Kreppudagur og þegar skosku hálöndin voru rýmd

Ég ætla að mæta á Austurvöll á eftir eins og ég hef reynt að gera flestalla laugardaga. Ég get ekki séð að það hafi neitt áunnist nema tímasetning er nokkurn veginn komin á kosningar. En mér finnst mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn sitji ekki þann tíma að völdum. Ég get ekki annað séð en að ríkisstjórnin sem núna situr sé  lömuð og rúin trausti. Samt hefur þessi ríkisstjórn óhemju þingmeirihluta frá síðustu kosningum.

Ég óska bæði Ingibjörgu og Geirs góðs bata í veikindum sínum. Það er sorgleg og erfið staða að einmitt núna þegar mikið mæðir á ríkisstjórninni þá skuli báðir  foringar hennar eiga við alvarleg veikindi að stríða.  Bæði Geir og Ingibjörg vinna einlæglega fyrir íslensku þjóðina og ég hef aldrei efast um að þau vilji vel og vinni fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir sjálfa sig.

En það er því miður þannig að ég á erfitt með að treysta öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar á þessum tímum, sérstaklega er erfitt að treysta ráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem virðast sumir sjálfir tengjast undarlegum fjármálagjörningum og halda hlífiskildi yfir mönnum sem tengjast  undarlegum fjármálagjörningum.  Þar á ég ekki síst við Þorbjörgu Katrínu og hvernig hún og eiginmaður hennar hafa gert upp eða ekki gert upp skuldir sínar vegna hlutafjárkaupa og svo Árna Mathiesen í fjármálaráðuneytinu sem hefur þar ráðuneytisstjóra Baldur Guðlaugsson sem hefur stundað undarleg hlutabréfaviðskipti og virðist hafa hagnýtt sér innherjaupplýsingar í auðgunarskyni. Þess má geta að umræddur Baldur mun hafa verið í einkavæðingarnefndinni á sínum tíma. Það er hneykslanlegt að Baldur skuli ekki þegar kominn í frí frá störfum.

Eftir hrunið hefur afhjúpast fyrir okkur forað sem við vissum ekki að væri til. Ef allar getgátur og sögur eru sannar þá er yfirgengileg spilling í íslensku fjármálalífi og þessi spilling hefur grafið um sig með sátt og raunar líka þátttöku margra Sjálfstæðismanna. 

Í Morgunblaðinu í dag var grein um Burns daginn hjá frændþjóð okkar Skotum. Ég hef alltaf öfundað Skota af þessum degi, deginum sem þeir minnast gamalla tíma, sjálfstæðisbaráttu og sérstöðu Skota og tengja það matarhefð fyrri tíma. Eitt í sögu Skota sem er alveg heldjúpt sár ennþá er highland clearance. Þegar landeigendurnir vildu nota skosku hálöndin fyrir sauðfjárbúskap og ráku alla leiguliða í burtu.

Ég velti fyrir mér hvort einhvern tíma komi sú tíð á Íslandi að við verðum í sömu sporum og leiguliðarnir á skosku heiðunum - við verðum rekin hérna burtu af eyjunni Íslandi vegna þess að við erum fyrir  einhverjum  sem hafa komist yfir eignarhald á öllum auðlindum hérna. Það er alveg fyrirsjáanlegt að í náinni framtíð verða auðlindir Íslands mikilvægar, hér er orka og hér er land, hér eru hafnir við sjó, hér eru ein gjöfulustu fiskimið heimsins. Ef til vill er sú staða einmitt uppi núna að það er verið að reka okkur í burtu, ekki sýnilega og á yfirborðinu heldur með þeim undarlegu þráðum viðskipta og eignarhalds sem hneppa okkur í fjötra og kippa undan okkur lífsbjörginni.

Ef til vill getum við þegar tímar líða fram haldið árlega hátíðlegan kreppudaginn alveg eins og Skotar halda hátíðlega  sláturkeppadaginn og minnst með angurværð gamalla tíma, tíma þar sem við héldum að við værum sjálfstæð þjóð sem réði eigin örlögum og byggi í landi sem hún réði yfir. Ef til vill munu barnabarnabarnabörn okkar finna í ljóðum og sögnum og söngum og hljómkviðum og skáðum frásögnum finna þá  djúpu sorg sem lagðist yfir íslensku þjóðarsálina þegan heimsmynd okkar hrundi.

Ég held að kreppudagurinn sé ágætur  í kringum 20 janúar.

 

Tenglar um rýmingu skosku heiðanna

The Patterns of the Highland Clearances

Highland Clearances - Wikipedia

Highland Clearances

The Age of Revolutions The Highland Clearances

The Highland Clearances and the Effects on Scotland Today

 

 


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta með að Baldur sitji enn eins og ekkert sé er nú eitt hneykslið sem undarlega lítið hefur verið gert með.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.1.2009 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband