Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.2.2009 | 22:06
Lengi getur lágt lækkað
deCode skrapar botninn og hlutabréfin eru orðin verðlaus, það skiptir ekki máli hvort þau lækka um 1 sent í dag. Það er ekki mikið frétt að bréfin í deCode hafi lækkað um 7,8% og séu núna 21 sent.
Hlutabréfamarkaður er að ná hryllilegum botni. Sama þótt tilkynnt hafi verið um plan eftir plan hjá stjórnvöldum. Við getum ekki ímyndað okkur hversu slæmt ástandið væri ef stjórnvöl hefðu ekki gripið inn í Bandaríkjunum.
Allt bendir til að það þurfi fleiri þjóðir að fara íslensku leiðina og þjóðnýta banka. Krugman mælir með íslensku leiðinni og bendir á að bankar rambi á barmi gjaldþrots í greininni Banking on the Brink.
Mér finnst þessi ríkisbankaleið nokkuð smellin. Ég vil ekki að peningargerðarvélar séu látnar í hendur fjárglæframanna. En sumir kanar kalla leið Obama sítrónusósíalisma, svona leið þar sem fé hagnaðurinn er einkavæddur en tapið þjóðnýtt.
Það verður ekki langt í að Kanarnir þjóðnýti sína banka eins og Íslendingar hafa gert. Bankar eru stórhættulegar stofnanir í hagkerfi nútímans og það er langskynsamlegast að þeir séu í eigu ríkisins eða einhvers konar samfélagslegri eigu.
![]() |
Bandarísk hlutabréf lækka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2009 | 17:38
Opinn hugbúnaður fyrir skólanema
Ég er núna að kynna forritið Paint.net fyrir kennaranemum. Ég er líka að kynna þeim möguleikann á að nota opið efni þ.e. án hefðbundinna höfundaleyfa. Ég reyni eins og ég get að sannfæra fólk um kosti þess að hafa almenninga fyrir hugbúnað sem og annars konar stafrænt efni.
Ég setti hér á eina vefsíðu sýnishorn af hvað hægt er að gera í paint.net. Þetta er einfalt forrit, svona millistigið milli Photoshop og Ms paint. Paint.net er ókeypis, opinn hugbúnaður sem er til á makka, pc og linux stýrikerfi. Hér er er mynd sem ég gerði með svona retro áferð, þetta verður eins og einhvers konar grafíkverk. Svo er ákaflega einfalt að blanda saman tveimur myndum, hér blanda ég saman sprungnum steinvegg og mynd af börnum við tölvu.
Þau myndvinnsluforrit sem við erum að kynna núna eru Inkscape vektoraforrit, Tuxpaint fyrir litla krakka, Paint.net og Gimp.
Það er allt annað líf að vera með opinn hugbúnað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2009 | 06:48
Sirkus Geira Smart - Íslendingur að meika það í útlöndum
Ég er alltaf svo stolt þegar Íslendingar eru að meika það sem filmstjörnur eða poppstjörnur í útlöndum. Nýjasta íslenska stjarnan er hrúturinn Punkin en hann á stjörnuleik í þessu myndbandi á Youtube. Punkin er eins og íslenska þjóðarsálin í dag, hann lætur ekkert ráðskast með sig og reka sig áfram af hundum og mönnum. Punkin létur engan smalahund reka sig áfram. Hann ráðskast hins vegar með hundinn og hundurinn hrökklast undan honum.
En meira um smala og smalalög. Ég held að það sé viðeigandi að skíra þá ríkisstjórn sem hrökklaðist frá völdum á Íslandi núna nýverið Sirkus Geira smart eftir eftir samnefndu lagi sem Spilverk þjóðann gerði frægt um árið. Það er gaman að hlusta á það smalalag núna og bera saman við þá tíma sem voru á Íslandi á tímum Geira smart.
Hér er textinn til að raula með:
Sirkus Geira smart
Þeir ráku féð í réttirnar í fyrsta og annan flokk.
Kílóið af súpukjöti hækkaði í dag.
Og verðið sem var leyft í gær
er okkar verð að morgni
- nýjar vörur daglega!
Þér finnst þú þurfa jakka og tvenna sigtúnsskó
nýju fötin keisarans frá Karnabæ og co.
Fötin skapa manninn
eða viltu vera púkó
- Nei, ekki ég!
Við í sirkus Geira Smart
trúum því að hvítt sé svart
og bíðum eftir næstu frakt (í buxnadrakt).
Mölkúlur og ryðvörn er það sem koma skal
(húrra, húrra, húrraaaa!!)
Innleggið á himnum, hvað varðar þig um það?
Útvarpsmessan glymur
meðan jólalambið stynur
- nýjar vörur daglega!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2009 | 11:07
yfir 13 milljarðar í glanshús
Eftir hrunið þá höfum við litið hvert á annað og spurt - Hvernig gat þetta gerst, af hverju vissum við ekkert, hvernig vorum við blekkt? Við höfum bent á marga sökudólga, við höfum bent á hvernig umræðan var í þjóðfélaginu og hve lítilsvirt og fótum troðið lýðræðið er í landinu. Við höfum séð að þeir sem áttu að veita aðhald eins og fjölmiðlar og stjórnarandstaða gerðu það ekki, fjölmiðlar brugðust okkur, þeir voru enda í eigu þeirra sem köstuðu á milli sín fjöreggi íslensku þjóðarinnar.
En hvernig er ástandið núna? Er hér upplýst þjóð sem veit hvaða skuldbindingar eru á hana lagðar og sem gagnrýnir og fylgist með hvað er að gerast? Eru hér ábyrgir fjölmiðlar sem kafa ofan í málin og segja okkur kost og löst á þeim valkostum sem við stöndum frammi fyrir og sem segja okkur satt og rétt frá og án þess að sjónarhorn þeirra sé brenglað og þeir tísti af fagurgala tl þess sem hefur valdið hverju sinni?
Við getum svarað þessari spurningu mjög auðveldlega með því að greina hve fyrirsögnin er þegar 13. milljarðar af fé Íslendinga eru bundnir í einni byggingu, í einu musteri og minnisvarða og grafreit yfir þá tíma þar sem blekkingarhula lagðist yfir Ísland og við vorum ginnt og blekkt til að taka ekki eftir að siðblindir og gráðugir menn knúnir áfram af eiginhagsmunum og gróðahvöt tóku yfir Ísland.
Fyrirsögnin í Morgunblaðinu núna er ekki að nú sé verið að binda 13 milljarða í einu húsi, fyrirsögnin er "Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús". Það er engin rýni á það hvers vegna þessi ákvörðun var tekin eða gagnrýni á hana, núna kóar fjölmiðillinn Morgunblaðið með stjórnvöldum á sama hátt og fjölmiðlar kóuðu með útrásarvíkingum og lofsungu þá á sinni tíð.
13 milljarðar er mikið fé fyrir gjaldþrota þjóð. Hvaðan á það fé að koma? Er eitt glanshús í miðbænum virkilega besta fjárfestingin til að skapa störf á Íslandi núna? Hvers vegna eru ríki og borg ekki knúin svara og beðin að rökstyðja ítarlegar að nú eigi að halda áfram með þetta hús?
Er í lagi að stjórnvöld skuldbindi okkur svona með einu pennastriki? Vitum við hverjir valkostirnir eru? Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Og hvers vegna er þessi blekking að þetta hús verði bara tímabundið í eigu ríkis og borgar, hver í ósköpunum ætti að vilja kaupa þetta hús? Eða stendur til að eyða morðfjár af fé sem við eigum ekki en verðum að taka að láni í að byggja glanshús til að gefa það svo einhvern tíma í framtíðinni til einhverra aðila í nýrr einkavinavæðingu?
![]() |
Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.2.2009 | 01:42
Framsókn í Reykjavík Norður
Það er gleðilegt að nýr formaður okkar Framsóknarmanna Sigmundur Davíð hefur núna lýst því yfir opinberlega að hann bjóði sig fram í Reykjavík norður. Hann reyndar lýsti því yfir á aukakjördæmisþingi okkar um síðustu helgi að hann myndi bjóða sig fram í þessu kjördæmi en svo hef ég verið að sjá á einhverjum netsíðum vangaveltur um að hann hyggðist fara í framboð annars staðar og var orðin hrædd um að framboð hans í Reykjavík gengi ekki eftir.
Þó að Framsóknarmenn séu fjölmennir um allt land þá eru langflestir hérna á höfuðborgarsvæðinu og það er nauðsynlegt fyrir endurreisn Framsóknarflokksins að koma upp öflugu flokksstarfi hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka þannig að Sigmundur Davíð hefur sérþekkingu á mörgu sem eru aðkallandi vandamál hér á höfuðborgarsvæðinu, hér varð fjárhagslega hrunið mest, hér búa flestir þeirra sem störfuðu í banka- og fjármálakerfinu og hér eru skipulagsmálin og uppbygging nýss borgarsamfélags í sátt við landsbyggðina hvað brýnust.
Það verður spennandi að sjá tillögu forvalsnefndar um lista í Reykjavíkurkjördæmum. Á aukakjördæmisþingi um síðustu helgi lagði ég fram tillögu um lokað prófkjör meðal flokksmanna en stjórn kjördæmasambandsins lagði fram tillögu um uppstillingu og talaði Sigmundur Davíð fyrir þeirri tillögu. Mín tillaga var felld í kosningum og ákveðið að skipa forvalsnefnd sem á að leggja til lista fyrir lok mánaðarins. Prófkjör eru svo sannarlega með mikla galla og geta sundrað fólki og ef mikil auglýsingamennska er í kringum þau og prófkjörsreglur litlar þá geta þau snúist upp í hömlulausar atkvæðaveiðar og atkvæðasmalanir sem hafa ekkert með lýðræði að gera.
En mér fannst mikilvægt að fram kæmi tillaga um einhvers konar form þannig að almennir flokksmenn hefðu eitthvað að segja um hvernig listinn ætti að líta út og ég þekki enga leið aðra en einhvers konar prófkjör. Tillagan um lokað prófkjör sem ég lagði fram var með alls konar fyrirvörum og ákvæðum m.a. um kynjasjónarmið þannig að kynjahlutfallið á endanlegum lista yrði sem jafnast. Það er þekkt að í prófkjörum hallar mjög á konur. Prófkjör hafa líka þann annmarka að sumir geta ekki hugsað sér að taka þátt í prófkjöri og reyndar skil ég það, það hafa fáir tök á því að taka sér frí frá vinnu í langan tíma, fyrst í kostnaðarsama prófkjörsbaráttu sem fólk greiðir úr eigin vasa og svo í kosningabaráttu flokka. En það má alveg sníða þessa vankanta af prófkjöri m.a. með að setja hámark á hverju frambjóðendur mega eyða og reglur um siðferði og hvernig má auglýsa.
En það verður sem sagt farið sú leið að stilla upp lista. Tíminn mun leiða í ljós hvort það var góð leið. En aðalatriðið í Framsóknarflokknum sem og öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi er að byggja upp starfið innanfrá, að byggja upp hreyfingu þar sem lýðræði virkar og þar sem óbreyttir félagsmenn hafa möguleika á að taka þátt í mótun samfélagsins gegnum stjórnmálaöfl og á þá er hlustað.
Í dag sótti ég svokallað heimskaffi um lýðræði, hvernig væri hægt að auka lýðræði á Íslandi. Þetta var mjög skemmtilegt, eiginlega ætti svona starfsemi að fara núna fram innan stjórnmálaflokka. Við erum á leið inn í þátttökusamfélag,samfélag sem líkist meira hinum margsamanvafna bloggsamfélagi heldur en einstefnu útvarpsmiðlum, samfélag sem komið er langt frá hinu línulega og ósveigjanlega prentsamfélagi.
Ég held að stjórnmálaöfl á Íslandi verði að breytast og muni breytast. En breytingarnar verða að ná inn í flokkana, að innsta kjarna flokksstarfsins og það þarf að taka upp ný og breytt vinnubrögð. Það er ekki nóg að punta lista með nýju fólki og það er hættulegt tómahljóð í kosningum þar sem stillt er upp á listum fjölmiðlastjörnum, poppurum og lukkuriddurum sem hafa valið sér flokka og kjördæmi skömmu fyrir kosningar í von um að fljóta ofan á straumnum inn í þingsali. Það er hins vegar von okkar allra sem látum okkur stjórnmál varða að atburðir síðustu mánaða hafi hrærst við öllum og fengið allt hugsandi fólk til að skilja og skynja að stjórnmál eru á ábyrgð okkar allra og ef við tökum ekki þátt og lýsum skoðun okkar og miðlum af þekkingu okkar þá er sú hætta að stjórnmálaflokkar verði handbendi aðila sem vilja ráðskast með fjöregg þjóða eins og sína einkaeign og kasta þeim á milli sín og brjóta og týna.
Það er mikilvægt að fleiri komi að ákvörðunum í samfélaginu, að upplýsingaflæði sé meira og betra og að þolað sé að það sé ekki bara ein rödd og ekki bara ein skoðun. Það er minni hætta á því að tekin sé kolröng ákvörðun ef hlustað er á sem flest sjónarmið.
Núna er forvalsnefndin búin að auglýsa eftir framboðum, best að bjóða sig fram, ég hvet sem flesta sem styðja Framsóknarflokkinn og vilja vinna að uppbyggingu á Íslandi að gefa kost á sér. Þegar hafa þrír ágætir karlmenn lýst því yfir að þeir sækist eftir fyrsta sæti á lista í Reykjavík, það er formaður okkar Sigmundur Davíð og þeir Hallur Magnússon og Einar Skúlason.
Ég sækist náttúrulega eftir sem efstu sæti.
En hér er auglýsingin frá Forvalsnefndinni
Framboð í Reykjavík
Forvalsnefnd Framsóknarflokksins í Reykjavík auglýsir eftir frambjóðendum á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður vegna alþingiskosninganna 25. apríl 2009.
Þeir sem gefa kost á sér skulu tilkynna það til forvalsnefndar fyrir kl. 12 miðvikudaginn 25. febrúar 2009 með tölvupósti á netfangið reykjavik@framsokn.is eða skriflega á skrifstofu Framsóknarflokksins, Hverfisgötu 33, 101 Reykjavík.
Forvalsnefnd Framsóknarflokksins í Reykjavík
![]() |
Sigmundur Davíð býður sig fram í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2009 | 11:19
Ólafur F. var óhæfur borgarstjóri og hann er arfavondur borgarfulltrúi
Ólafur F. Magnússon er kjörinn fulltrúi Reykvíkinga í borgarstjórn og það ber að virða það. Hann er líka viðkvæmur hugsjónamaður og áhugamaður um gömul hús og flugvelli. En hann var alltaf gjörsamlega óhæfur í að vera borgarstjóri í Reykjavík, það þurfti ekki annað en að hafa fylgst í fjarlægð með ferli hans í stjórnmálum og hvernig honum lynti við annað fólk til að geta spáð fyrir hvernig fara myndi. Einnig er kjörfylgi Ólafs svo lítið að það var í hæsta máta óeðlilegt að hann yrði borgarstjóri. Það getur blessast í sumum tilvikum að maður sem hefur lítinn hluta kjósenda á bak við sig sé í oddvitastöðu en þar þarf sérstaka mannkosti í það, mannkosti sem Ólafi F. Magnússyni eru ekki gefnir.
Ólafur F. er eyland, honum tekst ekki einu sinni að halda friðinn við sína nánustu samstarfsmenn og nægir hér að nefna hvernig hann hegðaði sér við varamann sinn Margréti Sverrisdóttur og aðstoðarmann sinn Ólöfu Guðný Valdimarsdóttur svo aðeins séu nefnd tvö dæmi af mörgum. Það segir sína sögu að þegar ljóst var að Ólafur F. myndi þurfa að hrökklast úr borgarstjórastóli þá komu boð frá Ólafi F. í gegnum Þorleif hjá Vinstri grænum um að Ólafur F. væri tilbúinn að segja sig úr borgarstjórn svo varamaðurinn Margrét Sverrisdóttir kæmist að og vinstri stjórn yrði áfram þá varaði Margrét við því og tók ekki mark á þeim orðum Ólafs F.
Það var átakanlegt ástand í Reykjavík í borgarstjórnartíð Ólafs F. og það var mikill ábyrgðarhluti hjá meirihluta Sjálfstæðismanna að setja í borgarstjórastól mann með eins skerta dómgreind og mikla lyndisbresti og Ólaf F. Magnússon. Það var hlutskipti Framsóknarmanna undir forustu Óskars Bergssonar að koma þá til borginni bjargar og það með þeim eina raunhæfa valkosti sem þá var í stöðunni - að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.
Fyrir þetta kann Ólafur F. Magnússon Framsóknarmönnum litlar þakkir og hefur hann nú umhverfst svo að hann sér púka í hornum allra herbergja þar sem hann heldur að Framsóknarmenn komi saman. Ólafur F. hefur ekki gott minni ef hann er búinn að gleyma því að það voru ekki Framsóknarmenn sem sviku hann, það voru Sjálfstæðismenn sem hæddu hann og smánuðu í eina tíð á landsfundi og það voru Sjálfstæðismenn sem studdu hann til að vera borgarstjóri í Reykjavík og það voru þeir hinir sömu sem sviku samkomulag við hann. Ekki Framsóknarmenn.
Ólafur F. var svo slæmur borgarstjóri að því lýsa engin orð sem viðeigandi er að nota hér á þessu bloggi en málið er að Ólafur F. er líka arfaslæmur borgarfulltrúi og gengur núna eins konar berserksgang í borgarkerfinu og það skrýtið að sjá svokallaða fjölmiðla og marga stjórnmálamenn kóa með honum og leyna almenning þeim raunveruleika sem blasir við hverjum manni sem lendir í návígi við Ólaf F. Magnússon. Eru fjölmiðlar til að segja okkur sannleikann eða eru þeir til að taka þátt í að viðhalda blekkingu?
Annars hef ég orðið fyrir barðinu á Ólafi F. eins og margir aðrir. Þannig hefur mér verið sagt að tvo síðustu borgarstjórnarfundi hafi hann gert mig að umtalsefni á fundum borgarstjórnar og það mun vera vegna þess að Ólafi F. líkaði ekki að ég tjáði mig í Kastljósi sjónvarpsins um hversu óhæfur hann hefði verið til að vera borgarstjóri. Ólafur F. lætur sér það ekki nægja heldur mætir hann sérstaklega á fund Mannréttindaráðs til að leggja fram eftirfarandi (tekið úr birtri fundargerð Mannréttindaráðs):
2. Áheyrnarfulltrúi F-lista, Ólafur F. Magnússon, leggur fram eftirfarandi fyrirspurn.
Í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins um sl. áramót kom fram sem álitsgjafi Salvör Gissurardóttir sem iðkar bloggskrif á netinu og situr í mannréttindaráði Reykjavíkur. Hún er annar tveggja fulltrúa Framsóknarflokksins í ráðinu. Í Kastljósþættinum áðurnefnda fullyrti Salvör Gissurardóttir, að allir sem hefðu fylgst með ferli mínum hafi vitað að ég hafi verið gersamlega óhæfur til að vera borgarstjóri. Því er spurt hvort það stangist á við siðareglur kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar og tilgang mannréttindastefnu borgarinnar að Salvör Gissurardóttir hafi uppi ærumeiðandi fullyrðingar um störf mín í borgarstjórn Reykjavíkur án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt.
Af hverju segja fjölmiðlar ekki sannleikann um hvernig Ólafur F. hegðar sér í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar?
![]() |
Ólafur F.: Framsóknarvæðing í borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
19.2.2009 | 01:41
Klakahöllin
Fokhelda ráðstefnu- og tónlistarhúsið gnæfir yfir Reykjavík og er orðið táknmynd kreppunnar og líka táknmynd þeirrar heimssýndar sem hér ríkti fyrir hrunið. Svona Versalir Íslands. Annars... það er áhugavert að skoða hvaða myndir við drögum upp í huganum af því sem gerðist. Við köllum það hrun, við köllum það kreppu, við líkjum því við strand, tölum um skip á strandstað.
Myndin sem við drögum upp litar svo hvernig við lítum á aðstæður og hvaða úrræði við sjáum. Heimspressan dregur upp mynd af ástandinu á Íslandi sem tákni um það sem er að gerast alls staðar - allt er frosið fast. Stjórnvöld alls staðar reynda að bræða einhverja hreyfingu í kerfið en jafnframt loka þau fyrir alla strauma sem þau geta. Það verða þau að gera vegna þess að það er krafa frá almenningi, krafa sem á Íslandi endurspeglast í því að kaupa innlendar vörur og tryggja fólki hér atvinnu. En til þess að við getum selt ál og fisk þá verður fólk í útlöndum að geta keypt ál og fisk. Og það gerir það ekki nema einhver kaupi af því þær vörur sem þar eru framleiddar.
Viðskiptakerfi heimsins var stórgallað en það var samt kerfi sem var miklu betur búið til að tryggja flæði heldur en stjórnsýslukerfi og stjórnvöld sem hafa haft meira hlutverk hingað til í því að hefta flæði.
Hinn risavaxni kreppuminnisvarði sem nú er kallað Tónlistar- og ráðstefnuhúsið mun sennilega alltaf hafa merkingu í huga Reykvíkinga sem tengist því ástandi og umróti sem er núna. Húsið mun örugglega fá nafn sem minnir á þessa tíma, ekki opinbert nafn heldur nafn sem allir þekkja húsið af. Mér finnst að við ættum að leggja í púkk hugmyndir um nöfn, ég sting sjálf upp á því að húsið verði kallað Klakahöllin og er nafnið sótt í fræga sögu eftir Tarjei Vesaas.
Mér finnst Klakahöllin svo fallegt nafn, minnir á tímann þar sem allt fraus fast og á það völundarhús frostheima sem við villtumst í og svo finnst mér glerhjúpurinn frá Kína vera eins og frostið sem lagðist yfir Ísland, eins konar álög. Ég vona að þessi glerhjúpur verði settur upp, hann er mikið listaverk og merking hans hefur breyst, nú er hann frostið sem við finnum inn í okkur. Ég er hins vegar nokkuð sannfærð um að glerhjúpurinn verður skotspónn þeirra sem ekki eru sáttir við þessa byggingu og á þeim tímum sem núna eru á Íslandi myndi ég ekki setja upp neinn glerhjúp utan á umdeilt hús nema úr gleri sem þolir steinkast og að vera lamið að utan. hér er kynning á glerhjúpnum
Ég er ekki viss um að þetta hús verði notað undir það sem upphaflega er ætlunin. En þannig er um mörg hús. Stjórnarráð Íslands er í húsi sem var byggt sem fangelsi, listasafn Reykjavíkur er í hafnarhúsi sem var pakkhús við höfnina, listasafn Íslands er í húsi sem var byggt við Tjörnina til að sækja ís til að frysta fisk. Það að auki þá finnst mér áformuð notkun á þessu húsi, þau not sem eru kynnt á vefnum portusgroup.is vera þannig að þetta hús verður ekki hús alþýðunnar, þetta verður hús elítunnar þar sem almenningur hefur ekkert erindi og verður kannski ekki velkominn. Ef ráðist verður í að halda áfram með þetta hús þá vildi ég sjá að þetta væri hús sem venjulegt fólk á Íslandi ætti erindi í og gæti notið þessarar frábæru staðsetningar. Reyndar hentar þetta hús best sem eins konar musteri. Það var reyndar byggt sem musteri og minnisvarði um eina heimssýn, það er byggt til að horfa út á sjó, það er byggt á útrásardraumum. Það er byggt á sömu heimssýn og lagið sem öllum íslenskum börnum er kennt eins og dýr fjársjóður og menningarverðmæti,lagið um soninn sem telur sig eiga að fá skaffaðar góðar græjur til að geta haldið út í heiminn og slátrað fólki sem er fyrir honum. Svona hljómar sá söngur:
það mælti mín móðir
að mér skyldi gefa
fley og fagrar árar
Standa fyrir stafni
stýra dýrum knerri
halda svo til hafnar
höggva mann og annan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2009 | 13:18
Reykjavík og Ísland - Dubai Norðursins?
Kalifornia er nær gjaldþrota, mörg ríki sem áður höfðu mikið fé eru núna í kröggum. Allir þekkja hvernig ástandið er á Íslandi.
Dorritt forsetafrú vill að Ísland verði svalari útgáfa af Dubai
Hún var í viðtali við Sunday Times nýlega og þetta var haft eftir henni þar:
Blaðið segir að hún vonist eftir að unnt verði gera landið að sælureit fyrir viðskiptavini sem eru góðu vanir, eilítið svalari útgáfu af Dubai, með fisk og hveri í stað sandsins. Fram kemur að hún hafi rekist á yfirgefinn flugvöll hér og vonist til að geta breytt honum í geymslur fyrir listasöfn sem fólk gæti komið og skoðað. Hún er sögð vera að vinna að þessum áformum í félagi við góða vinkonu sína, Francesca von Habsburg.
Ég er ekki sammála forsetafrúnni um Dubai, ég vil ekki að Reykjavík verði svalari útgáfa af Dubai
Það er engin hugfró í að öðrum gangi verr en Íslendingum en það má draga af því lærdóm og reyna að skilja hvað er að gerast. Ástandið er mjög alvarlegt víða í Bandaríkjunum, sérstaklega í Kaliforníu þar sem heilt fylki er að fara á hausinn.
Ástandið er að sögn skelfilegt núna í Dubai, fólk yfirgefur borginni með því að keyra bílana sína út á flugvöll og skilja þá eftir með bíllyklinum í, þetta er stundum gert í ofboði því fólk af erlendum uppruna vill ekki taka áhættu að lenda í skuldafangelsi heimamanna.
Hér er ansi harðorð grein frá goodbye dubai ( smashing telly!) sem lýsir Dubai sem holum og hjáróma gerviheimi, eins konar ríkramanna time-share þar sem fólki er selt líferni eins og verið sé að selja því steikarhnífa.
Dubai is a place for the shallow and fickle. Tabloid celebrities and worn out sports stars are sponsored by swollen faced, botox injected, perma-tanned European property developers to encourage the type of people who are impressed by fame itself, rather than what originated it, to inhabit pastiche Mediterranean villas on fake islands. Its a grotesquely leveraged version of time-share where people are sold a life in the same way as being peddled a set of steak knives. Funny shaped towers smatter empty neighborhoods, based on designs with unsubtle, eye-catching envelopes but bland floor plans and churned out by the dozen by anonymous minions in brand name architects offices and signed by the boss, unseen, as they fly through the door. This architecture, a three dimensional solidified version of a synthesized musical jingle, consists of ever more preposterous gimmickry - an underwater, revolving, white leather fuck pad or a marina skyscraper with a product placement name that would normally only appeal to teenage boys, such as the preposterous Michael Schumacher World Champion Tower.
But if there is one problem with the shallow and the fickle, its that they are shallow and fickle, they wont put down deep roots and they wont remain loyal to Dubai.
![]() |
Kalifornía nær gjaldþrota |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.2.2009 | 09:56
Alkul er nýja kreppuorðið
Alkul er á öðrum tungumálum Absolute zero, orð sem er notað fyrir algjört núll.
Alkul á nokkrum tungumálum:
Alkul
Absolut nulpunkt
Absoluter Nullpunkt
Absolute zero
Zéro absolu
Zero assoluto
Zero bezwzględne
Det absolutte nullpunkt
Bókin um fröken Smillu sem kunni svo vel að lesa í snjóinn hefur líka mismunandi titil eftir tungumálum. Hér eru nokkrir.
Smilla's Sense of Snow
Fröken Smillas känsla för snö
FRÖKEN SMILLAS FORNEMMELSE FOR SNE
Lesið í snjóinn
Fräulein Smillas Gespür für Schnee
Sakamálasagan er bókmenntir nútímans og ef til vill er samfélagsrýni sú sem þar er meira nærri lagi en sú sem við fáum úr pressunni og ljósvakamiðlum sem sjá ekki vatnið sem þeir synda í- vatn sem kannski er ekkert vatn heldur helkuldi og íshella sem drepur allt kvikt. Sakamálasagan um glæpinn mikla spinnst áfram á Íslandi en það er samt ekki ljóst hver glæpurinn er þaðan af síður hverjir sökudólgarnir eru. Ef til vill mun það ekki koma í ljós fyrr en þessarri manngerðu ísöld linnir og einhverjir sérfræðingar munu í framtíðinni ráða í teiknin sem koma í ljós þegar jökullinn hopar.
En það eru átta ár síðan ég skrifaði blogg um snjólestur fröken Smillu, ritdóm um bók sem ég las aldrei, bara byrjaði á. Ef til vill er lausnin á gátunni í þeirri bók líka sakbending fyrir Ísland og hrunið hérna, alveg eins og bókin Karlar sem hata konur
Hér er bloggið um bókina sem ég las aldrei:
19.7.01
( 12:21 PM ) Salvor Gissurardottir
Lesið í snjóinn í júlí
Nýtt tímabil er hafið í lífi mínu. Tímabil það sem allt er í röð og reglu, hlutirnir á sínum stað og ég skila bókum á bókasöfn. Þetta hófst allt með því að ég skilaði hljóðbókum á Blindrabókasafnið. Þær bækur hef ég haft undir höndum í næstum eitt ár og voru þó ekki teknar út í mínu nafni. Ég ætlaði bara alltaf að hlusta á sögurnar til enda áður en ég skilaði. Önnur hljóðbókin var Atburðir við vatn og hin var sakamálasagan Lesið í snjóinn eftir danska höfundinn Peter Høeg. Um þá bók segir:
"...mens civilisationskritikken i samtidsromanen Frøken Smillas fornemmelse for sne (1992) kredser om forskellen mellem verdensbilleder. Ved at udstyre sin centrale figur med en dobbelt kulturel baggrund skildrer Høeg Danmark som et administrations- og overvågningssamfund."
Ég hef margoft reynt að halda áfram að hlusta á söguna af ferð hinnar grænlensku Smillu út á heimskautaísinn þar sem ég endaði í september síðastliðnum en það gengur ekki. Úr því að ég get ekki hugsað til þess að hlusta á þessa sögu án þess að yfir mig hellist myrkur, skelfing og ískuldi þótt um hásumar sé þá verð ég víst bara að lifa með því að vita ekki hvað beið hennar á landinu kalda. Atburðir við vatn verða líka alltaf bara kyrralífsmynd í huga mínum, ekki saga. Skrýtið samt að ég skuli hafa byrjað að hlusta á tvær sakamálasögur á þessum tíma og báðar bera þær titil sem sóttur er til vatns - held reyndar að sakamálasögur og sú hugfróun sem menn sækja í þær sé tengd hinni eilífu og vonlausu baráttu mannanna við að sigrast á dauðanum - að þeir geti með tækni sinni, ráðkænsku og snilld fundið lykilinn að lífinu.
![]() |
Alkul í bílasölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2009 | 09:46
15 þúsund atvinnulausir en aðrir að drukkna í yfirvinnu
Í nútímasamfélagi fer stór hluti af sjálfsmynd margra eftir starfi. Við tökum ef til vill ekki eftir því nema þegar við skiptum um starf. Flestir hafa undanfarin ár verið í því hlutskipti að þegar þeir skipta um starf þá er farið í betra starf, starf sem þeir fengu vegna þess að þeir stóðu sig vel í fyrra starfi og öfluðu sér starfsreynslu. Það er hins vegar einn hópur sem hefur fundið fyrir því hvernig er að hverfa úr starfi með þeirri breytingu á ímynd sem það hefur í för með sér. Það eru þeir sem láta af störfum vegna aldurs. Núna stefnir hins vegar allt í fjöldaatvinnuleysi, miklu verra ástand en nú er og það eru margir atvinnulausir og án vonar um atvinnu í bráð.
Þau úrræði sem samfélagið hefur passa ekki við þetta ástand. Það passar ekki að bjóða atvinnulausum núna upp á einhver úrræði sem fela í sér að þetta sé tímabundið ástand. Það er verið að kýla niður stóran hóp fólks og segja við það með beinum og óbeinum hætti. Þetta er fáránlegt ástand í svona litlu samfélagi. Það er eina vitræna, skynsamlega og manneskjulega leiðin að deila vinnunni og minnka gjána sem núna er milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem hafa ekki vinnu.
Það eru nokkrar aðferðir til að dreifa þeirri vinnu sem nú er unnin í samfélaginu. Stór hluti af þessari vinnu er unnin hjá opinberum stofnunum, starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga eða aðilum sem vinna fyrir þau. Það ættu því að vera hæg heimatökin fyrir opinbera aðila að koma að þessu máli og gera tillögur og reyna að hrinda í framkvæmd einhverri áætlun.
Ein skynsamlegasta leiðin er stytting vinnuvikunnar - eða alla vega bjóða starfsfólki upp á það. Önnur aðferð er að bjóða þeim sem eru að nálgast starfslokaaldur upp á rýmkun á reglum þ.e. svo þeir geti dregið úr vinnu eða hætt fyrr að vinna. Ennþá önnur aðferð er að bjóða ófaglærðu fólki námsleyfi, það er aðferð sem hefur t.d. verið reynt íSvíþjóð, þar bauðst starfsfólki að sækja um ársleyfi til endurmenntunar og starfsmenntunar gegn því að maður á atvinnuleysisskrá leysti það af.
það hefur verið við lýði vinnualkasamfélag á Íslandi. Fólk er ekki búið að taka við sér og sjá hvað það kerfi passar ömurlega illa við þær aðstæður sem við erum í í dag, við verðum að deila vinnunni og afkomunni. Það er eina skynsamlega leiðin. Það er líka betra út frá velferð fjölskyldna og það sem er almikilvægast er að ef einum hópi er stillt upp við vegg og hann er útskúfaður frá þátttöku í samfélaginu, þeirri þátttöku sem þú færð gegnum að vera í starfi á vinnumarkaði þá er hætta á mikilli ólgu og ringulreið.
Ef hins vegar allir skynja og skilja að það er vilji þeirra sem með völdin fara að jafna byrðarnar og deila gæðum samfélagsins - á réttlátan hátt og þar með að deila vinnunni og búa ekki til vinnandi stétt og ekki-vinnandi-stétt þá munu samtvinnaðir kraftar samfélagsins vinna að því að bæta ástandið, ekki gera það verra.
![]() |
Sjálfstæðið tekið af mér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |