýrt umboð aðalatriðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búsáhaldatakturinn

Stjórnin er fallin. Í tilefni af þessum miklu tímamótum þá frumsýni ég hérna á blogginu nýjustu stuttmyndina mína, það er stuttmyndin  Búsáhaldatakturinn, 10 mínútur að lengd. Sviðið er Austurvöllur á 16anda útifundinum og myndin er raddsett af Guðmundi Andra Thorssyni en myndin er tekin upp undir ræðu hans, þar sem ég gekk um með litlu stafrænu myndavélina mína stillta á record og tók myndir af fólkinu á Austurvelli sem hlýddi á ræðu Guðmundar. Ég er með varíant af kreppudogma í þessari stuttmynd, ég nefnilega hljóðsetti myndina með smábút af búsáhaldaglamri og hrópum sem upphófust eftir að útifundinum lauk.  

Ég hugsa þó að mótmælin leggist af og nýjabrumið fari af þeim eins og öðru þá sé hér komin ný íslensk tónlistarstefna. 

Efst í þessu bloggi er stuttmyndin á youtube. Hér er stuttmyndin í betri gæðum en ekki streymimiðlum og því erfitt nema fólk hafi góða nettengingu, sjá hér Búsáhaldatakturinn

Þetta var vanhæf ríkisstjórn. En hvernig er hæf ríkisstjórn í þeirri stöðu sem við erum í núna? Ég held að því sé auðsvarar. Það verður að vera hér ríkistjórn sem hefur hagsmuni alþýðu að leiðarljósi, þá hagsmuni að halda Íslandi í byggð því hér er að bresta á landflótti. Ríkisstjórn sem er ekki feimin við ríkisafskipti og ríkisrekstur og það sem menn í heiminum í dag, ekki bara á Íslandi þurfa að snúa til það er einhvers konar áætlanabúskapur og einhvers konar hagkerfi sem er ónæmt fyrir peningabólum.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn og geðveikir foreldrar og fíklar

Ég var að lesa blogg Heiðu Þórðar Áður en þið dæmið geðsjúka móðir...lesið; en núna er viðtal við  Gísla Þór bróður hennar í Vikunni um uppvaxtarár hans hjá móður sem bæði glímdi við geðræn vandamál og alkóhólisma. Þau voru sex sammæðra syskini og þrjú alsyskini. Sum ólumst upp hjá ömmum sínum. Gísli lýsir jólum bernsku sinnar í þessu bloggi  Óyfirstíganlegir veggir

Það eru mjög margir sem glíma við geðræn vandamál á einhverjum hluta ævi sinnar, vandamál sem stundum magnast upp af ytri aðstæðum eins og fjárhagserfiðleikum, drykkjuskap eða annars konar fíkniefnaneyslu. Sumir þeirra eiga börn og þegar fólk er svo veikt að það getur ekki stjórnað eigin lífi þá getur það stundum ekki veitt börnum þá umönnun sem þau þurfa og eiga rétt á.

 Í barnaverndarlögum er þetta ákvæði um tilkynningaskyldu almennings:

 


Stjórnlaust land

Afsögn Björgvins skapar ennþá meiri glundroða í íslensku samfélagi. Sérstaklega ef það er rétt að afsögn hans hafi komið Ingibjörgu Sólrúnu á óvart. Það var komin tími til að skipta út stjórn fjármálaeftirlitsins og forstjóri þess hefði átt að fjúka sama dag og Geir flutti "Guð blessi Ísland" ræðuna sína. Ríkisstjórnin sem nú sítur er bæði ráðlaus og dáðlaus. Hún megnar á engan hátt að taka á þeim gríðarlega vanda sem blasir við Íslandi, öll hennar orka virðist fara í að leyna vanmætti sínum.

Ég hugsa að moggabloggarar gætu stjórnar þessu landi miklu betur en sú ríkistjórn sem nú situr. Það er reyndar ekki sagt í tómu gríni, moggabloggarar og aðrir bloggarar eru áberandi í andspyrnuhreyfingu gegn stjórninni, hér er mynd af sviðinu á útifundinum á laugardaginn og moggabloggarar eiga sviðið. Hildur Helga er að flytja sína ræðu, Jakobína er í biðstöðu að flytja næstu ræðu og Lára Hanna vopnuð myndavél er að  skrá niður atburðinn. Á næstu mynd má sjá Heiðu sem slær taktinn á torgum í búsáhaldabyltingunni og  hefur verið þar kórstjóri og  innsti koppur í búri.

Nú er bara spurningin hvort það verði útifundur næsta laugardag. Ef stjórnin er fallin hvað þá? Ef það verður fundur þá verður hann skrautlegur, það er nú tíska á hverjum laugardag bæði í klæðnaði og í verkfærum. Nú mætir fólk með skeiðar og álþynnur og dollur og potta og sleifar og skreytir sig appelsínugulum borðum. Einstaka ebe regnhlíf sá ég á lofti. 

Ég hugsa að mótmælin eftir viku verki í appelsínugulum og svörtum tónum.
Ef stjórnin lifir svo lengi.

IMG_3372

IMG_3438

IMG_3367

IMG_3379

IMG_3416
mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppudagur og þegar skosku hálöndin voru rýmd

Ég ætla að mæta á Austurvöll á eftir eins og ég hef reynt að gera flestalla laugardaga. Ég get ekki séð að það hafi neitt áunnist nema tímasetning er nokkurn veginn komin á kosningar. En mér finnst mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn sitji ekki þann tíma að völdum. Ég get ekki annað séð en að ríkisstjórnin sem núna situr sé  lömuð og rúin trausti. Samt hefur þessi ríkisstjórn óhemju þingmeirihluta frá síðustu kosningum.

Ég óska bæði Ingibjörgu og Geirs góðs bata í veikindum sínum. Það er sorgleg og erfið staða að einmitt núna þegar mikið mæðir á ríkisstjórninni þá skuli báðir  foringar hennar eiga við alvarleg veikindi að stríða.  Bæði Geir og Ingibjörg vinna einlæglega fyrir íslensku þjóðina og ég hef aldrei efast um að þau vilji vel og vinni fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir sjálfa sig.

En það er því miður þannig að ég á erfitt með að treysta öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar á þessum tímum, sérstaklega er erfitt að treysta ráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem virðast sumir sjálfir tengjast undarlegum fjármálagjörningum og halda hlífiskildi yfir mönnum sem tengjast  undarlegum fjármálagjörningum.  Þar á ég ekki síst við Þorbjörgu Katrínu og hvernig hún og eiginmaður hennar hafa gert upp eða ekki gert upp skuldir sínar vegna hlutafjárkaupa og svo Árna Mathiesen í fjármálaráðuneytinu sem hefur þar ráðuneytisstjóra Baldur Guðlaugsson sem hefur stundað undarleg hlutabréfaviðskipti og virðist hafa hagnýtt sér innherjaupplýsingar í auðgunarskyni. Þess má geta að umræddur Baldur mun hafa verið í einkavæðingarnefndinni á sínum tíma. Það er hneykslanlegt að Baldur skuli ekki þegar kominn í frí frá störfum.

Eftir hrunið hefur afhjúpast fyrir okkur forað sem við vissum ekki að væri til. Ef allar getgátur og sögur eru sannar þá er yfirgengileg spilling í íslensku fjármálalífi og þessi spilling hefur grafið um sig með sátt og raunar líka þátttöku margra Sjálfstæðismanna. 

Í Morgunblaðinu í dag var grein um Burns daginn hjá frændþjóð okkar Skotum. Ég hef alltaf öfundað Skota af þessum degi, deginum sem þeir minnast gamalla tíma, sjálfstæðisbaráttu og sérstöðu Skota og tengja það matarhefð fyrri tíma. Eitt í sögu Skota sem er alveg heldjúpt sár ennþá er highland clearance. Þegar landeigendurnir vildu nota skosku hálöndin fyrir sauðfjárbúskap og ráku alla leiguliða í burtu.

Ég velti fyrir mér hvort einhvern tíma komi sú tíð á Íslandi að við verðum í sömu sporum og leiguliðarnir á skosku heiðunum - við verðum rekin hérna burtu af eyjunni Íslandi vegna þess að við erum fyrir  einhverjum  sem hafa komist yfir eignarhald á öllum auðlindum hérna. Það er alveg fyrirsjáanlegt að í náinni framtíð verða auðlindir Íslands mikilvægar, hér er orka og hér er land, hér eru hafnir við sjó, hér eru ein gjöfulustu fiskimið heimsins. Ef til vill er sú staða einmitt uppi núna að það er verið að reka okkur í burtu, ekki sýnilega og á yfirborðinu heldur með þeim undarlegu þráðum viðskipta og eignarhalds sem hneppa okkur í fjötra og kippa undan okkur lífsbjörginni.

Ef til vill getum við þegar tímar líða fram haldið árlega hátíðlegan kreppudaginn alveg eins og Skotar halda hátíðlega  sláturkeppadaginn og minnst með angurværð gamalla tíma, tíma þar sem við héldum að við værum sjálfstæð þjóð sem réði eigin örlögum og byggi í landi sem hún réði yfir. Ef til vill munu barnabarnabarnabörn okkar finna í ljóðum og sögnum og söngum og hljómkviðum og skáðum frásögnum finna þá  djúpu sorg sem lagðist yfir íslensku þjóðarsálina þegan heimsmynd okkar hrundi.

Ég held að kreppudagurinn sé ágætur  í kringum 20 janúar.

 

Tenglar um rýmingu skosku heiðanna

The Patterns of the Highland Clearances

Highland Clearances - Wikipedia

Highland Clearances

The Age of Revolutions The Highland Clearances

The Highland Clearances and the Effects on Scotland Today

 

 


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegar og sorglegar fréttir

Íslands ógæfu verður allt að vopni. Heimurinn hrynur í kringum okkur í heimskreppu sem dýpkar og dýpkar, víða eru róstur og uppþot og sums staðar geysa blóðug stríð. En hrunið er meira á Íslandi en annars staðar í Evrópu, hér hrynur allt, hér var rík og skuldlaus þjóð í fyrra og atvinnulíf blómlegt. Núna erum við bjargþrota skuldum vafin þjóð og vegna sérstakra íslenskra aðstæðna þ.e. gengistryggingar og myntkörfulána þá eru líka margar fjölskyldur og stór hluti atvinnufyrirtækja komin í þrot. Tveir stórir atvinnuvegir bankastarfsemi og byggingariðnaður hafa alveg hrunið og munu væntanlega aldrei ná aftur fyrri þunga.

Eina sem við vitum er að botni kreppunnar er hvergi nærri náð og hvernig okkur reiðir af er háð því hvernig umheiminum reiðir af. Og það er ekkert bjart framundan. Össur reynir að segja okkur frá því að við verðum rík af olíu af Drekasvæðinu en hve skyldum við trúa því, það á eftir að finna olíu og var það ekki þessi sami Össur sem dásamaði einhvers konar dularfulla orkuútrás í einhverjumr REI ævintýrum, útrás sem mér virðist hafi verið af sama meiði og sala Kaupþings til arabískra sjeika, útrás sem var í rauninni dulbúin innrás.

Eitt enn reiðarslagið fyrir íslensku þjóðina er að foringar á stjórnmálasviðinu, formenn beggja þeirra stjórnmálaflokka sem nú eru við völd glíma við alvarleg veikindi. Ég óska þeim góðs bata og vona að þau jafni sig á þessum veikindum. Það er ómanneskjulegt álag á þeim stjórnmálamönnum sem stýra Íslandi núna.  

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fari frá völdum sem fyrst. Svo mikil er tortryggni mín út í hvernig þeir hafa gengið erinda auðmanna og bankaeigenda að ég má ekki til þess hugsa að þeir sitji fram í maí. Mér finnst Þorgerður Katrín ekki trúverðugur forsætisráðherra sem staðgengill Geirs, ekki síst vegna tengsla hennar við Kaupþing. Eiginmaður hennar var lykilstjórnandi í Kaupþingi og eftir því sem komið hefur fram í fréttum þá munu þau hafa keypt skuldabréf í Kaupþingi fyrir háar fjárhæðir en fáum sögum fara af því að þau hafi borgað þær skuldir.

Ég efast líka um stjórnkænsku hennar á tímum eins og núna.  Sérstaklega man ég eftir hve illa hún tók tillögu Davíðs Oddssonar á sínum tíma um þjóðstjórn allra flokka.  Það var auðvitað ekki hans að segja ríkisstjórninni hvað hún ætti að gera og hann er ráðríkur maður sem hefði átt að vera löngu búinn setjast í helgan stein og sinna ritstörfum. En það var bara góð hugmynd þetta með þjóðstjórnina, það sáu það allir. Meira segja Steingrímur hjá Vinstri grænum og það segir sitt um hve augljóslega góður kostur það var. 

Af hverju vildi Þorgerður Katrín ekki þjóðstjórn?


mbl.is Sjálfstæðismenn í sjokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nærmynd af Bjarna Benediktssyni, nærmynd af íslensku þjóðinni

Hún er skýr en ekki viðkunnanleg myndin  af Bjarna Benediktssyni vonarpeningi Sjálfstæðisflokksins sem teiknuð er upp í þessari frásögn í DV :

"Heimildir DV herma að Sigmundi Erni hafi lent saman við Frey Einarsson um efnistök Íslands í dag á dögunum. Sindri Sindrason vildi víst fjalla um mótmælin á Íslandi en Freyr mun hafa heimtað að nærmynd yrði tekin af Bjarna Benediktssyni."

Viku fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins breytist fjölmiðillinn Stöð 2 í svo einstrengingslega áróðurmaskínu fyrir þann fulltrúa sem gamalt og útjaskað ættar- og auðveldi ætlar að flikka upp á til formennsku  í Sjálfstæðisflokknum að þar neita menn að taka eftir því að á sama tíma brennur Ísland  og uppþot og bylting er að brjótast út. 

Fyrir þremur vikur var Sigmundur Ernir inn á Borginni og stýrði Kryddsíldinni þar sem ljúfir tónar Stradivarius  fiðlu hljómuðu og heldri menn sátu á rökstólum. Úti fyrir knúðu dyra mótmælendur með hrossabresti og ýlur en þeirra taktur var meiri, þeirra kraftur var meiri og þeirra geta var meiri til að ráða fram úr stöðunni á Íslandi í dag heldur en sú gjörspillta ásýnd íslenskra stjórnvalda og auðjöfra sem blasir við okkur í þeim litlu leiftrum sem við fáum af því hvað er að gerast í þeirra heimi. Bjarni Benediktsson er formennskukandidat þess Íslands sem einu sinni var. Þess Íslands þar sem auðjöfrar og ættarveldi stýrðu allri miðlun á Íslandi og puntuðu upp einn úr sínum röðum á nokkurra ára fresti og keyrðu alþýðufólk á kjörstað. 

Annars finnst mér nærmyndin af Bjarna Benediktssyni vera skemmtileg andstæða við þessa mynd sem ég tók af einum mótmælanda fyrir framan Alþingishúsið kvöldið sem þingið hófst. Hann var með sundgleraugu og hélt á skilti og hrópaði. Sagðist hafa verið sá sem sat alltaf heima, fór aldrei á mótmæli en nú væri honum nóg boðið. Mótmælandinn er nú eiginlega nærmynd af íslensku þjóðinni. Hún er með sundgleraugu þessa daganna.

motmaelandi1.jpg

 


mbl.is Frjáls undan oki auðjöfra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinnuhugsjón er eina vitið

Það kemur ekki á óvart að gengi Framsóknarflokksins fari nú upp á við í skoðanakönnunum. Stefna flokksins hefur höfðar til fólks og aldrei átt betur við en núna þegar öfgastefnur til hægri og vinstri hafa beðið skipsbrot og stórveldi sem byggja á þeim stefnum hafa liðast í sundur eða eru að liðast í sundur. Ekkert á betur við á þessum tímum en öfgalaus miðjuflokkur þar sem saman fer skynsemishyggja og samvinnuhugsjónir - flokkur þar sem ekki er byggt úr loftköstulum og spilaborgurm heldur horfst í augu við raunveruleikann og besta lausnin fyrir alla valin.

Þannig er Framsóknarflokkurinn  í dag það stjórnmálaafl sem hefur og getur skapað frið um nauðsynlega vinnu stjórnmálamanna - í ríkisstjórn með því að bjóðast til að verja stjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna falli  og í borgarstjórn Reykjavíkur með því að bjarga borginni frá hreinum glundroða. 

Það hefur verið margt ámælisvert í Framsóknarflokknum undanfarin ár og stefna og stjórn flokksforustu   í mikilvægum málum hefur verið vægast sagt vond. En Framsóknarflokkurinn er samsettur af því fólki sem í flokknum er og það hefur verið hrópandi kall á breytingar og öðruvísi áherslum. Á nýafstöðnu flokksþingi var kjörin ný forusta og Framsóknarflokkurinn er einn flokka að horfast í augu við fortíð sína og vinna að breytingum.


mbl.is Framsókn með 17% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oslótrésmótmælin

 

Nýliðnir atburðir hafa ekkert nafn. Í sögunni fær sami atburður kannski mörg nöfn, allt eftir því hver segir söguna. Ég veit ekki hvað mótmælin í gær og í nótt verða kölluð en ég kalla þau til bráðabirgða Oslótrésmótmælin vegna þess að þegar ég fór þá hafði tekist að fella Oslójólatréð og draga það á eldinn sem logaði fyrir utan Alþingishúsið. Ég fór þegar tréð hafði fuðrað upp. Það var nú svolítið hættulegt ástand, eldtungur léku um himinn og þarna nálægt gömul timburhús.

Mér fannst líka  táknrænt við að brenna jólatréð. Ekki bara af því það er skammdegismerki heldur  líka táknrænt að brenna tré frá Noregi þaðan sem Íslendingar komu fyrir þúsund árum, þaðan sem rætur Íslendinga eru, tréð sem er afhent og uppljómað með viðhöfn á hverjum vetri til að minna okkur á upprunann. Skreytt og uppljómað jólatré er skammdegismerki, eins konar hermigaldur þar sem minnisvarði um líf og ljós og grósku er fluttur inn  í hús í svartasta skammdeginu eins og til að hugga mann og fá mann til að trúa því að skammdeginu ljúki einhvern tíma og það birti á ný og næsta vor muni veröldin blómgast að nýju. En þegar við þurfum ekki huggunina lengur þá fleygjum við jólatrénu og tökum niður jólaljósaseríurnar. Í ári Hrunsins mikla þá brennum við jólatréð. Bruni er nýtt upphaf.

Ég reyni að skrásetja þau mótmæli sem ég tek þátt í. Það er erfitt að skrá þessi mótmæli með ljósmyndum. Það nær ekki stemmingunni, ekki hljómlistinni úr ótal hljóðfærum og snarkinum af eldinum. Vídeómyndin nær ekki heldur viðarlyktinni og kaldri janúarnótt í Reykjavík.

En ég tók upp vídeó af  Oslótrésmótmælunum og setti í tvær skrár svo það yrði ekki allt of langt. 

Oslótrésmótmælin 20-21 janúar 2009 fyrri hluti (10 mín)

Oslótrésmótmælin 20-21 janúar 2009 seinni hluti (10 mín) 

 Sjá líka myndina mína frá mótmælum á gamlársdag

 Kryddsíldarmótmælin

 Þetta eru dáldið stórar skrár og tekur tíma þangað til þær byrja að spilast.
Ég er að reyna að setja þetta inn á youtube en það hefur ekki gengið ennþá hjá mér (allt of stórar skrár)


mbl.is „Stjórnarslit fyrir helgi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband